Ósennilegi byltingarmaðurinn

eftir Kristján G. Arngrímsson

Það hefur verið sagt um John Rawls að hann hafi valdið byltingu í heimspeki. Þetta hljómar einhvernveginn ósennilega – maðurinn á myndinni hér til hliðar (sem var tekin í mars 1990) lítur ekki út fyrir að vera byltingarmaður. En hvaða bylting var það þá sem Rawls olli?

Með skrifum sínum – þar tvímælalaust frægustum bókinni Kenning um réttlæti (A Theory of Justice) – sneri hann heimspekinni aftur að spurningunum sem hún í upphafi fékkst við, spurningum um rétt og rangt, gott og vont, það er að segja siðferðilegum spurningum.

Byltingarmaðurinn John Rawls lést á sunnudaginn, 81 árs að aldri. Talsmaður Harvard-háskóla, þar sem Rawls var lengst af prófessor, staðfesti tíðindin, en fréttastofan Associated Press segir ekkert hafa verið látið uppi um dánarorsökina. Þó væri vitað að Rawls hefði fengið röð heilaáfalla síðan um miðjan síðasta áratug, þótt hann hafi haldið áfram að skrifa og birta skrif sín fram á síðasta dag.

Í eftirmælum um Rawls, sem AP sendi út á mánudags­kvöldið, segir ennfremur að Rawls hafi með byltingu sinni „bjargað“ heimspekinni frá rökfræði- og vísindaspeki­spurningunum sem hún hafi verið orðin gagntekin af. Það er vísast að einhverjum þyki það hafa verið bjarnargreiði.

Ráðandi afl í heimspeki

Kenning um réttlæti kom fyrst út 1971 og þrjátíu og eitt ár er stuttur tími í fræðaheiminum – að ekki sé nú minnst á í heimspekisögunni – og því of snemmt að segja til um hvort það hafi verið heillaspor sem Rawls steig með þessari byltingu eða bara smáfeilspor sem heimspekin verði tiltölulega fljót að leiðrétta og jafna sig á.

En hinu verður ekki neitað að nafn Rawls trónir nú hærra en flest önnur nöfn í heimspeki Vesturlanda og allir sem koma nálægt því fagi verða að taka afstöðu til Rawls eða að minnsta kosti kunna hann til prófs. Því má hiklaust segja að hann sé ráðandi afl í heimspeki nú um stundir, hvað svo sem seinna kann að verða.

„Siðfræðingar og stjórnmálaheimspekingar gerðu sér fljótlega grein fyrir því að nú varð maður annaðhvort að vinna samkvæmt kenningu Rawls eða útskýra hvers vegna maður kaus að gera það ekki,“ sagði fyrrverandi nemandi hans, Andreas Föllesdal, í grein sem hann skrifaði í tilefni af áttræðisafmæli Rawls í fyrra og birtist hér í Lesbók (24. febrúar).

„Skrif hans munu ekki gleymast næstu áratugina eða næstu aldirnar, held ég,“ hefur AP eftir Hilary Putnam, kollega Rawls við Harvard. Og Joshua Cohen, prófessor við Massachusetts Institute of Technology, segir um mikilvægi kenninga Rawls: „Hann tengdi heimspekina við lýðræðið.“

Réttlátt samfélag

Kenning um réttlæti fjallar um það hvernig megi best skipuleggja mannlegt samfélag. Föllesdal segir að Rawls telji „að það sem ráði úrslitum um réttlátt samfélag sé það hvernig þeir verst settu hafa það“. Þarna mætti byggja á tiltölulega einfaldri reglu, sem höfundur eftirmælanna frá AP segir að hafi verið nefnd „Rawls-prófið“, og er svona: Skipulagið þarf að vera þannig, að þeir sem mest mega sín myndu samþykkja það, vitandi að þeir kynnu á hverri stundu að lenda sjálfir í sporum þeirra sem minnst mega sín.

En þetta eru einungis óhlutbundnar reglur, hugmyndir á bók. Hvernig myndu þær skila sér í raunveruleikanum? Föllesdal segir að Rawls hafi hafnað bæði algeru markaðsfrelsi og líka fullkomnum jöfnuði. „Í staðinn telur hann að stofnanir samfélagsins verði að tryggja jafnar ævitekjur óháð samfélagsstöðu, nema hagur þeirra verst settu verði bættur með því að einhverjir hafi hærri laun og stækki þannig „þjóðarkökuna“. Hærri laun fyrir sum störf eru því réttlætanleg, en aðeins ef slíkur launaauki er nauðsynlegur til að gera minnstu sneiðina af þjóðarkökunni eins stóra og hægt er.“

Illska mannanna

Rawls var Bandaríkjamaður, fæddur í Baltimore og nam við Princeton-háskóla. Hann var ekki bara á kafi í bókum og til marks um það hefur verið haft að honum bauðst einhverju sinni að gerast atvinnumaður í hafnabolta. Ekki fylgir sögunni hvort hann íhugaði alvarlega að taka því boði.

Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar barðist hann á Kyrrahafsvígstöðvunum. „Þar gerði hann sér grein fyrir því hvað mannskepnan getur unnið mikil illvirki,“ segir í eftirmælunum frá AP. Samt hefði Rawls alla ævi búið yfir því sem hann hefði kallað „raunsæja staðleysuhyggju“, og verið bjartsýnn á að mannkyninu gæti farið fram – og ekki bara í kenningasmíð.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgublaðsins 30. nóvember 2002.

 

« Til baka