Töfrar málspekinnar

Bernard Williams og Bryan Mage ræða saman

INNGANGUR

Heitin tvö ‘málspeki’ (‘linguistic philosophy’) og ‘málgreining’ (‘linguistic analysis’) eru notuð til að tákna sama fyrirbærið: aðferð í heimspeki sem þróaðist aðallega í hinum engilsaxneska heimi og náði fullum þroska á fimmta og sjötta áratug þessarar aldar. Ég hygg að það sé sanngjarnt að segja að aðferð nánast allra sem síðan hafa fengist við heimspeki hafi orðið fyrir áhrifum frá henni. Hinar tvær miklu miðstöðvar þessarar heimspeki voru Oxford og Cambridge. Í Oxford var áhrifamesti einstaklingurinn J. L. Austin1 og í minna mæli Gilbert Ryle. Í Cambridge var það tvímælalaust Wittgenstein. Þessir og aðrir einstaklingar sem áttu hlut að máli voru, eins og gefur að skilja, ólíkir innbyrðis, en þeir áttu tilteknar grundvallarkennisetningar sameiginlegar. Kannski má orða þær helstu á eftirfarandi hátt:

Allt frá dögum Sókratesar hafa heimspekingar haft tilhneigingu til að spyrja spurninga á borð við „Hvað er sannleikur? . . . Hvað er fegurð? . . . Hvað er réttlæti?“ á þeirri forsendu að því er virðist að hvert þessara orða standi fyrireitthvað – kannski eitthvað ósýnilegt eða óhlutbundið en í öllu falli eitthvað sem á sér eigin tilvist óháð því hvernig orðin eru notuð. Það var eins og heimspekingarnir væru að reyna að brjótast gegnum spurninguna, brjótast gegnum tungumálið, til einhvers ekki-mállegs veruleika sem stæði bak við orðin. Jæja, málspekingarnir komu til skjalanna og sögðu að þetta væri kórvilla – og það sem meira er, villa sem flækir okkur í alls konar öðrum alvarlegum villum í hugsun okkar. Það eru, sögðu þeir, engir sjálfstæðir hlutir sem þessi orð tengjast. Tungumálið er mannaverk: við fundum upp orðin og við ákveðum notkun þeirra. Að skilja hvað orð merkir er ekkert meira eða minna en að kunna að nota það. Tökum til dæmis hugmynd eins og ‘sannleika’: þegar maður skilur til fulls hvernig á að nota orðið ‘sannleikur’ rétt – og skyld orð eins og ‘sannur’, ‘sannsögli’ og svo framvegis – þá skilur maður til fulls merkingu þess. Þessi merking er einfaldlega heildarsumma mögulegrar notkunar orðsins, ekki einhver sjálfstæður hlutur sem er til í einhverjum ekki-mállegum heimi.

Í framhaldi af þessu sögðu málspekingar að eina fullnægjandi leiðin til að rökgreina frumhugtök mannlegrar hugsunar – eða hugtökin sem við reynum að ná tökum á heiminum með eða eiga samskipti hvert við annað með – sé að rannsaka hvernig þau eru í raun og veru notuð. Og að iðka málspeki felst í því að framkvæma slíkar rannsóknir. Reyndar er frægasta bókin í málspeki kölluðRannsóknir í heimspeki (eftir Wittgenstein). Venjulega var slík rannsókn gerð á einu hugtaki í einu – það gat til dæmis verið hugtakið hugur (sem er heiti á því sem er sennilega önnur frægasta bók í málspeki, eftir Gilbert Ryle). Nokkrum árum eftir útgáfu þessara tveggja bóka – bókar Ryles 1949 og Wittgensteins 1953 – hafði málgreining gífurleg áhrif á heimspekina. Á þessum árum fór hún alltént að hafa áhrif á það hvernig greinin var iðkuð af næstum öllum í hinum enskumælandi heimi. Maður sem hefur dvalið mörg ár í Oxford og Cambridge, Bernard Williams2, ræðir þetta við mig. Hann er prófessor í heimspeki í Cambridge og mun innan skamms segja þeirri stöðu lausri og taka við rektorsstöðu í King’s College. Hann var á fyrstu námsárum sínum í Oxford þegar málspekin stóð þar með mestum blóma.

UMRÆÐA

Magee Málspekin táknaði brotthvarf frá því sem hafði tíðkast áður. Og það sem hafði tíðkast áður var fyrst og fremst rökfræðileg staðreyndahyggja3 ( Logical Positivism). Með öðrum orðum var rökfræðileg staðreyndahyggja ríkjandi rétttrúnaður einnar kynslóðar, málspeki annarrar. Ein leið fyrir okkur til að lýsa málspekinni er þá að tala um muninn á henni og rökfræðilegri staðreyndahyggju.

Williams Ég held við höfum verið mjög meðvituð um mismuninn, kannski meðvitaðri um hann en þeir sem skoða þetta allt saman seinna. Aðalmunurinn, held ég, var þessi: Staðreyndahyggjan taldi að mælikvarðinn á merkingarbæra orðræðu og þekkingu væri raunvísindin. Hún viðurkenndi að til væru einnig aðrar tegundir orðræðu, en samkvæmt henni var mælikvarðinn á hvort önnur orðræða væri merkingarbær mælikvarði raunvísindanna. Fyrir staðreyndahyggjunni var heimspeki heimspeki raunvísinda en málgreiningin, eða málspekin, gerði sér aftur á móti fulla grein fyrir að orðræða er af margvíslegu tæi. Það væru til margir ólíkir talsmátar, margar ólíkar tegundir merkingar auk vísindalegrar merkingar og verkefnið var að reyna að uppgötva hvernig þessar margvíslegu aðrar tegundir, sem og hinar vísindalegu, virkuðu en ekki að mæla allt með mælikvörðum raunvísinda og dæma hinar tegundirnar merkingarlausar.

Magee Rökfræðilegir staðreyndasinnar sögðu skýrt og skorinort, var það ekki, að staðhæfingar sem ekki væri hægt að sannprófa með reynslu væru merkingarlausar?

Williams Jú, að undanskildum staðhæfingum í stærðfræði eða rökfræði sem voru taldar sannar einungis í krafti merkingar orða. En vissulega voru allar staðhæfingar í siðfræði eða fagurfræði eða trúarbrögðum og reyndar margar hversdagslegar sálfræðilegar staðhæfingar merkingarlausar samkvæmt mælikvarða staðreyndahyggjunnar.

Magee Og uppgangur málspekinnar hafði þau áhrif að mörg orðræðusvið sem rökfræðilegir staðreyndasinnar höfðu látið róa voru tekin inn aftur.

Williams Já, auðvitað. Að vissu leyti hafði hún mjög umburðarlynda afstöðu. Það sem hún var reiðubúin að segja var þetta: „Heimspeki snýst um að gera sér grein fyrir hvernig við notum orð, um tegundir merkinga sem þau hafa, um lífshættina sem þær eru hluti af. Ef þessir orðræðuhættir eru til þá eru þessir lífshættir til og það þarf að skilja þá.“

Magee Þannig að þegar rökfræðilegir staðreyndasinnar hefðu sagt að sérstaklega trúarlegt tal væri merkingarlaust vegna þess að engin leið væri til að sannprófa neitt af því kynnu málgreiningarsinnar hins vegar að hafa sagt: „Nú jæja, áður en við dæmum þetta merkingarlaust skulum við skoða vandlega hvað nákvæmlega hugtökin sem verið er að nota eru og hvernig þau eru notuð – hvernig þau virka innan þessa sérstaka orðræðuheims.“

Williams Já. Vitanlega er frekar kaldhæðnisleg hlið á þessu öllu af þeirri ástæðu að enda þótt málspekin væri, eins og þú segir, vingjarnlegri í garð trúarlegrar orðræðu en staðreyndahyggjan hafði verið, þá sýndi staðreyndahyggjan henni þá virðingu, í vissum skilningi, að sýna fram á að hún væri merkingarlaus út frá forsendum hennar, reynsluforsendunum. Málgreiningarsinnum hætti dálítið til að segja: „Nú jæja, hér höfum við þennan orðræðuhátt sem er einn lífsmáti líkt og hver annar“ – og þetta var þegar óbeint að túlka trúna á róttækan húmanískan hátt. Málgreiningin hafði tilhneigingu til að líta á trú, og trúarsannfæringu, bara sem mannlífsform, sem tjáningu á mannlegum þörfum. Og þó það séu margir, þar með taldir nú margir í klerkastétt, sem væru sammála þessu, var það ekki hin hefðbundna hugmynd allra um trúarsannfæringu.

Magee Þegar við höfum nú greint málspeki frá rökfræðilegri staðreyndahyggju er annar greinarmunur sem við ættum að gera í upphafi umræðu okkar og það er greinarmunurinn á málspeki (linguistic philosophy) og heimspeki málsins (philosophy of language). Þessi tvö heiti eru svo lík að þeim sem þekkir ekki til heimspeki mætti fúslega fyrirgefast að blanda þeim saman eða að telja að þau væru heiti á sama fyrirbærinu.

Williams Hér er um mikilvægan greinarmun að ræða. Heimspeki málsins, eins og ég skil hana, er ein grein heimspeki, eitt svið heimspekinnar. Hún er sá hluti heimspekinnar sem fæst einkum við spurningar sem tungumálið sjálft vekur. Þetta er nú blómstrandi og á margan hátt tæknileg grein og vitanlega stendur hún mjög nálægt fræðilegum málvísindum. Á hinn bóginn er málspeki, eða málgreining, ekki ein grein heimspeki heldur heimspekileg aðferð, aðferð sem hægt væri að beita við heimspekilegar spurningar sem koma upp í öllum greinum. Hún býður upp á leið til að fást við spurningar, hvort heldur í frumspeki, siðfræði eða hverju sem er, og leggur einkum áherslu á að vera meðvitaður um málið sem þessar spurningar eru settar fram á.

Magee Málspekin gaf visst fyrirheit, var það ekki? Hugmyndin var að það væri ekkert innihald í neinum hluta hugtakakerfis okkar sem við sjálf hefðum ekki sett og þess vegna væri enginn afgangur, ekkert eftir, jafnskjótt og búið væri að framkvæma rækilega greiningu á því hvernig hugtak virkaði. Þetta þýddi að heimspekileg rannsókn gæti leitt til þess að vandamálið væri endanlega leyst.

Williams Já. Frasinn sem svo oft var notaður, og ég held að heyrist stundum enn, er ‘ekki leyst heldur leyst upp’. Hugmyndin var að mörg hinna hefðbundnu vandamála hefðu byggst á misskilningi, á óhóflega einföldum hugmyndum um hvernig tungumál okkar virkaði og þegar maður gerði sér grein fyrir hvernig málið virkaði í raun og veru – þegar við færum að skilja merkinguna sem við höfðum í raun og veru gefið orðum okkar – þá sæjum við að það væri ekki hægt að setja bara tiltekin orð saman og vona að þau fyndu sinn eigin áfangastað, ef ég má orða það þannig. Hugsunin gæti ekki bara þotið gegnum orðin og komist til veruleikans. Það væri einungis það sem við gerðum sem ákvæði merkingu spurninganna. Þessu tengist að margar af spurningum heimspekinnar reyndust alls ekki vera, hver þeirra um sig, nein ein spurning. Þær voru oft safn ólíkra vandamála, ólíkra ráðgátna, sem höfðu verið settar undir einn hatt til einföldunar. Og þegar maður sá í gegnum þetta og hafði sundurgreint vandamálin uppgötvaði hann að mörg hinna hefðbundnu vandamála heimspekinnar höfðu ekki verið leyst heldur horfið. Það þurfti ekki lengur að spyrja þeirra. Og fyrirheitið sem þetta gaf var stórkostlegt – og ákaflega spennandi. Það voru í raun og veru menn sem sögðu að allri heimspeki yrði lokið eftir fimmtíu ár. Hún myndi öll heyra sögunni til.

Magee Vegna þess að þegar búið er að rökgreina öll grunnhugtökin út í hörgul verður ekkert eftir til að gera.

Williams Eða við munum alltént hafa losnað við þau hugtök sem voru tilefni hinna djúpstæðu heimspekilegu vandamála.

Magee Samt er þetta í ósamræmi við annað fyrirheit sem málspekin gaf. Rökfræðilegir staðreyndasinnar héldu heimspekinni undir yfirráðum raunvísindanna, en eins og þú útskýrðir áðan voru málspekingarnir reiðubúnir að íhuga hvað sem er. Ein afleiðing af þessu var að litið var svo á að heimspekilegum aðferðum mætti beita við bókstaflega öll orðræðusvið. Það er engin ástæða til þess að við ættum ekki, á þeirri forsendu, að hafa heimspeki læknisfræði, heimspeki hagfræði, heimspeki fólksfjöldakenningar, heimspeki íþrótta – heimspeki alls afdráttarlaust (en einungis ‘alls’ í merkingunni ‘hvers sem er’). Tökum læknisfræði til dæmis. Nokkur sérkennandi hugtök hennar og aðalhugtök eru ‘heilbrigði’, ‘sjúkdómur’ og ‘lækning’ sem öll verða mjög ráðgátukennd strax og farið er að hugleiða þau í alvöru. Hægt væri að beita heimspekilegum greiningaraðferðum við þau og útlista með því orðræðu á sviði læknisfræði. Nú, einmitt sú staðreynd að hægt væri að gera þetta á bókstaflega öllum orðræðusviðum býður upp á endalaust verkefni.

Williams Já. Ég held ekki að neinn hafi nokkurn tíma álitið að unnt væri að útlista öll hugtök. Þeir álitu að unnt væri að leysa helstu vandamálin upp. Og það stafar af því að til var skoðun á því hvaðan helstu vandamálin kæmu. Auðvitað eru heimspekilegar spurningar um hugtök sem þarf að svara um læknisfræði – til að mynda þegar um andlegt heilbrigði er að ræða hefur sumum þótt sjálft hugtakið geðveiki ráðgátukennt – og heimspekileg rannsókn hefur farið fram á þeim grunni. En hvað snertir viðfangsefni málspekinnar reyndust aðalvandamálin koma upp með tvennu móti. Í fyrra lagi með ákaflega almennum hugtökum – ekki hugtökum sem eru eins sérstök og heilbrigði heldur hugtökum sem koma upp alls staðar eins og hugmyndin um að eitthvað sé það sama og eitthvað annað, eða hugmyndin um að eitthvað orsaki eitthvað annað, eða hugtökin um tíma og rúm. Þetta eru hugmyndir sem við notum á öllum orðræðusviðum og hið afar almenna einkenni þeirra verður tilefni meginbálks heimspekilegra vandamála. Síðari mikilvægi flokkur grundvallarvandamála var þau sem talin voru koma upp á mörkunum milli ólíkra tegunda orðræðu, til dæmis á mörkunum milli þess að tala um efnislega hluti og tala um sálræna hluti. Bókin eftir Ryle sem þú nefndir, Hugtakið hugur, var umfram allt tilraun til að beita aðferðum málgreiningar við spurningar á borð við: „Hvernig vitum við að annað fólk hafi reynslu? Hvað er það fyrir lifandi hlut að hafa hugsanir?“ Nú voru þetta vissulega ekki ný vandamál – sett þannig fram voru þau mjög gömul vandamál í heimspeki. Aðalatriðið var að maður tæki eitthvert svið þar sem vandamálin voru mjög knýjandi og notaði þessar nýju aðferðir. Þá myndu vandamálin ekki líta út eins og áður. Þau myndu leysast upp í flokk aðgreindra hugtakalegra viðfangsefna sem við gætum kannski ráðið við.

Magee Hvert var – fyrir utan fyrirheitið um að leysa öll vandamál upp sem er augljóslega aðlaðandi – hið sérstaka aðdráttarafl máspekinnar fyrir svona margt og svona vel gefið fólk? Því hún hafði, þegar öllu er á botninn hvolft, gífurlegt aðdráttarafl. Fólk smitaðist af henni næstum því eins og sjúkdómi.

Williams Fyrir því voru ástæður á ýmsum stigum. Ein þeirra var að þessi heimspeki sýndi, í svo til öllum sínum myndum, einhverja andstæðu milli þess að vera sprottin af djúpum og alvarlegum hvötum og þess að nota hversdagslegan stíl. Dæmin voru hversdagsleg. Það var vísvitandi tilraun til að forðast allt uppblásið heimspekilegt fagmál. Það var ekki háfleygt, og vegna þess að manni fannst um leið að hann væri í raun og veru að gera eitthvað mikilvægt, þó það liti ekki endilega þannig út, þá veitti þetta sérstaka tegund af því sem mætti kalla sókratíska ánægju, þar sem hið hversdagslega efni þjónaði því sem við vissum öll að væri dýpri tilgangur. Útkoman var nokkuð ólík eftir því hvort um Wittgenstein-stíl eða Oxford-stíl var að ræða, en hinn síðarnefndi var oft vísvitandi og háðslega þurr og gerði um leið í því að eltast við greinarmun vegna þess hvað það var gaman. Til er athugasemd höfð eftir Austin sem var fræg á sínum tíma. Hann hélt málstofur þar sem rökræddur var munurinn á að gera eitthvað í ógáti (inadvertently), fyrir mistök (by mistake), af slysni (accidentally) og svo framvegis, og á einhverju stigi spurði einhver þátttakandinn iðulega: „Prófessor Austin, hvaða stór heimspekivandamál varpa þessar rannsóknir ljósi á?“ Og Austin var vanur að svara: „ Í grófum dráttum: á þau öll.“

Magee Margir létu blekkjast af því hve dæmin voru léttvæg. Enda þótt málspekingar, eins og þú segir, tækju vísvitandi upp úrdráttarstíl og notuðu dæmi sem virtust léttvæg höfðu þeir gilda ástæðu til að nota dæmi af því tæi. Hún var sú að þeir vildu ekki að neitt í því sem þeir sögðu ylti á dæmunum.

Williams Það er rétt. Ég hygg að hluti hugmyndarinnar hafi verið að tæki maður eitthvert augljóslega stórbrotið eða áhrifamikið eða að því er virtist djúpt hugsað dæmi þá stæði hann frammi fyrir tveim valkostum: annaðhvort var það í raun og veru djúpt hugsað og þá væri það næstum því áreiðanlega of flókið og erfitt til að byrja með – við hefðum átt að komast þangað með því að taka eitthvert hversdagslegra málefni fyrst – eða það væri ekki djúpt hugsað og aðdráttarafl þess væri bara falskt. Af þessari afar mikilvægu ástæðu setti málspekin til hliðar hefðbundið orðfæri heimspekinnar. Bæði Oxford- og Wittgenstein-gerðin drógu í efa hefðbundna hugmynd um djúphygli eða dýpt. Þær höfðu auðvitað ólíkan stíl, eins og ég vék að. Þar sem Oxford-stíllinn beitti háði og hugvitssemi og forðaðist hátíðleika þá arfleiddi Wittgenstein hins vegar fylgismenn sína að háleitum kröfum um heilindi og alvöru og trúarlegri óbeit á hugvitssemi. Heimspekingur nokkur sagði einu sinni við mig að það hefðu alltaf verið tvær ólíkar ástæður fyrir því að iðka heimspeki – forvitni og sáluhjálp, og þær samsvara nokkurn veginn þessum tvenns konar stíl og ólíku aðdráttarafli þeirra. En báðar þessar stíltegundir leituðu skilnings í hinu hversdagslega og með atbeina þess, og báðar vöktu gremju með því að gera að engu venjubundnar væntingar til heimspekinnar að hún væri djúpt hugsuð en veitti samt huggun.

Má ég bæta einu við um ódramatísku eða hversdagslegu dæmin? Sjálfur tel ég að notkun þeirra hafi verið langtum skynsamlegra fyrirtæki þegar talað var um skynjun eða þekkingarfræði en hún var þegar talað var um siðfræði eða stjórnmál. Það er athyglisvert að í rauninni þreifst stjórnmálaheimspeki alls ekki þegar málspekin réð ríkjum. Hugtökin um hið dramatíska og alvarlega eru sjálf stjórnmálaleg og siðferðileg hugtök, en það á ekki við um að sjá, vita, telja og önnur slík hugtök.

Magee Ég geri ráð fyrir að enn önnur hlið á aðdráttarafli málspekinnar hafi verið innræting hollrar sjálfsvitundar um notkun málsins, innræting næstum því nýrrar tegundar ábyrgðar – viðurkenning þess að það skiptir í raun og veru máli að maður tjái sig óaðfinnanlega skýrt.

Williams Ég held það skipti máli hvers eðlis þessi sjálfsvitund var. Það er athyglisvert að enda þótt sumir hafi gagnrýnt málspekina fyrir að vera smásmuguleg eða bara orðabókarleg eða léttvæg að þessu leyti, eða fyrir að hafa of miklar áhyggjur af smáatriðum í framsetningu, þá er þetta í rauninni sama krafan og iðulega er gerð af skáldum – til að mynda af Auden í mörgum verka hans og af Yeats – sem fannst að einhvern veginn sé heiðarleiki hvað varðar merkingu, að segja hvorki meira né minna en maður meinar, og að gera sér grein fyrir hvað þetta er, vörn gegn upplausn, ótta og sýndarmennsku.

Magee Það er lítið um skrif þar sem þetta sjónarmið er sett fram, er það ekki: Karl Kraus, George Orwell. . . .

Williams Jú – andstaðan gegn spillingu hugans með óskýru málfari. Við verðum að hafa hugfast að Wittgenstein kom frá Vín þar sem þetta hafði lengi verið mikið áhyggjuefni. Í Oxford hefði það ekki verið orðað þannig vegna þess að það hefði hljómað frekar hástemmt, en í raun var þetta án efa hluti af ástæðunni og að mínum dómi mikilvægur hluti.

Magee Ég hygg að í Oxford, þar sem við báðir stunduðum nám í greininni, hafi þessi áhersla á skýrleika, á ábyrgð, á að gaumgæfa rækilega smávægilegan merkingarmun, verið ágæt þjálfun hugans alveg burtséð frá heimspekilegri þýðingu hennar.

Williams Já. Hún hafði vissulega mjög jákvæðar hliðar. Ég held það verði að segjast að hún hafði einnig einhverjar neikvæðar hliðar hvað þetta varðar.

Magee Ég vil koma að þeim seinna, ekki alveg strax. Við höfum talað um hollustuna við skýrleika en þetta vekur undireins eina eða tvær aðrar spurningar. Flestir myndu vera sammála því að Wittgenstein í seinni heimspeki sinni væri nafntogaðastur allra málspekinga, en enginn gæti sagt að hann væri skýr. Þvert á móti. Og ég vil tengja þetta við annað atriði sem þú vilt kannski heldur taka sér. Ég veit það ekki; ég ætla hvort eð er að segja þetta núna. Vegna ástríðufullrar hollustu við skýrleika höfðu málspekingar djúpa (og ég meina djúpa) fyrirlitningu á sumum heimspekingum sem eru ekki skýrir vegna þess að þeir eru ekki skýrir. Þar sker Hegel sig úr. Á fyrstu námsárum okkar í Oxford-háskóla var Hegel vísað á bug með algerri fyrirlitningu af flestum atvinnuheimspekingum, aðallega vegna þess að hann er svo óskýr. Það var skopast að verkum hans og þau kölluð ‘rusl’, ‘þvættingur’, ‘ekki verð alvarlegrar vitrænnar umhugsunar’. En þetta var samt augljóslega – alltént er okkur það ljóst nú – misskilningur. Með öðrum orðum, skýrleika var gefið gildi í heimspeki sem nú er hægt að sjá greinilega að hann hafði ekki.

Williams Ég hygg að skýrleiki reynist vera flóknara hugtak en menn, eða sumir menn, töldu á þeim tíma. Ég hygg að dæmið um Hegel sé margslungið. Ég held ekki að það hafi bara verið af því að hann var erfiður; það var vegna þess að hann var erfiður á tiltekinn hátt. Til dæmis held ég ekki að Kant hafi nokkurn tíma orðið fyrir annarri eins höfnun og þú talar um, en ég held ekki að neinn gæti sagt að Kant, eða mál Kants, væri framúrskarandi auðvelt. Ég held það verði líka að bæta því við að það voru vissar sögulegar ástæður fyrir því að Hegel var hugmyndafræðilega tortryggilegur. Hann var talinn tengjast alræðisbrenglunum í þýskri vitund. Þetta hefur sennilega verið villa, en algeng tegund villu. Það var sögulegt samhengi. En það er rétt hjá þér að skoðunin á sögu heimspekinnar var afar takmörkuð og stjórnaðist að vissu leyti af einhverju hugtaki um skýrleika. Ef við snúum okkur frá þessu að muninum sem við höfum vikið að á stíl Wittgensteins og til að mynda stíl Austins og orðum þennan mun með því að segja að stíll Austins sé skýr á þann hátt sem stíll Wittgensteins er það ekki, þá held ég að við hljótum að meina að Austin sé einhvern veginn þurrari eða bókstaflegri en Wittgenstein. Það eru mjög fáar setningar í Rannsóknum í heimspeki eftir Wittgenstein sem eru ekki fullkomlega blátt áfram setningar. Í þeim er ekki vafasöm málfræði eða torskilin nafnorð.

Magee Það sem er erfitt að skilja er hvers vegna hann hefur skrifað þær. Maður skilur það sem hann segir en ekki hvers vegna hann segir það.

Williams Það er rétt. Það eru setningar eins og: „Ef ljón skyldi tala mundum við ekki skilja það.“ Spurningin er: „Hvers vegna stendur þetta þarna?“ Og ég held að ein ástæða fyrir því að erfitt er að skilja það sé óvissa, mjög djúpstæð óvissa, um að hvaða marki það tengist röksemdafærslu. Hjá Austin, eða mörgum öðrum málspekingum sem við gætum nefnt, eru skilmerkilegar röksemdafærslur. Það er mikið af ‘þess vegna’ og ‘úr því að’ og ‘af því að’ og ‘það verður nú sannað á tiltekinn hátt’. Hjá Wittgenstein eru ákaflega fáar röksemdafærslur. Verkið samanstendur af undarlegum samtölum hans við sjálfan sig og spakmælum, áminningum, hlutum af þessu tæi, og þetta tengist mjög róttækri skoðun sem hann hafði á heimspeki að hún hefði alls ekkert að gera með sönnun eða röksemdafærslu. Við ættum að nálgast heimspekina, segir hann á einum stað, með því að safna áminningum um hvernig við tölum venjulega, nokkuð sem heimspekinni hættir til að fá okkur til að gleyma.

Magee Það er ekki ólíkt því að reyna að fá fólk til að sjá hluti á tiltekinn hátt – en það gera listaverk almennt, einkum leikrit og skáldsögur.

Williams Ásamt þeirri hugmynd að þegar við sjáum hlutina á þennan hátt sjáum við þá samt á þann hátt sem er óspilltur af fræðilegum ofureinföldunum heimspekinnar. Ekkert annað afbrigði málspekinnar var eins róttækt og Wittgenstein hvað varðar sönnun. En það var þessi tilhneiging sem þau deildu öll með honum að endurheimta margslungna gerð venjulegrar reynslu. Hugmyndin um skýrleika er hér tengd því að setja margslungna gerð í staðinn fyirir óskýrleika. Heimspekinni leyfist að vera flókin af því að lífið er flókið. Og ein hinna miklu ásakana á hendur fyrri heimspekingum er að enda þótt þeir hafi verið óskýrir, erfiðir og hátíðlegir, það sem þeir hafi í raun og veru gert sé að einfalda hlutina allt of mikið. Þeir gerðu til að mynda mikið úr andstæðunni milli sýndar og veruleika, en hugmyndin er að hugsi maður í raun og veru um á hve margvíslega vegu hlutir geta virst vera eitt eða raunverulega verið annað og þar fram eftir götunum – eða hvað mætti ætla að ‘veruleikinn’ væri – þá kemst hann að raun um að öll hugsanatengsl okkar um þetta eru langtum flóknari en þeir eða við höfðum upphaflega gert ráð fyrir.

Magee Fyrir fáeinum mínútum vorum við að tala um hvernig, við skulum segja fyrir tuttugu árum, í hinni nýju dögun málspekinnar menn hneigðust til að halda að með því að nota hinar nýju aðferðir yrði búið að leysa grundvallarvandamál heimspekinnar eftir svo sem tuttugu ár. Jæja, þessi tuttugu ár eru nú liðin og grundvallarvandamál heimspekinnar eru enn hjá okkur. Sem sagt, enda þótt málspekin hefði þá umtalsverðu kosti sem við höfum verið að tala um þá var greinilega eitthvað í grundvallaratriðum rangt í væntingum hennar til sjálfrar sín, og kannski þess vegna í hugmynd hennar um sjálfa sig. Við skulum nú tala um gallana á henni.

Williams Heimspekingar hafa oft séð dögun af annarri öld. Við getum undireins skráð um það bil fimm byltingar í heimspeki, þar sem menn hafa sagt: „Hvers vegna hefur heimspekin verið á villigötum? Nú er hún komin á rétta braut.“ Þeim hættir öllum til að rekast á vandamál sinna eigin aðferða áður en mjög langt um líður og málspekin var ekki ein um það. Ég tel að aðaltakmörkun hennar hafi verið að hún vanmat mikilvægi kenninga. Umfram allt vanmat hún mikilvægi kenninga innan heimspekinnar (þó hjá Wittgenstein væri varla hægt að kalla þetta vanmat – öllu heldur algera höfnun). Hún hafði þar að auki þá tilhneigingu að vanmeta einnig mikilvægi kenninga í öðrum greinum. Ég held ekki að hún hafi haft mjög skýra hugmynd um mikilvægi kenninga meira að segja í vísindunum.

Magee Leyfðu mér að ganga úr skugga um að mér sé ljóst hvað þú átt við þegar þú talar um að vanmeta mikilvægi kenninga. Málgreiningarsinnum hætti til að taka upp eitt hugtak í einu með flísatöngum sínum og láta það undirgangast rækilega greiningu – stundum, til að mynda hjá Austin, nánast í einangrun frá öllu öðru, það er að segja án nokkurrar vísunar til skýringarkenningar sem bakgrunns. Er það þetta sem þú átt við?

Williams Það er hluti af því. En það snýst ekki aðeins um umfang rannsóknarinnar (Austin og aðrir lögðu áherslu á mikilvægi þess að skoða skyld hugtök eða hugtakaflokka) heldur einnig um ástæðuna fyrir henni. Ég held að það sem okkur hætti til að gera hafi verið að taka fyrir einhvern greinarmun eða andstæðu og fara vandlega í saumana á þessu og á hinum ýmsu blæbrigðum sem kynnu að tengjast því og koma skipan á þau eða setja þau fram, án þess að íhuga nægilega vel hvaða bakgrunnur gerði þennan greinarmun frekar en einhvern annan áhugaverðan eða mikilvægan.

Magee Þið stunduðuð greinina í smáskömmtum og reyndar var ‘í smáskömmtum’ orðasamband sem þið sjálfir notuðuð oft til að lýsa starfsemi ykkar, var það ekki?

Williams Iðulega. ‘Í smáskömmtum’ var lofsyrði. Austin notaði afhjúpandi hliðstæðu. Þegar kvartað var um margföldun greinarmunar benti hann á að til væru þúsundir tegunda af einhverri gerð skordýra og spurði: „Hversvegna getum við ekki bara fundið sambærilegan greinarmun í tungumálinu?“ Ja, svarið er vitanlega að ástæður okkar fyrir því að greina tegundir bjallna hverja frá annarri eiga sér rætur í tilteknum fræðilegum skilningi á því sem aðgreinir tegundir, skilningi sem þróunarkenningin lætur í té. En hafi maður ekki einhvern fræðilegan skilning að bakgrunni er hvað sem er jafn ólíkt hverju öðru sem er og manni sýnist.

Magee Með öðrum orðum, maður verður að hafa viðmið. Og þetta viðmið er kenning.

Williams Ég held það verði að segjast, og það var ekki nægilega viðurkennt. Það var misjafnt hjá mönnum að hve miklu leyti þeir sögðu að hægt væri að iðka heimspeki í smáskömmtum en ég hygg að viðurkenning þess að vandamálin væru einungis ákveðin, greinarmunurinn einungis látinn í té, af bakgrunni einhvers fræðilegri eða kerfisbundnari skilnings – þetta atriði hygg ég að mönnum hafi oftar sést yfir.

Magee Hér áðan var ég að tala um hvernig málspekingar voru reiðubúnir að beita verkfærunum á hvert sem er af ýmsum orðræðusviðum. Þegar hér er komið í umræðu okkar má tengja þessa staðreynd við einn hinna alvarlegu galla á málspekinni. Málspekingum hætti of mikið til að líta á heimspeki sem aðgreinda frá öllum viðfangsefnum, eða alltént aðgreinanlega frá þeim. Ég minnist þess að einn af virtustu heimspekingum landsins sagði við mig fyrir um fimmtán árum: „Maður þarf ekki að vita neitt til að vera góður heimspekingur. Maður þarf bara að vera greindur og hafa áhuga á faginu.“

Williams Jæja, hann var vissulega heiðarlegri en sumir. Ég held að margir hafi hugsað þetta en hafi ekki verið svo ósvífnir að segja það. Kannski þetta sé nokkuð athyglisverð söguleg athugasemd um hvernig hlutirnir litu út, eins og þú gefur í skyn. Þetta er að vissu leyti önnur hlið á því sem við sögðum hér á undan um hinn byltingarkennda skilning þessarar heimspeki. Hann virkaði að hluta með því að láta manni finnast að eðli heimspekinnar hefði verið misskilið, að menn hefðu iðkað heimspeki rétt eins og þeir væru að kortleggja hið heimspekilega svið eða fást við sérstaka tegund yfirvísinda, og nú hefðum við nýja vitund um heimspeki sem þýddi að við gætum ekki gefið okkur að hún væri þannig. Og eins og ég hef þegar sagt var Wittgenstein haldinn djúpstæðum efasemdum um að heimspeki gæti verið til nema sem andlegar truflanir sem eiga sér stað þegar hugmyndir okkar um okkur sjálf lenda á villigötum. Þessi byltingarkennda tilfinning hvað varðar heimspeki gerði einnig marga djúpt – og óhóflega – meðvitaða um hvað heimspeki væri og ýtti undir þá tilfinningu að hún væri gerólík öllu öðru. Þetta hvatti svo aftur fólk til að álíta að vísindin, til dæmis, gætu ekki verið heimspekileg í sjálfum sér, gætu ekki haft neitt heimspekilegt við sig. Hérna var heimspekin og þarna voru hinar eiginlegu vísindagreinar. Ég held að menn geri sér nú enn einu sinni mjög ljósa grein fyrir að einhverjir hlutar vísinda eru sjálfir heimspeki vísinda, einhverjir hlutar málvísinda eru heimspeki málvísinda, mikið af sálarfræði er heimspeki sálarfræði. Það eru til svið þar sem þörf er fyrir bæði heimspekilega færni og þekkingu í vísindum eða öðrum greinum sem máli skipta. Tvískiptingin milli heimspeki og alls annars fær á endanum ekki staðist.

Magee Að rjúfa þannig tengsl heimspekinnar við aðrar greinar gerði aðferðina líka gallaða með öðrum hætti: það leiddi til skorts á sögulegum skilningi. Það var mjög lítill skilningur hjá málspekingum á því að hugtökin sem þeir rökgreindu ættu sér sögu. Þeir gáfu furðulega lítinn gaum að áformum þeirra málnotenda sem þeir voru að rökræða málnotkun hjá þegar þetta voru fyrri tíðar menn. Það sem gerir allt þetta enn furðulegra er að þeir settu sjálfir notkun í fyrsta sæti sem mælikvarða á merkingu en leiddu aftur á móti alltaf hjá sér þá einföldu staðreynd að notkun orða er sífelldum breytingum undirorpin.

Williams Ég held að þarna sé um tvö ólík atriði að ræða. Annað gengur út á það að öll hugtök eigi sér sögu. Hvaða hugtak sem vera skal á sér einhverja sögu, og hvað það snertir tel ég að þeir hafi haft verjanlega afstöðu þó hún væri dálítið þröngsýn, en hún var þessi: „Við skulum líta á það núna sem kerfi sem gegnir ákveðnu hlutverki.“ Þetta var að vissu leyti eins og ákveðin tegund mannfræði.

Magee En þegar þeir fjölluðu um hugmyndir Lockes eða Descartes eða einhvers annars látins heimspekings þá hætti þeim til að rökræða við hann eins og hann væri starfsbróðir á sömu kennarastofu.

Williams Þegar komið er að sögu heimspekinnar þá vaknar vitanlega öðruvísi spurning og á því leikur alls enginn vafi að afstaðan til mikils af heimspeki fortíðar hafði það sem kalla mætti sterk einkenni tímaskekkju. Þá athugasemd að meðhöndla heimspeki fortíðar eins og hún væri skrifuð í heimspekitímarit í þessum mánuði gerði einhver til að hrósa þessari aðferð. Ég held ekki að við viljum fara út í kenninguna um sögu heimspekinnar og um þessa frekar furðulegu leið til að fást við hana, en það er sanngjarnt að segja að reyndar er hún nokkuð frjó og örvandi og hefur reyndar fengið þróttmeiri arf en sumar tegundir heimspekisögunnar sem láta sér óhóflega annt um að vera ekki bendlaðar við tímaskekkju.

Magee Við höfum verið að tala um gallana á málspekinni og ég held að sérhver þeirra sem við höfum fjallað um sé raunverulegur. Nú langar mig til að vekja máls á einum sem þú telur kannski ekki vera raunverulegan. Hann er engu að síður algengastur af öllum aðfinnslum. Þeir sem eru ekki heimspekingar hafa ætíð haft, og hafa enn, tilhneigingu til að líta á málspekina sem ómerkilega. Málspekingar, hafa þeir alltaf sagt , eru ‘bara að leika sér með orð’, þeir eru ‘léttúðugir’ og svo framvegis. Hvað mundir þú vilja segja um þetta?

Williams Ja, svarið við þessu er að sumt af henni var vitanlega svona. Sumt af henni var smásmugulegt, léttvægt og leiðinlegt. En alltaf og á öllum tímabilum, og hver sem stundar heimspekina, þá eru að minnsta kosti níutíu prósent hennar, samkvæmt ríflegu mati, frekar léleg og munu aldrei vekja áhuga neins síðar meir nema sagnfræðinga. Þetta á við um margar greinar en það á kannski sérstaklega við um heimspeki. Það er því ekki að undra að mikið af málspekinni sé heldur lélegt – af því að mikið af heimspeki af öllu tæi er heldur lélegt. Málspekin var léleg með sérstökum hætti, sem sé þeim að hún var léttvæg, léttúðug og smásmuguleg í stað þess að vera hástemmd, innantóm og leiðinleg eins og mikið af annarri heimspeki er. Heimspeki getur verið léleg með tvennu móti: Hún getur annaðhvort verið smásmuguleg eða hún getur verið húmbúkk. Málspekin sérhæfði sig í að vera léleg með því að vera smásmuguleg. Það er að minnsta kosti satt yfirleitt, og það er algerlega satt um Oxford afbrigðið sem gagnrýninni sem þú nefndir var sennilega beint gegn. Það ætti að koma fram að sumir sem skrifuðu í anda Wittgensteins hafa verið lélegir í hina áttina. Eins og segja mætti að Wittgenstein hafi leitað dýptar í heimspekinni en Austin hins vegar nákvæmni þá skiptust skrif lélegri fylgismanna þeirra annaðhvort í torrætt húmbúkk eða leiðinlega smásmygli. Nú jæja, verði heimspeki manns léleg þá er smásmyglin að sumu leyti virðingarverðari en húmbúkkið, einkum þegar heimspekingurinn verður að láta sér lynda að vera kennari í faginu. En að þessu frátöldu, sé farið út fyrir lélegu dæmin þá er ásökunin ekki rétt. Það sem er túlkað sem eitthvað léttúðugt: að hafa áhyggjur af hvað setningarnar merkja í raun og veru var nauðsynlegur og ómissandi hluti þeirrar tegundar sjálfskilnings hvað varðar tungumálið – láta það hljóma til að heyra nákvæmlega hvaða tón setningin myndar – sem við töluðum um hér á undan.

Magee Ég veit af fyrri rökræðum við þig að þú ert mjög andsnúinn hugmyndinni, svo vinsælli af því að hún er þægileg fyrir mann, sem kemur fram í orðum eins og þessum: „Hafðu ekki áhyggjur af því sem ég segi, það sem ég meina er það sem skiptir máli.“

Williams Það er rétt. Það var þetta sem málspeki af öllum gerðum var góð í að stoppa fólk í að segja og, það sem skiptir enn meira máli, stoppa það í að finnast. Þetta og sú hugmynd að einhvern veginn hafi ég merkinguna hérna – litla setningin mín mun reyna að tjá þér hana – en ef hún tjáir þér hana ekki þá er það vegna einhvers skorts á ímyndunarafli hjá þér. Við berum ábyrgð gagnvart orðum okkar vegna þess að við höfum ekki, að lokum, þessar merkingar bara innra með okkur, óháð því sem við höfum tilhneigingu til að segja. Setningarnar eru það sem við meinum.

Magee Þú hefur gert góð reikningsskil – hvað stendur eftir að lokum? Hver er arfurinn? Ég skal byrja og svara eigin spurningu með því að nefna eitt einfalt atriði: Arfurinn er mikill. Málspekin hefur haft áhrif á hvernig allir iðka heimspeki nú. En að því sögðu, hvað annað stendur eftir að lokum?

Williams Ja, ég held að atriðið sem við drápum á síðast, atriðið sem snertir ábyrgð okkar gagnvart því sem við segjum, standi eftir hjá okkur; einnig sú hugmynd að heimspekileg vandamál muni ekki endilega hafa það form sem hefðin gaf þeim – sú hugsun að það sem var kallað heimspekilegt vandamál er oft óróasvið sem verður að kanna með þeim næmleika sem málspekin hvatti til. Þetta er vissulega mjög jákvæð arfleifð. Þegar hún er tengd endurheimtum áhuga á kenningum sem heimspekin sýnir nú ljóslega, þá fær maður óvenjulega frjóa samsetningu. Það er þó nokkuð athyglisverð skammtíma söguleg staðreynd að, enda þótt heimspekin sé nú mjög frábrugðin því sem hún var jafnvel fyrir aldarfjórðungi, þá hefur í okkar hefð verið miklu minna um að hafna þessari leið til að iðka heimspeki en iðulega á sér stað við slíka breytingu.

Magee Sú hlið málspekiarfsins sem ég met mest er útvíkkun heimspekilegrar rannsóknar til nýrra efnissviða. Sú hugmynd að hægt sé að beita aðferðum málgreiningar við hugtök á öllum sviðum hefur leitt til þess að til hefur orðið það sem nánast má líta á sem nýjar greinar.

Williams Sú hugmynd að heimspekin fengist við að íhuga tungumálið og um leið að hún hefði ekkert sérstakt eigin viðfangsefni auðveldaði þessa framvindu. Sú staðreynd að hin ströngu mörk milli heimspeki og hinna eiginlegu vísinda hafa leyst upp að miklu leyti (þetta kom fram hér á undan) hefur nú enn frekar auðveldað hana. Málspekin stuðlaði vissulega að tilkomu þessara greina. En takmörkun þessarar heimspeki, umfram allt í Oxford-gerðinni sem var í almennari mæli umtalsverður annmarki, viss tegund bókstafshyggju, hafði samt neikvæð áhrif á hvernig þær voru stundaðar. Hún skildi ekki þá mikilvægu staðreynd að í sögu vísindanna – eða sögu heimspekinnar, ef hún er til umræðu – skipar bókstafleg nákvæmni venjulega annað sæti. Einhver hafði eitthvað nýtt að segja og vegna þess að það var ný innrás í heiminn gat varla hjá því farið að það væri óskýrt, af því að það hlaut nánast að passa illa við þá hugtakanotkun sem fyrir var. Nú, Austin neitaði þessu ekki alfarið. Hann sagði að það sem við yrðum að gera væri að útlista það allt, koma á það röð og reglu, og þá sæjum við hvar við værum stödd hver svo sem kenningin var. Þetta virðist mér núna, og ég held mér hafi virst það þá, vera ósönn mynd. Tökum til að mynda kenningu á borð við kenningu Freuds: Hún gerði nokkuð stóra innrás inn í hversdagsmál okkar. Við neyddumst til að segja hluti sem við sögðum ekki oft – gátum tæplega sagt – áður. Við urðum að segja að fólk tryði einhverju sem það vissi ekki að það tryði, að til væru ómeðvitaðar óskir og annað sem syndgaði að einhverju marki gegn mæltu máli. Mér virðist það nú alröng og ófrjó hugmynd að halda að það sem maður gerir sé að skoða hin málfarslegu tengsl, reyna að koma á þau röð og reglu og vega síðan og meta framlag Freuds. Sé framlag Freuds það sem talið er að það hafi verið þá mun það búa sér til eigið rými. Það er líkt og lifandi jurt sem breiðir úr sér – hún breytir lögun hlutanna í kringum sig. Hún býr sér til eigið rými. Málspekin vanmat í hve mikilvægum skilningi nýjar vísindalegar uppgötvanir búa sér til eigið hugtakarými – að þær, ef svo má að orði kveða, beinlínis rífa niður hluta af máli og hugsun í kringum sig með óvæntum hætti sem kann að virðast í fyrstu stjórnlaus, naumast skiljanlegur. Sú staðreynd að mikið af frjóustu hugsun okkar á einhverri tiltekinni stundu gæti varla annað en verið fálmkennd, lélega ígrunduð og óskýr, er mikilvæg hugmynd sem málspekin, að minnsta kosti í Oxford-gerðinni, hafði ekki nægilegt rúm fyrir.

Magee Það sem ég mundi vilja segja að lokum um málspekina er að hún heldur áfram að hafa, notuð sem aðferð, gífurlegt og varanlegt gildi, og að hún er einungis stórgölluð ef litið er á hana sem heildarhugmynd um heimspeki frekar en tæki. Það var reyndar tímabil á fimmta og sjötta áratugnum þegar margir heimspekingar töldu að heimspeki fælist í að gera þetta. Það var nú bara rangt. En að því tilskildu að henni sé haldið á sínum stað, sem hjálparaðferð, held ég að erfitt sé að gera of mikið úr gildi hennar.

Williams Já – svo framarlega sem fallist er á það mikilvæga atriði (ef ég má orða það þannig) að tækin sjálf og taskan sem þau koma í hafi tiltekið vitsmunalegt sköpulag sem þýðir að þau verði ekki notuð af hvaða heimspekilegum handverksmanni sem er. Sum tækjanna frá sjötta áratugnum getum við í rauninni ekki lengur notað vegna þess að hugmyndirnar sem mótuðu þau virðast nú ósannfærandi. Hins vegar verða öll tækin yfirleitt aðeins notuð af þeim sem fellst á mótandi hugmyndir þeirra – hugmyndir sem ég tel að hafi breytt á djúpstæðan hátt, og haldi áfram að breyta, hugmyndum okkar um heimspekina, tungumálið og hugann.

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. John L. Austin (1911-60) var aðalmaður í hreyfingunni sem er þekkt undir heitunum málspeki, Oxford heimspeki eða heimspeki venjulegs máls. Helstu verk hans, gefin út að honum látnum, eru Sense and Sensibilia (1962) og How to Do Things with Words (1962).

2. Bernard Williams dó í júní 2003 á sjötugasta og fjórða aldursári. Þessari samræðu var sjónvarpað hjá BBC á útmánuðum 1978. – B. W. er talinn einn af merkustu og áhrifamestu breskum heimspekingum á seinni hluta 20. aldar. Af bókum hans skulu hér nefndar Descartes: The Project of Pure Enquiry (1978), Ethics and the Limits of Philosophy (1985), Making Sense of Humanity (1995) og síðasta bók hans Truth and Truthfulness (2002). – Þess má geta að Williams er viðmælandi Magees í samræðunni um Descartes í bókinni The Great Philosophers (1987) sem kom út á íslensku 2002 undir heitinu Miklir heimspekingar.

3. Logical Positivism er venjulega þýtt rökfræðileg raunhyggja en þýðandi telur að ‘staðreyndahyggja’ nái betur merkingu þessa afbrigðis raunhyggjunnar (empiricism), því samkvæmt L. P. snýst öll merkingarbær orðræða, fyrir utan stærðfræði og rökfræði, um staðreyndir!

 

« Til baka