Færslusöfn

Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?

eftir Pál Skúlason

I

      Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?* Þessi spurning er afar mikilvæg frá sjónarhóli vísinda og fræða og hún er það ekki síður frá sjónarhóli kennslu og skólastarfs. Frá sjónarhóli vísinda og fræða skiptir svarið við henni sköpum vegna þess að skipuleg þekkingar- og skilningsleit er óhugsandi án gagnrýninnar hugsunar. Ef menn væru ekki sífellt að gagnrýna kenningar, aðferðir og vinnubrögð í vísindum myndu vísindin staðna og smám saman verða úr sögunni. Framfarirnar eru undir því komnar að menn efist um gildi ríkjandi kenninga, reyni að finna á þeim veika bletti. Þetta virðist raunar vera eitt helsta skilyrðið fyrir framförum á hvaða sviði sem vera skal: að litið sé gagnrýnum augum á þau vinnubrögð sem tíðkast og reynt að finna önnur betri; að reynt sé að finna galla á verki – hvert svo sem það er – til að unnt sé að gera betur.
      Frá sjónarhóli kennslu og skólastarfs skiptir svarið einnig sköpum vegna þess að eitt höfuðmarkmið kennslu er einmitt að gera nemendur hæfari til að takast á við margvísleg viðfangsefni og leysa verk sín vel af hendi. Núorðið deila menn vart um það að helsta markmið kennslu sé að gera nemendur sjálfstæða og hæfa til að leysa vandamál af eigin rammleik. En þetta markmið er með öllu óraunhæft nema ráð sé fyrir því gert að nemendum sé kennd gagn­rýnin hugsun. Er það víst að unnt sé að kenna gagnrýna hugsun? Nú kann að vera að einhver hlustenda hafi einungis áhuga á niðurstöðu minni, ekki á þeim vangaveltum eða hugleiðingum sem leiða mig að henni, þ.e.a.s. til að svara spurningunni á ákveðinn hátt játandi eða neitandi. Takmarkaður áhugi á vangaveltum er mæta vel skiljanlegur: í daglegu lífi höfum við sjaldnast áhuga á spurningum, en þeim mun meira á svörum við þeim. Við þurfum sífellt að fá að vita hitt og þetta og það skiptir okkur oft litlu hvernig við fáum upplýsingarnar, aðalatriðið er að við fáum þær. Með sama hætti höfum við oft áhuga á skoðunum fólks, en lítinn sem engan áhuga á forsendum skoðana þeirra, hvers vegna fólk hefur þessar skoðanir eða trúir því sem það trúir.
      Sannleikurinn er sá að í daglegu lífi höfum við fremur lítinn áhuga á gagnrýninni hugsun. Á hinn bóginn viljum við fá að vita um staðreyndir, upplýsingar og skoðanir, en höfum síður áhuga á því sem gerir staðreynd örugglega að staðreynd, upplýsingarnar áreiðanlegar eða skoðanirnar áhugaverðar og hugsanlega réttar. Þetta áhugaleysi um rök og forsendur á sér margar ástæður og mun ég víkja að þeim síðar. Kannski er listin að kenna gagnrýna hugsun einmitt fólgin í því að sigrast á því. Ég spurði eitt sinn nemanda í framhaldsskóla hvort hann teldi sig geta lært gagnrýna hugsun og eftir smáumhugsun svaraði hann því játandi; og þegar ég spurði hann hvers vegna hann héldi það, þá svaraði hann einfaldlega: „Það er hægt að læra allt.“ Þetta fannst mér býsna gott svar, svo að ég spurði enn: „Er þá hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ Nú tók hann sér örlítið lengri umhugsunarfrest og svaraði síðan: „Já, það er eflaust hægt að kenna gagnrýna hugsun…“ – svo þagði hann andartak og bætti síðan við: „…ef maður finnur einhvern sem hefur áhuga á því að læra hana.“ Svo beindi hann einni spurningu til mín: „Er ekki hugsanlegt að menn komist alveg eins vel af í lífinu, þó að þeir skeyti ekki um rök eða forsendur skoðana?“
      Fyrsta spurningin, sem rétt er að staldra við, er því þessi: hvers vegna skyldum við gefa rækilega gaum að hugmyndum okkar og skoðunum og forsendum þeirra? Ég held að við áttum okkur best á því með að leiða hugann að hlutverki þeirra í lífi okkar. Skoðanir og hugmyndir gegna því hagnýta hlutverki að hjálpa mönnum til að skipuleggja líf sitt, skýra ætlanir sínar og hrinda áformum sínum í framkvæmd. Gagnrýnin hugsun kemur hér fram sem tæki til þess að fága og endurmóta þau verkfæri sem menn þurfa öðrum fremur á að halda í lífsbaráttunni, nefnilega hugmyndir og skoðanir á öllu milli himins og jarðar. Án þeirra væru menn í beinum tengslum við aðstæður sem á þá verka og yrðu að bregðast við þeim án þess að fá nokkru ráðið um viðbrögð sín. Menn væru þá algerlega bundnir ákveðnu umhverfi líkt og dýrin.
      Hagnýtt gildi hugmynda og skoðana er svo augljóst að raunar er ástæðulaust að eyða orðum að því. Þó er eins og margir sjái það ekki og vanræki gersamlega að hirða um skoðanir sína og hugmyndir, rétt eins og þeir haldi að þær geti gengið sjálfala og þurfi engrar aðhlynningar við. Því miður er fátt eins fjarri sanni. Hugsanir eru meðal viðkvæmustu vera í þessum heimi og þær lifa einungis og dafna í þeim sem lætur sér annt um þær. Til að hugsa þarf hugmyndir og skoðanir. Þær eru í senn efniviður og verkfæri hugans. Við notum þær til að átta okkur á hlutunum í því skyni að breyta þeim, njóta þeirra eða til að hagnýta okkur þá á einn eða annan máta. Þess vegna eigum við að hirða vandlega um hugmyndir okkar og skoðanir, ekki láta neitt tækifæri ónotað til að skýra þær og skerpa og umfram allt þurfum við að gæta þess að vanhugsaðar skoðanir stýri ekki ákvörðunum okkar og athöfnum.
      Nú hef ég nefnt ein almenn nytsemdarrök fyrir því að gagnrýna hugsun eigi að kenna. En þessi rök tryggja auðvitað ekki að gagnrýna hugsun sé unnt að kenna. Hversu brýnar sem þarfirnar eru þá segir það í rauninni ekkert um hvort þær megi uppfylla. Og síst af öllu skortir okkur óuppfylltar þarfir! Við þurfum því önnur og betri rök til þess að geta staðhæft að kenna megi gagnrýna hugsun. Og þau rök eru í sem fæstum orðum þessi: Það er rangt að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum. Hér virðist komin ákveðin regla eða lögmál sem má beita til þess að aga fólk til að hugsa á gagnrýninn hátt.
      Þessi einfalda staðhæfing er kjarni þeirrar skynsemishyggju sem tryggt hefur framgang vísinda og mennta á Vesturlöndum. Framgangur hennar hefur einungis náðst með harðri baráttu gegn hvers kyns hjátrú og hindurvitnum. En því fer fjarri að þeirri baráttu sé lokið. Í flestum ef ekki öllum efnum, sem eru til umræðu manna á meðal í daglegu lífi, vaða uppi fordómar, hleypidómar og sleggjudómar, eða með kurteislegra orðavali „órökstuddar fullyrðingar“.
      Það er því full ástæða til að gefa rækilega gaum að þessari staðhæfingu sem hér er sett fram í mynd lögmáls: það er rangt að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum. Nú kann einhver að vera bráðlátur og vilja krefja mig umsvifalaust um rök. Hvers vegna skyldi það vera rangt að trúa því sem manni sýnist? Er mönnum ekki frjálst að trúa því sem þeir kæra sig um? Hvers konar höft á eiginlega að fara að leggja á trú manna eða skoðanir? Er ekki trúfrelsi eða skoðanafrelsi hin frumstæðustu mannréttindi? Og hvers vegna að hamra á nauðsyn þess að hafa forsendur eða rök fyrir skoðunum? – Spurningar af þessu tagi eru í órafjarlægð frá öllu sem máli skiptir í sambandi við þessa einföldu staðhæfingu að það sé rangt að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum. Þær eru dæmi um það bráðræði sem veldur því að menn missa sjónar á því sem mestu skiptir og skilja aldrei hvað verið er að segja þeim í flýtinum við að jánka því eða neita. Við skulum því fara varlega í sakirnar áður en við fellum nokkurn dóm um gildi fyrrgreinds lögmáls.

II

      Sú staðhæfing að það sé rangt að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum felur í sér boðorð gagnrýninnar hugsunar. Og nú er tímabært að spyrja: hvað er gagnrýnin hugsun? Gagnrýnin hugsun er sú hugsun sem fellst ekki á neina skoðun eða fullyrðingu nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni. Með öðrum orðum: gagnrýnin hugsun leitar að nýjum og betri rökum fyrir skoðunum sínum og hugmyndum og er þar af leiðandi sífellt að endurskoða þær.
      Þessi gagnrýnishugmynd er undirstaða og kjölfesta allrar eiginlegrar fræðimennsku. Hún ber uppi þá spurningu sem öll fræðimennska snýst um: hvað eru marktæk rök? Hvað eru gildar forsendur?
      Gagnrýnin hugsun er því bersýnilega ekki aðeins einstaklega jákvæð í augum þeirra sem leggja stund á vísindi og fræði og vilja efla viðgang þekkingar og mennta, heldur er hún sjálf forsendan fyrir starfi þeirra. Það er því athyglisvert að með orðinu „gagnrýni“ er í daglegu tali yfirleitt átt við aðfinnslur og neikvæðan dóm. Hver kannast ekki við setninguna: „Æ, vertu ekki með þessa gagnrýni?“ Oftar en ekki á þessi athugasemd eflaust fullan rétt á sér. Hin svokallaða gagnrýni er þá ekki annað en nöldur og neikvæðni.
      En það eru aðrar og mikilvægari ástæður til þess að gagnrýni er talin neikvæð. Í fyrsta lagi liggja rök mann fyrir skoðunum, hugmyndum og kenningum oftast ekki á lausu og því auðvelt að benda á að menn trúi einhverju á algerlega ófullnægjandi forsendum, t.d. haldi að eitthvað sé satt bara af því að „það stóð í blaðinu“ eða að „pabbi sagði það“ eða „kennarinn sagði það“. Nú er ég ekki að halda því fram að það sé ævinlega ástæða til þess að efast um allt sem stendur í blöð­unum eða það sem foreldrar eða kennarar segja, heldur einungis að benda á að það er yfirleitt veik forsenda fyrir sannfæringu að einhver annar hafi sagt að eitthvað sé rétt. Við þurfum vissulega oft að reiða okkur á skoðun annarra – foreldra, kennara, sérfræðinga o.s.frv. – en við megum ekki treysta þeim í blindni. Ef við erum komin til vits og ára eigum við að biðja um rök.
      Önnur ástæða til þess að orðið „gagnrýni“ hefur fengið neikvæða merkingu í daglegu máli er sú að það hefur einkum verið notað um mat á bókmennta- og listaverkum þar sem tíska og breytilegur smekkur manna hafa mikið að segja. Nú vill svo til að það er miklu auðveldara að benda á það sem rýrir gildi verks en hitt sem gefur því gildi. Það sem gefur verki gildi – gerir það að góðu bókmennta- eða listaverki – er yfirleitt flókið samspil ótal þátta sem er afar erfitt, jafnvel ókleift með öllu, að lýsa í smáatriðum. Til þess verða menn einfaldlega að lesa það eða sjá það. Það sem rýrir gildi verks eru á hinn bóginn yfirleitt einhver einstök atriðið sem skera sig úr og sem sýna, svo ekki verður um villst, kunnáttuleysi eða klaufaskap viðkomandi listamanns; og það er yfirleitt auðvelt að skýra fólki frá þessum tilteknu ágöllum verksins.
      Sama á raunar við um hugmyndir fólks og skoðanir almennt og yfirleitt. Það er miklu auðveldara að sýna fram á að tilteknar forsendur séu rangar en benda á hinar réttu forsendur. Þetta kemur skýrt fram í vísindum og fræðum. Þau einkennast af látlausri viðleitni til að endur­skoða forsendur kenninga og aðferða, finna veikleika eða bresti í vinnubrögðum og fram­setningu. Gagnrýnin kann því að fá á sig neikvæðan blæ á yfirborðinu, en er í reynd megin­forsenda þess að viðleitni fræðimanna beri árangur. Hvar sem fólk keppir eftir fullkomnun er gagnrýni réttmæt og nauðsynleg. Án hennar yrði okkur ekki ljóst hvað þarf að laga eða úr hverju þarf að bæta til þess að árangur náist.
      Þetta segir sig sjálft. En þar með er ekki sagt að við höfum sýnt fram á að lögmál gagnrýninnar hugsunar sé rétt, hafi gildi fyrir alla og undir öllum kringumstæðum. Ég hef einungis bent á gildi þess í efnum þar sem menn keppast við að ná árangri, leysa verk betur af hendi, ná fullkomnum. Og ég hef heldur ekkert sagt enn um það hvernig eigi að kenna þessa reglu, að halda ekkert fyrir satt án þess að hafa rannsakað hvað í því felist og hver rökin séu. Þó að einhverjum sé mæta vel kunnugt um lögmálið sem bannar honum – og öllum öðrum – að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum þá er ekki þar með sagt að sá hinn sami leitist skipulega við að framfylgja því boðorði. Vitneskjan ein um lögmálið tryggir ekki virðingu fyrir því. Sama gildir um guðstrúna. Þeir eru æði margir sem segjast trúa á guð og gera það eflaust í orði kveðnu, þó að þess sjáist fá merki í breytni þeirra.
      Það er heldur engin trygging fyrir því að menn ástundi gagnrýna hugsun þó að þeir hafi lögmál hennar sífellt á vörunum og séu óspart að hnjóta um skoðanir annarra og krefja þá um rök. Tilhneiging manna til að finna að skoðunum og verkum annarra og jafnvel á sínum eigin á í sjálfu sér ekkert skylt við gagnrýna hugsun. Gagnrýnin hugsun er fyrst og fremst fólgin í viðleitni til að rannsaka hlutina, láta engar tilhneigingar, langanir eða tilfinningar hlaupa með sig í gönur. Að kenna fólki gagnrýna hugsun er því síður en svo einfalt mál. Það eitt að kenna fólki ákveðin vinnubrögð til að rannsaka hlutina upp á eigin spýtur nægir bersýnilega ekki. Það verður einnig að fá það til að temja sér viljann til þess að trúa ekki öðru en því sem byggt er á rannsókn í stað þess að láta hugsun sína stjórnast af óskum eða hagsmunum. Það er þetta sem felst í lögmálinu: það er rangt að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum. Þetta lögmál verður að vera inngreypt í vitund fólks, það þarf að verða eðlilegur hugsunarmáti þess ef það á að virka og ná fram að ganga. Fólk verður að hafa lært og skilið að þetta lögmál hafi almennt gildi, það gildi alls staðar og fyrir hvern mann. Annars verður allt tal um að menn hafi lært gagnrýna hugsun í lausu lofti.
      Má slá því föstu að lögmál gagnrýninnar hugsunar hafi í reynd svo almennt gildi að það eigi við undir öllum kringumstæðum og fyrir allar manneskjur? Er ekki hugsanlegt að það eigi ein­ungis við í þeim efnum þar sem menn keppa að framförum og fullkomnun, líkt og í vísindum og fræðum? Með hvaða rétti og á hvaða forsendum má fullyrða að þetta lögmál sé rétt, hafi gildi fyrir alla og við allar aðstæður, og þess vegna sé augljóslega hægt að kenna það?

III

      Margir hafa leitast við að svara þessum spurningum. Meðal þeirra er breski stærðfræðingurinn William Clifford (1845-1879). Í ritgerð, sem nefnist „Ethics of Belief“, en hefur í íslenskri þýðingu Þórðar Kristinssonar hlotið heitið „Rétturinn til sannfæringar“,1 færir Clifford rök fyrir því að lögmál gagnrýninnar hugsunar hafi almennt gildi, eða með hans orðalagi: „Það er ætíð rangt, alls staðar og fyrir hvern mann að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum.“ Íslensk þýðing þessarar ritgerðar hefur ekki enn komið út á bók, en svo vill hins vegar til að ritgerð sem er andsvar við kenningu Cliffords hefur komið út á íslensku. Það er grein eftir bandaríska sál­fræðinginn og heimspekinginn William James, sem nefnist á ensku „The Will to Belief“, en á íslensku „Trúarvilji“.2
      Hér er ekki kostur á að rekja rök þeirra Cliffords og James í smáatriðum, en ég ætla að nefna nokkur meginatriði sem skipta höfuðmáli varðandi viðfangsefni mitt í þessum lestri. Rök Cliffords fyrir kenningunni um almennt gildi þess að trúa engu nema á fullnægjandi forsendum eru í aðalatriðum þessi:
      Spurningin um rétt og rangt varðar ævinlega rætur skoðunar eða trúar, ekki efni hennar. Það sem máli skiptir er hvernig fólk myndar sér skoðun, ekki hitt hver skoðunin er eða um hvaða efni hún snýst. Frá sjónarhóli gagnrýninnar hugsunar skiptir því engu máli hverju við trúum eða hvaða skoðanir við höfum, heldur einungis það hvernig við höfum aflað okkur skoðana okkar eða öðlast trúna. Segjum að við trúum því að kennari misnoti aðstöðu sína gagnvart nemendum og reyni að fá þá til að trúa á einhver hindurvitni. Hversu sannfærð sem við nú kunnum að vera um þetta, þá höfum við engan rétt til þeirrar sannfæringar fyrr en rannsókn hefur farið fram í málinu. Í dómskerfinu er þessi regla alkunn. Þar er óheimilt að telja mann sekan fyrr en sekt hans hefur verið sönnuð. – Þessi fyrstu rök Cliffords eru ábending um einfalt og nánast sjálfsagt atriði sem fólki sést þó iðulega yfir. Það er svo upptekið eða hugfangið af efninu sem skoðanir þess snúast um að það gleymir að athuga hvernig það hefur fengið þessar skoðanir sínar og hvaða ástæður það hefur til að hafa þær.
      Annað atriði er þetta: sérhver eiginleg sannfæring hefur áhrif á athafnir þess sem hana hefur. Skoðanir okkar gefa sífellt tilefni til ákvarðana, athafna og margvíslegrar breytni. Í reynd er ókleift með öllu að gera skarpan greinarmun á dómum um skoðanir manna og athafnir. Um leið og við fellum dóm um athafnir manna fellum við dóm um skoðanir þeirra og öfugt. Þó að ákveðin sannfæring leiði ekki samstundis til ákveðinnar breytni, þá er aldrei að vita hvenær hún geri það. Clifford bendir ennfremur á að hver sannfæring eða skoðun sé liður í mjög flóknum vef hugmynda og skoðana. Ein röng skoðun á lítilfjörlegu málefni getur þannig í reynd smitað út frá sér og auk þess veikt stórlega þann vef skoðana sem tengir saman áhrifin sem við verðum fyrir og breytni okkar á hverju augnabliki lífs okkar.
      Þriðja atriðið er þetta: engin sannfæring manns eða skoðun er einkamál sem varðar enga aðra. Clifford segir: „Orð okkar og talsmáti, mótun okkar, hegðun og hugsunarháttur, eru sameign, löguð og fullkomnuð í aldanna rás; arfur sem sérhverri kynslóð er treyst til að varðveita og láta af hendi til næstu kynslóðar, ekki óbreyttan, heldur aukinn og endurbættan…“ Samkvæmt þessu er það – strangt á litið – glæpur að aðhyllast og taka ákvarðanir í samræmi við skoðanir sem við höfum ekki rannsakað fyrst hvort hugsanlega fái staðist. – Þessi síðarnefndu rök eru, að dómi Cliffords, langveigamest og hann eyðir mestu máli í að útfæra þau. Aðalatriðið er að með því að vera auðtrúa og mynda okkur skoðun á ónógum rökum erum við brotleg við alla aðra menn og veikjum auk þess vald okkar yfir sjálfum okkur, verðum ósjálfstæð og spillt í senn.
      Þetta verður að nægja hér um röksemdir Cliffords. Áður en við segjum skilið við hann eru þó tvenn andmæli hugsanleg sem ástæða er að staldra við. Clifford víkur sjálfur að öðrum þeirra: „En,“ segir einhver, „ég er störfum hlaðinn; ég hef engan tíma til þeirrar miklu rannsóknar sem þarf til að gera mig dómbæran um margvísleg vandamál eða jafnvel færan um að skilja margar röksemdir.“ Um þennan mann lætur Clifford sér nægja að segja: „Hann ætti þá ekki heldur að hafa neinn tíma til að trúa…“ Með öðrum orðum: við skulum vera hlutlaus um þau efni sem við erum ekki dómbær um, ekki taka afstöðu eða mynda okkur skoðun fyrr en við höfum kynnt okkur málin.
      Þessi athugasemd virðist að sjálfsögðu mjög skynsamleg. En – og hér koma andmælin sem margir munu eflaust vilja taka undir – því miður er þetta óframkvæmanlegt. Við hljótum hvað eftir annað að mynda okkur skoðun og taka ákvarðanir án þess að hafa tóm til að huga að rökum þeirra eða forsendum, sem sagt án þess að hafa átt þess kost að kynna okkur málin sem skyldi.
      Áður en ég svara þessu vil ég nefna önnur og enn ákveðnari andmæli við kenningu Cliffords. Í mörgum efnum, t.d. í trúmálum og í stjórnmálum, virðumst við ekki eiga kost á því að komast að neinum afgerandi rökum með eða á móti einni skoðun fremur en annarri. Samt virðist öldungis óraunhæft að mynda sér ekki skoðun eða taka ekki afstöðu í þessum efnum.
      Þessi síðari andmæli eru kjarninn í því sem William James hefur um málið að segja. Skoðun hans er sú að í ýmsum efnum, ekki síst í trúmálum, eigum við að láta tilfinningarnar ráða afstöðu okkar og velja þá kenningu sem okkur finnst fýsilegust, þó að við höfum engin gild rök með henni eða ástæðu til að trúa henni aðra en þá að við vildum að hún væri sönn. Má vera að mörgum sýnist þetta einnig vera viturleg skoðun. Mjög svipaða afstöðu má finna hjá Sigurði Nordal í erindaflokki hans Líf og dauði3 sem ég vænti að ýmsir hlustenda þekki og hafi lesið.
      Við þessum andmælum báðum tel ég að megi finna gild svör sem sýna að þau breyta engu um þá kenningu að rangt sé að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum, né heldur að hrófla við þeim röksemdum sem ég hef haft eftir Clifford.
      Fyrri andmælin voru þau að ókleift væri að lifa eftir lögmáli gagnrýninnar hugsunar vegna þess að við yrðum sífellt að mynda okkur skoðun og taka ákvarðanir án þess að eiga kost á fullnægjandi forsendum. Sá sem ber fram þessi andmæli virðist taka kröfuna, sem felst í lögmáli gagnrýninnar hugsunar, of bókstaflega. Það segir sjálft að sé ekki ráðrúm til að kynna sér málin, vegna þess að við erum knúin til ákvörðunar á stundinni, t.d. þegar slys ber að höndum, þá segir lögmálið okkur ekki að hafa enga skoðun og hafast ekki að. Við hljótum á svipstundu að gera upp hug okkar og framkvæma það sem við teljum best hverju sinni. Ef við höfum tamið okkur að vega og meta hlutina í anda gagnrýninnar hugsunar eru allar líkur á því að við bregðumst rétt við og myndum okkur nánast umhugsunarlaust rétta skoðun á ástandinu og hvað gera skuli. Sú skoðun, að þeir sem iðka gagnrýna hugsun eigi erfiðara með að komast að niðurstöðu en þeir sem hafa tamið sér að framkvæma áður en þeir hugsa, er ekki annað en hleypidómur þeirra sem aldrei hafa lagt á sig að brjóta málið til mergjar.
      Síðari andmælin, þau sem ég hafði eftir William James, eru þyngri á metunum. Samkvæmt þeim eru viss mikilvæg málefni þannig vaxin að ókleift er að komast að afgerandi niðurstöðu. Samt virðist óskynsamlegt, ef ekki beinlínis rangt, að mynda sér ekki skoðun og taka afstöðu, kjósa að fylgja þeirri kenningu sem höfðar mest til manns. Clifford myndi þó hafna þessu. Við ættum að vera hlutlaus í þeim efnum þar sem við eigum ekki enn kost á neinum öruggum niður­stöðum. En þessi afstaða Cliffords virðist óraunhæf, enda tók hann sjálfur afstöðu í trúarlegum efnum þó að hann hafi þar tæpast átt völ á öruggum sönnunum fremur en við hin. Hér virðist því málflutningur William James vera mjög sannfærandi og sterk rök vera fyrir því að í mörgum mjög mikilvægum efnum einkum á sviði trúarbragða, siðferðis og stjórnmála, hljóti tilfinningar manna, langanir eða hagsmunir að vera undirstöður skoðana þeirra, breytni og ákvarðana.
      Ég tel að hér sé hætta á alvarlegri hugsunarvillu sem alltof sjaldan er bent á. Það er auðvitað hárrétt, skoðanir, ákvarðanir og breytni ráðast iðulega af tilfinningum, löngunum, hagsmunum eða innrætingu af einhverju tagi, ekki síst í trúmálum, stjórnmálum og siðferðilegum efnum. Þetta vitum við mæta vel – og hér kemur alröng ályktun – þess vegna teljum við gjarnan að rökum og gagnrýninni hugsun verði ekki við komið í þessum efnum. Þessi ályktun virðist blasa við af málflutningi James og þeirra sem fylgja honum að málum. Sannleikurinn er þó sá að af þeirri forsendu, að skoðanir okkar ráðast í vissum efnum iðulega af ástæðum sem koma rökum lítið sem ekkert við, ber okkur að draga þá ályktun að þar sé brýnust þörfin fyrir gagnrýna hugsun. Og mestar líkurnar á að hún verði til gagns. Þetta segir sig sjálft ef menn rétt aðeins leiða hugann að þessu. Í vísindum og fræðum eru ævinlega gerðar mestar kröfur til manna um gagnrýna hugsun þar sem álitamálin eru flest og alvarlegust. Og hvers vegna skyldi ekki sama eiga við um trúmál og stjórnmál þar sem hagsmunir og tilfinningar brenna heitast á fólki? Auðvitað er það hér sem virkilega reynir á gagnrýna hugsun manna og þá að sjálfsögðu mestar líkur á að hana bresti. En það er fásinna að halda því fram að henni verði ekki við komið eða að hún eigi ekki rétt á sér í þessum efnum. Ég trúi því raunar ekki að William James hafi haldið það; hann virðist einfaldlega ekki hafa áttað sig fyllilega á þeirri ályktun sem virðist mega draga af málsvörn hans fyrir rétti tilfinninganna. Nú eiga tilfinningarnar vissulega ekki aðeins rétt á sér, heldur eru þær beinlínis nauðsynlegar til þess að menn get einbeitt sér að mikilvægum viðfangsefnum. En það er auðvitað ekki heilbrigð tilfinning sem ber alla skynsemi ofurliði fremur en það er heilbrigð skynsemi sem horfir fram hjá gildi tilfinninganna. Að endingu er það ekkert annað en skýr og rökstudd tilfinning sem gerir okkur kleift að sjá að lögmáli gagnrýninnar hugsunar gildir alls staðar og fyrir hverja hugsandi manneskju. Í fjölmörgum efnum veltur niðurstaðan einmitt á vel grunduðum tilfinningum sem við getum mæta vel skýrt og rökstutt.

IV

      Nú kann svo að virðast að við höfum þegar fengið jákvætt svar við spurningunni hvort hægt sé að kenna gagnrýna hugsun. Það ætti að vera hægt svo fremi að unnt sé að finna eða móta við­eigandi kennsluefni og aðferðir til að innprenta nemendum það boðorð að trúa engu á ófull­nægjandi forsendum. Það kann því að virðast mál til komið að hverfa frá spurningunni „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ til spurningarinnar „Hvernig á að kenna gagnrýna hugsun?“ Þá þyrfti að finna viðeigandi aðferðir og námsefni til þess að þjálfa nemendur í því að beita lögmáli gagnrýninnar hugsunar og aga þá svo að þeir temji sér að fylgja þessu lögmáli út í ystu æsar.
      En það er tvennt sem vekur efasemdir og þarf að kanna nánar. Í fyrra lagi kann einhver – þrátt fyrir það sem hér hefur verið rakið – að telja þetta verkefni, að kenna gagnrýna hugsun, algerlega óraunhæft, fólk sé nú einu sinni þannig gert að það láti ekki stjórnast af rökum, heldur öðrum ástæðum, hversu brýnt og þarft sem það kunni að vera að læra að hugsa á gagnrýninn hátt. Þessi andmæli ber að taka mjög alvarlega því að það er vissulega engum erfiðleikum bundið að benda á dæmi þess að menn, sem eru vel upplýstir og hafa tamið sér gagnrýna hugsun að því er virðist, láti afstöðu sína ráðast af öðru en rökum þegar til kastanna kemur. Hér vakna djúpstæðar efasemdir um áhrifamátt gagnrýninnar hugsunar. Er hugsanlegt að skynsemin sé áhrifalaus þegar á reynir, að sjálfstæð gagnrýnin hugsun manna sé tóm blekking þegar upp er staðið? Er þá ekki allt tal um að kenna gagnrýna hugsun jafnframt í lausu lofti?
      Þetta var fyrri efasemdin. Hin síðari er af svipuðum toga og byggir einnig á hversdagslegri reynslu. Það kemur iðulega fyrir að menn séu mjög gagnrýnir í vissum efnum sem þeir eru sérfróðir í, en séu hins vegar vita gagnrýnislausir þegar að öðrum efnum kemur. Spurningin sem vaknar er þá þessi: er ekki hugsanlegt að einungis sé hægt að þjálfa menn til gagnrýninnar hugsunar á ákveðnum sviðum, t.d. í rökfræði eða hagfræði, en ókleift að kenna mönnum almennt að hugsa á gagnrýninn hátt? Og þá má halda áfram og spyrja: er ekki þarflaust og jafnvel villandi að vera að tala um að kenna mönnum gagnrýna hugsun? Snýst ekki málið fyrst og fremst um það að menn afli sér tiltekinnar þekkingar og kunnáttu á ákveðnum sviðum? Það er svo undir hælinn lagt hversu vel eða illa þessi þekking eða kunnátta nýtist mönnum til að hugsa á gagnrýninn hátt um aðra hluti eða um lífið og tilveruna almennt og yfirleitt.
      Fyrri efasemdin er almennari og djúpstæðari, en síðar efasemdin er þó engu síður mikilvæg, ekki síst með hliðsjón af því hvernig ætti að standa að kennslu og þjálfun í beitingu gagnrýninnar hugsunar. Ef mér tekst að eyða þessum tveimur efasemdum, þá tel ég mig hafa fengið jákvætt svar við spurningunni „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ Og þá væri jafnframt tímabært að hefja annan áfanga í þessari rannsókn sem væri fólginn í því að leita svara við spurningunni „Hvernig á að kenna gagnrýna hugsun?“ Vonandi gefst mér síðar tækifæri til að glíma við þá spurningu.
      Nú megum við vara okkur á hleypidómum. „Auðvitað getum við tamið okkur gagnrýna hugsun,“ kann einhver hlustenda að hugsa með sér, „við höfum mörg dæmi um að menn sem það hafa gert og þeir sýna okkur svo ekki verður um villst að það er hægt.“ Og þessi ímyndaði hlustandi kynni að bæta við og segja: „Ert þú ekki sjálfur í hópi þeirra sem hafa lært að hugsa á gagnrýninn hátt? Verðum við ekki að gera ráð fyrir því úr því að þú telur þig bæran til að koma í útvarpið og ræða um gagnrýna hugsun?“ Nú er það eitt að telja sig vita sitthvað um gagnrýna hugsun, annað að vera gæddur henni. Auk þess veit ég ekki nóg um eðli og takmarkanir gagnrýninnar hugsunar og einmitt þess vegna fæst við að rannsaka hana. Á þessu stigi er ég raunar fullur efasemda og leyfi mér að spyrja: er ekki hugsanlegt að sjálf hugmyndin um gagnrýna hugsun sé tóm tálsýn og blekking?
      Og nú má vel ímynda sér að það sé einmitt annar hlustandi að hugsa á þessari stundu: „Er ekki allt þetta tal um gagnrýna hugsun í lausu lofti?“ Og hann kynni að halda áfram: „Það er svo sem gott og blessað að einhver skuli nenna að velta vöngum yfir þessu, en það er alveg ljóst að maðurinn mun ekki hafa erindi sem erfiði. Við erum nú einu sinni þannig gerð að við trúum bara því sem kemur okkur best og köllum það svo rök og forsendur sem við notum til að sannfæra sjálf okkur og aðra um það sem hentar hverju sinni.“
      Er hugsanlegt að þessar staðhæfingar séu réttar? Hversu andsnúin sem við kunnum að vera þessum fullyrðingum er ekki hægt að vísa þeim frá á þeirri forsendu einni að þær séu einberir hleypidómar. Það er auðvitað ekki til fyrirmyndar að fara með hleypidóma, en það gildir það sama um þá og aðra dóma. Hvort sem þeir eru rökstuddir eða ekki þá geta þeir verið réttir eða rangir. Við getum því ekki slegið því föstu að við ráðum algerlega sjálf hugsunum okkar, skoðunum og hugmyndum. Öðru nær: við höfum dæmi um fólk sem trúir, ákveður og breytir án þess að skeyta um rök eða eiginlegar ástæður trúar sinnar, breytni eða ákvarðana. Og líkast til erum við flest í þessum hópi.

V

      Nú kann einhverjum að þykja þetta óþægileg tilhugsun að við ráðum ekki sjálf skoðunum okkar og ákvörðunum. En hvaða ástæður skyldum við þá hafa til að ætla að við séum gædd hæfileikanum til að hugsa sjálfstætt og mynda okkur skoðun af eigin rammleik? Eða – svo ég orði spurninguna öðruvísi – af hverju stjórnast hugsanir okkar ef ekki rökum eða ástæðum sem við sjálf höfum vegið og metið með dómgreind okkar?
      Ég vék að þessu þegar ég greindi frá andmælum William James við þeirri kenningu að lögmál gagnrýninnar hugsunar ætti við í öllum efnum. Skoðun William James er sú að í vissum efnum hljóti skoðanir okkar að ráðast af tilfinningum, hagsmunum, óskum eða löngunum. James hefur hér einkum í huga afstöðu manna í siðferðilegum og trúarlegum efnum. Ég svaraði þessum rökum James með því að benda á að sú staðreynd að skoðanir okkar ráðist iðulega af tilfinningum eða hagsmunum breyti engu um skyldu okkar að beita gagnrýninni hugsun. Öðru nær: í þeim efnum þar sem hagsmunir og tilfinningar leika oft lausum hala ber mesta nauðsyn til að huga að rökum og láta ekki afstöðu sína ráðast af blindum eða ósjálfráðum öflum. Og líklega hefði James samsinnt þessu þó að hann hafi ekki tekið svona til orða. En nú er spurningin hvort þetta sé í rauninni hægt, hvort við séum ekki þannig gerð að önnur öfl en skynsemi ráði hugs­unum okkar og gerðum: áskapaðar tilhneigingar, hvatir, langanir, hagsmunir eða tilfinningar sem við hefðum enga stjórn á. Þetta væru þau ósjálfráðu öfl sem í reynd réðu hugsunum okkar.
      Þessi tilgáta er í senn mjög einföld og róttæk. Og slíkar tilgátur krefjast sérstakrar aðgæslu ef þær eiga ekki að leiða í ógöngur. Einfaldleikinn og róttæknin kunna að blekkja með því að binda um of sýn manna á efnið. William James myndi ekki telja þessa tilgátu skynsamlega. Hann kynni jafnvel að vísa henni frá á þeirri forsendu að hún væri alltof einhæf og afgerandi. Lítum því fyrst á afstöðu hans í málinu. James er reiðubúinn að fallast á að í vissum efnum hljóti tilfinningarnar að ráða, ekki skynsemin, en áherslan hvílir á orðunum „í vissum efnum.“ Hér á hann við þau efni sem skynsemin hefur ekki fyllilega tök á. Sem sagt þegar okkur brestur öll afgerandi rök hljótum við að viðurkenna rétt tilfinninganna. Ákveðin hugmynd um manneðlið virðist liggja skoðun James til grundvallar (þó að hann nefni hana ekki). Annars vegar er maðurinn gæddur skynsemi, hæfileikanum til að fella dóma og komast að rökstuddum niðurstöðum. Hins vegar er maðurinn tilfinningavera sem bregst við aðstæðum á órökvísan hátt.
      Á grundvelli þessarar skiptingar má vísa frá þeirri tilgátu að annarleg öfl stýri öllum hugsunum manna. Það væri engin ástæða til að ætla að tilfinningarnar villi um fyrir mönnum í þeim efnum þar sem köld skynsemi hefur töglin og hagldirnar, t.d. í rökfræði eða stærðfræði. Nú er þessi hugmynd um tvískipt manneðli, rökvísan þátt og órökvísan, ævaforn, og William James er hér í góðum félagsskap með kenningu sína, því að bæði Platón og Aristóteles héldu henni fram. Auk þess er þessi kenning í góðu samræmi við almennt viðhorf fólks til sjálfs sín og annarra. Flestum er tamt að líta á skynsemina sem hinn rökvísa hluta sálarinnar, en tilfinningarnar sem hinn órökvísa hluta hennar. James sakar einmitt þá, sem vilja alhæfa lögmál gagnrýninnar hugsunar (kröfuna um fullnægjandi forsendur), um að viðurkenna ekki þessa staðreynd um manninn. Þeir ætli sér að láta skynsemina með hina gagnrýnu hugsun að leiðarljósi sigrast á öllum tilfinn­ingum ef ekki útrýma þeim. James telur raunar að þessir menn – og hér hefur hann í huga Clifford sem ég ræddi um áður – séu tvöfaldir í roðinu. Vörn þeirra fyrir gagnrýninni hugsun sé þeim nefnilega tilfinningamál, þó að þeir þykist engu sinna nema rökum og fullnægjandi for­sendum.
      Nú er ég sammála James um að þetta sé þeim tilfinningamál, en ég er ekki viss um að það sýni tvöfeldni eða ósamkvæmni af þeirra hálfu. Sjálfur er ég reiðubúinn til að verja þá skoðun að þessi hugmynd um tvískipt manneðli standist ekki. Skynsemi manna og tilfinningar eru ekki, að mínum dómi, tvennt ólíkt, heldur af sama toga þegar öll kurl koma til grafar. Skynsemi manna er mismunandi rík af tilfinningum og tilfinningarnar mismunandi skynsamlegar. Rök mín fyrir þessari skoðun eru afar einföld: í fyrsta lagi er ekki frekar ástæða til að segja að tilfinningar manna séu órökvísar en að skynsemi þeirra sé rökvís. Tilfinningar eru rökvísar eða órökvísar rétt eins dómar manna eru rökvísir eða órökvísir. Í öðru lagi eru tilfinningar manna meira eða minna skynsamlegar eftir því hvert tilefni þeirra er. Algengar tilfinningar svo sem kvíði, reiði, ást, geta verið skynsamlegar eða óskynsamlegar eftir atvikum. Niðurstaða mín eru því sú að tilfinningar séu hluti skynseminnar og skynsemin hluti tilfinningalífsins. Skynsemi og tilfinningar eru ekki tvær skýrt aðgreindar sálargáfur, heldur tvö skaut eða pólar einnar og sömu sálargáfu. Það var á þessum forsendum sem ég fullyrti fyrr í lestri mínum að það væri skýr og vel rökstudd tilfinning sem að endingu segði okkur að lögmál gagnrýninnar hugsunar hefði gildi fyrir alla og í öllum efnum.
      En ef þetta er rétt, að tilfinningar séu ekki af öðrum toga en skynsemin, þá virðist óraunhæft að álykta að þær stýri hugsunum okkar og það í mun ríkari mæli en rökhyggjusinnar á borð Clifford kysu að fallast á. Og þá virðist ærin ástæða til að efast um að sjálfstæð gagnrýnin hugsun manna sé til.

VI

      Við skulum nú gera ráð fyrir að ástæður hugsana okkar – og þar með skoðana og ákvarðana – séu yfirleitt ekki rök, heldur tilfinningar eða öfl sem við höfum lítið eða ekkert yfir að segja. Einfaldast er þá að líta svo á að þessi öfl séu auk tilfinninga langanir, hvatir, hagsmunir, skapferði. En þetta svar er að sjálfsögðu ekki fullnægjandi vegna þess að fólk hefur einnig alls konar skoðanir sem má rekja til innrætingar, uppeldis eða tíðaranda, og hefur það e.t.v. aldrei leitt hugann að því hvort það kæri sig um að hafa þær eða ekki. Þetta sést best á því að fólk getur trúað ýmsu sem beinlínis brýtur í bága við hagsmuni þess eða langanir. Það virðist því rétt að telja meginástæður hugsana okkar vera af tvennu tagi: annars vegar óskir, hvatir, hagsmuni eða skapferli, hins vegar innrætingu, uppeldi, tíðaranda eða kennivöld. Þessar tvær meginástæður falla stundum saman, þ.e. þegar það sem fólki er innprentað fellur saman við óskir þess, t.d. sjúkum manni er talin trú um að hann sé á batavegi. Athugið að sjúklingurinn getur verið á batavegi hvort sem honum er talin trú um það eða ekki og hvort sem hann óskar sér þess eða ekki. Þessar ástæður skoðunarinnar – innrætingin eða óskin – segja ekkert um sanngildi hennar. (Stundum er það óskhyggjan ein sem lætur hluti gerast, og staðhæfingin „trúin flytur fjöll“ er síður en svo út í bláinn, en þetta breytir engu um það að hvorki trúin né vonin gera skoðanir okkar sannar eða réttmætar; við vonum eða treystum því að eitthvað ákveðið muni gerast, en vitum það ekki þó að við höfum gildar ástæður til að trúa eða vona.)
      Af þessu má sjá að það er reginmunur á þeim ástæðum skoðana okkar, sem ég hef hér nefnt dæmi um, og svo rökum skoðana okkar, þ.e.a.s. því sem sker úr um sanngildi þeirra, hvort þær eru réttar eða rangar. Þessi greinarmunur skiptir bersýnilega miklu máli. Það þarf ekki að breyta neinu um mat okkar á réttmæti eða sannleiksgildi skoðunar hvort hægt er að skýra hvers vegna maður hefur hana eða heldur henni fram. Trú manna eða skoðanir geta verið réttar hvort sem þeir byggja þær á öruggum forsendum eða ekki, og hvort sem trúin sprettur af hagsmunum eða órökstuddum löngunum. Iðulega horfum við fram hjá þessari staðreynd og teljum skoðanir fólks ómerktar, ef ekki ómerkilegar, vegna þess að þær ráðast augljóslega af hagsmunum fólks eða hleypidómum.
      Í daglegri umræðu hugsum við oft einmitt á þessa leið og dæmum skoðanir fólks, eða það sem fólk segir, eftir skoðunum okkar sjálfra á fólkinu, hvötum þess eða hagsmunum. Við lítum þá svo á að skoðanir fólks ráðist af innræti þess, menntun, störfum eða kynferði og fellum svo dóm um skoðanirnar sjálfar í ljósi þess hver það er sem ber þær fram: karlmaður eða kvenmaður, barn eða gamalmenni, bóndi eða sjómaður, ráðherra eða ræstingarmaður. En þetta verður stundum til þess að við gerum okkur sek um alvarlega hugsunarvillu. Hún verður þegar við göngum svo langt að horfa gersamlega fram hjá því hvort skoðanir fólks eru réttar eða rangar, og gerum það á þeirri forsendu að þær ráðist af öflum sem fólk hefur ekki tök á og veit jafnvel ekki af. Þar með brjótum við ekki aðeins boðorð gagnrýninnar hugsunar um að athuga rök skoðana, heldur vísum við grundvallarforsendu hennar á bug, teljum fráleitt að fólki sé frjálst um skoðanir sínar.
      En nú geta þessi atriði sem við notum til ómerkja skoðanir fólks einmitt verið góð og gild rök fyrir skoðunum þess. Þetta á við um tilfinningar sem geta í senn stýrt hugsunum fólks án þess að það geri sér grein fyrir því, og verið rök fyrir skoðunum þess, gefið ástæðu til að ætla að skoðanirnar séu réttar. Og þar með er augljóst að það er ávallt óskynsamlegt að horfa fram hjá því hvort skoðanir fólks séu réttar eða rangar hverjar sem ástæðurnar kunna að vera fyrir þeim; við erum þá ekki aðeins hrokafull, heldur dæmum heimskulega. Ennfremur varpa hvatir manna oft ljósi á skoðanir þeirra þó að þær séu ekki beinlínis rök fyrir þeim. Hver manneskja býr yfir ákveðinni reynslu sem gerir henni kleift að sjá betur en aðrir hvað skiptir máli í ákveðnum efnum, hvort sem henni tekst að færa rök fyrir því eða ekki. Mjög oft koma rökin eftir á, eftir að við höfum myndað okkur skoðun og tekið afstöðu til þess hvað við teljum rétt.
      Og hér er þeim sem vilja leggja upp úr skýrum og skilmerkilegum rökum hollt að minnast þess að röksemdir eru iðulega misnotaðar í því skyni að réttlæta afstöðu eða skoðun sem ekki er reist á neinum rökum. Í hversdagslífinu getum við fundið ótal heimildir um það hvernig menn beita rökum til þess að réttlæta málflutning á röngum forsendum eða til að breiða yfir hinar eiginlegu ástæður skoðana sinna, ákvarðana eða breytni.

VII

      Hvaða ályktanir ber nú að draga af athugun okkar á þeirri tilgátu að hugsanir fólks, ákvarðanir og breytni stjórnist af öflum sem skera yfirleitt ekki úr um réttmæti eða sannleiksgildi skoðana? Ég vil nefna þrjú atriði. Í fyrsta lagi ber okkur að fallast á að þetta er rétt; hugsanir okkar stýrast að verulega leyti af öflum sem við höfum engin tök á. En þessi staðreynd breytir engu um það hvort við eigum að telja skoðun rétta eða ranga. Sú tilhneiging manna að meta skoðanir eftir því hver heldur þeim fram og hvers vegna, og horfa síðan fram hjá því hvort þær séu réttar eða rangar, er ekki annað en ósiður sem bráðnauðsynlegt er að uppræta. Þessi ósiður er brot á lögmáli gagnrýninnar hugsunar. Þetta lögmál stendur óhaggað hvort sem skoðanir fólks ráðast af öðrum ástæðum en þeim hvort þær séu réttar eða rangar.
      Í öðru lagi – og hér er komið að því sem mestu skiptir – við vitum allt það sem hér hefur verið rakið mæta vel þó að mörg okkar hafi e.t.v. ekki áður leitt hugann að því. Við vitum að það eru alls kyns hagsmunir, óskir, kennivöld, hleypidómar og guð má vita hvað annað sem hafa áhrif á það hvað við hugsum og hvernig við hugsum. Og við vitum að menn misnota iðulega rök í því skyni að breiða yfir eiginlegar ástæður breytni sinnar, til að réttlæta sig eða afsaka sig eftir atvikum. Þessi vitneskja um sjálf okkur og aðra skiptir sköpum. Hún er lykillinn að sjálfstæðri hugsun okkar. Við getum verið sjálfstæð í hugsun vegna þess að við vitum að ekki eru allar hugmyndar okkar eða skoðanir reistar á traustum rökum og margar ef til vill á engum rökum. Þessi vitneskja segir okkur það eitt að treysta engri skoðun algerlega eða án fyrirvara. Það er alltaf hugsanlegt að hún sé ekki sönn og að ástæðurnar sem við höfum til að reiða okkur á hana reynist ekki fullgildar. Þar með er ekki sagt að við höfum ástæðu til að efast um allar skoðanir okkar og trúa ekki neinu, heldur að við eigum að vera opin fyrir hugsanlegum efasemdum og reiðubúin að tileinka okkur ný rök og aðrar skoðanir, ef og þegar tilefni eru til. Það er allt og sumt sem gagnrýnin hugsun krefst af okkur.
      Í þriðja og síðasta lagi blasir við að sjálf efasemdin um að mennirnir séu þannig gerðir að þeir geti lært að temja sér gagnrýna hugsun hjálpar okkur til að skilja betur eðli og takmarkanir gagnrýninnar hugsunar. Við erum ekki eintómar skynsemisverur sem spássera um heiminn og skoða alla hluti með gleraugum gagnrýninnar og hafa öll rök á hreinu. Við erum manneskjur af holdi og blóði með margbrotnar tilfinningar, alls kyns hagsmuni, þrár og óskir, gæddar hæfileikanum til að leita sannleika og réttlætis.

VIII

      Nú er mál komið að snúa sér að síðari efasemdinni sem ég nefndi, en samkvæmt henni er það engan veginn tryggt að menn verði almennt gagnrýnir í hugsun þó að þeim hafi verið kennt að beita gagnrýninni hugsun í ákveðnum efnum eða á ákveðnu sviði. Sannleikurinn er sá – svo skýrt dæmi sé tekið – að strangt nám í rökfræði er ekki trygging fyrir því að menn temji sér að beita gagnrýninni hugsun í öllum efnum sem þeir mynda sér skoðanir á. Vissulega eykur nám í rökfræði líkur á því að fólk verði gagnrýnið í hugsun, og þetta er skýringin á því að rökfræði hefur gjarnan verið talin nauðsynlegur þáttur almennrar menntunar. En nám í rökfræði virðist samt hvergi duga til að gera fólk rökvíst í öllum efnum. Og við getum sett hér í stað rökfræðinnar ýmsar aðrar greinar sem augljóslega krefjast þjálfunar í gagnrýninni hugsun.
      Hvernig er hægt að skýra þessa einkennilegu staðreynd að fólk, sem er gagnrýnið í einum málaflokki, verður vita gagnrýnislaust þegar að öðrum málum kemur? Nú virðist ein skýringin blasa við: fólk getur sagt sem svo að í vissum efnum kunni það ekkert fyrir sér og þess vegna þýði ekkert fyrir það að vera með neina gagnrýna hugsun; það sætti sig bara við að trúa því sem aðrir segja og þá helst kunnáttumenn og fræðimenn á viðkomandi sviði. Þessi skýring er góð og gild svo langt sem hún nær; í „sérfræðingaþjóðfélagi“ nútímans er þessi afstaða mæta vel skiljanleg. En málið er miklu flóknara en hér er gefið í skyn. Oft á tíðum þykjumst við vita miklu meira en við höfum nokkur rök til og erum óspar í dómum og fullyrðingum um málefni sem við höfum ekki rannsakað. Þetta á ekki síst við um okkur sem teljum okkur búa yfir nokkurri þekkingu á okkar sérsviðum. Við teljum okkur iðulega dómbær um efni sem við höfum hvorki reynslu af né þekkingu á og erum furðu gagnrýnislaus – og það jafnvel í nafni gagnrýninnar hugsunar.
      Mannlegur breyskleiki er nærtæk skýring. En breyskleiki er í þessu tilviki lítið annað en nafn á dómgreindarleysi og dómgreindarleysi er skortur á gagnrýninni hugsun. Svo við erum litlu nær.
      Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er þessi: Í vissum efnum myndum við okkur skoðun eftir leiðum gagnrýninnar hugsunar. Í öðrum efnum myndum við okkur skoðun án þess að skeyta um gagnrýna hugsun. Til að taka á þessum vanda verður fyrst að gera grein fyrir með hvaða hætti menn mynda sér skoðanir, ef þeir gera það ekki eftir leið gagnrýninnar hugsunar. Síðan verður að skýra hvernig leið gagnrýninnar hugsunar tengist þessum öðrum leiðum. Þessu verkefni verða ekki gerð rækileg skil í stuttu máli, svo að ég mun einungis stikla á nokkrum meginatriðum og styðst í því skyni við rannsókn bandaríska heimspekingsins Charles Sanders Peirce (1839-1914), sem hann gerir grein fyrir í ritgerð sem nefnist „The Fixation of Belief“, en mætti á íslensku kalla „Að mynda sér skoðun“.4
      Peirce nefnir í ritgerð sinni þrjár leiðir til að mynda sér skoðun – auk þeirrar sem ég hef þegar fjallað um, leið gagnrýninnar hugsunar, sem Peirce kallar raunar leið vísindalegrar aðferðar. Hinar leiðirnar þrjár getum við kallað þrjóskuleiðina, kennivaldsleiðina og fordómaleiðina. Ég mun nú lýsa hverri leið fyrir sig og nefna helstu kosti hennar og galla.
      Þá er það fyrst þrjóskuleiðin. Hún er í því fólgin að mynda sér skoðun með þeim hætti að ákveða að trúa staðfastlega því sem manni fellur fyrst í geð. Aðferðin er sú að endurtaka í sífellu fyrir sjálfum sér að þetta sé rétt skoðun og beina huganum að því sem styður hana, en læra jafnframt að fyrirlíta allt það sem gæti raskað þessari trú manns. Margir hafa tamið sér þessa einföldu og beinskeyttu aðferð. Þeir gæta þess vandlega að lesa einungis viss blöð og tímarit, en forðast allt sem gæti lætt að þeim efasemdum um skoðanir þeirra. Peirce segir stutta sögu af vini sem ráðlagði honum að lesa ekki ákveðið dagblað þar sem það gæti haft áhrif á skoðanir hans á verslunarfrelsi. „Rökvillur og rangfærslur blaðsins gætu a.m.k. villt um fyrir mér,“ sagði vinurinn og hélt áfram: „nú ert þú ekki sérfróður um hagfræði. Þess vegna getur þú auðveldlega látið blekkjast af villandi rökfærslum um þetta efni. Ef þú lest þetta blað gæti það leitt til þess að þú færir að trúa á tolla eða önnur höft. En nú viðurkennir þú að verslunarfrelsi sé hin sanna kenning; og þig langar ekki að til að trúa því sem ekki er satt.“
      Þrjóskuleiðin er sem sagt fólgin í því að halda sig við þá skoðun sem maður hefur einu sinni fallist á, láta ekkert hagga trú sinni. Þessi leið hefur augljóslega ýmsa góða kosti, einkum fyrir þá sem hafa tilhneigingu til að vera óákveðnir og eiga erfitt með að gera upp hug sinn. Hún veitir sálarró og öryggi. Ef henni er beitt skipulega aukast líkur á að menn verði skapfastir, fylgi ákvörð­unum sínum eftir út í rauðan dauðann. Höfuðgallinn á henni er á hinn bóginn sá að hún stenst illa í framkvæmd og hún gerir mönnum illmögulegt að búa með öðru fólki. Þegar bráir af þeim sem henni beita, uppgötva þeir að skoðanir annarra eiga einnig rétt á sér, og þá eru óvissa og öryggisleysi á næsta leiti. Fólk hefur sífellt áhrif á skoðanir hvers annars, svo að vandinn verður sá hvernig skoðanir myndast, ekki í einstaklingnum, heldur samfélaginu.
      Hér kemur kennivaldsleiðin til sögunnar. Látum ríkið eða einhverja stofnun ákveða hverju við eigum að trúa og hvaða skoðanir séu réttar, endurtaka þær í síbylju, kenna þær hinum ungu; og fela þeim jafnframt vald til að útiloka að andstæðar skoðanir komi fram og fái að njóta sín. Um þessa leið er margt að segja og miklu meira en hér verður rakið. Þetta er langáhrifaríkasta leiðin sem fundin hefur verið upp til að mynda skoðanir og festa þær í sessi. Felum einfaldlega Ríkinu, Flokknum, Kirkjunni að ákveða hverju skal trúa og hvaða skoðanir á að hafa í lífinu. Peirce telur að þessi leið muni ávallt ráða mestu um skoðanir fjöldans. Þeir sem fari með völdin í þjóð­félaginu muni alltaf álíta að háskalegar hugmyndir þurfi að bæla niður. Ef ríkið sjái ekki til þess, þá muni sterk öfl í samfélaginu grípa til sinna ráða og standa vörð um hinar „réttu skoðanir“; Peirce talar í þessu sambandi um „siðferðilega ógnarstefnu“, „moral terrorism“. En það er athyglisvert að ofsóknirnar þurfa ekki allar að koma utan frá. Menn kveljast oft og verða þunglyndir vegna þess að þeir finna að þeir eru farnir að trúa einhverju sem þeim hefur verið innrætt að sé andstætt öllum góðum siðum. Friðsamt og geðugt fólk á því mjög erfitt með að standast þá freistingu að fela kennivöldum að ákvarða skoðanir sínar.
      Um kosti og galla kennivaldsleiðarinnar ætti að vera þarflaust að fjölyrða. Kostir hennar felast fyrst og fremst í því að hún tryggir frið og samheldni í samfélaginu. Gallar hennar felast í þeim beinu eða óbeinu ofsóknum sem andstæðingar ríkjandi skoðana þurfa að sæta. En hér er rétt að benda á að leið þessi er mismunandi eftir löndum og fer eftir ríkjandi stjórnarfari og siðferði. Engin stofnun, hversu voldug sem hún er, getur ákveðið skoðanir almennings nema í fáum mikil­vægum málum. Í fjölmörgum efnum verða einstaklingarnir sjálfir að mynda sér skoðun af eigin rammleik. Og hér kemur að fordómaleiðinni.
      Þessi leið er fólgin í því að mynda sér skoðun í samræmi við það sem fólki finnst eðlilegast, eða nánar sagt: að mynda sér nýja skoðun í sem bestu samræmi við þær skoðanir sem maður hefur þegar. Þetta verðist ákaflega eðlileg og umfram allt þægileg aðferð. Skýrustu dæmin um hana er að finna í sögu heimspekinnar. Þar hafa menn fellt skoðanir sínar í ákveðin kerfi og laga síðan nýjar skoðanir að þeim. Stundum verða menn að vísu varir við djúpstæðan skoðanamun, en þá er leiðin sú að hafa nóg almenna kenningu sem fólk getur skilið og lagað sig eftir hverju sinni. Peirce nefnir dæmi um alkunna kenningu, sem segir að allir menn breyti af eigingjörnum hvötum, þ.e.a.s. á þeirri forsendu að ákveðin breytni muni veita manni meiri ánægju en ef hann breyti öðruvísi. Þessu trúir fjöldi fólks sem hinni einu skynsamlegu kenningu um breytni manna, þó að hún sé ekki, segir Peirce, reist á einni einustu staðreynd í heiminum.
      Fordómaleiðin bætir vissulega upp ýmsa galla þrjóskuleiðarinnar og kennivaldsleiðarinnar. Kostir hennar blasa við. Hún er mun fræðilegri en hinar tvær og meira í anda almennrar skynsemi. Gallar hennar eru þó jafnvel enn augljósari. Smekkur, tíska og ólík lífsviðhorf verða undirstöður skoðana, en ekki reynsla fólks og rannsóknir. Og þess vegna þurfum við, segir Peirce, að móta enn aðra leið, leið vísindalegrar aðferðar til þess að geta reist skoðanir okkar og kenningar á traustum forsendum. Höfuðeinkenni þeirrar aðferðar væri að byggja á forsendum sem eru algerlegar óháðar því hvað við höldum eða hvað okkur finnst. Og Peirce leitast við að benda á slíkar ytri staðreyndir sem hver maður, sem hugsar á gagnrýninn hátt, á að geta komist að svo fremi sem að hann hlíti vissum reglum og trúi vissum lögmálum.

IX

      En nú vandast málið og hér skilja leiðir okkar Peirce. Vandinn er einfaldlega þessi: leið hinnar gagnrýnu hugsunar getur ekki leyst hinar þrjár fyrrnefndu af hólmi. Á þetta fellst Peirce. Fólk mun alltaf fara þrjóskuleiðina, kennivaldsleiðina eða fordómaleiðina í veigamiklum málum. Og hér höfum við einmitt skýringuna á því hvers vegna maður sem hefur tamið sér gagnrýna hugsun í vissum efnum beitir öðrum aðferðum við önnur tækifæri. Leið hinnar vísindalegu aðferðar leysir menn ekki úr viðjum hinna þriggja. Peirce skýrir hins vegar ekki þessa staðreynd; hann lætur sér nægja að vísa á leið hinnar gagnrýnu hugsunar sem hina einu sönnu aðferð við að mynda sér skoðun. Kostur hennar er sá, segir hann, að hún ein gerir skýran greinarmun á réttum og röngum aðferðum. Og þar með ætti hann hún að gera okkur kleift að komast að öruggum niðurstöðum. „Já,“ segir Peirce, „hinar aðferðirnar hafa vissulega sína kosti. Skýr rökleg hugsun fæst ekki án fórna – eins og allt það sem við metum mikils er okkur dýrkeypt.“ Og hann bætir við: „Það er ástæðulaust að fordæma hinar leiðirnar. Með því að virða þær metum við okkar eigin aðferð þeim mun meira.“
      Á þessa afstöðu get ég ekki með öllu fallist og vil ganga lengra. Kjarni málsins er sá að við getum ekki með góðu móti valið leið hinnar gagnrýnu hugsunar og varpað hinum kurteislega fyrir róða. Þetta er háskaleg blekking og rótin að gagnrýnisleysi. Maður sem iðkar gagnrýna hugsun á sínu sérsviði er ef til vill algerlega háður hinum leiðunum í öðrum efnum. Blekkingin er sú að halda að hann sé það ekki og vaða þess vegna áfram í villu og svíma.
      Hugsunarvilla Peirce felst í því að hann áttar sig ekki á því að hinar leiðirnar þrjár hafa einnig sínar aðferðir til að komast að niðurstöðum og gera einmitt greinarmun á réttum leiðum og röngum. Við getum talið þær öldungis ófullnægjandi og rangar en staðhæfing okkar eða sann­færing breytir nákvæmlega engu. Hún stendur einungis andspænis annarri staðhæfingu og annarri sannfæringu. Sannleikurinn er sá að fólk, sem beitir leiðum þrjósku, kennivalds og for­dóma, vísar sífellt til ytri staðreynda – rétt eins og við hin sem beitum aðferð vísinda og gagn­rýninnar hugsunar. Hér er einmitt höfuðvandinn. Það er engin leið, að því er virðist, til að sigrast á hinum leiðunum. Og þess vegna virðist eðlilegt að velja eins og Peirce hina vísindalegu aðferð og halda sig við hana af einskærri þrjósku. En – eins og ég hef þegar bent á – þá er þessi kostur ekki raunhæfur og ekki nóg með það: hann er háskalegur, veldur því að við teljum okkur óháð hinum þremur.
      Ég held að það sé aðeins eitt sem við getum gert og eigum að gera. Við eigum að viðurkenna að leið hinnar gagnrýnu hugsunar sé ekki algerlega sjálfstæð með tilliti til hinna þriggja, eða réttara sagt, að henni verði einungis beitt í tengslum við hinar þrjár. Einnig í vísindum og fræðum, því að líka þar beita menn óspart hinum þremur leiðunum. Ein mjög sterk rök hníga að þessari niðurstöðu. Við höfum aldrei – og ég endurtek: aldrei – algerlega á hreinu hin hinstu rök eða endanlegu fullnægjandi forsendur í þeim efnum sem skipta mestu fyrir skilning okkar á veru­leikanum og afstöðu í lífinu. Þessi sannindi um frumforsendur okkar uppgötvum við með beitingu gagnrýninnar hugsunar og í þessum sannindum er mikilvægi hennar fólgið umfram allar hinar þrjár leiðirnar, sem einmitt eru villandi að því leyti að þær horfa fram hjá þessari staðreynd. Þrjóskuleiðin færir mönnum hinar réttu skoðanir og sama gera kennivalds- og fordómaleiðin. Allar þykjast þær gefa hinar „fullnægjandi forsendur“, þó að þær fari einkennilega að því. Þess vegna er svo háskalegt ef menn beita þeim einum og taka ekkert mið af gagnrýninni hugsun.
      Hvernig eigum við nú að bregðast við þessu? Hvaða ályktanir ber okkur að draga varðandi möguleika manna á að iðka gagnrýna hugsun? Hér gefst ekki tími til að benda á nema eitt meginatriði. Það nægir engan veginn að þjálfa menn eingöngu í rökfærslum til að kenna þeim gagnrýna hugsun. Það sem mestu skiptir er að mönnum sé kennt að leggja slíka rækt við tilfinningar sínar og vilja að þeim gleymist aldrei að hlýða kalli hinnar gagnrýnu hugsunar. Hér er það ögun viljans sem úrslitum ræður. Vilji mannsins er óendanlegur og gerir hann guði líkan, en losni viljinn úr tengslum við tilfinningar manns og skilning er voðinn vís. Þá ruglast tilfinningarnar og menn gera sér jafnvel upp tilfinningar sem þeir hafa raunverulega ekki og fella dóma um alla skapaða hluti án þess að nokkur skilningur sé fyrir hendi. Skynsemi mannsins er þegar upp er staðið ekki annað en sameining vilja, skilnings og tilfinninga. Iðkun gagnrýninnar hugsunar á að tryggja að þessi sameining eigi sér stað með heilbrigðum hætti. Og nú er tímabært að hefja annan áfanga þessarar rannsóknar og spyrja: hvernig á að kenna gagnrýna hugsun? Um leið og ég þakka hlustendum þolinmæðina vil ég biðja þá að íhuga þessa spurningu.

Neðanmálsgreinar

* Erindi flutt í Ríkisútvarpinu 13. og 20. október 1985. Birtist í Pælingum, Ergo, Reykjavík 1987, bls. 67-92.

1. Ritgerð Cliffords birtist fyrst í tímaritinu Contemporary Review, 1877, og er endurprentuð í Lectures and Essays, London 1879. – Íslenska þýðingin hefur enn ekki komið út.

2. Þessa ritgerð er að finna í bókinni Máttur manna ásamt tveimur öðrum ritgerðum eftir William James, en Þjóðvinafélagið gaf þá bók út árið 1925. (Grein þessa þýddu Sig. Kristófer Pétursson og Sigurður Nordal.)

3. Sigurður Nordal: Líf og dauði, Reykjavík 1940.

4. Philosophical Writings of Peirce. Selected and Edited with an Introduction by Justus Buchler, New York 1955, s. 5-22. (Ritgerðin birtist fyrst 1877.)

Er trúin þverstæða?

eftir Jóhönnu Þráinsdóttur

Er trúin þverstæða?

Gagnrýni Magnúsar Eiríkssonar á trúarskoðunum Kierkegaards í Ugg og ótta

Inngangur

Á fimmta og sjötta tug nítjándu aldar urðu í Danmörku harðar deilur um tengsl trúar, og þá einkum kristindóms, við heimspeki og raunvísindi. Tildrögin má rekja til þeirra rita Sørens Kierkegaard, sem hann skrifaði undir dulnefni, en þar hafnar hann öllum slíkum mægðum. Að hans dómi var trúin allri hugsun og öllum vísindum æðri.1 Íslenski guðfræðingurinn Magnús Eiríksson (1806–1881) gerðist fljótt atkvæðamikill á ritvellinum í deilum þessum. Hann kom þar fram sem fulltrúi skynsemishyggju sem var þó, vegna innilegrar trúarsannfæringar hans, að ýmsu leyti frábrugðin almennri skynsemishyggju þessa tíma. Í ritum sínum deildi Magnús ekki aðeins á helstu framámenn dönsku kirkjunnar, svo sem Mynster Sjálandsbiskup, Martensen, prófessor við Hafnarháskóla og Grundtvig, heldur einnig Søren Kierkegaard, sem guðfræðingar töldu þó yfirleitt ekki svara verðan.

Hér verður aðeins drepið á helstu ágreiningsefni Magnúsar við Kierkegaard, eins og þau koma fram í riti sem kom út í Kaupmannahöfn 1850 undir heitinu: „Er Troen et Paradox og „i Kraft af det Absurde“? et Spørgsmaal foranlediget ved „Frygt og Bæven, af Johannes de silentio“, besvaret ved hjelp af en Troes-Ridders fortrolige Meddelelser, til fælles Opbyggelse for Jøder, Christne og Muhamedanere, af bemeldte Troes-Ridders Broder Theophilus Nicolaus.“

Eins og heitið ber með sér er kveikjan að riti Magnúsar rit Kierkegaards Uggur og ótti (Frygt og Bæven), sem hann gaf út undir dulnefninu Johannes de silentio.

Rit Magnúsar er alls 215 síður og skiptist það í þrjá meginkafla: I. Troen, betragtet fra Abrahams Standpunkt, som í Kraft af det Absurde, II. Det af Johannes de silentio anvendte Exempel: Troens Ridder og hans forhold til Prinsessen, oplyses og prøves, III. Troes-Paradoxet, saaledes som det fremtræder í „Afsluttende uvidenskabelig Efterskrift“ af Johannes Climacus. Ritið hefst á formála þar sem Magnús ávarpar lesandann og gerir grein fyrir tilgangi sínum með skrifunum, en hann er tvíþættur: Annars vegar að hrekja kenningar Kierkegaards um það að trúin sé þverstæða og að menn trúi í krafti fjarstæðu, hins vegar að sýna fram á að Kierkegaard gefi ranga mynd af riddara trúarinnar í Ugg og ótta. Hann lýsir jafnframt yfir furðu sinni á því að enginn guðfræðingur skyldi verða fyrri til að mótmæla slíkum skoðunum á þeim sjö árum sem liðin eru frá því að Uggur og ótti kom út (1843). Riti Magnúsar lýkur á viðbót eða eftirmála. Þar fjallar hann um skoðanir eðlisfræðingsins H.C. Örsteds á trúmálum eins og þær koma fram í riti hans Aanden i Naturen. Örsted var, eins og Magnús sjálfur, fulltrúi skynsemishyggju (rationalisma) og telur Magnús að Örsted sameini á óyggjandi hátt trú og vísindi í ofangreindu riti sínu.

Fjarstæðan

Magnús telur Kierkegaard til tekna að hafa með riti sínu, Ugg og ótta, hrist svo um munar upp í andlegum doða dönsku kirkjunnar. Hann telur, líkt og Kierkegaard, að trú Abrahams og fornar trúarhefðir geymi rétta afstöðu til trúar. Þess vegna stílar hann rit sitt ekki eingöngu á kristna, heldur líka gyðinga og múhameðstrúarmenn, eða alla þá sem trúa á einn Guð og þekkja eitthvað til föður Abrahams. Hann kveðst treysta því að enn séu þó einhverjir á meðal kristinna manna sem trúi upp á gamla móðinn og séu ekki svo þrælbundnir af tíðarandanum að þeir liggi óhagganlegir við lífsakkeri nýtísku trúar. Þar á Magnús við hugspekilega trúfræði í anda Hegels. Hann telur að þar setji guðfræðingar smáatriði á oddinn í stað þess sem mestu skiptir: Trúna á Guð, almætti hans, speki og náð, traust á honum og hollustu við vilja hans, ásamt kærleikanum til náungans.

Þótt Magnús telji að Kierkegaard leggi með Ugg og ótta fram drjúgan skerf til að upphefja og róma trúna, þá skjátlist honum þó hrapallega þegar hann heldur því fram að hreyfiafl trúarinnar sé fjarstæða, enginn sanntrúaður maður geti samþykkt fjarstæðu sem trúarlegan grundvöll.

Magnús bendir á að einn af kirkjufeðrunum hafi þegar í frumkristni gerst talsmaður þeirrar frum­reglu að trúin byggist á fjarstæðu með því að segja: Credo quia absurdum (ég trúi af því að það er fjarstæða). Setning þessi er eignuð Tertullianusi kirkjuföður (u.þ.b. 160– 220). Magnús telur að þar hafi Tertullianus átt við að trú sé það sem ekki verður skýrt eftir leiðum skilningsins, það sem verði sannað eftir leiðum hans sé í raun þekking en ekki trú. Hann getur þess að þótt fleiri kirkju­feður hafi orðið til að aðhyllast þessa reglu hafi hún þó aldrei birst í jafnskarpri mynd hjá þeim og hún gerir hjá Kierkegaard í Ugg og ótta. Muninn skilgreinir Magnús á eftirfarandi hátt: „Kirkjufeðurnir eiga við að fjarstæðan sem slík sé af þeirri gerð, að taki menn hana á annað borð gilda, hljóti það að vera í trú, viðfangsefni sem ekki á samleið með skilningnum gefur einmitt rými fyrir trúna“2 Í Ugg og ótta segir Kierkegaard aftur á móti, að dómi Magnúsar, að ef hann á annað borð trúi, þá trúi hann í krafti fjarstæðu. Til áréttingar vitnar Magnús í eftirfarandi ummæli í Ugg og ótta: „Hann (Abraham) trúði í krafti fjarstæðunnar, því að þar komu mannlegir útreikningar ekki til greina“3 Með þessu telur Magnús að Kierkegaard gangi lengra en kirkjufeðurnir og fullyrði að fjarstæðan hafi þann kraft í sér sem fær menn til að trúa.

Magnús segir að þótt hann gæti jafnvel fallist á frumregluna um trúna sem fjarstæðu í sinni fornu mynd, geti hann alls ekki fallist á hana í þeirri beinskeyttu þrætubókarmynd sem hún á sér í Ugg og ótta og Afsluttende uvidenskabelig Efterskrift (Johannes Climacus). Hann heldur því fram að sönn og sterk trú eigi sér fastan grunn og djúpar rætur í hinum hreina, andlega hæfileika mannsins sem kallast skynsemi ásamt tengslum sínum við hið óendanlega og eilífa, við æðstu veruna eða Guð. Skynsemina skilgreinir hann nánar sem æðri, andlega skynjun mannsins. Magnús gerir, eins og reyndar Kierkegaard sjálfur, greinarmun á almennri trú og æðri trú. Frum­skilyrði beggja er innri sannfæring um æðstu veru, sem býr yfir almætti, speki og gæsku. Það er þó aðeins fyrsta skrefið til æðri trúar, þeirrar sönnu trúar sem gegnsýrir lífsskoðun hins trúaða þannig að hún verður merking lífs hans. Flestir láta þó staðar numið við sértækari trú, þar sem trúin er ekki annað en hugsun eða hugmynd. Þótt slík trú sé tekin góð og gild verður hún þó aldrei að lifandi guðssambandi. Það sem þar á skortir er hlýðnin við Guð, traustið á honum og kærleikurinn til hans. Slík trú verður því aldrei virk í lífi og lífsháttum hins trúaða, eða í tengslum hans við náungann. Grundvallarafl og eðli æðri trúar er að mati Magnúsar ótakmörkuð hlýðni, traust, hollusta og kærleikur. Hann telur slíkar hugarhræringar sýna að trúnni verði ekki líkt við þverstæðu, jafnvel ekki hinni upphöfnustu trú, sem ætti einmitt sem slík að vera fyrir hendi í kristindóminum. Að hans mati er heldur ekki hægt að líta svo á að menn trúi í krafti fjarstæðu. Trúin er þvert á móti hið allraskynsamlegasta og þar sem hún grundvallast á æðri, andlegum lögmálum getur hún hvorki verið þverstæða né fjarstæða. Slík trú byggist á eftirfarandi kjarna­setningum: Það sem manninum er um megn er Guði gerlegt og Guði er ekkert um megn; allt er gerlegt þeim sem trúir og allt verður þeim til góðs sem elskar Guð. Það sem maðurinn trúir að sé er, jafnvel þótt hann geti ekki leitt að því þekkingarleg rök, en þeim er trúin óháð. Hið ótrúleg­asta getur gerst, jafnvel þótt það virðist óhugsandi frá sjónarhóli hins almenna og takmarkaða mannsanda.

Magnús viðurkennir að það sé að vísu sannleikskorn til í því þegar því er haldið fram að trúin sé þverstæða og hinn trúaði trúi í krafti fjarstæðu. En þá er aðeins litið á trúna frá lægri og tak­markaðri sjónarhóli takmarkaðrar skynsemi. Frá æðri, andlegum sjónarhóli hins trúaða er ekki hægt að samþykkja slíkt. Abraham trúði í krafti fjarstæðu að því leyti að þar gat ekki verið um neina mannlega útreikninga að ræða. En sé tillit tekið til æðri, andlegra lögmála, til órannsakan­legs vísdóms Guðs, sem er skilningnum enn að ýmsu leyti ofvaxinn, verður slíkt þó ekki sagt. Í skynsemi mannsins býr eilíf hugmynd um slík lögmál og hvíli trúin örugg í trausti til hinnar æðstu veru er óhugsandi að í henni birtist þverstæða eða fjarstæða. Og engin trú er sönn nema hún byggist á Guði, almætti hans, vísdómi og kærleika ásamt stjórn hans á heiminum og örlögum einstaklinga. Magnús telur því ljóst að trúin geti ekki verið það sem hún er í krafti fjarstæðu, heldur sé hún það þvert á móti í krafti þeirrar æðri eða æðstu skynsemi og vísdóms sem maðurinn getur yfirleitt meðtekið, jafnvel þótt hann standi næsta skilningsvana frammi fyrir henni.

Riddari trúarinnar

Magnús telur dæmi Kierkegaards um riddara trúarinnar og prinsessuna í Ugg og ótta einmitt varpa ljósi á það að menn trúa ekki einungis í krafti fjarstæðu. Kierkegaard heldur því fram að ástin til prinsessunnar sé lífsmerking riddara trúarinnar og jafnframt skilyrðið fyrir hinni óendan­legu auðsveipni, sem hann ætlar honum, allt þar til „undrið“ gerist. Magnús telur að þar sameini höfundur hugarhræringar sem ekki verði sameinaðar. Lífsmerking hins sanntrúaða getur bara verið ástin til Guðs, ekki jarðnesk ást. Einkenni trúarinnar eru m.a. þau, að hinn trúaði lætur ekkert af því sem jarðneskt er skipta sköpum fyrir líf sitt eða hamingju.

Hann telur Kierkegaard hafa rétt fyrir sér í því að trúin geti ekki verið til án auðsveipni. En auð­sveipnin í guðssambandinu er ekki bara undir vilja hins trúaða komin, heldur líka lífssýn hans og vitund. Sé auðsveipninni þannig farið að hann lætur aðeins af því að óska sér einhvers, sem hann hefur þó áður talið merkingu lífs síns, er það mótsögn við sanna trú. Hinn sanntrúaði lætur fyrst af öllu af því að óska sér einhvers sérstaks til að byggja líf sitt á. Hann afsalar sér því að mynda sér nokkrar skoðanir á jarðneskri stöðu sinni, hamingju eða sælu. Vitund hans hvílir aðeins í æðri vitund og vilji hans þess vegna í æðri vilja.

Kierkegaard hefur líka rangt fyrir sér þegar hann lætur hugarhræringar auðsveipninnar ná hápunkti áður en að trúnni kemur. Í veruleikanum kemur trúin ekki í einu vetfangi, hvað þá heldur í sömu andrá og andstæðri hugarhræringu er teflt fram á ystu þröm. Slíkt gefur aðeins skrípamynd af trú. Það þarf hvorki að tefla auðsveipninni fram á ystu þröm áður en trúin kemur, né heldur víkja frá henni við komu trúarinnar. Trúin þróast í hugarhræringum, og það þýðir að auðsveipnin getur ekki þróast á jafneinhliða hátt og Kierkegaard telur. Auðsveipni getur verið til í vissan tíma án trúar, en frá því að hugarhræringar trúarinnar byrja í manninum þróast þær samhliða og styrkja hver aðra. Umskiptin verða aldrei jafnbrött og Kierkegaard ætlar og auðsveipnin er aldrei gefin alveg upp á bátinn. Viss tegund auðsveipni tilheyrir trúnni, en hjá hinum trúaða er hún trúnni undirgefin, sé trúin sönn og sterk. Auðsveipnin er að vísu alltaf til staðar og þess vegna má kalla hana óendanlega. En því sterkari sem trúin er, því minna lætur hún á sér bera. Trú Abrahams var sönn og sterk fyrir. Þess vegna er útilokað að hann þurfi að ganga í gegnum jafnöfgafullt ferli frá auðsveipni til trúar og Kierkegaard gerir ráð fyrir. Slíkt mætti heimfæra upp á riddara auðsveipn­innar, en ekki riddara trúarinnar.

Samband riddara trúarinnar og prinsessunnar

Magnús ásakar Kierkegaard fyrir að gera ekki grein fyrir því hvort riddari trúarinnar, sem heldur að hann elski prinsessuna í krafti fjarstæðunnar, heldur líka að hann höndli hana þótt hún elski hann ekki, né heldur því hvort ástin á prinsessunni sé lífsmerking riddara trúarinnar á sama hátt og riddara auðsveipninnar. Riddara trúarinnar dytti aldrei í hug að hann höndlaði prinsessuna nema ástin væri gagnkvæm. Slíkt væri kjánaskapur sem aðeins er unnt að trúa í krafti fjarstæðu. Riddari trúarinnar trúir hins vegar í krafti æðri skynsemi.

Ást á konu getur aldrei orðið lífsmerking riddara trúarinnar, ekki einu sinni þótt konan sé prins­essa. Léti hann jarðneska sælu verða háða slíku, hefði hann jafnvel líka látið af auðsveipninni, og stæði þar með þrepi lægra en riddari hinnar óendanlegu auðsveipni. Þá er trúin orðin að einhliða kröfu og slíkt á ekki skilið að kallast trú. Þótt riddara trúarinnar fýsti að höndla prinsessuna trúir hann því ekki skilyrðislaust að hann höndli hana. Haldi Kierkegaard slíku fram er það rangt og þar dugar heldur ekki dæmi Abrahams til. Abraham trúði að vísu skilyrðislaust, en trú hans grund­vallaðist á fyrirheiti því sem Guð gaf honum. Þar lætur hann enga óskhyggju ráða ferð, heldur beygir sig auðsveipur undir hinn alvísa herra veraldar.

Riddara trúarinnar er þó óhætt að líta á sambandið við prinsessuna sem möguleika í ljósi þess að vegna innri verðleika sinna er hann hennar fullkomlega verðugur. Mannlegt gildi skal metið í hinni djúpu og lifandi tilfinningu fyrir öllu sem er gott, réttlátt og göfugt ásamt viljanum til að fram­kvæma það. Og þar stendur riddari trúarinnar öllum furstum framar. Hann sameinar í sjálfum sér ekki einungis bestu og sönnustu hugarhræringar sem hægt er að eigna nokkrum manni, heldur líka þær mildu og blíðu hugarhræringar sem hingað til hafa verið taldar séreinkenni kvenna. Riddara trúarinnar er jafneðlilegt að elska og trúa og vona. Flesta skortir það sálarlega þanþol sem riddari trúarinnar býr yfir. Þess vegna skilja þeir ekki að hann skuli geta sameinað svo ólíkar hugarhræringar og telja slíkt mótsögn.

Þetta sjónarmið öðlast hann aðeins með því að þroska með sér sitt upprunalega og betra eðli. Og í því er einmitt grunneðli trúarinnar fólgið. Því miður miðast samfélagslegt uppeldi fremur við að tortíma hinu góða og sanna í mannseðlinu en göfga það. Heppnist einhverjum að þroskast í samræmi við eðli sitt er það fremur með æðri hjálp og náð ásamt eigin vilja og starfi, en aðstoð kennara og leiðbeinenda. Þar eru kirkjunnar menn sýnu verstir, sem kenna að eðli mannsins sé allt frá upphafi spillt og vont.

Fyrsti áfanginn í tengslum riddara trúarinnar við prinsessuna, sem hann elskar og telur sig geta höndlað, eru almenn tengsl. Þau geta þó þróast í sértækara samband þar sem riddarinn trúir því ekki bara að hann geti höndlað hana, heldur er hann viss um að svo verði. En því trúir hann ekki í krafti fjarstæðu, heldur í krafti æðri vísbendingar, sem hann hefur fengið þar um. Henni má líkja við fyrirheitin til forna, líkt og fyrirheitið sem Abraham fékk frá Guði. Og þá fá engir örðugleikar haggað trú hans. Hann treystir því að hvernig sem allt fer, sé það samkvæmt vilja og forsjón Guðs.

Þverstæðan

Magnús heldur því fram að í raun hafi Kierkegaard aldrei skilgreint þverstæðuna sem slíka varðandi hina einföldu trú Abrahams í Ugg og ótta. Þar renni hún eiginlega saman við fjarstæðuna. Aftur á móti skilgreini Kierkegaard þverstæðuna rækilega í ritinu Afsluttende uviden­skabelig Efterskrift til de philosophiske Smuler(Johannes Climacus). Þar kemur þverstæðan fram sem sögulegur atburður, þ.e. holdtekjan. Hún felst þá í því að Guð varð á ákveðnum tíma og ákveðnum stað hold, fæddur af konu og að því leyti maður. Þannig varð hið eilífa sjálft til í hinu stundlega og þannig kemst einstaklingurinn í tilvistarsamband við eilífa sælu sína í stundleg­leikanum. Slíkt samband stríðir gegn allri hugsun. Fjarstæðan er þá að eilíf sæla verður til innan vébanda tímans. Guð varð til, fæddist og átti sína tilveru, rétt eins og hver annar maður. Hann gaf manninum kost á að sameinast sér hér og nú.

Þannig má ætla, að dómi Magnúsar, að trúin hafi ekki orðið þverstæða fyrr en með þessum atburði og hafi því ekki verið til sem slík á tímum Abrahams. Og þá verður ekki sagt að Abraham hafi trúað í krafti fjarstæðu eða þverstæðu. Kierkegaard tiltekur ekki fleiri þverstæður og gefur heldur ekki kost á forkristilegri þverstæðu. Með því að skilgreina trú sem fjarstæðu og þverstæðu, sem verður fyrst til við holdtekjuna verður ekki einu sinni sagt að Abraham hafi verið sannur trúmaður. Þverstæðan, eða fjarstæðan sem slík, er þá eingöngu bundin við kristindóminn. Sú trú sem áður var til hefur þá aldrei verið til í eiginlegri merkingu.

Magnús viðurkennir að gangi menn út frá kenningum kirkjunnar megi raunar flokka trú undir fjarstæðu og þverstæðu. Hver hugsandi og trúaður maður sér ljóslega að þær eru fullar af fjar­stæðu og þverstæðum sem stríða bæði gegn skilningi og skynsemi. Í framhaldi af því hlyti þrautalendingin að vera sú að gera fjarstæðuna að frumreglu trúarinnar. En kenningarnar eru jafnframt sannri trú óviðkomandi, þar sem sannur trúmaður trúir ekki samkvæmt valdboði. Maður getur verið sanntrúaður þótt hann hafni einni eða fleirum af þeim kennisetningum sem einkenna kristindóminn, það væri jafnvel mögulegt að hafna þeim öllum af einskærri trúrækni. Því einfaldari og innilegri sem trúin er, því hreinni og sannari er hún. Slík var trú Abrahams og sem slík er hún lofuð í Nýja testamentinu og kristindómurinn rakinn til hennar. Að mati Magnúsar er greining Kierkegaards á trúnni sem þverstæðu og fjarstæðu á fölskum forsendum reist. Öll hans rök miðast við það sem hann hefur fyrirfram ætlað sér að sanna og þar kemst hann meira að segja líka í mótsögn við sjálfan sig.

Viðbrögð Kierkegaards

Kierkegaard minnist fyrst á ofangreint rit Magnúsar (Theophilusar Nicolausar) í Papirer (dag­bækur) X2 A 601 1850. Þar kvartar hann undan því að þurfa að verja listilega ofin verk sín fyrir bögubósum og sakar Magnús um að hafa ekki tekið tillit til þess að þau séu skrifuð undir dul­nefni, af höfundi sem tekur það fram að hann eigi sjálfur ekki trúna.

Í Papirer X6 B 68–82 1850 er að finna nánari svör, sem Kierkegaard hefur hripað hjá sér varðandi ritið. Hann vísar til þeirra orða Magnúsar að vilji menn endilega ganga út frá kenningum kirkjunnar hljóti þrautalendingin að verða sú að gera fjarstæðuna að frumreglu trúarinnar. Kierkegaard segir að þar hafi Magnús í raun tekið að sér að verja þverstæðu hans. En í leiðinni hafi honum tekist að varpa frá sér öllu sem heitir kristindómur. Í báðum þeim ritum sem Magnús minnist á taki höfundar það fram að þeir séu ekki kristnir, en þeir halda samt fast við kristin­dóminn. Magnús hafnar hins vegar kristindóminum, en heldur samt áfram að telja sig kristinn. Og það jafnvel án þess að gera nokkurn greinarmun á Gyðingum, kristnum og múhameðs­trúarmönnum.

Hvað trú Abrahams varðar, sem Magnús virðist taka fram yfir kristindóminn, kemst hann þar heldur ekki hjá fjarstæðunni. Með því að tengja í einni andrá fyrirheitið við líf Ísaks, en krefjast þess í næstu andrá að Abraham fórni honum, virðist Guð samkvæmt allri skynsemi lenda í mótsögn við sjálfan sig. En Abraham kallast faðir trúarinnar einmitt af því að trú hans bar þau formlegu einkenni trúarinnar að trúa þvert á allan skilning. Hins vegar hafi hinni kristnu kirkju aldrei dottið í hug að trú Abrahams innihéldi kristna trú, sem kemur sögulega séð ekki til fyrr en síðar.

Magnús vill afnema allt sem heitir fjarstæða og þverstæða eða hið yfirskilvitlega. En með því að gera það með málsvörn eins og bein boð frá Guðiæðri vísbending,sýniropinberanir og öðru þess háttar, sem á að vera hinum trúaða hin sjálfsagðasta og hversdagslegasta reynsla, er Magnús sjálfur mun fremur innan marka hins yfirskilvitlega en þeirrar skynsemishyggju sem hann annars kennir sig við. Og auk þess gagnast slík skýring Abraham ekki neitt, því að hann á einmitt í togstreitu vegna tveggja æðri vísbendinga, þ.e. fyrirheits Guðs varðandi Ísak og kröfunnar um að fórna honum. Hvergi er minnst á neina þriðju „æðri vísbendingu“.

Æðri skynsemi

Eins og áður er sagt teflir Magnús fram hugtakinu æðri skynsemi gegn fjarstæðu Kierkegaards. Kierkegaard telur að sé fjarstæðan ekki skilin sem hið neikvæða auðkenni og umsögn sem tryggir með vopnaburði röksemdanna að hugtakið trú sé afmarkað frá sviði hins mannlega, sé Magnús líka kominn í þrot með hugtakið æðri skynsemi. Hún hafni þar með utan við svið opin­berunar og hins guðdómlega og dagi ekki aðeins uppi á sviði hins mannlega, heldur öllu fremur í undirheimum misskilningsins. Fjarstæðan er neikvæða auðkennið sem fær hinn trúaða til að láta sér ekki nægja rökfræðilega umsögn til að ákveða hvernig lífi hans er varið og hvar hann standi í andlegum skilningi. Í augum þess sem nær að trúa er hvorki trúin né innihald hennar fjarstæða. En í augum þess sem ekki trúir er hvort tveggja fjarstæða. Og fyrir þann sem er óstyrkur í trúnni eða efast, tekur trúin líka smám saman á sig mynd fjarstæðu. Það hefur raunar verið vilji guðdómsins að hafa þetta þannig til að reyna trú mannsins. Með því að tengja hana hinu fjarstæða reynir á hið eina afl sem megnar að axla hana, ástríðu og auðmýkt trúarinnar, sem hert eru í kvalafullri syndavitund.

Misskilningur Magnúsar

Kierkegaard segir að svo gjörsamlega hafi Magnús misskilið Ugg og ótta að bókin verði í meðförum hans óþekkjanleg. Honum virðist hafa sést yfir þann vanda sem höfundur leitast við að leysa í bókinni, þ.e. hvort víkja megi frá siðferðilegum markmiðum í æðra skyni og hvort kostur sé á æðri skyldu við Guð. Og þar með sjáist honum líka yfir Abraham og Ísak. Hins vegar leggi Magnús í bók sinni aðaláhersluna á söguna um prinsessuna, sem höfundur Uggs og ótta hafi notað sem dæmi eða líkingu, en verði í meðförum Magnúsar algjört afskræmi. Höfundur Uggs og ótta gengur út frá því að mannnlega séð sé elskhuganum ókleift að höndla prinsessuna. Og sé ekki gengið út frá slíkri ályktun, er jafnframt ókleift að gefa minnstu upplýsingar um muninn á auðsveipni og trú. Hjá Magnúsi fæst riddari trúarinnar aftur á móti við að skilja að það sé ekki ókleift að höndla prinsessuna. Mannlega séð á það í raun að vera kleift, þar sem riddari trúar­innar er hennar fullkomlega verður sakir andlegs atgervis síns. Auk þess sem höfundur Uggs og ótta ætlaði að það væri mannlega séð ókleift að höndla prinsessuna, gerði hann síst af öllu ráð fyrir að það væri skilið bókstaflega að þar ætti prinsessa í hlut. Þar hefði hann allt eins getað notast við borgaralega stúlku, jafnvel vinnukonu. Það eina sem skipti hann máli var að elsk­huginn elskar viðkomandi af allri sálu sinni og að mannlega séð er honum ógerlegt að höndla hana. Þannig er munurinn á auðsveipni og trú skýrður í Ugg og ótta og með því að leggja bókstaf­lega merkingu í prinsessuna er sú skýring að engu gerð.

Kierkegaard viðurkennir mun á fjarstæðunni, eins og hún kemur fram í Ugg og ótta, og þver­stæðunni í Afsluttende Efterskrift. Hin fyrrnefnda er persónuleg afmörkun lifandi trúar (tilvistar­trúar), hin síðarnefnda trú í sambandi við kenningu (holdtekjuna). Fjarstæðan er neikvætt auð­kenni þess, sem er mannlegum skilningi og mannlegri þekkingu æðra. Út frá því hlýtur skilning­urinn að vinna úr trú og svo er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann vill trúa.

Niðurlag

Þótt ýmis guðfræðileg atriði skildu þá Magnús og Kierkegaard að, áttu þeir þó eitt sameiginlegt. Báðir börðust alla ævi hatramlega gegn svonefndri ígrundunartrúfræði (spekulativ dogmatik) H. L. Martensens (1808–1816), guðfræðiprófessors við Hafnarháskóla og síðar Sjálandsbiskups, en við mótun hennar studdist Martensen við þrætubókaraðferð Hegels. Báðir urðu að láta sér lynda að uppskera þögnina eina úr þeirri átt. Kierkegaard minnist á þau viðbrögð Martensens að svara honum hvergi í Papirer X 1 A 155 1849. Þar telur hann að Martensen hafi skort allar forsendur til að svara sér. Það sama hafi Magnús Eiríksson mátt þola, eftir að hann kom til sögunnar, og þar sé Magnúsi í raun greiði gerður, því að það skipi honum a.m.k. á þann hátt í flokk með Kierkegaard sjálfum.

Helsta ágreiningsefni þeirra Magnúsar og Kierkegaards var í raun holdtekjan. Magnús reisti guðfræði sína á sögulegri gagnrýni og skynsemishyggju og hafnaði samkvæmt þeirri stefnu kenningunni um holdtekju Krists.4 Að mati Kierkegaards var hún sjálfur kristindómurinn, með því að hafna henni, var kristindóminum tortímt. Að öðru leyti var hann sammála Magnúsi um að trúarkenningar kirkjunnar væru af hinu illa.5 Allt frá því að kenningasmíðar hófust hafði kristin­dómurinn, að mati Kierkegaards, verið í stöðugri afturför,6 en það er einmitt meginstefið í Ugg og ótta. Með heimspekilegri þekkingu er trúnni tortímt, því að trú án ástríðu er engin trú. Sá sem trúir ekki eða efast hlýtur að líta á sanna trú sem fjarstæðu,7 og í augum slíks manns er holdtekja, friðþæging og endurlausn þá ekki annað en þverstæða.

Með þessari skýringu sýnir Kierkegaard að hann leggur nákvæmlega sömu merkingu í hugtakið fjarstæðu og Tertullianus, merkingu sem Magnús hefði getað sætt sig við. Magnúsi verður á að telja að þar gangi Kierkegaard lengra og geri fjarstæðuna að grundvelli trúarinnar, rétt eins og honum verður á að taka líkingasöguna um prinsessuna, sem hið heittþráða viðfang, bókstaflega.

Með því að trúa fleirum fyrir þessari skýringu en dagbók sinni, hefði Kierkegaard getað sparað Magnúsi það ómak að eyða drjúgum hluta ævi sinnar í að deila á hugtakið fjarstæða. Það gerði Kierkegaard hins vegar ekki og dagbók hans frá 1850 kom ekki út fyrr en tæpu ári fyrir dauða Magnúsar.8 Þar virðist óneitanlega á ferðinni næsta sókratísk aðferð, en Sókrates var heim­spekingur sem Kierkegaard tók sér gjarna til fyrirmyndar í ritum sínum. Að mati Kierkegaards var Sókrates síðasti heiðarlegi heimspekingurinn; allt frá dögum hans hafði heimspekin verið í stöðugri afturför,9 rétt eins og kristindómurinn hafði verið í stöðugri afturför allt frá dögum frum­kirkju og píslarvotta.

 

Tilvísanir

1. Pap. X6 B 114 1849–50.

2. Er Troen et Paradox . . . , s. 15–16.

3. Er Troen et Paradox . . . , s. 16.

4. E. Albertsson 1938:40.

5. Pap. X1 A 383 1849.

6. Pap. X1 A 396 1849.

7. Pap. X6 B 79 1850.

8. Cappelørn, Garff og Kondrup 1996:70.

9. Thulstrup 1967:344.

 

Heimildir

Cappelørn, N.J., Garff, J. og Kondrup, J., 1996. Skriftbilleder. G.E.C. Gad, Kbh.

Eiríkur Albertsson, 1938. Magnús Eiríksson. Rvk.

Magnús Eiríksson, 1850. Er Troen et Paradox og i „Kraft af det Absurde“? et Spørgsmaal foranlediget ved „Frygt og Bæven, af Johannes de silentio“, besvaret ved hjelp af en Troes-Ridders fortrolige Meddelelser, til fælles Opbyggelse for Jøder, Christne og Muhamedanere, af bemeldte Troes-Ridders Broder Theophilus Nicolaus. Kbh.

Kierkegaard, S. Papirer X1 1849. Gyldendal, Kbh. MDCCCCXXIV.

Kierkegaard, S. Papirer X2 1849–1850. Gyldendal, Kbh. MDCCCCXXVI.

Kierkegaard, S. Papirer X6 1849–1853. Gyldendal, Kbh. MDCCCCXXXVI.

 

« Til baka