Inngangur að heimspeki

Bryan Magee og Isaiah Berlin ræða saman

Inngangur

Magee Í upphafssamræðunni í þessari þáttaröð er ætlunin að glíma við nokkrar grundvallar­spurningar. Hvers vegna skyldi maður hafa áhuga á heimspeki yfirleitt? Hvers vegna skiptir hún máli? Hvað er hún, nákvæmlega?

Heimspekingurinn sem ég hef boðið til að ræða þessar spurningar hefur getið sér alþjóðlegan orðstír. Hann er Sir Isaiah Berlin, félagi í Allra sálna garði í Oxford, ævisöguritari Karls Marx og sérstaklega nafntogaður fyrir þekkingu á hugmyndasögunni.1

UMRÆÐA

Magee Hvaða ástæðu getur þú gefið manni til að fá áhuga á heimspeki ef hann hefur ekki þegar fengið hann af sjálfsdáðum eða með atbeina skólakerfisins?

Berlin Ja, í fyrsta lagi eru heimspekilegar spurningar áhugaverðar í sjálfum sér. Þær fjalla oft um ósagðar forsendur sem margar venjulegar skoðanir byggjast á. Fólk vill ekki að forsendur þess séu rannsakaðar um of – því fer að líða illa þegar það er látið kanna á hverju skoðanir þess byggjast í raun og veru – en í reynd eru forsendur margra venjulegra skoðana sem teljast til almennrar skynsemi efni í heimspekilega greiningu. Þegar þær eru kannaðar á gagnrýninn hátt reynast þær stundum langtum ótraustari og merking þeirra og það sem í þeim felst miklu óljósara en virtist við fyrstu sýn. Með því að rannsaka þær auka heimspekingar sjálfsþekkingu manna.

Magee Okkur finnst öllum óþægilegt að láta kanna forsendur okkar út fyrir viss mörk og handan þeirra marka streitumst við öll á móti því. Hvers vegna erum við svona?

Berlin Ég býst við að það sé sumpart af því að fólki finnst ekki gott að láta rekja sig sundur um of – að láta afhjúpa rætur sínar og skoða þær nákvæmlega – og sumpart vegna þess að athafnaþörfin sjálf útilokar svona lagað. Sé maður virkur þátttakandi í einhverju samfélagi er það hamlandi og kannski að lokum lamandi ef stöðugt er verið að spyrja: „Hvers vegna gerirðu þetta? Ertu viss um að markmiðin sem þú stefnir að séu sönn markmið? Ertu viss um að það sem þú ert að gera brjóti ekki á einhvern hátt í bága við siðareglur eða lífsreglur eða hugsjónir sem þú mundir segja að þú tryðir á? Ertu viss um að sum af gildum þínum rekist ekki hvert á annars horn og að þú viðurkennir það ekki fyrir sjálfum þér? Þegar þú ert flæktur í einhvers konar vandræði ertu þá ekki stundum svo hræddur við að horfast í augu við þau að þú lítur undan og reynir að koma ábyrgðinni af þér yfir á eitthvert breiðara bak – ríki, kirkju eða stétt eða einhvern annan félagsskap sem þú tilheyrir – kannski yfir á hinar almennu siðareglur venjulegs, heiðvirðs fólks – en ættirðu ekki sjálfur að hugsa vandræðin til enda?“ Of mikið af þessu dregur kjark úr fólki eða pirrar það, grefur undan sjálfstrausti þess og skapar auðvitað mótspyrnu.

Platon lætur Sókrates segja að órannsakað líf sé ekki þess virði að lifa því. En væru allir þjóðfélagsþegnar efagjarnir menntamenn sem sífellt væru að rannsaka forsendur skoðana sinna yrði yfirleitt ekkert úr framkvæmdum. Séu forsendur samt ekki kannaðar, og látnar eiga sig, geta samfélög steinrunnið: skoðanir verða að kreddum, ímyndunaraflið brenglast, hugsunin verður ófrjó. Samfélögum getur hnignað sem afleiðing þess að leggjast til svefns í þægilegu rúmi einhverrar kreddu sem ekki hefur verið dregin í efa. Eigi að hreyfa við ímyndunaraflinu, eigi vitsmunirnir að starfa, eigi andlegt líf ekki að fjara út og eftirsókn eftir sannleik (eða réttlæti eða lífsfyllingu) ekki að stöðvast, verður að draga ósagðar forsendur í efa og véfengja það sem tekið er sem gefið fyrirfram – alltént nægilega mikið til að halda samfélaginu á hreyfingu. Menn og hugmyndir þokast að nokkru leyti áfram með föðurmorði þar sem börnin drepa, ef ekki feður sína, þá að minnsta kosti skoðanir feðra sinna og mynda sér nýjar skoðanir. Á þessu byggist þróun, framför. Og í þessu ferli hafa þeir algeru lykilhlutverki að gegna sem spyrja þessara truflandi spurninga og eru gífurlega forvitnir um svörin. Yfirleitt eru ekki margir slíkir einstaklingar í nokkru samfélagi. Þegar þeir stunda þessa iðju skipulega og markvisst og beita röklegum aðferðum sem eru sjálfar opnar fyrir gagnrýninni rannsókn eru þeir kallaðir heimspekingar.

Magee Geturðu gefið einhver dæmi um forsendur sem þörf er á að véfengja?

Berlin Samræður Platons eru elsta og frjóasta heimildin um umræðu um grundvallargildi, viðleitni til að draga í efa hefðbundna visku. Allir góðir heimspekingar hafa gert þetta. Og maður finnur dæmi um þetta í skáldsögum eða leikritum eftir höfunda sem fjalla um slík efni – hugsaðu til aðalpersónanna í leikritum Ibsens, Við upphafið (On the Eve) eftir Turgenjev eða Lengstu ferðinni(The Longest Journey) eftir E. M. Forster. En ef til vill er þekktustu dæmin að finna í stjórnmálaheimspeki eða siðfræði nútímans. Tökum til að mynda tal um frelsi eða tal um jafnrétti (sem heimurinn er um þessar mundir fullur af). Tökum formálsorðin að Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna. Ég man þau ekki orðrétt …

Magee „Við teljum þessi sannindi vera augljós að allir menn séu skapaðir jafnir, að þeir séu frá skaparans hendi gæddir tilteknum óafsalanlegum réttindum, að meðal þessara réttinda séu líf, frelsi og hamingjuleit . . .“

Berlin Þakka þér fyrir. Réttindi, gott og vel. Hvað eru réttindi? Spyrjirðu venjulegan borgara hvað réttindi séu nákvæmlega vefst honum tunga um tönn, hann getur ekki gefið skýrt svar. Hann kann að vita hvað það er að traðka á réttindum einhvers eða að réttur hans sjálfs til einhvers sé virtur að vettugi, en hvað er það nákvæmlega sem verið er að traðka á eða virða ranglega að vettugi? Er það eitthvað sem maður ávinnur sér eða hlotnast við fæðingu? Er það eitthvað sem er stimplað á mann? Er það eitthvert eðliseinkenni mannveru? Er það eitthvað sem einhver hefur gefið manni? Ef svo er, hver? Og hvernig? Er hægt að veita réttindi? Verða þau afnumin? Af hverjum? Með hvaða rétti? Eru til réttindi til að veita eða ógilda önnur réttindi? Hvað merkir það? Getur maður misst réttindi? Eru til réttindi sem eru snar þáttur af eðli manns á sama hátt og hugsun er, eða það að geta andað eða valið milli þessa eða hins? Er það þetta sem átt er við með náttúrlegum réttindum? Sé svo, hvað er átt við með ‘náttúru’ í þessu sambandi? Og hvernig veit maður hver slík réttindi eru?

Menn hafa verið mjög ósammála um hvað réttindi séu. Tökum til dæmis sautjándu öldina þegar mikið var talað um réttindi. Þess ber að minnast að það var borgarastríð í Englandi þar sem eitt aðaldeilumálið snerist um það hvort guðlegur réttur konunga væri til. Við erum mjög vantrúuð á þetta nú á dögum en auðsætt er að til voru menn sem trúðu á þennan rétt. Þeir trúðu því að konungar væru sérstakar verur sem Guð hefði gætt sérstökum réttindum. Það voru til aðrir menn sem trúðu því að engin slík réttindi væru til, að þau væru einber uppspuni guðfræðinga eða skálda. Hvernig rökræddu þeir? Hvers konar röksemdir kom hvor deiluaðilinn um sig með? Hvers konar röksemdir sannfærðu fólk? Undir lok sautjándu aldar var franskur rithöfundur sem velti þessu fyrir sér: Ef Frakklandskonungur hefði hug á að framselja einhverja þegna sína til Englandskonungs hvað mundu þessir þegnar hugsa um framsalið. Og svar hans var í raun að þeir hefðu engan rétt til að hugsa; þeir ættu bara að hlýða; þeir væru þegnar; konungurinn hefði fullkominn rétt til að gera við þegna sína það sem honum þóknaðist. Sjálf hugmyndin að hægt væri að leyfa þeim að hugsa um, eða jafnvel draga í efa, ákvarðanir hans jaðraði við guðlast. Jæja, við vísum þessu á bug, en þetta var samt nokkuð sem var viðurkennt af fjölda fólks sem trúði á stigveldi – að hinn andlegi heimur, jafnt sem efnisheimurinn, væri lagskipt bygging. Hver mannvera ætti sína réttu stöðu í þessari stigveldisheild og ætti að gegna þeim hlutverkum sem staða hennar í hinum mikla samfélagspýramída krafðist. Þetta er nokkuð sem fólk trúði á öldum saman. Síðan komu hugsuðir sem neituðu þessu og sögðu að ekkert slíkt stigveldi væri til, að menn væru jafnir, þeir líktust hver öðrum við fæðingu og væru allir gæddir tilteknum náttúrlegum þörfum, hæfileikum og löngunum, og allir hefðu tiltekin óhagganleg náttúrleg réttindi. Hvað snerti þessi réttindi væru þeir jafnir. Kjarni málsins hjá mér er að þær tegundir röksemda sem hægt er að færa fram fyrir báða málsaðila í deilu af þessu tæi eru tilhlýðilegt heimspekilegt viðfangsefni. Hvaða önnur fræðigrein en heimspekin gæti fjallað um þær? Og þetta eru grundvallarmál sem hafa valdið mönnum miklum áhyggjum lengi, mál sem blóðugar styrjaldir hafa verið háðar út af og byltingar hafa verið gerðar í nafni þeirra.

Magee Ég er viss um að margir mundu segja: „Nú já, það sem þú segir er satt en samt sem áður er það allt í rauninni bara orðaskak. Það er allt saman sértekningar. Maður þarf ekki að íþyngja höfðinu með öllu þessu til þess að lifa lífinu – það kemur raunverulegu lífi, daglegu lífi, ekkert við – og því meir sem maður flækist í svona nokkuð því óhamingjusamari verður hann.“

Berlin Já, það kann að gera mann óhamingjusamari en samt sem áður er til fólk sem vill í raun og veru pæla í þessum hlutum. Það langar til að vita hvers vegna það lifir eins og það lifir og hvers vegna það ætti að gera það. Þetta er öldungis náttúrleg mannleg löngun sem sumar hugmyndaríkustu, greindustu og gáfuðustu manneskjurnar skynja dýpst. Vissulega er það orða­skak – en þá er þess auðvitað að gæta að orð eru ekki bara orð, spilapeningar í einhverjum textafræðilegum leik. Orð tjá hugmyndir. Málið vísar til reynslu og tjáir hana og umbreytir henni.

Magee Þú hefur gefið mér dæmi um heimspekilegar spurningar um stjórnmál með því sem þú sagðir um réttindi. Geturðu nú gefið einfalt dæmi um heimspekilega spurningu sem er siðferðileg til aðgreiningar frá spurningu um stjórnmál?

Berlin Jæja, ég skal segja þér sögu sem maður nokkur sagði mér um reynslu sína í seinni heimsstyrjöldinni. Hann var breskur leyniþjónustufulltrúi í Frakklandi sem undir styrjaldarlok þurfti að yfirheyra franskan svikara sem franska andspyrnuhreyfingin hafði handsamað. Svikarinn hafði unnið fyrir Gestapó og andspyrnuhópurinn var í þann veginn að taka hann af lífi. Breski leyniþjónustufulltrúinn bað um leyfi til að yfirheyra hann fyrst af því að hann hafði ástæðu til að halda að maðurinn kynni að búa yfir upplýsingum sem gætu hjálpað til við að bjarga saklausu fólki frá dauða eða pyndingu. Nú, hann fór að hitta þennan Gestapónjósnara, kornungan mann, sem sagði við hann: „Hvers vegna ætti ég að svara spurningum þínum? Ef þú getur lofað mér að ég haldi lífi, skal ég svara. En ég veit að þessir menn ætla að drepa mig á morgun og ef þú getur ekki lofað mér að ég haldi lífi hví í ósköpunum ætti ég þá yfirleitt að tala?“ Hvað hefði breski fulltrúinn átt að gera í þessum kringumstæðum? Skylda hans sem fulltrúi leyniþjónustunnar var að toga út eins miklar upplýsingar og hann gat – líf margra einstaklinga kunni að vera undir því komið – en hann gat þó aðeins gert þetta með því að ljúga. Það hefði ekkert gagnað að segja: „Ég skal gera það sem ég get til að fá þá til að þyrma lífi þínu“, eða eitthvað í þeim dúr. Hann vissi að hann gat ekkert gert til að forða manninum frá aftöku og maðurinn hefði séð í gegnum alla viðleitni til að komast hjá að gefa afdráttarlaust loforð. Hefði fulltrúinn sagt hiklaust: „Ef þú talar við mig skal ég bjarga lífi þínu“, þá hefði ungi maðurinn bölvað honum í sand og ösku þegar hann uppgötvaði að hann hafði verið blekktur.

Þetta virðist mér vera dæmi um siðferðilegt vandamál, þess háttar mál sem siðferði snýst um. Nytjahyggjumaður kynni að segja: „Auðvitað verðurðu að segja ósatt ef líkur eru til að það auki mannlega hamingju eða dragi úr mannlegri óhamingju.“ Sömu niðurstöðu kæmust þeir að sem telja hermannaskyldu eða skyldu við föðurlandið til æðstu gilda, einkum á ófriðartíma. En önnur atriði kunna að koma til: skilyrðislaus trúarleg boðorð; rödd samviskunnar; samband manns við mann: Hvernig er hægt að segja manni sem er dæmdur til dauða voðalega lygi? Hefur hegðun hans svipt hann öllum rétti til að farið sé með hann eins og mannveru? Er ekki til eitthvað sem maðurinn á skilyrðislausan rétt á að krefjast? Ein af söguhetjum Dostojevskís segir að væri hann spurður hvort hann væri reiðubúinn að kaupa hamingju milljóna manna því verði að eitt saklaust barn væri pyndað mundi hann hafna því. Var svar hans augljóslega rangt? Nytjahyggjumaður mundi neyðast til að segja: „Já, það var augljóslega rangt – tilfinningasamt og rangt.“ En vitan­lega erum við ekki öll sama sinnis. Sum okkar telja að maður hafi fullkominn rétt til að segja: „Ég mun ekki pynda saklaust barn. Ég veit ekki hvað gerist næst, en það eru vissir hlutir sem enginn má gera, sama hvað það kostar.“

Nú, hér stangast á tvö heimspekileg viðhorf. Annað er kannski, í göfugustu merkingu, nytjahyggjulegt (eða þjóðræknislegt), hitt byggist á viðurkenningu á algildum, altækum reglum. Það er ekki í verkahring siðfræðingsins að fyrirskipa manni hvort þessara grundvallarviðhorfa hann eigi að tileinka sér: en honum ber að útskýra fyrir honum um hvaða málefni og gildi er að ræða, að kanna og leggja mat á rökin með og móti ýmsum niðurstöðum, að gera ljósa þá lífshætti sem hafa rekist á, þau lífsmarkmið sem hann verður að velja milli, og ef til vill hvað það kostar. Að lokum verður maðurinn auðvitað að taka á sig persónulega ábyrgð og gera það sem hann telur vera rétt. Val hans verður skynsamlegt ef hann gerir sér grein fyrir forsendunum sem það byggist á og frjálst ef hann hefði getað valið öðruvísi. Að velja þannig getur verið mikil kvöl. Að hlýða skipunum hugsunarlaust er auðveldara.

Magee Eitt gott við dæmin um siðferðileg og pólitísk vandamál sem þú varst að gefa er að það er öldungis ekkert málvísindalegt við þau. Ég vildi að því væri oftar þannig háttað um vandamálin sem siðfræðingar rökræða á prenti – alltént þar til nú fyrir stuttu. Eitt sem vekur furðu margra leikmanna sem reyna að lesa heimspeki og gerir marga afhuga henni er sú uppgötvun að svo mikið af heimspekilegri umræðu snýst um orð, um tungumálið. Geturðu útskýrt, með orðalagi sem mundi réttlæta það fyrir leikmanni, hvers vegna þessu er svona farið?

Berlin Ég skal gera mitt besta. Nútímaheimspekingar, sumir þeirra, hafa gert sjálfum sér óleik, að því er almenning áhrærir, með því að halda því fram að þeir fáist aðallega við tungumálið. Fólk heldur að þá hljóti að vera eitthvað ómerkilegt við það sem þeir gera – að þeir fáist við málið í sama skilningi sem orðabókahöfundar eða málfræðingar eða málvísindamenn, og ef svo er, séu orðabókahöfundarnir og málfræðingarnir betri í því. Samt eru þeir að fást við málið vegna þess að þeir álíta að við hugsum í orðum, að orð séu stundum sjálf athafnir og að þess vegna sé rann­sókn á málinu rannsókn á hugsuninni, reyndar á lífsviðhorfum, lífsháttum. Þegar maður stendur andspænis þessum erfiðu heimspekilegu spurningum sem ekkert augljóst svar er við getur hann byrjað með því að spyrja sig: „Hvers konar spurning er þetta? Hvers konar svari erum við að leita að? Líkist hún þessari tegund spurningar eða líkist hún hinni? Er það spurning um staðreynd? Er það spurning um rökfræði, um vensl milli hugtaka? Eða sambland af þessu? Eða líkist hún engu af þessu? Þessi flokkun á hugtökum er allerfið, en allir góðir heimspekingar hafa gert þetta og eru að gera það, hvað svo sem þeir kunna að kalla það. Það er ekkert rangt við að kalla þetta að skýra málfarslegan rugling – nema hvað það hefur villt um fyrir hinum óvarkáru eða illviljuðu. Ruglingur af þessu tæi getur leitt til óskýrleika í hugsun – sem getur svo aftur leitt til villimennsku í verki.

Magee Skoðanir nasista á kynstofnum byggðust á margs konar ruglingi, þar með töldum ruglingi af þessu tæi, var það ekki?

Berlin Jú – þessi ruglingur var sumpart byggður á reynslu, sumpart ekki. Sjálf hugmyndin um óæðri mann – sú hugmynd að til séu tilteknar óæðri mannverur – gyðingar, sígaunar, slavar eða svertingjar, eða hver sem væri, og að samfélaginu stafi ógurleg hætta af þeim og þess vegna ætti að útrýma þeim – þessi hryllilega sannfæring byggðist án efa að hluta til á ósönnum skoðunum á því hvers eðlis atferli þessa fólks er. En hugmyndin um óæðra mannkyn, um hvað það merkir að vera af óæðra kyni og, í sambandi við þetta, hvað við eigum við með orðinu ‘mannlegur’, hvað mannlegt eðli er, hvað gerir mannveru að mannveru, hvað það er að vera óæðri og æðri, og vitanlega hvað leiðir af því, hvað réttlætir að pynda eða drepa hina ‘óæðri’ – þetta eru heimspekilegar spurningar, ekki reynsluspurningar. Þeir sem kvarta yfir því að þær séu léttvægar, einber könnun á máli og málnotkun, ættu að íhuga að líf fólks var – og er enn – undir þeim komið.

Magee Sumir málspekingar hafa haldið því fram að með því að sundurgreina málnotkun okkar séu þeir að leysa okkur úr álögum málsins. Með öðrum orðum séu það ekki þeir sem eru í álögum þess, heldur við.

Berlin Vissulega. Ég mundi segja að þetta væri eitt af því gagnlegasta sem þeir gera fyrir mannkynið. Þetta er ástæða þess að þeir eru álitnir hættulegir menn af þeim sem vilja að upprunalegri notkun málsins sé haldið og óttast að sundurgreining á málinu dragi úr áhrifamætti þess. Það var þýska skáldið Heine sem sagði okkur að virða ekki að vettugi hinn hægláta heimspeking í vinnustofu sinni vegna þess að hann getur verið áhrifamikil og ógnvekjandi persóna. Og að telja hann ekkert annað en meinlausan lærdómsfausk sem fæst við mörg ómerkileg verkefni sé að vanmeta mátt hans. Hefði Kant til að mynda ekki dregið guð rökhyggjuguðfræðinganna í efa gæti verið að Robespierre hefði ekki látið hálshöggva konunginn. Heine varaði Frakka, sem hann átti þá heima hjá, við því að þýsku hughyggjufrumspekingarnir – fylgismenn Fichte, Schellings og þeirra líka – væru ofstækistrúarmenn sem létu hvorki ótta né nautnalöngun aftra sér og mundu einn góðan veðurdag rísa upp í hamslausri heift og leggja vestræna siðmenningu í rúst. Hann lýsti því yfir að þegar þetta mikla frumspekilega áhlaup steypti Evrópu út í styrjöld og eyðileggingu mundi franska byltingin virðast barnaleikur einn. Heine var ekki í neinum vafa, því hann hafði upplifað það sjálfur, um að máttur heimspekilegra eða frumspekilegra hugmynda (til dæmis hugmynda Hegels sem hann sótti fyrirlestra hjá) getur verið mjög mikill – óbeinn en víðtækur, að heimspekingar væru ekki meinlausir froðusnakkar heldur mikið afl til góðs og ills, meðal ægilegustu óviðurkenndu löggjafa mannkyns.

Magee Og allt vegna orða sem þeir skrifa á pappír eða láta út úr sér í fyrirlestrum. Hvernig tungumál og veruleiki tengjast í og gegnum heimspekilega iðju er mikil ráðgáta. Jafnvel þegar um er að ræða spurningar sem virðast vera blátt áfram eins og „Hvað er réttur?“ sem þú notaðir áðan sem dæmi: Er maður að spyrja út í merkingu orðs eða er maður að spyrja út í eðli óhlutbundins fyrirbæris sem er til á einhvern hátt jafnvel þótt það sé óhlutbundið? Hvers konar spurning er spurningin „Hvað er réttur?“

Berlin Það sem þú ert að segja, held ég, er þetta: „Hvernig komumst við að því hvers konar röksemdir mundu fá mann til að fallast á þá staðhæfingu að hann hafi tiltekinn rétt – segjum, rétt á hamingju – eða á hinn bóginn að hann hafi hann ekki?“ Mig rámar í að hafa lesið einhvers staðar að þegar maður nokkur sagði við Lúter að menn ættu rétt á hamingju, eða að markmið lífsins væri hamingja, hafi hann sagt: „Hamingja? Nei! LeidenLeidenKreuz! Kreuz!“ („Þjáning, þjáning; krossinn, krossinn“.) Þetta er kjarni vissra tegunda kristinnar trúar, ein dýpsta sannfæringin, veruleikasýn, sem mikill fjöldi fólks með fullu viti hefur byggt líf sitt á. Þetta er vissulega ekki ómerkilegt. Maður getur sagt að verið sé að fást við orð – lykilorð, en orð engu að síður. Maður getur sagt að við séum aðeins að spyrja „Hvað merkir orðið ‘kross’? Hvað merkir orðið ‘þjáning’?“ En það er ekki málið. Við erum ekki málfræðingar, við erum ekki orðabókahöfundar. Til þess að komast að raun um hvað þessi orð merktu fyrir Lúter eða aðra honum líka, hvað þau merkja íþessari merkingu orðsins ‘merkja’, er gagnslaust að fletta þeim upp í orðabók.

Magee En spurningin er ekki enn alveg ljós. Sé maður ekki að reyna að komast að merkingu þeirra í þeirri merkingu, hvert nákvæmlega er þá eðli þess, hvað svo sem það er, sem hann er að reyna að komast að? Þegar allt kemur til alls hafa sumir mestu snillingar mannkynssögunnar verið að pæla í spurningum af þessu tæi í tvö eða þrjú þúsund ár, en samt án þess að komast að neinum almennt viðteknum niðurstöðum. Þetta bendir alltént til þess að spurningarnar séu eitthvað sérstakar, svo ekki sé meira sagt. Kannski er ekki hægt að svara þeim. Kannski er það ekki til sem maður er að leita að.

Berlin Ja, við skulum spyrja okkur: „Hvers konar spurningum er hægt að svara?“ Með nokkurri ofureinföldun mætti segja að það séu tveir stórir málaflokkar sem hægt er að segja nokkuð ákveðið um að hægt sé að gera út um – að minnsta kosti fræðilega séð ef ekki alltaf í reynd. Annar flokkurinn er flokkur venjulegra reynsluspurninga, spurninga um hvað sé til í heiminum, hluti af því tæi sem venjuleg athugun eða raunvísindi fást við. „Eru til svartir svanir í Ástralíu?“ Já, þeir eru til; þeir hafa sést þar. „Úr hverju er vatn myndað?“ „Það er myndað úr ákveðnum tegundum sameinda.“ „Og sameindirnar?“ „Þær eru myndaðar úr frumeindum.“ Hér erum við í ríki sannreynanlegra, eða alltént afsannanlegra, fullyrðinga. Almenn skynsemi fer líka svona að: „Hvar er osturinn?“ „Hann er í skápnum.“ „Hvernig veistu það?“ „Ég hef gáð.“ Þetta telst fullkom­lega nægilegt svar við spurningunni. Í venjulegum kringumstæðum mundi ég ekki efast um þetta, og þú ekki heldur. Þetta eru kallaðar reynsluspurningar, spurningar um staðreyndir sem er gert út um annaðhvort með venjulegri almennri skynsemi eða, í flóknum tilvikum, með haminni athugun, með tilraun, með því að staðfesta tilgátur og svo framvegis. Þetta er ein tegund spurninga.

Svo er önnur tegund spurninga – sú tegund sem stærðfræðingar eða rökfræðingar spyrja. Þar samþykkir maður tilteknar skilgreiningar, tilteknar ummyndunarreglur um hvernig eigi að leiða út setningar af öðrum setningum, og reglur um afleiðslu sem gera manni kleift að leiða niðurstöður af forsendum. Og það er líka mengi reglna sem hægt er að prófa rökvensl setninga með. Þetta gefur manni alls engar upplýsingar um heiminn. Ég á við formlegar greinar sem virðast algerlega aðskildar frá spurningum um staðreyndir: stærðfræði, rökfræði, leikjafræði, skjaldarmerkjafræði. Maður finnur ekki svarið með því að líta út um gluggann eða á skífu, horfa í sjónauka eða gá í skápinn. Ef ég segi þér að kóngurinn í skák gangi bara einn reit í einu þýðir ekkert fyrir þig að segja: „Jæja, þú segir að hann gangi bara einn reit í einu en kvöld eitt var ég að horfa á taflborð og sá kónginn ganga tvo reiti.“ Þetta teldist ekki afsönnun á staðhæfingu minni vegna þess að það sem ég er í raun og veru að segja er að það sé regla í skák að kóngnum sé aðeins leyft að ganga einn reit í einu, að öðrum kosti sé reglan brotin. Og hvernig veistu að reglan er sönn? Reglur eru ekki yrðingar af því tæi sem geta verið sannar eða ósannar, ekki frekar en skipanir eða spurningar. Þær eru einfaldlega reglur: Annaðhvort viðurkennir maður þessar reglur eða hann viðurkennir einhverjar aðrar. Hvort slíkt val er frjálst eða ekki, og hver sé staða þessara reglna, eru heimspekilegar spurningar, hvorki háðar reynslu né formlegar. Ég skal reyna að útskýra hvað ég á við eftir andartak.

Eitt aðaleinkenni þeirra tveggja tegunda spurninga sem ég hef nú nefnt er að til séu afgerandi og skýrar aðferðir til að finna svörin. Það getur verið að maður viti ekki svarið við reyndarspurningu en hann veit hvers konar svar hæfir spurningu af þessari gerð, hvar hugsanleg svör er að finna. Ef ég spyr: „Hve lengi lifði Sesar?“ getur verið að þú vitir ekki hve mörg ár hann lifði en þú veist hvernig á að fara að til að komast að því. Þú veist hvers konar bókum á að fletta upp í. Þú veist hvers konar heimild væri heimild fyrir svarinu. Ef ég spyr: „Eru ófleygir fuglar í Thailandi?“ veistu kannski ekki svarið en þú mundir vita hvað þyrfti að gera til að komast að því. Sama á við um stjörnufræði. Þú veist ekki hvernig hin hliðin á einhverri fjarlægri plánetu lítur út af því að þú hefur aldrei séð hana en þú veist að gætirðu flogið þangað, eins og nú er hægt að fljúga til tunglsins, mundirðu kannski sjá það. Í formlegum fræðigreinum eru líka óleyst vandamál, en þar eru líka viðteknar aðferðir til að leysa þau. Maður veit að ekki er hægt að leysa stærðfræðiþraut með því að horfa, snerta eða hlusta. Sömuleiðis gefur algebrurökleiðsla ein og sér ekki svör á reynslusviðinu. Mörkin sem ég hef dregið milli þessara sviða eru of skörp: Tengslin milli lýsandi staðhæfinga og formlegra eru í raun töluvert flóknari, en að orða þau á þennan afdráttarlausan hátt dregur fram það atriði sem ég vil leggja áherslu á. Það er þetta: Milli þessara tveggja flokka spurninga eru aðrar spurningar sem ekki er hægt að svara á annan hvorn veginn. Það eru margar slíkar spurningar og þar á meðal eru heimspekilegar spurningar. Fljótt á litið virðist mér eitt af aðalsmerkjum heimspekilegrar spurningar vera þetta: maður veit ekki hvar skal leita að svarinu. Einhver segir við þig: „Hvað er réttlæti?“ eða „Ræðst sérhver atburður af undanfarandi atburðum?“ eða „Hver eru markmið mannlífsins? Ættum við að sækjast eftir hamingju eða stuðla að félagslegum jöfnuði, réttlæti, guðsdýrkun eða þekkingu – jafnvel þótt þetta leiði ekki til hanmingju?“ Nákvæmlega hvernig fer maður að því að svara þessum spurningum? Eða gerum ráð fyrir að einhver sem hneigist til að hugsa um hugmyndir segi við mann: „Hvað áttu við með ‘raunverulegur’? Hvernig greinirðu milli raunveruleika og sýndar?“ Eða spyr: „Hvað er þekking? Hvað vitum við? Getum við vitað nokkuð með vissu?“ Hvað gerir maður til að finna svör við svona spurningum, þar sem skortir vísinda- eða fræðigrein sem hægt er að vísa til og segja: „Sjáðu nú til, það eru til sérfræðingar. Þeir geta sagt manni hvað gott og rétt er, þeir geta sagt manni hvort allt ræðst af orsökum og líka hvort hamingjan er hið rétta markmið fyrir manneskjur og hvað réttindi og skyldur, þekking, veruleiki og sannleikur eru, og allt slíkt. Hlustaðu bara á þá.“ Stærðfræðingur getur vitanlega svarað stærðfræðilegum spurningum. En þú heldur ekki, er það, að til séu óskeikulir siðapostular eða frumspekingar sem geta gefið algerlega skýr svör sem allar manneskjur sem gætu skilið rökfærslu þeirra hljóta að fallast á? Þessar spurningar virðast leiða af sér ráðgátur strax í upphafi, vandamál um það hvar skuli leita svara. Enginn veit gjörla hvernig á að gera út um þessar spurningar. Venjulegu fólki sem spyr sig þessara spurninga þráfaldlega hættir til að komast í andlegt krampaástand sem varir þar til það hættir að spyrja þeirra og fer að hugsa um aðra hluti.

Magee Nú ertu kominn að því sem er svo mikið grundvallaratriði að ég vildi gjarnan styrkja stöðu okkar áður en við höldum lengra. Þú ert að segja að í leit sinni að þekkingu hafi menn yfirleitt spurt tvenns konar spurninga. Fyrst eru það spurningar um heiminn – maðurinn er alltaf að reyna að afla sér þekkingar á umhverfi sínu og ná tökum á því, eða kannski bara að komast af. Þessum spurningum um heiminn verður einungis svarað, þegar til kastanna kemur, með því að skoða hann: með rannsókn, athugun, prófun, tilraun og svo framvegis. Slíkar spurningar varða staðreyndir – eða, eins og heimspekingar komast að orði, þær eru spurningar um reynslu. Önnur tegund spurninga er af óhlutbundnari eða formlegri gerð – til að mynda spurningar í stærðfræði eða rökfræði, eða, eins og þú varst að nefna, leikjafræði eða skjaldarmerkjafræði. Spurningar af þessari gerð snerta tengsl milli hluta í formlegum kerfum og þess vegna getum við ekki fengið svörin við þeim með því að skoða heiminn. Að segja þetta er þó alls ekki að segja að þær séu fjarri venjulegum viðfangsefnum okkar. Eitt formlegt kerfi sem við notum jafnan í daglegu lífi er talnareikningur – já, við notum það bókstaflega á hverjum degi þegar við teljum hluti, segjum hvað klukkan er, fáum peninga til baka og þar fram eftir götunum. Óhlutbundið kerfi getur verið gríðarlega gagnlegt og mikilvægt í daglegu lífi okkar.

Það eru því tveir stórir flokkar spurninga sem við kunnum að fást við með árangri: reyndar­spurningar, sem fela það í sér að skoða staðreyndirnar, og formlegar spurningar sem fela það í sér að tengja saman hluti innan formlegs kerfis. Næstum allar spurningar, og þess vegna næstum öll þekking, lenda í annarri af þessum tveimur körfum. En heimspekilegar spurningar gera það ekki: Það er nánast aðalsmerki heimspekilegrar spurningar að hún lendir í hvorugri körfunni. Spurningu eins og „Hvað er réttur?“ er hvorki hægt að svara með því að líta út um gluggann né með því að kanna innra samhengi formlegs kerfis. Sem sagt, maður veit ekki hvernig á að fara að því að finna svarið. Þú ert að segja að heimspekin byrji þar sem maður er með áleitna spurningu án þess að hafa skýran skilning á hvernig skuli leita að svarinu.

Berlin Þú hefur orðað það miklu betur en ég. Miklu skýrar.

Magee En ekki fyrr en þú hafðir sagt það – ég hafði þína framsetningu til að ganga út frá.

Berlin Ég samþykki endurframsetningu þína – hún er mikil bragarbót.

Magee En spurningin heldur samt áfram að sækja á mann. Hvað getum við gert varðandi spurningar sem við vitum ekki hvernig skuli svara?

Berlin Nú, við verðum að spyrja: „Hvers vegna ættum við að dást að einhverjum þeirra hugsuða sem hafa fjallað um þær? Við dáumst að þeim, held ég, vegna þess að þeim hefur tekist að umorða þær á þann hátt að tiltekin svör virðast alltént sennileg. Þegar ekki er til nein viðurkennd aðferð til að gera eitthvað þá gerum við það sem við getum. Við einfaldlega prófum okkur áfram. Við segjum: „Þegar ég spyr spurningar eins og ‘Hafa allir hlutir tilgang?’ hvers konar spurning er það? Hvers konar svörum er ég að leita að? Hvers konar röksemdafærsla mundi fá mig til að halda að ákveðið svar væri rétt eða rangt eða jafnvel þess virði að velta því fyrir sér?“ Þetta er það sem heimspekin snýst um. E. M. Forster sagði einu sinni, held ég (ég játa að ég man ekki hvar): „Allt líkist einhverju; hverju líkist þetta?“ Þetta er það sem maður hefur tilhneigingu til að byrja með að spyrja þegar um er að ræða heimspekilegar spurningar. Sögulega séð virðist þetta hafa gerst: Vissar mikilvægar, reyndar afar þýðingarmiklar, spurningar virðast eiga heima í þessu tvíbenta ástandi. Menn hafa haft djúpar áhyggjur af þeim – sem er ekki nema eðlilegt þar sem þeir voru mjög mikið að fást við grundvallargildi. Kreddumenn, eða menn sem hreinlega féllust efasemdalaust á yfirlýsingar helgra bóka eða innblásinna kennara, höfðu ekki áhyggjur. En það hefur líklega alltaf verið til fólk sem hafði efasemdir um þetta og spurði sig: „Hvers vegna ættum við að fallast á þessi svör? Þeir segja þetta eða hitt en erum við viss um að þeir viti það? Hvernig getum við verið viss um að þeir viti? Þeir segja að Guð (eða stundum Náttúran) segi þeim það – en Guð (líkt og Náttúran) virðist gefa ólíku fólki ólík svör. Hver þeirra eru rétt?“

Sumar spurninganna hafa verið umorðaðar þannig að þær lenda þá í annarri hvorri körfunni okkar (sögulega talað). Ég skal útskýra hvað ég á við. Tökum stjörnufræði. Á fjórtándu öld var skynsamlegt að líta á stjörnufræði sem heimspekilega grein því að staðhæfingar hennar voru ekki eingöngu reynslustaðhæfingar og þær voru ekki formlegar. Til dæmis var álitið að plánetur­nar hlytu að hreyfast á hringlaga brautum af því að hringurinn var hin fullkomna flatarmynd. Hver svo sem er staða þeirrar fullyrðingar að hringurinn sé hin fullkomna flatarmynd – ég býst við að hún kynni að teljast formleg á einhvern hátt – þá virðist hin lengra komna fullyrðing, að plánetur sem voru hugsaðar á fullkominni hreyfingu hlytu að hreyfast í hringi og gætu ekki annað, hvorki vera reynslustaðhæfing né formleg staðhæfing. Ekki er hægt að sanna hana – eða nein nauðsynleg sannindi – með athugun eða tilraun. Það er ekki heldur hægt að sanna alhæfingu sem byggist á staðreyndum um hvað plánetur eru eða gera eingöngu með rökfræðilegri eða stærðfræðilegri sönnun. Svo framarlega sem menn vissu að stjörnur hlytu að hegða sér á ákveðinn hátt, og engan annan, en plánetur yrðu hins vegar að fara eftir ákveðnum öðrum brautum – svo framarlega sem menn töldu sig vita þetta, vita það á frumspekilegum eða guðfræðilegum forsendum – þá var öldungis rétt að líta á þessa fræðigrein sem heimspekilega. Og þetta átti ekki síður við um hið náskylda svið, stjörnuspekina. Síðan varð stjörnufræðin, eins og allir vita, smám saman ágæt athugunarvísindi. Hún losaði sig við frumspekilegar forsendur sínar og er nú eðlilegt svið náttúruvísindanna sem beita aðferðum tilgátu og afleiðslu og eru háð reynsluprófunum. Þannig hætti hún, eins og vera ber, að vera heimspekileg.

Eitt af því sem er athyglisvert við feril heimspekinnar er að hún er stöðugt að losa sig við tiltekna hluta sína í aðra af körfunum tveim, reyndarkörfuna og þá formlegu. Ég held að það hafi verið Austin heitinn, starfsbróðir minn, sem einu sinni orðaði þetta með því að segja að sól heimspek­innar gefi smátt og smátt frá sér mikið magn brennandi lofttegunda og þær verði sjálfar plánetur og öðlist sjálfstætt líf. Í sögu heimspekinnar er að finna meiriháttar dæmi um þetta ferli. Þannig var til að mynda hagfræðin hluti af heimspekinni þegar hún var flækt í margar frumspekilegar forsendur, en svo varð hún smám saman, eða er að verða, sjálfstætt rannsóknarsvið.

Magee En jafnvel þegar hin ýmsu rannsóknarsvið hafa klofið sig út úr af eigin rammleik – líkt og, eins og þú segir, hagfræði eða stjörnufræði (sálfræði í gær, málvísindi í dag) – stendur eftir heimspeki þessara ólíku vísindagreina. Það væri ekki rétt að segja að strax og þær hafa klofið sig út úr hafi þær engin frekari tengsl við heimspeki.

Á öllum starfssviðum eru ákveðin lykilorð – eða ég kýs heldur að segja undirstöðuhugtök – sem fólk notar. Eðlisfræðingar eru sífellt að tala um ljós, massa, orku, hraða, þyngd, hreyfingu, mælingu, tíma. Stjórnmálamenn eru stöðugt að nota orð eins og ‘frelsi’, ‘jafnrétti’, ‘félagslegt réttlæti’. Lögfræðingar eru látlaust að nota orð eins og ‘sekt’, ‘sakleysi’ – og ‘réttlæti’ líka, þó þeir meini eitthvað annað með því. Venjulega ver fólkið sem starfar á þessum sviðum mjög litlum tíma í að rökræða um orðin eða hugtökin sem það notar – ég mundi veðja um að flestir eðlisfræðingar rökræða aldrei á ævinni sín á milli um hvað ljós sé eða hvað þeir eiga við með orðinu ‘orka’. En nú kemur einhver náungi og segir: „Já, en hvað nákvæmlega meinum við með orðinu ‘ljós’? Hvað meinum við með orðinu ‘orka’? Hvað meinum við með orðinu ‘mæling’? Jafnvel enn meira viðeigandi væri að spyrja, hvað erum við að gera þegar við mælum eitthvað?“ Við köllum þennan mann vísindaheimspeking og umræðan um slíkar spurningar kallast vísindaheimspeki. Sömuleiðis höfum við mann sem kallast stjórnmálaheimspekingur sem spyr: „Hvað nákvæmlega meinum við með ‘frelsi’? Hvað meinum við með ‘jafnrétti’?“ Og það er jafnvel til réttarheimspekingur sem spyr: „Hvað nákvæmlega meinum við með ‘réttlæti’?“ Í rauninni er til heimspeki hverrar fræðigreinar eða starfsemi og hún felst ekki einungis í útlistun á þeim hugtökum og líkönum sem einkenna hana heldur einnig í gagnrýninni umræðu um markmið hennar og aðferðir og þau sérstöku form röksemdafærslu, sönnunargagna og aðferða sem hæfa hverri þeirra. Heimspekin getur með öðrum orðum leitast við að útlista hvaða hugtök sem er eða rökgreina hvaða starfsemi sem vera skal. Þetta er það sem Wittgenstein átti við þegar hann hélt því fram að heimspekin væri starfsemi en ekki kenningabálkur. Af þessu leiðir vitanlega að starfsemi heimspekinnar er sjálf undirorpin heimspekilegri rannsókn og það er reyndar svo að gífurlegur fjöldi slíkra rannsókna á sér látlaust stað meðal heimspekinga. Í verki er auðvitað áhugaverðast að íhuga þá starfsemi fyrir utan heimspekina sem er á einhvern hátt grundvallar­atriði í mannlífinu – þótt ég telji að heimspekingar hafi í gegnum söguna haft of þrönga skoðun á því hver þessi starfsemi sé. Ennfremur er það svo í verki að áhugaverðustu hugtökin til að rann­saka eru grundvallarhugtök, hvort heldur það eru hugtök í hversdagslegri notkun eða sérstaklega notuð á einhverju sérstöku sviði mannlegrar hugsunar eða starfsemi. Það sem heimspekingar reyna að gera í slíkum rannsóknum er að grafast fyrir um það sem við göngum út frá í hugsun okkar: að kanna, og draga fram í dagsljósið og gera okkur ljóst, hverjar eru hinar huldu forsendur sem leynast í grunnhugtökum okkar, og einnig í því hvernig við notum þessi grunnhugtök, og sem er þar með smyglað inn í niðurstöður okkar – og það þýðir inn í skoðanir okkar og athafnir.

Berlin Ég hygg að þetta sé rétt. Sumir sundmenn lamast ef þeir byrja að hugsa um hvernig þeir synda. Eðlisfræðingar framkvæma hið raunverulega sund. Spurningin um hvað þarf til að synda, eða hvað það merkir að synda, þær spurningar eru auðveldari viðfangs fyrir utanaðkomandi athugendur. Vísindamenn sem eru góðir í að rökgreina hugtökin sem þeir nota eru ákaflega sjaldgæfir fuglar, en þeir eru þó til: Einstein og Planck, til dæmis, vissu muninn á orðum um orð og orðum um hluti, eða á hugtökum og reynslugögnum. Og mér detta fleiri í hug, sem betur fer enn meðal okkar, sem vita þetta og tala af heimspekilegu viti. En venjulega hættir jafnvel hinum gáfuðustu í þeirra hópi til að vera of niðursokknir í starf sitt til að geta staðið álengdar og kannað hinar ósögðu forsendur sem starf þeirra og skoðanir eru reistar á.

Magee Hefur þér nokkurn tíma dottið í hug að spurningar eins og „Hvað er ljós? Hvað er gott? Hvað er tími?“ eru furðulega líkar spurningum barna?

Berlin Já, mér hefur vissulega oft dottið einmitt þetta í hug. Börn eiga ekki vanda til að spyrja „Hvað er tími?“ Ég held að barn kynni að segja: „Mig langar til að hitta Napóleon.“ (Þetta virðist eðlilegt að til að mynda áhugasamt barn sögukennara vilji.) Faðirinn segir við barnið: „Þú getur það ekki. Hann er dáinn.“ Þá segir barnið: „Nú, hvers vegna ætti það að koma í veg fyrir það?“ Sé faðirinn nógu glúrinn mun hann útskýra fyrir barninu að dauði Napóleons hafi orðið til þess að líkami hans leystist upp niðri í jörðinni, að upphaflegir efnispartar hans tvístruðust og að ekki sé hægt að vekja þá sem grafnir eru upp frá dauðum. En sé barnið líka glúrið gæti það spurt: „Hvers vegna er ekki hægt að safna öllum pörtunum saman aftur?“ Kennslustund í eðlisfræði eða líffræði fylgir kannski í kjölfarið. Að henni lokinni segir barnið kannski: „Nei. Þetta er ekki það sem ég var að biðja um. Mig langar ekki til að sjá Napóleoni safnað saman núna: Mig langar til að fara til baka og sjá hann eins og hann var í orustunni við Austerlitz. Það mundi ég vilja.“ „Jæja, þú getur það ekki,“ segir faðirinn. „Hvers vegna ekki?“ „Vegna þess að þú getur ekki farið til baka í tíma.“ „Hvers vegna get ég það ekki?“ Nú höfum við fengið heimspekilegt vandamál. Hvað er hér átt við með ‘getur ekki’? Er að geta ekki farið til baka í tíma tjáð með sams konar ‘getur ekki’ og þegar sagt er „Tvisvar tveir getur ekki verið sjö“ eða þeirri tegund ‘getur ekki’ sem felst í „Þú getur ekki keypt sígarettur klukkan tvö eftir miðnætti af því að það er bannað með lögum“? Eða er það líkara ‘getur ekki’ í „Ég get ekki munað“ eða í „Ég get ekki gert mig níu feta háan með því einungis að óska þess“? Hvers konar ‘getur ekki’ svarar „Viltu leyfa mér að sjá orustuna við Austerlitz“? Við erum undir eins komin á kaf í heimspeki. Einhver kann að segja barninu „Þú getur það ekki vegna eðlis tímans“. En þá segja einhverjir heimspekilega sinnaðir einstaklingar: „Nei, nei, hlutir eins og tími og eðli hans eru ekki til. Staðhæfingar um tíma er hægt að þýða yfir í staðhæfingar um það sem gerist ‘áður’ og ‘eftir’ og ‘samtímis’. Að tala um tíma eins og hann væri einhvers konar hlutur er frumspekileg gildra.“ Við erum nú komin á fulla ferð. Fæstir feður vilja svara spurningum ágengra barna sinna á þennan hátt. Þeir segja þeim bara að þegja, að spyrja ekki kjánalegra spurninga, að fara burt og hætta að vera til vandræða. En þetta er sú tegund spurninga sem kemur stöðugt aftur. Og heimspekingar eru menn sem leiðast þær ekki eða eru hræddir við þær. Þær fara ekki í taugarnar á þeim og þeir eru reiðubúnir að fást við þær. Börn eru vitanlega að lokum vanin á bæla þessar spurningar niður. Því er nú verr. Börnin sem eru ekki algerlega skilyrt þannig verða stundum heimspekingar.

Magee Heldurðu að það sé kannski af þessari ástæðu eitthvað barnslegt við heimspekinga?

Berlin Ekki endilega. En sumar spurningarnar sem þeir spyrja eru að því er virðist einfaldar, frekar líkar sumum spurninganna sem Sókrates spyr í samræðum Platons, spurningum af því tæi sem venjulegt fólk getur ekki svarað og vísar því á bug, stundum með nokkurri óþolinmæði. Hins vegar eru, að sjálfsögðu, ekki allar spurningarnar sem heimspekingar spyrja einfaldar. Vísindaheimspekingur nú á dögum mun líka eiga vanda til að spyrja spurninga á borð við „Hvað er kvarki?“ ‘Kvarki’ er mjög dularfullt hugtak í eðlisfræði. Er kvarki eitthvað sem á sér sjálfstæða tilveru? Hlutur? Hreyfing? Samband milli hluta? Hvað er svarthol? Rými, gat? Eru kvarkar svart­hol? (Hvað eru göt af þessari gerð?) Eða kannski þau séu stærðfræðiformúlur – rökfræðileg tæki á borð við ‘og’ eða ‘nokkur’ eða ‘hver’ sem getur ekki svarað til neins í hinum svokallaða raunverulega heimi? Eða er kvarki sambland af hinu raunverulega og rökfræðilega? Hvernig er orðið notað? Er nóg að segja „Við notum orðið ‘kvarki’ í eftirfarandi vísindalegum formúlum eða röksemdafærslum“? Það virðist ekki alveg nóg. Sameindir eru sennilega raunverulegir hlutir. Frumeindir líka. Rafeindir, róteindir, gammageislar og nifteindir eru öllu vafasamari. Eða hvað með skammta? Þeir rugla fólk í ríminu. Manni er sagt frá einhverju – rafeind – sem stekkur frá einni braut til annarrar án þess að fara óslitið gegnum millibilið, ef okkur leyfist að tala þannig. Hverju líkist þetta? Getur venjuleg hugsun ímyndað sér slíkt? Hér er eitthvað prima facie óskiljanlegt. Það er eins og að segja: „Ég er með svolítinn verk í ökklanum – og nú er hann í hnénu – en auðvitað þarf hann ekki að hafa farið óslitið upp eftir fætinum vegna þess að það er engin ‘hann’: fyrst einn verkur á einum stað, svo annar, eins og sá fyrri, á öðrum stað?“ Er þetta svarið? Maður gæti sagt: „Þessi verkur er farinn úr fætinum á mér og er kominn í handlegginn“, og er þá gefið í skyn að hann hafi einhvern veginn farið upp; en maður meinar þetta ekki bókstaflega. Fyrst var verkur hérna, svo var verkur þarna: ekkert á milli. Er það svona? Er þetta gagnleg líking? Eða er það allt öðruvísi? Leiða svör af þessu tæi til fáránlegra, afar villandi myndlíkinga? Lýsir vísindamál nokkru? Eða er það einungis, líkt og stærðfræði og rökfræði, beinagrind, ekki hold, lýsandi eða skýrandi máls? Eða er þetta líka rangt? Gott og vel – hvernig fer maður að því að svara? Eðlisfræðingar geta sjaldan hjálpað manni? Þeir segja manni hvað þeir gera og síðan er það heimspekingsins að segja: „Nú, það er svona sem þeir nota þetta orð. Þeir nota það á x-hátt, ekki á y-hátt. Þegar þeir segja ‘kvarki’, þegar þeir segja ‘róteind’, þegar þeir segja ‘skammtastökk’ er notkun þeirra á orðinu líkari því hvernig við hin notum þetta orð eða hitt – og alls ekki líkt því hvernig við notum þetta orð hérna eða þetta þarna. Við skulum því ekki gera það glappaskot að gefa okkur að það sé einhver einföld líking milli þess sem þeir segja og þess hvernig málið er notað í daglegu lífi, annars munum við komast að rangri eða fáránlegri niðurstöðu eða byggja upp ónauðsynlegt frumspekikerfi.“

Magee Sumir heimspekingar skilja það sem þú ert nú að tala um sem hina dæmigerðu heimspekilegu iðju. Við gerum öll það sem kallast ‘kvíavillur’ – það er að segja okkur hættir til að nota hugtak eins og það sé af allt annarri gerð en það í raun og veru er. Og vegna þess að við gerum okkur ekki grein fyrir þessu leiðir það okkur út í alls konar villur og rugling. Og verkefnið sem er sérkennandi fyrir heimspekinginn, telja sumir, er að ráða fram úr þessum ruglingi og sýna okkur hvar og hvernig við lentum á villigötum. Einn nútímaheimspekingur sem hélt þessari skoðun skörulega fram var Gilbert Ryle. Í frægustu bók sinni hélt hann því fram að okkur hætti til að gera mjög alvarlega kvíavillu í sambandi við hugtakið hug. Okkur hættir til að hugsa um hugann eins og ósýnilegan hlut sem býr í líkamanum líkt og draugur í vél, stjórnaði henni innan frá, sæti þarna inni og hefði leyndan aðgang að flæði líkamslausrar reynslu upp á eigin spýtur. Þetta er, heldur Ryle fram, algerlega rangt líkan og það leiðir okkur út í endalausan rugling og villur. Hann reyndi að sýna fram á þetta með allítarlegri hugtakagreiningu og bókin er helguð þessari greiningu – þess vegna heitir hún Hugtakið hugur. Vildi maður færa fram rök gegn honum væri hægt að gera það á tvo höfuðvegu, og það er nokkuð dæmigert. Annaðhvort gætum við neitað að við notuðum hugtakið á þann hátt sem hann segir að við gerum eða við gætum fallist á að við gerðum það en neitað að það hefði hinar villandi afleiðingar sem hann segir það hafa. Margar rökræður milli heimspekinga, um önnur hugtök, eru af þessari gerð.

Berlin Ryle hefur tilhneigingu til að vera of atferlissinnaður fyrir minn smekk – en ég er sammála, útlistun hugtaka er vissulega eitt af verkefnum heimspekinnar og kannski eitt af aðalverkefnum hennar. En heimspekingar reyna líka að vekja athygli fólks á hinum raunverulegu málefnum sem tengjast því að bera fram spurningarnar sem þeir skýra.

Magee Ég held þú verðir að segja dálítið meira um þetta. Eitt af því sem leikmaður á erfiðast með að skilja er hvernig raunverulega hjálp er hægt að fá frá því að reyna að svara spurningum sem ekki er hægt að gera út um. Hvernig getur manni miðað áfram?

Berlin Gott og vel, það er hægt að komast eitthvað áleiðis í átt til svars. Með því að skýra hugtökin upppgötvar maður stundum að spurningin hefur ekki verið rétt orðuð – maður kemst til dæmis að því, eins og ég var að reyna að segja hérna áðan, að efnislegri spurningu eða reynsluspurningu er ruglað saman við formlega spurningu. Ég skal gefa þér annars konar dæmi úr siðfræði – sviði sem gott er að taka dæmi af vegna þess að flestir verða að fást við siðferðileg vandamál í lífi sínu. Segjum að við spyrjum spurningar sem er sumpart siðferðileg og sumpart pólitísk, venjulegt vandamál á sjúkrahúsi. Það eru til nýrnavélar. Þær eru dýrar. Ekki eru margar til. Allmargt fólk þjáist af nýrnasjúkdómi sem þessi vél mundi skipta sköpum fyir. Ættum við að nota þær fáu vélar sem til eru einungis fyrir hæfileikaríkt og mikilsháttar fólk sem að okkar dómi gerir samfélaginu mikið gagn? Ef mikill vísindamaður þjáist af nýrnasjúkdómi, ætti eina vélin sem við eigum að vera tekin frá handa honum einum? Sé barn að deyja sem vélin gæti bjargað, hvernig gerum við upp á milli þeirra? Hvað eigum við að gera? Ættum við að spyrja okkur spurninga á borð við þessa: „Hvor þessara einstaklinga á eftir að gera samfélaginu meira gagn?“ Þetta er kveljandi spurning um raunhæft val. Það er ekki hlutverk siðfræðingsins að svara spurningunni og segja: „Bjargið hinum mikla vísindamanni“ eða „Bjargið barninu“. Hann kann að gera það sem manneskja, en sé hann þar að auki góður siðfræðingur er hann í aðstöðu til að útskýra fyrir okkur þau atriði sem hér er um að ræða. Hann mun segja: „Hvert er markmið ykkar? Að hverju leitið þið? Látið þið ykkur eingöngu varða hamingju mannkynsins? Er hún hið eina sem þið takið tillit til? Sé svo þá er líklega rétt að bjarga vísindamanninum vegna þess að hann mun sennilega gera meira gagn en þetta grandalausa barn. Eða trúið þið líka að allar manneskjur hafi viss grundvallarréttindi og að allir eigi sömu kröfu til að vera bjargað og að ekki megi einusinni spyrja hvor af tveimur manneskjum sé ‘mikilvægari’? Er þetta hugsun ykkar? „Jæja þá,“ gæti hann haldið áfram, „hér er togstreita milli gilda. Annars vegar trúið þið á að auka mannlega hamingju en á hinn bóginn trúið þið einnig að eitthvað sé rangt við að flokka kröfur til lífs – og önnur grundvallarréttindi – og búa þannig til stigveldi af kröfum þar sem ætti að vera jöfnuður. Þið getið ekki bæði sleppt og haldið. Þessi markmið stangast á.“

William Goldwin, tengdafaðir Shelleys, hafði engar slíkar efasemdir. Hann segir sögu þar sem hinn frægi, háheilagi franski erkibiskup Fénelon, sem var uppi undir lok sautjándu aldar, er látinn horfast í augu við það vandamál að stökkva inn í logana til að bjarga einkaþjóni og stofna eigin lífi í hættu. Godwin hélt því fram að þar sem Fénelon væri greinilega langtum mikilvægari fyrir þróun mannkynsins en þjónninn hefði það verið ‘réttlátt’ hjá þjóninum sjálfum að kjósa heldur að Fénelon lifði en hann sjálfur. Af þessu hlýtur að leiða að það væri ekki aðeins, ef svo má segja, leyfilegt fyrir Fénelon að bjarga ekki þjóninum, það væri hreint og beint rangt fyrir hann að reyna að gera það. Og ef þú segir: „Hvað! Þú fordæmir hetjuskap? Vissulega ber að dást að öllum fyrir að fórna lífi sínu fyrir líf annarrar manneskju, eða hvað?“ Godwin er nauðbeygður til að svara: „Vissulega ekki. Það er óskynsamlegt val.“ En gerum ráð fyrir að það sé konan þín eða móðir þín sem eru í lífshættu? Svar Godwins er skýrt (ég vitna í hann eftir minni): „Kona mín eða móðir eru kannski fábjánar, skækjur, illgjarnar, lygnar, svikular. Séu þær það, hvaða máli skiptir að þær eru mínar? Hvaða töfrar eru fólgnir í eignarfornafninu „mín“ sem kollvarpar ákvörðunum eilífs sannleika?“ – eða etthvað þess háttar. Þetta er ofstækisfull, rökrétt nytjahyggja sem við vísum kannski skiljanlega á bug, en enginn vafi leikur á því að þetta er heimspekilegt ágreiningsefni. Og Godwin var ekki heldur í neinum vafa um svarið sem hver rökrétt hugsandi maður mundi hiklaust gefa. Þetta hjálpar alltént til að gera málið ljóst. Ef við höfnum svari Godwins vitum við hverju við erum að hafna og við erum að minnsta kosti á leiðinni að komast að því hvers vegna við gerum það.

Magee Þegar þú sagðir í dæminu um nýrnavélina að góður siðfræðingur segði okkur ekki hvað við ættum að gera, þá sagðirðu eitthvað sem skiptir afar miklu máli fyrir þessa umræðu. Fjöldi fólks kemur til heimspekinnar og vill að því sé sagt hvernig það á að lifa – eða vill fá greinargerð um heiminn og með henni greinargerð um lífið – en mér virðist að það að vilja alltént hið fyrra sé að vilja afsala sér persónulegri ábyrgð. Maður ætti ekki að vilja að manni sé sagt hvernig á að lifa. Og þess vegna ætti maður ekki að koma til heimspekinnar í leit að endanlegum svörum. Það er allt annað mál að leita skýringar á lífi sínu eða skýringar á hvað felst í sérstökum vandamálum sem við stöndum frammi fyrir svo að við getum á áhrifaríkari hátt tekið ábyrgð á okkur sjálfum og tekið ákvarðanir með fyllri, skýrari skilningi á því sem er í húfi.

Berlin Það sem þú segir er sorglegt – en ólíkt flestum siðapostulum er ég þér sammála. Flestir vilja að þeim séu gefin svör. Turgenjev sagði einu sinni að einn vandinn við skáldsögur sínar – ein ástæðan fyrir því að þær færu í taugarnar á sumum lesenda þeirra – væri að rússneskur lesandi á hans tíma (og reyndar til dagsins í dag, getum við bætt við) vildi að sér væri sagt hvernig hann ætti að lifa. Hann vildi hafa það alveg á hreinu hverjar væru hetjurnar og hverjir þorpararnir. Turgenjev vildi ekki segja honum þetta. Tolstoy lætur ekkert fara milli mála um þetta, Dostojevskí ekki heldur, og allmargir aðrir rithöfundar gefa þetta mjög skýrt til kynna. Hjá Dickens er ekkert vafamál hver er hver – hver er góður og hver ekki. Í verkum George Eliot er ekki heldur mikill vafi. Ljóst er hverjum Ibsen dáist að og hvern hann fyrirlítur eða hverjum hann vorkennir. En Turgenjev sagði að allt sem hann gerði væri að lýsa manneskjum eins og hann sæi þær. Hann vildi ekki veita lesandanum leiðsögn. Hann sagði lesandanum ekki hvorum megin hann, höfundurinn, stóð. Og þetta, hélt Turgenjev fram, gerði almenning ráðvilltan, það pirraði fólk, léti lesendum eftir að ráða sjálfir fram úr málum, en það er fólki meinilla við. Tsjekov hermdi þetta eftir en ólíkt Turgenjev kvartaði hann ekki. Vissulega höfðu þeir rétt fyrir sér. Það er ekki hlutverk siðfræðingsins, frekar en það er hlutverk skáldsagnahöfundarins, að veita fólki leiðsögn í lífinu. Hlutverk hans er að láta það horfast í augu við málin, við svið mögulegra athafnleiða, að útskýra fyrir því hvað það gæti valið og hvers vegna. Hann ætti að leitast við að varpa ljósi á þá þætti sem um er að ræða, leiða í ljós eins marga möguleika og unnt er og hvað í þeim felst, sýna hvers eðlis hver möguleiki er, ekki út af fyrir sig heldur sem þáttur í víðara samhengi, kannski í heilum lífsmáta. Ennfremur ætti hann að sýna hvernig það að opna einar dyr kann að leiða til þess að opna eða loka öðrum dyrum – með öðrum orðum að leiða í ljós að sum gildi eru óhjákvæmilega ósamrýmanleg og stangast á – að þau eru oft ósammælanleg. Eða, til að orða það lítið eitt öðruvísi, að benda á tap og ávinning sem felst í einhverjum verknaði, heilum lífsmáta, oft ekki með tilliti til þess sem er mælanlegt heldur með tilliti til algildra reglna eða gilda sem ekki er ætíð hægt að samræma. Þegar siðfræðingur hefur á þennan hátt sett einhverja athafnaleið í siðferðilegt samhengi, staðsett hana á siðferðilegu landakorti, tengt eðli hennar, ástæðu og markmið við gildaklasann sem hún tilheyrir, dregið fram sennilegar afleiðingar hennar og það sem í henni felst og skiptir máli, komið með rök með henni eða móti, eða bæði með henni og móti, með allri þeirri þekkingu, skilningi, rökleikni og siðferðilegu skynbragði sem hann hefur til að bera – þá hefur hann unnið sitt starf sem heimspekilegur ráðgjafi. Það er ekki hlutverk hans að prédika eða hvetja, hrósa eða fordæma, einungis að útlista og upplýsa. Á þann hátt getur hann hjálpað, en þá er það hvers einstaklings eða hóps að taka sjálfstæða ákvörðun, í ljósi þess sem hann trúir og sækist eftir (en af því ljósi getur aldrei verið nóg). Heimspekingurinn getur ekki gert meira en að gera eins ljóst og honum er unnt hvað er í húfi. En það er að gera heilmikið.

Þessu má andmæla með því að flestir siðfræðingar og stjórnmálaheimspekimgar, frá Platóni og Aristótelesi til Kants og Mills og Moores, og virtustu hugsuðir okkar daga, hafi gert hið gagnstæða – það er að segja sagt mönnum hvernig á að greina gott frá vondu, rétt frá röngu og mælt með réttum formum mannlegrar breytni, og að þetta virðist einfaldlega ósamrýmanlegt skoðun minni að aðalhlutverk heimspekinga sé að meta rök með og móti og gera ljóst hvað felst í mögulegum valkostum, ekki að gefa til kynna hvað sé rétt. En þessu er ekki þannig háttað, því sé það sem ég segi hér að framan rétt hefur heimspekin tvíþættu hlutverki að gegna: að rannsaka og sérstaklega að gagnrýna forsendur gildisdóma sem menn fella eða sem felast í athöfnum þeirra. En hún fæst líka við aðrar, oft fyrsta stigs spurningar, nánar tiltekið spurningar sem fara hvorki í reyndarkörfuna né hina formlegu og gera það kannski aldrei. Þar sem mér virðast gildisspurningar tilheyra þessum milliflokki vil ég ekki að sá skilningur verði lagður í orð mín að gagnrýni á hinar almennu reglur slíkra fyrsta stigs spurninga eða dóma sé utan við svið heimspekinnar – því fer fjarri. Ég er aðeins að segja að heimspekingar séu ekki endilega betri í að leysa tiltekin hegðunarvandamál en aðrir menn, að því tilskildu að hinir síðarnefndu hafi nægilega skýran skilning á rökunum með og móti þeim afleiðingum eða meginreglum sem hið tiltekna vandamál vekur til umhugsunar um. Þetta jafngildir því í raun og veru að segja að hver sá sem reynir að finna almenn svör við vandamálum sem viðurkenndar raun- og rökvísindagreinar og aðferðir hafa ekki með að gera er að stunda heimspekilega iðju, hvort sem hann veit það eða ekki, og að tilraunir til að finna svör við spurningum um grundvallaratriði sem varða gildi eru sérstaklega gott dæmi um þetta.

Magee Löngu fyrr í samræðunni notaðirðu orðalagið ‘markmið lífsins’ og ég vísa til þess aftur vegna þess að það skiptir máli þegar hér er komið sögu. Ég er nokkuð viss um að flestir telja að heimspekin snúist einmitt um markmið lífsins og að heimspekingar séu menn, kannski óvenjulega vitrir eða gáfaðir menn, sem hugsa djúpt – og ræða látlaust hver við annan – um hver sé merking lífsins eða hver tilgangur þess ætti að vera. Að hvaða marki mundir þú segja að heimspekingar geri þetta í raun og veru?

Berlin Sumir gera það, að sjálfsögðu. Merkustu heimspekingarnir hafa alltaf gert það. En sjálfar spurningarnar eru fremur óljósar. Ef þú segir: „Hver er merking lífsins?“ vaknar næst sú spurning eða ætti að vakna (þetta hljómar eins og smásmygli eða undanbrögð en þarf ekki að vera það: maður getur ekki og ætti ekki að forðast hana): „Hvað áttu hér við með ‘merkingu’?“ Ég veit hver merking þessarar setningar er vegna þess að það eru reglur sem stjórna notkun orða í því skyni að tjá hugmyndir, vitneskju, leiðbeiningar eða hvað sem vera skal. Ég held að ‘merking lífsins’ í slíkum setningum merki í raun og veru ‘tilgangur lífsins’. Til voru grískir hugsuðir, undir áhrifum frá Aristótelesi, og miðalda- og endurreisnarhugsuðir, kristnir menn eða menn undir áhrifum frá kristninni – eða, ef út í það er farið, undir áhrifum frá gyðingdómi – sem voru alveg sannfærðir um að allt í heiminum hefði tilgang. Hver hlutur og hver skepna höfðu verið sköpuð með tilgang annaðhvort af Guði (eins og guðstrúarmenn töldu) eða af Náttúrunni (eins og grískir heimspekingar og lærisveinar þeirra töldu). Að skilja eitthvað var að skilja til hvers það var. Þú gast kannski ekki fundið svarið af þvi að þú varst ekki Guð (eða Náttúran) og ekki alvitur. En einhverja hluti vissirðu vegna þess að þeir voru veittir mönnum sem opinberuð sannindi eða vegna þess að þú varst gæddur einhvers konar frumspekilegri innsýn í markmiðin sem náttúrulegt var fyrir hluti eða skepnur að stefna að. Væri þessu þannig háttað var vit í spurningunni um merkingu eða tilgang. Þá sagðirðu: „Menn eru skapaðir, skulum við segja, til að tilbiðja Guð og þjóna honum“, eða: „Þeir eru skapaðir til að þroska alla hæfileika sína“ eða „til að öðlast hamingju“, eða hvert svo sem markmiðið var samkvæmt heimspeki þinni. Þú lýstir yfir einni kenningu um tilgang skapaðra og óskapaðra hluta eða manna, aðrir höfðu aðra skoðun á þessu, og um þetta var rökrætt í tvö þúsund ár. Á sautjándu öld rofnaði þessi hefð: Spinoza, til að mynda, neitaði að það væri vit í að spyrja hvort hlutir almennt hefðu nokkurn tilgang. Hlutir hafa tilgang ef við setjum þeim tilgang. Klukka hafði tilgang vegna þess að við bjuggum hana til í ákveðnum tilgangi – til að sýna tímann eða, væri hún gömul og ekki lengur nothæf en falleg, þá hafði hún tilgang af því að ég notaði hana til að skreyta vegginn minn: það var tilgangur hennar, settur henni af mér, og væri nákvæmara að lýsa honum sem mínum tilgangi. Og tæki einhver annar hana og notaði í einhverjum öðrum tilgangi þá breyttist tilgangur ‘hennar’ í samræmi við það. En ef þú spyrðir: „Hver er tilgangur kletts? Hver er tilgangur grasblaðs?“ er svarið kannski: „Enginn, þau eru bara þarna.“ Þú gætir lýst þeim, þú gætir fundið lögmálin sem stjórna þeim, en sú hugmynd að allt hefði tilgang var einfaldlega ekki sönn. Spurningin hvort allt hafi tilgang eða ekki er dæmigert heimspekilegt viðfangsefni sem heilmikið hefur verið rökrætt um frá báðum hliðum.

Ég held að flestir sem spyrðir væru nú á dögum um hvort þeir teldu allt sem er til hafa tilgang kynnu að efast um það. Ég held að flestir trúaðir kristnir menn, gyðingar eða múslimar kynnu að fallast á þá skoðun að jurtir og dýr, skulum við segja, hafi verið sköpuð til að þjóna mönnum og allir hlutir í heiminum til að þjóna Guði og því um líkt. En þessi skoðun er engan veginn skoðun allra. Hún er guðfræðilegt viðfangsefni, en hún er líka heimspekilegt viðfangsefni. Hvað gæti hugsanlega talist rök til stuðnings þeirri staðhæfingu að allt hafi tilgang? Hvað mundi vera rök gegn henni? Eða öllu heldur, er jafnvel nokkurt vit í að segja að allt hafi tilgang? Ef allt hefur tilgang ertu þá viss um að þú skiljir hvað orðið ‘tilgangur’ merkir? Venjulega er hægt að skilgreina eiginleika með tilliti til einhvers af sömu tegund sem skortir hann. Þú veist hvað blátt er vegna þess að þú berð það saman við eitthvað sem er öðruvísi á litinn – grænt, gult. Þú skilur hvað það er að hafa tilgang vegna þess að þú skilur líka hvað það merkir að hafa hann ekki. En hljótiallt sjálfkrafa að hafa tilgang vegna þess að þetta er hluti af því að það er það sem það er, vegna þess að ekki er hægt að hugsa sér að nokkuð, raunverulegt eða ímyndað, geti skort sinn sérstaka tilgang – hefur þá orðið ‘tilgangur’ nokkra skýra merkingu eða notkun, fyrst það gerir engan greinarmun á hlutum? Og sé tilgangur ekki altækur eiginleiki hvernig komumst við að því hvað hefur hann og hvað ekki? Þetta er nokkuð sem snertir mannlífið mjög djúpt – og er, vel á minnst, gott dæmi um mjög óakademísk rök sem skipta meginmáli fyrir mannlega hegðun. Því hafi allt tilgang fylgir margt mikilvægt í kjölfarið: svo sem raunveruleiki náttúrlegra réttinda, eðli mannlegra markmiða, hvað fólki leyfist og leyfist ekki að gera, hvað er mannlegt og ómannlegt, hvað er náttúrlegt og hvað ónáttúrlegt. Þegar til að mynda fólk talar um ónáttúrlegt barn – siðferðilega ófreskju – eða ónáttúrlegan löst, gefur það í raun og veru í skyn, með réttu eða röngu, að mannverur hafi verið skapaðar í ákveðnum tilgangi og þessi frábrigði gangi með einhverjum hætti gegn honum.

Magee Þú talar eins og fólk af þessari gerð sé að gefa í skyn að til sé fyrirbæri eins og náttúrlegur löstur.

Berlin Ég held það geri það. Það mundi halda að til væri fyrirbæri eins og náttúrlegur löstur. Ákveðnir lestir væru hugsaðir sem venjulegir, meiri eða minni háttar, lestir af því tæi sem allir hafa tilhneigingu til, en aðrir lestir væru afskræmdir, rangsnúningur á náttúruskipaninni sem hinn rétti tilgangur hluta er að halda uppi. Í vissum skilningi er þetta umræða um merkingu orða – en fáránlegt væri að segja að það snerist eingöngu um orðnotkun.

Magee Til er vel þekkt heimspeki í nútímanum – kannski sú áhrifamesta og sú sem víðast er rædd – sem gefur fólki öll svörin, leggur því til fullkomna skýringu á heiminum, sögunni og lífinu almennt, úthlutar öllu og öllum tilgang: nefnilega marxisminn. Heldurðu að þetta greini hann frá öðrum tegundum heimspeki?

Berlin Nei, ekki þetta, held ég, eða ekki þetta eitt sér. Höfundar mikilla frumspekikerfa reyndu líka að gera þetta: Platon, Aristóteles, stóumenn, Tómas frá Akvínó. Meðal seinni tíma hugsuða reyndu Hegel og Auguste Comte að fjalla um alla reynsluna. Munurinn er sá að marxisminn, þegar hreyfingin er tekin sem heild, vill afnema heimspeki í eldri merkingunni í þágu vísindanna um samfélagið sem hann gerir tilkall til að vera. Marxisminn gerir kröfu til að vera nákvæm vísindaleg kenning um söguna, um hvernig menn hafa þróast frá fyrstu tímum. Þessi þróun er sögð ráðast af vexti hæfileika mannsins til að framleiða efnisleg gæði. Framleiðsla – hver stjórnar framleiðslutækjunum – hráefni, verkfæri, menn, hvernig þetta er notað, hvað gert er við framleiðsluvöruna – þetta ákvarðar allt annað: dreifingu valds – hverjir eru hinir ríku og hinir snauðu, hver er herra og hver er þræll eða ánauðugur, hver er húsbóndi og hver þjónn eða bóndi eða verkamaður í verksmiðju, eða slátrari eða bakari eða kertastjakaframleiðandi – í raun og veru alla samfélagsgerðina. Efnahagsgerð samfélags er talin ákvarða lög þess, stjórnmál, listir, vísindi, ríkjandi viðhorf. Hvort sem fólk gerir sér grein fyrir þessu eða ekki hlýtur, samkvæmt þessari skoðun, allt sem menn hugsa, ímynda sér og vilja að endurspegla hagsmuni ráðandi stéttar. Þess vegna er hið fyrsta sem spyrja skal um hugmyndir, gildi og hugsjónir, sem vitanlega fela í sér og láta í ljós heil viðhorf, ekki, til að mynda, ‘eru þau sönn’? eða ‘eru þau góð í sjálfum sér’? heldur ‘hvaða hagsmunum eru þau til framdráttar’? Hvaða atvinnustétt koma þau að gagni? Sagan er eins og sjónleikur þar sem aðalpersónurnar eru atvinnustéttir sem eiga í sífelldu stríði. Allar hugmyndir, þar með taldar heimspekikenningar, eru vopn í þessu stríði. Fræðilega séð getur ekki verið nein hlutlægni, engin staða hafin yfir baráttuna sem leyfði manni að mynda sér yfirvegaða, óhlutdræga skoðun. Marxisminn er í grundvallaratriðum félagsfræðileg kenning, kenning um félagslega þróun mannskynsins, saga framfara sem hefur óhjákvæmilega í för með sér styrjaldir og byltingar og ósegjanlega grimmd og eymd, en leikrit sem endar vel. Sannleikur og lygi, rétt og rangt, fegurð og ljótleiki, ráðast af stéttarhagsmunum.

Af þessu leiðir að heimspeki sem sjálfstæð fræðigrein hlýtur að renna saman við vísindalega félagsfræði hugmynda – heimspekikenningar ber að skoða og meta með tilliti til hins almenna viðhorfs (hugmyndafræði) sem þær eru kjarninn í og þetta viðhorf ræðst svo aftur af þörfum þeirrar stéttar sem hefur þetta viðhorf. Heimspekingar á borð við Kant og Russell kunna að halda að þeir séu að leita hlutlægra svara – og jafnvel veita þau – við spurningum um eðli efnislegra hluta, orsakalögmálsins eða mannlegrar þekkingar og að þessi svör, ef þau eru sönn, séu eilíflega sönn og að leitin að þeim sé óhlutdræg. En haldi þeir þetta hafa þeir rangt fyrir sér. Slík vandamál koma upp sem hugsunarafurðir sérstaks ástands tækninnar á hverjum tíma og eignaréttartengsla, og þess vegna félagslegra tengsla, sem stafa af því. Þau leika sitt hlutverk í stéttastríðinu og ættu að skoðast í ljósi þessa stríðs. Heimspekileg vandamál er því á endanum ætíð hægt að afhjúpa sem vandamál verklegrar starfsemi. Að vera upptekinn af hreinni kenningu kann stundum að reynast einbert dulargervi, leið til að sneiða hjá félagslegum vandamálum af hálfu þeirra sem eru ekki reiðubúnir að horfast í augu við þau og kann þess vegna að reynast eins konar þegjandi samþykki til að varðveita óbreytt ástand – samfélag sem er stjórnað af léns- eða auðvaldsstofnunum. Strax og maður skilur þessa grundvallarstaðreynd, sem hefur ummyndandi áhrif, þarf hann ekki framar að vera fórnarlamb óþekktra afla sem hjá einföldum sálum valda hjátrú og skelfingu og hjá þeim veraldarvanari trúarlegum, frumspekilegum og heimspekilegum blekkingum. Nú hefur maður eignast vísindi – eins áreiðanleg, alltént fræðilega séð, og eðlisfræði, efnafræði eða líffræði: og þetta gerir manni kleift að skipuleggja líf sitt skynsamlega í ljósi þekkingar á félagslegu eðli mannsins og tengslum þess við hinn ytri heim.

Þetta er hin yfirgripsmikla krafa sem marxistar af öllum skoðanagerðum gera. Þeir líta á heimspekikerfi fortíðarinnar sem visst mörg viðhorf sem hafa komið fram í tímans rás – svokallaða ‘hugmyndafræði’ – sem rísa og hníga með þeim félagslegu skilyrðum sem geta þau af sér. Í þessum skilningi vilja marxistar losna við heimspekina og breyta henni í félagsvísindi, sem í staðinn fyrir að það leysi heimspekileg vandamál leysir þau upp í vandamál verklegrar starfsemi – umfram allt félagslegrar og pólitískrar starfsemi sem marxisminn þykist hafa fundið vísindaleg svör við. Fyrir mér er þetta minnst sannfærandi hluti allrar stefnuskrárinnar. Ég mundi segja að það kunni vel að vera rétt hjá marxistum að tískur í hugsun eigi sér rætur í félagslegri starfsemi, en ekki að vandamálin sem koma upp á meðan starfsemin varir hverfi með henni, enn síður að hún leysi þau. Rúmfræði kann að hafa sprottið af þörfum arkitekta í fornöld – pýramídasmiða eða fyrirrennara þeirra; efnafræði kann að eiga sér upphaf í göldrum. En vandamál um grannfræði og erfðalykla, eða vandamál á borð við „hvers konar yrðing er ‘ekki er hægt að finna ferning með sama flatarmál og hringur’?“ verða ekki leyst með verklegri starfsemi. Aðeins rökhugsun getur leyst fræðileg grundvallarvandamál – stærðfræðileg, heimspekileg, lagaleg, málvísindaleg, líffræðileg, eðlisfræðileg, efnafræðileg – og vinnur oft á háu sértekningarstigi, eftir því sem hvert mál krefst. Kreddan um einingu fræðilegrar kenningar og verklegrar starfsemi er án efa meiriháttar framlag til vissra þekkingarsviða – til að mynda félagslegra fræða – og kann að hafa róttækar afleiðingar fyrir siðfræði og fagurfræði; en hún er ekki (svo orð Marx sjálfs séu notuð) höfuðlykill að hinu fræðilega sviði eins og það leggur sig, jafnvel sem rannsóknaraðferð. Það kann að vera að Marx, sem skrifaði ekkert kerfisbundið verk í heimspeki, hafi ekki gert neitt tilkall til að hafa skapað allsherjarvísindi, ólíkt þekktustu lærisveinum hans, en fyrir þeim er marxisminn höfuðvísindi sem á lykilinn að öllum mannlegum rannsóknum þar sem aðferð díalektískrar efnishyggju er altæk og algild. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta ekki trúverðugt í neinni hinna óteljandi túlkana orðsins ‘díalektískur’ hjá málsvörum marxismans.

Magee Geta marxismans til víðtækrar skírskotunar – sem fer nú kannski dvínandi en var einu sinni sterk – stafaði sumpart af því að hann bauð fram nokkur skýr og auðskilin líkön: sögulíkan og samfélagslíkan og þess vegna líkan af sambandi manns við mann. Án tillits til heimspekilegrar stöðu marxismans kem ég hér að spurningu sem mig langar til að bera upp við þig, spurningunni um hlutverk líkana í hugsun – og mikilvægi þess að við gagnrýnum þau, en það er heimspekileg iðja. Ég talaði hér áðan um hvernig eitt af verkefnum heimspeki og heimspekinga sé að útlista hugtök; en það er reyndar aðeins eitt verkefnið. Hugtök eru, ef svo má að orði kveða, byggingareiningar hugsunar okkar og vitanlega notum við ekki aðeins byggingareiningar í hugsun okkar heldur einnig byggingar. Þær eru oft kallaðar ‘líkön’. Til dæmis þegar talað er um samfélagið hugsa sumir um það eins og einhvers konar vél sem er sett saman af mönnum til að vinna tiltekin verk, þar sem allir hinir mismunandi hlutar sem hreyfast tengjast hver öðrum á tiltekna vegu. En aðrir hugsa um það sem einhvers konar lífveru, eitthvað sem vex líkt og lifandi hlutur, með sama hætti og eikartré vex upp af akarni. Hvort sem maður nú hugsar um samfélagið sem einhvers konar vél eða sem einhvers konar lífveru getur það haft gífurlegar hagnýtar afleiðingar vegna þess að maður fær þá – eftir því hvort þessara líkana er ráðandi í hugsun hans – umtalsvert ólíkar niðurstöður og viðhorf hvað snertir ríkisvald, stjórnmál og félagsleg vandamál yfirleitt, ekki síst hvað snertir tengsl einstaklings og samfélags. Maður hefur þá einnig ólíkt viðhorf til fortíðarinnar og til þess með hve margvíslegum hætti breytingar geta átt sér stað.

Það er vafasamt hvort við getum hugsað yfirleitt án þess að nota líkön, en hvað sem því líður hafa þau áhrif á, móta og takmarka hugsanir okkar á alls konar vegu sem við gerum okkur yfirleitt ekki grein fyrir. Eitt af hlutverkum heimspekinnar er, er það ekki, að afhjúpa líkönin sem leggja til hina (oft) duldu byggingu hugsana okkar og að gagnrýna þau?

Berlin Já, mér virðist þetta vera rétt. Marxisminn sjálfur er ágætt dæmi um það sem þú átt við. Marxisminn byggir líkön sín á einhverju sem líkist nokkuð þróunarkenningu sem hann beitir á alla hugsun og veruleika.

Ég hef lengi talið að saga stjórnmálaheimspekinnar sé að miklu leyti saga breytilegra líkana og að rannsókn þessara líkana sé mikilvægt heimspekilegt verkefni. Alloft er besta leiðin til að útskýra hluti fyrir fólki að nota einskonar hliðstæðu, fara frá hinu þekkta til hins óþekkta. Maður finnur að hann stendur frammi fyrir ráðgátukenndum spurningum: „Hvað er maðurinn?“, „Hvað er mannlegt eðli?“ Maður gæti byrjað með því að svipast um eftir hliðstæðum. Mannlegt eðli líkist nokkuð – hverju? Segjum að við lítum á dýrafræði, við vitum heimikið um hana; eða grasafræði, við vitum heilmikið um hana líka. Hvers vegna skyldi ekki tekið á spurningum um mannlegt eðli með sama hætti? Við erum á leið að grundvalla almenn vísindi um allar skepnur í náttúrunni – vísindi um lífið í öllum myndum þess – eða það var allútbreidd skoðun, að minnsta kosti þegar á átjándu öld – hvers vegna ættum við þá að gera ráð fyrir að mannverur séu öðruvísi? Dýrafræðingar hafa þróað aðferðir til að kanna, til dæmis, samfélög bjóra eða býflugna. Með tímanum, lýsti Condorcet yfir, munum við hafa vísindi um manninn byggð á sömu traustu náttúrufræðilegu lögmálunum.

Það var Whitehead, held ég, sem sagði að heimspekin væri einungis neðanmálsgreinar við Platon, vegna þess að það var Platon sem bar upp flestar stóru spurningarnar sem við höfum verið að fást við æ síðan. Kannski hafði Russell rétt fyrir sér í því að veita Pýþagorasi viðurkenningu fyrir sumt af þessu. Þessir grísku heimspekingar hugsuðu sér stærðfræðina sem dæmi um þekkingu í sinni tærustu mynd eða þekkingarviðmið og töldu þess vegna að hægt væri að útskýra alheiminn rétt með stærðfræðinni einvörðungu. Veruleikinn var stærðfræðilega skipulögð bygging þar sem allt passaði nákvæmlega, eins og til að mynda í rúmfræðinni. Aristóteles kaus heldur líffræðilegt líkan af þróun og fullkomnun. Stóumenn hölluðust að eðlisfræðilegum líkingum eða hliðstæðum. Hin gyðing-kristilega hefð notar hugmyndina um skyldleika – um fjölskylduna: um samband föður við börn sín og samband þeirra við hann og hvert annað – til að varpa ljósi á samband Guðs við manninn og samband manns við mann. Á sautjándu öld reyndu menn að útskýra eðli samfélagsins út frá lagalegum líkönum – þar á hugmyndin um samfélagssáttmálann sem hin félagslegu grunntengsl rætur sínar. Nýtt líkan er tekið upp vegna þess að það er talið varpa nýju ljósi á eitthvað sem hingað til var hulið. Mönnum finnst gamla líkanið ekki hæfa reynslu okkar í raun og veru, til að mynda stigveldislíkan miðalda þar sem hin eilífa skipan alheimsins var hugsuð sem pýramídi með Guð efst og lægri stéttir sköpunarinnar neðst, þar sem allar skepnur og dauðir hlutir hafa sitt eigið ákveðna hlutverk sem þeim er úthlutað af Guði – og volæði er einskonar misgengi, til marks um að maður misskilji stöðu sína í hinni guðlegu skipan. Erum við í raun sannfærð um að það eitthvað eiginlega frábært við konunga, eða hina miklu foringja, eða lénsherra, sem aðra menn skorti um aldur og eilífð? Er þetta í samræmi við það sem við vitum um eðli manna og tengsl þeirra? Hvað réttlætir þá stjórnmálaskipan sem við föllumst á sem skynsamlega – með öðrum orðum, hvert er svarið við spurningunni hvers vegna einn maður ætti að hlýða öðrum? Vissulega er samþykki – látið í ljós með hugmyndinni um samfélagssáttmálann – eini réttmæti grundvöllur félagslegs og pólitísks fyrirkomulags, eða hvað? Þannig frelsar nýja líkanið mann frá áþján hins gamla.

En þá er þess að gæta að þetta nýja líkan skyggir svo aftur á sannleik sem gamla líkanið afhjúpaði – starfsskyldu einstaklinga og hópa: gilda, starfsgreina, fagsviða og stétta – til að leggja sitt af mörkum í almannaþágu, samfélagskenndina, tilfinninguna fyrir friðsamlegri samvinnu í þjónustu sameiginlegra markmiða – andstætt við sókn í persónulegan ávinning sem býsna oft var hugsaður á efnishyggjulegum nótum, sem kenningin um samfélagssáttmálann virtist hafa smættað félagsleg bönd, hollustu í stjórnmálum og persónulegt siðferði, niður í. Þess vegna er samfélagssáttmálalíkanið svo aftur leyst af hólmi af enn öðru líkani byggðu á hliðstæðu við líf jurta og dýra sem frelsar menn frá hinum vélgengishyggjulega forvera sínum. Og á eftir þessu kemur enn annað byggt á hugmyndinni um frjálsan og sjálfkrafa listrænan sköpunarmátt sem fyllir eldmóði menn og samfélög sem mótuð eru af afburðaleiðtogum eins og listaverk eru sköpuð af ljóðskáldum, málurum og tónskáldum. Stundum er líkanið samsett úr nokkrum slíkum hugmyndum – erfða-mannfræðilegum eða lífrænum-sálfræðilegum og svo framvegis. Hver er skýringin á þessari runu viðmiða eða líkana, hvert með sitt samsvarandi tungutak, ímyndir og hugmyndir sem eru í senn merki um og þættir ekki aðeins í fræðilegri kenningu heldur einnig í verklegri starfsemi og umbreyta hvoru tveggja stundum á byltingarkenndan hátt? Hluta af svarinu við þessari mikilvægu en óljósu spurningu er að finna í þeirri staðreynd að á ýmsum tímum í sögunni verða til mismunandi þarfir og vandamál sem geta vissulega valdið vandræðum: mönnum finnast gömlu skoðanirnar hvorki útskýra það né leggja fram lausnir á því sem þeim hluta samfélagsins sem er næmastur og virkastur í siðferðilegum og pólitískum efnum þykir sérstaklega þjakandi. Orsakir þessa ferlis kunna oft að vera efnahagslegar, jafnvel þótt það sé ekki öll skýringin eins og marxistar álíta. En hverjar svo sem þær eru birtist ferlið á meðvituðu stigi í því að breyta siðferðilegum og pólitískum kenningum og hugsjónum sem til grundvallar liggja hin breytilegu ‘höfuðlíkön’ af mönnum og samfélögum sem menn hafa meðvitað og ómeðvitað hliðsjón af í hugsun og athöfn.

Magee Það virðist furðulegt að svo margir sem vilja líta á sig sem venjulega, raunsæja, hagsýna menn skuli vísa á bug gagnrýninni rannsókn á líkönum sem óhagnýtri iðju. Dragi maður ekki fram í dagsljósið forsendur hugsunar sinnar verður maður einfaldlega fangi ríkjandi rétttrúnaðar í öllum málum. Þannig verður líkan kynslóðar manns eða líkan líðandi stundar fangelsi manns án þess að hann geri sér einu sinni grein fyrir því.

Berlin Vissulega.

Magee Í öllu falli, hvað gæti hugsanlega verið hagnýtara en áhrif sumra þeirra hugmynda sem við höfum þegar talað um? Þær hafa haft bein og augljós áhrif á amerísku byltinguna, frönsku byltinguna og rússnesku byltinguna, svo dæmi séu nefnd. Öll trúarbrögð heimsins og allar marxísku ríkisstjórnirnar, svo aðrar séu ekki nefndar, eru dæmi um hvernig heimspekilegar hugmyndir geta haft og hafa bein hagnýt áhrif á mannverur. Því er sú skoðun að heimspekilegar hugmyndir séu einhvern veginn úr tengslum við raunverulegt líf sjálf úr tengslum við það. Hún er með öllu óraunsæ.

Berlin Ég er alveg sammála. Haldi venjulegt fólk annað þá er það vegna þess að sumir heimspekingar hafa stundum notað óþarflega torskilið mál í umfjöllun sinni um þessi efni. En auðvitað má ekki kenna þeim alfarið um þetta. Verði maður virkilega niðursokkinn í einhverja grein kemst maður ekki hjá því að verða einnig niðursokkinn í smáatriðin. Enda þótt hinir miklu heimspekingar hafi ætíð talað þannig að þeir gátu náð til venjulegs fólks – svo að það hefur alltént í einhverri einfaldaðri útgáfu skilið kjarna máls þeirra – þá hefur minni háttar heimspekingum stundum hætt til að verða of uppteknir af smáatriðum greinarinnar. Russell sagði einu sinni eitthvað sem mér virtist mjög skarplega athugað – og kom mér nokkuð á óvart að það skyldi koma frá honum: að aðalhugmyndir hinna miklu heimspekinga séu í meginatriðum einfaldar. Útfærsluna í smáatriðum er ekki að finna í því sem ég hef kallað, kannski með því að einfalda um of, líkön þeirra af heiminum, ekki í grunnmynstrunum sem þeir skyggndu eðli og líf manns og heims með, heldur í vörn þeirra fyrir þessum hugmyndum gegn raunverulegum eða ímynduðum mótbárum. Þar koma vitanlega heilmikil hugkvæmni og mikið tæknilegt orðfæri til skjalanna. En þetta er aðeins hinn flókni vopnabúnaður, stríðsvélarnar á brjóstvirkjunum, til að bægja frá öllum hugsanlegum andstæðingum. Virkið sjálft er ekki flókið: rökleiðsla, máttur röksemda, snýst að jafnaði um árás og vörn, en er ekki hluti af sjálfri aðalhugmyndinni – sem er skýr, auðskilin og tiltölulega einföld. Enginn sem les þá með athygli getur verið í miklum vafa um hver sé kjarninn í hugmyndum Platons eða Ágústínusar, Descartes eða Lockes, Spinoza eða Kants um heiminn. Og þetta á alveg eins við um flesta heimspekinga samtímans sem njóta einhverrar virðingar: á grundvallarsannfæringu þeirra leikur sjaldan vafi og hún er skiljanleg venjulegu fólki. Hún er ekki torskilin eða einungis aðgengileg sérfræðingum.

Gunnar Ragnarsson þýddi

Birt á Heimspekivefnum 21. maí 2004.

 

Tilvísanir

1. Viðbótarfróðleikur um viðmælanda Magees: – Auk þess að njóta mikillar virðingar fyrir víðtæka þekkingu í hugmyndasögu er Isaiah Berlin (1909–1997) í umtalsverðu áliti sem stjórnmálaheimspekingur. Í þeirri grein heimspekinnar mun hann vera best þekktur fyrir greinarmuninn sem hann gerði á neikvæðu og jákvæðu frelsi í ritgerðinni Two Concepts of Liberty (Tvö hugtök um frelsi) sem kom út 1959 og birtist á íslensku árið 1994 í ritinu Heimspeki á 20. öld (Ritstj. Ólafur Páll Jónsson og Einar Logi Vignisson, Heimskringla gaf út). Einnig er fræg ritgerð hans Historical Inevitability (Sögulegur óumflýjanleiki) frá 1954. [þýð.]

 

« Til baka