Færslusöfn

Anaxímandros frá Míletos

eftir Þorstein Gylfason

Eitt glæsilegasta kvæði á íslenzku frá okkar dögum er eftir Hannes Pétursson og fjallar um pólska stjarnfræðinginn Kóperníkus sem

hjó þessa jörð af feyskinni rót og henti
sem litlum steini langt út í myrkur og tóm.

Nú skyldi enginn ætla að ég vilji gera lítið úr afreki Kóperníkusar. Ég vil ekki heldur gera lítið úr kvæði Hannesar með því að fara að þvarga við hann út af því að Kóperníkus hafi alls ekki hent jörðinni út í tómið. Hún var í myrku tómi þegar Kóperníkus kom til skjalanna, og hann gerði ekki annað en að flytja hana til í tóminu, úr miðju sólkerfisins og úr áeina af hringbrautum þess. Ég hef orð á kvæði Hannesar vegna þess eins að þar er komizt fágætlega vel að orði, en vísu um afrek annars manns en Kóperníkusar. Afrekið sem Hannes vegsamar var unnið í fornöld. Það var Anaxímandros frá Míletos sem vann það. Hann hjó jörðina af öllum rótum, hvort heldur feysknum eða ófeysknum, og fleygði henni út í tómið og lét hana svífa þar óstudda. Með þessu tiltæki bjó hann það til sem við köllum stjörnufræði, og með því að segja svolítið meira um stöðu jarðarinnar í tóminu bjó hann til eðlisfræðina líka.

Kóperníkus skrifaði aldrei um annað en stjörnur og sól. Anaxímandros virðist hafa haft brennandi áhuga á öllum hlutum. Hann kenndi meðal annars að lífið hefði hafizt í sjónum, og að menn væru komnir af fiskum. Þessu trúum við eins og sakir standa, og höfum gert í meira en hundrað ár hér á Vesturlöndum eftir nokkra mæðu. Þegar því var fyrst haldið fram á síðustu öld, einkanlega af Charles Darwin, að lífið hefði hafizt og síðan þróazt með þessum hætti þá varð allt vitlaust. Hugmyndin þótti fráleit, og stórhættuleg bæði trú og siðferði. Engum datt annað í hug framan af, að ég bezt veit, en að hugmyndin væri ný. En þá var hún svona ævagömul. Hún kviknaði strax í árdaga vísindalegrar hugsunar. Og með henni varð það til sem við köllum lífræði. Anaxímandrosi eru eignuð margvísleg afrek önnur en þessi. Eina heimspekisagan sem við eigum úr fornöld er Heimspekingaævir eftir Díógenes Laertíos. Þar er stuttur kafli um Anaxímandros, og í þeim kafla segir að hann hafi fyrstur manna fundið upp sólsprota til að mæla hæð og stefnu sólarinnar, tímamæli, landakort og stjörnuhnött.1 Það er óvíst hvað þetta er áreiðanleikur fróðleikur. Til dæmis segir Heródótos sagnritari að sólsprotinn hafi borizt til Grikklands frá Babýlon,2 og enn ein heimild segir að Anaxímandros hafi flutt sólsprotann til Grikklands.3 Reyndar sýnir kaflinn um Anaxímandros vel hvaðHeimspekingaævir geta orðið óáreiðanlegar, því að þegar kemur að kenningum Anaxímandrosar ruglar Díógenes honum alveg saman við Anaxagóras sem var miklu yngri höfundur og af allt öðru sauðahúsi.

En við vitum alveg nóg um Anaxímandros til að geta sagt það fortakslaust að þar sem hann fór hafi farið einhver ágætasti afreksmaður í allri sögu mannsandans. Þess vegna væri gaman að geta botnað eitthvað í honum. Hvernig hugsaði hann? Við hvaða gátur var hann að glíma? Hvernig fór hann að því að glíma við þær?

II

 

Frumherjar grískrar heimspeki eru heillandi efni en að sama skapi erfitt viðfangs. Helzti vandinn er sá að heimildir okkar eru allar í brotum, enda eru þær aldrei kallaðar annað en brot. Brot frumherjanna – Die Fragmente der Vorsokratiker – heitir frægasta útgáfa á því litla sem við höfum í höndunum um þá.4 Brotin eru stuttar glefsur frá ýmsum tímum, ýmist ófullkomnar tilvitnanir í rit sem frumherjarnir sjálfir eiga að hafa skrifað eða ummæli yngri höfunda um kenningar þeirra. Anaxímandros er sagður hafa samið eina bók með heitinu Um náttúruna, og úr henni höfum við ekki nema fáorða klausu sem er þó oft kölluð „stóra brotið“ því að hin brotin fjögur sem honum eru eignuð í Brotum frumherjanna eru svo ógnarsmá vexti.

Við þessum arfi er svo hægt að bregðast á ýmsa vegu. Ein leiðin er sú sem allur þorri sérfræðinga um frumherjana virðist fara. Þá er rýnt í orðlag á heimildum af fræðilegri smásmygli, og oftar en ekki í þeim endanlega tilgangi að sýna fram á að allar kenningar sem miður nákvæmir höfundar hafa haft um frumherjanna standast ekki í ljósi hinnar ýtrustu nákvæmni um einstök atriði. Þannig megi til að mynda ekki með neinu móti eigna Anaxímandrosi neinar hugmyndir um óendanleikann þó svo að það hafi Aristóteles gert þegar í fornöld. Það væri tíma­skekkja vegna þess að skýrar hugmyndir um óendanleikann hafi ekki komið til sögunnar fyrr en með þeim Melissosi og Zenóni, lærisveinum Parmenídesar, sem voru uppi löngu á eftir honum.5 Lærdómsrit af þessu tæi umfrumherjanna er The Presocratic Philosophers eftir G.S. Kirk og J.E. Raven, sennilega langbezta rit sinnar tegundar og fullt af ævintýralegum fróðleik um orðalagið á einstökum heimildum og margt fleira.

Ég get ekki stillt mig um að fara fáeinum almennum orðum um fræðimennsku af þessu tæi. Hún hefur á sér yfirbragð hinnar ábyggilegustu nákvæmni, og hún er orðin til fyrir gífurlega elju og yfirsýn yfir ótölulegan sæg af smáatriðum. Og þegar þetta mikla eljuverk hefur verið unnið verður freistandi að trúa því að þar með vitum við allt sem verði vitað um efnið, og jafnvel allt sem máli skiptir um það. En sannleikurinn er auðvitað sá að það er engan veginn sjálfgefið að jafnvel virðingarverðasta smásmygli leiði allt í ljós sem verði vitað, og þaðan af síður að við séum fyrir tilverknað hennar hóti nær um neitt sem skiptir máli. Tökum aftur dæmi af óendanleikanum. Segjum að það sé hægt, þótt það sé í rauninni alls ekki hægt,að rökstyðja það með nákvæmum tilvísunum í fjörtíu brot úr heimildum að hugmyndir um óendanleikann hafi ekki verið orðnar skýrar fyrr en á dögum Zenóns.6 Það er engan veginn sjálfgefið að af þessu megi draga þá ályktun að Anaxímandros hafi ekki haft neina hugmynd um óendanleikann. Því hvers vegna skyldi hann ekki hafa verið á undan sinni samtíð í þessu efni eins og mörgum öðrum, og jafnvel langt á undan henni? Ekki segjum við að hann hafi ekki getað haft þróunarkenningu um lífið. Við finnum ekki upp á nýjum þýðingum á heimildunum um það efni, á þeim forsendum að þróunarkenningar hafi ekki komið til sögunnar fyrr en 2500 árum síðar.

Úr þessari litlu athugasemd um óendanleikann má svo vinna á ýmsar lundir og halda í ýmsar áttir. Við eigum kost á ýtrustu nákvæmni í handritarannsóknum og handritaútgáfum, en það er eins víst að ekkert af því sem þannig er leitt í ljós segi okkur neitt sem máli skiptir um Snorra-Eddu eða Víga-Glúms sögu. Allar ályktanir af hinum nákvæma lærdómi, eða í nafni hans eða í anda hans, geta verið ámóta brigðular og það sem við ályktum án hans, og jafnvel brigðulli ef út í það er farið. Með þessum orðum er ekki ætlun mín að gera lítið úr nákvæmri fræðimennsku – ég ber djúpa virðingu fyrir henni – heldur aðeins að vara fólk við því að einblína á hana og telja hana allsherjarlausn á öllum vanda um viðfangsefni eins og íslenzkar miðaldabókmenntir eða frumherjanna grísku. Það er nær að líta á þessa fræðimennsku sem ómissandi hjálpartæki við tilraunir til að afla vitneskju, og gera það sem máli skiptir. Og á endanum skiptir það eitt máli að reyna að skilja hlutina og setja þá í samhengi.

Tveir af nafnkunnustu heimspekingum tuttugustu aldar – þeir Martin Heidegger og Karl Popper – hafa sýnt frumherjunum grísku mikinn áhuga og skrifað um þá merkilegt og á köflum innblásið mál.7 Hvorugur skeytir mikið um viðtekin smásmyglisfræði um þá. Heidegger ræðst jafnvel fífldjarfur inn á eitt meginsvið nákvæmnisfræðanna og hefur þar endaskipti á öllum hlutum: hann veltir sér upp úr orðsifjum og varpar fram hverri furðulegri orðskýringunni á fætur annarri. Hann hefur náttúrlega sætt miklu ámæli málfræðinga fyrir þessar sakir, og ber sig þó karlmannlega. Popper ræðst gegn þeim Kirk og Raven og þeirra líkum fyrir skynsemislausa smásmygli sem sér ekkert stórt og fagurt í kenningum höfunda Anaxímandrosar eða Herakleitosar. Kirk hefur svarað fyrir sig, og fengið heldur harða kveðju frá Popper á móti.8

Ég vil ekki taka afstöðu í þessum deilum, því mér virðist augljóst að báðir deiluaðilar hafi á réttu að standa svo langt sem sjónarmið þeirra ná. Nákvæmnislærdómurinn verðum við að hafa og hann sem allra beztan, en þegar hann er fenginn er annað eftir: að sjá það sem er stórt og fagurt í viðfangsefninu. Og til þess hrekkur hin smásæja fræðimennska engan veginn hvernig sem hún er toguð og teygð. Til þess þarf andríki eins og það sem Popper hefur til að bera, eða þó ekki sé nema sérvizku eins og Heiddegger hefur meira en nóg af.

Nú er ég því miður enginn maður til þess gagnvart Anaxímandrosi að fara í för þeirra Heideggers og Poppers um andríki eða sérvizku. En mig langar samt til að reyna að líta á hann í dálítið öðru ljósi en til dæmis Kirk og Raven gera, og gert er líka í þremur íslenzkum ritum þar sem hann kemur við sögu: í Sögu mannsandanseftir Ágúst H. Bjarnason, Heimsmynd á hverfandi hveli eftir Þorstein Vilhjálmsson og í ritgerðinni „Frumherjar grískrar heimspeki“ eftir Patriciu Curd og Eyjólf Kjalar Emilsson í nýrri bók sem heitir Grikkland ár og síð.9 Af þessum íslenzku ritum er aðeins hið síðastnefnda samið í nafni nútíma fræðimennsku. Þeir Ágúst og Þorsteinn eru ekki sérfræðingar í frumherjunum þótt kaflar þeirra umþá séu raunar alveg ágætir svo langt sem þeir ná.

III

 

Anaxímandros átti sér aðeins einn fyrirrennara í sögu heimspekinnar og vísindanna svo vitað sé, Þales í Míletos sem sumir segja að hafi verið kennari hans. Aðrir segja að það sé ekkert að marka þá sögn, og ekki hina heldur að Anaxímenes hafi verið nemandi Anaxímandrosar. Um Þales vitum við ósköp lítið. Hann er sagður hafa kennt að vatn væri upphaf eða jafnvel frumefni allra hluta. Hvers vegna skyldi hann hafa haldið þessu fram? Það vitum við ekki. Kannski vegna þess að hann hafi tekið eftir því að vatn getur breyzt í stóra jurt – það gerist fyrir augunum á okkur í hverri dagstofu þar sem blóm vaxa í pottum – og hvers vegna skyldi vatn þá ekki breytast í hvað annað sem er? Svo á hann að hafa haldið því fram að jörðin væri kringla sem flyti á vatni. Hann á hafa sagt fyrir um sólmyrkva, og svo er okkur hermt að hann hafi fórnað uxa fyrir sönnun sem hann fann á setningu í flatarmálsfræði, þeirri að horn innritað í hálfhring sé rétt horn.10

Mér hefur af einhverjum ástæðum alltaf þótt síðasti vitnisburðurinn vera merkilegastur.11 Flestum þykir hann merkilegur fyrir að nefna flatarmálsfræði, og tengja hann þá við fróðleik úr öðrum heimildum að Þales hafi fært flatarmálsfræðina til Grikklands frá Egyptalandi.12 Mér þótti hann á hinn bóginn lengi vel vera umhugsunarverðastur fyrir fórnina þótt ég hafi engan höfund lesið sem veiti henni neina athygli: það viðhorf til lífsins að uppgötvun í flatarmálsfræði beri að þakka með stórri fórn. Hvað mundu margir lesenda minna vera til í að fórna bílnum sínum fyrir slíka uppgötvun? En svo skipti ég um skoðun. Nú þykist ég sjá að merkilegasta orðið í þessu broti um Þales er ekki „flatarmálsfræði“ og ekki „fórn“ heldur „sönnun“. Hann fann sönnun: það er að segja hann gerði uppgötvun og studdi hana rökum, og meira að segja traustum rökum ef við gefum okkur að sönnunin hafi verið ströng. Þess má geta að Kirk og Raven efast um að Þales hafi fundið neinar sannanir, heldur hafi hann í mesti lagi gert einhverjar mælingar. Rökin fyrir efasemdunum eru þau að eftirmenn hans í Míletos, Anaxímandros og Anaxímenes hafi ekki fengizt við stærðfræði og þar með sé ekki trúlegt að hann hafi gert það heldur í neinni alvöru.13 Aðrir – eins og Guthrie í hinni miklu öndvegissögu grískrar heimspeki – velta vöngum yfir hvað „sönnun“ geti merkt margvíslega hluti í grískri stærðfræði á ýmsum tímum.14 Þessar efasemdar nákvæmnismanna eru bersýnilega ekki vitund skárri en traustið á heimildinni um það sem máli skiptir: hann gerði uppgötvun og studdi hana rökum, hver svo sem þau rök voru og hvort sem þau voru ströng í skilningi síðari tíma stærðfræði eða ekki.

Hann fann sönnun. Hér stöndum við frammi fyrir einu af mestu afrekum hins forngríska anda: það sem einkum greinir gríska stærðfræði frá allri annarri stærðfræði eru sannanir. Og þegar Pýþagóras kemur til sögunnar í kjölfarið á Míletosmönnunum Þalesi, Anaxímandrosi og Anaxímenesi verða stærðfræðilegar sannanir að háleitri köllun sem ekkert lát er á í vísindum Vesturlanda til þessa dags þegar mörg þúsund setningar eru sannaðar á ári hverju, og sumum þeirra fagnað í fjölmiðlum ef ekki með blóðfórnum. Það er fyrst og fremst vegna sannananna sem Hardy hefur eftir Littlewood – en þeir eru í hópi merkustu stærðfræðinga þessarar aldar – að forngrískir stærðfræðingar séu ekki aðeins eins og „greindir skólastrákar“ í fræðum sínum heldur eins og „kennarar við annan háskóla“.15 En ég ætla ekki að dvelja mikið við stærðfræðilegar sannanir hér þótt gaman væri að því. Það sem máli skiptir er að Þales fann sönnun, og jafnvel sannanir samkvæmt sumum heimildum, og frá mínu sjónarmiði þessa stundina skiptir það mestu um sannanir að sannanir eru rök hvers eðlis svo sem þær eru í einstökum tæknilegum atriðum. Við spyrjum af hverju við eigum að trúa Pýþagórasareglu, og þá fáum við svar í formi raka fyrir því að reglan sé rétt, og raunar að hún geti ekki verið annað en rétt.

Og nú vil ég ganga að því vísu að kenningar bæði Þalesar og Anaximandrosar um önnur efni en greina stærðfræði hafi verið eins og stærðfræðin að því leyti að þær hafi verið rökstuddar kenningar. Því miður vitum við ekki nóg um vatnskenningu Þalesar til að geta getið okkur til um rökin fyrir henni. Við vitum til dæmis ekki hvort hann veitti því athygli að vatn sem við vökvum jurt með hlýtur að breytast í blóm. En þótt við vitum líka lítið um Anaxímandros held ég að við vitum nóg til þess að geta að minnsta kosti skemmt okkur við að gera okkur til að um rök hans fyrir sumum kenningum sínum.

Byrjum á hugmyndinni um að jörðin svífi óstudd á geimnum. Áður hafði Þales kennt að jörðin flyti á vatni. Aristóteles tengdi þessa kenningu við kenninguna um vatnið sem afl eða efni allra hluta, hvernig í ósköpunum sem það er nú hugsað hjá honum.16 En Aristóteles gerir aðra athugasemd um það að fljóti á vatni. „Eins og vatnið þurfi þá ekki aðra undirstöðu!“ segir hann.17 Með öðrum orðum: kenning Þalesar um jörðina býður því heim sem nú heitir vítaruna.

Sú saga lifir á Harvardháskóla að seint á síðustu öld hafi William James verið að halda þar fyrirlestra fyrir almenning um heimspeki, og í einum þeirra hafi hann verið að útlista vítarunurök eins og þau að Guð geti ekki talizt skapari heimsins á þeim forsendum að einhver hljóti aðhafa skapað heiminn, vegna þess að svarið „Guð“ við spurningunni „Hver skapaði Guð?“ og þannig áfram endalaust. James bar þessa röð af sköpurum saman við indverska sögn um að jörðin hvíldi á baki fjögurra fíla sem aftur stæðu á baki risavaxinnar skjaldböku og skjaldbakan á ég man ekki hverju, og þannig endalaust. Þá á gömul frú í salnum að hafa rétt upp höndina og sagt: „Prófessorinn hefur á röngu að standa. Veröldin er byggð á bjargi.“ James spurði: „Á hverju stendur bjargið?“ Gamla frúin svaraði: „Bjargið nær alla leið niður.“18

Nú er afskaplega freistandi að geta sér þess til að Anaxímandros hafi komið auga á vítaruna sem kenning Þalesar – og goðafæðinnar ef út í það er farið – kallaði á. Ef jörðin þarf vatn til að hvíla á þá þarf vatnið eitthvað annað eins og hafsbotninn, og hafsbotninn síðan eitthvað enn annað og þannig áfram endalaust. Aristóteles fer með það sem fullkomlega sjálfsagðan hlut að kenning Þalesar veki þennan vanda, og hvers vegna skyldi Anaxímandros ekki hafa orðið fyrstur til að koma auga á þennan sjálfsagða hlut?

Við höfum ágæta ástæða til að eigna Anaxímandrosi þessa hugsun. Hugsunin er ekki bara góð og gild röksemd gegn kenningu Þalesar, og þar með ástæða til að hafna þessari kenningu og setja aðra í staðinn, heldur er hún líka stofn í röksemd fyrir nýrri kenningu. Því það er auðvitað sama hvaða stoð við setjum í staðinn fyrir vatnið: við fáum alltaf vítarunu. Þess vegna hefur jörðin yfirhöfuð alls enga stoð. Hún svífur í lausu lofti.

Við þessa hugsun bætir Anaxímandros svo merkilegri athugun. Hann spyr hvers vegna jörðin falli ekki úr því að ekkert heldur henni uppi. Svarið er að hún sé í miðju geimsins og hafi þar með enga ástæðu til að falla til einnar áttar fremur en annarrar.19 Á þessu svari eru margar hliðar. Ein er sú að hér virðist búa að baki sú hugsun að upp og niður séu afstæðar hugmyndir en ekki algildar. Þegar yfirborði jarðar sleppir er ekkert til sem heitir upp og niður, hvað þá alla leið niður eins og hjá gömlu frúnni á Harvard. Þetta er merkilegt meðal annars vegna þess að hugmyndir um afstæði og algildi áttu eftir að leika mikið hlutverk í grískri heimspeki eftir daga Anaxímandrosar, til dæmis hjá Herakleitosi, Demókrítosi og Platóni, auk þess sem þær eru fyrirferðarmiklar á okkar dögum bæði í hinni háfleygustu eðlisfræði og í hversdagslegustu hugmyndum okkar um gott og illt og rétt og rangt. Annað er að her er komin hugmynd um kerfi himinhnatta í náttúrlegu jafnvægi. Popper tekur mikið upp í sig um hana og segir að hér sé heimskerfi Newtons að fæðast og lastar Aristóteles fyrir vanskilning á henni.20 Hið þriðja er að hér höfum við vísi að lögmáli hinnar einhlítu ástæðu eins og það heitir í heimspeki síðari alda, og þar með að hugmyndum okkar um orsakalögmál. Allar þessar hugmyndir valda því að við getum sagt með góðri samvizku að Anaxímandros sé hinn sanni upphafsmaður eðlisfræðinnar auk stjörnufræðinnar.

IV

 

Næst skulum við hyggja í stuttu máli að þeirri að þeirri kenningu Anaxímandrosar sem hann var kannski frægastur fyrir í fornöld, kenningunni um apeiron eða ómælið. Þales kenndi að upphaf, afl eða efni allra hluta væri vatn, og eftirmaður Anaxímandrosar Anaxímenes hélt fram loftinu. Með tilliti til þessara kenninga um vatn og loft hefði mátt búast við að Anaxímandros héldi fram annaðhvort eldi eða jörð úr því að hann þurfti endilega að vera öðruvísi en hinir tveir. En hann tekur kost af allt öðru tæi og nefnir til svo órætt afl eða efni að menn deila um það til þessa dags jafnvel hvað orðið „apeiron“ merkir hjá honum, og þá náttúrlega ekki síður hver hugsunin hafi verið í kenningunni í heild.21 Í hversdaglegri grísku merkja orðin „to apeiron“ nánast „hið óafmarkaða“ eða „hið ótakmarkaða“, með þeim afleiðingum að Aristóteles lagði það að jöfnu við óendanleikann eins og fram er komið.22

Nú gæti ég reynt að veita yfirlit yfir ólíkar kenningar fræðimanna um eðli ómælisins, og síðan að taka afstöðu til þeirra með hæfilegum tilburðum. En ég vil heldur reyna að nálgast efnið úr annarri átt. Við höfum séð á kenningu Anaxímandrosar um jörðina að það má líta á hann sem rökvís­legan hugsuð með afbrigðum, hvort heldur hann er að gagnrýna hugmyndir kennara síns eða setja fram nýja kenningu í þeirra stað. Og hann er róttækur hugsuður líka: það er ekki nóg með að hann hafni einni stoð undir jörðinni heldur sér hann að það er ekkert vit í hugmyndum um neinar stoðir. Burt með þær allar, þó svo það kosti jafn djarfa tilgátu og þá að jörðin, með fjöllum sínum og höfum, svífi eins og fugl eða fis. Hann hugsar bara upp nýstárlegar hugmyndir og jafnvel lögmál um ástæður til falls og jafnvægi kerfa til að styrkja tilgátuna frekar.

Nú skulum við láta hana fara að með áþekkum hætti gagnvart hugmyndum um upptök alls, um frumafl eða frumefni allra hluta. Segjum að Þales hafi trúað því að vatn sé efnið í öllum hlutum eins og það er bersýnilega efnið í að minnsta kosti sumum jurtum. Þá verður vatn að geta tekið á sig eiginleika allra hluta, til að mynda elds. En það virðist fráleitt: eldur og vatn eru ósamrýman­legar andstæður. Blautur eldur og logandi vatn eru ekki til og jafnvel óhugsandi. Svo að ef til er eitthvert eitt frumefni þá verður það að vera eitthvað annað en vatn, og eitthvað annað en eldur ef út í það er farið. En hvað? Loftið, eins og hjá Anaxímenesi? Getur það ekki verið bæði blautt og logandi? Kannski. En getur það þá verið fast frekar en laust í sér þannig að grjót sé í rauninni loft eða orðið til af lofti?

Gagnvart slíkum spurningum virðist mér freistandi að hugsa sér að Anaxímandros hafi leikið næstum sama leikinn og hann lék gagnvart stoðum jarðarinnar.23 Hann hafnaði þeim ekki vegna þess að þær væru ekki nógu traustar, eða að hugmyndirnar um þær ekki nógu skýrar. Hann hafnaði þeim sem stoðum en ekki sem ófullnægjandi stoðum. Grikkir kunnu ágæt skil á byggingum og siglingum eins og allir vita. Hversdagsleg reynsla af byggingu húsa og siglingu skipa virðist segja skýrt og skorinort að ekkert hangi uppi án stoða. En samt hafnaði Anaxímandros sjálfri hugmyndinni um stoð. Og með áþekkum hæti virðist hann geta farið að hugmyndinni um efnislegt upphaf hlutanna. Hann hefur það fyrir sér að efnislegir hlutir hafa allir andstæða eiginleika, eru blautir og þurrir, heitir og kaldir, og svo breytast þeir jafnt og þétt með þeim hætti að einn andstæður eiginleiki víkur fyrir öðrum: þeir blotna og þorna, hitna og kólna. En það sem hitnar og kólnar eins og sverð þarf ekki að geta blotnað og þornað eins og svampur. Og ef það á eitthvað að vera sem geti heitið upptök alls þessa þá getur það ekki verið efnislegur hlutur af sama tæi og allir hinir. Því það má þá ekki hafa neina eiginleika sem útiloka aðra útiloka eins og efnislegir hlutir hafa. Ef það hefði slíka eiginleika þá gæti það ekki tekið við öllum andstæðum eiginleikum, og þar með gæti það ekki orðið að öllum hlutum eins og því er ætlað að verða. Anaxímandros kallaði þessi upptök án eiginleika ómælið, „to apeiron“.

Ein aðferðin til að geta sér til um rökvísi frumherjanna er að hyggja að því hvernig yngri höfundar sem við höfum fyllri heimildir um hugsuðu um sömu efni. Þess vegna held ég að það væri þarft verk að rýna í hugmynd Aristótelesar um ómælið sem óendanleika. Þetta er einmitt það sem við gerðum þegar við hugðum að hugmyndinni um stoðir jarðarinnar. Við sáum að Aristóteles afgreiðir hugmynd Þalesar um að jörðin fljóti á sjónum með vítarunurökum, og létum okkur þá detta í hug að Anaxímandros hefði gert það líka og sáum að með þeirri einföldu tilgátu má sjá fullt vit í því hvernig hans eigin kenning verður til á rústum hinnar. Og eins má kannski hafa stuðning af brotum Herakleitosar um afstæði og algildi – þau eru dálítið fyllri en allt sem við vitum um Míletosmenn – við að reyna að átta sig á hvað Anaxímandros hefði getað hugsað um upp og niður. Það má jafnvel hafa stuðning af eindakenningu Demókrítosar, tildæmis þeirri kenningu hans að frumeindirnar hafi enga annarlega eiginleika eins og lit eða lykt heldur aðeins frumlega eiginleika eins og lögun og hraða, í því skyni að átta sig á ómæliskenningu Anaxímandrosar.24 Með þessu á ég auðvitað ekki við að við eigum að reyna að eigna elztu heimspekingum sem mest af því sem yngra er, heldur einungis að við höfum hinnar yngri og fyllri heimildir til leiðsagnar í getgátum okkar um hvernig til dæmis Míletosmenn hefðu getað hugsað það sem þeir eru taldir hafa sagt.

Platón er ásamt Aristótelesi fyllsta heimild sem við höfum um forna heimspeki þó svo að hann hirði næstum aldrei um að fræða okkur um hana sérstaklega – þessi sagði þetta og hinn sagði hitt – eins og Aristóteles gerir jafnt og þétt. Stundum er deginum ljósara að Platón er að segja frá gamalli kenningu án þess hann láti nokkurs höfundar getið, hvað þá heimildar. Þannig virðist Faídón eftir Platón vera barmafullur af stefjum úr heimspeki frumherjanna; til dæmis úr Pýþagagórasarfræðum, án þess að Pýþagóras sé nefndur á nafn, eða þá úr Anaxagóras sem er endursagður þar með nafni og gagnrýndur í alllöngu máli. Og þar er Sókrates látinn lýsa sinni eigin kenningu um jörðina og stöðu hennar með þessum orðum:

ég tel, að sé jörðin hnöttur í miðju himnanna, þurfi hún hvorki loft né neina sambærilega stoð til að verjast falli. Hún þarf þess eins við, að himnarnir séu sömu lögunar til allra átta og hún sjálf í jafnvægi. Því hlutur í jafnvægi ímiðjum einslaga geymi getur með engu móti hneigzt meira til einnar áttar fremur en annarrar; hann mun haldast í kyrrstöðu og hallast hvergi.25

Þetta er auðvitað ekkert annað en hin gamla kenning Anaxímandrosar, að því einu frátöldu að samkvæmt sumum heimildum taldi Anaxímandrosar jörðina ekki vera hnött heldur bumbu.

Ein af helztu röksemdufærslum Platóns í Faídóni virðist mér bera þó nokkur merki Anaxí­mandrosar.26 Þar eru sett fram tvö lögmál – sem við getum kallað svo þótt Platón geri það ekki – um alla breytingu: andstæðulögmál sem segir að öll breyting sé í því fólgin að eiginleiki víki fyrir andstæðum eiginleika eins og væta fyrir þurrki þegar hlutur þornar eða vaka fyrir svefni þegar maður sofnar, og mótvægislögmál sem segir að sérhverri breytingu til einnar áttar samsvari önnur til hinnar, eins og að blotna samsvarar því að þorna og að vakna því að sofna. Og rökin fyrir mótvægislögmálinu eru þau að án þess mundi heimurinn ekki varðveitast í fjölbreytni sinni heldur líða undir lok. Ástæðurnar til þess að tengja þessar hugmyndir í Faídóni við Anaxímandros eru þær að hann hafði næstum örugglega, fyrstur grískra hugsuða, skýra hugmynd umbreytingar sem átök andstæðna27 – en þetta er hugmynd sem fylgdi grískri heimspeki lengi og háði henni nokkuð þegar fram í sótti frá okkar sjónarmiði – og svo þær að stóra brotið eftir hann kveður á um varðveizlu heimsins í jafnvægi. Þar er kominn fyrsti vísir að varðveizlulögmáli í vísindum. Vísindin á okkar dögum eru sem kunnugt er morandi í varðveizlulögmálum eins og til dæmis orkulögmál­inu eða lögmálinu um varðveizlu skriðþungans í aflfræðinni.

Brotið sjálft segir að vísu ekki annað en að

það sem allir hlutir verða til af hlýtur óhjákvæmilega einnig að vera það sem þeir tortímast í. Því eftir því sem tíminn skipar þeim niður gjalda þeir hver öðrum refsingu og bætur fyrir misgjörðir sínar.28

En þegar þetta brot er sett í samhengi annarra brota, eftir Anaxímandros og um hann, virðist óhætt að segja að þarna sé varðveizluhugmyndin, og meira segja líka einhver vísir að hugmynd um náttúrulögmál í skáldlegu máli brotsins (eins og heimildin í brotinu kallar það) um refsingar og bætur fyrir dómstóli tímans. Líkinguna um refsingar og bætur ber að sjálfsögðu að skilja í ljósi hugmyndarinnar um andstæður sem ávallt verða að víkja hver fyrir annarri. Við þetta bætist svo það að varðveizluhugmyndin um náttúruna í heild er ekki alveg óskyld jafnvægishugmyndinni um jörðina í miðjum geimnum.

En þetta er ekki það eina sem máli skiptir úr mótvægisrökunum í Faídóni fyrir leik ímyndunarinnar í kringum Anaxímandros. Platón lætur Sókratesnota lögmálin tvö um breytingar til að leiða í ljós ódauðleika sálarinnar, eða lífsandans eins og kannski væri nær að segja hér því að Platón tekur fram að sú sál sem er að hugsa um í þessu samhengi sé sameiginleg öllum mönnum, dýrum og jurtum. Átök andstæðnanna í náttúrunni krefjast þess að verurnar í henni – jurtir,dýr og fólk – deyi og lifni. Ég verð lík og rotna en af því kviknar gróður á gröfunni:

Nautgæfa fóðurgrasið grær á leiði móður þinnar þjáðu

orti Jónas Hallgrímsson til aðhugga fylgismann Hegels sem misst hafði móður sína, og Hannes Pétursson hefur ort annað framúrskarandi kvæði um sama efni þar sem segir umþá sem hvíla í kirkjugarði:

og þeir sem annars einskis fá að njóta eiga þess kost umsumarlanga tíð við fuglasöng að seytla upp eftir trjánum.

Og af einhverri slíkri hringrás frá lífi til dauða og aftur til lífs vill Platón draga þá ályktun að til sé ódauðlegt lífsafl.29 „En lífið lifir,“ segir Knut Hamsun.

Auðvitað er lítill vandi að gagnrýna þessa ályktun, bæði í þeim sérstaka búningi endur­holdgunartrúar sem hún hefur hjá Platóni og eins í mörgum öðrum sem við gætum reynt að búa henni til að betrumbæta Platón. En hugsunin er einföld og snjöll: það verður að vera eitthvert afl sem sjálft er hvorki lifandi né dautt – og má þess vegna heita ódauðlegt – sem viðheldur þeirri náttúru sem ýmist lifir eða deyr án afláts. Og þetta er óneitanlega býsna áþekk hugsun þeirri sem freistandi er að eigna Anaxímandrosi um ómælið ef við reynum, eins og ég er að reyna, að átta okkur á rökvísinni í hugsun hans, nema hvað ómælið er allsherjarafl en ekki bara lífsandi eða lífsafl. Svo getum við gengið lengra ef við kærum okkur um og getið þess til að í ómælis­kenningunni sé fólgin ekki bara ein rótin að eindakenningu Demókrítosar, sem er kannski frægust allra fornra kenninga á síðari öldum, heldur líka ein rótin að sálarhugmynd Platóns, og þar með kristinsdómsins og kannski okkar allra hér á Vesturlöndum hvort sem við teljum okkur kristin eða ekki.

V

 

Loks skulum við hyggja lauslega að þróunarkenningu Anaxímandrosar. Var hann að yrkja eins og Simplikíos segir að hann hafi verið að gera þegar hann gerði tímann að dómara yfir hlutunum umbætur og refsingar? Eða var hann að spauga eins og við þegar við köllum fólk þorska á þurru landi? Eða getum við reynt aðgreina einhverja rökvísi í hugmynd hans um uppruna lífsins í hafinu og mannsins meðal fiska?30

Reyndar getum við það meðléttum leik á grundvelli yngri heimilda. Hugsunin virðist haf verið sú – jafn einföld og hún er snjöll – að okkur sé óhætt að gera ráð fyrir því að hinir fyrstu menn hafi orðið til með sama hætti og menn verða til enn í dag. Auðvitað ekki af mönnum því að þá væru þeir ekki hinir fyrstu menn, auk þess sem við viljum enga vítarunu hér fremur en í kenningum okkar um stoðir jarðarinnar og hljótum því að ganga að því vísu að einhvern tímann hafi hinir fyrstu menn verið til. En ef þeir urðu til með sama hætti og við, og hvítvoðungar eru eins og allir vita ósjálfbjarga og það meira að segja lengi framan af ævinni. Með þessu móti hefði mannkynið aldrei komizt á legg. Þess vegna verðum við að gera ráð fyrir að hinir fyrstu menn hafi orðið til af dýrum sem gátu annazt þá þangað til þeir gátu séð um sig sjálfir.

En hvers vegna hófst lífið í vatni og hvers vegna urðu fiskar fyrir valinu sem forfeður manna? Þessum spurningum getum við því miður ekki svarað. Kannski var það meðal annars reist á þeirri hugsun að allt sem lifir krefst fyrst og fremst vatns. Við höfum einavísbendingu um fiskana hjá Plútarkosi sagnfræðingi: þar er sú athugun eignuð Anaxímandrosi að háfurinn ali afkvæmi sín með einmitt þeim hætti sem mundi hæfa hinum fyrstu mönnum ágætlega.31 Ég get ekki að því gert að ég greini sama handbragðið á þessari röksemdafærslu og hinum. Eitt er að vítaruna kemur ofurlítið við sögu eins og í stjörnufræðinni. Annað er það að hér er alhæft af skemmtilegri dirfsku: ekki um allar stoðir jarðarinnar eins og í stjörnufræðinni eða allar efnislegar orsakir hlutanna eins og í efnafræðinni, heldur einfaldlega um alla menn: þeir fæðast allir sem hvít­voðungar, og þar með líka hinir fyrstu menn. Og svo er sýnt fram á að alhæfingin hafi fráleitar afleiðingar: það er engin stoð í stoðunum, það getur ekkert orðið til, mannkynið deyr út um leið og það verður til. Og svo kemur öldungis nýstárleg og framandleg kenning til að leysa gátuna: um jafnvægi í stað stoða, um ómæli í stað efnis og um uppruna mannsins meðal fiska í sjónum.

VI

 

Nú virðist mér það blasa við að það sem er stórt og fagurt í þeim hugmyndum Anaxímandrosar sem ég hef verið að lýsa sé ekki efni hugmyndanna heldur aðferðin sem hann hefur við að komast að þeim. Það er rökvísin. Þessi rökvísi er enginn reikningur eftir forskriftum, heldur er hún skáldlegur leikur andans sem er jafn ferskur hvenær sem við hugleiðum hann. Svo er eins og ég sagði ákveðið handbragð á þessari skáldlegu rökvísi, eins og er á tónsmíðum Mozarts eða kvæðum Jónasar Hallgrímssonar. Við getum sagt á tilteknum stöðum: „Hana nú! Nú er hann kominn í essið sitt. Tvö kostulega samsett orð eins og „nautgæfur“ og „fóðurgras“, meira að segja hlið við hlið í ljóðlínu.“ Þegar svona maður kemst í essið sitt þá er það því miður eitthvað sem ekkert okkar hinna getur leikið eftir honum. En það má samt reyna að læra eitthvað af því.

Þegar ég segi að rökvísin – hin skáldlega rökvísi – sé það sem sé stórt og fagurt hjá Anaxímandrosi – ég gæti reyndar bætt því við að sama máli gegni um alla frumherjana – þá er ég öðrum þræði að afneita því að það sé merkilegast við hann, eða yfirhöfuð merkilegt við hann, að hann skuli til dæmis hafa hugsað upp þróunarkenningu um lífið 2500 árum á undan Darwin. Það eru rökin sem eru merkileg en ekki inntak kenningarinnar. Í þeim er snilld hans fólgin en ekki í hinu að hafa hitt á að segja eitthvað sem allt annar maður átti eftir að segja 2500 árum síðar. Mér hefði verið alveg sama þótt hann hefði haldið því fram að mannkynið væri upprunnið á tunglinu, bara ef hann hefði rökstutt þá hugmynd með jafn einföldum og snjöllum hætti og hann hafði á þegar hann rökstuddi sína.

Ég sé ekki betur en að þetta mat mitt á Anaxímandrosi og hinum frumherjunum gangi þvert gegn því sem algengast er á bókum. Og meira að segja að mörgu leyti. Mig langar til að víkja að einu atriði. Það er mjög algengt og freistandi viðfangsefni að reyna að auðkenna hina elztu heimspeki eða hin elztu vísindi í heild. Þá er það auðvitað gjarnan gert í ljósi einhverra fyrirframsjónarmiða þess sem um fjallar. Þannig fæst til dæmis Karl Popper við frumherjana með sínar eigin kenningar um vísindin og vísindalega aðferð að leiðarljósi. Hann notar þá meðal annars til að berja á raunhyggju í náttúruvísindum nútímans sem hann hatast við. Anaxímandros og Hera­kleitos verða fóstbræður þeirra fjölmörgu náttúruvísindamanna sem starfa í anda Poppers á okkar dögum. En ég hef ekkert að athuga við þessa aðferð Poppers: hún er alveg eins og hún á að vera. En þar með er ekki sagt að allt sem gert er í sama anda sé eins og það á að vera, og allra sízt þegar þeir sem gera það vita ekki almennilega af því hvað þeir eru að gera.

Þorsteinn Vilhjálmsson skrifar ágætt mál um frumherjana í hinu mikla riti sínu Heimsmynd á hverfanda hveli. Þar segir á einum stað:

Veigamesta framlag Míletos-skólans til vísinda og fræða er yfirleitt talið vera fólgið í skynsemishyggjunni eða skynsemistrúnni sem birtist í þessum hugmyndum: Þar er hvergi vísað til guðs eða annarra yfirnáttúrlegra afla til að útskýra neitt af því sem við er að fást.32

Það er alveg rétt hjá Þorsteini að þetta er það sem yfirleitt er talið, og það er meira að segja ein uppistaðan í ritgerð Patriciu Kenig Curd og Eyjólfs Kjalars Emilssonar um frumherjana í Grikk­land ár og síð. Allt um það þykir mér þetta bæði óskynsamleg og flatneskjuleg skoðun. Menn mega ekki halda að hún sé vitund betur undirbyggð en til að mynda leikur Poppers að efninu. Hún er alveg sama eðlis: fyrirframskoðun þeirra sem halda henni fram, sem síðan er höfð að leiðarljósi við útleggingu heimildanna. Samt er auðvitað munur. Einn er sá að þessi skoðun er andlaus og leiðinleg en skoðun Poppers andrík og skemmtileg.

Þorsteinn Vilhjálmsson notar orðin „skynsemishyggja“ og „skynsemistrú“ um þá trú að allir hlutir eigi sér náttúrlegar en ekki yfirnáttúrlegar skýringar. Þetta er kunnugleg notkun á orðunum, og samsvarandi orðum í útlendum málum, og það er ekkert við hana að athuga. Þetta er til dæmis sú notkun orðsins „skynsemistrú“ sem hefur lengi verið algengust í rökræðum um trúmál og guðfræði á Vesturlöndum. En þetta er auðvitað bara ein notkun orðsins. Orðin „skynsemishyggja“ „og rökhyggja“ eru líka heiti á heimspekilegum kenningum höfunda eins og þeirra Spinoza og Leibniz, og sömu orð eru líka nöfn á trú fólks eins og Voltaires á mátt skynseminnar eða upplýsingarinnar í veröldinni, en þessi trú er alveg óháð heimspekilegri rökhyggju enda var til dæmis Voltaire staðfastur raunhyggjumaður en ekki rökhyggjumaður í heimspekilegum skilningi.33 Og orðin tvö eru nöfn á mörgu öðru. Stundum er handhægt að hafa sérstök orð um „skynsemistrú“ í skilningi Þorsteins Vilhjálmssonar á orðinu í setningunum sem ég hafði eftir honum. Þá eru nærtækust orðin „náttúruhyggja“ og „veraldarhyggja“.

Náttúruhyggja eða veraldarhyggja er voldugt afl í hugmyndasögu 19du og 20stu aldar. Fyrsti heimspekingur sögunnar sem við getum sagt að hafi verið útfarinn náttúruhyggjumaður var David Hume á 18du öld. Hann var að sjálfsögðu jafnframt rammur trúleysingi eins og sumir samtíðarmanna hans, einkum á Frakklandi. Af styrnum sem stóð í kringum þessa karla spratt svo mikill ágreiningur milli náttúruhyggju vísindanna annars vegar og handanheimasjónarmiða trúarinnar hins vegar, eða bara milli trúar og vísinda eins og oft er sagt. Þessi árekstur er löngu orðinn að klisju í hugmyndasögu síðustu tíma. Og það er þessi klisja sem býr að baki þeirri hugsun að frumherjar grískrar heimspeki, og þar með allra vísinda síðari tíma, hafi fyrst og fremst verið náttúruhyggjumenn sem ekki trúðu á yfirnáttúrlegar skýringar.

En þetta er bara sleggjudómur. Við vitum ekki til að frumherjarnir í Míletos hafi gert neinn greinarmun á náttúrlegum og yfirnáttúrlegum öflum. Og ef þeir hefðu gert hann er aldrei að vita nema til dæmis Anaxímandros hefði sagt að ómælið væri einmitt yfirnáttúrlegt afl en ekki náttúrlegt. Hvort skyldi lífsaflið í mótvægisrökum Platóns heldur vera náttúrlegt eða yfirnáttúrlegt? Hvort er sálin hjá Platóni yfirleitt náttúrlegt afl eða yfirnáttúrlegt? Við þessum spurningum eru engin vitleg svör. Fræðimennirnir ganga bara að því vísu í einhverri vitleysu að úr því að frum­herjarnir voru heimspekingar en ekki prestar þá hljóti þeir að hafa verið náttúruhyggjumenn eða veraldarhyggjumenn. Þessir fræðimenn mættu gjarnan hugleiða að Descartes var einn helzti höfundur nútímavísinda og rammur rökhyggjumaður í flestum skilningi án þess að hann hefði neitt að athuga við yfirnáttúrlega hluti eins og Guð og sálina. Hvers vegna gæti ekki gegnt sama máli um Míletosmenn?

Það örlar sums staðar á þeirri hugsun til varnar hleypidómnum um náttúruhyggju frumherjanna að samanburður á hugmyndaheimi þeirra og hugmyndaheimi grískrar goðafræð leiði í ljós að þeir hafi aðeins trúað á náttúrleg öfl en goðafræðin auðvitað á yfirnáttúrleg.34 En það er því miður ekkert annað en einn hleypidómurinn frá því að slíkur samanburður á heimspeki og goðafræði eigi rétt á sér. Hver segir að grísk goðafræði hafi verið til þess gerð aðgefa skýringar á rás viðburðanna í náttúrunni, eins og breytingu á olíu í eld eða vatns í blóm? Það eru að vísu til þær kenningar um goðafræði að hún sé frumstæð tilraun til vísindaiðkana, en þær eru fjarri því að vera sjálfgefnar, og þær eru ekki einu sinni ýkja skynsamlegar þegar að er gáð.35 Það er ástæðulaust að rökræða þær hér í einstökum atriðum. Lesandinn sér í hendi sér hversu tortryggilegar þær eru ef hann hugleiðir nærtækari hluti eins og íslenzkar þjóðsögur af álfum, draugum og tröllum. Ekki eru þær sögur til þess gerðar að skýra rás náttúrunnar að neinu leyti. Fjöldinn allur af íslenzkum börnum er alinn upp við slíkar sögur til þessa dags. Er hætta á að þær rugli börnin í ríminu þegar þau fara að læra náttúrufræði í skóla? Nei, auðvitað ekki. Mundi það breyta miklu ef börnin tryðu sögunum? Það er næsta hæpið. Og það kann vel að vera að megnið af grískri goðafræði hafi verið alveg sama eðlis að þessu leyti. Að minnsta kosti hefur enginn leyfi til að ganga að hinu gagnstæðavísu sem sjálfsögðum hlut.

Hinn frægi fornfræðingur og heimspekingur Gregory Vlastos hefur skrifað dálítið til varnar þeirri skoðun að frumherjar heimspekinnar hafi verið náttúruhyggjumenn. Eins og hans er von og vísa hefur hann ágætt dæmi til marks um þetta. Eitt hugðarefni hinna elztu heimspekinga voru myrkvar á tungli og sól. Þales á að hafa sagt fyrir um sólmyrkva fyrstur Grikkja,hvernig sem hann fór að því, Anaxímandros varpaði fram stjarnfræðilegri skýringu á myrkvum eins og eftirmenn áttu eftir að gera með ýmsu móti þar til Anaxagóras fann réttu skýringuna á fimmtu öld. Nú eru myrkvar auðvitað teikn á himni sem freistandi er að eigna æðri máttarvöldum, og það er auðleikið fyrir Vlastos að tína til margvísleg dæmi úr grískum bókmenntum til marks um þá skoðun. Svo að hér höfum við greinilega andstæðu náttúrlegrar og yfirnáttúrlegrar skýringar.36 Ég ætla ekki að fjalla um þessa andstæðu að þessu sinni þótt hún sé þess vel verð. En jafnvel þótt við kyngjum öllu sem Vlastos hefur að segja um hana þá breytir það litlu eða engu um náttúruhyggjukenninguna í heild. Því hvers vegna skyldi það sem gildir um kenningu um sólmyrkva gilda líka um kenningar um svif jarðarinnar í miðju tómi,upphaf efnislegra hluta í óefnislegu afli eða uppruna lífsins í hafinu? Við spurningum eins og þessum á Vlastos nánast engin svör, nema ef telja skyldi mjög umdeilanlegar hugleiðingar um merkingu orðsins „fýsis“ eða „náttúra“. Náttúruhyggjukenningin um frumherjanna er ekkert nema sleggjudómur.

En ég hef ekkert að athuga við sleggjudóma sem slíka. Ég er afskaplega hrifinn af sleggjudómum Poppers um Anaxímandros og Herakleitos. En mér virðist sleggjudómurinn um náttúruhyggju eða veraldarhyggju elztu frumherjanna ekki varpa minnsta ljósi á neitt af því litla sem við vitum um þá með einhverri vissu,til dæmis ekki á jarðmiðjukenningu og ómæliskenningu Anaxímandrosar. Og hann kemur ekki að minnsta gagni við að skýra samhengi sögunnar – til dæmis samband Anaxímandrosar við Þales kennara sinn eða Pýþagóras við Anaxímandros – að svo miklu leyti sem það er hægt.

Í staðinn fyrir þennan sleggjudóm vil ég því setja annan: sá er að það sem mestu skiptir um frumherjanna í Míletos, og raunar alla þá sem yngri eru frá Pýþagórasi til Demókrítosar, sé skynsemishyggja í allt öðrum skilningi en hjá Þorsteini Vilhjálmssyni og Gregory Vlastos, nefnilega rökvísi þeirra sjálf og síðan trú þeirra sem þeir sönnuðu í verki á mátt þessarar rökvísi. Og ef við viljum skilja þá, þurfum við fyrst og fremst að reyna að grafast fyrir um rökin sem þeir færðu fyrir kenningum sínum, eða geta okkur til um þau þegar við getumekki grafið lengur, í staðinn fyrir að gera þá að nítjándu aldar náttúrufræðingum sem eru á móti prestum.

VII

 

Eitt af því sem margir hafa áhuga á um hina elztu heimspeki er hvers vegna hún varð til, og hvers vegna hún varð einmitt til á þess litla stað sem Grikkland var og er, og meðal þjóðar sem talaði grísku. Svona spurningu eru auðvitað ókleift að svara. Af hverju settu Íslendingar saman bókmenntir sínar á miðöldum? Af hverju kom annað blómaskeið í íslenzkri menningu á fyrra helmingi 20stu aldar og leið svo hjá með sömu skyndingu og það hófst? Hafði bættur efnahagur eitthvað með það að gera? Eða byltingar þjóðlífsins eins og fólksflutningarnir á mölina? Eða sjálfsstæðisbaráttan sem svo er nefnd? Eða heilsufarið og langlífið? Eða snaraukin samskipti við útlönd? Við kunnum nákvæmlega engin svör við þessum spurningum um tíma sem við þó höfum lifað að einhverju leyti sjálf. Hvernig í ósköpunum ættum við að geta svarað sams konar spurningum um löngu liðinn tíma sem hefur engu leift nema margvíslega lestum minjum hér og þar í löngu hrundum borgum?

Eitt lítið atriði finnst mér þó freistandi að nefna fólki til umhugsunar. Platón segir þá sögu í löngu máli í Lögunum að flóð hafi gengið yfir heimsbyggðina og mannfólkið flúið til fjalla. Þar bjó það á hverjum stað eftir háttum forfeðranna að hætti kýklópa hjá Hómer og hafði hvorki ráðstefnur né lög. Svo þegar flóðið rénaði lögðust ungir menn í ferðalög og komu þá til annarra kýklópa og kynntust framandlegum siðum. Af því kviknuðu svo hugmyndir hjá þeim um að breyta til heima hjá sér og siðmenning hófst í heiminum á nýjan leik.37

Það eru mörg hugleiðingarefni í þessari sögu: um flóðið, um ferðalögin, um breytingar sem forsendur siðmenningar. En ég ætla að nema staðar við aðeins eitt lítið atriði sem óvíst er að allir hafi tekið eftir í endursögn minni. Þegar Platón lýsir hinum ósiðuðu fjallabúum sækir hann orðalag sitt til Hómers. „hvorki höfðu þeir ráðstefnur né lög“. Og það sem á athygli skilda, að ég hygg, er að ráðstefnur og lög skuli fylgjast að. Hinir fornu Gyðingar þáðu lög sín af Guði: einn þeirra gekk upp á fjall og las þeim síðan boðorðið sem hann hafði fengið augliti til augliti við almættið. Forfeður okkar hér á Norðurlöndum þáðu lög sín frá forfeðrunum eins og fjallabúar Platóns. Þegar ríki var stofnað á Íslandi var ekki haldin ráðstefna til að setja lög, heldur var maður sendur til Noregs til að finna gömul og góð lög, og því eldri sem þau voru þeim mun betri þóttu þau. Þetta er reyndar algengasta aðferð við lagasetningu á Íslandi enn í dag: það eru sótt lög til Danmerkur, Noregs eða Svíþjóðar og þýdd á einhvers konar íslenzku. Bráðum verður heldur farið til Brüssel eftir lögum er að líkum lætur. En Grikkir höfðu ráðstefnur til að setja lög, og orðið „nomos“ sem merkir lög í máli þeirra merkti líka mannasetningar. Þeir gerðu því strangan greinarmun á náttúru og lögum – fýsis og nomos – og settu saman heilmikla heimspeki í kringum þennan greinarmun. Nú virðist nærtækt að geta þess til að hugmyndaheimur Grikkja kringum ráðstefnur og þar með rökræður, og lög sem menn hugsuðu upp og settu sér síðan í ljósi rökræðnanna, hafi haft eitthvað með það að gera að með tímanum tóku þeir að rökræða alla hluti en ekki bara borgarmálefni á hverjum stað, og hugsa svo upp hinar fjölbreytilegustu kenningar um þá í ljósi rökræðnanna. Kannski má varpa því fram að grísk hafi að einhverju leyti sprottið af grískum samfélagsháttum, og það hafi einkum verið rökvísin og rökræðurnar í samfélaginu sem báru þann dýrlega ávöxt sem grísk heimspeki eins og heimspeki Anaxímandrosar var og er.

Átuttugustu öld virðist skemmtunin af iðkun hinnar skáldlegu rökvísi, og ennþá heldur trúin á mátt raka í þjónustu við sannleikann og réttlætið, vera tómur barnaskapur hjá hinum fornu Grikkjum. Hvað hefur ekki blóði drifin saga okkar leitt í ljós um magnleysi skynseminnar? Eða þjóðmálaþvargið frá degi til dags? Samt kviknar þessi barnaskapur um stund í hverri kynslóð öld fram af öld hér á Vesturlöndum, og verður jafnvel að eldi. Þegar það gerist, og kannski mun oftar, er vert að minnast manna eins og Anaxímandrosar frá Míletos sem fyrstir tendruðu þann eld.38

 

Tilvísanir

1. Diogenes Laertius. Lives of Eminent Philosophers (Hick). Cambridge, Massachusetts (Harvard University Press) 1938. II,1. Þess ber kannski að geta að Anaxímandros er talinn fæddur 600 árum fyrir okkar tímatal, kannski um 610. Hann virðist hafa búið lengst af í borginni Míletos á strönd Litlu-Asíu þar sem nú er Tyrkland. Þar bjuggu Þales kennari hans og Anaxímenes nemandi hans líka.

2. Herodoti Historiarum Libri IX (Dietzsch/Kallenberg). Leipzig (Teubner) 1899 og 1901. II. Bls. 109.

3. G. S. Kirk og J. E. Raven. The Presocratic Philosophers. A Critical History with a Selection of Texts. Cambridge (Cambridge University Press) 1960. Bls. 99. Eftir Suda (Suidas) undir „Anaxímandros“.

4. Hermann Diels og Walther Kranz. Die Fragmente der Vorsokratiker I-III. Berlin (Weidmannsche Verlagsbuchhandlung) 1960-1961.

5. Kirk og Raven (op.cit.). Bls. 109.

6. J. B. Wilbur og H. J. Allen. The Worlds of the Early Greek Philosophers. Buffalo NY (Prometheus Books) 1979. Bls. 38.

7. Heidegger hefur fjallað um frumherjanna í ýmsum bókum, til dæmis Einführung in die Metaphysik. Tübingen (Max Niemeyer Verlag) 1953, Holzwege Frankfurt am Main (Vittorio Klostermann) 1957 og Vorträge und Aufsätze, Pfullingen (Neske) 1959. Í Holzwege er löng og fróðleg ritgerð um Anaxímandros – „Der Spruch des Anaximander“ – þar sem fjallað er um stórabrotið. Karl Popper hefur einkum skrifað eina fræga ritgerð um frumherjanna: „Back to the Presocratics!” í Conjectures and Refutations: The Growth of Scientific Knowledge, London (Routledge and Kegan Paul) 1963. Bls. 136-165. En hann víkur líka að þeim í öðrum ritum sínum, til dæmis The Open Society and Its Enemies I-II, London (Routledge and Kegan Paul) 1962 (fjórða útgáfa). Ég vil geta þess að fyrir utan þá Heidegger og Popper hefur samkennari minn í Háskóla Íslands, Mikael Marlies Karlsson, kennt mér heil ósköp um frumherjanna, einkum með leiftrandi fyrirlestrum sínum í námskeiði um gríska heimspeki sem við kenndum í sameiningu um árabil.

8. Karl Popper. Conjectures …. Bls. 153-165. Grein Kirks „Popper on Science and the Presocratics“ birtist í Mind 69, júlí 1960, 318-339. Mind kemur á Landsbókasafn.

9. Ágúst H. Bjarnason. Saga mannsandans III. Hellas, Reykjavík (Hlaðbúð) 1950. Bls. 144-152; Þorsteinn Vilhjálmsson. Heimsmynd á hverfandi hveli I, Reykjavík (Mál og menning) 1986. Bls. 91-121; Patricia Kenig Curd og Eyjólfur Kjalar Emilsson. „Frumherjar grískrar heimspeki“ hjá Þorsteini Þorsteinssyni (ritstjóra). Grikkland ár og síð,Reykjavík (Hið íslenzka bókmenntafélag) 1991.

10. Sjá H. Diels og W. Kranz. Die Fragmente der Vorsokratiker I, 67-76. Um flatarmálsfræðina sjá A 11 á 76 eftir Próklosi.

11. Sjá um hann W. K. C. Guthrie. A History of Greek Philosophy I, Cambridge (Cambridge University Press) 1971. Bls. 52-54.

12. Kirk og Raven. Bls. 76. Eftir Aítíosi I, 3, 1.

13. Sama rit, 84.

14. W. K. C. Guthrie (op.cit.). Bls. 53n, eftir Cohen og Drabkin. Source Book in Greek Science, 34 n. 2 og 44.

15. Godfrey Harold Hardy. Málsvörn stærðfræðings, Reykjavík (Hið íslenzka bókmenntafélag) 1972. Bls. 74.

16. Aristóteles. Frumspekin (Metaphysica) 983b21-22.

17. Aristóteles. Um himininn (De Caelo) 294a28-34.

18. Kennari minn Henry David Aiken sagði mér þessa sögu. Ég segi hana eftir minni. Önnur útgáfa af sögunni stendur í Sögu tímans eftir Stephen Hawking, Reykjavík (Hið íslenzka bókmenntafélag) 1990. Bls. 41.

19. Aristóteles. Um himininn 295b10.

20. Karl Popper. Conjectures … (op.cit). Bls. 138.

21. Sjá W. K. C. Guthrie (op.cit.). Bls. 83-89. Og Kirk and Raven (op.cit). Bls. 108-118.

22. Sjá einkum Aristóteles. Eðlisfræðin (Physica) 204b22-29

23. Þessi samanburður, hvort sem hann stenzt gagnrýni í einstökum atriðum eða ekki, er eitt af mörgu til marks um hversu afleitt það er að fjalla um „frumspeki“ frumherjanna án tillits til „heimsfræði“ þeirra. Það er þó gert hjá Patriciu Kenig Curd og Eyjólfi Kjalari Emilssyni (op.cit.) Sbr. bls. 44.

24. Skyldleikinn með eindahyggjunni og ómæliskenningunni kemur við sögu í svip hjá W. K. C. Guthrie (op.cit.) II. bindi. Bls. 394. En Guthrie reynir ekki að nota Demókrítos til að bregða ljósi á Anaxímandros.

25. Platón. Faídón 109A í Síðustu dögum Sókratesar, íslenzkum búningi eftir Sigurð Nordal og Þorstein Gylfason, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1973, 189.

26. Sjá Faídón 70-72. Op.cit. bls. 121-125.

27. G. S. Kirk og J. E. Raven (op.cit.). Bls. 119.

28. Þýðing Eyjólfs Kjalars Emilssonar í Grikklandi ár og síð, 58.

29. Þess er skylt að geta að í útleggingu minni á mótvægisrökunum í Faídóni geng ég lítið eitt lengra en bókstafur textans leyfir, enda er það óhjákvæmilegt vegna þess að eftir bókstafnum vantar hlekki í röksemdakeðjuna.

30. W. K. C. Guthrie (op.cit.). I. bindi. Bls. 101-104. Og Kirk og Raven. Bls. 141-142.

31. Plútarkos. Qestiones conviviales 730E, A30. Sjá W. K. C. Guthrie (op.cit.). I. Bindi. Bls. 102-103.

32. Þorsteinn Vilhjálmsson (op.cit.). Bls. 109.

33. Rökhyggja (rasjónalismi) er hér sú skoðun að þekking sé reist á skynsemi fremur en reynslu, en raunhyggja (empírismi) hin að reynslan sé grundvöllur þekkingarinnar.

34. Sjá til dæmis Wilbur og Allen (op.cit.) Bls. 15-19. Sjá líka Patricia Kenig Curd og Eyjólfur Kjalar Emilsson (op.cit.). Bls. 45-47.

35. Frægasta framsetning þessarar kenningar um goðfræði er hið mikla verk Sir James Frazer. The Golden Bough I-XIII, London (Macmillan) 1936-1941. Það er bæði til á Háskólasafni og Landsbókasafni. Það er líka til í styttum útgáfum. Kvæði T. S. Eliots. Eyðilandið, þýtt á íslenzku af Sverri Hólmarssyni (Reykjavík (Iðunn) 1990), er að nokkru leyti reist á hugmyndum Frazers um goðsögur, þó að kenningin um goðafræði sem frumstæð vísindi komi þar naumast við sögu. Austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein reifaði efasemdir um hugmyndir Frazers í athugasemdum sem eru prentaðar meðal annars hjá C. Grant Luckhart í Wittgenstein: Sources and Perspectives, Ithaca NY (Cornell University Press) 1978.

36. Gregory Vlastos. Plato’s Universe. Seattle (University of Washington Press) 1975. Bls. 3-22.

37. Platón. Lögin (Leges) III. Tilvitnunin í Hómer er á 680B. Hún er sótt í Odysseifskviðu IX, 112.

38. Greinin er reist á fyrirlestri með sama heiti sem fluttur var á aðalfundi Grikklandsvinafélagsins Hellas í Kornhlöðunni fimmtudaginn 10da október 1991. Vinir mínir hafa lesið handritið og bent mér á smátt og stórt sem betur mátti fara, þar á meðal þeir Eyjólfur Kjalar Emilsson heimspekingur og Reynir Axelsson stærðfræðingur.

 

« Til baka

Dyggðir að fornu og nýju

eftir Salvöru Nordal

Ef stóumaður væri spurður þess sem væri eftirsóknarverðast í lífinu og lykilinn að hamingjusömu lífi stæði ekki á svari. Hamingjan felst í því að uppræta ástríðurnar úr sálinni og öðlast stóíska ró apaþeia. Þegar sálin hefur læknast og bregst ekki lengur við utanaðkomandi áreiti með ástríðufullum hætti hefur henni tekist að stilla sig í samhljóm við náttúruna og sitt innsta eðli. Fullkomnun hins vitra manns hefur náðst. Þetta kann að hljóma ósköp einfalt en að baki þessum orðum býr tilkomumikil kenning um mannlega breytni og raunveruleg gæði í heiminum, kenning sem sumum hefur fundist öfgafull í meira lagi.

Stóumenn líktu sér oft við lækna, en í stað þess að lækna meinsemdir líkamans beindu þeir sjónum sínum að sálinni og sjúkleikum hennar. Birtingarmynd þessa sjúkleika eru ástríður á borð við ánægju, reiði, ótta, girnd eða hatur sem blossar upp í sálinni. Þessar ástríður komu ekki síst fram í harmleikjum, sem voru stóumönnum sérstaklega hugleiknir, þar sem persónur leiksins eru yfirkomnar af sterkum ástríðum og áhorfandinn hrærist með og endurupplifir þær í sínu eigin brjósti. Læknar stóuspekinnar reyndu hins vegar að koma vitinu fyrir samborgara sína og leiða þá í allan sannleikann um hamingjuna og dyggðugt líf.

En hafa kenningar stóumanna um ástríður og dyggðir eitthvað að segja okkur nútímamönnum? Í könnun Gallups á afstöðu Íslendinga nútímans um eftirsóknarverð gæði og hamingju má lesa einhvern vísi að hugmyndum þeirra um dyggðir og hverjar þeirra eru í mestum metum hjá Íslendingum. Í ljósi þeirrar staðreyndar að forn-Grikkir lögðu grunninn að dyggðakenningum eins og við þekkjum þær er ekki úr vegi að skoða viðhorf Íslendinga út frá kenningum Grikkja. Það er einkum skóli stóuspekinga sem ræddur verður hér á eftir en hann tilheyrir helleníska tímabilinu í Grikklandi (323-30 f.Kr.) og á einnig verðuga fulltrúa meðal Rómverja.

Stóuskólinn

Stóuspekin á rætur sínar að rekja til Grikklands hins forna og er upphafsmaður skólans jafnan talinn vera Zeno frá Citium, sem uppi var ca. 336-264 f.Kr. Hugmyndir stóuskólans koma því ekki fram fyrr en eftir dauða Aristótelesar og taka eins og aðrar grískar heimspekihugmyndir um margt mið af kenningum bæði Platóns og Aristótelesar. Nafn stóuskólans er dregið af marglitum súlnagöngum í Aþenu Stoa Poikile, þar sem Zeno kenndi. Lærisveinar hans, Kleanþes og Krysippos voru mikilvirkir heimspekingar og settir einkum Krysippos fram miklar kenningar á flestum sviðum heimspeki ekki síst rökfræði. Sáralítið hefur hins vegar varðveist af frumtextum þessara fyrstu stóuspekinga og hefur það áhrif á fræðaiðkun á þessu sviði.

Á miðtíma stóuspekinnar voru heimspekingar hennar undir mun meiri áhrifum frá Platóni en þeir sem á undan fóru. Síðasta blómaskeið stóuspekinnar er hins vegar meðal Rómverja á fyrstu og annarri öld eftir Krist þar sem fremstir fóru Epiktet, Seneca, Markús Árelíus og Cicero. Á þessu tímabili voru fylgjendur stóuspekinnar uppteknari af siðfræðinni en öðrum þáttum heimspekinnar. Til marks um það eruOrðræður Epiktets og Hugleiðingar Markúsar Árelíusar sem eru fyrst og fremst persónulegar hugleiðingar og vegvísar fyrir aðra til dyggðugra og betra lífs.

Heimspeki stóumanna ber skýr einkenni og er í nokkrum aðalatriðum ólík fyrirrennurum þeirra. Í augum stóumanna er heimurinn ein lifandi heild þar sem hver hlutur og lífvera hefur sína stöðu og tilgang. Þannig líktu sumir þeirra heiminum við einn stóran vef þar sem lítil hreyfing á einum stað hefur áhrif á alla heildina. Maðurinn er aðeins hluti af þessum stóra vef og verkefni hans er að finna hlutverk sitt innan heildarinnar og breyta í samræmi við náttúruna og skynsemina eins og stóumenn orða það. Þessi hugmynd um stöðu mannsins innan náttúrunnar og hluta af lífrænum heimi er mjög í ætt við hugmyndir ýmissa náttúruheimspekinga í nútímanum þar sem áhersla er lögð á að maðurinn snúi af braut drottnunar yfir heiminum en finni sér frekar sinn stað innan náttúrunnar og í samhljómi við hana.

Stóumenn voru einarðir efnishyggjumenn. Þeir töldu að allt væri efnislegt og gert að grunni til úr sama efni, pneuma.1 Efnishyggjan kemur vel fram í hugmyndum þeirra um sálina og útskýring­um á því hvernig sálrænir þættir hafa áhrif á líkamann eins og þegar efnið eða líkaminn bregst við ástríðum með því að roðna, fölna eða svitna. Með þessu móti komast stóumenn hjá ýmsum vandkvæðum sem tvíhyggja Platóns rataði í sem gerði ráð fyrir líkama og sál alls óskyldrar tegundar. Annað einkenni sálarkenningar stóumanna er sú að sálin sé að stofni til ein heild en ekki gerð úr þremur þáttum eins og til dæmis sálarkenning Platóns gerir ráð fyrir. Af þessu leiðir að í sálinni á sér ekki stað barátta milli ólíkra afla sem manneskjan ber ekki að fullu ábyrgð á. Þvert á móti tekst stóumönnum að rökstyðja ábyrgð mannsins á öllum þeim kenndum sem rísa í sálinni, hvort sem þær teljast til geðshræringa eða skynseminnar.

Baráttan gegn ástríðum

Siðfræði forn-Grikkja hefst a einni grundvallar spurningu: Hvernig ber mér að lifa lífinu? Þessi upphafsreitur setur mark sitt á það sem á eftir kemur. Spurningin er fyrst og fremst persónuleg og í raun hversdagsleg því þessarar spurningar spyrja sig allir þeir sem hugleiða líf sitt og stefnu. Kenningar þessar snúast um þroska einstaklingsins, hvernig hann geti öðlast hamingjuna og raunverulega gæði í lífinu.

Siðfræði Níkomakkosar eftir Aristóteles hefst á þeim orðum að „sérhver list og rannsókn, sérhver athöfn og val virðist stefna að einhverju góðu,“ og síðan heldur hann áfram og ályktar að hið góða sé markmið alls.2 Aristóteles kemst síðan að þeirri niðurstöðu að í hvert skipti sem við veljum eitthvað sé það í einhverjum tilgangi og að hinn endanlegi tilgangur allrar breytni okkar sé hamingjan. Líkt og lyf hefur þann tilgang að lækna fólk þá er tilgangur athafna okkar hið góða. Aristóteles gerir sér grein fyrir því að fólk getur haft ólíkan skilning á hamingjunni og hvað í henni felst en í stuttu máli töldu forn-grískir kennimenn að hamingjan fælist í dyggðugu lífi.

Þó stóumenn séu dyggðasérfræðingar í anda Platóns og Aristótelesar njóta þeir mikillar sérstöðu þegar kemur að einstaka atriðum siðfræðikenningarinnar og þá einkum baráttu þeirra gegn ástríðunum. Bæði Platón og Aristóteles halda því fram að ástríður séu hluti af eðli mannsins og nokkuð sem við höfum ekki fulla stjórn á. Platón taldi að í sálinni tækjust á ólík öfl sem ættu sér upphaf í ólíkum hlutum sálarinnar, þannig bærum við ekki beinlínis ábyrgð á því að sumar kenndir vöknuðu í sálinni en við ættum hins vegar að ná stjórn á þeim með skynsemi okkar. Sá maður sem nær að tukta ástríður sínar til svo þær falli að skynseminni hefur náð samhljómi í sálu sinni. Aristóteles hélt því hins vegar fram að sumar ástríður t.d. reiði væru við hæfi í sumum tilfellum – eða eins og hann orðar það í Siðfræði Níkomakkosar – „við berum lof á þann sem reiðist þeim sem skyldi og vegna þess sem skyldi, og enn fremur eins og skyldi, og þegar skyldi og eins lengi og skyldi.“3Ástríðurnar eru því stundum eðlileg viðbrögð mannsins og fullkomlega réttlætanleg og meira en það; það er beinlínis óeðlilegt að reiðast ekki við slíkar aðstæður.

Stóumenn ganga hins vegar enn lengra í afstöðu sinni gegn ástríðunum og hlutu mikla gagnrýni fyrir. Einn þekktur rómverskur höfundur líkti kenningu þeirra við brjálsemi því „þeir tempra ekki [ástríðurnar] heldur klippa þær burtu og vilja þar með gelda manninn af þeim hlutum sem honum eru eiginlegir samkvæmt náttúrunni.“4 Stóumenn gerðu sér fulla grein fyrir því að ástríður væru stór hluti lífs okkar og viðbragða en þeir neituðu því að þær væru hluti af okkar sanna eðli. Líkt og um einstakling sem lifað hefur með sjúkdómi sínum allt sitt líf má segja að sjúkdómurinn sé hluti af lífi hans en ekki hans sanna eðli og því beri að reyna að lækna hann. Á sama hátt eru ástríðurnar sjúkdómur sálarinnar.

Þessi einarða afstaða gegn ástríðunum er ekki með öllu óskiljanleg. Ástríður hana yfirbragð stjórnleysis og óhófs og við þekkjum öll hve auðvelt er að missa stjórnina á þeim þegar þeim er gefinn laus taumurinn á annað borð. Stóumenn tóku hér samlíkingu milli þess að ganga og hlaupa. Þegar við göngum höfum við fulla stjórn á gerðum okkar og getum breytt stefnunni hvenær sem er. Þegar við hins vegar hlaupum þarf meira til þess að stöðva eða breyta stefnunni. Sama á við um ástríður og vegna þessa innbyggða stjórnleysis töldu stóumenn barnalegt að halda að við getum stjórnað þeim eins og fyrirrennarar þeirra héldu fram. Niðurstaða þeirra var því sú að ástríðurnar yrði að uppræta með öllu því þær væru gagnstæðar eðli okkar og skynsemi.

Til þess að hægt sé að uppræta ástríður úr huga okkar verða þær að vera á okkar valdi, en ekki ósjálfráðar kenndir í sál okkar. Sú röksemd stóumanna að ástríðurnar séu á okkar valdi byggist á því að þær séu dómar eða skoðanir sem hafi ákveðna tegund viðfanga en dómar eru samkvæmt stóumönnum samþykki við staðhæfingum. Ástríður eru því vitsmunalegar því þær byggjast á viðbrögðum okkar við ákveðnum staðhæfingum, þ.e. hvort við samþykkjum þær eða ekki. Við getum breytt þessum viðbrögðum okkar og tamið okkur á þá lund að ástríður vakni ekki í brjósti okkar og þar með upprætt þær með öllu.

Ástríður eru ekki aðeins skoðanir eða dómar heldur það sem meira er þær erurangir dómar eða rangarskoðanir. Þær beinast að því sem virðist vera gott, slæmt, eftirsóknarvert eða neikvætt en er það í raun ekki. Nátengd kenningunni um ástríður er því kenningin um eftirsóknarverð gæði. Við finnum til ótta þegar við teljum að hætta steðji að okkur eða þegar við óttumst að missa einhvern eða eitthvað sem okkur er kært eða hefur mikið gildi fyrir okkur. Þannig endurspegla ástríðurnar gildismat okkar en þetta gildismat er afvegaleitt og bundið við ytri hluti sem eru ekki á okkar valdi. Ástríður endurspegla því hjálparleysi mannsins við aðstæður þar sem hann fær litlu við ráðið. En nú erum við komin að kenningu stóumanna um eftirsóknarverð gæði og þá er ekki úr vegi að fletta upp í skoðanakönnun Gallups og sjá hvernig hugmyndir Íslendinga nútímans tengjast þessum fornu skoðunum.

Eftirsókn eftir vindi

Í huga sótumanna felst hamingja í dyggðugu líferni en dyggðirnar eru hin æðstu gæði og það eitt sem eftirsóknarvert er í sjálfu sér. Höfuðdyggðirnar eru viska, hugrekki, hófstilling og réttlæti og allar aðrar dyggðir heyra undir þær. Nútímadyggðirnar eru hins vegar samkvæmt skoðanakönnun Gallups: Heiðarleiki, hreinskilni, jákvæðni, traust, dugnaður, heilsa og fjölskyldu-vinátta.5 Hvernig falla þessar hugmyndir um hamingju að hugmyndum stóumanna? Ef til vill er það ósanngjarnt að setja hugmyndir nútímamanna undir mælistiku stóumanna þar sem að baki hennar býr skipulögð og vel útfærð kenning en nútímadyggðirnar eru einvörðungu fengnar með skoðana­könnun og tilviljanakenndu úrtaki. Þrátt fyrir þessa fyrirvara er forvitnilegt að skoða þessar fornu og nýju dyggðir saman.

Þegar Íslendingar eru spurðir að því hvaða hugtök eða atriði skipti þá mestu máli svara flestir að heilsa og fjölskylda skipti þá mestu og þegar þeir eru spurðir að því hvað skipti mestu máli í hamingjusömu lífi er svarið sterk vina- og fjölskyldubönd. Það kemur ekki á óvart að heilsa, fjölskylda og vinir skipta okkur máli í daglegu lífi. Góð heilsa er forsenda þess að við getum notið ýmissa annarra gæða í lífinu. Og náið samneyti við annað fólk meðal fjölskyldu og vina er mikilvægt fyrir okkur sem félagsverur og einstaklinga. Ef til vill skipta fjölskylduböndin meira máli fyrir okkur Íslendinga sem lifum í nánu samneyti við fjölskyldur okkar og í samfélagi þar sem ættarböndin hafa löngum verið sterk.

En hversu mikilvæg er heilsan og fjölskyldan í huga stóumannsins? Á þessa leið svarar Epiktet, heimspekingurinn og þrællinn:

Ef þú minnist við barn þitt eða konu þína, þá segðu við sjálfan þig: Ég minnist aðeins við mannveru, ég mun ekki komast úr jafnvægi þótt hún deyi.6

Svar Epiktets virðast ganga þvert á hugmyndir nútímamannsins. Að baki svari hans liggur greinarmunur þess sem er eða er ekki á okkar valdi. Eins og kom fram fyrr í umfjöllun um ástríðurnar þá berum við ábyrgð á því hvernig við bregðumst við því sem birtist í sál okkar þrátt fyrir að við berum ekki ábyrgð á því áreiti sem við verðum fyrir. Viðbrögð okkar við utanaðkomandi áreiti byggist á því að þekkja hvað er á okkar valdi og hvað ekki. Í þessu er þroski einstaklingsins falinn.

Epiktet segir:

Fávís ertu ef þú kýst að börn þín, kona þín og vinir lifi um aldur og ævi, því að þá kýst þú þér vald á hlutum, sem þú átt engin ráð á, og vilt eigi það, sem annarra er.7

Hér kemur berlega fram að um líf okkar og annarra, t.d. okkar nánustu, getum við engu ráðið. Við stjórnum engu um það hvort eða hvenær þau lifa eða deyja. Sama á við yrti hluti líkt og heilsu, fegurð, auð og líkamsstyrk. Þessa þætti kölluðu stóumenn hlutleysur. Allir þessir þættir eru vissulega eftirsóknarverðir en þeir eru ekki á okkar valdi og því eigum við ekki að æðrast þó að við missum þá, hvað þá að sækjast eftir þeim af kappi. Hve oft höfum við ekki orðið vitni að því þegar fólk tekur að örvænta við missi ástvinar, heilsubrest eða ef þeir hafa tapað auði? Þess í stað eigum við að snúa okkur að raunverulegum gæðum sem eru dyggðirnar.8 Í þessu felst ekki að fjölskylda og vinir séu ekki eftirsóknarverð eða skipti okkur ekki máli, við eigum hins vegar að forðast að binda allt okkar trúss við þau og vera minnug þess að við getum misst þau hvenær sem er.

Niðurstaðan af þessum hugleiðingum er því sú að hvorki heilsa né fjölskylda-vinátta teljast til æðstu gæða hjá stóumönnum.

Hvað með þær nútímalegu dyggðir sem eftir eru? Það vekur athygli hve hreinskilni er oft nefnd sem eftirsóknarverð dyggð í hugum Íslendinga. Þegar við hins vegar rýnum í svörin í könnuninni kemur fram að Íslendingum finnst hún einkum vera eftirsóknarverður þáttur hjá öðrum sjálfum sér!

Heiðarleiki er í nokkuð miklum metum hjá Íslendingum og telja tæp 24 prósent að hann skipti mestu máli í lífinu. Heiðarleiki er ein þeirra dyggða sem flokkast undir réttlæti hjá stóumönnum og telst því óumdeilanlega til dyggða hjá þeim.

Enn önnur nútímadyggð sem flokkast undir réttlæti er traust. Jákvæðni og dugnað má einnig finna á lista stóumanna en þessar dyggðir falla undir hugrekki. Réttlæti og hugrekki er því að finna í einhverri mynd hjá nútíma Íslendingum.

Af þessu leiðir að af sjö nútímadyggðum eru tvær þeirra, heilsa og fjölskylda-vinir, hlutleysur samkvæmt kenningu stóumanna en hinar fimm falla undir höfuðdyggðirnar hugrekki og réttlæti. En hvar eru hinar höfuðdyggðirnar; viska og hófstilling?

Raunveruleg gæði

Oft er það svo að það sem ekki er sagt vekur meiri athygli en það sem sagt er. Á sama hátt vekja þær dyggðir sem ekki eru nefndar í skoðanakönnuninni ekki minni athygli en þær sem þar eru nefndar. Í fyrrnefndri skoðanakönnun kemur fram að einungis 3,1 prósent telja menntun og víðsýni skipta mestu í hamingjusömu lífi. Í mörgum öðrum spurningum verma menntun og þekking botnsætin. Þessi niðurstaða er umhugsunarefni fyrir samfélag sem státar sig af háu menntunarstigi borgaranna og þar sem umræðan um þekkingarþjóðfélagið hefur verið fyrirferðar­mikil.

Þögnin um hófstillingu er jafnvel enn meira æpandi. Til hófstillingar flokkast dyggðir eins og agi og hógværð. Merki þessara dyggða sér varla stað í umræddri skoðanakönnun sem er í sjálfu sér býsna athyglisvert. Hjá forn-Grikkjum og ekki hvað síst hjá Stóumönnum er þessu öfugt farið. Viska og hófstilling eru grundvallarþættir hins stóíska manns. Sá sem hefur öðlast stóíska ró hefur náð að útrýma ástríðum úr sálinni. Hann hefur öðlast þekkingu á raunverulegum gæðum og sækist eftir þeim einum. Hann hefur fullkomna stjórn á gerðum sínum og raunverulega þekkingu og visku.

Væri rétt að álykta sem svo af skoðanakönnun Gallups að hófstilling og viska skipti ekki máli í nútímasamfélagi? Gera hinar gömlu dyggðakenningar óraunverulegar kröfur til okkar í nútímanum? Hið æðsta takmark stóumanna, hin stóíska ró, er fjarlægt markmið. Það krefst mikils af einstaklingnum og er að margra dómi ofurmannleg krafa og stóumenn gerði sér fulla grein fyrir að einungis örfáir gætu öðlast fullkomnun.

Hin heita afstaða stóumanna gegn ástríðunum hefur oft verið túlkuð á þann veg að í raun boði stóumenn ekkert annað en geðleysi og sá sem tileinkar sér stóíska ró sé í raun fullkomlega áhugalaus um umhverfið og aðra og bregðist við óréttlæti og þjáningum af jafnaðargeði. En þessi túlkun á stóuspekinni er orðum aukin. Stóumenn gera ráð fyrir jákvæðum tilfinningum eins og gleði, varkárni og von þær eru í samræmi við skynsemina og dyggðirnar. Í stað ótta er hinn vitri varkár, í stað ánægju finnur hann til gleði og í stað löngunar býr með honum von. Hann berst ekki lengur við ástríður sem reyna að afvegaleiða hann til annarra verka heldur hefur hann jákvæðar tilfinningar. Hinn vitri eða hinn stóíski maður er fullkomlega skynsamur. Samkvæmt þessari kenningu er hamingja okkar ekki háð ytri skilyrðum eða fallvaltleika heimsins heldur býr hún hið innra með okkur. Af þessu leiðir að hin siðferðilega áhersla færist öll á einstaklinginn sjálfan og hann getur ekki afsakað sig með heppni eða óheppni. Þegar við metum athafnir fólks eigum við að skoða hugarfar þess og hvernig það hyggst breyta. Það er því enginn siðferðilegur munur á þeim sem hugsar sér að fremja glæp en tekst það ekki og þeim sem raunverulega tekst það. Öll siðferðileg áhersla færist yfir á einstaklinginn sjálfan og hugsun hans en tengist ekki ytri aðstæðum.

Þó stóuspeki þyki kröfuharður skóli vekur hann okkur til umhugsunar um eftirsóknarverð gæði í lífinu og hversu mjög þau eru undir okkur sjálfum komin. Nútímamaðurinn stendur við gnægtar­borð á öllum sviðum og treður sig út af lífsins lystisemdum. Víst er að hinn forni stóuspekingur teldi að nútímamaðurinn væri að tapa sjálfum sér í öfgafullri neyslu þar sem hamingjan stjórnast að mestu leyti af ytri skilyrðum. Hann myndi brýna okkur til þess að hefja dyggðir á borð við hóf­semi og visku til vegs og virðingar. Því þegar öllu er til skila haldið skiptir þroski hvers og eins mestu máli og þá er hollt að minnast orða Epiktets: „Sá, er frjáls kýs að vera, má ekkert girnast og ekkert fælast, sem er á valdi annarra, því að ella hlýtur hann að verða þræll þess.“9

 

Tilvísanir

1. pneuma þýðir heitt loft.

2. Siðfræði Níkomakkosar 1094a1 í þýðingu Svavars Hrafns Svavarssonar. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags, Reykjavík 1995.

3. Siðfræði Níkomakkosar 1125b í þýðingu Svavars Hrafns Svavarssonar. Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags, Reykjavík 1995.

4. Lactantíus.

5. Skoðanakönnunin var unnin af Gallup sem stuðningur við sýningarverkefnið á Þingvöllum, en það er aftur á vegum Kristnihátíðarnefndar, unnið af art.is í samvinnu við Listasafnið á Akureyri.

6. Sjá Epiktet í Hver er sinnar gæfu smiður í þýðingu Brodda Jóhannessonar, Almenna bókafélagið 1955, bls. 10. (Þýðingunni hefur verið lítillega breytt).

7. Sama, bls. 22.

8. Hér sjáum við samsvörun við kristnar hugmyndir sem boða æðruleysi.

9. Sjá Epiktet í Hver er sinnar gæfu smiður í þýðingu Brodda Jóhannessonar, Almenna bókafélagið 1955, bls. 23. (Þýðingunni hefur verið lítillega breytt).
« Til baka

Fornaldarheimspeki

Auðvelt er að marka upphaf vestrænnar heimspeki með vangaveltum stjörnuglópsins Þalesar (u.þ.b. 585 f.Kr.) um einn og sama grunn allra hluta og hæfni hans til þess að komast í álnir. Endapunktinn á þennan hluta hugmyndasögunnar setur svo Boëthius (u.þ.b. 480–525 e.Kr.) enda þótt Ágústínus 354–430 e.Kr.) sé oft talinn vera upphafsmaður miðaldaheimspeki.

Eyjólfur Kjalar Emilsson:
Hvað hafði Platón á móti skáldskap? Árásir Platóns á skáldskapinn í Ríkinu
Greinin birtist upphaflega í Tímariti máls og menningar, 1/1990.

Jóhann Björnsson:
Framdi Sókrates sjálfsmorð? Ýmis sjónarhorn reifuð

Salvör Nordal:
Dyggðir að fornu og nýju
Greinin birtist upphaflega í Tímariti máls og menningar, 2/2000.

Eyjólfur Kjalar Emilsson:
Sólin, hellirinn og hugsanir Guðs. Hugleiðingar um Platonisma og samtímaheimspeki
Greinin birtist upphaflega í Skírni, árið 1992.

Þorsteinn Gylfason:
Anaxímandros frá Míletos
Greinin birtist upphaflega í Tímariti máls og menningar, 4/1991.

Eyjólfur Kjalar Emilsson:
Um Plótínos og verk hans
Greinin birtist upphaflega í Skírni 1995.

Clarence E. Glad:
Introduction to Philodemus’ On Frank Criticism
Þetta er stytt útgáfa af innganginum í: Philodemus: On Frank Criticism. Introduction, Translation, and Notes eftir David Konstan, Diskin Clay, Clarence E. Glad, Johan C. Thom, and James Ware. Atlanta, Georgia 1988.

Plótínos:
Um fegurðina. I. Níund 6
Greinin birtist upphaflega í Skírni 1995.

« Til baka

Framdi Sókrates sjálfsmorð?

Ýmis sjónarmið reifuð

 

eftir Jóhann Björnsson1

Dauðadómur Sókratesar

 

Gríski heimspekingurinn Sókrates sem fæddist í Aþenuborg 469 árum fyrir okkar tímatal stundaði heimspeki sína á meðal almennings. Í huga hans var það sannleikurinn og réttlætið sem mest var um vert og varði hann ævi sinni í að reyna að komast að því hvernig best og réttast væri að lifa. Fræg eru þau orð sem höfð hafa verið eftir honum að það eina sem hann vissi væri að hann vissi ekki neitt:

…það er hvorttveggja um mig, að ég veit ekkert, enda þykist ég ekki vita neitt. Þess vegna virðist ég vera ofurlitla ögn vitrari en hann að þessu einu leyti, að það sem ég veit ekki, þykist ég ekki heldur vita.2

En sannleiksleit Sókratesar varð honum æði dýrkeypt. Var hann talinn fara með hégóma og gera verri málstað að betri, spilla æskunni og að trúa ekki á guðina.

Sókrates er brotlegur og fer með hégóma, er hann brýtur heilann um þá hluti, sem eru undir jörðinni og í loftinu, gerir verra málstað að betra og kennir öðrum að gera slíkt hið sama.3

Fyrir þetta var hann dæmdur til dauða og skyldi dómnum framfylgt með því að hann drykki eitur. Taldi hann sig saklausan af ákærum en ekki hvarflaði það að honum að gera minnstu tilraun til þess að víkja sér undan dómnum þegar hann hafði verið kveðinn upp. Sókrates áleit sig heiðar­legan borgara sem ekki geldur rangt með röngu og taldi því skyldu sína að hlýða lögunum þó ranglát væru.

Með því að vera dæmdur til að drekka eitur má með öðrum orðum segja að Sókrates hafi verið dæmdur til þess að fyrirfara sér. Hér vaknar sú spurning hvort hægt sé að fullnægja slíkum dauðadómi án þess að hinn dæmdi sé samvinnufús og drekki það sem fyrir hann er lagt. Jafn­framt er það álitamál hvort viðkomandi fremji sjálfsmorð þegar hann framfylgir dómnum og drekkur eitrið sem fyrir hann er lagt mótþróalaust.

Afstaða Sókratesar til sjálfsmorðs

 

Sókrates taldi sjálfsmorð fráleitt vegna eignarhalds guða á mönnum. Í samræðum við vini sína skömmu fyrir andlát sitt er Sókrates spurður af Kebesi hvort það sé ekki óhæfuverk að ráða sjálfum sér bana:

Hvað hafa menn eiginlega fyrir sér, Sókrates, er þeir segja það óhæfuverk að ráða sjálfum sér bana? Því þegar Fílalaos var meðal okkar, þá heyrði ég reyndar, eins og þú inntir eftir, bæði hann og suma aðra halda því fram, að menn megi ekki stytta sér aldur. En ég hef engan heyrt færa að þessu tvímælalaus rök.4

Sókrates svaraði og færði rök fyrir máli sínu:

…þá þykir mér það vel mælt, að til séu guðir, sem gæti okkar, og mannkynið sé ein af eignum guðanna….Og ef nú….einhver af eignum þínum stytti sér aldur, án þess þú hefðir gefið til kynna, að það væri þinn vilji, brygðist þú þá ekki reiður við og refsaðir henni, ef þú ættir ráð á einhverri refsingu?5

Að mati Sókratesar er það alveg klárt að óhæfuverk telst að taka eigið líf þar sem guðirnir eiga líf mannanna. Það þykir ekki til eftirbreytni að taka ófrjálsri hendi það sem maður ekki á. Ætla mætti af þessum orðum að Sókratesi fyndist það ekki við hæfi að taka sitt eigið líf með því að drekka sjálfur eitrið sem hann var dæmdur til að drekka. Svo er þó reyndar ekki og kveður við nokkuð annan tón síðast í samræðunni þar sem Sókrates segir:

Frá þessu sjónarmiði er það þá ef til vill ekki fráleitt, að menn megi ekki svipta sig lífi, fyrr en guðinn knýr þá til þess, svo sem nú er komið fyrir mér.6

Hér fer ekkert á milli mála að Sókrates gerir sér ljóst að dómur hans felur í sér sjálfsvíg7 en ekki aftöku og það sem meira er það er guðinn sem knýr hann til þess. Með því að vísa til þess að guðinn knýi hann til þess að taka eigið líf hefur Sókrates réttlætt fyrir sjálfum sér og öðrum það óhæfuverk sem sjálfsvíg er.

Í lok samræðunnar segir hann við Kríton:

Kríton, láttu koma með eiturdrykkinn, ef hann er tilbúinn, en sé það ekki, verður maðurinn að byrla hann.8

Hér hótar Sókrates því að hafna dómnum fái hann ekki að taka hann strax út og lætur eftirfarandi orð fylgja:

Ég held, að ég græði ekkert annað á því að drekka eitrið dálitlu seinna, en að vera hlægilegur í augum sjálfs mín, þar sem ég gerist svo fastheldinn á lífið og treini það, sem er á förum hvort sem er.9

Lífið er á förum að mati Sókratesar og því ekki um neitt annað að ræða en að gera það sem yfirvöld hafa farið fram á, að drekka eitrið og deyja.

Án þess að reyna að gera tilraun til þess að komast undan dómi yfirvalda drakk Sókrates eitrið vitandi um afleiðingarnar og dó. Framdi hann sjálfsmorð?

Sókrates framdi ekki sjálfsmorð

 

Robert Campell og Diane Collison eru á þeirri skoðun að þrátt fyrir að Sókrates hafi sjálfur drukkið eitrið og haft ákveðin áhrif á hvenær hann drakk það þá væri nær að segja hann heiðarlegan borgara sem skýtur sér ekki undan dómum yfirvalda, heldur en að segja hann hafa framið sjálfsmorð.10 Röksemd þeirra er sú að þar sem Sókrates valdi ekki sjálfur að taka eigið líf þá sé ekki um sjálfsmorð að ræða. Til þess að flokka megi umræddan verknað sem sjálfsmorð hefði Sókrates þurft að taka þá ákvörðun sjálfur að svipta sig lífi óháð dómi yfirvalda.

Taka þau síðan til umfjöllunar sjónarmið R.F. Holland um dauða Sókratesar en hann er sammála þeim Campell og Collison um að ekki sé hægt að flokka dánarorsök Sókratesar sem sjálfsmorð þar sem hann ákvað það ekki sjálfur að taka líf sitt heldur voru það yfirvöld í Aþenu sem það gerðu. Holland heldur því ennfremur fram að hér sé ekki um sjálfsmorð að ræða frekar en þegar dauðadæmdur maður gengur að aftökupallinum. En eins og Campell og Collison benda réttilega á þá er veigamikill munur á því að ganga að aftökupallinum og að svipta sig lífi. Gangur dauðadæmds manns hefur í sjálfu sér ekkert að gera með dauða viðkomandi, hann er ekki byrjaður að deyja þegar hann gengur. Öðru máli gegnir hinsvegar um Sókrates þar sem eiturdrykkjan er raunverulega sú breytni sem verður honum að bana.

Nær væri að líkja breytni Sókratesar, segja þau Campell og Collison við það þegar dæmdur maður ýtir á þann rofa á rafmagnsstól sem kemur þeirri aðgerð í gang sem veldur honum dauða. Ekki fallast þau þó á að kalla slíkt sjálfsmorð, nær væri að tala um sjálfsaftöku í þessu sambandi. Hér er gera þau greinarmun á sjálfsaftöku annarsvegar og sjálfsmorði hinsvegar.

Sókrates framdi sjálfsmorð

 

R.G. Frey er hinsvegar á öðru máli og telur ólíkt Campell og Collison að Sókrates hafi framið sjálfsmorð.11 Röksemd hans er sú að þar sem Sókrates vissi vel hverjar afleiðingar eiturdrykkjunnar voru og sýndi ekki mótþróa við að uppfylla dóm yfirvalda verður breytni hans að teljast sjálfsmorð. Vitneskja Sókratesar um afleiðingar gjörða sinna er hér lykilatriði þegar meta skal hvort breytni hans telst vera sjálfsmorð eða ekki. Sókrates hafði tök á því að mati Frey að neita að drekka eitrið og láta þvinga sig til að innibyrða það og ef hann hefði kosið þá leið hefði ekki verið um sjálfsmorð að ræða heldur aftöku. Sókrates ætlaði sér aldrei að óhlýðnast dómi yfirvalda, hann ætlaði sér með öðrum orðum að deyja af völdum eiturdrykkju í þeim tilgangi að gjalda ekki rangt með röngu. Heiðarleiki hans og löghlýðni kostaði hann það að mati Frey að hann varð að fremja sjálfsmorð.

Ýmsum mótbárum hefur Frey þurft að svara og er ein sú að Sókrates hafi ekki framið sjálfsmorð þar sem hann fékk ekki sjálfur að ráða þeim tíma nákvæmlega hvenær hann skyldi deyja. Ekki er hægt að binda sjálfsmorðsskilgreininguna við tímasetningar að mati Frey og nefnir hann dæmi máli sínu til stuðnings:

Gerum ráð fyrir að Sir Percy ákveði að fremja sjálfsmorð en hafi ekki kjark til þess að skera sig á púls eða skjóta sig í gagnaugað. Í stað þess kemur hann fyrir miklu magni af sprengiefni undir húsi sínu og tengir sprengiþráðinn við símann, þannig að ef síminn hringir springur húsið í loft upp. Síðan sest hann niður og bíður átekta. Percy mun deyja þegar síminn hringir, en hann veit ekki hvenær síminn mun hringja, né heldur getur hann ákveðið tímasetninguna….12

Það leikur enginn vafi á að mati Frey að Sir Percy fremur sjálfsmorð þó hann viti ekki nákvæmlega hvenær það gerist. Sir Percy kom málum þannig fyrir að hann myndi deyja þegar síminn hringdi. Þegar dánarorsök er skilgreind sem sjálfsmorð að mati Frey skiptir það höfuðmáli að vera með­vitaður um afleiðingar gjörða sinna.

Ómögulegt er að fullyrða nokkuð um sjálfsmorð

 

Gavin J. Fairbirn13 bendir á til mótvægis við sjónarmið Frey að mögulegt er að gera eitthvað vitandi um afleiðingarnar en án þess að vilja þær. Nefnir hann dæmi af þeim sem borða of mikið, drekka, reykja eða stunda óábyrgt kynlíf. Margir þurfa að takast á við þessi vandamál, vita vel hverjar afleiðingar gjörða sinna kunna að vera en eiga í erfiðleikum með að breyta hegðun sinni. Þannig kann Sókrates að mati Fairbirn að hafa drukkið eitrið vitandi um afleiðingarnar en ekki viljað þær í raun.

Eftir að hafa skoðað ýmis sjónarmið sem fram hafa komið um hvort Sókrates hafi framið sjálfs­morð eða ekki þá verðum við á endanum að mati Fairbirn að horfast í augu við að ef Sókrates vildi af einhverjum ástæðum deyja, hverjar svo sem ástæðurnar eru, þá framdi hann sjálfsmorð en ef hann vildi ekki deyja og breytti gegn raunverulegum vilja sínum þá framdi hann ekki sjálfsmorð.

Ekki verður með neinu móti vitað hvað í raun fór fram í huga Sókratesar. Það eina sem heimspekingar geta gert er að túlka texta Platons á ýmsa vegu. Síðan er að gera það upp við sig hver séu nauðsynleg skilyrði sjálfsmorðs: tímasetningar, hver tekur ákvörðun, vilji, vitneskja um afleiðingar gjörða sinna eða ónýttar undankomuleiðir.

 

Tilvísanir

1. MA í heimspeki frá Katholieke Universiteit Leuven.

2. Platón: „Málsvörn Sókratesar“ í Síðustu dagar Sókratesar, í íslenzkum búningi eftir Sigurð Nordal. Hið íslenzka bókmenntafélag 1983. Bls. 37.

3. Sama rit, bls. 32-33.

4. Platón: „Faídon“ í Síðustu dagar Sókratesar, bls 105.

5. Sama rit, bls. 106.

6. Sama rit, bls. 106.

7. Ýmist nota ég orðið sjálfsvíg eða sjálfsmorð og er það að yfirlögðu ráði þar sem nokkur munur er á þessu tvennu sem ekki verður ræddur hér.

8. Faídon, bls. 200.

9. Sama rit, bls. 201.

10. Campell, Robert og Diane Collison: Ending Lives. Oxford, Basil Blackwell 1988.

11. R.G. Frey: „Did Socrates commit suicide“ í Suicide. The philosophical issues. Ritstjórar M. Pabst og David J. Mayo. 1980.

12. Sama rit, bls. 37-38.

13. Gavin J. Fairbirn: Contemplating Suicide. The Language and Ethics of Self Harm. Routledge 1995. Bls. 147-151.

 

« Til baka

Hvað hafði Platón á móti skáldskap? Árásir Platóns á skáldskapinn í Ríkinu

eftir Eyjólf Kjalar Emilsson

Í frægasta og metnaðarfyllsta verki sínu, Ríkinu, lætur Platón hetju sína Sókrates og viðmælendur hans hugsa upp fyrirmyndarríki, hið besta ríki allra hugsanlegra ríkja.1 Svo er að sjá að ekkert rúm sé fyrir skáld í þessu ríki, og virðist Platón álíta að þau séu aðeins til óþurftar og skuli gerð útlæg úr ríkinu nema þau fallist á stranga og að ég hygg óaðgengilega skilmála.2 Sá helsti þeirra er að þau hætti að blekkja fólk.

Margir aðdáendur Platóns sem jafnframt eru unnendur skáldskapar hafa átt erfitt með að una þessum málalokum og varla fengist til að trúa því að hinn mikli hugsuður hafi í raun og veru verið svo skammsýnn eða blindur að hann hafi ekki komið auga á hið augljósa gildi skáldskaparins (og raunar annarra lista). Bent er á þá óumdeilanlegu staðreynd að Platón var sjálfur mikill listamaður og mikið skáld, sem gat brugðið fyrir sig hvers konar stíl og sett fram hugsun sína með stórfenglegum líkingum sem hvert skáld gæti verið stolt af. Hvernig má það vera að slíkur maður hafi ekki kunnað að meta skáldskap? Hér á eftir verður leitast við að gera örlitla grein fyrir þeim hugmyndum um skáldskap og listir sem birtast í þessu höfuðverki heimspekinnar, og því sem að baki þeim býr.

Áður en lengra er haldið er rétt að ryðja úr vegi yfirborðslegum skýringum á þessari fjandsamlegu afstöðu Platóns í garð skáldanna í Ríkinu. Sú skýring hefur heyrst að Platón hafi einkum haft í huga slæman skáldskap, að hann hafi verið að skjóta á vond skáld í samtíma sínum, en ekki á góðu skáldin sem voru uppi fyrir hans dag. Þetta er langsótt kenning sem stenst ekki snefil af gagnrýni. Því flestöll dæmi sem Platón tekur eru einmitt frá öndvegisskáldum á borð við Hómer, Pindar og Aískýlos. Og sem meira er, í hinum bráðskemmtilega hluta Ríkisins, þar sem Platón gerist ritskoðari og hyggst sníða burt þá kafla hjá Hómer og fleiri skáldum sem eiga ekki að fá að heyrast í fyrirmyndarríkinu, er að finna margar perlur frá skáldskaparlegu sjónarmiði. Ummæli Platóns um skáldskapinn verða heldur ekki skýrð sem orð sem látin eru falla gáleysislega í framhjáhlaupi, þar sem umræðan snýst aðallega um eitthvert annað efni. Þvert á móti: verkið hefði allt eins mátt kalla „Um skáldskap“ eins og „Ríkið“, því að a.m.k. eins stór hluti þess fjallar um skáldskap og um fyrirmyndarríkið. Þess ber þó að geta að Platón er ekki alltaf eins fjandsamlegur skáldum og skáldskap og hann er í Ríkinu. Í samræðunum Jóni ogFaídrosi birtist til dæmis mun jákvæðari afstaða. Þó má segja að flest heimspekilegu meginatriðin í máli Platóns um skáld og skáldskap í Ríkinu séu almennt einkenni á hugsun hans um þessi efni.

Ríkið er heilmikið verk. Það skiptist í tíu bækur, sem eru hver um sig svona 40-50 meðalsíður. Bróðurpartur verksins er samræða Sókratesar og kunningja hans, bræðranna Glákons og Adeimantosar. Efnið sem þeir eru að velta fyrir sér er réttlæti, hvað það eiginlega sé. Í upphafi eru þeir að hugsa um réttlæti einstaklinga, en verða ásáttir um að skoða fyrst réttlætið í ríkinu, því það sé stærra og því hægara að koma auga á það (367 E-369 C). Þannig reisa þeir ríki frá grunni, ríki þar sem öllu er komið fyrir á sem skynsamlegastan hátt, enda fara heimspekingar með stjórnina. Platón ræðir í löngu máli um uppeldi og menntun í fyrirmyndarríkinu, og það er í því sambandi sem spurningin um skáldskap vaknar. Platóni er í mun að þegnar hins nýja ríkis tileinki sér dygðirnar. Hann virðist hafa mikla trú á áhrifamætti skáldskapar og raunar lista almennt til að móta skapgerð fólks bæði til góðs og ills. Þess vegna telur hann hvort tveggja nauðsynlegt að ritskoða skáldskap þannig að hann spilli ekki æskunni í nýja ríkinu og eins að setja saman mikla námsskrá, þar sem kemur fram hvað hinum uppvaxandi fyrirmyndarmönnum sé nauðsynlegt að hlýða á og læra (376E-304 C). Stór hluti námsins er tónlist og er kveðskapur talinn til hennar. Platón álítur rétt tónlistar- og skáldskaparuppeldi æskunni bráðnauðsynlegt, eigi hún að komast til þroska.

En hugum nánar að því sem Platón vill ritskoða og ástæðum þess. Meginkvörtun hans er sú að í verkum sínum kenni skáldin fólki allt hið gagnstæða við dygðugt líferni: þau láta hetjur vera leiksoppa taumlausra ástríðna og tilfinninga og þau ljúga upp á guðina, þar sem þau sýna þá breyska, öfundsjúka, hégómlega og falska. Það er háskalegt að fólk alist upp við slíkar sögur, einkum þar sem hetjur og guðir eiga í hlut, en fyrir þeim eiga menn að vera virðingu. Sérstaklega er Platóni í nöp við skáldskap þar sem persónunum eru lögð orð í munn eins og í leikritum, en slíkt nefnir hann hermiskáldskap.3 Þegar hann segir að skáldin hljóti að vera gerð brottræk úr fyrirmyndarríkinu, þá er hann að tala um hermiskáldin fyrst og fremst.4

Það sem hér hefur verið greint kemur fram í annarri og þriðju bók Ríkisins, þegar verið er að koma fyrirmyndarríkinu á fót. En Platón telur sig bersýnilega ekki búinn að gera skáldskapnum fullnægjandi skil, því hann tekur málið aftur upp í tíundu og síðustu bókinni. Greinargerðin þar er með nokkuð öðrum hætti. Hún er, ef svo má segja, heimspekilegri. Platón byrjar á að rifja upp kenningu sína um að til sé veruleiki sem sé langtum fullkomnari og sannarri en sá sem við skynjum með skilningarvitunum. Þetta er heimur frummyndanna sem svo eru nefndar. Frummyndir einar eru sannur veruleiki að dómi hans, fullkomlega samar við sig og ævarandi. Í þeim falla saman sýnd og reynd. Hitt er allt eins konar endurómur frummyndanna, iðandi síbylja, óraunveruleg og ósönn á einhvern hliðstæðan hátt og skuggar eða óljósar spegilmyndir á vatni eru í samanburði við hlutina sjálfa. Platón tekur dæmi af rúmum, sem húsgagnasmiðir smíða, og af dýrum sem eru verk náttúrunnar. Húsgagnasmiðirnir smíða sín rúm með því að líkja eftir frummynd rúmsins og á einhvern hliðstæðan hátt vinnur náttúran. En svo eru til rúm sem finnast á myndum málara, eftirlíkingar af alvöru rúmum, og hliðstæð þeim eru skáldverkin, sem eru eftirlíkingar, einkum af athöfnum manna. Skáldverk og listaverk yfirleitt eru þannig eftirlíking eftirlíkingar. Skáldskapurinn er eidolopoieisis, skuggasköpun, sem er, ef svo má segja, það lægsta af öllu lágu í stigveldi veruleikans.

Í framhaldinu rekur Platón ennfremur hvernig öll hermilist miði ekki einu sinni að því að líkja eftir veruleikanum eins og hann sé, heldur aðeins ein sog hann sýnist vera. Hann segir

Hugaðu nú að þessu: að hvoru miðar málaralistin hverju sinni, að líkja eftir veruleikanum eins og hann er eða sýndinni eins og hún birtist? Hvort er hún eftirlíking sannleika eða skuggamyndar?
Skuggamyndar, svaraði hann.5

Sama gildir um þær myndir sem skáldin draga upp af fólki og ríkjum með orðum.

Næst kemur skot á harmleikjaskáldin og leiðtoga þeirra Hómer, sem Platón kallar svo. Þessi háðski kafli á að sýna að skáldin fari fjarri sannleikanum í verkum sínum (598 D-601 B). Platón bendir á að samtímamenn séu þakklátir ýmsum mætum fornmönnum svo sem lækninum Asklepíosi og löggjöfunum Lýkúrgosi og Sólóni vegna hinna mætu verka þeirra sem menn njóti enn góðs af. En enginn þakkar Hómer neitt, segir hann. Engin nýtileg uppgötvun eða nýmæli í ríkisbúskap, hernaði eða siðferði er honum eignuð. Þó var hann alltaf að tala um stjórnmál, styrjaldir og dygðir og lesti. En þetta er ekki nema von, segir Platón, því Hómer hafði ekki hundsvit á neinu af þessu, heldur var hann bara eftirherma sem tókst að búa til trúlega ásýnd sem þó var ekkert nema sýndin ein.

Í lokakaflanum um skáldskapinn viðurkenna þeir Sókrates og Glákon að mikil nautn sé að hlýða á skáldskap og að hann sé á einhvern hátt ómótstæðilegur. Þeir eru sammála um að eftirsjá sé að honum. En þetta er ekki nægileg vörn fyrir hann, nema síður sé: Platón setur fram kenningu, mjög í ætt við þá sem Freud og aðrir hafa síðar haldið á loft, að skáldskapurinn sé eins máttugur og raun ber vitni vegna þess að hann veiti útrás alls kyns niðurbældum tilfinningum og þrám. Sókrates segir:

Þegar hinir bestu menn meðal okkar hlýða á Hómer eða eitthvert annað harmleikjaskáld sem er að herma eftir einhverri hetju sem í angist flytur langa raunatölu eða syngur harmasöng berjandi á brjóst sér, þá veistu að við njótum þess og við gefum sjálfa okkur skáldskapnum á vald og þjáumst með hetjunni. Og við lofum af heilum hug snilld skáldsins sem hrærði okkur svo mjög.6

Og örlitlu síðar:

Ef þú hefur hugfast að þessi hluti sálarinnar sem hefur verið haldið niðri með valdi í okkar eigin raunum og þyrstir í tár, gnótt kveinstafa og svölun, enda liggur þrá eftir þvíumlíku í eðli hans, er sami hlutinn og skáldin veita nú fullnægju og gleði. En það í okkur sem í eðli sínu er best hefur ekki verið nægilega alið upp í röksemdum og háttsemi og slakar því á gæslunni á þessum harmþrungna hluta, enda eru það annars manns þjáningar sem það horfir upp á. Og þegar einhver annar maður sem kveðst vera góður barmar sér óhæfilega, skammast þessi hluti okkar sín ekkert fyrir að hrífast af honum og vorkenna honum. Hann telur sig þvert á móti hafa ávinning af þessu, það er að segja ánægju, og vildi ekki verða sviptur henni með því að hafna skáldverkinu í heild sinni með fyrirlitningu.7

Lokaorðin um skáldskapinn eru sérstaklega athyglisverð. Þeir Sókrates og viðmælendur hans telja hugsanlegt að skáldskapurinn geti komið með einhverjar málsbætur fyrir sig þannig að athugandi verði að hleypa honum aftur inn í ríkið. En hann varar eigi að síður enn við því að ekki megi gangast upp í skáldskapnum og taka hann mjög alvarlega. Platón lætur Sókrates segja:

Það verður okkur léttir ef [skáldskapurinn] reynist alsannur og algóður. En svo lengi sem hann getur enga málsvörn borið fram, syngjum við með sjálfum okkur þessar röksemdir okkar sem varnarseið á meðan við hlýðum á hann og gætum okkar á þessari barnalegu ást almennings. Við höfum alltént orðið þess áskynja að ekki má verða hugfanginn af þessum skáldskap eins og hann sé eitthvað sem höndlar sannleikann og sé full alvara.8

Heimspeki og skáldskapur í Aþenu á dögum Platóns

 

Látum þetta nægja sem endursögn á máli Platóns og snúum okkur að því að skoða hvað að baki býr. Það er athyglisvert hve Platón tekur skáldin alvarlega. Hann trúi því greinilega að fólki hætti til að leggja trúnað á sögur sem skáld segja og fá þannig alls kyns ranghugmyndir um hin mikilsverðustu efni. Hann finnur málverkum af iðnaðarmönnum það til foráttu að þau sýni villandi og yfirborðslega mynd af starfi þeirra og list, og hann áskar Hómer og önnur skáld fyrir að hafa ekki tekist að kenna mönnunum neitt nýtilegt. Okkur nútímamönnum kann að virðast allt þetta fullkomlega ósanngjarnt og byggt á misskilningi á eðli og tilgangi skáldskapar og lista. Það stóð aldrei til, segjum við, að læra skósmíðar af málverkum eða hernaðarlist af sagnaskáldi.

En Platón var uppi á tímum, þar sem skáldin voru sennilega tekin alvarlegar sem fræðarar, uppalendur og siðferðileg leiðarljós en nú á dögum. Meðal Grikkja á dögum Platóns þóttu það sjálfsögð sannindi að skáld væru vitur. Þetta viðhorf til skálda og verka þeirra virðist reyndar enn eiga marga formælendur, sem sést til dæmis af því hvernig okkur Íslendingum er tamt að nota Íslendingasögurnar og alls kyns kveðskap sem viskubrunn. Á dögum Platóns var þó trúlega enn nánara með skáldskapnum og viskunni, enda aðgreining skáldskapar, sagnfræði, heimspeki og fræða ekki fyrir löngu í garð gengin og hafði áreiðanlega ekki náð til alls almennings. Að minnsta kosti voru þær kröfur gerðar til skálda að þau færðu fólki í hendur einhverja bitastæða visku. Eitt af því sem fyrir Platóni vakir er að ráðast gegn þessari trú á skáldskapinn. Þetta gerir hann bæði með því að skora á menn að benda á dæmin um nýtilegan vísdóm, sem frá skáldunum sé kominn, og með því að hefja gagnsókn, þar sem hann heldur því ekki aðeins fram að skáldunum láist að vera vitur, heldur séu áhrif þeirra beinlínis háskaleg.

Inn í þetta fléttast svo tilkoma heimspekinnar og örlög Sókratesar. Platón var sjálfur heimspekingur og batt gífurlegar vonir grein sína. Hann trúði því til dæmis að heimspekin hefði lykilhlutverki að gegna í þjóðfélaginu. Hún átti meða annars að verða öguð vísindi um gott og illt, rétt og rangt, bæði hjá einstaklingum og ríki. Þannig ætlaði hann heimspekinni að vinna á sama vettvangi og skáldskapurinn. Hún átti að gera almennilega það sem skáldskapurinn gerði illa.

Nú verður varla sagt að Platóni hafi tekist það ætlunarverk sitt að setja fram vísindin um hið góða. Hann komst þó að ýmsum heimspekilegum niðurstöðum sem hafa staðist tímans tönn. Ein þeirra er sú að mikilsverður munur sé á sannfæringu og skoðun annars vegar, og þekkingu hins vegar. Munurinn liggur í því að sá sem þekkingu hefur á einhverju efni, getur fært rök fyrir máli sínu og ennfremur í því að þekking hlýtur að vera sannleikur (annars væri hún engin þekking), en við vitum öll að hægðarleikur er að vera sannfærður um eitthvað sem er ósatt, þó að maður haldi auðvitað að það sé satt ef maður er sannfærður um það. Platóni þótti einsýnt að skáldin hefðu ekki þekkingu í þessum skilningi á því sem þau töluðu um. Þetta kemur skýrt fram í Málsvörn Sókratesar þar sem Sókrates segir:

Ég varð þess brátt vísari um skáldin, að þau ortu ekki af visku, heldur af einhverri andagift og guðamóði, eins og innblásnir spámenn eða völur, er segja margt gott, en skilja það ekki sjálf. Mér þótti skáldunum vera nokkuð líkt farið. Jafnframt varð ég þess vísari, að vegna skáldskaparins hugðust þau einnig vera hinir vitrustu menn í öðrum greinum, en voru það ekki.9

Á móti þessari grein sem treystir á andagift og innblástur, sem eins og allir vita geta verið varasamir vegvísar að sannleikanum, vildi Platón tefla fram heimspekinni sem byggi yfir ígrundaðri þekkingu, þar sem allt var bundið fast með traustum rökum. Einnig má vera að hann hafi fundið til einhverrar öfundar í garð skáldanna sem fylltu leikhúsin og fundist að hin nýju vísindi nytu ekki þeirrar lýðhylli og virðingar sem þeim bæri. Sá heimspekingur sem mest var um vert var tekinn af lífi fyrir það eitt að þjóna heimspekinni af trúmennsku. Áður hafði hann verði sýndur sem ófyrirleitinn rökflækjumaður í gamanleik Aristófanesar, Skýjunum. Platóni kann að hafa fundist að heimspekin þyrfti að berjast fyrir lífi sínu, og því væri nauðsynlegt að gera upp sakirnar við skáldin.

Viskuást og siðandi endurómur síbyljunnar

 

Við skulum nú huga að máli Platóns um skáldskapinn frá svolítið almennara sjónarhorni og spyrja einfaldlega: Er eitthvert vit í þessu hjá honum?

Þegar hefur verið vikið að þeirri aðfinnslu Platóns, að með því að sýna okkur alls kyns ósóma og illvirki smiti skáldskapurinn okkur, þannig að hætt sé við að við sjálf förum að herma eftir söguhetjunum í hugsun og jafnvel í verki. Ekki er að sjá að þar vaki neitt dýpra fyrir Platóni en sú hversdagslega hugsun að það kunni að spilla fólki að heyra og sjá eitthvað ljótt. Þetta er spurningin um að hvort við förum að reyna að líkja eftir Agli Skallagrímssyni eða James Bond, ef við lesum sögur um þá eða sjáum þá á tjaldi. Um þetta má endalaust deila og er endalaust deilt. Ágætur íslenskur skáldsagnahöfundur sagði mér eitt sinn að hann hugsaði sig tvisvar um áður en hann léti fólk hoppa upp í rúm hvert hjá öðru í bókum sínum. Ástæðan sem hann gaf var sú að hann vildi síður ýkja um lauslæti, því lesendur kynnu að halda að svona geri fólk yfirleitt og þess vegna ekkert því til fyrirstöðu að taka upp sömu hætti. Þetta og margt annað sýnir að við erum ekki vaxin upp úr hugmyndum Platóns um þetta efni. Það virðist vissulega vera eitthvert vit í því sem hann segir um þetta, en hann miklar trúlega fyrir sér ill áhrif ljótu atriðanna. En mér virðist þessi aðfinnsla ekki vera sérstaklega áhugaverð og óþarft að eyða í hana mörgum orðum.

Þá er það kenningin um að skáldskapurinn sé eftirlíking eftirlíkingar, einber sýndarveruleiki og blekking. Við fyrstu sýn gæti manni virst sem þessi kenning sýni enn að Platón vanmeti og misskilji skáldskapinn fullkomlega. Skáldin reyna ekki einfaldlega að herma eftir fólki og atburðum, heldur leitast þau við að skapa nýjan veruleika. Þessi lýsing Platóns sniðgengur sköpunarhliðina á listinni, kynni einhver að segja.

Hér hygg ég að Platón gæti svarað því til, að þvert á móti taki hann fullt tillit til sköpunarinnar; hann geri sér vel ljóst að munur sé á hinum hversdagslega veruleika og listaverkinu og að sá munur sé m.a. til vitnis um að listamennirnir leggi listaverkunum eitthvað til. Hins vegar sé það staðreynd að listaverkin hafi hinn hversdagslega veruleika sem fyrirmynd og nærist á honum. Viðbótin, sem sumir kalla sköpun með sérstakri velþóknun og gerir veruleika skáldverksins annan en hinn hversdagslega veruleika, er öll í átt til enn meiri blekkingar og óraunveruleika.

Heimspekin reynir að öðlast algilda sýn á hlutina, skoða þá frá algildu sjónarhorni eftir því sem það er hægt. Listin reynir ekkert slíkt. Henni nægir að draga upp einhverja mynd sem getur hrifið fólk. Skáldskapur er því eins konar mælskulist, viss tegund af áróðri. Þessi skoðun kemur vel fram í svofelldum kafla úr tíundu bókRíkisins:

Á sama hátt munum við þá segja, býst ég við, að skáldið lifi hverja list með nöfnum og lýsingum. Það hefur engan sjálft á öðru en því að líkja eftir, svo að þeim sem eru eins og það sjálft og dæma eftir tungutakinu sýnist það tala mjög vel, þegar það fjallar í bundnu máli með hrynjandi og samhljómi hvort heldur um skósmíðar eða herstjórnarlist eða hvaðeina annað. Þetta skáldskaparmál býr sem sagt yfir einhverjum náttúrulegum töfrum. Því ég hygg þú vitir hvernig mál skáldanna lítur út þegar búið er að afklæða það skrautklæðum braglistarinnar, og það mælt fram eitt og óstutt. Þetta hefurðu ugglaust séð.
Reyndar hef ég séð það, svaraði hann.
Verður það ekki áþekkt útlits og ásjóna drengs, sagði ég, sem skartar engu öðru en æsku sinni og glatar æskuþokkanum?
Vissulega, sagði hann.

Með öðrum orðum, skáldskapurinn er umbúðirnar einar. Sköpunin svonefnda felst í að búa til þessar umbúðir. Þegar skáldskapurinn hefur verið sviptur þeim, stendur ekki bitastætt eftir.

Að dómi Platóns er skáldskapurinn líka blekking að því leyti að hann veitir okkur svölun, en sú svölun er fölsk. Þetta kemur m.a. fram í þeim orðum sem höfð voru eftir honum hér að ofan þar sem Sókrates lýsir því í hverju skáldskaparnautnin liggi. Við höfum í einkalífinu bælt tregann og haldið aftur af tárunum, reiðinni og girndinni. Þegar við meðtökum listaverk, sleppum við takinu á þessum niðurbældu tilfinningum og fáum á vissan hátt útrás fyrir þær. Þetta leyfum við okkur vegna þess að við erum að horfa upp á annað fólk, og enn auðveldara verður það vegna þess að skáldin hafa lag á því að láta persónur sínar vera góðar og glaðlegar að mörgu leyti. Þannig er það að þegar við sjáum góðan mann beittan órétti, þá glepst jafnvel skynsemi okkar sem á að hafa taumhald á ástríðunum og gefur reiðinni lausan tauminn. Þessi svölun ástríðnanna sem skáldskapurinn veitir er ekki síst varhugaverð vegna þess að hún er svo sterk. Hún sýnist jafnvel vera göfug. Þess vegna er hætta á því að jafnvel gott og hugsandi fólk týni sér í listnautninni og finnist hún svala dýpstu og sönnustu löngunum þess. En nei! Þetta er bara plat! Listnautnin er ekkert annað en fróun lægstu hvata og kennda með góðfúslegu samþykki skynseminnar sem lætur blekkjast af brögðum skáldanna.

Nútímamönnum sem á annað borð gefa sig að listum og skáldskap hættir til að taka sem sjálfsagðan hlut, að þessi efni séu óheyrilega mikilvæg og merkileg, jafnvel hornsteinn alls andlegs lífs. Mér virðist að slíkt viðhorf kunni að vera listinni til tjóns. Ég held að árás Platóns á hana sé a.m.k. nógu snarpleg og djúp til að krefja skáldin og unnendur skáldskaparins um svör. Ég ætla núna að endingu að reifa fáeina möguleika í þeim efnum.

Í gagnrýni sinni á listina og skáldskapinn gengur Platón að því vísu, að til sé annars konar verðugri iðja, þ.e.a.s. heimspekin, og að listin standi í vegi fyrir heimspekinni, bæði vegna þess að þessar greinar fáist að nokkru við sama efni og vegna þess að listnautnin geti orðið eins og fölsk svölun þeirrar hvatar, Erosar, ástarinnar, sem beinist að því sem er göfugt og satt.10 Hvað fyrra atriðið varðar álítur Platón bersýnilega, að skáldskapurinn keppi að því að miðla til okkar sannleikanum þannig að við látum sannfærast, en gallinn sé sá að honum farist þetta illa, því bæði sé hann óvandur að meðulum sínum og það sé hendingu háð hvort hann segir yfirleitt satt.

Nú kynnu einhverjir að vilja neita því að það sé yfirleitt tilgangur skáldskapar að reyna að sannfæra fólk um eitt eða annað. List er ekki predikun, segja menn stundum. Sumir draga líka í efa að til sé einhver algildur sannleikur, og því sé heimspekileg viðleitni af því tagi sem Platón boðar dæmd til að mistakast. Þvert á móti sé einstaklingsbundin upplifun eini kosturinn sem í boði sé og sé raunar alls ekki svo slæmur kostur. Það sem máli skipti fyrir okkur mennina sé að slík upplifun sé sem auðugust og dýpst, og í því efni gegni listirnar lykilhlutverki. Þessir tveir punktar, að listin keppi ekki að því að sannfæra fólk um sannleikann og að draumurinn um algilt sjónarhorn sé tálsýn, eru skyldir og styðja vel hvor annan.

Hin platónsku viðbrögð við þessu hygg ég að séu þau, að spyrja í hverju gildi skáldskaparins liggi þá, ef skáldin geri enga kröfu um að miðla neinum sannleika. Ég sé fyrir mér þrenns konar svör við þessu: Fyrst þetta: gildi skáldskaparins felst einfaldlega í því að hann er nautn, hann er skemmtilegur og spennandi. Ágætt, segði Platón þá, þá er allt í lagi með hann, ef við bara gætum okkar á því að týna okkur ekki í honum. En ef skáldskapurinn er bara heillandi skemmtun, kynni hann að bæta við, hvað er þá svona merkilegt við hann? Af hverju er hann merkilegri en rjúpnaveiðar, til dæmis, eða tölvuleikir? Hvað kemur ykkur til að halda að hann sé þungamiðja menningarinnar?

Í öðru lagi er líklegt að fram kæmi eitthvert svar skáldskapnum til varnar sem snerist um gildi hans fyrir tilfinningalífið (eða sjálfsvitundina eða undirvitundina eða hvaða fín orð önnur menn kjósa að hafa yfir það). Skáldskapur tjáir einstaklingsbundna skynjun og upplifun og talar því fyrst og fremst til tilfinninganna, ekki til kaldrar skynsemi og rökvísi. Þetta má svo útfæra á ýmsa vegu. Ein leið væri að líta á listina sem tæki til að ræsa fram bældar tilfinningar, eins konar leysandi lyf sem notist innvortis í sálinni. Slíkt viðhorf kemur fram hjá nemanda Platóns, Aristótelesi,11 og má raunar segja að það birtist þegar hjá Platóni sjálfum, þótt ekki vilji hann telja þessa verkan skáldskaparins honum til tekna (sjá hér að ofan). Með hinni miklu útbreiðslu kenninga Freuds á okkar öld hefur þvílík hugmynd um listina orðið næsta hversdagsleg að líkindum brygðist Platón við öllum hugmyndum af þessum toga með því að ítreka það sem við höfðum eftir honum núna síðast, að öll þessi tilfinningapæling, sjálfsrýni og upphafning hins röklausa, sem nú ber mikið á, glepti okkur frá verðugri hlutum og sé á endanum bara ein mynd nautnaviðhorfsins til listarinnar sem áður var nefnt. Þegar véfréttin í Delfum sagði „Þekktu sjálfan þig!“, átti hún síst af öllu við þetta.

Í þriðja lagi, býst ég við að skáld almennt uni því ekki að athuguðu máli að skáldskapur þeirra hafi ekkert með sannleikann og miðlun hans að gera, þótt mér virðist afstaða skálda og bókmenntamanna nú á dögum oft fremur óskýr og blendin að þessu leyti. En flest skáld munu líklega fallast á svofellda rökhendu – ekki bara tilneydd vegna ágengni heimspekinga, heldur hafa þau flest hugsað eitthvað svipað sjálf: Alvarlegur skáldskapur segir eitthvað sem skiptir máli; það sem skiptir máli hlýtur að vera satt; þess vegna segir alvarlegur skáldskapur satt. Eða þá þau vitnuðu í Keats og segðu: „Fegurð er sannleikur, sannleikur er fegurð“. En líklegt er að skáldin freistuðu þess að ætla skáldskapnum einhvern annan sannleika en þann sem hversdagshugsunin, heimspekin eða vísindin keppa að.12 Ef til vill munu þeir segja, að til séu sannindi sem ekki verði tjáð svo að vel sé nema með skáldskap; skáldamálið og allur búningurinn sé ekki eintómt skraut, heldur eina leiðin til að nálgast suma hluti. Ef til vill munu þau segja að sannleikur þeirra sé ekki algildur, heldur afstæður og persónubundinn sannleikur. Eitthvað sem er satt fyrir mér en þarf ekki að vera satt fyrir öllum.

Á dögum Platóns voru raunar uppi menn sem töluðu á þessa lund. Hinn rómaði fræðari Prótagóras sagði að maðurinn sé mælikvarði allra hluta og enginn algildur sannleikur til. Platón átti ágæt svör við þvílíkum kenningum, sem ekki er tóm til að rekja hér í smáatriðum – þau eru ítarlegast útfærð í samræðu hans Þeaítetosi – en meginhugmyndin er sú að alltaf sé hægt að sýna fram á að sá sem veifar afstæðum sannleika sé sjálfum sér ósamkvæmur og gangi í rauninni að algildum sannleika vísum. Þetta virðist mér sjálfum trúlegt og eiga við um afstæðishyggju á okkar tímum líka. En þeir eru furðulega margir sem halda nú á dögum að ef einhverjum sýnist eitthvað vera svo, þá sé það svo fyrir þeim, og að það sé eini sannleikurinn sem um sé vert.13 Í raun er þvílíkum hugmyndum oftast haldið fram í gáleysi, og þeir sem það gera ganga að algildi sannleikans vísu, ef ekki í kenningum sínum beinlínis, þá alla vega í verki.

En nú er ekki alveg öll sagan sögð. Vel má vera að skáldin hafi eitthvað til síns máls, þó að það væri óhyggilegt af þeim að reyna að bera við afstæðum sannleika. Þau gætu reynt að svara Platóni fullum hálsi án þess að hætta sér út í rökræður um eðli sannleikans eða um það hvort til séu verðugri umhugsunarefni en ástir, illdeilur og volæði sálarinnar. Vera má að eitthvert skáld teldi í sig kjark og stæði á fætur og talaði til Platóns með svofelldri ræðu:

„Ekki vitum við, Platón, hvort þér ferst nokkuð að vera að hnýta í okkur. Þú talar um heimspekina og hið algilda sjónarhorn hennar sem sé hafið yfir hverfulleik og duttlunga þessarar fáfengilegu tilveru okkar. Þetta hljómar svo sem nógu vel, en gaman væri að fá að sjá þó ekki væri nema brot af þessum algildu sannindum þínum. Hvar eru þau Platón? Sérstaklega virðist okkur að þér farist illa að vera með ónot við okkur, þar sem þú grípur einatt sjálfur til skáldlegra líkinga þegar þér finnst mest liggja við. Eða ætli heimspeki þín væri ekki flestum gleymd, ef þú hefðir ekki líkt okkur við fanga sem eyddu ævinni í að telja skugga? Og aldrei var sjálf frummynd hins góða svo skýr í huga þínum að þú þyrftir ekki að grípa til líkingar við sólina til að varpa ljósi á mál þitt. Er þetta ekki nóg? Er ekki alvel óþarft að nefna hestana og vagninn í Faídrosi, heimspekina í líki ástarguðsins Erosar íSamdrykkjunni og heimssmiðinn í Tímaíosi? Hefðirðu virkilega getað sagt allt sem þér lá á hjarta án þess að gerast skáld?“

Platón kynni að hafa svarað þessari ræðu með annarri, sem hefði getað hljóðað eitthvað á þessa leið:

„Þú misskilur mig alveg, minn kæri. Á endanum snýst málið ekki um búninginn sem menn íklæða hugsun sína, heldur um það hvað þeir eru að reyna að gera og hvernig þeir hugsa það. Ef skáldin hafa að leiðarljósi einhverja hugmynd um skáldskap sem sjálfstætt svið sem lýtur alveg sínum eigin leikreglum, þá hafa þau þar með skipað leitinni að hinu raunverulega og sanna í annað sæti eða þriðja sæti, ef ekki vísað henni á bug og gert hana útlæga úr sál sinni. Þar með hafa þau líka gengist blekkingunni á hönd. Góð list getur verið eins konar ímynd eða eftirlíking hins góða. Þess vegna blekkir hún jafnvel skynugasta fólk og fær það til að hætta að reyna að bæta sig. Það má kalla hana helgispjöll. Ef þú trúir á guðina, hvað sem þeir kunna nú að vera, þá veistu að krafa þeirra er hrein og skilyrðislaus. Hún er hið mesta í heimi. Þetta er líkt og þegar íþróttamaður á Leikunum neytir allrar orku sinnar, svo að hann hættir næstum lífi sínu. Listin mildar kröfu guðanna. Hún breiðir áferðarfallega blæju yfir þessa hræðilegu hinstu kröfu, þessa endanlegu ummyndun í hið góða, þetta lokaskref sem virðist næstum ómögulegt að stíga en allt mannlegt líf snýst þó í rauninni um.“14

 

Tilvísanir

1. Ritgerð þessi er að stofni til erindi sem var flutt hjá Félagi áhugamanna um bókmenntir 4. mars 1989. Ég hef þegið góðar ábendingar frá þeim kollegum mínum og vinum Gunnari Harðarsyni, Vilhjálmi Árnasyni og Þorsteini Gylfasyni. Kristjáni Árnasyni vil ég þakka leiðsögn um bókmenntaleg efni frá fornu fari og rökræður um þau og heimspeki fram á þennan dag. Ég sé, eftir að þetta er skrifað, að hann á talsverða hlutdeild í þessum hugleiðingum þótt skoðanir hans sjálfs séu ef til lítt bornar fram.

2. Sjá einkum 398 A-B, 595 A, 607 D-608 B.

3. Platón gerir greinarmun á þremur höfuðmyndum skáldskaparræðu: (1) hermiskáldskapur eða túlkun (mimesis), þar sem persónurnar tala í fyrstu persónu; leikrit, bæði harmleikir og skopleikir, eru dæmi um hreinan hermiskáldskap; (2) lýsing eða frásögn (diegesis), þar sem skáldið talar í eigin nafni eins og tíðast er í lýrískum skáldskap; (3) blanda af hermiskáldskap og lýsingu, en bestu dæmin um það eru söguljóð eins og kviður Hómers (392 C-398 B).

4. Erfitt er að túlka mál Platóns um þetta svo að það verði fyllilega sjálfu sér samkvæmt: annars vegar virðist hann leyfa í 3. bók vissan hermiskáldskap, þar sem góðum mönnum eru lögð orð beint í munn af skilningi; hins vegar segir hann í 10. bók, 595 A, að allur hermiskáldskapur hafi verið gerður útlægur, og er þar bersýnilega að vísa til þess sem kemur fram í 3. bók. Vera má að í 10. bók sé orðið „hermiskáldskapur“ notað í svolítið annarri merkingu en í 3. bók. Sjá R. Cross og A.D. Woozley, Plato’s Republic: A Philosophical Commentary, St. Martin’s Press: New York 1964, s. 270-288.

5. 598 B

6. 605 C-D.

7. 606 A-B.

8. 608 A.

9. 22 B-C.

10. Þetta er höfuðatriði í stórsnjöllu riti Iris Murdoch um skoðanir Platóns á skáldskap, The Fire an the Sun: Why Plato Banished the Artists, Clarendon Press: Oxford 1977.

11. Sjá Um skáldskaparlistina 1449b. Ritið hefur birst á íslensku í þýðingu Kristjáns Árnasonar (Hið íslenska bókmenntafélag: Reykjavík, 1976), sem einnig ritar inngang. Þar er fjallað um útrásarhugtak Aristótelesar og um fleiri efni sem hér eru á dagskrá.

12. Sjá áðurnefndan inngang Kristjáns Árnasonar að Um skáldskaparlistina, s. 26-7.

13. Afstæðishyggja af þessu tagi tekur á sig ýmsar myndir. Til dæmis má gera greinarmun á afstæðishyggju sem heldur fram að sannleikurinn (og þar með veruleikinn) sé afstæður miðað við einstaklinga og afstæðishyggju sem miðast við menningu eða svonefnda reynsluheima, t.d. kvenna, sjómanna, Selfyssinga eða vestrænna manna yfirleitt. Svo að dæmi sé tekið úr nýlegri bókmenntaumræðu á Íslandi, virðist mér Ástráður Eysteinsson fara nærri því að boða einhvers konar afstæðishyggju í „Er ekki nóg að lífið sé flókið?“, TMM 3/87 (sjá einkum s. 316-17). Afstæðishyggjan hér er að vísu milduð með því að gera ráð fyrir sjálfstæðum en óþekkjanlegum ytri og innri veruleika.

14. Þessi síðasta ræða Platóns er að talsverðu leyti byggð á máli hans hjá Iris Murdoch, Acastos: Two Platonic Dialogues, Penguin Books: Hammondsworth, Middlesex, England.

 

« Til baka

Introduction to Philodemus’ On Frank Criticism

eftir Clarence E. Glad

Introduction to Philodemus’ On Frank Criticism1

I. Philodemus’ Life and Works

 

In the first century BCE, an Epicurean community existed at Naples under the leadership of the Greek teacher Siro. At nearby Herculaneum, the Syrian Epicurean Philodemus, who was associated with the influential patron Calpurnius Piso, the father-in-law of Julius Caesar, was also attracting students from different walks of life. Philodemus was a former pupil of Zeno of Sidon, the scholarch of the Epicurean school in Athens, and of Demetrius the Laconian. What is more, he cultivated interests in literary and philosophical studies, thus escaping the charge traditionally leveled at Epicureans that they entertained a deliberate disregard for general learning; Cicero refers to both Siro and Philodemus as the “excellent and learned friends” of Torquatus.

Philodemus was born in Gadara in Syria c. 110 BCE and died c. 40/35 BCE. He was probably of Greek parentage and received a Greek education. The dates at which the Epicurean schools on the bay of Naples were founded are uncertain, but Philodemus may have arrived in Italy around the year 80 BCE. There is no secure evidence for the school’s existence after 50 BCE, although the fact that the Epicurean library at Herculaneum was preserved until the eruption of Mt. Vesuvius in 79 CE strongly suggests that it did not disappear until the early Empire. The evidence shows that the Epicurean schools in Naples and Herculaneum were important intellectual and literary centers in the first century BCE.

Philodemus’ scholarly interests are evident from the quantity of charred papyri preserved in the house in Herculaneum that may indeed have been the residence of the Piso family. There consist both of Philodemus’ transcripts of the lecture notes he took at Zeno’s classes in Athens, for example, his notes On Frank Criticism (Perì parresías, also known as De libertate dicendi), and of Philodemus’ own compositions, including writings on historical matters, on scientific method, on rhetoric, music, and poetry, on theology, including On Piety and On the Gods, and, finally, on ethics. Among the ethical writings are an introduction to ethics, a treatise in several books On Death, and a work in ten books On Vices and the Opposing Virtues, which includes one book On Household Management, one On Arrogance, and probably three books On Flattery. Finally, Philodemus wrote anEpitome on Conduct and Character, from the Lectures on Zeno, which contains a work On Anger and the above-mentioned On Frank Criticism.

The handbook Perì parresías – the only known work in antiquity with this title – is translated here for the first time into a modern language. It is of great importance for the social history of Epicuraneism, as it provides evidence for moral instruction in various Epicurean centers in Greece and Italy. The work offers hypothetical questions and answers on aspects of psychagogic theory as well as reflections on psychagogic practice. A complete description of the treatise is not possible, since the work is not extant in its entirety, but one may gain from the remaining fragments a fairly good picture of later Epicurean psychagogy and communal pedagogy. The kinds of blame that are deployed in the service of moral improvement, and the frequency of terms signifying error and correction, are significant in a work entitled Perì parresías, and indicate that parresía, when used in the context of moral reform, connotes the frank criticism of error. The most appropriate translation of Perì parresías thus appears to be On Frank Criticism. Before discussing the treatise itself, however, it is well to situate the concept of frankness of speech in its larger cultural context.

II. The Idea of Frankness in its Cultural Context

 

In the classical Athenian democracy, the word parresía was used in the political sphere to express the right of free speech of anyone who enjoyed full civic status in Athens. In the classical democracy, friendship had been embedded in a powerful ideology of equality and freedom from dependency. On the basis of this civic and democratic ideal, friends were imagined as constituting a network of social equals, bound by personal affection and committed to offering one another mutual assistance; their status was chosen and thus distinct from ascribed statuses, such as kinship and citizenship. In a context in which citizens derived their equality from their participation in a democratic city, the right of free speech pertained to anyone who enjoyed full civic status at Athens. The term parresía, accordingly, “represented democracy from the point of view of equality of rights.”Parresía seems to have had no special association with the idea of friendship at this time, although liberty of speech was naturally taken for granted as a principle obtaining among friends, just as it obtained among fellow-citizens in general, all of whom were equally entitled to express themselves without fear of neighbors or of those in power. From the time of Isocrates onward, however, frankness came increasingly to be perceived rather as a private virtue, and more particularly as an integral element in friendship. The conception of friendship itself, indeed, had undergone a subtle change.

With the rise of the Hellenistic kingdoms and the dependency of Athens upon foreign powers, there was a shift in the political discourse of free speech and, correspondingly, the focus of treatises on friendship underwent a palpable change: “Parresía as a private virtue replaced parresía as a political right.” As a private virtue, parresía denoted that personal candor which was prized between true friends, as opposed to the political liberty to declare openly one’s opinion in the civic space or assembly. The emphasis on social equality in the discourse of friendship that was characteristic of the popular democracy now gave way to a concern with relations between powerful figures, whether monarchs or wealthy aristocrats, and their retinues, who were conceived of as bound to their patrons by amicable ties. Attention shifted from the theme of equality to such issues as integrity and frankness, and the danger represented by self-seeking flatterers in the entourage of the rich and powerful. As the egalitarian assumptions behind the universal right to self-expression gave way to an ideology centered on rank and authority, it became necessary to insist on parresía as a duty incumbent upon friends without regard for rank or station rather than to prize it as a universal mark of citizen status.

The shift in the meaning of parresía from freedom of speech to personal candor is coordinate with the change from the egalitarian city-state to a regime of powerful rulers in a position to dispense patronage. With these changes, the figure of the flatterer became a key subject of ideological attention. Flattery was now seen as a corrupt form of participation in the entourage of grandees and emerged as the antithesis of the personal integrity and frankness expected of loyal associates. The central issue in discussions of friendship became trustworthiness among friends, especially on the part of the subordinate partner in the relationship, who was often suspected of employing flattery in the hope of personal gain. Since flatterers could simulate frankness, techniques were devised to detect such imposters and receal them as false friends and adulators.

Essays by Plutarch and Maximus of Tyre on how to distinguish flatterers from friends reveal this set of concerns in the Roman period, as do treatises dealing with flattery and related vices. In the latter portion of his treatise on how one may distinguish a true friend from a flatterer, Plutarch discusses in detail the topic of frank speech; the reason is that parresía is the primary indicator of the candor characteristic of the true friend as opposed to the deceitfulness that marks the toady.

The term parresía, then, which in the classical democracy had signified the right of all citizens to express their views unhindered, designated under the Hellenistic monarchies the virtue of frank speech, not only as practiced by a subordinate in conversation with his superior but also as employed by a philosophical teacher seeking to heal the psyche of his disciples. In the latter context, where parresíawas now part of the vocabulary of the Hellenistic philosophical schools, the concern was with frank criticism in relation to instruction, that is, the nurturing or therapeutic use of parresía. Disciples required honest and constructive correction: on e needed to administer just criticism in a temperate way, avoiding both the excessive harshness that might discourage the moral improvement of the disciple and a lenient indulgence of the aspirant’s lax ways.

Where the idea of friendship was adopted as a figure for the relationship among members of a philosophical school, the frankness encouraged between pupils was naturally associated with the language of friendship. On the basis of friendship, a disciple might have the courage to reproach other disciples boldly, being inspired by an unfeigned goodwill to use plain language without spitefulness. Not only is frank speech “akin to friendship,” it is the “language of friendship” and the “most potent medicine in friendship,” to be employed in mutual moral reform among friends.

The topic of frank speech is thus integral to the theme of moral education, or the correction of faults among friends to effect an improvement of character. Already in Isocrates, as we have seen, one finds the change in connotation of the wordparresía from the right of free speech of citizens generally to that of candor between friends in particular, in relation to various other private virtues. A high point in this development is The Pedagogue of Clement of Alexandria, who discusses the function of hortatory blame or parresía on the part of the Divine Word itself. The treatise On Frank Criticism, in which Philodemus discusses frank speech under the topic of how and when frankly to reprimand one’s friends’ failings, is a valuable instance of this tradition.

III. The Nature of parresía in Philodemus’ Perì parresías

 

It is abundantly clear in Philodemus’ treatise On Frank Criticismthat the topic of frank criticism in moral reform (perì parresías) is part of the topic of friendship (Perì filías). Members of the group admonish and censure each other in friendship, “for they think that it is the part of a friend to apply frank criticism and to admonish others…”; such tasks are expected of those who hold “the office of a friend”. A forthright attitude toward others is part of this ideal; or, as fr. 28 puts it: “Even if we demonstrate logically that, although many fine things result from friendship, there is nothing so grand as having one to whom one will say what is in one’s heart and who will listen when one speaks. For our nature strongly desires to reveal to some people what it thinks.”

The treatise On Frank Criticism appears together with On Anger in a larger workOn Conduct and CharactersOn Anger reveals that the Epicurean community of friends had two aims: reform of character and theoretical inquiry. Anger thwarts the progress of people both because they do not share in the good of joint inquiry and because they cannot endure the rebukes or corrections of their teachers and fellow students. Reform of character is requisite for progress in wisdom and requires the correction of errors and passions. The Epicurean ideal of fellowship and mutual aid demanded, accordingly, the active participation of friends in the education and correction of one another, and On Frank Criticism is our prime evidence for the nature of that practice.

Frankness is conceived in the treatise as the opposite pole of the vice of flattery. The virtue that Philodemus contrasts with flattery, however, is not so much frank speech as such but rather friendship. Philodemus’ discussion of flattery and friendship draws on Aristotle’s understanding of virtue as a mean between two vices: friendship, accordingly, is the mean between flattery and enmity. Just as frank speech is a sine qua non of friendship, so ready assent, speaking in order to please, and praise are characteristics of flattery. Whatever the relation between Philodemus’ classification of frank speech in light of earlier discussions of friendship, however, it is clear that frankness, flattery, and friendship constituted a distinct triad in his thought, as it did in Hellenistic discourse generally. PHerc. 1082 is pertinent here:

Let us make it clear to them that the goods of friendship are very durable and that flattery is the antagonist of friendship; let us also consider well the goods that arise from frank speech, both (the frank speech) directed towards one’s intimate associates, and (the frank speech) directed towards all men, and let us avoid as vain the company of adulators, and still more let us not mix with them but seek cohabitation with those who speak candidly.

The admonition encouraging readers to seek to live with those who speak freely and avoid those who flatter continues the contrast between flattery and honest conversation at the beginning of the section. For the Epicureans, conversation and reasoning together are indispensable. Parresía is a type of homilía, intimately connected with friendship, though it is classified neither as an art nor as a virtue; rather, frank speech is an approximate or conjectural method used by friends in the therapeutic technique for the healing of souls, comparable to the methods employed by physicians in the art of healing and by pilots in the art of navigation.

In Philodemus’ view, parresía has two aspects, one directed “toward all men” and the other “toward one’s intimate associates”. There is a good example of the former aspect in Lucian’s essay, Alexander the False Prophet, in which Lucian assumes the role of a rational Epicurean who, together with Christians, attempts to deflate the false prophet Alexander of Abonouteichos and his claim to a special standing with the divine. Frank speech was a weapon in the Epicureans’ agitation against oracle-mongers and in their program of enlightening people generally concerning the workings of the universe, with a view to combating the fear of death associated with certain kinds of beliefs concerning the gods. The latter, or more intimate aspect of frank speech served more particularly to form character and to counter psychological disturbances and fears of other people. Such fears, like the fear of the gods, of the unpredictability of the universe, and of death, were counted among the anxieties that destroy human happiness.

Philodemus’ On Frank Criticism discloses a form of psychagogy that depends upon the active participation of all members of the community in the correction of one another. Thus, frankness is not only a pedagogical strategy on the part of the teacher, but also involves openness and the revelation of personal faults among both fellow-students and leaders for the sake of the moral development of the disciples. The teacher himself may also stand in need of criticism on occasion. Frankness, then, includes both the practice of balanced criticism as undertaken by the sage and the disclosure of private sentiments for the purpose of correction.

The Epicurean friends are encouraged not to conceal their faults but to confess them and bring them out into the open for criticism and mutual correction. “Confessional practice” is a somewhat anachronistic expression but it describes this activity well. Some of the fragments refer to the reporting of errors and indeed of spying, as well as the reluctance of some members to be forthcoming about themselves. Problems connected with communal living and the conditions of collective life, together with the focus on moral therapy through mutual criticism, may in part explain the preoccupation with openness or self-disclosure and the contrary danger of concealment. But the frankness and candor was a means towards correction and improvement, as well as a barrier to dissension with the group.

V. A Thematic Overview

 

Throughout the epitome, the focus is on the teachers and their methods, and on different types of students and their reactions to frank criticism. Particular emphasis falls on the participation of all in a process of mutual evaluation and correction. Four aspects of Epicurean correctional practice are evident: first, self-correction; second, correction administered by others; third, members reporting errors to teachers to be corrected; and finally, the wise correcting one another. Self-disclosure between fellow-students and the wise is consistently encouraged.

The treatise also examines the different types of teachers and their personal dispositions, as well as the methods or ways of applying frank criticism appropriately in view of the various types of students. The students, for example, must learn to recognize the different types, never to give up, and not to treat everything. The teacher’s own intellectual acumen and moral disposition come under inspection, those who are envious toward others, those who can not abide frank criticism, gentle teachers, those who err, and how teachers fail or succeed in applying frank criticism appropriately.

Similarly, there are different types of students, with their several dispositions, for example, those who accept frank criticism graciously, those who cannot tolerate it, those who pretend to endure it, those who vehemently resist it, and those who respond with bitterness or become alienated intellectually when criticized. There are references to strong students, weak ones, tender ones, confused ones, those who are either too shy or too intense, sociable ones, the recalcitrant, the passionate, the obdurate, those who are puffed up or disobedient, the irascible, the incurable, those difficult to cure, pretentious ones, and those of a lesser intellectual ability. We also find reference to students who are well-disposed towards the instructors, earnest in their goodwill, and thankful, those who are improving, and those who have received different kinds of upbringing.

The epitome of On Frank Criticism further reveals a dispute among Epicureans over methods of correcting disciples in the process of moral reform within the school. This debate centered on the appropriateness of harsh treatment in the cure of moral ills and the adaptation of frank speech to different recipients. Philodemus has a positive view of the human condition and the possibility of improvement. All make progress, but some have matured more than others. He rejects an inconsiderate and abusive approach to moral ills, advocating rather a gentle kind of treatment. One should not revile, scorn, or treat those who err spitefully, but should rather sympathize with them; their natural weakness should be pitied and forgiven, and the teacher should apply frank speech opportunely and cheerfully in order to increase the goodwill between him and those who are being prepared. If the young are ridiculed or inopportunely reproved, they become downcast, accept criticism badly, and cannot endure to listen to the teacher with goodwill. Excessive harshness may cause students to disassociate themselves, psychologically or physically, from the community.

In the context of this debate, students of two distinct general dispositions are mentioned, the “weak,” obedient ones and those who are “strong” or disobedient. The former are also referred to as those who are insecure in their new philosophic way of life or those who shun philosophy, whereas the latter are the stubborn or recalcitrant pupils, who cannot tolerate frank criticism on the part of others or violently resist frank speech; they are also called irascible, incurable, and difficult to cure. Philodemus also refers to members of the community as “those in preparation” or the “young,” though the “young are beginning students of philosophy generally, irrespective of their age. He refers to the same group as students or fellow-students, neighbors, disciples, laymen, children, companions or friends. Sometimes, the pupils are simple referred to as “some” (sc., of the friends). Each of theses types needs a specific kind of treatment. The ability of the young, whatever their disposition, to bear the frank speech of the sage is a major concern of the handbook.

Besides discussing different types of pupils and the effect frank criticism has on them, Philodemus considers in the last three section headings negative reactions towards frank criticism on the part of persons of different social standing, gender, and age. Those particularly resentful of frank criticism include illustrious people, women, and old men. In the case of women, part of the problem is their greater psychological insecurity. Women believe that the “weakness of their [nature]” should be pitied and impute impure motives to those who admonish them, believing that they are being reproved out of contempt. They also feel disgraced by reproach, since they are “too impulsive and too vain and too fond of their [reputation]…”. The illustrious too believe that they are criticized out of impure motives, or out of envy or hate, because of their good fortune. They have become accustomed “to being conversed with graciously by everyone”. In the case of old men, it is noted that they tend to think they are more intelligent because of their age, and that they should be honored on account of it; they also think that some people criticize them “out of contempt for their weakness”.

Philodemus is, however primarily concerned with the effect frank speech has on pupils of different characters or dispositions. The first nine topic headings and the first fifty-two fragments all deal with this issue in one from or another. Thus, the opening fragments deal with the instruction of neophytes and their dispositions, with the instructor’s way of approaching them, and with the relationship between the two. The emphasis falls immediately on the method of criticism and its use in relation to different types of students, a topic that will recur throughout the treatise. The question raised of how to behave toward one who vehemently resists frankness receives extensive treatment.

The teacher will indeed be frank with the one who has erred “and even with him who responds with [bitter]ness,” but he reproaches “in moderation”. In view of the different types of students, he is careful and flexible, treating each appropriately by utilizing whatever means are at his disposal. The teacher “touches upon” a “sociable” person “in accord with his character” and may ascribe errors to others and even to himself as a heuristic device. He can use a mixed form of frankness involving praise and blame, or a simple form using blame alone, “believing that it must be risked [if] otherwise [the students] do not pay heed”. Towards those “stronger than the tender ones and those somewhat more in need of treatment,” the teacher intensifies his frankness and “will employ the harsh form of frankness”. The teacher will criticize “exceedingly up in the recalcitrant students but will persevere, saying to them “again and again, ‘you are doing [wrong]’…”.

If the teacher does not adapt his methods in view of different types of students, they may become disheartened and the teacher’s labor will possibly be in vain. “And surely he will always fashion his words without anger [so as] not [to wrong] [further?] those who are treated roughly [by him]”; but if a recalcitrant person maligns someone, the teacher will censure him, albeit carefully, since “the one [who talks back] does not say [sound things]” and may become “alienated intellectually”. A “vehement person” thus needs appropriate treatment, “but it is not possible [to see] the individual character even of the well disposed [if they are concealed]”. This is the first reference to the issues of openness and concealment, which will be discussed in detail.

Frs. 16-18 allude to the problem of putting up with harsher forms of frankness and to instances in which the wise are slandered, a theme that is related to the issue of the negative response of students toward frank criticism that has been in view from fr. 5 onwards. Frs. 19-22 further characterize the recalcitrant and “base person” and refer as well to maledictions and insults, and to the teacher’s harsh response to the foolish student. We encounter also the warning that one should admonish or treat disciples with “[moderate] words” and advice, this in reference to a “pardon meted out for the things in which they slipped up”. The mention of “individual traits” of “great people” indicates that sensitivity was required on the teacher’s part in respect to students of different social standing, along with the necessity of adapting his method of instruction accordingly. These fragments, then, have focused on the different types of students and the appropriate ways of addressing their specific needs and reactions.

Although some of the fragments that follow are particularly lacunose, they seem still to focus on pedagogical method. Fr. 23 may refer to play-acting on the part of the teacher; it is again noted that the teacher has to deal with different kinds of students, for example, evil people he chances to encounter. Fr. 25 focuses on negative responses, asking “how, through frankness, we shall heighten the good will towards ourselves of those who are being instructed by the very fact of speaking frankly”. Just as the students are to visualize their errors, so too the teachers are to form an image of which method may be most effective: “Let us before our eyes also the difference that exists between a caring admonishment and an irony that pleases but pretty much stings everyone”.

Fr. 28 emphasizes the intimate relationship that exists among the Epicurean friends. Fr. 29 is obscure, but fr. 30 seems to focus on the student who is still dependent in “external things” and “pays less attention to his own injury”; such a person is “vexed at other things and in particular [suffers at the reproaches]….” Fr. 31 refers to “young men” who are “…very irritated whenever [they are going to be reproached]…”; these [accept] with annoyance what is said in frankness” and “cannot possibly endure [to listen] to [a teacher?] with goodwill”. Fr. 32 appears to focus on some of the teachers, who “[proceed gradually] to admonishment … just as others have seemed to heal suddenly, and contrary to [all expectation].” It also refers to the benefits received from frank criticism as a step in the students’ progress.

Frs. 5-33 have collectively attended to the need on the part of teachers to administer their frank criticism appropriately in view of different types of students, particularly those who respond negatively to criticism. Frs. 34-52 give a more detailed account of the tension-filled social reality of a community of friends of inferior and superior station frankly criticizing each other in the reciprocal endeavor to be “saved by one another.” Philodemus recognizes that differences in social status complicate the task of the teacher: a humble Greek instructing a powerful Roman aristocrat may pose ticklish problems in a hierarchical society. Although Philodemus contents himself with offering some practical advice on how to treat students of high station, the problem surfaces in various parts of the epitome. The superior disciples should “endure admonishment graciously” and should at times, although it is acknowledged to be difficult, obey those who are “too young in condition”. Despite the fact that students themselves, and possibly teachers and students alike, are made subject to one another in turns, “the encompassing and most important thing is” that they all “obey Epicurus, according to whom [they] have chosen to live…”.

Occasionally, Philodemus speaks of the wise as “perfect”, in contrast to one who fails to understand, or who is senseless or ignorant. Nevertheless, the wise can still progress in their use of frankness and in their attitude toward others, and may themselves have to be corrected. The wise should thus not hate those who commit pardonable mistakes, “for how is he going to hate the one who errs, though not desperately, when he knows that he himself is not perfect and rem[inds himself that everyone is accustomed to err?]”. Goodwill and respect for others should govern the relationship between students and their leaders. One ought not to be “[frank in a haughty] and [contentious way], not to [say any insolent] and contemptuous or disparaging things”, nor should one remind others of their errors in anger.

In this tightly-knit social network of mutual correction, self-disclosure is paramount; “to act in secret is necessarily most unfriendly”. The section heading in fr. 53, the first of twelve to occur henceforward in the fragments and columns, expands on the topic of self-disclosure: “Whether they will declare things of their own and of one another to their fellow-students?” This topic draws attention to an important dimension of Epicurean communal psychagogy. Apparently, not only was self-disclosure expected of the students but also the reporting of the errors of others to their fellow-students for correction. This should not only be done on a one-to-one basis but also in public, “in the presence of the students”.

A new section heading in fr. 56, “…[Whether it seems to us that one will slip up in accord with] the [perfection] of reason [by means of what is preconceived]” directs attention to the teachers, their intellectual acumen and moral disposition. Although it is questionable whether the wise can fail with regard to the perfection of reason and prudence, apparently they can become angry and fail in their application of frank criticism. The possible failure of the wise in their use of frank speech is approached by way of an explication of how frank criticism is administered in various cases, and illustrated by medical imagery.

As the epitome continues to explicate the way in which the wise may apply frank criticism appropriately, different types of students figure again into the discussion. Sometimes the students accuse the wise of being angry, and sometimes they shun philosophy and hate the wise and do not benefit from frank criticism, although they submit to it, because they are either weak or incurable. Some are passionate or obdurate and disobedient and can deteriorate from a better to a worse condition. This enumeration of various types of students who respond differently to frank criticism leads naturally to the third topic, introduced in fr. 67: “Whether he will also speak frankly to those who do not endure frank criticism, and to one who is [irascible]…”. This question is indirectly answered in frs. 67-70 by describing the subtle nature of the artistry of moral guidance, with reference to the practice of doctors “who treat also one who is reasonably believed that he is not going to recover from his disease…”.

The fourth topic is introduced in fr. 70 – “How will he handle those who have become angry toward him because of his frank criticism?” – and develops further the reaction of students towards the teacher’s frank criticism. In the face of the students’ anger, the teacher “will endure what confronts [him] moderately and not as something groundless,” knowing that they were previously ashamed when admonished.

The fifth topic heading in fr. 74 presents a series of questions regarding the disciple: “whether he is well-disposed toward us; whether he is intense in his goodwill; whether he has jettisoned some of the things charged against him, even if not perfected in everything, whether toward us and toward [others] he will be [thankful]…”. These questions are not fully dealt with in frs. 75-80 before the next topic is broached. Some of the topics, though, are touched on in subsequent fragments; others, for example, the issue of goodwill and gratitude and that of the students’ progress, have already been discussed in frs. 1-52. Teachers are not the only ones who administer reproaches; students are both to report the errors of their fellow-students and to present themselves for correction to other students.

If fr. 76 has the teachers in view, it presents intriguing evidence for mutual psychagogy. The teachers hold up before the eyes of the students both their own errors and those of others. The practice is that of visualizing errors, of “putting mistakes in front of the eyes” of those at fault in order to facilitate their improvement. In addition to registering disapproval of excessive harshness and a caution against the desire to harm others, frs. 77-79 contain some harsh warnings for the practitioners of moral guidance, whether teachers or fellow-students. People should not be reproached for everything, nor ought one to criticize “continually, nor against everyone, nor every chance error, nor [errors] of those whom one should not [criticize] when they are present, nor with merriment, but rather [to take up the errors] sympathetically [and not to] scorn [or insult] on…”. Fr. 80 differentiates between those “favorably disposed” toward the teachers and those who are not. The fragment also advises that one honor those who “scrutinize one.” Presumably because one has profited on account of the teachers’ love and goodwill; the students are obliged to show their teachers goodwill.

The sixth section heading focuses exclusively on the wise, asking “whether a wise man will communicate his own [errors] to his friends with frankness”. The wise will disclose their errors but presumably only to those who are suited to know them. Such forthrightness will benefit both the wise and others and should be practiced in an appropriate manner and not, for example, in a spirit of showing off. When the wise err like “young people,” they should be “whipped,” that is, reprimanded. The next fragment picks up the issue of chastising the recalcitrant by drawing an analogy between the practice of the instructor and colt-tamers; “the [wise man], being a person-tamer, [probes] the disobedience of a young man who is [arrogant]”. A wise person will, “in the presence of many friends … practice a [very tentative] frankness”; it is not clear whether this statement is a response to the question raised in fr. 81 of whether the wise will disclose his errors to his friends. If so, the fragment indicates that when a wise man corrects the mistakes of another, he will be careful of the context.

References to students who have been “unexamined earlier,” “disregarded as untreatable” and finally “recognized” and “restored fully,” to “one who is ashamed” and addressed frankly again and again, to the “very shameful conditions” of some, and to “those who have no passion to be treated” all give evidence of the regular evaluation of a diverse body of individuals. The last fragments of this section contain reflections on the teachers’ characters and the question of moral guidance. The teachers who are “extremely cheerful and friendly [and] gentle” will “speak frankly again and again” regarding some things; they try “persistently [to] tame people into love for themselves, [subt]ly helping [through] doctors even those who have no passion to be treated”; when the teacher is “[responding to an error or reproach that is] bearable and expected to cease, he will not be angry with an anger that hates, but rather with one that blames foolishness…”, and he reproaches people with “moderate reminders”.

The seventh section heading, “How will we recognize the one who has endured frank criticism graciously and the one who is pretending [to do so]?”, signals some of the social pressures faced by the pupils and underscores the perceptiveness required of one who dispenses moral succor. The issue raised in the eighth section heading, “…[to distinguish] one who is frank from a polite disposition and one who is so from a vulgar one”, relates to an apparent problem involving the teacher’s own nature in respect to the art of moral guidance. One who administers frank criticism should be morally advanced; he should be of a “polite disposition” and not of a base one. An analysis of character follows. The initial columns examine in detail the disposition of the ideal psychagogue and its contrary. Then the differences in the miens of the teachers are noted, as well as their approaches to different types of students, for example, the confused, one who is weakened or puffed up, or too shy or too intense, or those students who have had different kinds of upbringing. The following fragments consider how various students employ frank criticism and progressively master the technique. Cols Via-VIIb again pick up the theme of different approaches on the part of the teachers toward different types of students.

With Cols. VIIa the focus shifts to mutual frankness among the wise, both in private and in public. Cols. VIIIa-XIa recognize that the wise may “reason falsely” and err and be themselves in need of correction. In cols. XIb-XIVb, the relationship between those being instructed, whether laymen or more advanced individuals, and the wise comes to the fore; sometimes the wise man will not tolerate much frankness on the part of those who are to be instructed by him, and on other occasions he will. Cols. XVa-XXb continue to focus on those being instructed and the relationship between them and their instructors. Two groups of people emerge in the discussion: those in need of advice and those whose role it is to give it. The former group is further divided into those capable of accepting advice and those who remain obdurate; the counselors, in turn, are discriminated into those who give advice effectively and those who fail to do so. Cols. XVa-XVIIIb address teachers who do not know how to manage obdurate pupils, and then those pupils who give the impression of being open to plain speaking but in fact are not: there is a danger here of mistakes in judgment on the part of the mentors.

Cols. XVIa-XXIb in part address problems of moral and intellectual acumen, and call attention to pretentious students or aspiring teachers who have a desire for reputation, believing that they are faultless and that they are “more suited to speaking frankly” because “they think that they are more intelligent that [others]…”. When they recognize that others are wiser than they, the situation becomes acute, as the ninth section heading indicates: “…how, [when they recognize] that some of their number are more intelligent, and in particular that some of them are teachers, do they not abide frank criticism?”. The answer given reveals differences of opinion among Epicureans as to who has the right frankly to criticize others; such a one must surpass others, not so much in “theoretical arguments” as in character, being able to perceive what is best in the affairs of real life.

After addressing the tensions caused by variation in intellectual ability, Philodemus turns his attention to persons of different social standing, gender, and age. Here, as in the case of the different types of students, the major concern is the fact that different people respond differently to frank criticism. The one who provides care is advised to keep this simple truth in mind, and indeed the several themes that arise in the epitome are all bound up with this one overarching issue.

VI. Medical Surgery

 

Although the application of the language of disease and cure to the philosophical enterprise was widespread in antiquity, the conception of philosophy as a medical art assumed in Epicurean thought a foundational significance. The pervasiveness of this conception is reflected in the epitome as well, not only through the frequent direct comparisons of philosophical activity to the healing arts, but also through the striking and repeated use of medical terms as more or less technical designations for the process of instruction within the Epicurean community of friends.

The medical analogy arises in the comparison of moral instructors to doctors, in references to diseases and medicines or to medical treatment and operations, and in references to sick people who are either incurable, undiagnosed, or untreatable. We also find references to symptoms of sickness, to people being saved, and to the restoration of well-being.

Philodemus uses medical imagery to throw light in matters of moral exhortation, on the means and methods of correct diagnosis and prognosis, the need for perseverance in difficult cases, and for patient care on the doctor’s part. In regard to medical surgery, therapy in Philodemus takes two forms, namely, medicinal and surgical, that is, cures by means of drugs or the scalpel, conforming in this to the Hippocratic norm. Pharmacy is of a mixed character in that it involves both agreeable and bitter medicines. Besides purgatives, such drugs as wormwood and hellebore are invoked. These medicines, like the surgical method itself, suggest the sharpness which is a necessary aspect of frank speech.

The medical model, then, in suggesting the mixed nature of exhortation, gives evidence of the need for good judgment on the part of Epicurean spiritual directors and underscores the legitimate use of harshness in moral exhortation, especially in the case of recalcitrant students. The point is emphasized in the analogies with hellebore, wormwood, and surgery to describe the therapeutic task. The most sustained use of medical imagery occurs just when Philodemus focuses on recalcitrant students. Their “sickness” is of such a nature that it requires more drastic measures than obedient students need.

The comparison with physicians underlines the conjectural or approximate nature of moral instruction, both in the evaluation of the students’ dilemmas and in the application of frankness in the treatment itself, and clearly indicates the need to adapt treatment to particular cases and the possibility that even a mature person may fail in the care of others. The method is conjectural in the same way as the art of the physician, the rhetor, or the pilot, that is, there are no general rules that are valid for all instances. Each situation creates a unique problem to which the pilot, rhetor or physician must adapt his skill. The art in question is thus subservient to the situation, for example, the weather at sea, the rhetor’s particular audience, or the nature of the patient.

VII. Conclusion

 

What general social practices may be inferred from Philodemus’ treatise On Frank Criticism as we have it, often depends on the tricky question of whether a particular fragment is alluding to teachers or students. In many cases, absolute certainty cannot be attained. But it seems clear that the care of souls among the Epicureans was communal and not restricted to a few members invested with pre-eminent authority. Philodemus is indeed concerned mainly with the candor that the teacher exhibits in relation to a student under his authority, but he also emphasizes that the teacher exhibits in relation to a student under his authority, but he also emphasizes the usefulness of frankness in general in advancing solidarity among the Epicurean friends and their mutual collaboration in moral development. Jus as some members of the entourage of the rich and powerful were expected, on the basis of friendship, to advise and correct the errors of their superiors, so too those of an inferior character and social position within the philosophical community were allowed to admonish others and to correct the errors of their moral superiors. The fragments thus reveal the connection between frank speech and the ideal of friendship as a commitment to reciprocal honesty, and invoke as well the kind of sincerity expected of an inferior in relation to a patron.

In the Epicurean communities, where friends of unequal power and status joined in mutual psychagogy for moral improvement, both symmetrical and asymmetrical forms of social relationship had their place. The system of psychagogy was rotational, and the one who provided care might next be the object of admonishment. The problems voiced in the epitome suggest that frank speech and openness among friends of unequal power and status were not a vague or abstract ideal but rather a tense social reality. Part of the purpose of the treatise is to address these tensions and present guidelines for their resolution. What is striking about this fluid system of rotational psychagogy is its collaborative nature: friends within the fellowship, whether teachers or fellow-students, are expected to participate in a process of mutual edification, admonition, and correction, all in spirit of goodwill and moral solidarity.

 

Tilvísanir

1. Þetta er stytt útgáfa af innganginum í: Philodemus: On Frank Criticism. Introduction, Translation, and Notes e. David Konstan, Diskin Clay, Clarence E. Glad, Johan C. Thom & James Ware. Atlanta, Georgia 1988.

 

« Til baka

Sólin, hellirinn og hugsanir Guðs

Hugleiðingar um Platonisma og samtímaheimspeki

 

eftir Eyjólf Kjalar Emilsson

Hægast er að gera grein fyrir frummyndakenningu Platons með því að leggja út af hinu íslenska heiti hennar. Frummyndakenningin kveður svo á að hversdagslegir hlutir eigi sér frummyndir: annars vegar höfum við allt sem við nemum með skilningarvitum okkar, menn, dýr og jurtir, réttláta breytni, góð lög og fagrar myndir, þríhyrninga, hringi og fjölda. En að auki eru til ósýnilegar frummyndir hvers og eins þessa: frummynd mannsins eða maðurinn í sjálfum sér, hesturinn í sjálfum sér, rósin í sjálfri sér og svo framvegis.1 Í rauninni er allt það sem við sjáum í kringum okkur aðeins skuggamyndir hinna ósýnilegu frummynda. Þessa skuggamyndalíkingu ber að skilja næsta bókstaflega: frummyndirnar eru raunverulegar í samanbyrði við venjulega jarðneska hluti á einhvern áþekkan hátt og hestur af holdi og blóði er raunverulegur í samanburði við skugga sinn eða spegilmynd. Hesturinn sjálfur, frummynd hestsins, er ósýnilegur eins og áður er getið. En við getum eigi að siður þekkt hann með huganum, hinu innra auga sálarinnar. Raunar er hesturinn sjálfur eini hesturinn sem við getum þekkt, því meiningar okkar um skynjanlega hesta eru of óskýrar og fallvaltar til að kallast þekking. Við þetta er því að bæta að það er aðeins ein frummynd af hverju tagi: þannig eru allir hestar sem við sjáum eins og skuggar einnar og sömu frummyndar, hestsins sjálfs sem er aðeins einn, og eins er um allt annað. Af þessari skuggalíkingu leiðir ýmislegt athyglisvert. Í fyrsta lagi það að frummyndirnar eru í einhverjum skilningi orsakir hinna hversdagslegu eftirmynda sinna eins og venjulegur hestur er orsök eigin skugga. Og í öðru lagi, þá er frummynd hestsins hestur; satt að segja meiri og raunverulegri hestur en sá sem við ríðum út eða gefum brauð í girðingu. Maðurinn í speglinum er líka óraunverulegri en sá sem stendur fyrir framan spegilinn.

Hvað kom Platoni, þeim gagnrýna manni, til að halda fram öðru eins og þessari kenningu? Svarið við þessari spurningu er margþætt en ég held að Harold Cherniss komi nálægt kjarna málsins í frægri ritgerð sinni, „Heimspekileg hagkvæmni frummyndakenningarinnar“.2 Í þessari ritgerð dregur Cherniss fram hvernig fjölmargt í grískum hugmyndaheimi á dögum Platons hneig í þá átt að engir algildir mælikvarðar væru til hvort heldur á þekkingu, á siðferði eða jafnvel á það hvað er til. Varðveist hafa fleyg brot tveggja af heldri hugsuðum kynslóðarinnar á undan Platoni sem sýna vel þessi viðhorf. Hinn kunni fræðiar Prótagóras frá Abderu ritaði bók sem bar titilinn Sannleikurinn.3 Hún er því miður glötuð en upphafslínur hennar hafa þó geymst og hljóða svo: „Maðurinn er mælikvarði allra hluta, þeirra sem eru að þeir séu, þeirra sem eru ekki að þeir séu ekki“.4 Og eftir Gorgíasi frá Leontíni, öðrum áhrifamanni þessarar aldar er haft: Ekkert er til; en ef eitthvað væri til, þá gætum við ekki þekkt það; og ef við gætum þekkt það, gætum við ekki komið orðum að því. 5

Hér er því miður ekki tóm til þess að rekja ástæður þessarar efahyggju og afstæðishyggju að neinu ráði. Tvö almenn atriði skulu þó nefnd. Í fyrsta lagi er rétt að minnast þess að þegar Prótagóras, Gorgías, Sókrates og Platon voru uppi höfðu Grikkir lagt stund á heimspeki og vísindi af kappi í hartnær 200 ár. Árangurinn var glæsilegur en ekki að sama skapi einhlítur. Ekkert lát var á því að hugvitsamlegar en þó gerólíkar kenningar kæmu fram. Þetta hlaut að verða til þess að hugsandi menn stöldruðu við og spyrðu hvort ekki hefði eitthvað farið úrskeiðis, hvort ekki gæti hugsast að eitthvað væri bogið við sjálfa viðleitnina við að höndla algildan sannleika: ef til vill var verkefnið mönnunum ofviða, ef til vill var enginn algildur sannleikur til. Í öðru lagi hafði sú hugmynd komið fram, að siðferðisefni væru mannasetningar, samkomulagsatriði. Ýmislegt var ólíkt siðferði ólíkra ríkja og þjóða og eðlilegust skýring á þessu gat virst sú að venjur, siðir og samkomulag hefði þróast með ólíkum hætti á hverjum stað. Þessi afstaða birtist til dæmis í máli Þrasýmakkosar í fyrstu bók Ríkisins. Engin augljós leið blasti við upp á einhvern hlutlausan sjónarhól þaðan sem dæma mætti um gildi ólíks siðferðis án þess að ganga að einhverju tilteknu siðferði vísu. Því varð einhvers konar afstæðishyggja um siðferði næsta áitlegur kostur. Hugmyndin um að gott og illt, rétt og rangt væru samkomulagsatriði var jafnvel svo máttug og heillandi að sumir freistuðust til að yfirfæra hana á önnur svið. Gat ekki verið að flestar, kannski allar skoðanir okkar væru samkomulagsatriði með áþekkum hætti og siðferðið?

Frummyndakenningin er viðbrögð við þessari stöðu mála. Platon ætlar frummyndunum einmitt að vera slíkir algildir mælikvarðar sem geri okkur kleift að fella algilda dóma. Til að sjá hvernig hann hugsar sér að þær virki sem algildir mælikvarðar getum við fyrst hugsað okkur litaspjald eins og notuð eru í málningarbúðum. Segjum að ég hafi áhuga á að vita hvort tiltekinn litur sem ég er með sýnishorn af sé beinhvítt eða ekki. Ég fer út í byggingarvöruverslun og ber sýnið saman við litaspjald sem ég finn þar. Á spjaldinu sé ég margs konar liti og undir hverjum þeirra stendur hvað hann heitir. Liturinn sem ég sé á spjaldinu er mælikvarði minn eða viðmið: sé sýni mitt eins og liturinn sem merktur er „beinhvítt“ á spjaldinu eða mjög líkt honum, þá ætla ég að sýnið sé beinhvítt. Frummyndirnar virka að sumu leyti með áþekkum hætti. Ef ég vil vita hvað er það, þá horfi ég á frummyndirnar. Og frummynd hringsins til dæmis er hringurinn uppmálaðir eins og liturinn á spjaldinu er hið beinhvíta uppmálað. En hér er líka margvíslegur munur. Í fyrsta lagi sá augljósi munur að í tilviki frummyndanna horfi ég ekki með augunum heldur huganum. Frummyndirnar eru ekki efnislegir hlutir sem numdir varða með skilningarvitunum. Í öðru lagi eru frummyndirnar algildari mælikvarðar en jafnvel litaspjöldin. Beinhvítt frá Hörpu er til dæmis alls ekki það sama og beinhvítt frá Málningu h/f. Frummyndin er hins vegar aðeins ein. Í þriðja lagi má gera ráð fyrir að litir á litaspjaldi máist og breytist með tímanum. Þá er ekki lengur að marka þá. Mælikvarðar sem breytast dag frá degi eru ótækir algildir mælikvarðar. Frummyndirnar breytast hins vegar aldrei, þær eru ætíð samar við sig. Sérkennilegasti munurinn er þó líklega sá að óþarft er að merkja frummyndirnar: hver og ein ber með sér hver hún er. Og sem meira er, það er ekkert um að villast. Frummyndir birtast ekki á þennan hátt frá þessu sjónarhorni, á hinn háttinn frá hinu, eða sýnast á einn veg í samaburði við eitt, á annan veg í samanburði við annað, heldur alltaf eins og eru alltaf allar þar sem þær eru séðar ef svo má að orði komast. 6 Í tilviki frummyndanna eru sýnd og reynd eitt og hið sama.

Þegar í fornöld þótti ýmsum frummyndakenningin glöggt dæmi um loftkastala heimspekinga. Jafnvel nemandi Platons, Aristóteles, gagnrýnir hana harðlega og segir að með henni sé ekki annað gert en að tvöfalda veruleikann að óþörfu og að kenningin skýri ekkert. 7 Þrátt fyrir þetta mótlæti hefur frummyndakenningin reynst býsna lífseig og áhrif hennar á heimspekisöguna eru ótvíræð. Sem dæmi um þau má nefna greinarmun skynjunar og skynsemi og ólíkra viðfanga þeirra, en hann er einn þeirra þráða sem ganga í gegnum heimspekisöguna. Þessi greinarmunur er platonskrar ættar, þótt margir þeir sem nota hann séu að öðru leyti fjarri því að aðhyllast frummyndakenningu í þeim búningi sem frumkvöðullinn bjó henni. Það er ekki síst fyrir áhrif af þessu tagi sem hin fleygu orð Alfreds North Whitehead að öll heimspeki eftir daga Platons sé aðeins neðanmálsgreinar við verk hans hitta svo vel í mark. En þrátt fyrir andóf Aristótelesar og annarra hélt frummyndakenningin velli í fornöld þegar svokallaður nýplatonismi varð allsráðandi í heimspekinni frá því um 300 e.Kr. og hún gekk raunar í nokkuð breytti mynd inn í kristna guðfræði eins og ég mun síðar víkja að. Á síðari öldum aðhyllast hana hins vegar fáir. Helst eru það stærðfræðingar og heimspekingar á sviði stærðfræðinnar sem hafa haldið fram einhvers konar frummyndakenningu um fræði sín, til dæmis margir helstu frumkvöðlar stærðfræðilegrar rökfræði í lok 19. aldar og á fyrri hluta þeirrar 20. svo sem Gottlob Frege, Bertrand Russell og Kurt Gödel.8 Einnig má víða heyra óm frummyndakenningarinnar í máli skálda og listamanna, svo sem þegar Halldór Laxness talar um hinn eina sanna tón sem ekki verið með eyrum numinn.

En yfirgnæfandi meirihluti atvinnuheimspekinga á okkar dögum vísar frummyndakenningunni á bug. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Ein er ugglaust sú að mönnum virðist kenningin, a.m.k. í þeim búningi sem Platon bjó henni, of skáldleg og ekki nógu öguð fræði til að taka hana alvarlega. Í öðru lagi gengur allur andi kenningarinnar þvert á ríkjandi viðhorf sem kenna má við raunhyggju eða efa- og afstæðishyggju. Flestir álíta að ekki einungis sé mestöll þekking – trúi þeir því á annað borð að þekking sé til – tilkomin með skynjun og reynslu, heldur séu hugtökin sem við höfum yfir að ráða hugsmíðar okkar, búin til úr efniviði skynjunarinnar. En samkvæmt frummyndakenningunni er þessu einmitt öfugt farið. Algengasta viðhorfi heimspekinga á okkar dögum til þessarar kenningar má ef til vill lýsa eitthvað á þá leið að Platon hafi vissulega haft nokkuð til síns máls er hann benti á mikilvægi hugtakanna fyrir hugsun okkar og skilning, en hann hafi miklað fyrir sér hlutverk þeirra og eðli með því að gera þau að sjálfstæðum veruleika sem bæði hugsun okkar og efnisheimurinn lúti.

Ofsagt væri ef ég lýsti því yfir að í þessari ritgerð myndi ég freista þess að verja og endurreisa frummyndakenninguna í upphaflegri gerð. Raunar tek ég undir þá skoðun að hún sé á ýmsan hátt of óljós til að geta verið boðlegur kostur eins og hún stendur. Ég skal líka vera fyrstur manna til að viðurkenna að hún er ótrúleg. Á hinn bóginn virðist mér einnig að það sé eitthvað ekki bara heillandi heldur líka skynsamlegt við þessa kenningu. Þetta hefur verið skoðun mín lengi. Hún hefur eflst við að hugsa um ummæli sem ameríski heimspekingurinn Richard Rorty lét eitt sinn falla á þá leið að auðvitað sé Platon besti platonistinn og kenningar sem halda fram algildum sannleika án þess að gera ráð fyrir hlutum sem „bera merki sannleikans utan á sér“ séu dæmdar til að falla. Með þessu á Rorty við að hefðbundin heimspeki sem leitist við að sýna hvernig heimurinn sé skiljanlegur hljóti að leggja til grundvallar eitthvað sem sé skiljanlegt af sjálfu sér, eitthvað sem beri eðli sitt utan á sér; að öðrum kosti detti botninn úr henni.

Richard Rorty sá er ég nefndi er með kunnustu heimspekingum samtímans. Innan fræðanna er hann umdeildur, ekki síst vegna þess að hann hefur gert uppreisn gegn heimspeki eins og hún er stunduð við háskóla víða um heim. Raunar beinist þessi uppreisn ekki eingöngu og fyrst og fremst gegn heimspeki samtímans, heldur ekki síður gegn meginstraumi vestrænnar heimspekihefðar allt frá Platoni til þessa dags. Í stuttu máli er söguskoðun Rortys sú að vestræn heimspekihefð sé að sligast undan platonskri arfleifð, sé raunar tilbrigði við, ef ekki neðanmálsgreinar við, platonskar kreddur. Þetta vill Rorty allt eins feigt. „Látum Platonisma hvíla sig í fáeinar aldir“ er vígorð hans.9 Helstar hinna meintu platonsku meinloka eru þær að til sé veruleiki með ákveðið eðli akveg óháð hugmyndum okkar mannanna; að mannshugurinn sé eins konar spegill þessa veruleika og eðli hlutanna speglist eða geti að minnsta kosti speglast í huga okkar ef okkur auðnast að beita speglinum rétt; að sannleikur sé einhvers konar samsvörun hugsunar okkar og heimsins; og síðast en ekki síst að mannleg skynsemi geti öðlast skilning á „Hinu góða“ og „Hinu raunverulega“, sem á einhvern hátt geti þjónað sem undirstaða og réttlæting hversdagslegra sanninda um hvað sé gott eða satt. „Hið góða“ og „Hið raunverulega“ eru hér eins konar tákn fyrir almenn heimspekileg sannindi. Nú er ekki svo að þessar skoðanir séu einber sérviska Rortys. Þótt þeir séu ef til vil ekki ýkja margir sem eru tilbúnar að fylgja honum í einu og öllu, eiga áþekkar hugmyndir sem freista þess að kollvarpa uppistöðum hefðarinnar talsverðu fylgi að fagna. Sundrunarheimspeki („dekonstrúksjónismi“) Frakkans Jacques Derrida er til dæmis sömu ættar og hugmyndir Rortys og nýtur hún mikilla vinsælda í mörgum greinum mannlegra fræða og gott ef ekki í byggingarlist.10

Rorty lítur ekki á sig sem frumlegan hugsuð eða gerði að minnsta kosti ekki í upphafi. Í Heimspekin og spegill náttúrunnar frá 1979 leggur hann einmitt áherslu á að skoðanir sínar séu eins konar rökleg niðurstaða af heimspeki aldarinnar. Hann lítur raunar svo á að ýmsir hafi verið komnir að sömu meginniðurstöðum á undan sér svo sem John Dewey, Martin Heidegger og Ludwig Wittgenstein. Rorty sér hlutverk sitt í þessu fyrst og fremst sem hlutverk mannsins sem dregur saman og tengir það sem fyrir liggur, skoðar það allt í sögulegu ljósi, og setur svo punktinn yfir i-ið.

Ein af söguhetjum Rortys, sem hann nefnir svo, er landi hans Wilfrid Sellars. Sellars ræðir í mörgum rita sinna hugmynd sem hann kallar „goðsögnina um hið gefna“ og hefur Rorty sérstakt dálæti á þeim þætti í hugsun hans. Goðsögnin um hið gefna er sú hugmynd að til sé eitthvað sem við þekkjum eins og það er, beint og milliliðalaust, eitthvað sem sýnir sig okkur á þann hátt að það hlýtur að vera eins og það blasir við okkur.11 Þetta er hið gefna. Hið gefna er einatt ómengað af hugmyndum okkar. Því væri ásýnd þess lituð einhverju sem við leggjum henni til, þá gætum við ekki fullyrt að það sem blasir við okkur sé sjálft eins og það birtist okkur. Það kynni að líta svona út vegna sem við leggjum því til. Á líkingamáli Rortys hljóðar hugmyndin um hið gefna svo, að til séu hlutir sem birtast í hugarspeglinum nákvæmlega eins og þeir eru, og, sem meira er, að af ásýnd þeirra blasi við að svona séu þeir.12 Að dómi Sellars gengur slík hugmynd um eitthvað gefið í gegnum heimspekisöguna. Hún er nátengd annarri hugmynd sem lengi hefur loðað við vestræna heimspeki, nefnilega þeirri að þekkingin hljóti að hvíla á traustum grunni. Grunnurinn sjálfur er gefinn, eitthvað sjálfljóst, og önnur þekking sem við höfum er svo reist á honum. Þessi hugmynd setur mjög mark sitt á alla heimspeki Descartes, eins helsta frumkvöðuls nútímaheimspeki, og margra sporgöngumanna hans síðan. Hjá Descartes er hið gefna fólgið í vitum hans sjálfs og vissu hans um hana. Því telur hann sig geta fullyrt: „Ég hugsa, þess vegna er ég til“. Á þessum sannindum, sem Descartes hyggur alveg óyggjandi, vill hann svo reisa alla aðra þekkingu.13 Hugmydin um gefinn grunn gegnir líka veigamiklu hlutverki í allri raunhyggjuhefðinni frá Locke og fram til rökfræðilegraraunhyggjumanna 20. aldar. Raunhyggjumennirnir tefla beinni skynreynslu, skynreyndum, eða öðru af því tagi fram sem hinu gefna.

Nú kallar Sellars hugmundina um hið gefna goðsögu, og á með því að hún sé tilbúningur. Að hans dómi reynist það sem heimspekingarnir leggja til sem hið gefna einatt ekki vera eins gefið og þeir láta í veðri vaka. Sérstaklega rekur Sellars af miklum skarpleik hvers vegna tillögur raunhyggjumanna um hið gefna sýnist ganga upp en geri það þó ekki ef grannt er skoðað. Raunhyggjumenn ætla að hið gefna búi í skynjun okkar. Þó telja þeir fæstir að efnislegir hlutir sem við sjáum eða þreifum á séu hið gefna – það virðist alltaf hugsanlegt að okkur skjátlist um slíka hluti – heldur búi hið gefna í sjálfri skynreynslunni. Tökum dæmi: Ég tel mig sjá þroskaðan tómat. Hugsanlega skjátlast mér. Kannski er enginn tómatur þarna. Kannski er mig að dreyma eða þetta eru ofsjónir. En hvað sem tautar og raular sé ég fyrir mér eitthvað rautt. Það verður ekki vefengt og þetta er það sem er gefið. Við getum allað þetta rauða sem birtist mér rauða skynreynd. Það er athyglisvert við skynreyndir eins og raunhyggjumenn lýsa þeim að þær virðast að þær virðast vera í senn eins konar hlutir (þó ekki efnislegir hlutir) og þekking á eða vitneskja um þessa sömu hluti: skynreyndin er rauð og hún er jafnframt bein, milliliðalaus vitneskja um eitthvað rautt. Einmitt þess vegna virðist hún vera eitthvað gefið: skynreyndin bæði er og er vitneskja um það sem hún er. Þess vegna virðist enginn möguleiki á skynvillu í tilviki hennar. Það kemst ekkert upp á milli skynreyndarinnar og vitneskju minnar um hana, vitneskjan um hana felur ekki í sér neina túlkun, heldur er hún fólgin í skynreyndinni sjálfri án þess að hugur minn leggi þar nokkuð af mörkum. En þetta er blekking, segir Sellars: við getum ekki skynjað eitthvað sem rautt í þeim skilningi að við vitum að það er rautt án þess að hafa náð tökum á hugtakinu „rauður“. En hugtakið „rauður“ er ekki gefið milliliðalaust heldur lært. Því er vitneskjan um hinn rauða flöt sem rauðan ekki bein, forhugtakaleg vitneskja, heldur felur hún í sér virkt hugarstarf þar sem við beitum hugtaki sem við höfum numið með ærinni fyrirhöfn.

Skynreyndir eins og ég hef lýst þeim eiga ýmislegt sameiginlegt með frummyndum Platons. Hvorar tveggja hafa til dæmis þann sérkennilega eiginleika að bera með sér hverjar þær eru: á hliðstæðan hátt og rauðleikur hinnar rauðu skynreyndar blasir við af henni sjálfri, geislar hver frummynd af eðli sínu þannig að þar er ekkert um að villast. Meðal raunhyggjumanna gegna skynreyndir líka að nokkru leyti áþekku hlutverki og frummyndirnar hjá Platoni: í fullskapaðri raunhyggju eru þær í senn grunnur þekkingarinnar, það sem önnur þekking hvílir endanlega á. Og uppspretta og mælikvarði merkingar orða eða hugtaka sem við notum. Til að kveða upp dóma um merkingu hugtaka vísa ég á endanum til skynreynda sem ég þekki beint og milliliðalaust. „Orðið ´rautt´ merkir svona á litinn“, segi ég og bendi innra með mér á upplifun mína af tómatinum þroskaða eða einfaldlega á rauðan flöt sem ég bý til í huga mér.

Þessari hliðstæðu langar mig til að fylgja svolítið nánar eftir. En áður en ég tek til við það vildi ég nefna fleiri til sögunnar, nefnilega aðra hetju Rortys, austurríska heimspekinginn Ludwig Wittgenstein og einnig amerískan samtímaheimspeking að nafni Saul Kripke. Raunar kann það að hljóma sem vanvirðing við Wittgenstein að kynna hann sem söguhetju hjá Rorty, því Wittgenstein hafði auðvitað áunnið sér sæti sem einn merkasti heimspekingur aldarinnar löngu áður en Rorty kom til sögunnar.14 Wittgenstein hefur lag á því að töfra lesendur sína eins og hann mun hafa töfrað marga sem kynntust honum í lifanda lífi. Allt sem liggur eftir hann hefur mjög sérstakan svip, ber með sér frumleika, alvöru og andlega áreynslu. En ekki er auðvelt að skilja Wittgenstein. Sjálfur hef ég að miklu leyti hliðrað mér hjá því að lesa síðari verk hans með það fyrir augum að mynda mér sjálfstæðar skoðanir á því hvernig allt hangir það saman.15 Á hinn bóginn þykist ég hafa skilið bók eftir hinn manninn sem ég nefndi, Saul Kripke. Sú bók heitir Wittgenstein um reglur og einkamál og kom út árið 1982 – ekki ber að skilja „einkamál“ í titlinum í þeirri merkingu sem algengust er, heldur í merkingunni tungumál sem notandi þess sjálfur fær einn skilið.16 Nú skipta bækur um Wittgenstein tugum, en með nokkrum rétti má eigna bók Kripkes sérstöðu meðal þeirra. Hún þótti strax forvitnileg þótt ekki væri vegna annars en að með henni tók ein skærasta stjarna enskumælandi heimspeki til máls um þann mann sem margir innan sömu hefðar telja mesta hugsuð kynslóðarinnar á undan. Það varð líka fljótt ljóst að hvort sem mál Kripkes stæðist sem túlkun á Wittgenstein eða ekki, þá var hugsunin sem Kripke ætlar Wittgenstein í bókinni afar áhugaverð í sjálfri sér. Enda hefur ekki staðið á viðbrögðunum: komnar eru út að minnsta kosti tvær bækur sem eru viðbrögð við bók Kripkes og fjöldi tímaritsgreina að auki.17

Meginhugmyndin i rökfærslu Wittgenstein, eins og Kripke útleggur hana, er sú að mælikvarðar á merkingu séu engir til. Nánar sagt þá er ekkert við sjálfan mig, hvorki sál mína né líkama, sem sker úr um nákvæmlega hvað ég meina með orði sem ég nota og hvað ég meina ekki. Segjum að ég sé spurður hvað 58 + 67 sé mikið. Ég svara eftir svolitla umhugsun að það sé 125. Hjá mér er staddur útsmoginn efahyggjumaður. Hann innir mig eftir því hvernig ég geti verið viss um að þetta sé útkoman fremur en einhver önnur tala, t.d. milljón eða 5. Ég segi honum að ég viti hvað samlagning sé og hvað „plús“ merki og sú vitneskja geri mér kleift að útiloka slík svör. En efasemdamaðurinn lætur ekki segjast og spyr hvort það sé einhver partur af skilningi mínum á orðinu „samlagning“ eða plústákninu að útkoman úr þessu tiltekna dæmi sé einmitt 125 fremur er 5. Ef til vill verð ég að fallast á að svo sé ekki, ég hafi aldrei lagt einmitt þessar tvær tölur saman áður, og alltént sé hin almenna hugmynd mín um samlagningu ekki listi yfir útkomur úr öllum hugsanlegum samlagningardæmum. Eigi að síður kynni ég að reyna að segja: „Ég veit hvað ég hef meint með ´plús´ og ´samlagning´ hingað til og ég veit að ef ég fylgi sömu reglum og áður þá er 125 rétta svarið, en svörum 5 eða milljón á hinn bóginn útilokuð.“ „Gott og vel“, segir efasemdamaðurinn, „segjum að ef þú ert að leggja saman, þá sé 125 raunar eina rétta svarið. En nú getum við hugsað okkur aðra reikningsaðgerð, ´rammlagningu´ getum við kallað hana, sem er alveg eins og samlagning nema hvað útkoman þegar þessari aðgerð er beitt á 68 og 57 er 5. Hvernig veistu nema það hafi verið rammlagning fremur en samlagning sem þú hafðir í huga? Er eitthvað einhvers staðar við þig sem sýnir að það hafi í rauninni fremur verið samlagning sem þú meintir hingað til?“ Því miður – eða ætti ég heldur að segja sem betur fer? – er ekki tóm til að rekja þessi orðaskipti frekar. Látum nægja að segja að Kripkenstein – svo skulum við nefna Wittgenstein eins og Kripke útleggur hann – komist að þeirri niðurstöðu að engin augljós svör af því tagi sem við væntum finnist við mótbárum efasemdamannsins og svo ótrúlegt sem það kann að ljóma, þá sé sú niðurstaða býsna sannfærandi. Sérstaklega er vert að benda á að ekki tjóir að svara efasemdunum á þá leið að túlkun mín á reglunni sem ég hef beitt við samlagningu hingað til styðjist við aðrar reglur sem útiloka svör á borð við 5. Að skírskota til annarra reglna færir vandann aðeins eitt skref afturábak en eyðir honum ekki: sé hægt að vekja efasemdir um að svarið 125 sé í samræmi við regluna sem ég hef stuðst við hingað til í áþekkum tilvikum, þá má eins vekja þær um innihald allra stuðningsreglna sem ég kann að skírskota til til varnar skilningi mínum á upphaflegu reglunni. Ef vafi kann að leika á túlkun orðs sem ég nota á þann hátt sem efasemdamaðurinn gefur í skyn, þá leikur sams konar vafi á túlkun hvaða reglu sem ég reyni að styðjast við til að réttlæta túlkun mína á upphaflega orðinu.18

Rétt er að nefna að þessar efasemdir eru á engan hátt bundnar við stærðfræðileg dæmi, heldur eiga þær jafnt við um merkingu annarra orða í málinu. Efasemdamaðurinn hefði eins getað skorað á mig að sýna fram á að notkun mín á orðunum „gaffall“ eða „skeið“ nú sé í samræmi við það sem ég hef hingað til meint með þeim. Hver veit nema að með „gaffall“ hafi ég átt við gaffla, nema svo vilji til að ég sé staddur í Iðnó milli 2 og 4, 7. desember 1991, en þá merki „gaffall“ það sem ég annars kalla hárgreiður? Annað atriði sem vert er að benda á er að í rauninni snýst þetta mál ekki um hugsanlega vafa og efasemdir.19 Kripke setur það bara þannig fram. Efasemdamaðurinn er í rauninni ekki svo mjög í mun að fá mig til að efast um að ég hafi meint samlagningu fremur en rammlagningu, heldur er hann að skora á mig að benda á einhverja staðreynd eða staðreyndir sem skeri úr um að ég hafi meint þetta fremur en hitt.

Kripkenstein tekur því næst skipulega fyrir helstu kenningar heimspekinga um hvað ákvarði merkingu, hvaða staðreyndir um mig það séu sem geri að verkum að meina samlagningu þegar ég segi „plús“ fremur en til dæmis rammlagningu. Slíkar kenningar eru einkum af tvennum toga. Annars vega eru atferlis- og hneigðakenningar, sem ætla að til séu efnislegar staðreyndir um mig, og þá væntanlega einkum um taugakerfi mitt, sem valda því að ég svara spurningum á borð við „Hvað er 68+57 mikið?“ oftast rétt (og „rétt“ merkir hér það sem samlagning krefst). Í grundvallaratriðum eru þetta áþekkar staðreyndir og þær sem gera að verkum að vasatölva leysir svona dæmi yfirleitt rétt. Það væri fyrir utan meginefni okkar hér að rekja ástæður Kripkensteins fyrir að hafna svörum af þessum toga, áhugaverðar eins og þær þó eru í sjálfum sér.20 Hins vegar eru kenningar sem freista þess að svara efasemdamanninum í nafni einhvers konar upplifunar okkar. Í sinni einföldustu mynd hljóðar svar af þessum toga á þessa leið: því að meina plús fremur en rús, (þar sem rús svarar til rammlagningar) samsvarar alveg ákveðin tilfinning, „samlagningartilfinningin“ gætum við nefnt hana; til að vita að við meinum í rauninni plús þurfum við ekki annað en að aðgæta hvort þessi tilfinning er til staðar hjá okkur eða ekki. En svar efasemdamannsins við þessu blasir við: „Segjum að svona tilfinning sé ávallt til staðar þegar við leggjum saman (þótt hægðarleikur sé að efast um að svo sé í öllum tilvikum). En hvernig veistu að þetta er samlagningartilfinning fremur en til dæmis rammlagningartilfinning?“

Ég ræddi áðan um hugmyndir raunhyggjumanna um hið gefna. Við erum komin að þeim aftur hér. Í hefðbundinni raunhyggju eins og hjá Hume gegna tilfinningar veigamiklu hlutverki. Þær eru hið gefna. En gallinn við slíkar tilfinningar er að þær bara sýnast vera gefnar en eru það ekki. Fyrir þessu færir Sellars sannfærandi rök og einnig Wittgenstein í nafni hins síðarnefnda.

Mér hefur nú orðið helstil langrætt um hinn hvimleiða efahyggjumann Kripkensteins. Er ekki augljóst hvernig svo sem á því stendur að við getum öll lagt saman tölur, vitum hvað á að kalla gaffal og hvað hárgreiðu og svo framvegis? Vandi efasemdamannsins er í mesta lagi bara fræðilegur: sú staðreynd að við erum sjaldnast í nokkrum vafa og ber saman að mestu leyti um hvað sé hvað, sýnir að það er lausn á þessum vanda. Um það er heldur ekki deilt. Kripkenstein setur sjálfur fram lausn. En sú lausn felst ekki í því að svara efasemdamanninum, heldur er fallist á mál hans og borin fram lausn á vandanum sem á að skýra að við vitum vel hvað við meinum án þess að nokkur staðreynd útkljái málið. Með einhverjum hætti á það að vera félagslegt fyrirbæri að ég meina samlagning fremur en rammlagning. Hyggjum örlítið nánar að hvað í þessu felst.

Það virðast næsta augljós sannindi að tungumál er félagslegt fyrirbæri í ýmsum skilningi. Börn læra til dæmis móðurmál sitt af öðrum og til þess að tungumál sé nothæft í samskiptum manna verða notendurnir að vera nokkurn veginn sammála um hvernig ber að nota það: margvísleg vandræði hlytust til dæmis af því að ég, sem annars talaði venjulega íslensku, skildi og notaði orðasambandið „til vinstri“ eins og aðrir skilja og nota „í norðvestur“. Fáir munu neita því að tungumál sé félagslegt í þessum skilningi. Hugmynd Kripkensteins um félagslegt eðli merkingar gengur hins vegar miklu lengra en þetta. Samkvæmt henni ræðst merking einvörðungu af því hvað viðtekið er í samfélaginu af notendum tungumálsins og, sem meira er, notendurnir hafa ekkert í höndunum, hvorki sem einstaklingar né sem hópur, til að réttlæta notkun sína: „Svona förum við að“, er hið endanlega svar við spurningum um merkingu. Segjum að maður nokkur taki upp á því að leysa einföld samlagningardæmi á undarlegan hátt eins og lýst var áðan. Hann leggur yfirleitt saman eins og við hin nema hvað undrum og sinnum gefur hann furðuleg svör. Hann fullyrðir til dæmis að 67 plús 58 sé 5. Hvað er að þessum manni? Ekkert annað en það, segir Kripkenstein, að hann ber sig öðruvísi að en hæfa þykir. Málið er að maðurinn hafi ekki alveg skilið almenna reglu eða almennt hugtak um samlagningu sem allir hæfir samleggjendur varði að hafa á valdi sínu. Villa hans er fremur sambærileg við brot á mannasiðum eins og þegar maður rekur út úr sér tunguna þegar honum er heilsað. Endanlegt svar við því hvað athugavert sé við þvílíka framkomu er að svona geri maður ekki, þetta sé ekki siður hér hjá okkur. Það virðist skynsamlegt að skírskota til þess hvað er viðtekið og hvað ekki þegar um er að ræða einberar kurteisisreglur. En mér virðist það óviðunandi sem svar við því af hverju 5 sé ekki boðlegt svar við spurningunni „hvað er 67 plús 58 mikið?“ Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að sjá málið í þessu ljósi stendur eftir hjá mér einlæg sannfæring um að svarið „5“ sé ekki sambærilegt við sérvisku eða dónaskap, heldur rangt vegna þess að það samræmist ekki almennri hugmynd okkar um samlagningu. En þá er rökum Kripkensteins gegn gildi þvílíkra almennra hugmynda að mæta.

Það er athyglisvert og ætti raunar ekki að koma á óvart í ljósi þess sem þegar hefur verið sagt að finna má viss samkenni á tillögunum sem Kripkenstein skoðar um staðreyndir sem skeri úr um að við meinum gaffal með „gaffall“, samlagningu með „plús“ og svo framvegis. Það er ákveðin regla í því hvað bregst í tillögunum. Staðreynd um mig sem gæti ákvarðað að ég meina gaffal með „gaffall“ hlýtur að vera þeirrar náttúru að hún ber með sér hver hún er. Hver sem þessi staðreynd kann að vera, hlýtur hún að vera þess eðlis að af henni sjálfri sé ljóst að ég meina plús en ekki rús, gaffall en ekki hárgreiða ef ég er staddur í Iðnó milli 2 og 4, 7. desember 1991. Allar tillögurnar sem Kripkenstein skoðar bregðast vegna þess að staðreyndirnar sem um er að ræða skortir þennan eiginleika. Lítum samt aftur á tilgátuna um sérstaka „samlagningartilfinningu“. Örðugt er að ímynda sér að við slíka tilfinningu sé eitthvað sem gerir að verkum að einmitt þessi tilfinning gæti ekki verið annað en samlagningartilfinning. Til að gegna hlutverki sínu sem mælikvarði á merkingu verður slík tilfinning með einhverjum hætti að bera með sér að hún sé mælikvarði nákvæmlega á þessa merkingu fremur en hina og það er meira en hægt er að ætlast til af nokkurri venjulegri tilfinningu.

Með öðrum orðum: Kripkenstein er að leita að einhverju sem hefur sama eiginleika og frummyndir Platons: að bera með sér hvað það er. En hann finnur ekkert slíkt í þeim tillögum sem hann skoðar. Frummyndirnar áttu einmitt að hafa þennan eiginleika að vera sjálfar það sem þær eiga að skýra í öðrum hlutum og vera það með þeim hætti að það er sjálfljóst að þær eru það: að frummynd fegurðarinnar sé fögur er jafn ljóst af henni sjálfri og að vatn sé blautt. Í dæmi Kripkensteins af samlagningu myndi frummynd samlagningarinnar vera samlagningin sjálf, hvað sem það nú er, eitthvað sem ber með sér að það er samlagning fremur en til dæmis rammlagning. Ennfremur er ljóst að það sem Kripkenstein er að leita að en finnur ekki á það sammerkt með platonskum frummyndum að vera ópersónulegt. Ef við hefðum hvert um sig okkar einkaviðmið til að skera úr um hvað við meinum, þá væri auðvitað úti um allt samkomulag og úti um að einn hefði réttara fyrir sér en annar.

Ég gat áðan þeirra ummæla Richards Rorty að auðvitað hefði Platon verið besti platonistinn. Við höfum nú vonandi fengið hugboð um að talsvert virðist vera til í þessu hjá honum. Efasemdir Kripkensteins um merkingu kunna að virðast bæði afmarkaðar og akademískar. Eigi að síður hygg ég að þær séu í raun afar víðtækar. Mig grunar að þær séu alvarlegasta ógnunin við sjálfa forsendu heimspekilegrar ástundunar eins og hugmynd okkar um hana hefur mótast í hefð okkar allar götur frá Platoni og forverum hans meðal Grikkja. Hver er þessi forsenda? Ef til vill má koma mjög almennum orðum að henni á þá leið að veruleikinn sjálfur sé skiljanlegur, og að endanlegur skilningur, ef hann næst, sé innsæi einstaklings í það hvernig hlutirnir hljóti að vera. Hugmynd Kripkensteins um að meina eitt fremur en annað sé að tileinka sér viðtekinn lífsstíl sem óhugsandi sé að réttlæta frekar, gerir þessa hugsjón að engu: engin nauðsynleg bönd tengja saman hugsunina og málið annars vega og veruleikann hins vegar.

Það hefur sem sagt komið í ljós að ef við viljum forðast slíka niðurstöðu þurfum við á frummyndum eða einhverju sem líkist þeim mjög að halda. Er það vænlegur kostur? Því get ég ekki svarað afdráttarlaust. En ég ætla að endingu að víkja stuttlega að þremur atriðum sem skipta máli í þessu sambandi.

Sérhverri góðri rökfærslu má snúa á hvolf: ef góð rökfærsla leiðir til niðurstöðu sem mér finnst óviðunandi, er ég alls ekki neyddur til að sætta mig viðniðurstöðuna umsvifalaust. Ég get allt eins sagt sem svo: þetta er raunar rökrétt niðurstaða, en hún er bersýnilega fráleit, sem þýðir að það er eitthvað bogið við einhverja af forsendunum sem hún hvílir á. Segjum að við föllumst til dæmis á svofellda rökfærslu:

(1) (a) Skilningur er annað hvort hreint hugarstarf, innsæi einstaklings inn í það hvernig hlutirnir hljóti að vera, eða (b) skilningur er einber fylgni og jánkun við viðtekna siði í samfélaginu: að skilja er bara að vita hvað hinir myndu segja og játast því.
(2) Ef (a) er raunin, hljóta að vera til hlutir sem bera með sér hvað þeir eru.
(3) En engir slíkir hlutir eru til.
(4) Þá er (a) ekki raunin.
Svo að:
(5) (b) er raunin: að skilja er bara að vita hvað hinir myndu segja og játast því.

Mér er frjálst að neita að trúa þessari niðurstöðu og því neita ég raunar. Þá sný ég ályktuninni við svona:

(1) (a) Skilningur er annað hvort hreint hugarstarf, innsæi einstaklings inn í það hvernig hlutirnir hljóti að vera, eða (b) skilningur er einber fylgni og jánkun við viðtekna siði í samfélaginu: að skilja er bara að vita hvað hinir myndu segja og játast því.
(2) En skilningur getur ekki verið einber fylgni og jánkun við viðtekna siði í samfélaginu: að skilja er ekki bara að játast hinu viðtekna.
(3) (a) er raunin: það hljóta að vera til hlutir sem bera með sér hvað þeir eru.

Með öðrum orðum, ég er að gefa í skyn að niðurstaða Kripkensteins (og Rortys og allra hinna andplonistanna) kunni að vera fráleitari en trúin á frummyndir. Það kann að bera góð goðsögn sem við hljótum að trúa að í huga okkar búi ekki aðeins skuggar á vegg, heldur hafi hugsun okkar aðgang að hlutunum sjálfum böðuðum í ljósi sólar.

En ef við finnum engar frummyndir, er þá ekki trúin á þær næsta haldlaus? Kemur goðsögnin að gagni nema við getum að minnsta kosti talið okkur trú um að við sjáum þær? Þetta er satt að segja góð en jafnframt afskaplega erfið spurning sem krefst miklu ítarlegri umfjöllunar en hér er ráðrúm til. Eitt skal þó bent á. Þegar Platon lýsir frummyndunum er hann sífellt að brýna fyrir okkur að skynjun þeirra sé ólík skynjun skilningarvitanna. Eigi að síður styðst hann stöðugt við líkingamál ættað frá skynjuninni, einkum sjóninni, þegar hann er að lýsa þeim og hvernig við nemum þær.21 Sjálfur hef ég víða notað slíkt líkingamál hér framan. Þegar ég tók til dæmis þannig til orða að það blasi við af hverri frummynd hver hún er, er auðvitað um líkingamál að ræða. Þá er talað um frummyndirnar eins og eitthvað sem birtist sjónum okkar. Vera má að þetta sé villandi líking, þótt ekki sé auðséð hvernig á að útrýma henni og halda jafnframt öðrum einkennum frummyndanna til haga. Ekki er nóg með að það sé sjaldgæf reynsla að sjá frummyndir. Ef þekking okkar á frummyndum er eins og að sjá, þá virðumst við sitja uppi með sama vandann: hvernig getur eitthvað sem við eins og sjáum borið með sér hvað það er? Vera má að Platon hafi að minnsta kosti öðrum þræði gert sér grein fyrir þessum takmörkunum sjónlíkinganna. Alltént grípur hann stundum til annars konar líkinga til að lýsa æðstu og fullkomnustu þekkingu, nefnilega líkinga við samveru og snerting, sem á stundum jaðra við að vera kynferðislegar.22 Allt um það, gæti ekki hugsast að aðgangur huga okkar að frummyndum sé einhvern veginn með allt öðrum hætti en sjón? Gæti ekki hugsast að við nemum þær án þess að gera okkur nokkra mynd af þeim í huganum? Og ef svo er, er þá nokkuð að undra að örðugt reynist að benda á þær, að frummyndir virðast ekki vera meðal þeirra hluta sem við getum skoðað innra með okkur? En þær væru til eigi að síður og við myndum nota þær.

Þetta leiðir okkur að síðasta atriðinu sem ég vildi víkja að. Ég gat um það hér í upphafi að frummyndakenningin hefði haldið velli í breyttri mynd í síðfornöld. Hún var tekin upp af kristnum hugsuðum svo sem heilögum Ágústínusi og þá í þeirri mynd sem heiðnir fylgismenn Platons í síðfornöld bjuggu henni. Hjá þessum kristnu mönnum urðu frummyndirnar að hugsunum Guðs23 í stað þess að vera sjálfstæður veruleiki, hvorki huglægur né efnislegur, eins og þær virðast oftast vera hjá Platoni.24 Sá sem rekur smiðshöggið á hina kristnu frummyndakenningu var Plótínos sem uppi var á 3ju öld eftir Krist og er oft nefndur síðasti mikli heiðni heimspekingurinn. Samkvæmt Plótínosi eru frummyndirnar hugsanir ópersónulegs guðlegs huga. Hugar okkar mannanna eiga sér rætur í þessum guðlega huga, eru með einhverjum hætti eitt með honum. Ástæður þess að Plótínos bjó frummyndunum vist innan huga guðs fremur en utan eru einkar fróðlegar með hliðsjón af viðfangsefni þessarar ritgerðar. Svo virðist sem hann hafi haft áhyggjur af rökum efahyggjumanna gegn þekkingu hvort heldur á einhverju sem er utan við hugann sem þekkinguna hefur eða þekkingu hugans á sjálfum sér. Honum var í mun að sjá við þessum efahyggjurökum, ekki síst ef þeim var veitt gegn þekkingu hins guðlega huga, sem samkvæmt skilgreiningu hefur til að bera fullkomnustu þekkingu sem hugsast getur. Ef frummyndirnar eru utan huga guðs, þá hefur guð aðeins beinan aðgang að eftirmyndum þeirra sem þrykkjast á huga hans og þá er guðleg hugsun á sama báti og jafn blind og skynjun skilningarvitanna. Séu frummyndirnar aftur á móti innan huga guðs, en með þeim hætti að guð sér þær fyrir sér eins og við sjáum fyrir okkur t.d. beinhvítan lit í huganum, þá hlýtur guð að dæma að þetta sér beinhvítt með því að skírskota til einhvers annars en litarins sem hann sér fyrir sér – liturinn í ímyndun guðs ber ekki með sér hver hann er, hann segir ekki „hæ, hæ, ég er beinhvítt!“, og hann er heldur ekki með merkimiða. (Ef hann væri með merkimiða, þá vaknar spurningin hvort miðinn sé réttur; ef guð hefur ekkert í höndunum annað en ímyndaðan lit með merkimiða og hann getur ekki verið viss um að liturinn sé rétt merktur, hver getur það þá?) Þvílíkar vangaveltur leiða Plótínos að þeirri niðurstöðu að frummyndirnar sér sjálfar hugsanir guðs. Raunverulegur sannleikur, segir hann, sem eru hugsanir guðs, „er ekki samsvörun við eitthvað annað, heldur við sjálfan sig, og hann segir ekkert annað en sjálfan sig, en hann er það sem hann segir og hann segir það sem hann er.“25 Með þessu á Plótínos við að í hugsunum guðs séu vitneskja og veruleiki einn og sami hluturinn.26 Hér erum við auðvitað enn komin að vandanum um hið gefna og sú spurning blasir við hvort Plótínos og guð hans séu nokkuð betur staddir en raunhyggjumennirnir sem vildu láta skynjanir í senn hafa eiginleika til að bera og vera þekking á þessum eiginleikum. Líkingin leynir sér ekki. Á hinn bóginn er ekki víst að gagnrýni Sellars á hugmyndir raunhyggjumanna um hið gefna hríni á Plótínosi, því hann leggur áherslu á að hugsanir guðs séu ekki skynræn reynsla: guð sér ekki ímyndir í huga sér sem hann þarf að túlka eða sem eiga að vera sjálfgefnar. Guð notar ekki tákn í hugsunum sínum, heldur eru hugsanir hans hið vitræna inntak sjálft, merkingin, sem við mennirnir svo höfum ýmis tákn og ímyndir fyrir. Slík guðleg hugsun verður auðvitað næsta dularfull áður en lýkur. En gleymum því ekki að venjuleg mannleg hugsun er líka dularfull hvernig sem á málið er litið. Skyldi plótínsk dulhyggja vera álitlegasti kosturinn sem okkur stendur til boða, ef við höfnum efahyggju Wittgensteins Kripkes? Ef til vill. Sjálfum hugnast mér betur að hið dularfulla sé fyrir ofan okkur en mitt á meðal okkar.27

 

Tilvísanir

1. Frummyndakenningin kemur ljósast fram í eftirtöldum samræðum Platons: Samdrykkjunni, Kratýlosi, Faídoni, Ríkinu, Faídrosi og Tímaíosi. Kenningin er til umræðu í Parmenídesi, þar sem raunar kemur fram hörð gagnrýni á hana. Umdeilt er hvort Platon sjálfur fellst á þessa gagnrýni. Ítarlegustu umfjöllun um frummyndakenninguna á íslensku er að finna í inngangi mínum að Ríkinu eftir Platon, (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, Lærdómsrit 1991) og í „Frummyndakenning Platons“, B.A.-ritgerð Jóns Kalmanssonar, Háskóla Íslands 1992.

2. Harold Cherniss, „The Philosophical Economy of the Theory of Ideas“, The American Journal of Philology 57 (1936), 445-56.

3. Sbr. Þeætetos 166 C-170 A.

4. Protagoras frá Abderu, brot 1 = Díogenes Laírtíos, Heimspekingaævir 9, 50.

5. Sbr. Gorgías frá Leontíni, brot 3 = Sextos Empeirikos 7, 65 o.áfr., sbr. einnig Aristóteles, De Melisso, Xenophane, Gorgia 971 a 11 o.áfr.

6. Sjá til dæmis Faídon 74 B-C.

7. Aristóteles, Metafysika (Frumspekin) 990a 34 og 1078b 34.

8. Dæmigerður stærðfræðilegur Platonismi kemur fram í riti Godfreys Harolds Hardy, Málsvörn stærðfræðings, sem birtist í íslenskri þýðingu Reynis Axelssonar (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, Lærdómsrit, 1972). Um Platonisma Freges má fræðast af riti hans, Undirstöðum reikningslistarinnar (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, Lærdómsrit, 1989), íslensk þýðing Kristjáns Kristjánssonar, og af inngangi Guðmundar Heiðars Frímanssonar að þeirri útgáfu.

9. Þessar hugmyndir setur Rorty fyrst fram í Philosophy and the Mirror of Nature (Princeton, N.J.: Princeton University Press, 1979). Sjá einnig Consequences of Pragmatism (Minneapolis: University of Minnesota Press, 1982) og Objectivity, Relativism and Truth: Philsophical Papers (2 bindi) (Cambridge: Cambridge University Press, 1991).

10. Um þennan skyldleika sjá Rorty, „Philosophy as a Kind of Writing“ í Consequences of Pragmatism, bls. 101-109. ein ritgerð eftir Derrida hefur birst á íslensku: „Formgerð, tákn og leikur í orðræðu mannvísindanna“, þýðandi Garðar Baldvinsson, í ritsafninu Spor í bókmenntafræði 20. aldar, ritstj. Garðar Baldvisson, Kristrún Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991), bls. 129-152.

11. Sjá til dæmis Wilfrid Sellars, Science, Perception and Reality (London: Routledge and Kegan Paul, 1963), bls. 69-70, 129-34 og 156-61.

12. Sbr. Philosophy and the Mirror of Nature, bls 164.

13. Sjá til dæmis René Descartes, Orðfræða um aðferð (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, Lærdómsrit 1991), íslensk þýðing Magnúsar G. Jónssonar, einkum bls. 98-100, og inngang Þorsteins Gylfasonar bls. 49-54.

14. Yfirlit yfir heimspeki Wittgensteins er að finna hjá Þorsteini Gylfasyni, „Ludwig Wittgenstein“, Hugur (1989), bls. 5-22.

15. Þeirra þekktast er Philosophische Untersuchungen (Rannsóknir í heimspeki). Það er hluti þess verks, ## 138-242, sem er einkum til umræðu í bók Kripkes.

16. Saul A. Kripke, Wittgenstein on Rules and Private Language (Cambridge, Massachusetts: Harvard University Press, 1982).

17. G. P. Baker og P. M. S. Hacker, Scepticism, Rules, and Language (Oxford: Basil Blackwell, 1984) og Colin McGinn, Wittgenstein on Meaning: An Interpretation and Evaluation (Oxford: Basil Blackwell, 1984). Gagnlega umfjöllun um þetta efni og yfirlit yfir helstu skoðanir er að finna hjá Paul Boghossian, „The Rule-Following Considerations“, Mind 98, nr. 392 (1989), bls. 507-49. Sjá einnig Þorstein Gylfason, „Ludwig Wittgenstein“, bls. 18-20, þar sem kemur fram gagnrýni á túlkun Kripkes og önnur reifuð í staðinn.

18. Sjá Kripke, sama rit, bls. 17, sbr. Ludwig Wittgenstein, Philosophische Untersuchungen #198.

19. Sjá Crispin Wright, „Kripke’s Account of the Argument Against Private Language“, Journal of Philosophy 81, nr. 12 (1984), bls. 761-2 og Boghoassian, „The Rule-Following Considerations“, bls. 511-16.

20. Sjá Kripke, bls. 25-39.

21. Mál Platons um frummyndirnar er barmafullt af sjónrænum líkingum, sbr. tal hans um mannshugann, „auga sálarinnar“, sem „sér“ frummyndirnar. Glögg dæmi um þetta eru í hinum frægu líkingum af sólinni og hellinum í Ríkinu 506 B-519 C og í Faídrosi 249 E-50 C. Richard Hare reynir að leiða rök að því að Platon hafi hugsað sér að reynslan af „að sjá frummynd“ sé einmitt sú reynsla að sjá mynd af því sem frummyndin er frummynd af í huganum (sjá ritgerðina „A Question about Plato’s Theory of Ideas“ í ritsafni Hares, Essays on Philosophical Method (London: MacMillan, 1971), bls. 54-79; ritgerðin birtist upphaflega í The Critical Approach: Essays in Honor of Karf Popper, ritstj. Mario Bunge (Free Press of Glencoe, 1964)). En hæpið er að þetta standist meðal annars vegna þess að ógerningur virðist að búa til mynd í huga sér af helstu frummyndum svo sem frummynd hins góða.

22. Sbr. Ríkið 490 B: „[Heimspekingurinn] heldur ótrauður áfram án þess að ástareldur hans dofni allt þar til hann hefur þreifað á sjálfu eðli hvers hlutar með þeirri gáfu sálarinnar sem til þess er fallin, en það er sú sem er eðli hlutanna samkynja. Og þannig kemst hann í námunda við það og sameinast hinum sanna veruleika og getur af sér skilning og sannleika, og vaknar til vitundar og lifir að fullu og dafnar. Þá en ekki fyrr slotar fæðingarhríðunum.“

23. Sjá til dæmis heilagan Ágústínus, De libero arbitrio (Um frelsi viljans).

24. Þessi Platonismi kristinna kennimanna í fornöld tengdist oft túlkun þeirra á hinum frægu upphafsorðum Jóhannesarguðspjalls: „Í upphafi var orðið, orðið var hjá Guði og orðið var Guð.“ Gríska orðið fyrir „orð“ hér er logos, sem getur þýtt fjölmargt svo sem „skynsemi“, „hlutfall“, „setning“, „hugsun“ og var líka eitt þeirra orða sem fylgismenn Platons notuðu yfir frummyndir.

25. Plótínos, 5. Níund, 5. 2, 18-21, sbr. 5. 3. 5, 26.

26. Um þetta er ítarlega fjallað í ritgerð minni „Plotinus on the Objects of Thought“, sem mun birtast í Archiv für Geschichte der Philosophie á næstunni.

27. Ritgerð þessi er að stofni til fyrirlestur sem fluttur var á aðalfundi Hins íslenska bókmenntafélags, sem haldinn var í Iðnó 7. desember 1991. Við endanlegan frágang hef ég notið góðra ábendinga frá starfsbræðrum mínum Þorsteini Gylfasyni og Páli Skúlasyni og ennfremur frá ritstjórum Skírnis.

 

« Til baka

Um fegurðina

eftir Plótínos

I. Níund 6.

1.

 

Hið fagra býr einkum í sjóninni, en finnst einnig í því sem við heyrum: í skipan orða og raunar í allri hljómlist, því laglínur og hrynjandi eru vissulega fögur. Og fyrir þeim sem eru að fikra sig frá skynjuninni upp á við eru lífshættir, athafnir, lundarlag og vísinda líka fögur og einnig fegurð dygðanna.1 Sé einhver fegurð til upprunalegri en þessi, mun rökræðan leiða það í ljós.

Hvað skyldi nú valda því að við ímyndum okkur að líkamar séu fagrir og hvað skyldi beina hlustum okkar að tónum vegna fegurðar þeirra? Og hvernig í ósköpunum stendur á því að allt sem undir sálinni er komið er fagurt? Gerir ein og sama fegurðin allt þetta fagurt eða er fegurð í líkama eitt og fegurð í öðru annað? Og hvað er þessi hlutur eða hlutir? Sumt, líkamar til dæmis, er ekki fagurt vegna þess sem það er sjálft heldur með hlutdeild, annað er sjálft fagurt svo sem eðli dygðarinnar. Því sömu líkamarnir virðast stundum fagrir og stundum ekki, svo að það að vera líkami er eitt, að vera fagur annað. Hvað er nú þetta sem er til staðar í líkömunum [og gerir þá fagra]? Fyrst ættum við að athuga þetta. Hvað er það sem hrífur sjónir þeirra sem horfa á eitthvað, snýr þeim og dregur þá að sér og lætur þá njóta sjónarinnar? Ef við finnum þetta má vera að við getum „notað það sem fótstall“2 til að festa sjónir á hinu. Nær allir eru á einu máli um að hlutfallsleg samsvörun3 hinna einstöku hluta hvers við annan og við heildina að viðbættum fögrum lit valdi sjónrænni fegurð og að í tilviki slíkra hluta og allra annarra almennt sé fegurðin hlutfallsleg samsvörun og samræmi. Samkvæmt þessu er ekkert einfalt fagurt, heldur hlýtur það sem er samsett eitt að vera fagurt. Það er heildin sem verður fögur, en einstakir hlutar hljóta ekki einkunnina „fagur“ í sjálfum sér, heldur leggja sitt af mörkum til heildarinnar svo að hún sé fögur. En fyrst heildin er fögur hljóta hlutar hennar líka að vera það. Fögur heild er vissulega ekki samsett úr ljótum hlutum, heldur hlýtur fegurðin að ná til þeirra allra. Fyrir þessum mönnum standa fagrir litir, jafnvel til dæmis sólarljósið, utan fegurðarinnar, því þar sem þeir eru einfaldir hljóta þeir ekki fegurðina af hlutfallslegri samsvörun. Og hvernig getur gull verið fagurt? Og hvað gerir eldingu að nóttu eða stjörnurnar fagrar á að líta? Á sama hátt verður hið einfalda gert útlægt í tónlistinni, þó svo að þegar heildin er fögur sé sérhver tónn það oft líka. Ennfremur, þegar sama hlutfallslega samsvörunin helst á andliti sem ýmist virðist fagurt eða ekki, hvernig verður þá hjá því komist að ætla að hið fagra sé eitthvað umfram samsvörunina og að samsvörunin sé fögur fyrir tilstilli einhvers annars? En ef þessir menn færðu sig yfir á lífshætti og fagurt mál og nefndu enn samsvörunina sem orsök, hvað gæti samsvörun merkt í fögrum lífsháttum, lögum, námi eða vísindum? Hvernig ættu vísindaniðurstöður að samsvara hver annarri hlutfallslega? Sé það vegna þess að þær eru samhljóða, þá er líka til sammæli og samhljóða álit hins illa. „Hófstilling er einfeldni“ er samhljóða og samradda setningunni „réttlæti er hjartagæska einfeldningsins“;4 þær koma heim hver við aðra. Nú er sérhver dygð fegurð sálar og það er sannari fegurð en sú sem hingað til hefur verið til umræðu. En hvernig er samræmi í henni? Vissulega ekki eins og stærðir og tölur eru sammælanlegar. Sálin skiptist að vísu í ólíka hluta, en hvert er hlutfall samsetningarinnar eða blöndunar í sálinni eða vísindaniðurstöðunum? Og hver verður fegurð hugans eins og sér [samkvæmt þessum kenningum]?

2.

 

Við skulum því taka málið upp að nýju og segja í hverju fegurð líkama felist helst. Hún er eitthvað sem við nemum jafnvel við fyrstu sýn og sálin talar um það líkt og hún skilji það og ber kennsl á það, veitir því viðtöku og eins og stillir sig eftir því. Er hún á hinn bóginn rekst á hið ljóta hörfar hún, hafnar því og snýr sér undan, því hún hljómar ekki saman við það og það er henni framandlegt. Við segjum að þar eð eðli sálarinnar er slíkt sem það er og hún fylgir eftir æðri veru á sviði hins raunverulega,5 fagni hún og æsist upp og hverfi aftur til sjálfrar sín og þess sem er hennar. Hvaða líkindi eru nú með fögrum hlutum hér og efra?6 Segjum að ef það eru líkindi, þá séu þeir líkir. En hvernig geta bæði hið efra og þessir hlutir hér verið fagrir? Við segjum að fagrir hlutir hér séu fagrir vegna hlutdeildar í formi. Því allt formlaust sem fallið er til að taka á sig lag og form er ljótt og utan guðlegrar reglu,7 svo lengi sem það á enga hlutdeild í reglu og formi. Þetta er hinn algeri ljótleiki.8 En það er einnig ljótt sem form og regla hafa ekki náð valdi á, þar sem efnið hefur ekki látið undan og tekið á sig mót samkvæmt forminu. Formið kemur sem sagt til þess sem á að verða eitt úr mörgu, setur það saman, skipar því niður og skapar úr því eina samvirka heild og gæðir það einingu með samsvörun þátta sinna. Fyrst það var sjálft eitt, hlýtur það sem mótað er að vera eitt að svo miklu leyti sem því er það unnt, verandi úr mörgu. Fegurðin trónir sem sagt yfir efninu, þegar búið er að hneppa það í einingu, og hún gefur sjálfa sig bæði einstökum hlutum og heildinni. Þegar hún hefur náð taki á einhverju sem er eitt og með áþekka hluta, gæðir hún heildina hinu sama. Líkt og stundum gæðir list gervallt húsið ásamt einstökum hlutum þess fegurð, stundum einhver náttúra einstakan stein; þannig verður fagur líkami til vegna samneytis við reglu sem kemur frá guðlegum frummyndum.

3.

 

Sálargáfan sem fegurðin heyrir undir þekkir hana. Ekkert æðra þessari sálargáfu greinir hennar eigið svið, þegar öll sálin fer yfir úrskurðinn með henni. Nema sálin dæmi líka með því að fella hið ytra form að formi [fegurðarinnar] sem býr í henni sjálfri og noti það eins og við notum réttskeið til að dæma um hvað er beint. En hvernig samsvarar líkamlegt því sem kemur á undan líkama? Hvernig dæmir húsameistarinn að húsið ytra sé fagurt með því að fella það að formi hússins hið innra? Vegna þess að húsið ytra að steinunum frátöldum er hið innra form, brotið upp af massa efnisins. Það er í raun óskipt en sýnist vera í mörgu. Þegar skynjunin sér nú form í líkömum binda og yfirbuga hið andstæða formlausa eðli, form trónandi tignarlega á öðrum formum, dregur hún þessa mergð saman í eitt, endurheimtir hana og tekur hana inn á sig – hún er nú rúmtakslaus – og færir hana hinu innra sem eitthvað sem hljómar við það og hæfir því og er því kært: líkt og þegar góður maður ljómar upp við að sjá bregða fyrir hjá ungmenni ummerkjum dygðar sem hljóma við hina sönnu mynd innra. Og hin einfalda fegurð litar verður til þegar sorti efnisins fær sköpulag og er haminn með viðveru ljóss, sem er ólíkamlegt fyrirbæri, regla og form. Því er eldurinn sjálfur fagur öllum öðrum líkömum fremur, af því að hann hefur stöðu forms miðað við aðra líkama; honum er skipað ofan við þá og er léttastur þeirra allra, enda stendur hann hinu ólíkamlega nærri.9 Hann einn veitir hinum ekki viðtöku, en hinir taka við eldinum. Því hann vermir þá án þess að kólna sjálfur. Og hann hefur lit til að bera á frumlegan hátt, þar sem aðrir þiggja litbrigði sín af honum: eldurinn skín og glampar eins og hann væri form. Eldur sem skortir styrk veitir daufa birtu og er ekki lengur fagur, þar sem hann á ekki fulla hlutdeild í formi litarins. Hvað viðvíkur samhljómum sem birtast í tónum, þá eru það óskynjanlegir samhljómar sem skapa hina skynjanlegu og valda þannig vitund um fegurð í sálinni með því að sýni hið sama í öðrum miðli. Því er hinum skynjanlegu eiginlegt að vera mældir í tölum, ekki samkvæmt hvaða reglu sem er heldur reglu sem lýtur því markmiði að skapa máttugt form.

Látum þetta nægja um skynjanlega fegurð, sem er svipir og eins og strokuskuggar sem hafna í efninu og fegra það svo okkur bregður við er þeir birtast.

4.

 

Fegurð hins efra – fegurð sem skilningarvitunum er ekki lengur gefið að nema og sálin sér og ræðir án skynfæra – verðum við að klífa til að sjá, og skilja skynjunina eftir neðra. Eins og sá sem hefur aldrei seð skynjanlega fegurð eða meðtekið hana sem fegurð er ófær um að lýsa henni, til dæmis þeir sem fæddir eru blindir, þannig geta þeir einir sem veitt hafa fögrum lífsháttum viðtöku rætt um fagra lífshætti og eins um vísindi og fegurð annars af því tagi.10 Og ekki geta þeir talað um „ljóma dygðarinnar“11 sem aldrei hafa svo mikið sem ímyndað sér hversu fögur „ásjóna réttlætis“12 og hófstillingar er: „Hvorki morgunstjarnan né kvöldstjarnan eru svo fagrar.“13 En þeir hljóta að vera til sem sjá þessa fegurð með því sem sálin sér þvílíka hluti, og við að sjá hana gleðjast þeir og eru snortnir og langtum heillaðri en af þeirri fegurð sem við ræddum fyrr, þar eð nú er það sönn fegurð sem þeir komast í snertingu við.14 Öll fegurð hlýtur að vekja með manni þessar geðshræringar: undrun og ljúft felmtur, löngun, ástríðu og unaðsfullt uppnám. Einnig hin ósýnilega fegurð vekur þessar geðshræringar og að heita má allar sálir reyna þær, en hinar ásthneigðari þó meir en hinar: eins og allir sjá líkamana en eru þó ekki allir snortnir jafn djúpt, heldur sumir mest, og kallast þeir ásthneigðir.

5.

 

Við verðum þá að inna ástmenn hins óskynjanlega eftir þessu: „hvernig er upplifun ykkar af því sem nefnt er fagrir lífshættir, fagrir siðir og hófstillt lundarlag og almennt af dygðugri breytni og hneigðum og fegurð sálnanna? Og hvað upplifið þið þegar þið sjáið fegurð ykkar sjálfra hið innra?15 Hvernig er æðið og æsingurinn og þráin eftir að vera með sjálfum ykkur og lesa [svo] sjálfa ykkur upp frá líkamanum?“ Því þetta er það sem sannir ástmenn reyna. En gagnvart hverju upplifa þeir þetta? Ekki er það lögun neins eða litur,16 né nokkur stærð, heldur sál sem bæði er sjálf litlaus og hefur til að bera litlausa hófstillingu og annan „ljóma dygðarinnar“.17 Þetta er það sem þið reynið, þegar þið sjáið í sjálfum ykkur eða öðrum mikilfengleik sálar, réttvísa lund, hreina siðsemi og hinn göfga svip hugrekkisins,18 ásamt tign og hógværð í ódeigri, traustri og órofa skaphöfn, og yfir þeim hinn goðumlíka hug sem lýsir þeim. Við dáum og elskum þvílíka eiginleika, en af hverju köllum við þá fagra? Þeir eru til og birtast, og sá sem sér þá getur ekki annað sagt en að þeir séu það sem raunverulega er. En hvað merkir „raunverulega er“? Að þeir séu til sem fegurð. En rökræðan heimtar enn svar við því hvers vegna hið raunverulega geri sálina að viðfangi ástar. Hvað er það sem geislar af öllum dygðunum eins og ljós? Viltu taka andstæðuna, ljótleika í sálinni, og sjá muninn? Kannski gæti hið ljóta gagnast okkur í leitinni: hvað er það og hvers vegna birtist það svo? Gerum þá ráð fyrir ljótri sál, taumlausri og ranglátri, morandi af flestum girndum; hvikulli í öllu, óttafull vegna hugleysis og öfundsjúk vegna lítilmennsku; hún hugsar smáar og forgengilegar hugsanir að svo miklu leyti sem hún hugsar nokkuð; hún er slæg og ann saurugum nautnum, lifir lífi hinna líkamlegu kennda og nýtur ljótleikans.19 Eigum við ekki að segja að einmitt þessi ljótleiki hafi komið til hennar eins og „fegurð“ utanfrá og sært hana og saurgað hana og „blandað hana miklu böli“,20 svo að líf hennar og skynjun voru ekki lengur hrein, heldur fór hún að lifa dimmu lífi og dauða blöndnu vegna samneytisins við hið illa, enda sér hún ekki lengur það sem sál ber að sjá, fær ekki lengur að vera með sjálfri sér þar sem hún dregst æ út og niður og í dimmuna?21Óhrein er hún, hygg ég, og hvarvetna dregin í átt til hins skynjanlega, allmenguð af hinu líkamlega og samneytir mjög hinu efnislega og veitir viðtöku annarlegri mynd og breytist til hins verra af blönduninni; rétt eins og sá sem fer á kaf í eðju eða for skartar ekki sömu fegurð og áður heldur sést hvar hann strauk burt eðjuna eða forina. Hann fékk ljótleikann með annarlegri viðbót, og vilji hann verða fagur á ný er það hlutskipti hans, að þvo sér og hreinsa svo hann verði það sem er eðli hans. Við hefðum því á réttu að standa ef við segðum að sál verði ljót með samkrulli og blöndun við líkamann og efnið. Þetta er sá þá ljótleiki sálar, að vera ekki hrein og ómenguð eins og gull, heldur full jarðneskju. Sé moldin numin burt stendur gullið eftir og er fagurt er það stendur aðskilið frá hinu „eitt með sjálfu sér“.22 Eins er með sálina, þegar hún er aðskilin frá löngunum sem hún hefur fengið gegnum líkamann sem hún samneytti úr hófi, laus undan öðrum áverkum og hreinsuð af líkamsvistinni, og dvelur ein og hefur varpað frá sér öllu hinu ljóta sem kom frá hinu eðlinu.

6.

 

Því eins og hið fornkveðna segir eru „hófsemi og hugrekki“ og sérhver dygð og „einnig viskan sjálf hreinsun“. Þess vegna segja launhelgarnar satt er þær tala í gátum um að hinn óhreini „liggi í forinni í Hadesarheimi“.23 Því forin er hinum óhreina kær sakir illsku hans, eins og svínin, sem eru óhrein til líkamans, hafa einnig yndi af slíku. Hvað gæti líka sönn hófsemi verið annað en að snúa baki við líkamlegum nautnum og forðast þær sem eitthvað sem hvorki er hreint né hreinu hæfandi? Og dauðinn er aðskilnaður sálar og líkama.24 Sá sem hyggur gott til einverunnar óttast hann ekki. Mikilleiki sálar er fyrirlitning á því sem er hér. Viska er hugsun sem beint er frá hinu lægra og leiðir sálina upp á við. Hin hreinsaða sál verður þá form og regla og öldungis ólíkamleg og huglæg og heyrir gervöll til hinu guðlega sem fegurðin og allt þeirrar ættar stafar frá. Svo að sál sem hafist hefur upp á svið hugar hefur aukist að fegurð. En hugurinn og það sem huganum heyrir er fegurð sálarinnar – eigin fegurð hennar og ekki annarleg, því nú er hún að sönnu ekkert nema sál. Þess vegna er réttilega sagt að það að verða góður og fagur til sálarinnar sé að samlagast guði,25 því þaðan kemur hið fagra og annað sem fellur hinu verandi í skaut. Eða öllu heldur, hið verandi er fegurðin, en hin náttúran ljótleikinn, sem er hið sama og frumbölið. Svo að í tilviki guðs er að vera góður og vera fagur, eða góðleikinn og fegurðin, hið sama. Við verðum sem sagt að rannsaka hið fagra og hið góða, hið ljóta og hið illa, á sama hátt. Og fyrsta verður að setja þá fegurð, sem einnig er hið góða. Af henni fær hugurinn jafnskjótt hið fagra, en sálin fyrir atbeina hans.26 Og allt annað er fagur fyrir tilverknað mótandi sálar: hið fagra í athöfnum og lífsháttum. Og líkamana – að svo miklu leyti sem þeir eru fagrir kallaðir – gerir sálin fagra: þar eð hún er guðleg og eins konar brot af hinu fagra, verður það sem hún grípur og stjórnar fagurt eftir því sem því er unnt að fá hlutdeild í hinu fagra.

7.

 

Við verðum þá að hefja okkur aftur upp til hins góða, sem sérhver sál sækist eftir. Sá sem hefir séð það veit hvað ég á við er ég segi að það sé fagurt. Það er þráð sem eitthvað gott og þetta er það sem þráin beinist að. En að uppskera það kemur í hlut þeirra sem hefja sig upp og hafa snúist og kastað af sér því sem þeir íklæddust á leið sinni niður – eins og þeir sem ganga upp til helgiathafna ganga í gegnum skírslur og kasta af sér klæðunum sem þeir fyrrum klæddust og ganga upp naktir – uns allt sem er framandi guði hefir verið lagt að baki í uppgöngunni og maður sér með sjálfum sér einum það sjálft eitt, einfalt og hreint27 sem allt er háð, horfir á það og er, lifir og hugsar:28 því það er orsök lífs, hugar og veru. Hvílíkur ástarblossi kæmi í hlut þess sem liti þetta, hvílík þrá eftir að sameinast því, hversu lostinn yrði hann af nautn! Sá sem hefir séð það dáist að fegurð og fyllist undrun og unaði, höggdofa án þess að bíða skaða, og elskar af sannri ást og ertandi löngun. Hann hlær að annarri ást og lítur niður á það sem hann áður taldi fagurt. Honum fer sem þeim sem lítur svipmyndir guða eða anda og hugnast ekki lengur fegurð annarra líkama. „Hvað eigum við þá að halda um þann sem lítur hið fagra sjálft, þar sem það er hreint í sjálfu sér, ómengað af holdi“,29 eða líkama, hvorki á jörðu né á himni, svo að það haldi hreinleikanum? Því allt þetta eru viðaukar, sambræðingar og ekki frumlægt, heldur af því leitt. Sá sem sæi það, sem veitir öllu hinu og gefur hvílandi í sjálfur sér án þess að taka við neinu, og dveldi í sýn þvílíkrar fegurðar og nyti þess orðinn líkur því – hvaða fegurðar annarrar gæti hann þarfnast? Því þetta, sem er sjálft öllu fremur fegurð og hin frumlægasta fegurð, gerir elskendur sína fagra og elskuverða. Hér standa sálirnar frammi fyrir hinni hinstu og mestu þolraun:30 þetta er tilgangur allra okkar þrauta, að missa ekki af hlutdeild í bestu sýninni. Sá sem hana hlýtur er sæll að hafa séð þá sælu sýn, en lánlaus sá sem fer hennar á mis. Sá sem mistekst að hreppa fegurð lita eða líkama, völd eða stöðu, jafnvel sá sem mistekst að hreppa konungstign, er ekki lánlaus, heldur sá sem mistekst að öðlast þetta eitt: sakir þessa hlýtur hann að gefa frá sér konungstign og yfirráð gervallrar jarðarinnar, hafsins og himinsins, ef mætti hann sjá með því að yfirgefa og sniðganga þetta og hverfa á vit hins fagra.

8.

 

En eftir hvaða leið?31 Með hvaða brögðum? Hvernig fær maður séð „óumræðilega fegurð“32 sem eins og dvelur inni í helgu hofi og stígur ekki fram þar sem hinir vanhelgu fá líka séð hana fyrir utan? Fari sá sem getur og fylgist með innfyrir og skilji eftir sjóngáfu augnanna og snúi sér ekki við mót hinum glæstu líkömum sem hann sá fyrrum. Hann má ekki stökkva á eftir hinu fagra í líkömum sem hann sér, heldur flýja á vit frummyndarinnar, vitandi að þetta eru eftirmyndir, slóð og skuggar. Sá sem hleypur til og hyggst grípa eftirmynd sem sannleika, (eins og mig minnir ýjað að einhvers staðar í einhverri sögu af manni sem vildi grípa fagra spegilmynd sem lék á vatnsfleti og steyptist niður í strauminn og hvarf), á sama hátt og í sögunni mun sá sem hengir sig við fagra líkama og vísar þeim ekki á bug sökkva á kaf í sál sinni – ekki í líkamanum – niður í dýpstu myrkur þar sem andinn nýtur engrar gleði. Þar mun hann dvelja blindur hjá Hadesi og samneyta skuggunum fram og aftur. „Flýjum til vors kæra föðurlands“, væri hollara ráð.33 En hvaða flóttaleið er tiltæk og hvernig? Höldum á haf út eins og skáldið segir Ódysseif hafa gert, á flótta frá flagðinu Kirku og Kalipsó, og talar þar í táknum, að ég tel.34 Honum hugnaðist ekki að dvelja um kyrrt þótt hann nyti augnayndis og byggi við mikla skynjanlega fegurð. Föðurland okkar er það sem við komum frá og faðir okkar er þar. Hver verður nú fararmátinn og hver flóttaleiðin? Ekki komumst við fótgangandi: fæturnir bera okkur hvarvetna frá landi til lands. Þú skalt ekki útvega hestvagn eða hey. Láttu allt þetta lönd og leið og horfðu ekki, heldur leggðu aftur augun og breyttu um sjóngáfu og vektu þá sem allir hafa, en fáir njóta.

9.

 

Hvað blasir nú við þessari innri sjón? Meðan hún er nývakin getur hún alls ekki horft á ljómann.35 Sálina verður að venja og láta hana fyrst horfa á fagurt líferni. Þá fögur verk – ekki af því tagi sem listirnar framleiða, heldur þeir menn sem þekktir eru að gæsku. Líttu þvínæst á sál þeirra sem vinna hið fögru verk.36 Hvernig gætirðu séð þessháttar fegurð sem góð sál hefur til að bera? Hverfðu inn í sjálfan þig og sjáðu. Og sjáir þú sjálfan þig ekki fagran, farðu þá að eins og myndhöggvari sem ætlar að gera fagra höggmynd: hann nemur burt hér, slípar þar, sléttir þennan hluta, skerpir hinn uns hann hefur fengið fram fagurt andlit á styttuna. Eins skalt þú nema brott það sem er ofaukið, slétta hið ójafna og lýsa hið myrka svo það verði bjart, og hættu ekki „að vinna að höggmyndinni þinni“37fyrr en guðlegur ljómi dygðarinnar skín af þér, fyrr en þú sérð „hófstillingu í sitt helga sæti setta“.38 Sértu orðinn svona andlit, sérð það, og lyndir við sjálfan þig í hreinleikanum, og ekkert aftrar því að þú verðir eitt með þessum hætti, né blandast það öðru hið innra heldur ertu allur þú sjálfur, einskært hreint ljós; það er ekki mælt í stærð né gert minna með mörkuðu lagi, né aftur hafið til stærðar með ómæli, heldur er það í hvívetna ómælanlegt þar sem það er hverju máli meira og öllu magni ofar; er þú sérð sjálfan þig svona orðinn, ertu þegar orðinn sjón og treystir á sjálfan þig; þú hefur þegar klifið þarna upp og þarfnast einskis leiðbeinanda framar: einbeittu þér að horfa, því þetta auga eitt fær litið hina miklu fegurð. En hver sá, sem kemur til þessarar sýnar glámskyggn af löstum og óhreinsaður, eða veikburða og skortir manndóm til að líta hið ofurskæra, hann sér ekki neitt þó svo að annar bendi honum á hvað þarna er og hægt er að sjá. Því maður verður að koma til sýnarinnar með hið sjáandi samkynja og líkt hinu séða. Ekkert auga hefur nokkru sinni sólina litið án þess að vera sólarættar, né fær sál séð fegurðina án þess að vera sjálf orðin fögur.39 Verði hann fyrst alguðlegur og alfagur sem hyggst horfa á guð og fegurð!40 Á uppgöngu sinni kemur sálin fyrst til hugarins41 og kynnist öllum hinum fögru frummyndum og staðhæfir að þetta, frummyndirnar, sé fegurðin. Því allt er fagurt fyrir tilstilli þeirra, afsprengi hugar og veru. Það sem er handan þessa köllum við svið hins góða sem skýlir sér með hinu fagra. Svo talað sé í grófum dráttum má segja að hið góða sé hin huglæga fegurð. En ef við gerum greinarmun á hinu huglæga og hinu góða segjum við að svið frummyndanna sé hin huglæga fegurð, en hið góða sé það sem er fyrir handan og „uppspretta og upphaf“ hins fagra.42 Eða við setjum hið góða og frumlæga fegurð á sama stað. Fegurðin er alltént á hinu huglæga sviði.

 

Tilvísanir

1. Sbr. Platon, Samdrykkjan 210 C og Hippías meiri 297 E-298 B.

2. Platon, Samdrykkjan 211 C.

3. „Hlutfallsleg samsvörun“ = summetria. Grikkir, þar á meðal Platon og Aristóteles, voru almennt þeirrar skoðunar að samsvörun hluta og heildar sé fegurðinni eðlislæg. Stóumenn, sem Plótínos gagnrýnir hér, gengu svo langt að skilgreina fegurð eingöngu út frá þessu, sbr. Cicero, Samræður í Tusculum IV. 31: „Visst hæfilegt form hlutanna ásamt vissum ljúfleika litarins er sagt að sé sjálf líkamsfegurðin.“ Sbr. einnig Ágústínus, Um ríki Guðs XXII, 19.

4. Platon, Ríkið, 560 D og 348 C-D. Sbr. Gorgías 491 E.

5. Sjá nmgr. 26 hér að neðan.

6. „Efra“ og „neðra“ í samböndum sem þessu er hreint líkingamál sem Plótínos annars staðar varar við að taka of bókstaflega, sbr. VI. 5. 8.

7. „Regla“ = logos. Orðið logos á grísku hefur breitt merkingarsvið svo að það verður vart þýtt með neinu einu orði á önnur mál. Það getur til dæmis merkt „orð“, „tungumál“, „skynsemi“, „regla“. Fyrir Grikkjum voru þetta ugglaust tilbrigði eins og sama hugtaks. Hér í þessari ritgerð er logos oftast hálftæknilegt hugtak og merkir þá reglu eða „forrit“ sem stýrir náttúrunni og einstökum hlutum hennar. Hér er því notað orðið regla, og er lesendum bent á að hafa í huga bæði merkingu orðsins „regla“ eins og í sambandinu „hér er regla á hlutunum“ og eins merkinguna „boð“. – Textinn hér skírskotar til Tímaíosar 50 D.

8. Sbr. Aristóteles, Um tilurð dýra 769b12 og 770b16-17.

9. Hér styðst Plótínos við kenningu Empedoklesar um höfuðskepnurnar jörð, vatn, loft og eld. Þessa kenningu höfðu Platon og Aristóteles tekið upp, en Plótínos er hér sennilega líka að laga kenningu Stóumanna um eldinn sem hið skapandi afl í veröldinni að eigin hugmyndum.

10. Sbr. Platon, Samdrykkjan 210 C.

11. Platon, Faídros 250 B.

12. Sbr. Evripídes, Melanippa, brot 486 hjá Aristótelesi, Siðfræði Níkomakkosar 1129b28-29.

13. Sama.

14. Sbr. Platon, Samdrykkjan 212 A.

15. Sbr. Platon, Faídros 279 B ).

16. Platon segir frummyndirnar „án lögunar og litar“ í Faídrosi 247C.

17. Platon, Faídros 250 B.

18. Sbr. Hómer, Illíonskviða VII, 212.

19. Sbr. Platon, Gorgías 525 A.

20. Platon, Faídon 66 B.

21. Sbr. Platon, Faídon 66 B og 79 C.

22. Ríkið 572 A.

23. Herakleitos, brot 13. Fyrstu línurnar hér styðjast við Platon, Faídon 69 C.

24. Sbr. Faídon 64 C 5-7.

25. Sbr. Þeætetos 176 B.

26. Þessi fyrsta fegurð sem Plótínos talar um hér er það sem hann jafnan nefnir hið Eina og hið Góða. Það er upphafsforsenda alls sem er. Hið Eina er hafið yfir allan skilning, því verður ekki lýst með orðum og er jafnvel „handan veru“, þ.e.a.s. hið Eina hefur ekkert afmarkað eðli og er því ekki vera í venjulegum skilningi. Skör neðar í þessu stigveldi veruleikans er guðlegur, altækur hugur (nous), sem jafnframt er svið frummyndanna og sannrar veru. Á eftir honum kemur sál, bæði sálir manna og heimssál, sem stýrir reglubundnum ferlum og eigindum náttúrunnar, sbr. næstu línur.

27. Sbr. Platon, Samdrykkjan 211 E.

28. Sbr. Aristóteles, Frumspekin 1072b14.

29. Platon, Samdrykkjan 211 D-E.

30. Sbr Platon, Faídros 247 B.

31. Þessi kafli hafði mikil áhrif á Águstínus, sbr. Um ríki Guðs IX 17 og Játningar I 18, viii 8.

32. Platon, Ríkið 509 A.

33. Sbr. Hómer, Illíonskviða II, 140.

34. Sbr. Hómer, Odysseifskviða IX, 29 o.áfr. og X, 483-84.

35. Sbr. Platon, Ríkið 515 E-516 A.

36. Sbr. Platon, Samdrykkjan 210 B-C.

37. Platon, Faídros 252 D.

38. Sama rit 254 B.

39. Hér leggur Plótínos út af Ríkinu 508 B-509 A.

40. Goethe sneri þessari setningu og þeirri næst á undan lauslega á bundið mál í formála Litafræði sinnar: Wär’ nicht das Auge sonnenhaft, / Wie könnten wir das Licht erblicken? / Lebt’ nicht in uns des Gottes Kraft, / Wie könnt’ uns Göttliches entzücken?

41. Það er til hins guðlega, altæka hugar, sbr. nmgr. 26.

42. Sbr. nmgr. 26.

 

« Til baka

Um Plótínos og verk hans

eftir Eyjólf Kjalar Emilsson

Plótínos, höfundur ritgerðar þeirrar um fegurðina sem hér birtist, var uppi á þriðju öld e. Kr. Óvíst er um uppruna hans, þótt líkur bendi til þess að hann sé fæddur í Egyptalandi. Menntun sína hlaut hann alltént í Alexandríu, einhverri mestu menningarborg þessa tíma. Um fertugt fluttist Plótínos til Rómaborgar og stofnaði þar skóla. Ritgerðir þær sem hann skildi eftir sig og ritaðar eru á grísku virðast sprottnar beint úr málstofum sem hann hélt í skóla sínum.

Plótínos eftirlét nemanda sínum, Porfýríosi, að búa ritgerðirnar til útgáfu, og byggjast allar síðari tíma útgáfur á henni. Porfýríos flokkaði ritgerðirnar eftir efni og skipti þeim í sex hluta sem innihalda níu ritgerðir hver. Hver þessara sex hluta nefnist Níund (Enneas). Þannig höfum við sex Níundir með níu ritgerðum, fimmtíu og fjórum alls. Tölspekilegar ástæður lágu að baki þessari tölu – fimmtíu og fjórir eru þrír í þriðja veldi sinnum tveir, en tveir og þrír og veldi af þeim voru helgar tölur í grískri talnaspeki. Einatt er vísað til ritgerða Plótínosar eftir Níund í stað innan Níundar. Þannig er ritgerðin sem hér birtist I. 6., það er að segja furstaNíund, sjötta ritgerð.

Porfýríos skeytti framan við útgáfu sína Ævi Plótínosar, þar sem hann segir frá lífi læriföður síns, kennslu og ritstörfum, auk þess sem hann gerir grein fyrir útgáfu sinni. Þetta verk er ekki aðeins ómetanleg heimild um Plótínos, heldur almennt um heimspekinga og menntalíf á þessum tíma. Af Ævi Plótínosar má ráða að bæði kennsla hans og rit hafi þótt óvenjuleg. Grípum niður í frásögn Porfýríosar af kennslunni:

Eitt sinn spurði ég, Porfýríos, hann út úr í þrjá daga um hvernig sambandi sálarinnar við líkamann væri háttað, og hann hélt áfram að útskýra. Maður nokkur, Þámasíos að nafni, sem hafði áhuga á almennum fyrirlestri, kom þar að. Hann kvaðst óska að heyra Plótínos flytja efni til birtingar á bók og ekki þola að hlusta á svör og spurningar Porfýríosar. Plótínos svaraði: „Ef okkur tekst ekki að greiða úr ráðgátunum sem vakna við spurningar Porfýríosar, höfum við ekki nokkurn skapaðan hlut til að setja í bókina.“1

Og Porfýríos segir ennfremur:

Þegar Plótínos var búinn að skrifa eitthvað, gat hann ekki hugsað sér að fara tvisvar yfir það. Að lesa það og yfirfara einu sinni var honum jafnvel ofviða, því sjónin gagnaðist honum ekki til lestrar. […] Hann gaf sig óskiptan að hugsuninni, og okkur öllum til undrunar, hélst hann þannig til síðasta dags. Hann gekk frá viðfangsefni sínu frá upphafi til enda í huganum og þegar hann skrifaði það síðan niður, skrifaði hann án afláts það sem hann hafði skiptað niður innra með sér eins og hann væri að rita upp úr bók.2

Síðustu aldir fornaldar var allur þorri heimspekinga hallur undir hugmyndir Platons: hann var talinn hafa höndlað hin dýpstu og mestu sannindi og var höfuðverkefni heimspekinnar að útleggja hann rétt. Þessi platonismi síðfornaldar, sem raunar sótti margt til fleiri fornra heimspekinga en Platons og var í sumum greinum sjálfum frumleg stefna, er jafnan nefndur nýplatonismi og Plótínos talinn upphafsmaður hennar. Víst má deila um hvort Plótínos hafi markað nokkurt upphaf nýrrar stefnu, en ekki er um það deilt að hann var frumlegastur og mestur hugsuður þessara fylgismanna Platons og, ef til vill ásamt Próklosi, sá áhrifamesti.

Nýplatonisminn var hin viðtekna heimspeki í Rómaveldi þegar kristni var að breiðast út og margir fylgismanna hans heiðingjar sem tóku trú sína og heiðna arfleifð mjög alvarlega. Framan af veittu þeir kristindóminum viðnám, en heiðnin varð sem kunnugt er um síðir að játa sig sigraða. Eftir á að hyggja ættu þessir heiðnu heimspekingar þó að geta unað sæmilega við sinn hlut: þótt trú þeirra og margt annað sem þeim var kært hafi verið upprætt, gegnsýrði heimspeki þeirra hugmyndaheim andstæðinganna, hinna kristnu kirkjufeðra. Flestir helstu kenningasmiðir kristinnar guðfræði mega kallast kristnir platonistar og sumir þeirra, svo sem Ágústínus, Gregoríos frá Nyssa og Bóethíus, sækja beint í smiðju Plótínosar. Margir aðrir gera það óbeint, og raunar eru þræðirnir sem tengja heiðna platonista síðfornaldar við hugmyndaheim síðari alda ótrúlega margir og margslungnir. Richard Wallis ýkir varla að neinu ráði þegar hann skrifar: „Í yfirliti yfir áhrif nýplatonismans felst hótun um að skrifa næstum alla menningarsögu Evrópu og Miðausturlanda fram á endurreisnartíma, og í sumum greinum langtum lengra.“3

Rit Plótínosar voru óþekkt á Vesturlöndum á miðöldum, eins og flest önnur grísk heimspekirit, þótt margar hugmyndir hans væru löngu rótfastar. Bót var ráðin á þessu í lok 15. aldar þegar Marsilio Ficino þýddi Níundirnar á latínu og gaf út.4Þýðing þessi var endurútgefin mörgum sinnum á 16. og 17. öld. Ekki síst fyrir tilstilli Ficino þessa varð platonismi tískustefna um hríð, fyrst á Ítalíu og síðar í Frakklandi og á Englandi. Við túlkun sína á ritum Platons höfðu Ficino og fylgismenn hans hugmyndir Plótínosar og annarra heimspekinga síðfornaldar að leiðarljósi, enda virtu þeir þessa lærisveina til jafns við meistarann sjálfan. Til dæmis var eitt áhrifamesta verk Ficinos ný „samdrykkja“, þar sem gestir halda ræður um Samdrykkju Platons.5 Ritgerð Plótínosar um fegurðina, sem hér fylgir, er sjálf eins konar ritskýring eða útlegging á höfuðhluta Samdrykkjunnar, ræðu Díotímu, og þegar Ficino tekur við að útleggja Platon, sér hann verk hans í ljósi hugmynda Plótínosar um fegurð og ást. Þessi ritgerð Plótínosar ásamt annarri ritgerð hans um sama efni, „Um hina huglægu fegurð“ (V. 8.), hefur því sett varanlegt mark á hugmyndir vestrænna manna um eðli fegurðarinnar og stað hennar í tilverunni.

Platonismi að hætti Ficinos (eða Plótínosar) leið endanlega undir lok sem meginstraumur í heimspeki á 17. öld,6 en skildi eftir sig umtalsverð spor. Innan heimspekinnar sjálfrar má til dæmis víða finna slík spor hjá Descartes, Spinoza, Leibniz og Berkeley, en greinilegust og dýpst eru þau hjá þýskum náttúruspekingum og hughyggjumönnum 18. og 19. aldar, mönnum á borð við Goethe, Schelling og Hegel.7 Áhrifin hafa ekki verið minni í bókmenntum og listum, og þar hefur ritgerð Plótínosar vegið þyngst á metunum. Ýmsir helstu meistarar ítölsku endurreisnarinnar, með Michelangelo fremstan í flokki, aðhylltust til dæmis plótínsk-platonska fagurfræði og ástarspeki.8 Á Englandi var uppi maður að nafni Thomas Taylor (1758-1835). Hann var ötull talsmaður platonisma að hætti Plótínosar. Einkum fyrir tilstilli hans hafa nýplatonskar hugmyndir, þar á meðal hugmyndir Plótínosar um fegurðina, verið vel þekktar meðal enskumælandi skálda allt fram á þessa öld, og verið ýmsum þeirra kærar.9 Hugmyndir Plótínosar um þessi efni hafa ekki síst heillað skáld og listamenn, þótt líklegt megi telja að ýmsum sem nú eru uppi þyki þær nokkuð háfleygar.

 

Tilvísanir

1. Ævi Plótínosar 13.

2. Sama rit 8.

3. R.T. Wallis, Neoplatonism (Lundúnum, 1972), s. 160.

4. Marsilius Ficinus, Plotini Opera. Latina interpretatio (Flórens, 1492).

5. Marsilio Ficino, In Convivium Platonis De Amore Commentarius.

6. Sjá E. Tigerstedt, The Decline and Fall of the Neoplatonic Interpretation of Plato (Helsinki, 1974).

7. W. Beierwaltes, Platonismus und Idealismus (Frankfurt am Main, 1978) og J.-L. Vieillard-Baron, Platon et l’idéalisme allemand (1770-1830) (París, 1978).

8. Sjá E. Panofski, Iconology: Humanistic Themes in the Art of the Renaissance (Oxford, 1938) og A. Chastel, Art et humanisme à Florence au temps de Laurent le Magnifique (París, 1961).

9. Sjá til dæmis K. Raine, Blake and Tradition (Lundúnum, 1979) og F. Wilson, W.B. Yeats and Tradition (Lundúnum, 1958).

 

« Til baka