Um rök og tilfinningar í virkjanaumræðunni

eftir Magnús Diðrik Baldursson

Í umræðunni um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á hálendi Íslands er oft vikið að greinarmuninum á rökum og tilfinningum. Þá er iðulega gengið að því vísu að þetta tvennt séu andstæður. Þetta kemur m.a. fram í þeim sterku dómum sem málsvarar raka annars vegar og tilfinninga hins vegar fella iðulega hvorir um aðra. Þannig telja virkjanasinnar að málflutningur þeirra hvíli á traustum rökum sem yfirvega með hlutlægum hætti staðreyndir málsins. Tilfinningar séu hins vegar flöktandi, duttlungafullar og huglægar og af þeim sökum lítt til þess fallnar að komast að hinu sanna í málinu. Á hinn bóginn halda virkjanaandstæðingar því fram að afleiðingar framkvæmdanna verði ekki skildar til fulls nema með því að hlusta einnig á tilfinningarnar sem tjái umhyggju okkar fyrir þeim náttúrulegu verðmætum sem í húfi eru. Með því að einblína á rök og afneita tilfinningum sé beinlínis horft framhjá því sem máli skiptir.

Tvenns konar tilfinningar

Þótt lítill skilningur ríki oft á milli talsmanna beggja sjónarmiða fer því í raun fjarri að um ósættanlegar andstæður sé að ræða. Sannleikurinn er nefnilega sá að rökhugsunin er þrungin tilfinningum og tilfinningarnar eru röklegar. Um þetta hefur heilmikið verið rætt og ritað meðal heimspekinga og annarra fræðimanna, og ber þar hæst hina svonefndu vitsmunakenningu um tilfinningar (cognitive theory of emotions) sem fram kom á fyrri hluta 20. aldar og náði hámarki í lok hennar. Í skemmstu máli sagt gerir þessi kenning greinarmun á tveimur merkingum orðsins tilfinning sem okkur er tamt að blanda saman í daglegu máli. Með „tilfinningu“ eigum við annars vegar við einfaldar kenndir, eins og höfuðverk eða svengd, sem eru ósjálfráð og stefnulaus líkamlega skilyrt fyrirbæri. Hins vegar eru eiginlegar geðshræringar á borð við reiði, samúð, ótta eða afbrýðisemi, sem eru vitsmunaleg fyrirbæri í þeim skilningi að þau eiga sér ákveðið viðfang og fela í sér yrðanlegaskoðun eða afstöðu. Þannig er reiði ekki ósjálfrátt líkamlegt viðbragð við áreiti, heldur felur setningin „ég er reiður“ í sér þá skoðun að tiltekin persóna hafi beitt mig rangindum og verðskuldi því makleg málagjöld o.s.frv. Vegna þessa vitsmunalega inntaks geðshræringa getum við allajafna gert fólk ábyrgt fyrir þeim. Þannig gagnrýnum við t.d. hinn afbrýðisama fyrir að skoðunin sem hrærir geð hans sé órökstudd og feli í sér ranglátan dóm um þann sem hún beinist að og því beri honum að leiðrétta hana.

Innsæi

Þar með er þó ekki allt talið, því með vitsmunalegu inntaki tilfinninga er einnig átt við að þær búi yfir innsæi, séu leið til að skynja og skilja sjálf okkur og heiminn. Þannig ‚sýnir’ óttinn okkur að hætta steðji að og ‚segir’ okkur að leggja á flótta eða bregðast til varnar. Vissulega er slík vitneskja þó ekki alltaf undir geðshræringunum einum komin. Við getum einnig greint yfirvofandi hættu og vitað hvernig bregðast skuli við henni með röklegri hugsun og án þess að finna til ótta. En vitsmunakenningin um tilfinningar sýnir alltént fram á að rök og tilfinningar séu ekki ósættanlegar andstæður, heldur feli hvort tveggja í sér vitsmunalega skoðun eða afstöðu, sem getur verið vel eða illa ígrunduð, rétt eins og allar skoðanir. Þetta er jafnframt ástæða þess að við getum rökrætt skynsamlega um geðshræringar. Á sama hátt mætti sýna fram á að sú afstaða sem kennd er við rökhugsun sé, þegar öllu er á botninn hvolft, iðulega tilfinningum blandin.

Fegurð

Þegar betur er að gáð má þó finna a.m.k. eina geðshræringu sem býr yfir innsæi sem rökhugsunin nær ekki til: Ástina. Þannig geta öll rök hnigið að því að við teljum tiltekinn einstakling til vina okkar, án þess að við gerum það í raun. Ástæðan er sú að það er engin leið að komast að því með skynsemisrökum einum saman hvern okkur þykir vænt um eða við elskum, heldur aðeins með ‚rökum hjartans’ er þekkja þá sem eru okkur kærir og við höfum yndi af því að umgangast.

Þetta á einnig við um umhyggju fyrir náttúrunni. Þegar við erum gagntekin af náttúrunni opinberast okkur gildi hennar eða verðmæti, sem hvorki verður sannað né afsannað með öðrum hætti. Þetta verðmæti náttúrunnar er í eðli sínu ómælanlegt og því missa allir tilburðir til að verðleggja það eftir hlutlægum mælikvörðum marks. Af þessu vilja sumir draga þá ályktun að náttúran hafi gildi í sjálfri sér. Það getur legið milli hluta hér. Því hvort sem náttúran hefur sjálfgildi eða ekki opinberast verðmæti hennar alltént aðeins í reynslu þeirra sem njóta þess. Það að verðmæti náttúrunnar opinberist í slíkri fagurfræðilegri reynslu skýrir einnig hvers vegna svo margir listamenn eru í hópi náttúruverndarsinna, enda felur menntun þeirra í sér markvissa þjálfun í að skynja, skilja og tjá fagurfræðileg fyrirbæri. Fagurfræðilegt uppeldi er hins vegar að mestu leyti hornreka í íslensku skólakerfi. Getur óþroskað fegurðarskyn verið ástæðan fyrir því að svo mörg okkar loka augunum fyrir þeirri stórkostlegu eyðileggingu sem áformuð er á hálendi Íslands? Erum við svo skyni skroppin að við getum ekki skynjað og skilið hið fagra í náttúrunni og þar með í lífi okkar sjálfra?

Höfundur er heimspekingur

« Til baka