Greinasafn fyrir merki: Nietzsche

Egóistinn og skugginn hans: Einstaklingur og samfélag í heimspeki Nietzsches

eftir Kristján Guðjónsson

Stjórnmál Nietzsches …

Á 12 sekúndna fresti deyr afrískt ungbarn úr alnæmi. Þú hefur tvo afarkosti, gerðu eitthvað eða gerðu ekkert! Það sem þú gerir hefur engin áhrif, en með því að gera ekkert gerir þú illt verra. Veldu núna! –

Pólitískar óánægjuraddir eru óþreytandi við að benda okkur á að með aðgerðaleysi séum við að styðja hið ríkjandi ástand. „Hver tjáning sem vinnur ekki gegn er tekin sem staðfesting; hver bending sem ekki eyðileggur er túlkuð sem samþykki.“1 Hver maður stendur frammi fyrir afar­kostum egóisma og fórnfýsi; ég vel milli mín og þín. Vinstrið úthrópar egóismann á meðan hægrið telur fórnfýsina falska; allt sé í raun gert af eigingjörnum hvötum. Hið pólitíska val er svo réttlætt með tilvísunum til „samúðar“, „frelsis“ og „manneðlis“.
Friedrich Nietzsche neitaði því að til væru slík sjálfgefin gildi. Við slíka afneitun vaknar hins vegar spurningin um hvernig hægt sé að taka nokkra afstöðu þegar engin óumdeilanleg hugtök eða gildi eru til að byggja afstöðuna á. Ef maðurinn er „mælikvarði alls“, hvað mælir þá gegn grimmri einstaklingshyggju? Skrif Nietzsches virka ó-pólitísk og hafa því verið gagnrýnd fyrir að einbeita sér um of að einstaklingnum en gefa skipulagningu samfélagsins lítinn gaum. Slík gagnrýni á tilvistarspekinga er alþekkt og byggist á þeirri útbreiddu skoðun að hver hugsandi maður hafi einungis tvo valmöguleika í lífinu: að þroska sjálfan sig eða bjarga heiminum. Sá sem velur fyrri möguleikann er ítrekað úthrópaður sem getulaus eiginhagsmunaseggur í fílabeinsturni for­réttindanna, sá síðari sem barnalegur hugsjónamaður.
Harðlínumenn úr röðum vinstri og hægri manna – og nánast allra pólitískra fylkinga þar á milli – hafa reynt að eigna sér heimspeki Nietzsches og nýtt hugmyndir hans sér til stuðnings. Hinir ólíkustu hópar hafa samsamað sig hugmyndum hans og heimfært á sjálfa sig. Kjarnyrtur og á vissan hátt sundurlaus spakmælastíll Nietzsches gefur mönnum mikið frelsi við að túlka textann og gerir þeim þannig auðvelt að lesa út nánast hvað sem þeir vilja. En allar tilraunir til að setja hann í lokaðan ramma stjórnmálastefna eða hugmyndakerfa eru þó dæmdar til að misheppnast. Fyrir nánast hverja fullyrðingu í textanum finnum við aðra sem virðist ógilda þá fyrri.2 Nietzsche segir okkur allt, en á sama tíma ekkert.
Í þessari ritgerð ætla ég að skoða hvers vegna engri einni stjórnmálastefnu hefur tekist að eigna sér heimspeki Nietzsches á óumdeilanlegan hátt og hvort að það sé í raun mögulegt að mynda kerfi úr samfélags- og stjórnmálatengdri hugsun hans. Ef svo er ekki er eðlilegt að spyrja hvort einstaklingur sem samþykkir forsendur Nietzsches neyðist ekki nauðsynlega út í einstaklings­hyggju og pólitískt aðgerðaleysi. Svarið tel ég velta á því hvort við tökum hina hefðbundnu tví­skiptingu athafna í einstaklingsmiðaðar, sem stefna að því að fullkomna sjálfið, og samfélags­miðaðar, sem stefna að fullkomnu samfélagi, gilda. Mér virðist sem Nietzsche stígi handan þessarar tvískiptingar. „Það er full ástæða til að draga í efa að andstæður séu yfirleitt til“3 og því er mögulegt að andstæðurnar séu því frekar tvær hliðar á sama peningnum: það sé nauð­synlegur hluti af sjálfsþroska einstaklings að taka þátt í að bæta heiminn en á sama tíma geti heimurinn ekki batnað nema fyrir tilstilli sjálfsþroska einstaklingsins. Þá þurfum við ekki lengur að líta á lífið sem vegasalt milli eigingirni og óeigingirni, þar sem önnur hliðin er ávallt látin hanga í lausu lofti. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er mikilvæg ekki aðeins í fræðilegum skilningi heldur einnig tilvistarlegum. Erum við dæmd til þess að velja í sífellu milli eigingjarnra og fórnfúsra gjörða; milli andstæðna sem aldrei geta veitt okkur nema helming þeirrar lífsfyllingar sem við þráum; sjálfstæðis og samfélags? Þurfum við að velja annan möguleikann á kostnað hins eða getum við að komist handan tvískiptingar einstaklings og samfélags?

… Handan ríkisins.

Í þau fáu skipti sem að Nietzsche ræðir stjórnmál samtíma síns er það af fyllstu andúð og fyrirlitningu. Hann gagnrýnir jöfnum höndum leiðtoga heimsins og þá sem mótmæla ríkjandi ástandi. Þá fyrri sakar hann um vangetu og eiginhagsmunasemi en hina síðari um að draga allt fólk niður í meðalmennsku með úrkynjuðum hugmyndum um lýðræði og jafnan rétt allra. Það eru skiptar skoðanir á því hvort Nietzsche hafi einungis verið mótfallinn stjórnmálum eins og þau voru stunduð á hans tíma (og eru í raun enn stunduð) eða sjálfri grunnhugmyndinni um stjórnmál4 – hvort það hafi verið lýðræðisríkið eða ríkið sjálft sem hann mótmælti.
Lýðræðishugmyndin, sem var tiltölulega ný af nálinni í evrópsku samfélagi, var eitt helsta sjúk­leikamerki nútímans að mati Nietzsches. Sú trú að meirihluti fjöldans skyldi stjórna samfélaginu taldi hann að myndi leiða til þess að lægsti mögulegi samnefnarinn yrði ávallt hafður að leiðar­ljósi; jafnræði væri til þess fallið að draga þann besta niður á plan hins versta. Lýðurinn gæti sem heild ekki tekið skynsamlegar ákvarðanir enda taldi Nietzsche hann stjórnast af hjarðeðli sem stjórnmálamenn nýttu sér með lýðskrumi og múgæsingu. Ólíkt lýðræðissinnum dáði hann ein­valda og stríðsherra á borð við Napóleon Bonaparte og Júlíus Sesar. En þegar hann hrósaði einræðisherrunum var það vegna þeirra persónulegu sjálfsuppgötvana, atorku, sjálfstæðis og samkvæmni við sjálfa sig, fremur en vegna pólitískra sigra og gildis þeirra fyrir heildina eða aðra þjóðfélagsþegna. Hann áleit hvorki einræði né alræði vera fýsilegt sem slíkt, enda gera slíkar hugmyndir ráð fyrir valdi ríkisins.
Hvert einasta ríki ógnar manninn með fjölþættu ofbeldi og neyðir til fylgispektar við sjálft sig. Mennirnir hlýða ekki sjálfum sér af ótta við hefnd samfélagsins. Ríkið kúgar og heftir bæði líkamlegt og andlegt frelsi þegnanna. Hlýðnin sem ríkið krefst af borgurunum er ávallt slæm því að sjálfsuppgötvun einstaklingsins getur einungis átt sér stað ef hann er frjáls undan böndum fylgispektar. Ríkið er til vegna hjarðhegðunar mannsins – leti og ótta við sjálfstæði – og að sama skapa hvetur það til slíkrar hegðunar. Líkt og kirkjan sem hætti að vera tenging við Guð og varð að skurðgoði vill ríkið vera dýrkað á ógagnrýninn hátt. Þegar ríkið verður að markmiði í sjálfu sér upplifa þeir þegnanna sem hafa raunverulega sjálfsmeðvitund sig aðeins sem hluta af því ef hagsmunir ríkisins fara fullkomlega saman við hagsmuni og hvatir þeirra sjálfra. Stjórnmálin, baráttan um stjórnun ríkja, byggjast þess vegna á eiginhagsmunum. Hin hefðbundnu stjórnmál verða nauðsynlega að valdabaráttu ólíkra hagsmunaaðila.
Vegna þeirrar dökku myndar sem Nietzsche málar af ríkinu hafi sumir reynt að stimpla hann sem stjórnleysingja; byltingarsinna gegn ríki og valdi, hugsjónamann fyrir heilögu frelsi einstak­lingsins. En þvert á móti ræðst hann hvað harkalegast á þá sem mynda pólitískt kerfi úr slíkum hugsjónum þ.e. anarkista. Þá álítur hann óþolinmóða „stjórnleysingjahunda“ og efsta og fyrir­litlegasta stig hinnar óheillavænlegu lýðræðistrúar.5 Það er nefnilega ekki aðeins valdapólitík innan ríkisins sem hann telur rotna, heldur einnig, og kannski enn frekar, hugsjónapólitík. Slík stjórnmálaleg virkni siglir undir fölsku flaggi hugsjóna og siðferðilegra gilda sem eiga rætur að rekja til þeirrar sömu valdabaráttu og hagsmunastríðs sem einkennir hefðbundin valdastjórnmál. Hvati slíkra stjórnmála er einfaldlega betur falinn.
Hvatinn sem liggur stjórnmálum að baki er þó ekki það eina sem Nietzsche gagnrýnir heldur einnig sú sjálfsblekking að stjórnmál geti yfirleitt haft nokkur áhrif á það sem skipti í raun máli. „Hvernig ætti pólitísk nýjung að gera, í eitt skipti fyrir öll, manninn að ánægðum íbúa jarðarinnar?“ spyr Nietzsche og telur svarið liggja í augum uppi.6 Slík nýjung getur það ekki, hvort sem að hún gerir manninn að einræðisherra eða íbúa í útópísku sameignarsamfélagi. Spurningunni um hamingju og hjálpræði verður ekki svarað innan sviðs stjórnmálanna heldur af hverjum einstak­ling fyrir sig. En hvers vegna telur Nietzsche stjórnmálin ófær um hafa áhrif og veita einstaklingum samfélagsins hjálpræði og hamingju? Snúast stjórnmál ekki einmitt um að búa til þær aðstæður sem gera einstaklingum kleift að þroska sjálfa sig og líða vel í samfélagi við aðra menn?

… Handan sannleikans.

Nútímastjórnmál byggja á þeirri grundvallarhugmynd að samfélagsleg staða einstaklinga skuli á einhvern hátt vera réttlætt. Íhaldsmenn réttlæta ríkjandi misskiptingu í samfélaginu með tilvísunum til náttúrlegs frelsis okkar og réttar til eigna en jafnaðarmenn vísa til hins náttúrlega réttar hvers manns til mannsæmandi lífs. Siðferðileg hugtök á borð við jafnrétti og frelsi, réttindi og skyldu, hafa því orðið að helsta markmiðum stjórnmálabaráttunnar án þess að grundvöllur þeirra hafi verið íhugaður nægilega. Það sem að Nietzsche sér því sameiginlegt með stjórnmálastefnum nútímans – allt frá íhaldi til kommúnisma og anarkisma til hófsamrar miðjustefnu – er að hver einasta þeirra stendur fyrir ákveðna hugmyndafræði. Hugmyndafræði væri hægt að skilgreina sem „hvert það hugmyndakerfi sem fjallar um mannlega hegðun og félagslegt líf, sem inniheldur sín eigin siðalögmál og telur sig miðla einhverjum algildum sannleika“.7 Hver einasta hugmyndafræði gefur sér því a.m.k. eina forsendu; eitt gildi sem er fyrirfram talið óyggjandi satt. Þar af leiðandi grundvallast stjórnmálin á trú á frumspekilegan og hlutlægan, sammannlegan sannleika. Þessari trú ræðst Nietzsche harkalega gegn í ritum sínum.
Í ritgerðinni Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi, frá árinu 1873, færir hinn ungi Nietzsche rök gegn því að til sé ytri sannleikur sem við getum á einhvern hátt komist í tæri við. Hann heldur því fram að tungumálið brengli raunveruleikann óhjákvæmilega. Afneitun á sannleikanum varð eitt af meginstefum hans í gegnum árin en þá með breyttum röksemdum. Þegar fram leið þróaði hann með sér kenningu sem hefur síðan verið nefnd sjónarhornshyggja. Hún byggist á þeirri athugun að það eina sem við getum þekkt með nokkurri vissu er okkar einstaklingsbundna sjónarhorn. Sjónarhornið er hinn eini mögulegi sannleikur, handan hans er enginn hlutlægur veruleiki eða hlutur-í-sjálfum-sér. Viðfangsefnið er þó ekki á valdi skynjandans, það er ekki gjörsamlega huglægt, heldur getur það orðið „hlutlægara“ eftir því sem það er skynjað frá fleiri sjónarhornum, þ.e. þegar fleiri tækjum skynjunar er beitt á hlutinn. Því er hið röklausa, listræna sjónarhorn ekki fullkomlega rétt og þess þá heldur hið rökbundna vísindasjónarhorn, en saman geta þau sýnt okkur heildstæðari og ítarlegri raunveruleika. Þrátt fyrir þetta telur Nietzsche það ómögulegt að komast undan því í hversdagslegu tali og samskiptum að flokka hluti í sanna og ósanna. Goðsögnin um sannleikann á ekki uppruna sinn að rekja til ytri frumspekilegs raunveruleika heldur í þörf mannsins fyrir slíkan sannleika og því krefst hann þess að við viðurkennum ávallt takmarkanir staðhæfinga um sannleikann. Sannleiksþörfin er manninum þó síður en svo eðlislæg, heldur kviknaði hún með sköpun siðferðisins. Kenningin um tilkomu siðferðisins er einmitt miðlæg í heimspeki Nietzsches.
Samkvæmt sifjafræðilegri greiningu Nietzsches skilgreindu fornir aðalsmenn sig sem „góða“. Skilgreiningin gekk út frá virkni einstaklingsins sjálfs en ekki ytri veruleika. Þeir voru „góðir“ vegna líkamlegra og samfélagslegra yfirburða sinna en almúginn var „lélegur“ vegna skorts á slíkum gæðum. Skiptingin í góða og lélega menn var ekki siðferðislega gildishlaðin frekar en skipting í stóra og litla menn og krafðist engrar réttlætingar. Vilji til valds en getuleysi til að koma honum í framkvæmd gerði það að verkum að hinn „lélegi“ almúgi, sem Nietzsche kallaði yfirleitt þrælana, varð reiður og bitur. Í stað þess að kenna sjálfum sér og getuleysi sínu um eigin þjáningu beindi þrællinn biturð sinni út á við, að húsbóndanum sem naut gæða lífsins algjörlega laus við biturt hugarangur. Biturðin varð loks að skapandi afli þegar hinn kraftlausi maður skilgreindi dyggðir aðalsins sem „illar“ og þær gjörðir sem voru hvað ólíkastar þeim sem „góðar“. Þetta voru athafnir sem kröfðust einskis af þeim veikari, s.s. hlýðni og hollusta, og högnuðust fjöldanum; samúð, fórnfýsi, gjafmildi o.s.frv. Þar sem þrællinn gat ekki bent á sjálfan sig sem uppsprettu þessara gilda og þar sem náttúran er í grunninn ó-siðleg varð hann að leita utan hinnar sýnilegu náttúru eftir réttlætingu. Slíkt siðferði hreinlega kallaði á sköpun guða og hugmyndar um æðri veruleika.
Trúarbrögðin voru því lítið annað en tæki í þágu siðferðisins. Sú hrörnun kristninnar sem var að eiga sér stað á tíma Nietzsches minnkaði ekki tilhneigingu manna til að leita út fyrir eigin upplifanir að réttlætingu á siðferðilegum gildum heldur beindu menn sjónum sínum að öðrum yfirnáttúrulegum hugmyndum. Í stað „vilja Guðs“ var nú vísað til „eðli mannsins“ eða „náttúrulegra réttinda“. Grunnvandamálið að mati Nietzsches er í rauninni ekki það að slík hugtök séu búin til, því þau eru aðeins óhjákvæmilegar afleiðingar af þeirri trú að leita skuli siðferðilegrar réttlætingar á athöfnum. Þar sem öll gildi sem við teljum okkur hafa fundið eru í raun manngerð munum við nauðsynlega greina mótsögn eða skort á undirstöðu í hverju þeirra. Þegar vísindaleg vinnubrögð og rökvísi ruddu sér til rúms hlaut þessi leit að bíta í skottið á sjálfri sér og fæða af sér helsta sjúkdóm nútímans að mati Nietzsches; níhilismann. Sú bölsýna tómhyggja byggir á þeirri villu að gera ráð fyrir að alheimurinn ætti að vera gildishlaðinn en það ekki. Vandamálið er hins vegar ekki að heimurinn sé tilgangslaus, að Guð sé dauður, heldur er það spurningin sjálf – hvort heimurinn hafi tilgang eða hvort Guð sé til – sem er merkingarlaus. En maðurinn vill vilja og jafnvel „frekar vilja tóm heldur en ekki vilja.“8 Á sama hátt vildi Sókrates heldur vita að hann vissi ekkert heldur en ekki vita. Það er hins vegar tilgangslaust að spyrja um hlutinn-í-sjálfum-sér eða frumspekilegan sannleika. Spurningar velta á heimsmynd sem dregur upp andstæðu milli náttúrunnar og tilbúins ytri heims. Ef hugmyndafræði byggir ávallt á hugmyndinni um óyggjandi sannleika og slíkur sannleikur er tálsýn þá er ljóst að hún hylur veruleika einstaklingsins í stað þess að varpa ljósi á hann. Þessi blekking hlýtur að vinna gegn sjálfs-uppgötvun og þroska einstaklingsins sem felst í því að komast undan oki hins viðtekna og því sem aðrir kalla satt; treysta betur á eigin rökvit, tilfinningar og gildismat.
Stjórnspekingar benda oft á að vænlegt umhverfi sé forsenda þess að einstaklingur geti þroskað sig. Hugmyndafræðin sé þess vegna leið að markmiði: til að maður geti hafist handa við sjálfs­þroska verði maður fyrst að breyta kúgandi aðstæðum sínum. Þetta byggir þó á þeirri hugsun að maðurinn sé algjörlega á valdi aðstæðna sinna og kristallast m.a. í orðum Karls Marx: „maður er ekki sköpunarverk sinnar eigin meðvitundar, þvert á móti, formgerð hugans byggist á skipulagi efnisins.“9 Slíkt félagslegt viðhorf til lífsins telur að við þurfum skoða samfélagið ítarlega áður en við getum skilið einstaklinginn. Einstaklingurinn er eins og hlekkur í keðju eða líffæri í líkama.
Andstæðan er þá sálfræðilegt viðhorf sem horfir á samfélagið sem lítið annað en safn einstak­linga. Þeir sem aðhyllast slíkt viðhorf telja að einstaklingurinn sé eini raunverulegi gerandinn í eigin sjálfsþroska. Staða hans í samfélaginu er aukaatriði. Slíkt viðhorf hefur verið til á meðal einstaklingshyggjumanna allt frá Stóuspekingum á þriðju öld fyrir Krist til einstaklingshyggju-anarkista nítjándu aldarinnar. Gagnrýnendur hins félagslega viðhorfs benda hins vegar á hvernig hinn félagslega þenkjandi maður færi í raun allt lífið inn á svið stjórnmálanna. Hver einasta hugsun, sem og gjörð er talin vera mótuð af stjórn- eða framleiðsluskipaninni og leysir þannig einstaklinginn undan ábyrgð á eigin hamingju. Hann getur bent út á við, á vondu kapítalistana eða illa ríkisskrímslið, og kennt þeim um óhamingju sína. Með því að viðurkenna ekki eigið hugsanafrelsi uppfyllir hann eigin spádóm og lætur meinta efnislega kúgun ná yfir á andlega sviðið. Þó að hugurinn sé frjáls er honum talin trú um að hann sé það ekki. Þar sem slíkur einstaklingur álítur samfélagsbyltingu forsendu andlegrar byltingar mun hann ekki reyna á eigin sjálfsþroska fyrr en botninn er sleginn í botnlausa baráttu. Deilunni um hvernig samfélaginu skuli stjórnað verður haldið áfram á meðan menn trúa að samfélaginu verði yfirhöfuð stjórnað og á meðan þeir leita að töfralausnum við vandamálum samfélagsins. Það er hins vegar ekki til neinn einn sammannlegur sannleikur og því ekki bara eitt samfélagslegt vandamál sem við erum að glíma við heldur óteljandi einstaklingsbundin. Eitt pólitískt svar nægir aldrei til að fullnægja þörfum fjölda mismunandi einstaklinga. Til að bæta gráu ofan á svart þá er hið ídealíska svar sem einstaklingurinn berst fyrir oftast fyrirframgefin kredda. Einstaklingurinn hefur samþykkt þennan sannleika því hann hefur ekki gefið sér tíma til að finna sinn eigin. Hvernig á maður að vita hvað er best fyrir aðra ef hann veit ekki einu sinni hvað er honum sjálfum fyrir bestu?
Aðgerðarsinninn lifir í blekkingu. Ef hann ætlar að knýja fram hið fullkomna samfélag áður en hann leitast við að uppgötva sitt eigið sjálf, mun hann hvorki þroska sjálfan sig né bjarga heiminum.

… Handan sælunnar.

Hin forna guðfræðilega mynd af manninum er horfin. Ef við getum ekki upp­götvað nýja mynd af manninum sem mun aftur láta hann finna fyrir sínum eðlislæga virðuleika, mun ríkið í höndum harðstjóra krefjast þess að hann gefi sig því á vald og dýrka; og að lokum munu menn tapa allri virðingu hver fyrir öðrum, allar samfélagslegar byggingar verða brotnar, og menn munu aðeins stefna að því að ræna eða notfæra sér hvern annan. Spurningin er hvort hægt sé að gefa manninum nýja mynd af sjálfum sér án þess að taka sem gefna nokkra yfirnáttúrulega forsendu, sem reynslan getur ekki staðfest og við getum ekki, af fyllsta ráðvendi, sleppt því að efast um.10

Það virðist ljóst að sá sem samþykkir afneitun Nietzsches á sannleikanum og siðferðinu og vill ekki festast í pólitísku kapphlaupi án marks virðist beina athyglinni aftur að sjálfum sér. En hvað felst í því? Þýðir það að eina markmið lífsins sé okkar eigin ánægja; það að við séum kúguð sé óheppilegt, en algjört aukaatriði; það að aðrir séu kúgaðir, af okkur sjálfum eða öðrum, skipti okkur nákvæmlega engu máli; það að við höfum fullan rétt til að sleppa okkur í óhófi og nautna&shyMhyggju, hvort sem við borgum brúsann sjálf eða setjum hann á reikning annarra? Sá eiginhagsmunaseggur sem myndi haga sér þannig væri hins vegar langt frá því líferni sem Nietzsche sjálfur sagði frá og lofaði í síðustu bókinni sinni Ecce Homo? Þar talaði hann um hið agaða og heilsusamlega líferni sem hann sjálfur hafði tileinkað sér. Minnir slíkur eiginhags­munaseggur kannski frekar á hinn óhamda aðalsmann fornaldarinnar eða tengist hann jafnvel þeirri níhílísku lífsskoðun sem Nietzsche fannst svo lítið til koma?
Ef við skoðum forsendur nautnahyggjunnar sjáum við að hún byggir á heimsmynd sem gerir ráð fyrir að hver einstaklingur stefni ávallt, og ætti að stefna, að því að hámarka eigin hamingju. Hugtakið hamingju er hægt að skilja á a.m.k. tvo mismunandi vegu. Ef það er skilið í hinni víðari merkingu þ.e. „það sem gefur lífinu tilgang“, eða „það sem hver maður stefnir á að öðlast í lífinu“, verður setning á borð við: maðurinn stefnir að hamingju í lífinu, augljóslega að tvítekningu. Ef hamingja á ekki vera tómt hugtak þarf hún að standa í hinum þrengri skilningi, sem einhvers konar líkamleg vellíðan og/eða andleg sæla. Þessi hugsun fer oft saman við þá kenningu að hver gjörð sé í raun sjálfmiðuð. Þá er góðvild og góðgerðastarf bara enn ein leiðin til að láta sér sjálfum líða vel. En jafnvel þó að við samþykktum kenninguna virðist það alls ekki ljóst að hver sjálfmiðuð athöfn stefni að því einu að veita gerandanum ánægju. Réttlæting nautnaseggsins á lífsmáta sínum virðist velta á gildi ánægjunnar fyrir lífið en sú forsenda hvílir hins vegar ekki á neinum óyggjandi grunni. Það er því greinileg hugmyndafræðileg villa nautnahyggjumannsins, að mati Nietzsches, að telja gildi sælunnar yfir sársaukann óumdeilanlegt.
Hann er þó ekki sá eini sem gengur út frá þessari villu heldur virðast nánast allir þeir sem hingað til hafa byggt siðferðis- eða stjórnmálakenningar á öðru en guðlegum bókstöfum talið sæluna nauðsynlega betri en sársaukann. Nautnahyggjumaðurinn telur það sinn persónulega rétt að njóta sem mestrar ánægju, nytjahyggjumaðurinn telur það rétt allra. Tómhyggjumaðurinn metur ánægju engu síður, en vegna skorts á þessari sjálfsögðu hamingju virðist honum heimurinn bersýnilega merkingarlaus og vondur. Fyrir stóumanninn felst ánægja í því að vera laus við hina andlegu þjáningu sem fylgir daglegu amstri og hversdagslegum tilfinningum. Þegar hann er algjörlega laus úr fjötrum hinna mannlegu tilfinninga er markmiðinu náð; aðgerðalaus sæla. Vellíðan er sameiginlegt gildi þeirra allra, þrætueplið er í hverju hún felst og hvernig hana skuli fanga. Nietzsche sker sig úr þessum hópi með því að benda á hinar jákvæðu afleiðingar þjáningarinnar. Þær vanmetnu afleiðingar eru jafnvel betri en þær fyrirlitlegu sem vellíðunin hefur í för með sér.
Með tortímingu hugmyndarinnar um gildi sælunnar fram yfir sársaukann virðist síðasta vígið hafa fallið. Nú finnum við fyrir stefnuleysinu sem sturlaði maðurinn á markaðstorginu spurði um: „Erum við ekki sífellt í frjálsu falli? Afturábak, til hliðar, áfram, í allar áttir?“11 Við höfum nákvæm­lega ekkert til þess að leiðbeina okkur í lífinu.

… Handan mannskepnunnar.

Innra samræmi virðist vera það eina sem við getum einbeitt okkur að. Nietzsche telur því að eina „dyggðin“ sem ekki sé hægt að losa sig undan sé hugmyndin um heiðarleika. Heiðarleiki er ekki eitthvað sem kemur einungis fram í samskiptum milli einstaklinga heldur er það fyrst og fremst afstaða sem einstaklingur tekur gagnvart sjálfum sér. Sá sem er heiðarlegur við sjálfan sig leitast við að stefna í þá átt sem hans sanna rödd, hvatir, hyggjuvit og langanir beina honum í. Hann framkvæmir það sem hann vill og vill það sem hann framkvæmir. Þessi má þó ekki fylgja aðeins einum hluta hvata sinna, hvort sem það er skynsemi eða losti, heldur verður hann að skapa úr þeim heildstæða einingu. Sá sem leitast einungis við að uppfylla vellíðunarstuðul nautnahvata sinna er ekki á nokkurn hátt heiðarlegri en sá sem fylgir hugsunarlaust hugmynda­fræðilegum straumum síns tíma. En hvað er það sem maður vill? Hvað er það sem sjálfmiðaðar athafnir stefna að?
Þar sem Nietzsche lítur á manninn sem náttúrulega veru, telur hann það óhjákvæmilegt að hann fylgi sömu lögmálum og önnur náttúruleg fyrirbæri. Það sem knýr okkur áfram er því viljinn-til-valds, ekki einungis til líkamlegs valds yfir öðrum verum heldur andlegs valds yfir okkum sjálfum. Þetta virðist vera grundvallarlögmál náttúrunnar hjá Nietzsche því jafnvel atómin sem mynda alheiminn fylgja hvert og eitt viljanum-til-valds. Hvert náttúrulegt fyrirbæri stefnir því að því að yfirstíga eigin hömlur. Með því að hlusta eftir mismunandi röddum sjálfsins fylgir maður viljanum-til-valds í átt að fullkomnun hæfileika sinna og að því, sem ætti að vera endanlegt markmið hvers náttúrulegs hlutar, að yfirstíga sjálfan sig. Við eigum að yfirstíga manninn. Þessari fullkomnun einstaklingsins gaf Nietzsche nafnið Übermensch. Slíkur ofurmaður er frummynd sem hver maður ætti að stefna á, skapalónið sem hann mælir sig við. Líf slíks einstaklingsins er virkt og skapandi ferli sem stefnir að sjálfsuppgötvun og fullkomnun persónulegra hæfileika.
Sjálfsþroskinn er þó ekki bein og greið leið heldur mun maður óhjákvæmilega villast og gera ótal mistök. En ólíkt hinum venjulega manni sem lifir lífinu eins og það sé „hugsunarlaus tilviljun“12 hefur slíkur maður a.m.k. skýrt takmark. Lifandinn verður eins og listamaður og lífið eins og listaverk í sköpun. Þegar maður byrjar að lifa samkvæmt slíkri lífssýn verður hver einasta athöfn skref í átt að markmiði og jafnvel röng skref gegna því hlutverki að gera manni grein fyrir því hvar hinn rétti vegur liggur. Þegar maður uppgötvar það getur maður fyrst byrjað að elska örlög sín. Sá sem lifir slíku lífi mun ekki bölva púkanum sem skýrir honum frá hinni eilífu endurtekningu, jafnvel þó að hann þyrfti að lifa sama lífinu ítrekað til eilífðarnóns myndi hann alltaf taka sömu ákvarðanir, því hann framkvæmdi það sem hann vildi og vildi það sem hann framkvæmdi – hvert skref var nauðsynlegt. „Maðurinn sem fullkomnar sjálfan sig og upphefur efnisleika sinn öðlast hina endanlegu ánægju og upplifir svo yfirþyrmandi gleði að hann hættir að hafa áhyggjur af „réttlæt­ingu“ á heiminum: hann samþykkir hann áfram, aftur á bak, og „um alla eilífð“.“13 Spurningar um Guð og tilgang heimsins hætta að skipta máli. Það má vafalaust segja að hver einasta athöfn þess sem stefnir á ofurmennið sé sjálfsmiðuð og í augum þeirra sem ekki skilja markmið hans jafnvel eigingjörn. Það virðist Nietzsche þó ljóst að slíkur maður myndi ekki sækjast eftir þeim lítilvægu og aumkunarverðu hlutum sem mennirnir tengja oftast við eigingirni. Þrátt fyrir að ekkert stæði í vegi fyrir því að hann myndi öðlast fjárhagslegan gróða á annarra kostnað eða troðast fram fyrir í röð þá væri það einfaldlega fyrir neðan hans áhugasvið og hið æðra markmið sem hann stefnir ítrekað að.

… Handan einstaklingsins.

Nietzsche telur menningu hvorki vera díalektíska framvindu í átt að hegelsku frelsi andans né röklega framþróun í átt að fullkomnun mannsins eða útópískri framtíð. Mannkynið réttlætir ekki tilveru sína með vellíðan fjöldans heldur þeim einstökum manneskjum, snillingum, sem skjóta upp kollinum með nokkuð jöfnu millibili á að því er virðist handahófskenndum stöðum á hnett­inum.
„[Að] vinna linnulaust að framleiðslu mikilla einstaklinga – þetta og aðeins þetta ætti að vera hlutverk [samfélagsins].“14 Það væri auðvelt að skilja þetta sem svo að við, hinir venjulegu menn, ættum einfaldlega að þakka fyrir að vera þrælar og þjónar hinna miklu manna – þeir sem hafi ekki snilligáfu eigi vart rétt til lífs. En ef við hlustum örlítið betur heyrum við hvar blekkingin liggur.
Í bókinni Af sifjafræði siðferðisins bendir Nietzsche á tvítekninguna sem felst í setningum á borð við „eldingunni slær niður“, „atómið hreyfist“ eða „maðurinn gerir“. Hann telur okkur aðeins hafa reynslu af athöfninni en aldrei frumlaginu sjálfu. Eldingin er ekki til nema sem ljósblossi og druna og á sama hátt er manneskja ekkert annað en allar gjörðir hennar samanlagðar. Frumlag er tilbúningur tungumálsins og hugmyndin um einstaklinginn þar með manngerð. Við ættum ekki að greina milli efnislegs einstaklings og huglægs samfélags, heldur milli allra gjörða, sam­skipta, áhrifa, og tengsla sem saman tákna einstakling annars vegar og svo hins vegar alls þess sem á engan snertiflöt við þessa fylkingu athafna. „[Hugtakið] „einstaklingar“ eins og fólk jafnt og heimspekingar hafa skilið það hingað til, er mistök: einstaklingar eru ekkert, þeir eru ekki frumeindir, þeir eru ekki „hlekkir í keðjunni“, þeir eru ekki aðeins arfleifð liðinnar tíðar, – hver einstaklingur er heilt mannkyn,“ allt frá upphafi fram að honum sjálfum.15 Við ættum því ekki endilega að skilja Nietzsche bókstaflega þegar hann talar um þá mikilfenglegu einstaklinga sem gefa mannkyninu gildi sitt. „Hvert einasta okkar ber í sér, sem kjarna tilveru sinnar, skapandi einstakleika.“16 Hver manneskja er þetta mannkyn, þessi menning og náttúra, og hennar eigið líf öðlast gildi með fullkomnun snillinnar sem í henni býr. Þegar Nietzsche talar um hina einstöku snillinga í fjöldanum gæti hann átt við hin sérstöku augnablik ævinnar; augnablikin þar sem manni tekst að fullkomna hæfileika sína. Það eru þau sem réttlæta tilveruna.
Þessi fullkomnun getur þó ekki falist í hverju sem er, heldur álítur Nietzsche að snilligáfa mannsins hljóti að byggjast á þeim hæfileikum sem skilja okkur frá dýrunum. „Svo lengi sem einhver þráir lífið eins og hann þráir hamingjuna, hefur hann ekki beint augnaráði sínu yfir sjónarhorn dýrsins, eini munurinn er að hann þráir meðvitað það sem dýrið þarfnast af blindri eðlishvöt.“17 Menningin setur hverju og einu okkar aðeins eitt markmið: „að stuðla innan okkar sem utan, að sköpun heimspekinganna, listamannanna og dýrlinganna, og vinna þannig að fullkomnun náttúrunnar.“18 Fyrir efni þessarar ritgerðar er það fyrst og fremst dýrlingurinn sem skiptir sköpum, sá „sem hefur gert sjálf sitt að engu og upplifir lífið ekki lengur – eða næstum ekki lengur – sem einstaklingsbundna þjáningu, heldur aðeins sem djúpstæða tilfinningu fyrir jöfnuði, samneyti, og einingu allra lifandi hluta.“19
Hinir sérmannlegu hæfileikar eru því: hugsunin, sköpunin og jafnaðarhugmyndin. Markmið okkar ætti að vera að fullkomna þessa sérmannlegu hæfileika okkar – aðeins þannig yfirstígum við manninn. Menningin felst svo í því að yfirstíga misræmi milli þess innra og ytra. Það á auðvitað við um misræmið milli þess sem knýr manneskjuna áfram og þess sem hún gerir, milli skaparans og sköpunarverksins. En líka milli einstaklingsins sjálfs og samfélagsins. Um leið og við leitum heimspekingsins, listamannsins og dýrlingsins innra með okkur reynum við að skapa kjöraðstæður fyrir þessa sérmannlegu hæfileika.
Einstaklingur sem stefnir að því að þroska og uppgötva sjálfan sig er tilbúinn að fórna hverju sem er fyrir það markmið. Slíkur maður elskar sjálfan sig og lífið sjálft óendanlega mikið. Þegar samræmi milli innri tilfinninga og ytri athafna einstaklingsins er horfið framkvæmir hann hverja athöfn af takmarkalausri ást á nágrönnum sínum sem og fjandmönnum. Slíkur maður væri mun sjálfmiðaðri en nokkur eiginhagsmunaseggur en munurinn fælist hins vegar í því að eigingjarni maðurinn svífst einskis til að öðlast ómerkileg og almenn gæði, á meðan sjálfsmiðaði maðurinn stefnir á hinn bóginn ótrautt á gæði sem hann einn getur öðlast – það að yfirstíga sjálfan sig. Hann svífst einskis, hann er tilbúinn að fórna öðrum manneskjum en þó fyrst og fremst sjálfum sér. Það er því hrein tilviljun hvort hagsmunir annarra manneskja skarist á við þetta ferli, og helst er líklegt að ofurmaðurinn standi í óvart vegi fyrir manneskjum sem eru á höttunum eftir ómerkilegum gæðum. Þrátt fyrir að vera sjálfsmiðaður væri slíkur maður einnig jafnréttissinni, ekki af því að hann vill draga heildina niður á plan lægsta samnefnarans, heldur vegna þess að hann „lyftir sjálfum sér og öllum öðrum upp (með því að viðurkenna dyggðir þeirra, hjálpa þeim, fagna góðum árangri).“20 Til að fullkomna sjálfan sig leitast þessi maður við að eyða misræminu milli hins innra og ytra. Það er nauðsynlegur hluti af sjálfsþroska hans að reyna að skapa annan, heiðarlegri, náttúrulegri heimi. En hvers vegna réðst Nietzsche þá svo heiftarlega á grunnhug­myndina sem liggur samfélagsbreytingum að baki?
Þrátt fyrir að Nietzsche hafi ítrekað ráðist gegn og gert lítið úr stjórnmálum er ekki þar með sagt að hann hafi álitið þau gagnslaus. Hann deildi á siðferðið og röksemina, ekki vegna þess að hann mat siðleysi eða rökleysu betur, heldur vegna þess að í samfélaginu var hið fyrrnefnda talið óumdeilanlega betra en hið síðara. Það er hlutverk heimspekingsins að gagnrýna ríkjandi hugmyndafræði. Þrátt fyrir að Nietzsche hafi kannski fyrirlitið stjórnmál og aldrei tekið þátt í þeim sjálfur, þá tel ég pólitíska þátttöku vel samræmanlega við mynd Nietzsches af manninum sem leitast við að fullkomna sjálfan sig og eigin hæfileika. Í textum Nietzsches koma raunar á einstaka stöðum fyrir áþreifanlegar hugmyndir um stjórnmál en þeim er drekkt innan um óteljandi árásir á hefðbundin stjórnmál. Þetta er líklega vegna þess að slíkar árásir þurfa nauðsynlega að vera fyrsta skrefið í átt að því að yfirstíga stjórnmál; á undan hinum skapandi barnsanda, kemur eyðileggjandi ljónið. Hlutverkið sem Nietzsche tók á sig, bæði fyrir sig og samfélagið, var að vera þetta skaðræðisljón sem reif niður viðteknar skoðanir til þess að ný hugsun gæti risið á grunn­inum. Stjórnmál eru á villigötum og þurfa nauðsynlega að vera brotin niður með hamri heimspekinnar áður en hægt er að taka sig til og byggja eitthvað nýtt úr rústunum. Hinn siðlausi maður getur ekki yfirstigið siðferðið, það getur aðeins sá sem bæði þekkir siðleysi og siðsemi, líkt og hinn röksami getur yfirstigið rökfræðina. Á sama hátt getur aðeins sá sem þekkir kosti og takmarkanir samfélagsmiðaðra sem og sjálfsmiðaðra athafna yfirstigið muninn þar á milli.

Heimildaskrá

Carroll, John. Break-Out from the Crystal Palace, The Anarcho-Psychological Critique: Stirner, Nietzsche, Dostoevsky. Routledge og Kegan Paul. 1974. London, Bretlandi.

Carroll, John. Break-Out from the Crystal Palace, The Anarcho-Psychological Critique: Stirner, Nietzsche, Dostoevsky. Routledge og Kegan Paul. 1974. London, Bretlandi.

Kaufmann, Walter. Nietzsche; Philosopher, Psychologist, Antichrist. Princeton University Press. 1974. New Jersey, BNA.

Nietzsche, Friedrich. Handan góðs og ills. Íslensk þýðing Þröstur Ásmundsson og Arthúr Björgvin Bollason. Hið Íslenska Bókmenntafélag. 2005. Reykjavík.

Nietzsche, Friedrich. The Anti-Christ, Ecce Homo, Twilight of the Idols; and other writings. Þýð. Judith Norman. Cambridge University Press. 2005. Cambridge, Bretlandi.

Nietzsche, Friedrich. The Basic Writings of Nietzsche. Þýð. Walter Kaufmann. The Modern Library. 1992. New York, BNA.

Nietzsche, Friedrich. The Gay Science, with a prelude in rhymes and an appendix of songs. Þýð. Walter Kaufmann. Vintage Books. 1974. New York, BNA.

Nietzsche, Friedrich. Human, All Too Human, A book for the free spirits. Þýð. R.J. Hollingdale. Cambridge University Press. 1986. Cambridge, Bretlandi.

Nietzsche, Friedrich. Unfashionable Observations. Þýð. Richard T. Gray. Stanford University Press. 1995. California, BNA.

Neðanmálsgreinar

1. Friedrich Nietzsche, Unfashionable Observations, ensk þýð. Richard T. Gray, (California, Stanford University Press, 1995), bls. 187. – Allar skáletranir í tilvitnunum eru úr upprunalegum texta. Allar þýðingar úr ensku eru höfundar ritgerðarinnar.

2. Með því að rita á svo mótsagnakenndan hátt, tókst honum meðvitað að gera okkur það nánast ómögulegt að fylgja honum á kreddufullan hátt, eða láta kenningar hans styðja við heildstæð hugmyndafræðileg kerfi. Sú kenning sem er þróuð út frá hugsun Nietzsches segir eflaust meira um skoðanir kenningasmiðsins en heimspekingsins. Sjálfur lifi ég alls ekki í þeirri blekkingu að þessi ritgerð sé undanskilin slíkri gagnrýni.

3. Friedrich Nietzsche, Handan góðs og ills, ísl. þýð. Þröstur Ásmundsson og Arthúr Björgvin Bollason (Reykjavík, Hið Íslenska Bókmenntafélag, 2005), bls. 82.

4. Í grein sinni Is Nietzsche a Political Thinker? (1997, International Journal of Philosophical Studies 5 (1): 1-13.) færir Martha Nussbaum rök fyrir því að ekki skuli telja Nietzsche til stjórnmálalegra hugsuða, enda uppfylli hann varla neitt þeirra skilyrða sem segja má að skilgreini hugsun um stjórnmál.

5. Nietzsche, Beyond Good and Evil, ensk þýð. Helen Zimmern (Rockville, Serenety Publishers, 2007), bls. 81.

6. Nietzsche, Unfashionable Observations, bls. 197.

7. John Carroll. Break-Out from the Crystal Palace (London: Routledge og Paul Keegan, 1974), bls. 17.

8. Friedrich Nietzsche, The Basic Writings of Nietzsche, ensk þýð. Walter Kaufmann (New York: Modern Library, 1992), bls. 533.

9. Bók Dawkins The Blind Watchmaker kom fyrst út 1986 og var endurprentuð með viðbæti 1991.

10. Walter Kaufmann, Nietzsche (New Jersey: Princeton University Press, 1974), bls. 167.

11. Friedrich Nietzsche, The Gay Science, ensk þýð. Walter Kaufmann ( New York: Vintage Books, 1974), bls. 181.

12. Nietzsche, Unfashionable Observations, bls. 173.

13. Nietzsche, The Basic Writings of Nietzsche, bls. 712.

14. Nietzsche, Unfashionable Observations, bls. 215.

15. Friedrich Nietzsche, Anti-Christ, Ecce Homo, Twilight of the Idols and other writings, ensk þýð. Judith Norman ( Cambridge: Cambridge University Press, 2005), bls. 208.

16. Nietzsche, Unfashionable Observations, bls. 192.

17. Sama rit, bls. 209.

18. Sama rit, bls. 213.

19. Sama rit, bls. 213.

20. Friedrich Nietzsche, Human, All Too Human, ensk þýð. R.J. Hollingdale (Cambridge: Cambridge University Press, 1986), bls. 136.

Sjálf, drottnun og (ó)skynsemi í Antichrist

eftir Jóhann Helga Heiðdal

Lars von Trier olli nokkru fjaðrafoki með nýjustu kvikmynd sinni Antichrist (2009). Má segja að kvikmyndaaðdáendur og margir gagnrýnendur hafi ekki alveg vitað hvernig ætti að bregðast við þessu nýjasta útspili leikstjórans sem þó hefur sjaldan verið laus við gagnrýni. Viðbrögðin við myndinni spönnuðu allan skalann; á meðan að sumir voru sármóðgaðir, eins og áhorfandinn sem heimtaði að von Trier bæði áhorfendur afsökunar eftir sýningu í Cannes, voru aðrir sem töldu myndina meistaraverk og eina af bestu myndum ársins 2009. Ein háværasta gagnrýnin og líklega sú alvarlegasta er sú að með kvikmyndinni gerist von Trier sekur um gríðarlega karlrembu og jafnvel versta kvenhatur. Þessi gagnrýni gæti átt rétt á sér, en ég tel þó að þessi umræða hafi að miklu leyti verið mjög fátækleg og ákærendur leikstjórans virðast í flestum tilfellum ekki hafa fylgst nærri því nógu vel með myndinni sjálfri og því sem þar fer fram.

Þessi grein er tilraun til að draga fram nokkuð af því sem gæti hafa farið framhjá einhverjum áhorfendum þessarar sérstöku myndar. Með því vonast ég til að ná til þeirra sem hafa kannski fælst frá henni eða þeirra sem gáfu henni kannski ekki tækifæri við fyrsta áhorf. Ég hef þó þann fyrirvara á að túlkunin sem hér birtist er opin og kann að breytast; öll meistaraverk standast endurtekið áhorf yfir langan tíma, tíminn á eftir að leiða í ljós hvort það eigi við í þessu tilfelli.

Ef við byrjum á að beina athygli okkar að öðrum kvikmyndum Lars von Trier, þá sjáum við að leik­stjórinn nýtir sér oft frásagnartækni sem þjónar þeim tilgangi að velta upp spurningum um getu kvikmyndamiðilsins til að segja sögur á raunsæjan hátt (Europa, Dogville, Manderlay). Einnig má finna gagnrýni á tilhneigingu vissra kvikmyndagreina til að einfalda ýmis félagsleg vandamál, ásamt nýtingu á tækninýjungum. Til staðar er einnig gjarnan viðleitni til að sameina þætti úr klassískum kvikmyndum og framúrstefnulegar hugmyndir, sem og andstaða við ríkjandi starfs­hætti og aðferðarfræði kvikmyndalistarinnar sem oftar en ekki, fyrir tilstilli stóru kvikmyndaveranna, reyna að steypa öllu í sama mót. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þrátt fyrir að hafa verið stimplaður sem leikstjóri sem á uppruna sinn í hinni frægu evrópsku kvikmyndahefð (sem arftaki Bergmans, Truffauts, Fellinis o.s.frv.), þá hikar von Trier ekki við að eiga í samræðum við aðrar stefnur og strauma. Þannig endurmótar hann oft á tíðum sambandið milli kvikmynda­gerðarmanna og áhorfenda. Óhætt er að segja að hvað svo sem fólki kann að finnast um von Trier, hvort sem það beri til hans jákvæðar eða neikvæðar tilfinningar, þá er erfitt að neita því að hann býður oftar en ekki upp á alveg einstaka kvikmyndaupplifun, eitthvað sem finnst hvergi annars staðar.

Þegar við höfum þetta í huga getum við séð Antichrist sem kvikmynd þar sem miðillinn sjálfur er til umfjöllunnar, ásamt þeirri grein kvikmyndanna sem hryllingsmyndin er. Myndin samanstendur af fjórum köflum, formála og eftirmála. Hún fjallar um par í sorg, Hann (Willem Dafoe) og Hana (Charlotte Gainsbourg). Barnið þeirra deyr þegar það klifrar úr vöggu sinni á meðan að foreldrar þess stunda kynlíf. Eftir þetta áfall ákveða þau að setjast tímabundið að í kofa í miðjum skógi til að reyna að vinna úr sorginni, aðallega sorg móðurinnar sem er yfirgnæfandi og Hún hefur engin tök á.

Þau festast í aðstæðum sem eru þeim ofviða, þvert á það sem þau telja sjálfum sér trú um. Í staðinn fyrir að vinna úr sorginni lenda þau í ótrúlegum og óútskýranlegum atburðum sem gera það að verkum að skilin milli hillinga og raunveruleikans verða æ óskýrari. Hann reynir eftir bestu getu að lækna gríðarlega sorg eiginkonu sinnar með aðferðum sálfræðinnar og snýst sú aðferð í megindráttum um að útskýra sorgina og óttann sem heltekur hana á rökfræðilegan og skyn­saman hátt í þeirri von að þar með hverfi þessar tilfinningar.

Eftir því sem líður á meðferðina verður það ljósara að Hann reynir að stjórna og sigrast á til­finningum hennar í staðinn fyrir að lækna hana í eiginlegum skilningi. Ennfremur kemur í ljós að Hún, sem hefur verið að skrifa doktorsritgerð um kúgun kvenna í sögunni, sannfærir sig um að kvenkynið sé í eðli sínu illt. Á meðan finnur Hann ljósmyndir af syni þeirra þar sem skór drengsins eru alltaf á röngum fæti sem leiðir til þess að hann fer að gruna Hana um að hafa unnið barninu mein á meðan að það var á lífi. Þetta leiðir allt til átaka sem sum hver eru mjög ofbeldisfull og hafa vakið mesta umtalið.

Á einum tímapunkti ræðst Hún á Hann og gefur honum þungt högg í kynfærin. Á meðan að Hann er meðvitundarlaus borar Hún gat í legg Hans og festir þungt járn við. Eftir langa eltingarsenu fer hún að sjá eftir öllu saman og fer með Hann aftur í kofann. Þegar hér er komið við sögu fær hún endurminningu sem gefur í skyn að hún fylgdist með því sem gerðist fyrir barnið en aðhafðist ekkert. Það er hérna sem hún afskræmir á sér eigin kynfæri. Undir lokin kyrkir Hann Hana og brennir líkið.

Eins og ætti að vera fullkomlega ljóst, þá vekur myndin upp margar spurningar en fátt virðist vera um svör í fyrstu. Raunar sýnir von Trier áhorfendum sínum ótrúlega mikið traust, hann gerir greinilega ráð fyrir að áhorfendurnir búi yfir skynsemi og vilja til að kafa djúpt, að þeir finni svörin sjálfir, sín eigin svör og er hann sjálfur ekki mjög hjálplegur að þessu leyti. Þrátt fyrir að Antichrist flokkast undir hryllingsmynd (og er því í sama flokki og t.d. The Shining, The Exorcist, Psycho o.fl.) þá tekur hún mjög frumlega nálgun á þessa grein kvikmyndanna. Þetta sést aðallega með því að einbeita sér að meginþema hennar; misrétti og kúgun kvenna.

Hefðbundnar hryllingsmyndir hafa innihaldið og nýtt sér karllægar drottnunarhugmyndir. Konur eru venjulega sýndar sem hlédrægar og hjálparlausar og stafar aðdráttarafl þeirra að miklu leyti af þessum eiginleikum. Stór hluti af skemmtun áhorfandans liggur því í augnablikum sem vekja upp hrylling, s.s. atriði sem innihalda gróft líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi. Þessir þættir leiða til svokallaðra ‚öskuratriða.‘

Michel Chion hefur greint þessi ‚öskuratriði‘ og færir rök fyrir því að vissar kvikmyndir notfæra sér allt sem þær mögulega geta til að ná þessum hryllingshæðum og framkalla þannig fullnægju hjá áhorfandanum: „Öskuratriði er þar sem málið gufar skyndilega upp, svarthol, útgangspunktur verunnar.“1 En mynd von Triers á hinn bóginn reynir ekki að stjórna og ráðskast með hlutgerðan kvenkynslíkamann sem vekur upp ánægju eða aðdáun og ‚öskuratriðin‘ eru ekki hápunktur á röð atburða með skýrt orsakasamhengi, heldur frekar eins konar rannsókn á mörkum skilnings okkar.

Frá þessu sjónarhorni nýtir Antichrist sér vissulega minni hryllingsmynda, en munurinn liggur í þeirri staðreynd að hryllingurinn kemur ekki frá utanaðkomandi aðila sem kemur inn í líf aðal­persónanna sem hafa enga hugmynd um hvað er í vændum. Þetta er algengasta og þekktasta formgerð hryllingsmyndafrásagnar, sem einnig reiðir sig á skýran greinarmun á góðu/illu, sekt/sakleysi, sannleika/lygi o.s.frv.

Von Trier virðist gefa í skyn að hið hræðilega og ógeðfellda sé ekki að finna í afbrigðilegri hegðun utanaðkomandi aðila heldur enn frekar innan venjulegra sambanda og í samspilinu milli drottnunar og undirgefni í daglegu lífi. Frásögnin kemur þessu til skila með því að valda áhorfandanum sífelldum vonbrigðum. Á einum stað sjáum við persónurnar tvær liggja í rúmi og hlusta á hljóð sem allt bendir til að sé fyrirboði um eitthvað slæmt en svo komumst við að því að hljóðið á sér eðlilegar skýringar og engin hætta stafar af því. Þegar Hann hittir talandi ref og sært dádýr þá búumst við við einhverju sem á eftir að hræða okkur eins og við erum vön en hápunkturinn sem við bíðum eftir skilar sér ekki, ekkert ‚öskuratriði‘ á sér stað.

Allt það hræðilega sem á sér stað kemur ekki frá neinum utanaðkomandi heldur frá hinum ofsalegu rifrildum Hans og Hennar. Átökin milli kynjanna verða að táknrænni útlistun á and­stæðunni milli kaldrar skynsemi og tilfinninga. Hann reynir að lækna sorg Hennar með skyn­samlegum útskýringum á hræðslunni sem hrjáir Hana á meðan að Hún streitist á móti aðferða­fræðinni. Hugmynd Hennar um Hana sjálfa, ótta sinn, sársauka og sorg getur ekki verið aðskilin frá efnislega veruleikanum. Vegna sorgarinnar hegðar líkami Hennar sér á óútreiknalegan hátt. Líkamlegur sársauki og svefnleysi eru undanfarar óhemju löngunar í kynlíf.

Í kjölfarið verður hún meðvituð um að viss veruleiki hefur yfirráð yfir henni. Veruleiki sem nær út fyrir mannlegan skilning og tjáningarmátt. Hún sér líkama sinn sem efnislega tilvist sem er undanskilin huglægni hennar. Sorgin knýr hana til að sjá rofið milli efnislegrar- og félagslegrar tilvistar. Angistin styrkist af síauknum skilningi á hversu falskt hugtakið um eitt, sameinað sjálf er og því að hún fer í æ ríkari mæli að sjá sig sem samansafn mótsagnarkenndra þátta. Skömmu áður en hún misþyrmir sjálfri sér hrottalega fær hún endurminningu um dauða sonar síns, sem gefur í skyn að hún hafi horft aðgerðarlaus á. Það er hérna sem myndin vekur upp spurningar um einstaklinginn sem skynsama og efnislega veru.

Hann er hinsvegar lifandi holdgerving og fulltrúi hinnar vestrænnu frumspekihefðar (eða lógó­centrisma eins og Derrida nefndi hana) sem sér einstaklinginn sem vissa heild sem hægt er að útskýra á rökrænan hátt með skynsemina að vopni. Lækningaraðferðir hans samanstanda af sjálfsskoðun sem leitast við að greina ástæðurnar sem vekja upp ótta- og angistartilfinningar. Hans hugmynd um persónu er skýr og einföld, eitthvað sem varnar því að hann skilji einstaklingshugtak og sjálf Hennar í öllum mótsögnum þess. Þetta skýrist þegar þessum mót­sögnum er stillt upp andspænis þeim óvefengjanlegu viðmiðum sem vísindaleg skynsemi hans sér sem ómissandi grundvallaratriði í skilningi á persónuleika.

Hann efast ekki um ást Hennar á barni þeirra og á mjög bágt með að trúa því þegar hann áttar sig á því að hún hafi verið að misþyrma því. En þrátt fyrir það er hugmynd hans um hið sjálf­skapaða og ákvarðaða sjálf í mótsögn við hans eigin afstöðu. Í þriðja kafla áttar Hann sig á því að Hún er farin að trúa gamalli, vestrænni hugmyndafræði um illsku kvenkynsins og útskýrir að margar konur á miðöldum hafi verið pyntaðar fyrir það eitt að vera öðruvísi. Á endanum tekur hann upp nákvæmlega þá afstöðu sem hann fordæmir hér þegar hann brennir Hana á báli.

Von Trier notfærir sér þannig ‚athafnarmótsagnir‘ í þeim tilgangi að gera að engu túlkunar­fræðilegar smættanir sem byggjast á hugmyndinni um eitt, gegnheilt sjálf. Hugtakið ‚athafnar­mótsagnir‘ útskýrir: „gjánna milli félagslegra athafna og hugmyndanna sem þær stafa af sem leiðir til mótsagnar milli merkingar sem tjáð er beint og merkingar sem fengin er í gegnum sjálfa aðgerðina við að tjá merkingu.“2 Kvikmyndin hefur fram að færa gagnrýni á skynsemis­hyggju útfrá and-húmanískum hugmyndum og kenningum. Þetta kemur berlega í ljós í ákvörðun leik­stjórans að gefa persónunum engin nöfn. And-húmanismi von Triers sameinar marxískt van­traust á fyrirbærafræði mannlegra samskipta og hugmyndina um sjálfráða huglægni með kenningum Nietzsche um einstaklinginn sem blekkingu. Grundvallarhugmynd marxísks and-húmanisma liggur í neituninni á öllum hugmyndum um mannlegt eðli og frjálsa huglægni í þeim tilgangi að afhjúpa þá pólitísku- og hugmyndafræðilegu hagsmuni sem felast í hinum ráðandi evrópska húmanisma og þá siðfræði sem honum fylgir.3

Nietzsche leitast við að afhjúpa, rífa niður og komast undan hinni evrópsk-kristilegu húmanista­hefð (sbr. Guð er dauður.) Hann færir rök fyrir að gildi evrópsku hefðarinnar og skynsemis­hyggjunnar þjóna vissum hagsmunum og leiða til drottnunar og stjórnunar.4 Hin svokallaða siðfræði og heimssýn sem platonsk-kristin hugmyndafræði og tvíhyggja felur í sér er í raun vopn í valdabaráttu hinna veiku gegn þeim sterku. Maðurinn þarf að kasta frá sér öllum þessum hlekkjum og lifa þessu lífi, hér á jörðinni til fulls sem sjálfráða einstaklingur sem sker sig úr og rís upp fyrir fjöldann. Þetta er ekki mögulegt innan þess ‚þrælasiðferðis‘ sem vestræn, kristileg menning hefur haldið á lofti sem eitthvað göfugt og jákvætt. Út frá þessu sjónarhorni verða skilin milli þess sem er rétt og rangt, raunveruleika og skáldskapar óljós og erfið viðfangs. Árás og söguskoðun Nietzsches hefur fengið þó nokkurn byr undir báða vængi í póst-módernískri hugsun þar sem í mannkynssögunni má finna og greina mismunandi skilning á húmanisma sem hafa verið nýttir til að réttlæta mestu villimennsku og grimmdarverk í sögu Evrópu. Eitt af þeim eru nornabrennurnar sem myndin vísar í.

And-húmanismi hvetur okkur til að gefa upp á bátinn hina ríkjandi hugmynd um hið frjálsa viðfang og leiða hugann að hugmyndinni um einstaklinginn og hið mennska sem afsprengi valdatengsla og táknkerfa. Hugmyndinni um einstaklinginn sem afrakstur táknkerfa eru gerð góð skil í mynd­inni þegar Hún er sýnd vera undir áhrifum frá hinni evrópsku orðræðu sem leit á konur sem illar. Þessi orðræða var réttlætt með skynsamlegum rökum og útskýringum og hér beinir von Trier athygli okkar að þeirri staðreynd að skynsemi hefur alltaf verið tengd hinu karllæga (sem Derrida nefndi phallógócentrisma).

Samkvæmt kenningunni runnu lógócentrismi og phallógócentrismi saman á einhverjum tíma­punkti langt aftur í vestrænni sögu og það er ekki hending að Hann, sem er fulltrúi skynsemis­hefðarinnar, notar aðferðafræði sína í þeim tilgangi að ná tökum á og stjórna Henni. Á einum stað segir Hún Honum að ótti hennar sé yfirbugaður. Viðbrögð Hans gefa í skyn að Hann sé ósáttur við að Hún hafi gert það án Hans. Hún svarar þá að honum sé ekki í raun annt um Hana; Hann sjái Hana augljóslega aðeins í ljósi skynsemi sinnar og aðferða, Hún sé aðeins tæki sem Hann noti til að staðfesta skynsemi sína og snilligáfu.

Hinar síbreytilegu afstöður og stemmningar í hugarheimi persónanna koma í veg fyrir að áhorfendurnir finni til með þeim og það sem þeir sjá frekar er klínísk og köld útlistun á viðfangs­efninu. Myndin grefur einnig undan hinni ríkjandi hugmynd um persónu með forminu sjálfu, með því að sameina atriði sem tekin eru í heimildarmyndastíl með öðrum sem eru líkari því sem við eigum að venjast í hefðbundnum, leiknum kvikmyndum.

Heimildarmyndaratriðin eru hluti af aðferð von Trier við kvikmyndagerð sem hann innleiddi eftir Dogma 95 yfirlýsinguna. Þessi aðferð blandar saman ýmsum stílum og sameinar raunsæ og skáldlegri skot og atriði. Önnur tengd aðferð felur í sér listrænar og stíleriseraðar myndir af líkömum leikaranna í þeim tilgangi að undirstrika vanhæfni persónanna þegar kemur að því að ná tengslum við og halda sér í stöðugum, hefðbundnum raunveruleika.

Ég vona að með þessum hugleiðingum hafi ég sýnt nægilega fram á að Antichrist sé mun dýpri, flóknari og athyglisverðari en margir áttuðu sig á þegar hún kom fyrst út, ef marka má umfjallanirnar sem hún fékk. Einblínt var á ofbeldið og litlar tilraunir gerðar til að sjá og skilja hvað von Trier var að sýna okkur. Kvikmyndin er ekki auðveld áhorfs en ef greinargóður skilningur á henni á að nást þá krefst það endurtekins áhorfs; myndin á meira skilið en að vera afskrifuð af áhorfendum sem annað hvort vilja eða geta ekki virkilega horft á hana með opnum huga. Lars von Trier lagði mikið traust á áhorfendur með þessari mynd en fyrstu viðbrögð við henni gefa til kynna að margir hafi brugðist því trausti.

Neðanmálsgreinar

1. Chion, M., The Voice in Cinema, Claudia Borbman þýð. (New York: Columbia University Press, 1999), bls. 24.

2. Eagleton, T., Ideology: An Introduction (London, New York: Verso, 1991), bls. 24.

3. Althusser, L., ‘Marxism and Humanism’, í For Marx (London: Allen Lane, 1979), bls. 237.

4. Nietzsche, F., Beyond Good and Evil, (New York: Doubleday & Company, 1956), bls. 50.