Anaxímandros frá Míletos

eftir Þorstein Gylfason

Eitt glæsilegasta kvæði á íslenzku frá okkar dögum er eftir Hannes Pétursson og fjallar um pólska stjarnfræðinginn Kóperníkus sem

hjó þessa jörð af feyskinni rót og henti
sem litlum steini langt út í myrkur og tóm.

Nú skyldi enginn ætla að ég vilji gera lítið úr afreki Kóperníkusar. Ég vil ekki heldur gera lítið úr kvæði Hannesar með því að fara að þvarga við hann út af því að Kóperníkus hafi alls ekki hent jörðinni út í tómið. Hún var í myrku tómi þegar Kóperníkus kom til skjalanna, og hann gerði ekki annað en að flytja hana til í tóminu, úr miðju sólkerfisins og úr áeina af hringbrautum þess. Ég hef orð á kvæði Hannesar vegna þess eins að þar er komizt fágætlega vel að orði, en vísu um afrek annars manns en Kóperníkusar. Afrekið sem Hannes vegsamar var unnið í fornöld. Það var Anaxímandros frá Míletos sem vann það. Hann hjó jörðina af öllum rótum, hvort heldur feysknum eða ófeysknum, og fleygði henni út í tómið og lét hana svífa þar óstudda. Með þessu tiltæki bjó hann það til sem við köllum stjörnufræði, og með því að segja svolítið meira um stöðu jarðarinnar í tóminu bjó hann til eðlisfræðina líka.

Kóperníkus skrifaði aldrei um annað en stjörnur og sól. Anaxímandros virðist hafa haft brennandi áhuga á öllum hlutum. Hann kenndi meðal annars að lífið hefði hafizt í sjónum, og að menn væru komnir af fiskum. Þessu trúum við eins og sakir standa, og höfum gert í meira en hundrað ár hér á Vesturlöndum eftir nokkra mæðu. Þegar því var fyrst haldið fram á síðustu öld, einkanlega af Charles Darwin, að lífið hefði hafizt og síðan þróazt með þessum hætti þá varð allt vitlaust. Hugmyndin þótti fráleit, og stórhættuleg bæði trú og siðferði. Engum datt annað í hug framan af, að ég bezt veit, en að hugmyndin væri ný. En þá var hún svona ævagömul. Hún kviknaði strax í árdaga vísindalegrar hugsunar. Og með henni varð það til sem við köllum lífræði. Anaxímandrosi eru eignuð margvísleg afrek önnur en þessi. Eina heimspekisagan sem við eigum úr fornöld er Heimspekingaævir eftir Díógenes Laertíos. Þar er stuttur kafli um Anaxímandros, og í þeim kafla segir að hann hafi fyrstur manna fundið upp sólsprota til að mæla hæð og stefnu sólarinnar, tímamæli, landakort og stjörnuhnött.1 Það er óvíst hvað þetta er áreiðanleikur fróðleikur. Til dæmis segir Heródótos sagnritari að sólsprotinn hafi borizt til Grikklands frá Babýlon,2 og enn ein heimild segir að Anaxímandros hafi flutt sólsprotann til Grikklands.3 Reyndar sýnir kaflinn um Anaxímandros vel hvaðHeimspekingaævir geta orðið óáreiðanlegar, því að þegar kemur að kenningum Anaxímandrosar ruglar Díógenes honum alveg saman við Anaxagóras sem var miklu yngri höfundur og af allt öðru sauðahúsi.

En við vitum alveg nóg um Anaxímandros til að geta sagt það fortakslaust að þar sem hann fór hafi farið einhver ágætasti afreksmaður í allri sögu mannsandans. Þess vegna væri gaman að geta botnað eitthvað í honum. Hvernig hugsaði hann? Við hvaða gátur var hann að glíma? Hvernig fór hann að því að glíma við þær?

II

 

Frumherjar grískrar heimspeki eru heillandi efni en að sama skapi erfitt viðfangs. Helzti vandinn er sá að heimildir okkar eru allar í brotum, enda eru þær aldrei kallaðar annað en brot. Brot frumherjanna – Die Fragmente der Vorsokratiker – heitir frægasta útgáfa á því litla sem við höfum í höndunum um þá.4 Brotin eru stuttar glefsur frá ýmsum tímum, ýmist ófullkomnar tilvitnanir í rit sem frumherjarnir sjálfir eiga að hafa skrifað eða ummæli yngri höfunda um kenningar þeirra. Anaxímandros er sagður hafa samið eina bók með heitinu Um náttúruna, og úr henni höfum við ekki nema fáorða klausu sem er þó oft kölluð „stóra brotið“ því að hin brotin fjögur sem honum eru eignuð í Brotum frumherjanna eru svo ógnarsmá vexti.

Við þessum arfi er svo hægt að bregðast á ýmsa vegu. Ein leiðin er sú sem allur þorri sérfræðinga um frumherjana virðist fara. Þá er rýnt í orðlag á heimildum af fræðilegri smásmygli, og oftar en ekki í þeim endanlega tilgangi að sýna fram á að allar kenningar sem miður nákvæmir höfundar hafa haft um frumherjanna standast ekki í ljósi hinnar ýtrustu nákvæmni um einstök atriði. Þannig megi til að mynda ekki með neinu móti eigna Anaxímandrosi neinar hugmyndir um óendanleikann þó svo að það hafi Aristóteles gert þegar í fornöld. Það væri tíma­skekkja vegna þess að skýrar hugmyndir um óendanleikann hafi ekki komið til sögunnar fyrr en með þeim Melissosi og Zenóni, lærisveinum Parmenídesar, sem voru uppi löngu á eftir honum.5 Lærdómsrit af þessu tæi umfrumherjanna er The Presocratic Philosophers eftir G.S. Kirk og J.E. Raven, sennilega langbezta rit sinnar tegundar og fullt af ævintýralegum fróðleik um orðalagið á einstökum heimildum og margt fleira.

Ég get ekki stillt mig um að fara fáeinum almennum orðum um fræðimennsku af þessu tæi. Hún hefur á sér yfirbragð hinnar ábyggilegustu nákvæmni, og hún er orðin til fyrir gífurlega elju og yfirsýn yfir ótölulegan sæg af smáatriðum. Og þegar þetta mikla eljuverk hefur verið unnið verður freistandi að trúa því að þar með vitum við allt sem verði vitað um efnið, og jafnvel allt sem máli skiptir um það. En sannleikurinn er auðvitað sá að það er engan veginn sjálfgefið að jafnvel virðingarverðasta smásmygli leiði allt í ljós sem verði vitað, og þaðan af síður að við séum fyrir tilverknað hennar hóti nær um neitt sem skiptir máli. Tökum aftur dæmi af óendanleikanum. Segjum að það sé hægt, þótt það sé í rauninni alls ekki hægt,að rökstyðja það með nákvæmum tilvísunum í fjörtíu brot úr heimildum að hugmyndir um óendanleikann hafi ekki verið orðnar skýrar fyrr en á dögum Zenóns.6 Það er engan veginn sjálfgefið að af þessu megi draga þá ályktun að Anaxímandros hafi ekki haft neina hugmynd um óendanleikann. Því hvers vegna skyldi hann ekki hafa verið á undan sinni samtíð í þessu efni eins og mörgum öðrum, og jafnvel langt á undan henni? Ekki segjum við að hann hafi ekki getað haft þróunarkenningu um lífið. Við finnum ekki upp á nýjum þýðingum á heimildunum um það efni, á þeim forsendum að þróunarkenningar hafi ekki komið til sögunnar fyrr en 2500 árum síðar.

Úr þessari litlu athugasemd um óendanleikann má svo vinna á ýmsar lundir og halda í ýmsar áttir. Við eigum kost á ýtrustu nákvæmni í handritarannsóknum og handritaútgáfum, en það er eins víst að ekkert af því sem þannig er leitt í ljós segi okkur neitt sem máli skiptir um Snorra-Eddu eða Víga-Glúms sögu. Allar ályktanir af hinum nákvæma lærdómi, eða í nafni hans eða í anda hans, geta verið ámóta brigðular og það sem við ályktum án hans, og jafnvel brigðulli ef út í það er farið. Með þessum orðum er ekki ætlun mín að gera lítið úr nákvæmri fræðimennsku – ég ber djúpa virðingu fyrir henni – heldur aðeins að vara fólk við því að einblína á hana og telja hana allsherjarlausn á öllum vanda um viðfangsefni eins og íslenzkar miðaldabókmenntir eða frumherjanna grísku. Það er nær að líta á þessa fræðimennsku sem ómissandi hjálpartæki við tilraunir til að afla vitneskju, og gera það sem máli skiptir. Og á endanum skiptir það eitt máli að reyna að skilja hlutina og setja þá í samhengi.

Tveir af nafnkunnustu heimspekingum tuttugustu aldar – þeir Martin Heidegger og Karl Popper – hafa sýnt frumherjunum grísku mikinn áhuga og skrifað um þá merkilegt og á köflum innblásið mál.7 Hvorugur skeytir mikið um viðtekin smásmyglisfræði um þá. Heidegger ræðst jafnvel fífldjarfur inn á eitt meginsvið nákvæmnisfræðanna og hefur þar endaskipti á öllum hlutum: hann veltir sér upp úr orðsifjum og varpar fram hverri furðulegri orðskýringunni á fætur annarri. Hann hefur náttúrlega sætt miklu ámæli málfræðinga fyrir þessar sakir, og ber sig þó karlmannlega. Popper ræðst gegn þeim Kirk og Raven og þeirra líkum fyrir skynsemislausa smásmygli sem sér ekkert stórt og fagurt í kenningum höfunda Anaxímandrosar eða Herakleitosar. Kirk hefur svarað fyrir sig, og fengið heldur harða kveðju frá Popper á móti.8

Ég vil ekki taka afstöðu í þessum deilum, því mér virðist augljóst að báðir deiluaðilar hafi á réttu að standa svo langt sem sjónarmið þeirra ná. Nákvæmnislærdómurinn verðum við að hafa og hann sem allra beztan, en þegar hann er fenginn er annað eftir: að sjá það sem er stórt og fagurt í viðfangsefninu. Og til þess hrekkur hin smásæja fræðimennska engan veginn hvernig sem hún er toguð og teygð. Til þess þarf andríki eins og það sem Popper hefur til að bera, eða þó ekki sé nema sérvizku eins og Heiddegger hefur meira en nóg af.

Nú er ég því miður enginn maður til þess gagnvart Anaxímandrosi að fara í för þeirra Heideggers og Poppers um andríki eða sérvizku. En mig langar samt til að reyna að líta á hann í dálítið öðru ljósi en til dæmis Kirk og Raven gera, og gert er líka í þremur íslenzkum ritum þar sem hann kemur við sögu: í Sögu mannsandanseftir Ágúst H. Bjarnason, Heimsmynd á hverfandi hveli eftir Þorstein Vilhjálmsson og í ritgerðinni „Frumherjar grískrar heimspeki“ eftir Patriciu Curd og Eyjólf Kjalar Emilsson í nýrri bók sem heitir Grikkland ár og síð.9 Af þessum íslenzku ritum er aðeins hið síðastnefnda samið í nafni nútíma fræðimennsku. Þeir Ágúst og Þorsteinn eru ekki sérfræðingar í frumherjunum þótt kaflar þeirra umþá séu raunar alveg ágætir svo langt sem þeir ná.

III

 

Anaxímandros átti sér aðeins einn fyrirrennara í sögu heimspekinnar og vísindanna svo vitað sé, Þales í Míletos sem sumir segja að hafi verið kennari hans. Aðrir segja að það sé ekkert að marka þá sögn, og ekki hina heldur að Anaxímenes hafi verið nemandi Anaxímandrosar. Um Þales vitum við ósköp lítið. Hann er sagður hafa kennt að vatn væri upphaf eða jafnvel frumefni allra hluta. Hvers vegna skyldi hann hafa haldið þessu fram? Það vitum við ekki. Kannski vegna þess að hann hafi tekið eftir því að vatn getur breyzt í stóra jurt – það gerist fyrir augunum á okkur í hverri dagstofu þar sem blóm vaxa í pottum – og hvers vegna skyldi vatn þá ekki breytast í hvað annað sem er? Svo á hann að hafa haldið því fram að jörðin væri kringla sem flyti á vatni. Hann á hafa sagt fyrir um sólmyrkva, og svo er okkur hermt að hann hafi fórnað uxa fyrir sönnun sem hann fann á setningu í flatarmálsfræði, þeirri að horn innritað í hálfhring sé rétt horn.10

Mér hefur af einhverjum ástæðum alltaf þótt síðasti vitnisburðurinn vera merkilegastur.11 Flestum þykir hann merkilegur fyrir að nefna flatarmálsfræði, og tengja hann þá við fróðleik úr öðrum heimildum að Þales hafi fært flatarmálsfræðina til Grikklands frá Egyptalandi.12 Mér þótti hann á hinn bóginn lengi vel vera umhugsunarverðastur fyrir fórnina þótt ég hafi engan höfund lesið sem veiti henni neina athygli: það viðhorf til lífsins að uppgötvun í flatarmálsfræði beri að þakka með stórri fórn. Hvað mundu margir lesenda minna vera til í að fórna bílnum sínum fyrir slíka uppgötvun? En svo skipti ég um skoðun. Nú þykist ég sjá að merkilegasta orðið í þessu broti um Þales er ekki „flatarmálsfræði“ og ekki „fórn“ heldur „sönnun“. Hann fann sönnun: það er að segja hann gerði uppgötvun og studdi hana rökum, og meira að segja traustum rökum ef við gefum okkur að sönnunin hafi verið ströng. Þess má geta að Kirk og Raven efast um að Þales hafi fundið neinar sannanir, heldur hafi hann í mesti lagi gert einhverjar mælingar. Rökin fyrir efasemdunum eru þau að eftirmenn hans í Míletos, Anaxímandros og Anaxímenes hafi ekki fengizt við stærðfræði og þar með sé ekki trúlegt að hann hafi gert það heldur í neinni alvöru.13 Aðrir – eins og Guthrie í hinni miklu öndvegissögu grískrar heimspeki – velta vöngum yfir hvað „sönnun“ geti merkt margvíslega hluti í grískri stærðfræði á ýmsum tímum.14 Þessar efasemdar nákvæmnismanna eru bersýnilega ekki vitund skárri en traustið á heimildinni um það sem máli skiptir: hann gerði uppgötvun og studdi hana rökum, hver svo sem þau rök voru og hvort sem þau voru ströng í skilningi síðari tíma stærðfræði eða ekki.

Hann fann sönnun. Hér stöndum við frammi fyrir einu af mestu afrekum hins forngríska anda: það sem einkum greinir gríska stærðfræði frá allri annarri stærðfræði eru sannanir. Og þegar Pýþagóras kemur til sögunnar í kjölfarið á Míletosmönnunum Þalesi, Anaxímandrosi og Anaxímenesi verða stærðfræðilegar sannanir að háleitri köllun sem ekkert lát er á í vísindum Vesturlanda til þessa dags þegar mörg þúsund setningar eru sannaðar á ári hverju, og sumum þeirra fagnað í fjölmiðlum ef ekki með blóðfórnum. Það er fyrst og fremst vegna sannananna sem Hardy hefur eftir Littlewood – en þeir eru í hópi merkustu stærðfræðinga þessarar aldar – að forngrískir stærðfræðingar séu ekki aðeins eins og „greindir skólastrákar“ í fræðum sínum heldur eins og „kennarar við annan háskóla“.15 En ég ætla ekki að dvelja mikið við stærðfræðilegar sannanir hér þótt gaman væri að því. Það sem máli skiptir er að Þales fann sönnun, og jafnvel sannanir samkvæmt sumum heimildum, og frá mínu sjónarmiði þessa stundina skiptir það mestu um sannanir að sannanir eru rök hvers eðlis svo sem þær eru í einstökum tæknilegum atriðum. Við spyrjum af hverju við eigum að trúa Pýþagórasareglu, og þá fáum við svar í formi raka fyrir því að reglan sé rétt, og raunar að hún geti ekki verið annað en rétt.

Og nú vil ég ganga að því vísu að kenningar bæði Þalesar og Anaximandrosar um önnur efni en greina stærðfræði hafi verið eins og stærðfræðin að því leyti að þær hafi verið rökstuddar kenningar. Því miður vitum við ekki nóg um vatnskenningu Þalesar til að geta getið okkur til um rökin fyrir henni. Við vitum til dæmis ekki hvort hann veitti því athygli að vatn sem við vökvum jurt með hlýtur að breytast í blóm. En þótt við vitum líka lítið um Anaxímandros held ég að við vitum nóg til þess að geta að minnsta kosti skemmt okkur við að gera okkur til að um rök hans fyrir sumum kenningum sínum.

Byrjum á hugmyndinni um að jörðin svífi óstudd á geimnum. Áður hafði Þales kennt að jörðin flyti á vatni. Aristóteles tengdi þessa kenningu við kenninguna um vatnið sem afl eða efni allra hluta, hvernig í ósköpunum sem það er nú hugsað hjá honum.16 En Aristóteles gerir aðra athugasemd um það að fljóti á vatni. „Eins og vatnið þurfi þá ekki aðra undirstöðu!“ segir hann.17 Með öðrum orðum: kenning Þalesar um jörðina býður því heim sem nú heitir vítaruna.

Sú saga lifir á Harvardháskóla að seint á síðustu öld hafi William James verið að halda þar fyrirlestra fyrir almenning um heimspeki, og í einum þeirra hafi hann verið að útlista vítarunurök eins og þau að Guð geti ekki talizt skapari heimsins á þeim forsendum að einhver hljóti aðhafa skapað heiminn, vegna þess að svarið „Guð“ við spurningunni „Hver skapaði Guð?“ og þannig áfram endalaust. James bar þessa röð af sköpurum saman við indverska sögn um að jörðin hvíldi á baki fjögurra fíla sem aftur stæðu á baki risavaxinnar skjaldböku og skjaldbakan á ég man ekki hverju, og þannig endalaust. Þá á gömul frú í salnum að hafa rétt upp höndina og sagt: „Prófessorinn hefur á röngu að standa. Veröldin er byggð á bjargi.“ James spurði: „Á hverju stendur bjargið?“ Gamla frúin svaraði: „Bjargið nær alla leið niður.“18

Nú er afskaplega freistandi að geta sér þess til að Anaxímandros hafi komið auga á vítaruna sem kenning Þalesar – og goðafæðinnar ef út í það er farið – kallaði á. Ef jörðin þarf vatn til að hvíla á þá þarf vatnið eitthvað annað eins og hafsbotninn, og hafsbotninn síðan eitthvað enn annað og þannig áfram endalaust. Aristóteles fer með það sem fullkomlega sjálfsagðan hlut að kenning Þalesar veki þennan vanda, og hvers vegna skyldi Anaxímandros ekki hafa orðið fyrstur til að koma auga á þennan sjálfsagða hlut?

Við höfum ágæta ástæða til að eigna Anaxímandrosi þessa hugsun. Hugsunin er ekki bara góð og gild röksemd gegn kenningu Þalesar, og þar með ástæða til að hafna þessari kenningu og setja aðra í staðinn, heldur er hún líka stofn í röksemd fyrir nýrri kenningu. Því það er auðvitað sama hvaða stoð við setjum í staðinn fyrir vatnið: við fáum alltaf vítarunu. Þess vegna hefur jörðin yfirhöfuð alls enga stoð. Hún svífur í lausu lofti.

Við þessa hugsun bætir Anaxímandros svo merkilegri athugun. Hann spyr hvers vegna jörðin falli ekki úr því að ekkert heldur henni uppi. Svarið er að hún sé í miðju geimsins og hafi þar með enga ástæðu til að falla til einnar áttar fremur en annarrar.19 Á þessu svari eru margar hliðar. Ein er sú að hér virðist búa að baki sú hugsun að upp og niður séu afstæðar hugmyndir en ekki algildar. Þegar yfirborði jarðar sleppir er ekkert til sem heitir upp og niður, hvað þá alla leið niður eins og hjá gömlu frúnni á Harvard. Þetta er merkilegt meðal annars vegna þess að hugmyndir um afstæði og algildi áttu eftir að leika mikið hlutverk í grískri heimspeki eftir daga Anaxímandrosar, til dæmis hjá Herakleitosi, Demókrítosi og Platóni, auk þess sem þær eru fyrirferðarmiklar á okkar dögum bæði í hinni háfleygustu eðlisfræði og í hversdagslegustu hugmyndum okkar um gott og illt og rétt og rangt. Annað er að her er komin hugmynd um kerfi himinhnatta í náttúrlegu jafnvægi. Popper tekur mikið upp í sig um hana og segir að hér sé heimskerfi Newtons að fæðast og lastar Aristóteles fyrir vanskilning á henni.20 Hið þriðja er að hér höfum við vísi að lögmáli hinnar einhlítu ástæðu eins og það heitir í heimspeki síðari alda, og þar með að hugmyndum okkar um orsakalögmál. Allar þessar hugmyndir valda því að við getum sagt með góðri samvizku að Anaxímandros sé hinn sanni upphafsmaður eðlisfræðinnar auk stjörnufræðinnar.

IV

 

Næst skulum við hyggja í stuttu máli að þeirri að þeirri kenningu Anaxímandrosar sem hann var kannski frægastur fyrir í fornöld, kenningunni um apeiron eða ómælið. Þales kenndi að upphaf, afl eða efni allra hluta væri vatn, og eftirmaður Anaxímandrosar Anaxímenes hélt fram loftinu. Með tilliti til þessara kenninga um vatn og loft hefði mátt búast við að Anaxímandros héldi fram annaðhvort eldi eða jörð úr því að hann þurfti endilega að vera öðruvísi en hinir tveir. En hann tekur kost af allt öðru tæi og nefnir til svo órætt afl eða efni að menn deila um það til þessa dags jafnvel hvað orðið „apeiron“ merkir hjá honum, og þá náttúrlega ekki síður hver hugsunin hafi verið í kenningunni í heild.21 Í hversdaglegri grísku merkja orðin „to apeiron“ nánast „hið óafmarkaða“ eða „hið ótakmarkaða“, með þeim afleiðingum að Aristóteles lagði það að jöfnu við óendanleikann eins og fram er komið.22

Nú gæti ég reynt að veita yfirlit yfir ólíkar kenningar fræðimanna um eðli ómælisins, og síðan að taka afstöðu til þeirra með hæfilegum tilburðum. En ég vil heldur reyna að nálgast efnið úr annarri átt. Við höfum séð á kenningu Anaxímandrosar um jörðina að það má líta á hann sem rökvís­legan hugsuð með afbrigðum, hvort heldur hann er að gagnrýna hugmyndir kennara síns eða setja fram nýja kenningu í þeirra stað. Og hann er róttækur hugsuður líka: það er ekki nóg með að hann hafni einni stoð undir jörðinni heldur sér hann að það er ekkert vit í hugmyndum um neinar stoðir. Burt með þær allar, þó svo það kosti jafn djarfa tilgátu og þá að jörðin, með fjöllum sínum og höfum, svífi eins og fugl eða fis. Hann hugsar bara upp nýstárlegar hugmyndir og jafnvel lögmál um ástæður til falls og jafnvægi kerfa til að styrkja tilgátuna frekar.

Nú skulum við láta hana fara að með áþekkum hætti gagnvart hugmyndum um upptök alls, um frumafl eða frumefni allra hluta. Segjum að Þales hafi trúað því að vatn sé efnið í öllum hlutum eins og það er bersýnilega efnið í að minnsta kosti sumum jurtum. Þá verður vatn að geta tekið á sig eiginleika allra hluta, til að mynda elds. En það virðist fráleitt: eldur og vatn eru ósamrýman­legar andstæður. Blautur eldur og logandi vatn eru ekki til og jafnvel óhugsandi. Svo að ef til er eitthvert eitt frumefni þá verður það að vera eitthvað annað en vatn, og eitthvað annað en eldur ef út í það er farið. En hvað? Loftið, eins og hjá Anaxímenesi? Getur það ekki verið bæði blautt og logandi? Kannski. En getur það þá verið fast frekar en laust í sér þannig að grjót sé í rauninni loft eða orðið til af lofti?

Gagnvart slíkum spurningum virðist mér freistandi að hugsa sér að Anaxímandros hafi leikið næstum sama leikinn og hann lék gagnvart stoðum jarðarinnar.23 Hann hafnaði þeim ekki vegna þess að þær væru ekki nógu traustar, eða að hugmyndirnar um þær ekki nógu skýrar. Hann hafnaði þeim sem stoðum en ekki sem ófullnægjandi stoðum. Grikkir kunnu ágæt skil á byggingum og siglingum eins og allir vita. Hversdagsleg reynsla af byggingu húsa og siglingu skipa virðist segja skýrt og skorinort að ekkert hangi uppi án stoða. En samt hafnaði Anaxímandros sjálfri hugmyndinni um stoð. Og með áþekkum hæti virðist hann geta farið að hugmyndinni um efnislegt upphaf hlutanna. Hann hefur það fyrir sér að efnislegir hlutir hafa allir andstæða eiginleika, eru blautir og þurrir, heitir og kaldir, og svo breytast þeir jafnt og þétt með þeim hætti að einn andstæður eiginleiki víkur fyrir öðrum: þeir blotna og þorna, hitna og kólna. En það sem hitnar og kólnar eins og sverð þarf ekki að geta blotnað og þornað eins og svampur. Og ef það á eitthvað að vera sem geti heitið upptök alls þessa þá getur það ekki verið efnislegur hlutur af sama tæi og allir hinir. Því það má þá ekki hafa neina eiginleika sem útiloka aðra útiloka eins og efnislegir hlutir hafa. Ef það hefði slíka eiginleika þá gæti það ekki tekið við öllum andstæðum eiginleikum, og þar með gæti það ekki orðið að öllum hlutum eins og því er ætlað að verða. Anaxímandros kallaði þessi upptök án eiginleika ómælið, „to apeiron“.

Ein aðferðin til að geta sér til um rökvísi frumherjanna er að hyggja að því hvernig yngri höfundar sem við höfum fyllri heimildir um hugsuðu um sömu efni. Þess vegna held ég að það væri þarft verk að rýna í hugmynd Aristótelesar um ómælið sem óendanleika. Þetta er einmitt það sem við gerðum þegar við hugðum að hugmyndinni um stoðir jarðarinnar. Við sáum að Aristóteles afgreiðir hugmynd Þalesar um að jörðin fljóti á sjónum með vítarunurökum, og létum okkur þá detta í hug að Anaxímandros hefði gert það líka og sáum að með þeirri einföldu tilgátu má sjá fullt vit í því hvernig hans eigin kenning verður til á rústum hinnar. Og eins má kannski hafa stuðning af brotum Herakleitosar um afstæði og algildi – þau eru dálítið fyllri en allt sem við vitum um Míletosmenn – við að reyna að átta sig á hvað Anaxímandros hefði getað hugsað um upp og niður. Það má jafnvel hafa stuðning af eindakenningu Demókrítosar, tildæmis þeirri kenningu hans að frumeindirnar hafi enga annarlega eiginleika eins og lit eða lykt heldur aðeins frumlega eiginleika eins og lögun og hraða, í því skyni að átta sig á ómæliskenningu Anaxímandrosar.24 Með þessu á ég auðvitað ekki við að við eigum að reyna að eigna elztu heimspekingum sem mest af því sem yngra er, heldur einungis að við höfum hinnar yngri og fyllri heimildir til leiðsagnar í getgátum okkar um hvernig til dæmis Míletosmenn hefðu getað hugsað það sem þeir eru taldir hafa sagt.

Platón er ásamt Aristótelesi fyllsta heimild sem við höfum um forna heimspeki þó svo að hann hirði næstum aldrei um að fræða okkur um hana sérstaklega – þessi sagði þetta og hinn sagði hitt – eins og Aristóteles gerir jafnt og þétt. Stundum er deginum ljósara að Platón er að segja frá gamalli kenningu án þess hann láti nokkurs höfundar getið, hvað þá heimildar. Þannig virðist Faídón eftir Platón vera barmafullur af stefjum úr heimspeki frumherjanna; til dæmis úr Pýþagagórasarfræðum, án þess að Pýþagóras sé nefndur á nafn, eða þá úr Anaxagóras sem er endursagður þar með nafni og gagnrýndur í alllöngu máli. Og þar er Sókrates látinn lýsa sinni eigin kenningu um jörðina og stöðu hennar með þessum orðum:

ég tel, að sé jörðin hnöttur í miðju himnanna, þurfi hún hvorki loft né neina sambærilega stoð til að verjast falli. Hún þarf þess eins við, að himnarnir séu sömu lögunar til allra átta og hún sjálf í jafnvægi. Því hlutur í jafnvægi ímiðjum einslaga geymi getur með engu móti hneigzt meira til einnar áttar fremur en annarrar; hann mun haldast í kyrrstöðu og hallast hvergi.25

Þetta er auðvitað ekkert annað en hin gamla kenning Anaxímandrosar, að því einu frátöldu að samkvæmt sumum heimildum taldi Anaxímandrosar jörðina ekki vera hnött heldur bumbu.

Ein af helztu röksemdufærslum Platóns í Faídóni virðist mér bera þó nokkur merki Anaxí­mandrosar.26 Þar eru sett fram tvö lögmál – sem við getum kallað svo þótt Platón geri það ekki – um alla breytingu: andstæðulögmál sem segir að öll breyting sé í því fólgin að eiginleiki víki fyrir andstæðum eiginleika eins og væta fyrir þurrki þegar hlutur þornar eða vaka fyrir svefni þegar maður sofnar, og mótvægislögmál sem segir að sérhverri breytingu til einnar áttar samsvari önnur til hinnar, eins og að blotna samsvarar því að þorna og að vakna því að sofna. Og rökin fyrir mótvægislögmálinu eru þau að án þess mundi heimurinn ekki varðveitast í fjölbreytni sinni heldur líða undir lok. Ástæðurnar til þess að tengja þessar hugmyndir í Faídóni við Anaxímandros eru þær að hann hafði næstum örugglega, fyrstur grískra hugsuða, skýra hugmynd umbreytingar sem átök andstæðna27 – en þetta er hugmynd sem fylgdi grískri heimspeki lengi og háði henni nokkuð þegar fram í sótti frá okkar sjónarmiði – og svo þær að stóra brotið eftir hann kveður á um varðveizlu heimsins í jafnvægi. Þar er kominn fyrsti vísir að varðveizlulögmáli í vísindum. Vísindin á okkar dögum eru sem kunnugt er morandi í varðveizlulögmálum eins og til dæmis orkulögmál­inu eða lögmálinu um varðveizlu skriðþungans í aflfræðinni.

Brotið sjálft segir að vísu ekki annað en að

það sem allir hlutir verða til af hlýtur óhjákvæmilega einnig að vera það sem þeir tortímast í. Því eftir því sem tíminn skipar þeim niður gjalda þeir hver öðrum refsingu og bætur fyrir misgjörðir sínar.28

En þegar þetta brot er sett í samhengi annarra brota, eftir Anaxímandros og um hann, virðist óhætt að segja að þarna sé varðveizluhugmyndin, og meira segja líka einhver vísir að hugmynd um náttúrulögmál í skáldlegu máli brotsins (eins og heimildin í brotinu kallar það) um refsingar og bætur fyrir dómstóli tímans. Líkinguna um refsingar og bætur ber að sjálfsögðu að skilja í ljósi hugmyndarinnar um andstæður sem ávallt verða að víkja hver fyrir annarri. Við þetta bætist svo það að varðveizluhugmyndin um náttúruna í heild er ekki alveg óskyld jafnvægishugmyndinni um jörðina í miðjum geimnum.

En þetta er ekki það eina sem máli skiptir úr mótvægisrökunum í Faídóni fyrir leik ímyndunarinnar í kringum Anaxímandros. Platón lætur Sókratesnota lögmálin tvö um breytingar til að leiða í ljós ódauðleika sálarinnar, eða lífsandans eins og kannski væri nær að segja hér því að Platón tekur fram að sú sál sem er að hugsa um í þessu samhengi sé sameiginleg öllum mönnum, dýrum og jurtum. Átök andstæðnanna í náttúrunni krefjast þess að verurnar í henni – jurtir,dýr og fólk – deyi og lifni. Ég verð lík og rotna en af því kviknar gróður á gröfunni:

Nautgæfa fóðurgrasið grær á leiði móður þinnar þjáðu

orti Jónas Hallgrímsson til aðhugga fylgismann Hegels sem misst hafði móður sína, og Hannes Pétursson hefur ort annað framúrskarandi kvæði um sama efni þar sem segir umþá sem hvíla í kirkjugarði:

og þeir sem annars einskis fá að njóta eiga þess kost umsumarlanga tíð við fuglasöng að seytla upp eftir trjánum.

Og af einhverri slíkri hringrás frá lífi til dauða og aftur til lífs vill Platón draga þá ályktun að til sé ódauðlegt lífsafl.29 „En lífið lifir,“ segir Knut Hamsun.

Auðvitað er lítill vandi að gagnrýna þessa ályktun, bæði í þeim sérstaka búningi endur­holdgunartrúar sem hún hefur hjá Platóni og eins í mörgum öðrum sem við gætum reynt að búa henni til að betrumbæta Platón. En hugsunin er einföld og snjöll: það verður að vera eitthvert afl sem sjálft er hvorki lifandi né dautt – og má þess vegna heita ódauðlegt – sem viðheldur þeirri náttúru sem ýmist lifir eða deyr án afláts. Og þetta er óneitanlega býsna áþekk hugsun þeirri sem freistandi er að eigna Anaxímandrosi um ómælið ef við reynum, eins og ég er að reyna, að átta okkur á rökvísinni í hugsun hans, nema hvað ómælið er allsherjarafl en ekki bara lífsandi eða lífsafl. Svo getum við gengið lengra ef við kærum okkur um og getið þess til að í ómælis­kenningunni sé fólgin ekki bara ein rótin að eindakenningu Demókrítosar, sem er kannski frægust allra fornra kenninga á síðari öldum, heldur líka ein rótin að sálarhugmynd Platóns, og þar með kristinsdómsins og kannski okkar allra hér á Vesturlöndum hvort sem við teljum okkur kristin eða ekki.

V

 

Loks skulum við hyggja lauslega að þróunarkenningu Anaxímandrosar. Var hann að yrkja eins og Simplikíos segir að hann hafi verið að gera þegar hann gerði tímann að dómara yfir hlutunum umbætur og refsingar? Eða var hann að spauga eins og við þegar við köllum fólk þorska á þurru landi? Eða getum við reynt aðgreina einhverja rökvísi í hugmynd hans um uppruna lífsins í hafinu og mannsins meðal fiska?30

Reyndar getum við það meðléttum leik á grundvelli yngri heimilda. Hugsunin virðist haf verið sú – jafn einföld og hún er snjöll – að okkur sé óhætt að gera ráð fyrir því að hinir fyrstu menn hafi orðið til með sama hætti og menn verða til enn í dag. Auðvitað ekki af mönnum því að þá væru þeir ekki hinir fyrstu menn, auk þess sem við viljum enga vítarunu hér fremur en í kenningum okkar um stoðir jarðarinnar og hljótum því að ganga að því vísu að einhvern tímann hafi hinir fyrstu menn verið til. En ef þeir urðu til með sama hætti og við, og hvítvoðungar eru eins og allir vita ósjálfbjarga og það meira að segja lengi framan af ævinni. Með þessu móti hefði mannkynið aldrei komizt á legg. Þess vegna verðum við að gera ráð fyrir að hinir fyrstu menn hafi orðið til af dýrum sem gátu annazt þá þangað til þeir gátu séð um sig sjálfir.

En hvers vegna hófst lífið í vatni og hvers vegna urðu fiskar fyrir valinu sem forfeður manna? Þessum spurningum getum við því miður ekki svarað. Kannski var það meðal annars reist á þeirri hugsun að allt sem lifir krefst fyrst og fremst vatns. Við höfum einavísbendingu um fiskana hjá Plútarkosi sagnfræðingi: þar er sú athugun eignuð Anaxímandrosi að háfurinn ali afkvæmi sín með einmitt þeim hætti sem mundi hæfa hinum fyrstu mönnum ágætlega.31 Ég get ekki að því gert að ég greini sama handbragðið á þessari röksemdafærslu og hinum. Eitt er að vítaruna kemur ofurlítið við sögu eins og í stjörnufræðinni. Annað er það að hér er alhæft af skemmtilegri dirfsku: ekki um allar stoðir jarðarinnar eins og í stjörnufræðinni eða allar efnislegar orsakir hlutanna eins og í efnafræðinni, heldur einfaldlega um alla menn: þeir fæðast allir sem hvít­voðungar, og þar með líka hinir fyrstu menn. Og svo er sýnt fram á að alhæfingin hafi fráleitar afleiðingar: það er engin stoð í stoðunum, það getur ekkert orðið til, mannkynið deyr út um leið og það verður til. Og svo kemur öldungis nýstárleg og framandleg kenning til að leysa gátuna: um jafnvægi í stað stoða, um ómæli í stað efnis og um uppruna mannsins meðal fiska í sjónum.

VI

 

Nú virðist mér það blasa við að það sem er stórt og fagurt í þeim hugmyndum Anaxímandrosar sem ég hef verið að lýsa sé ekki efni hugmyndanna heldur aðferðin sem hann hefur við að komast að þeim. Það er rökvísin. Þessi rökvísi er enginn reikningur eftir forskriftum, heldur er hún skáldlegur leikur andans sem er jafn ferskur hvenær sem við hugleiðum hann. Svo er eins og ég sagði ákveðið handbragð á þessari skáldlegu rökvísi, eins og er á tónsmíðum Mozarts eða kvæðum Jónasar Hallgrímssonar. Við getum sagt á tilteknum stöðum: „Hana nú! Nú er hann kominn í essið sitt. Tvö kostulega samsett orð eins og „nautgæfur“ og „fóðurgras“, meira að segja hlið við hlið í ljóðlínu.“ Þegar svona maður kemst í essið sitt þá er það því miður eitthvað sem ekkert okkar hinna getur leikið eftir honum. En það má samt reyna að læra eitthvað af því.

Þegar ég segi að rökvísin – hin skáldlega rökvísi – sé það sem sé stórt og fagurt hjá Anaxímandrosi – ég gæti reyndar bætt því við að sama máli gegni um alla frumherjana – þá er ég öðrum þræði að afneita því að það sé merkilegast við hann, eða yfirhöfuð merkilegt við hann, að hann skuli til dæmis hafa hugsað upp þróunarkenningu um lífið 2500 árum á undan Darwin. Það eru rökin sem eru merkileg en ekki inntak kenningarinnar. Í þeim er snilld hans fólgin en ekki í hinu að hafa hitt á að segja eitthvað sem allt annar maður átti eftir að segja 2500 árum síðar. Mér hefði verið alveg sama þótt hann hefði haldið því fram að mannkynið væri upprunnið á tunglinu, bara ef hann hefði rökstutt þá hugmynd með jafn einföldum og snjöllum hætti og hann hafði á þegar hann rökstuddi sína.

Ég sé ekki betur en að þetta mat mitt á Anaxímandrosi og hinum frumherjunum gangi þvert gegn því sem algengast er á bókum. Og meira að segja að mörgu leyti. Mig langar til að víkja að einu atriði. Það er mjög algengt og freistandi viðfangsefni að reyna að auðkenna hina elztu heimspeki eða hin elztu vísindi í heild. Þá er það auðvitað gjarnan gert í ljósi einhverra fyrirframsjónarmiða þess sem um fjallar. Þannig fæst til dæmis Karl Popper við frumherjana með sínar eigin kenningar um vísindin og vísindalega aðferð að leiðarljósi. Hann notar þá meðal annars til að berja á raunhyggju í náttúruvísindum nútímans sem hann hatast við. Anaxímandros og Hera­kleitos verða fóstbræður þeirra fjölmörgu náttúruvísindamanna sem starfa í anda Poppers á okkar dögum. En ég hef ekkert að athuga við þessa aðferð Poppers: hún er alveg eins og hún á að vera. En þar með er ekki sagt að allt sem gert er í sama anda sé eins og það á að vera, og allra sízt þegar þeir sem gera það vita ekki almennilega af því hvað þeir eru að gera.

Þorsteinn Vilhjálmsson skrifar ágætt mál um frumherjana í hinu mikla riti sínu Heimsmynd á hverfanda hveli. Þar segir á einum stað:

Veigamesta framlag Míletos-skólans til vísinda og fræða er yfirleitt talið vera fólgið í skynsemishyggjunni eða skynsemistrúnni sem birtist í þessum hugmyndum: Þar er hvergi vísað til guðs eða annarra yfirnáttúrlegra afla til að útskýra neitt af því sem við er að fást.32

Það er alveg rétt hjá Þorsteini að þetta er það sem yfirleitt er talið, og það er meira að segja ein uppistaðan í ritgerð Patriciu Kenig Curd og Eyjólfs Kjalars Emilssonar um frumherjana í Grikk­land ár og síð. Allt um það þykir mér þetta bæði óskynsamleg og flatneskjuleg skoðun. Menn mega ekki halda að hún sé vitund betur undirbyggð en til að mynda leikur Poppers að efninu. Hún er alveg sama eðlis: fyrirframskoðun þeirra sem halda henni fram, sem síðan er höfð að leiðarljósi við útleggingu heimildanna. Samt er auðvitað munur. Einn er sá að þessi skoðun er andlaus og leiðinleg en skoðun Poppers andrík og skemmtileg.

Þorsteinn Vilhjálmsson notar orðin „skynsemishyggja“ og „skynsemistrú“ um þá trú að allir hlutir eigi sér náttúrlegar en ekki yfirnáttúrlegar skýringar. Þetta er kunnugleg notkun á orðunum, og samsvarandi orðum í útlendum málum, og það er ekkert við hana að athuga. Þetta er til dæmis sú notkun orðsins „skynsemistrú“ sem hefur lengi verið algengust í rökræðum um trúmál og guðfræði á Vesturlöndum. En þetta er auðvitað bara ein notkun orðsins. Orðin „skynsemishyggja“ „og rökhyggja“ eru líka heiti á heimspekilegum kenningum höfunda eins og þeirra Spinoza og Leibniz, og sömu orð eru líka nöfn á trú fólks eins og Voltaires á mátt skynseminnar eða upplýsingarinnar í veröldinni, en þessi trú er alveg óháð heimspekilegri rökhyggju enda var til dæmis Voltaire staðfastur raunhyggjumaður en ekki rökhyggjumaður í heimspekilegum skilningi.33 Og orðin tvö eru nöfn á mörgu öðru. Stundum er handhægt að hafa sérstök orð um „skynsemistrú“ í skilningi Þorsteins Vilhjálmssonar á orðinu í setningunum sem ég hafði eftir honum. Þá eru nærtækust orðin „náttúruhyggja“ og „veraldarhyggja“.

Náttúruhyggja eða veraldarhyggja er voldugt afl í hugmyndasögu 19du og 20stu aldar. Fyrsti heimspekingur sögunnar sem við getum sagt að hafi verið útfarinn náttúruhyggjumaður var David Hume á 18du öld. Hann var að sjálfsögðu jafnframt rammur trúleysingi eins og sumir samtíðarmanna hans, einkum á Frakklandi. Af styrnum sem stóð í kringum þessa karla spratt svo mikill ágreiningur milli náttúruhyggju vísindanna annars vegar og handanheimasjónarmiða trúarinnar hins vegar, eða bara milli trúar og vísinda eins og oft er sagt. Þessi árekstur er löngu orðinn að klisju í hugmyndasögu síðustu tíma. Og það er þessi klisja sem býr að baki þeirri hugsun að frumherjar grískrar heimspeki, og þar með allra vísinda síðari tíma, hafi fyrst og fremst verið náttúruhyggjumenn sem ekki trúðu á yfirnáttúrlegar skýringar.

En þetta er bara sleggjudómur. Við vitum ekki til að frumherjarnir í Míletos hafi gert neinn greinarmun á náttúrlegum og yfirnáttúrlegum öflum. Og ef þeir hefðu gert hann er aldrei að vita nema til dæmis Anaxímandros hefði sagt að ómælið væri einmitt yfirnáttúrlegt afl en ekki náttúrlegt. Hvort skyldi lífsaflið í mótvægisrökum Platóns heldur vera náttúrlegt eða yfirnáttúrlegt? Hvort er sálin hjá Platóni yfirleitt náttúrlegt afl eða yfirnáttúrlegt? Við þessum spurningum eru engin vitleg svör. Fræðimennirnir ganga bara að því vísu í einhverri vitleysu að úr því að frum­herjarnir voru heimspekingar en ekki prestar þá hljóti þeir að hafa verið náttúruhyggjumenn eða veraldarhyggjumenn. Þessir fræðimenn mættu gjarnan hugleiða að Descartes var einn helzti höfundur nútímavísinda og rammur rökhyggjumaður í flestum skilningi án þess að hann hefði neitt að athuga við yfirnáttúrlega hluti eins og Guð og sálina. Hvers vegna gæti ekki gegnt sama máli um Míletosmenn?

Það örlar sums staðar á þeirri hugsun til varnar hleypidómnum um náttúruhyggju frumherjanna að samanburður á hugmyndaheimi þeirra og hugmyndaheimi grískrar goðafræð leiði í ljós að þeir hafi aðeins trúað á náttúrleg öfl en goðafræðin auðvitað á yfirnáttúrleg.34 En það er því miður ekkert annað en einn hleypidómurinn frá því að slíkur samanburður á heimspeki og goðafræði eigi rétt á sér. Hver segir að grísk goðafræði hafi verið til þess gerð aðgefa skýringar á rás viðburðanna í náttúrunni, eins og breytingu á olíu í eld eða vatns í blóm? Það eru að vísu til þær kenningar um goðafræði að hún sé frumstæð tilraun til vísindaiðkana, en þær eru fjarri því að vera sjálfgefnar, og þær eru ekki einu sinni ýkja skynsamlegar þegar að er gáð.35 Það er ástæðulaust að rökræða þær hér í einstökum atriðum. Lesandinn sér í hendi sér hversu tortryggilegar þær eru ef hann hugleiðir nærtækari hluti eins og íslenzkar þjóðsögur af álfum, draugum og tröllum. Ekki eru þær sögur til þess gerðar að skýra rás náttúrunnar að neinu leyti. Fjöldinn allur af íslenzkum börnum er alinn upp við slíkar sögur til þessa dags. Er hætta á að þær rugli börnin í ríminu þegar þau fara að læra náttúrufræði í skóla? Nei, auðvitað ekki. Mundi það breyta miklu ef börnin tryðu sögunum? Það er næsta hæpið. Og það kann vel að vera að megnið af grískri goðafræði hafi verið alveg sama eðlis að þessu leyti. Að minnsta kosti hefur enginn leyfi til að ganga að hinu gagnstæðavísu sem sjálfsögðum hlut.

Hinn frægi fornfræðingur og heimspekingur Gregory Vlastos hefur skrifað dálítið til varnar þeirri skoðun að frumherjar heimspekinnar hafi verið náttúruhyggjumenn. Eins og hans er von og vísa hefur hann ágætt dæmi til marks um þetta. Eitt hugðarefni hinna elztu heimspekinga voru myrkvar á tungli og sól. Þales á að hafa sagt fyrir um sólmyrkva fyrstur Grikkja,hvernig sem hann fór að því, Anaxímandros varpaði fram stjarnfræðilegri skýringu á myrkvum eins og eftirmenn áttu eftir að gera með ýmsu móti þar til Anaxagóras fann réttu skýringuna á fimmtu öld. Nú eru myrkvar auðvitað teikn á himni sem freistandi er að eigna æðri máttarvöldum, og það er auðleikið fyrir Vlastos að tína til margvísleg dæmi úr grískum bókmenntum til marks um þá skoðun. Svo að hér höfum við greinilega andstæðu náttúrlegrar og yfirnáttúrlegrar skýringar.36 Ég ætla ekki að fjalla um þessa andstæðu að þessu sinni þótt hún sé þess vel verð. En jafnvel þótt við kyngjum öllu sem Vlastos hefur að segja um hana þá breytir það litlu eða engu um náttúruhyggjukenninguna í heild. Því hvers vegna skyldi það sem gildir um kenningu um sólmyrkva gilda líka um kenningar um svif jarðarinnar í miðju tómi,upphaf efnislegra hluta í óefnislegu afli eða uppruna lífsins í hafinu? Við spurningum eins og þessum á Vlastos nánast engin svör, nema ef telja skyldi mjög umdeilanlegar hugleiðingar um merkingu orðsins „fýsis“ eða „náttúra“. Náttúruhyggjukenningin um frumherjanna er ekkert nema sleggjudómur.

En ég hef ekkert að athuga við sleggjudóma sem slíka. Ég er afskaplega hrifinn af sleggjudómum Poppers um Anaxímandros og Herakleitos. En mér virðist sleggjudómurinn um náttúruhyggju eða veraldarhyggju elztu frumherjanna ekki varpa minnsta ljósi á neitt af því litla sem við vitum um þá með einhverri vissu,til dæmis ekki á jarðmiðjukenningu og ómæliskenningu Anaxímandrosar. Og hann kemur ekki að minnsta gagni við að skýra samhengi sögunnar – til dæmis samband Anaxímandrosar við Þales kennara sinn eða Pýþagóras við Anaxímandros – að svo miklu leyti sem það er hægt.

Í staðinn fyrir þennan sleggjudóm vil ég því setja annan: sá er að það sem mestu skiptir um frumherjanna í Míletos, og raunar alla þá sem yngri eru frá Pýþagórasi til Demókrítosar, sé skynsemishyggja í allt öðrum skilningi en hjá Þorsteini Vilhjálmssyni og Gregory Vlastos, nefnilega rökvísi þeirra sjálf og síðan trú þeirra sem þeir sönnuðu í verki á mátt þessarar rökvísi. Og ef við viljum skilja þá, þurfum við fyrst og fremst að reyna að grafast fyrir um rökin sem þeir færðu fyrir kenningum sínum, eða geta okkur til um þau þegar við getumekki grafið lengur, í staðinn fyrir að gera þá að nítjándu aldar náttúrufræðingum sem eru á móti prestum.

VII

 

Eitt af því sem margir hafa áhuga á um hina elztu heimspeki er hvers vegna hún varð til, og hvers vegna hún varð einmitt til á þess litla stað sem Grikkland var og er, og meðal þjóðar sem talaði grísku. Svona spurningu eru auðvitað ókleift að svara. Af hverju settu Íslendingar saman bókmenntir sínar á miðöldum? Af hverju kom annað blómaskeið í íslenzkri menningu á fyrra helmingi 20stu aldar og leið svo hjá með sömu skyndingu og það hófst? Hafði bættur efnahagur eitthvað með það að gera? Eða byltingar þjóðlífsins eins og fólksflutningarnir á mölina? Eða sjálfsstæðisbaráttan sem svo er nefnd? Eða heilsufarið og langlífið? Eða snaraukin samskipti við útlönd? Við kunnum nákvæmlega engin svör við þessum spurningum um tíma sem við þó höfum lifað að einhverju leyti sjálf. Hvernig í ósköpunum ættum við að geta svarað sams konar spurningum um löngu liðinn tíma sem hefur engu leift nema margvíslega lestum minjum hér og þar í löngu hrundum borgum?

Eitt lítið atriði finnst mér þó freistandi að nefna fólki til umhugsunar. Platón segir þá sögu í löngu máli í Lögunum að flóð hafi gengið yfir heimsbyggðina og mannfólkið flúið til fjalla. Þar bjó það á hverjum stað eftir háttum forfeðranna að hætti kýklópa hjá Hómer og hafði hvorki ráðstefnur né lög. Svo þegar flóðið rénaði lögðust ungir menn í ferðalög og komu þá til annarra kýklópa og kynntust framandlegum siðum. Af því kviknuðu svo hugmyndir hjá þeim um að breyta til heima hjá sér og siðmenning hófst í heiminum á nýjan leik.37

Það eru mörg hugleiðingarefni í þessari sögu: um flóðið,um ferðalögin, um breytingar sem forsendur siðmenningar. En ég ætla að nema staðar við aðeins eitt lítið atriði sem óvíst er að allir hafi tekið eftir í endursögn minni. Þegar Platón lýsir hinum ósiðuðu fjallabúum sækir hann orðalag sitt til Hómers. „hvorki höfðu þeir ráðstefnur né lög“. Og það sem á athygli skilda, að ég hygg, er að ráðstefnur og lög skuli fylgjast að. Hinir fornu Gyðingar þáðu lög sín af Guði: einn þeirra gekk upp áfjall og las þeim síðan boðorðið sem hann hafði fengið augliti til augliti við almættið. Forfeður okkar hér á Norðurlöndum þáðu lög sín frá forfeðrunum eins og fjallabúar Platóns. Þegar ríki var stofnað á Íslandi var ekki haldin ráðstefna til að setja lög, heldur var maður sendur til Noregs til að finna gömul og góð lög, og því eldri sem þau voru þeim mun betri þóttu þau. Þetta er reyndar algengasta aðferð við lagasetningu á Íslandi enn í dag: það eru sótt lög til Danmerkur, Noregs eða Svíþjóðar og þýdd á einhvers konar íslenzku. Bráðum verður heldur farið til Brüssel eftir lögum er að líkum lætur. En Grikkir höfðu ráðstefnur til að setja lög, og orðið „nomos“ sem merkir lög í máli þeirra merkti líka mannasetningar. Þeir gerðu því strangan greinarmun á náttúru og lögum – fýsis og nomos – og settu saman heilmikla heimspeki í kringum þennan greinarmun. Nú virðist nærtækt að geta þess til að hugmyndaheimur Grikkja kringum ráðstefnur og þar með rökræður, og lög sem menn hugsuðu upp og settu sér síðan í ljósi rökræðnanna, hafi haft eitthvað með það að gera að með tímanum tóku þeir að rökræða alla hluti en ekki bara borgarmálefni á hverjum stað, og hugsa svo upp hinar fjölbreytilegustu kenningar um þá í ljósi rökræðnanna. Kannski má varpa því fram að grísk hafi að einhverju leyti sprottið af grískum samfélagsháttum, og það hafi einkum verið rökvísin og rökræðurnar í samfélaginu sem báru þann dýrlega ávöxt sem grísk heimspeki eins og heimspeki Anaxímandrosar var og er.

Átuttugustu öld virðist skemmtunin af iðkun hinnar skáldlegu rökvísi, og ennþá heldur trúin á mátt raka í þjónustu við sannleikann og réttlætið, vera tómur barnaskapur hjá hinum fornu Grikkjum. Hvað hefur ekki blóði drifin saga okkar leitt í ljós um magnleysi skynseminnar? Eða þjóðmálaþvargið frá degi til dags? Samt kviknar þessi barnaskapur um stund í hverri kynslóð öld fram af öld hér á Vesturlöndum, og verður jafnvel að eldi. Þegar það gerist, og kannski mun oftar, er vert að minnast manna eins og Anaxímandrosar frá Míletos sem fyrstir tendruðu þann eld.38

 

Tilvísanir

1. Diogenes Laertius. Lives of Eminent Philosophers (Hick). Cambridge, Massachusetts (Harvard University Press) 1938. II,1. Þess ber kannski að geta að Anaxímandros er talinn fæddur 600 árum fyrir okkar tímatal, kannski um 610. Hann virðist hafa búið lengst af í borginni Míletos á strönd Litlu-Asíu þar sem nú er Tyrkland. Þar bjuggu Þales kennari hans og Anaxímenes nemandi hans líka.

2. Herodoti Historiarum Libri IX (Dietzsch/Kallenberg). Leipzig (Teubner) 1899 og 1901. II. Bls. 109.

3. G. S. Kirk og J. E. Raven. The Presocratic Philosophers. A Critical History with a Selection of Texts. Cambridge (Cambridge University Press) 1960. Bls. 99. Eftir Suda (Suidas) undir „Anaxímandros“.

4. Hermann Diels og Walther Kranz. Die Fragmente der Vorsokratiker I-III. Berlin (Weidmannsche Verlagsbuchhandlung) 1960-1961.

5. Kirk og Raven (op.cit.). Bls. 109.

6. J. B. Wilbur og H. J. Allen. The Worlds of the Early Greek Philosophers. Buffalo NY (Prometheus Books) 1979. Bls. 38.

7. Heidegger hefur fjallað um frumherjanna í ýmsum bókum, til dæmis Einführung in die Metaphysik. Tübingen (Max Niemeyer Verlag) 1953, Holzwege Frankfurt am Main (Vittorio Klostermann) 1957 og Vorträge und Aufsätze, Pfullingen (Neske) 1959. Í Holzwege er löng og fróðleg ritgerð um Anaxímandros – „Der Spruch des Anaximander“ – þar sem fjallað er um stórabrotið. Karl Popper hefur einkum skrifað eina fræga ritgerð um frumherjanna: „Back to the Presocratics!” í Conjectures and Refutations: The Growth of Scientific Knowledge, London (Routledge and Kegan Paul) 1963. Bls. 136-165. En hann víkur líka að þeim í öðrum ritum sínum, til dæmis The Open Society and Its Enemies I-II, London (Routledge and Kegan Paul) 1962 (fjórða útgáfa). Ég vil geta þess að fyrir utan þá Heidegger og Popper hefur samkennari minn í Háskóla Íslands, Mikael Marlies Karlsson, kennt mér heil ósköp um frumherjanna, einkum með leiftrandi fyrirlestrum sínum í námskeiði um gríska heimspeki sem við kenndum í sameiningu um árabil.

8. Karl Popper. Conjectures …. Bls. 153-165. Grein Kirks „Popper on Science and the Presocratics“ birtist í Mind 69, júlí 1960, 318-339. Mind kemur á Landsbókasafn.

9. Ágúst H. Bjarnason. Saga mannsandans III. Hellas, Reykjavík (Hlaðbúð) 1950. Bls. 144-152; Þorsteinn Vilhjálmsson. Heimsmynd á hverfandi hveli I, Reykjavík (Mál og menning) 1986. Bls. 91-121; Patricia Kenig Curd og Eyjólfur Kjalar Emilsson. „Frumherjar grískrar heimspeki“ hjá Þorsteini Þorsteinssyni (ritstjóra). Grikkland ár og síð,Reykjavík (Hið íslenzka bókmenntafélag) 1991.

10. Sjá H. Diels og W. Kranz. Die Fragmente der Vorsokratiker I, 67-76. Um flatarmálsfræðina sjá A 11 á 76 eftir Próklosi.

11. Sjá um hann W. K. C. Guthrie. A History of Greek Philosophy I, Cambridge (Cambridge University Press) 1971. Bls. 52-54.

12. Kirk og Raven. Bls. 76. Eftir Aítíosi I, 3, 1.

13. Sama rit, 84.

14. W. K. C. Guthrie (op.cit.). Bls. 53n, eftir Cohen og Drabkin. Source Book in Greek Science, 34 n. 2 og 44.

15. Godfrey Harold Hardy. Málsvörn stærðfræðings, Reykjavík (Hið íslenzka bókmenntafélag) 1972. Bls. 74.

16. Aristóteles. Frumspekin (Metaphysica) 983b21-22.

17. Aristóteles. Um himininn (De Caelo) 294a28-34.

18. Kennari minn Henry David Aiken sagði mér þessa sögu. Ég segi hana eftir minni. Önnur útgáfa af sögunni stendur í Sögu tímans eftir Stephen Hawking, Reykjavík (Hið íslenzka bókmenntafélag) 1990. Bls. 41.

19. Aristóteles. Um himininn 295b10.

20. Karl Popper. Conjectures … (op.cit). Bls. 138.

21. Sjá W. K. C. Guthrie (op.cit.). Bls. 83-89. Og Kirk and Raven (op.cit). Bls. 108-118.

22. Sjá einkum Aristóteles. Eðlisfræðin (Physica) 204b22-29

23. Þessi samanburður, hvort sem hann stenzt gagnrýni í einstökum atriðum eða ekki, er eitt af mörgu til marks um hversu afleitt það er að fjalla um „frumspeki“ frumherjanna án tillits til „heimsfræði“ þeirra. Það er þó gert hjá Patriciu Kenig Curd og Eyjólfi Kjalari Emilssyni (op.cit.) Sbr. bls. 44.

24. Skyldleikinn með eindahyggjunni og ómæliskenningunni kemur við sögu í svip hjá W. K. C. Guthrie (op.cit.) II. bindi. Bls. 394. En Guthrie reynir ekki að nota Demókrítos til að bregða ljósi á Anaxímandros.

25. Platón. Faídón 109A í Síðustu dögum Sókratesar, íslenzkum búningi eftir Sigurð Nordal og Þorstein Gylfason, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1973, 189.

26. Sjá Faídón 70-72. Op.cit. bls. 121-125.

27. G. S. Kirk og J. E. Raven (op.cit.). Bls. 119.

28. Þýðing Eyjólfs Kjalars Emilssonar í Grikklandi ár og síð, 58.

29. Þess er skylt að geta að í útleggingu minni á mótvægisrökunum í Faídóni geng ég lítið eitt lengra en bókstafur textans leyfir, enda er það óhjákvæmilegt vegna þess að eftir bókstafnum vantar hlekki í röksemdakeðjuna.

30. W. K. C. Guthrie (op.cit.). I. bindi. Bls. 101-104. Og Kirk og Raven. Bls. 141-142.

31. Plútarkos. Qestiones conviviales 730E, A30. Sjá W. K. C. Guthrie (op.cit.). I. Bindi. Bls. 102-103.

32. Þorsteinn Vilhjálmsson (op.cit.). Bls. 109.

33. Rökhyggja (rasjónalismi) er hér sú skoðun að þekking sé reist á skynsemi fremur en reynslu, en raunhyggja (empírismi) hin að reynslan sé grundvöllur þekkingarinnar.

34. Sjá til dæmis Wilbur og Allen (op.cit.) Bls. 15-19. Sjá líka Patricia Kenig Curd og Eyjólfur Kjalar Emilsson (op.cit.). Bls. 45-47.

35. Frægasta framsetning þessarar kenningar um goðfræði er hið mikla verk Sir James Frazer. The Golden Bough I-XIII, London (Macmillan) 1936-1941. Það er bæði til á Háskólasafni og Landsbókasafni. Það er líka til í styttum útgáfum. Kvæði T. S. Eliots. Eyðilandið, þýtt á íslenzku af Sverri Hólmarssyni (Reykjavík (Iðunn) 1990), er að nokkru leyti reist á hugmyndum Frazers um goðsögur, þó að kenningin um goðafræði sem frumstæð vísindi komi þar naumast við sögu. Austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein reifaði efasemdir um hugmyndir Frazers í athugasemdum sem eru prentaðar meðal annars hjá C. Grant Luckhart í Wittgenstein: Sources and Perspectives, Ithaca NY (Cornell University Press) 1978.

36. Gregory Vlastos. Plato’s Universe. Seattle (University of Washington Press) 1975. Bls. 3-22.

37. Platón. Lögin (Leges) III. Tilvitnunin í Hómer er á 680B. Hún er sótt í Odysseifskviðu IX, 112.

38. Greinin er reist á fyrirlestri með sama heiti sem fluttur var á aðalfundi Grikklandsvinafélagsins Hellas í Kornhlöðunni fimmtudaginn 10da október 1991. Vinir mínir hafa lesið handritið og bent mér á smátt og stórt sem betur mátti fara, þar á meðal þeir Eyjólfur Kjalar Emilsson heimspekingur og Reynir Axelsson stærðfræðingur.

 

« Til baka

Related Entries