Greinasafn eftir: Kristján Kristjánsson og Logi Gunnarsson

Kristján Kristjánsson og Logi Gunnarsson: Heimspekimessa

Inngangsorð ritsjóra að Heimspekimessu, safnriti sem gefið var út árið 2003 í tilefni af sextugsafmæli Mikaels M. Karlssonar.

Inngangsorð ritstjóra

eftir Kristján Kristjánsson og Loga Gunnarsson

Greinar þær sem hér fylgja á eftir eru ágóðinn af tveggja daga heimspekiráðstefnu sem við undirritaðir stóðum fyrir og haldin var dagana 28.-29. mars síðastliðinn í Lögbergi, húsi Háskóla Íslands. Þar fluttu 14 íslenskir heimspekingar (þar af þrír starfandi erlendis) og tveir erlendir erindi. Ráðstefnan kallaðist „Mikjálsmessa“. Sú messa er að vísu samkvæmt almanakinu nákvæmlega sex mánuðum síðar en þetta var sérstök heimspekimessa: Mikjálsmessa að vori, haldin í tilefni af sextugsafmæli Mikaels M. Karlssonar, prófessors í heimspeki við Háskóla Íslands og nýráðins deildarforseta félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri, sem var 26. mars.

Mikael (eða Mike eins og við erum vanir að kalla hann) er einn af feðrum akademískrar heimspeki á Íslandi. Hann er virtur heimspekingur á alþjóðavettvangi og hefur ritað um mörg ólík sérsvið heimspeki – frumspeki, lögspeki, fornaldarheimspeki og fleira – en einnig efni er beint tengjast sálfræði, lögfræði og lífeðlisfræði. Hann er þekktur sem frábær kennari í heimspeki- og félagsvísindadeildum Háskóla Íslands. Auk þess má segja að hann hafi verið óþreytandi velgjörðarmaður íslenskrar heimspeki og heimspekinga, ekki síst af yngri kynslóð, enda hefur hann haft hönd í bagga með framhaldsmenntun þeirra margra.

Tilgangur okkar með ráðstefnunni var ekki að hóa saman landsliði íslenskra heimspekinga heldur einfaldlega aðdáendaklúbbi Mikes, vinum og velunnurum sem vildu heiðra hann á þessum tímamótum. Það reyndist ekki erfitt verk. Allir sem við töluðum við voru boðnir og búnir að taka þátt í messunni góðu og hefðum við ugglaust getað fyllt nokkra daga til viðbótar með heimspekiíhugunum til heiðurs Mike. Þau orð sem féllu meðal þátttakendanna voru öll á eina lund: Enginn hefði orðið samur, hvorki sem persóna né heimspekingur, eftir að hafa kynnst Mike og Barböru konu hans. Það var heldur enginn hörgull á áhugasömum áheyrendum; aðsókn varð raunar meiri en okkar hafði órað fyrir og fórum við þó ekki í neinar grafgötur fyrirfram um vinsældir Mikes.

Við settum það skilyrði eitt að efnin sem rætt yrði um á Mikjálsmessu tengdust áhugasviðum eða skrifum Mikes á einhvern hátt, en eins og sjá má af ofansögðu um hin fjölbreyttu áhugaefni hans útilokaði það skilyrði ekki margt. Þetta setur okkur ráðstefnustjórana, og nú ritstjórana, í nokkurn vanda, enda í meira lagi örðugt að reifa hér í inngangi rauða þræði í greinunum sem á eftir koma, eins og alsiða er í inngangi að samfelldari heimspekiritum. Greinarnar spanna sviðið allt frá atferlishyggju í sálfræði til friðhelgi einkalífsins; frá frumspekilegum hugleiðingum um náttúrulega hluta til kenningar Kants um refsingar. Við ákváðum þá að láta slíka samantekt lönd og leið en beina sjónum fremur að nokkrum völdum viðfangsefnum í heimspeki Mikes sjálfs, sem allt hitt hverfist á sinn hátt um. Verður að því efni vikið í næstu grein bókarinnar.

Þetta þýðir þó ekki að greinarnar í bók þessari séu einungis sitt beinið af hverri tíkinni, án nokkurs innri skyldleika. Eftir að hafa ritrýnt þær allar í sameiningu leyfum við okkur að fullyrða að þær gjaldi, að minnsta kosti, hver á sinn hátt samkvæði við þeirri heimspekilegu trú Mikes sem hann lýsti svo í Lesbókarviðtali í afmælisvikunni að hann liti „með hefðbundnum hætti á heimspeki sem sannleiksleit“, ekki sem boðun sannleika. „Allar heimspekilegar hugmyndir eru umdeilanlegar. Hugmyndir sem eru ekki umdeilanlegar flokkast ekki sem heimspeki. Og efni sem ekki er umdeilanlegt – og jafnvel umdeilt – er ekki heimspekilegt viðfangsefni“, sagði Mike þar meðal annars. Höfundar þessarar bókar virðast allir bera þá von í brjósti að með hina sókratísku skynsemisglætu að vopni sé hægt að nálgast þá skoðun sem sönnust er og réttust í hverju máli – sem þýðir þó vitaskuld ekki að nein heimspekileg niðurstaða geti talist óvefengjanleg. Jafnframt er þessi bók í heild vitnisburður um fjölbreyttar ritningar hinnar íslensku heimspekimessu.

Nú þegar veislukliður Mikjálsmessunnar sjálfrar er hljóðnaður og veisluföngin hafa, með þessari bókarútgáfu, ratað á borð annarra en hana gátu sótt, er við hæfi að þakka þeim sem mest studdu við bakið á okkur ráðstefnu- og ritstjórum. Ber þar fyrst að nefna Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Heimspekistofnun og Rannsóknarstofnun í siðfræði sem léðu fjárhagslegan styrk. Salvör Nordal, framkvæmdastjóri síðasttöldu stofnunarinnar, sinnti auk þess ýmsum útréttingum og hagnýtum úrlausnarefnum, sem við kunnum henni miklar þakkir fyrir. Jörundi Guðmundssyni og samstarfsfólki hans hjá Háskólaútgáfunni skal goldin þökk fyrir umsjón með söfnun heilla­óskaskrár og fyrir vilja sinn til að gera þessa bók sem best úr garði. Ragnhildur Stefánsdóttir fær sérstakar þakkir fyrir að gera sína einstöku list að veggspjaldi og bókarkápu. Finnur Friðriksson, doktorsnemi í málvísindum, og Kristín S. Árnadóttir, íslenskufræðingur, veittu ómetanlega hjálp við prófarkalestur og uppsetningu greina. Þátttakendum í ráðstefnunni, og þar með greinahöfundum, ber að sjálfsögðu að þakka fyrir velvild, natni og yfirlegu. Síðast en ekki síst skal nefna þann sem á allt gott skilið, Mike, fyrir að vera jafngóður vinur og heimspekingur og raun ber vitni um. Á rómantískari tímum hefði þótt við hæfi að hleypa af stað nokkru orðaflóði um þá skuld sem við eigum honum að gjalda, en við kjósum að fara fremur leið efahyggjumannsins Kratýlosar sem næmur var á fáfengileik orða: dilla bara fingrinum, eins og hann, og segja svo orðin tvö sem máli skipta um þessa bók: „Til Mikes“.

Heimspekimessa: Efnisyfirlit

Heillaóskaskrá 7
Kristján Kristjánsson og Logi Gunnarsson: Inngangsorð ritstjóra 13
Logi Gunnarsson: Náttúra og nauðsynleg gildi: Fáein orð um heimspeki Mikaels M. Karlssonar 17
Páll Skúlason (með viðauka eftir Nigel Dower): Markmið og skipulag háskóla 29
Guðmundur Heiðar Frímannsson: Hlutleysi ríkisins og menntun þegnanna 43
Sigurður J. Grétarsson: Gafst hún upp á rólunum? Örlög og arfleifð atferlishyggju 57
Atli Harðarson: Frelsi, forspá og nauðsyn 69
Ólafur Páll Jónsson: Hversdagslegir hlutir og náttúrulegir hlutar 83
Þorsteinn Gylfason: Vítamín, skuld og vals 105
Eyjólfur Kjalar Emilsson: Dygðir og gerðir í Ríki Platons 123
Kristján Kristjánsson: Trúin á réttlátan heim 141
Róbert H. Haraldsson: „Móralismi“ og mannleg reynsla 159
Salvör Nordal: Friðhelgi einkalífsins 181
Sigrún Svavarsdóttir: „Skynsamur er hann, eða hvað?“ 197
Logi Gunnarsson: Af skynsemispostulum og náttúrudýrkendum 213
Vilhjálmur Árnason: Er heimska í siðvitinu? Um eþos, logos og frónesis í nútímasiðfræði 229
Sigurður Kristinsson: Að vera sjálfum sér trúr 247
Daniel M. Farrell: „Deterrent Punishments in Kant’s Ideal State“ 261
Ritaskrá Mikaels M. Karlssonar 277