Færslusöfn

John Rawls

eftir Þorstein Gylfason

John Rawls
– 21sta febrúar 1921–24ða nóvember 2002

Fyrir Fréttaspegil Ríkisútvarpsins föstudagskvöldið 28da nóvember 2002

John Rawls varði starfsævi sinni til að hugsa og skrifa um þjóðfélagslegt réttlæti. Hann varð frægasti stjórnspekingur tuttugustu aldar, einkum fyrir bók sínaKenningu um réttlæti sem kom út 1971. Jafnframt kenndi hann í Harvardháskóla, og hætti því 74 ára 1995 er heilsa hans brast. Eftir það gaf hann út tvær bækur. Hann var hógvær og hlédrægur maður. Hann veitti fjölmiðlum ekki viðtöl. Hann þáði helzt aldrei neinn sóma sem kallaði á sviðsljós.

Kenning um réttlæti var skrifuð á árunum 1960–1970. Þá var háð römm barátta fyrir þegnréttindum blökkumanna vestan hafs, og önnur rammari gegn styrjöldinni í Víetnam. En Rawls blandaði sér ekki í eiginleg stjórnmál. Réttlætiskenning hans átti að höfða til allra manna, hvernig sem þá greindi á, og hún átti að henta margvíslegu þjóðskipulagi. Rawls vildi rekja frumskilyrði þess að hvaða mannlegt samfélag sem er geti heitið réttlátt samfélag.

Í Kenningu um réttlæti segir Rawls:

Réttlæti er höfuðkostur á stofnunum samfélags, eins og sannleikurinn er á kenningum. Það er sama hversu fögur og nýtileg kenning er: ef hún er ósönn verður að breyta henni eða hafna. Eins er um stjórnarskrár og stofnanir. Það er sama hversu haganlega þeim er fyrir komið, og hversu gagnlegar þær eru: ef þær eru ranglátar verður að breyta þeim eða bylta.1

En þá spyrjum við hvað réttlæti sé. Rawls telur það fólgið annars vegar í ýtrustu mannrétttindum, sem hann skýrði og varði með máttugri rökum en áður höfðu sézt, og hins vegar í jöfnuði.

Rawls orðar jafnaðarlögmál sitt á þessa leið:

Öll frumgæði mannlegs samfélags – frelsi og tækifæri, tekjur og auður og forsendur sjálfsvirðingar – eiga að skiptast jafnt á fólk nema því aðeins að ójöfn skipting einhverra eða allra þessara gæða sé þeim til hagsbóta sem verst eru settir.2

Galdurinn í bók Rawls er sá að þar reynir hann að sanna þetta jafnaðarlögmál með ströngum rökum. Sum af þessum rökum eru háfræðileg, og fræðimenn þreytast ekki á að fara í saumana á þeim. En önnur eru reist á heilbrigðri skynsemi einni saman. Ég get reynt að vekja hugboð um þau.

Lögmálið þýðir meðal annars, segir Rawls, að í menntamálum stefni réttlátt samfélag að því að bæta horfur slakasta námsfólksins sem mest.3 Við eigum aðeins að verja meira fé og fyrirhöfn í menntun bezta námsfólksins en í menntun hinna ef það er leið að þessu marki. Þetta kemur heim við þá heilbrigðu skynsemi að munur á náttúrlegum hæfileikum, eða forréttindi sem fólk er fætt til, er óverðskuldaður mannamunur. Því sé sanngjarnt að bæta þeim það upp sem fara illa út úr því happdrætti.

Eftir jafnaðarlögmálinu skipta hagsmunir hinna verst stöddu einir máli fyrir réttlætið. Segjum að hóparnir séu bara tveir, hæfileikafólk og hæfileikalaust. Kjör þeirra verða óhjákvæmilega ójöfn. Þá segir Rawls: Skipuleg samvinna hópanna er bersýnilega skilyrði þess að hvor þeirra um sig lifi bærilegu lífi í einu samfélagi. Báðir þurfa á hinum að halda. En við getum ekki ætlast til að allir taki þátt í þessari samvinnu nema skilmálarnir séu sanngjarnir. Af þessum ástæðum ætti hæfileikafólkið, ef það er skynsamt, að sætta sig við að allt sem það ber úr býtum umfram hina afskiptu ráðist af einum saman hag hinna afskiptu af þeim ójöfnuði.

Það eru engin þjóðfélög réttlát á byggðu bóli. Þess vegna verður að breyta þeim eða bylta.

 

Tilvísanir

1. A Theory of Justice, endurskoðuð útgáfa, Harvard University Press, Cambridge, Massachusetts 1999, §1, 3.

2. A Theory of Justice, fyrsta útgáfa, Clarendon Press, Oxford 1971, §46, 303.

3. A Theory of Justice, endurskoðuð útgáfa, §17, 86–89.

 

« Til baka

Ósennilegi byltingarmaðurinn

eftir Kristján G. Arngrímsson

Það hefur verið sagt um John Rawls að hann hafi valdið byltingu í heimspeki. Þetta hljómar einhvernveginn ósennilega – maðurinn á myndinni hér til hliðar (sem var tekin í mars 1990) lítur ekki út fyrir að vera byltingarmaður. En hvaða bylting var það þá sem Rawls olli?

Með skrifum sínum – þar tvímælalaust frægustum bókinni Kenning um réttlæti (A Theory of Justice) – sneri hann heimspekinni aftur að spurningunum sem hún í upphafi fékkst við, spurningum um rétt og rangt, gott og vont, það er að segja siðferðilegum spurningum.

Byltingarmaðurinn John Rawls lést á sunnudaginn, 81 árs að aldri. Talsmaður Harvard-háskóla, þar sem Rawls var lengst af prófessor, staðfesti tíðindin, en fréttastofan Associated Press segir ekkert hafa verið látið uppi um dánarorsökina. Þó væri vitað að Rawls hefði fengið röð heilaáfalla síðan um miðjan síðasta áratug, þótt hann hafi haldið áfram að skrifa og birta skrif sín fram á síðasta dag.

Í eftirmælum um Rawls, sem AP sendi út á mánudags­kvöldið, segir ennfremur að Rawls hafi með byltingu sinni „bjargað“ heimspekinni frá rökfræði- og vísindaspeki­spurningunum sem hún hafi verið orðin gagntekin af. Það er vísast að einhverjum þyki það hafa verið bjarnargreiði.

Ráðandi afl í heimspeki

Kenning um réttlæti kom fyrst út 1971 og þrjátíu og eitt ár er stuttur tími í fræðaheiminum – að ekki sé nú minnst á í heimspekisögunni – og því of snemmt að segja til um hvort það hafi verið heillaspor sem Rawls steig með þessari byltingu eða bara smáfeilspor sem heimspekin verði tiltölulega fljót að leiðrétta og jafna sig á.

En hinu verður ekki neitað að nafn Rawls trónir nú hærra en flest önnur nöfn í heimspeki Vesturlanda og allir sem koma nálægt því fagi verða að taka afstöðu til Rawls eða að minnsta kosti kunna hann til prófs. Því má hiklaust segja að hann sé ráðandi afl í heimspeki nú um stundir, hvað svo sem seinna kann að verða.

„Siðfræðingar og stjórnmálaheimspekingar gerðu sér fljótlega grein fyrir því að nú varð maður annaðhvort að vinna samkvæmt kenningu Rawls eða útskýra hvers vegna maður kaus að gera það ekki,“ sagði fyrrverandi nemandi hans, Andreas Föllesdal, í grein sem hann skrifaði í tilefni af áttræðisafmæli Rawls í fyrra og birtist hér í Lesbók (24. febrúar).

„Skrif hans munu ekki gleymast næstu áratugina eða næstu aldirnar, held ég,“ hefur AP eftir Hilary Putnam, kollega Rawls við Harvard. Og Joshua Cohen, prófessor við Massachusetts Institute of Technology, segir um mikilvægi kenninga Rawls: „Hann tengdi heimspekina við lýðræðið.“

Réttlátt samfélag

Kenning um réttlæti fjallar um það hvernig megi best skipuleggja mannlegt samfélag. Föllesdal segir að Rawls telji „að það sem ráði úrslitum um réttlátt samfélag sé það hvernig þeir verst settu hafa það“. Þarna mætti byggja á tiltölulega einfaldri reglu, sem höfundur eftirmælanna frá AP segir að hafi verið nefnd „Rawls-prófið“, og er svona: Skipulagið þarf að vera þannig, að þeir sem mest mega sín myndu samþykkja það, vitandi að þeir kynnu á hverri stundu að lenda sjálfir í sporum þeirra sem minnst mega sín.

En þetta eru einungis óhlutbundnar reglur, hugmyndir á bók. Hvernig myndu þær skila sér í raunveruleikanum? Föllesdal segir að Rawls hafi hafnað bæði algeru markaðsfrelsi og líka fullkomnum jöfnuði. „Í staðinn telur hann að stofnanir samfélagsins verði að tryggja jafnar ævitekjur óháð samfélagsstöðu, nema hagur þeirra verst settu verði bættur með því að einhverjir hafi hærri laun og stækki þannig „þjóðarkökuna“. Hærri laun fyrir sum störf eru því réttlætanleg, en aðeins ef slíkur launaauki er nauðsynlegur til að gera minnstu sneiðina af þjóðarkökunni eins stóra og hægt er.“

Illska mannanna

Rawls var Bandaríkjamaður, fæddur í Baltimore og nam við Princeton-háskóla. Hann var ekki bara á kafi í bókum og til marks um það hefur verið haft að honum bauðst einhverju sinni að gerast atvinnumaður í hafnabolta. Ekki fylgir sögunni hvort hann íhugaði alvarlega að taka því boði.

Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar barðist hann á Kyrrahafsvígstöðvunum. „Þar gerði hann sér grein fyrir því hvað mannskepnan getur unnið mikil illvirki,“ segir í eftirmælunum frá AP. Samt hefði Rawls alla ævi búið yfir því sem hann hefði kallað „raunsæja staðleysuhyggju“, og verið bjartsýnn á að mannkyninu gæti farið fram – og ekki bara í kenningasmíð.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgublaðsins 30. nóvember 2002.

 

« Til baka

Smíðisgripir Rawls og Kants

eftir Vilhjálm Árnason

Viðbragð við erindi Halldórs Guðjónssonar, „Gagnrýni opinberrar skynsemi“ á vegum Siðfræðistofnunar Háskóla íslands, Odda 101, 13. maí 1997.

Ég vil byrja á því að þakka Halldóri fyrir athyglisverðan fyrirlestur og Siðfræðistofnun fyrir að standa fyrir þessari samræðu.

Viðbrögð mín við fyrirlestrinum hnitast um einn meginpunkt sem Halldór nefndi í upphafi síns máls. Hann hefur þar eftir Rawls að kennisetningar þeirra Kants beggja séu smíðisgripir fremur en fundnir dýrgripir. Halldór gerir þetta réttilega að nokkru lykilatriði í sinni umfjöllun og í samanburði á þeim félögum Rawls og Kant. Mig langar til að leggja út af þessum punkti í viðbrögðum mínum hér og þá fremur til þess að hugsa áfram með Halldóri en gegn honum, þótt ég merki vissulega ákveðinn túlkunarágreining milli okkar um þetta efni.

Svo að ég hefji máls á þeim ágreiningi þá virðist mér hann liggja einkum í því að mér sýnist Halldór ganga of langt í því að telja þessa smíðisgripi „hugsmíðar einar og ekki neinn raunveruleika“, eins og hann kemst að orði á einum stað. Ég tek undir þessi orð Halldórs að því er varðar upphafsstöðuna og hið vel skipulagða samfélag í kenningu Rawls. Við finnum okkur aldrei í upphafsstöðunni né munum við ná að byggja hið vel skipulagða samfélag. Ágreiningurinn er fremur um stöðu kennisetninganna gagnvart raunveruleikanum ef svo má segja. Hér skiptir það meginmáli sem Halldór segir síðar í fyrirlestrinum að „kenningin öll er í huga Rawls vörn fyrir þá stjórnskipan og stjórnarhætti sem hann telur einkenna Vesturlönd og sögu þeirra á seinustu öldum“. Að mínu mati er þetta lykilatriði til skilnings á Rawls. En þá er það spurning hvaða skilning eigi að leggja í þau orð Halldórs að upphafsstaðan sé „uppspretta kennisetninganna“. Mér virðist að þessu sé eiginlega öfugt farið. Rawls hannar upphafsstöðuna sem leið til þess að gera skýra grein fyrir lykilhugmyndum þess siðferðilega og pólitíska veruleika sem vestrænt lýðræðissamfélag er. Þannig fer hann raunar að því „að verja og réttlæta“ – orð sem Halldór notar – þann stjórnmálaheim sem mótazt hefur sögulega í okkar heimshluta. En það mætti raunar líka orða þessa hugsun þannig að upphafsstaðan sé leið til að draga samkvæmar ályktanir af þeim hugmyndum sem stjórnmálaheimur okkar réttlætir sig með og hægt er að snúa gegn honum sjálfum. Þá eru þetta líka gagnrýnar viðmiðunarhugmyndir í skilningi Kants.

Höfuðatriðið í minni túlkun á Rawls, andspænis a.m.k. orðalagi Halldórs, er að ég lít ekki á kennisetningar hans sem smíðisgripi í þeim skilningi að þær séu einberar hugsmíðar sem hafa lítið með raunveruleikann að gera, heldur tel ég þær vera smíðisgripi í þeim skilningi að þær séu líkan sem draga fram þær hugmyndir um réttlæti sem liggja leynt og ljóst í lýðræðismenningunni eða því sem Rawls kallar „the public culture of a democratic society“.1 Í því samhengi segir hann orðrétt (í lauslegri þýðingu minni): „grundvallarinnsæið (fundamental intuitive idea) sem nær yfir allar mínar hugmyndir og þær eru kerfisbundið byggðar í kringum, er um samfélagið sem sanngjarna skipan á samvinnu milli frjálsra jafningja. Réttlæti sem sanngirni á rætur sínar í þessari hugmynd sem einum þeirra grunnþátta er felast í lýðræðismenningunni“.2 Efnið í smíðisgripinn er því fundinn dýrgripur í þeim skilningi að hann er sögulegur fjársjóður sem felst í sjálfum innviðum stjórnskipunar okkar. Upphafsstaðan og hið vel skipulagða samfélag eru síðan leiðir Rawls til að draga sjálfum sér samkvæmar og hugsanlega róttækar ályktanir af þessum hugmyndum.

Samkvæmt þessum lestri á Rawls eru innsæisrökin, ef svo má nefna þessa hugsun, meginrökin í kenningu hans og sáttmálarökin aðeins til útfærslu eða uppfyllingar á þeim.3 Þegar kenningin er skoðuð undir þessu sjónarhorni, þá dregur mjög úr frelsi þess eða þeirra sem eiga að hanna smíðisgripinn. Það gildir raunar um öll fræðileg líkön að þau eru endursmíð (rekonstruktion) þess sem leynist í veruleikanum sjálfum og draga það fram í hreinni mynd – ekki hugsmíðar (konstruktionir) sem hafa ekkert með raunveruleikann að gera. En nú kynnu menn að spyrja: Hvað verður um samningshugmyndina ef Rawls lætur sáttargjörðarmenn einungis sammælast um hugmyndir sem leynast þegar í lýðræðismenningunni? Til að svara því mætti rifja upp spurningu sem miðaldamenn veltu fyrir sér: Er athöfn rétt vegna þess að hún samrýmist vilja Guðs eða er hún Guði þóknanleg vegna þess að hún er rétt? Fyrri kosturinn leggur áherzlu á vilja Guðs sem hann hyggst fá framgengt meðal manna; síðari kosturinn leggur áherzlu á að rökin fyrir réttmæti athafna eru sjálfstæð gagnvart vilja Guðs en algóður vilji hans sé fólginn í því að lúta ávallt þeim rökum. Mér sýnist að þetta megi heimfæra á sáttargjörðarmenn undir fávísisfeldi. Lögmálin sem þeir komast að eru ekki réttlát vegna þess að þeir hafi ákveðið þau – þau séu þeirra smíðisgripir – heldur komast þeir að þessum niðurstöðum vegna þess að þeir sjá það óvenjuskýrt í hverju réttlætið er fólgið. Innsæi þeirra í þær hugmyndir sem búa í innviðum lýðræðislegrar stjórnskipanar er ótruflað af sérhagsmunagæzlu okkar dauðlegra manna. Þetta er því ekki sammæliskenning um réttlætið í þeim skilningi að réttlæti sé það sem sáttargjörðarmenn sammælast um; ég kýs frekar að segja að sammælið sé leið Rawls til að sýna fram á að það réttlæti sem lýðræðishefð hins borgaralega samfélags hefur borið fram – og felst öðru fremur í hugmyndinni um siðferðilegan jöfnuð og kröfunni um að skapa öllum jöfn tækifæri – sé sanngjörn, jafnframt því sem hún er leið til að sýna fram á hvaða ályktanir okkur ber að draga af þessum hugmyndum.

En nóg um Rawls í bili – hvað með kenningu Kants í þessu tilliti? Svo gripið sé aftur til hinnar upphaflegu líkingar: Eru grundvallarkennisetningar hans smíðisgripir fremur en fundnir dýrgripir? Sjálfur talar Kant reyndar um hinn góða vilja líkt og gimstein sem glói í mannsorpinu og mætti því segja að væri vandfundinn dýrgripur. En um þennan dýrgrip hverfist kenningasmíð Kants í siðfræðinni. Um hana komst Halldór svo að orði undir lok fyrirlestrarins: „Í Grundlegung finnur Kant hið æðsta siðaboð ef svo má segja á vettvangi mannlegra athafna og í reynslu manna. Hann skoðar nokkur mikilsverð og uppljómandi dæmi sem sýna siðaboðið að verki og dregur siðaboðið sem aðleiðsluniðurstöðu af þessum dæmum.“ Af þessum orðum mætti reyndar ráða að kenning Kants væri alls enginn smíðisgripur, heldur einungis fundið fé og það ekkert sérlega dýrmætt. Ég held þó að siðakenning hans – einkum og sér í lagi í Grundlegung – sé smíðisgripur í svipuðum skilningi og réttlætiskenning Rawls, það er að segja endursmíð á grunnforsendum siðferðilegra athafna. Leið Kants er sú – líkt og Halldór benti á – að líta á hversdagslegar hugmyndir okkar um siðferðilega breytni, en í stað þess að leiða siðaboðið með aðleiðslu af þessum dæmum, þá spyr hann hver séu skilyrði þess að slík breytni sé möguleg. Þetta er reyndar dæmigerð kantísk spurning. Siðfræðikenning hans íGrundlegung er skipuleg viðleitni til að draga fram og skýra þær forsendur sem við göngum leynt og ljóst út frá þegar við fellum dóma um siðferðisgildi athafna. Útkoman er hátimbruð kenningasmíð og þegar upp er staðið ber smíðisgripurinn lítinn svip af þeim raunveruleika sem efnað var til hans úr – en hann varpar engu að síður svo skýru ljósi á hann að það glittir í gimsteininn sjálfan.

En þótt þessi forsendugreining eigi sér útgangspunkt í hverdagslegum staðreyndum um siðferðislíf okkar – ekki sízt þeirri að við lofum þær athafnir sem virðast vera framkvæmdar af óeigingjörnum hvötum – þá er hún á engan hátt bundin þessum staðreyndum í þeim skilningi að hún verði felld með gagndæmum úr reynslu. Grundvallarkennisetningar í siðfræði Kants – lögmál frelsisins sem hann kallar svo – eru því ekki sambærilegar við náttúrufræðilegar staðhæfingar sem hægt er að sanna eða afsanna með vísun til reynslu heldur eru þær sambærilegar við grundvallarforsendur náttúruvísinda sem ekki verða sannaðar þótt við hljótum að ganga út frá gildi þeirra.

Mér virðist að tengsl smíðisgrips Kants og þess siðferðilega raunveruleika sem hann á rætur í séu mun flóknari en tengslin á milli kennisetninga Rawls og vestrænnar stjórnskipunar. Samanburður á þeim tengslum sem slíkum er heldur ekki vænlegasta leiðin til að bera saman kenningar þeirra Kants og Rawls. Því þótt þeir eigi vissulega margt sameiginlegt í aðferðafræðilegu tilliti, þá sameinast þeir ekki síður í efninu – eða ætti ég kannski að segja í andanum. Tvö örstutt atriði um þetta í lokin. Fyrra atriðið er að í réttlætiskenningu sinn dregur Rawls fram kjarnann í pólitískri hefð Vesturlanda og endursmíðar hann í hreinni mynd; í siðfræðikenningu sinni dregur Kant fram kjarna þeirrar siðferðishefðar sem mótazt hefur í kristinni menningu og skýrir þær forsendur sem hún gengur úfrá. Síðara atriðið sem ég vildi nefna er að í báðum kenningunum kristallast hugmyndin um siðferðilegan jöfnuð einstaklinganna og krafan um að fylgja lögmálum sem gilda jafnt fyrir alla. Þar með leggjast þeir á eitt við að fága þá gimsteina sem fólgnir eru í lýðræðismenningu okkar en oft er erfitt að koma auga á í mannsorpinu.

 

Tilvísanir

1. John Rawls, „Justice as Fairness: Political not Metaphysical“, Philosophy and Public Affairs 14/3, nmgr. 14.

2. Sama rit, s. 231.

3. Sbr. Will Kymlicka, Contemporary Political Philosophy. An Introduction (New York: Oxford University Press 1990), s. 69.

 

« Til baka