Greinasafn fyrir merki: Negri

Mergð eða sjálfsvera? Um hugsanlegt eðli búsáhaldabyltingarinnar

eftir Egil Arnarson

Ég hef nefnt þetta erindi „Mergð eða sjálfsvera? Um hugsanlegt eðli búsáhaldabyltingarinnar“. Það gæti þó allt eins heitið: „Hvers konar fyrirbæri var búsáhaldabyltingin?“ eða „Hvað var hún?“.1

  1. En „hvað er“ að spyrja slíkrar spurningar?
    1. Er, fyrir það fyrsta, ekki eitthvað tilgerðarlegt við að reyna að svara spurningunni „hvað var búsáhaldabyltingin?“ með einhverju hugtaki á borð við „sjálfsveru“ eða „mergð“? Geta slík heiti gert þessa fáeinu daga í janúar, sem voru undanfarinn og hugsanlega ein or­sökin að ríkisstjórnarskiptunum þá, eitthvað skiljanlegri? Til þess að svara slíkri að­finnslu má einfaldlega segja að fyrst þurfi að gefa heimspekihugtökum smá séns áður en hafist er handa við að gagnrýna hvernig þau eru notuð.
    2. Einnig mætti finna að spurningunni, að atburðirnir í janúar 2009 þörfnuðust engra frekari skýringa, heldur væru svona orð einungis til þess fallin að fegra heldur ófagran veru­leika, s.s. þann að búsáhaldabyltingin hafi verið, segjum, „ofbeldisfullt tilræði við lýð­ræðið“. En að baki þeirri afstöðu býr auðvitað ákveðið mat á búsáhaldabyltingunni sem má ekkert síður rökræða en um hugtök sem þessi, þ.e.a.s. ef einhver vitræn umræða um efnið á að eiga sér stað.
  2. Einnig gefur það að spyrja „Hvað var búsáhaldabyltingin?“ til kynna að henni sé lokið. Um það má vitaskuld deila í ljósi nýlegra atburða. Jafnvel þótt e.t.v. hafi ekki verið um sama fyrirbæri að ræða annars vegar í kringum fyrstu helgina í október sl. og hins vegar í janúar í fyrra, þá voru a.m.k. baráttuaðferðirnar svipaðar og hugurinn sem að baki mót­mælunum bjó kannski að einhverju leyti líka, þótt um það sé deilt. Ýmsir þátttakendur búsáhaldabyltingarinnar 2009 eru heldur ekki tilbúnir til þess að lýsa því yfir að henni hafi nokkurn tímann lokið, heldur sé hún verkefni sem enn liggi óklárað: enn eigi t.d. eftir að leiða stjórnarskrárbreytingar gæfusamlega til lykta eða að „taka til“ í stjórnar­stofnunum, embættismannakerfinu eða fjármálakerfinu. En ef við reynum að afmarka búsáhaldabyltinguna í tíma þá þarf auðvitað líka að setja hana í samhengi við Hrunið, við laugardagsmótmælin, borgarafundina og alla þjóðfélagsumræðuna fyrir 1-2 árum. Ég ræði því um búsáhaldabyltinguna í þessum víðari tímaramma því það er ekki hægt að skýra hvað búsáhaldabyltingin hafi verið með því að halda sig aðeins við nokkra janúardaga í fyrra.

Aðferð mín verður ekki sú að tjá það sem mér býr í brjósti um viðfangsefnið, heldur vil ég reyna að setja það í samhengi við tvær heimspekikenningar um tilurð og virkni róttækra2 þjóðfélags­hreyfinga, þ.e. þeirra Alain Badiou annars vegar og Michael Hardt og Antonio Negri hins vegar. Þetta eru kenningar sem hafa verið í umræðunni undanfarin ár, bæði í tengslum við mótmæli svokallaðra andstæðinga hnattvæðingar (sem er nú víst rangnefni) og í kjölfar efnahags­kreppunnar undanfarin þrjú ár. Ætlunin er að skoða – þó ekki væri nema fyrir forvitni sakir – hversu vel eða illa þær kenningar eiga við til þess að lýsa búsáhaldabyltingunni. Það er til dæmis alls ekki sjálfgefið að rétt sé að lýsa henni sem „róttækri þjóðfélagshreyfingu“.

Helsti vandi minn er sjálfsagt sá hvað efnið er í raun umdeilt og því ekki víst að hægt sé að ganga út frá einhverjum sameiginlegum hlutlægum skilningi á því hvað búsáhaldabyltingin hafi verið. Alltént er mat manna á henni nokkuð ólíkt. Á meðan Hrunið í októberbyrjun 2008 er atburður sem við eigum öll að hafa upplifað á svipaðan og tilfinningaríkan hátt, þá er eins og það sé eitthvað hálfóþægilegt við minninguna um búsáhaldabyltinguna. Enda ýmislegt sem menn hafa út á hana að setja:

  1. Fyrir það fyrsta mætti halda því fram, að – ólíkt Hruninu – sameinaði hún ekki þjóðina. „Þjóðin í heild sinni“ upplifði hana ekki eins, enda var það ekki „þjóðin öll“ sem stóð að baki byltingunni. En reyndar er varla hægt að hugsa sér að slíkir atburðir geti yfirhöfuð byggt á „vilja þjóðarinnar allrar“.
  2. Margt hefur einnig verið sagt um hvatir þeirra sem tóku þátt í byltingunni: Hér á ég ekki aðeins við þá gagnrýni að einkum hafi verið á ferð ólátabelgir eða menntaskólakrakkar sem hafi ekki viljað missa af fjörinu en ekki haft neinn siðferðislegan rétt til þess að slást við lögregluna. Í einni skopmynd sinni veltir Hugleikur Dagsson fyrir sér siðgæði Íslendinga í þessum efnum: Þegar ríkisstjórn Íslands lýsir yfir stríði á hendur Írak mótmæla því örfáar hræður; þegar ósnortnum víðernum landsins er sökkt ögn fleiri. En þegar Íslendingar tapa peningum sínum fylla þeir heilu torgin til þess að lýsa yfir reiði sinni. Boðskapurinn er þá væntanlega sá að þetta lið geti aldrei barist fyrir prinsippum eða hugsjónum, heldur aðeins beinum hagsmunum sínum sem einstaklingum.
  3. Aðrir í dag segjast síðan uggandi yfir afleiðingum byltingarinnar, þ.e. yfir hættum sem hún mögulega hefur leyst úr læðingi. Í frægum pistli sínum nefnir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, búsáhaldabyltinguna að vísu ekki á nafn þegar hann hvetur til þess að endir verði bundinn á það „menningarbyltingarkennda ástand sem ríkt hefur“ og á þar einkum við nornaveiðar gegn stjórnmálamönnum og sú lítt pródúktíva orka sem fari í þær. En það er erfitt að skilja gagnrýni hans öðru vísi en að hún beinist gegn arfleifð búsáhaldabyltingarinnar.3

Reynum nú að draga upp hlutlæga mynd af framvindunni fram að búsáhaldabyltingunni.

  LF BF Önnur mótmæli Átök
6.-12. X. 1. LF   Seðlabankinn  
13.-19. X. 2. LF      
20.-26. X. 3. LF   Akureyri, Ísafjörður, Seyðisfjörður  
27. X.-2. XI. 4. LF 1. BF    
3.-9. XI. 5. LF 2. BF    
10.-16. XI. 6. LF   „Skjaldborg“ um Alþingi  
17.-23. XI. 7. LF 3. BF „Skjaldborg“ um Alþingi; Akureyri Lögreglustöðin
24.-30. XI. 8. LF 4. BF Ingólfstorg  
1.-7. XII. 9. LF   Arnarhóll  
8.-14. XII. 10. LF 5. BF   Alþingi og Ráðherra­bústaður
15.-21. XII. 11. LF 6. BF    
22.-28. XII. 12. LF      
29. XII. – 4. I. 13. LF     Hótel Borg
5.-11. I. 14. LF 7. BF    
12.-18. I. 15. LF 8. BF Mývatnssveit, Akureyri, Egilsstaðir, Ísafjörður og Selfoss  
19.-25. I. 16. LF   Þjóðleikshúsið Alþingi og Stjórnarráð
26. I. – 1. II. 17. LF 9. BF    

Á töflunni kemur að vísu ekki fram hver áætlaður fjöldi þátttakenda í laugardagsfundum eða á borgarafundunum hafi verið. Það er nokkuð sveiflukennt en þeir fyrrnefndu náðu hámarki í janúar en borgarafundirnir í nóvember. (10. og 11. laugardagsfundurinn voru þöglir. Kannski vantar líka eitthvað undir liðunum „Önnur mótmæli“ og „Átök“.)

En um hvað snerist búsáhaldabyltingin efnislega? Ég held að það hafi meira eða minna verið hið sama og skipuleggjendur laugardagsfundanna gerðu kröfur um. (Þessi listi virðist lengi hafa verið í mótun haustið 2008.)

Viljum við stjórn Seðlabankans burt?
Viljum við breytta stjórnarhætti?
Viljum við ríkisstjórnina burt?
Viljum við klíkurnar burt?
Viljum við stjórn Fjármálaeftirlitsins burt?
Viljum við kosningar eins fljótt og auðið er?
Viljum við útifund næsta laugardag kl. 15? Já!
Þá höldum við þessu áfram þangað til þeir fara.

Þó þarf sjálfsagt að bæta við þeirri kröfu að bankahrunið yrði rannsakað og þeir sem grunaðir væru um að hafa brotið af sér í aðdraganda þess yrðu lögsóttir. Þess vegna eru orð Vilhjálms Egilssonar áhugaverð um að ýmsir þingismenn væru haldnir „pólitískum hefndarþorsta“ í lands­dómsmálinu en það væri dæmi um „einhverja mikla réttlætisþörf“ sem ekki væri víst að „þjóðin hefði efni á“.

Nú má spyrja: Hverjar þessara krafna tókst að uppfylla í búsáhaldabyltingunni? Allar, nema hvað það er álitamál hvað „breyttir stjórnarhættir“ þýða og hverjar „klíkurnar“ eru; svokölluð „oddvita­stjórnmál“ tíðkast a.m.k. enn. Það sem mig langar þó að spyrja er hvernig hreyfing verður til sem gerir þetta að baráttumálum sínum: Hvað þarf að gerast til þess? Hvað er það sem heldur henni saman? Eru það sameiginlegir hagsmunir eða eitthvað annað?

Það er til þess að skoða búsáhaldabyltinguna út frá þessum spurningum sem mér virðist áhugavert að leita í smiðju franska heimspekingsins Alain Badiou. Ég ætla semsagt að setja upp „senaríó“ þar sem búsáhaldabyltingin er skýrð til samræmis við heimspeki hans en af helstu heimspekiritum hans mun ég hér einkum styðjast við það nýjasta, Rökfræði heimanna.4

Sjálfsveran í heimspeki Badiou

Nú býst ég við að flestir geti tekið undir þá skoðun að Hrunið hafi verið „stund sannleikans“ í einhverjum skilningi. Þó svo margir segist hafa séð Hrunið fyrir var það þó aðeins eins og fjar­lægur möguleiki, ekki endilega ósennilegur, heldur fjarlægur miðað við höggið sem við upp­lifðum, þessa tilfinningu að finnast jörðin í einhverjum skilningi bresta undan fótum okkar og ekki síst skömmina yfir öllu bullinu sem við vorum orðin vön að taka a.m.k. sem boðlegum skoðunum.

Nú geta menn brugðist við þeim viðburði sem stund sannleikans er með því að lýsa yfir: „Aldrei aftur … samkrull stjórnmála og viðskiptalífs – Seðlabankastjóra án prófgráðu í hagfræði – aldrei aftur bankahrun eða einkavæðingu sem staðið er ófaglega að“, svona allt eftir stjórnmála­skoðunum manna og bjartsýni. Það er hins vegar ekki hægt að láta sér nægja neikvætt orðaðar yfirlýsingar af þessum toga, heldur þarf líka koma orðum að því sem ætlunin er að breyta til þess að slíkar hörmungar endurtaki sig ekki. Nú má segja að kröfur Radda fólksins hafi ekki verið sérstaklega jákvætt orðaðar, nema þá þannig að sú hreyfing vildi aðra ríkisstjórn, aðra stjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. En algengasta krafan, að ég tel, sem var jákvætt orðuð og sú sem margir gátu tekið undir á sínum tíma – þótt hún heyrist sjaldnar í dag – var krafan um „Nýtt Ísland“.

Slík krafa er nokkuð sem Badiou nefnir „slóðina“ eða „ummerkin“ sem viðburður skilur eftir sig. Eins og upplifun okkar í októberbyrjun 2008 – þegar okkur fannst við kannski hafa „misst allt“ og allt því vera mögulegt um leið – þá er viðburðurinn í eðli sínu í senn óvæntur, sjaldgæfur og hverfull og því engin leið að viðhalda honum sem slíkum. Allt er þetta því spurning um að hlusta eftir skilaboðunum sem hann skilur eftir sig, þ.e. um að veruleikinn sé annar og meiri en eins og við skildum hann áður; sýn okkar á veruleikann hafi áður verið skekkt eða of takmörkuð og við þurfum því að taka tillit til þess sem augu okkar opnuðust fyrir í viðburðinum. En þann einstakling eða hóp sem heldur þannig tryggð við skilaboð viðburðarins kallar Badiou hina trúu eða tryggu sjálfsveru (sem er þýðing á súbjekt). (Og ég held að allir guðfræðingar hér inni sjái hvernig þetta módel samsvarar kirkjunni: það dettur engum í hug að sanna upprisuna (viðhalda henni), heldur á starf kirkjunnar sem trúrrar sjálfsveru að miða að því að vera trúr skilaboðunum sem felast í henni, þ.e. fyrirheitinu um einhvers konar eilíft líf.)

Nú, hvernig þessi sjálfsvera nær sjálf að styrkjast og umskapa veruleikann til samræmis við hina nýuppgötvuðu sýn er eitthvað sem ekki er hægt að segja nákvæmlega fyrir um. Sjálfsvera sem er trú skilaboðum viðburðarins berst fyrir þeim sem sannindum, þau eru sú hugsjón sem hún – ef hún þorir því og endist til þess – er tilbúin að lifa fyrir. Í því ferli getur oft þurft að velja á milli ólíkra kosta án þess að hægt sé að finna málamiðlun milli þeirra og án þess að hægt sé að vita fyrirfram hver þeirra sé vænlegastur til árangurs. Ef ákvörðunin er erfið getur reynst nauðsynlegt að beita sjálfan sig nógu miklum sjálfsaga og loka sig fyrir öðrum, sýna langlundargeð og hugrekki. Aðrar aðstæður geta hins vegar kallað á að sjálfsveran lagi sig að veruleikanum og opni sig fyrir nýjum straumum. Raunar getur einnig angistin yfir því að vera komin í öngstræti með baráttu sína búið sömu opnunartaktík að baki. Best er þó að geta metið þessa ólíku möguleika af því sem Badiou nefnir réttsýni.

Ég held ég láti eiga sig að spekúlera hvernig hægt væri að sjá fyrir sér búsáhaldabyltinguna sem sjálfsveru er beiti þessum fjórum tegundum afstöðu til eigin starfs. Hins vegar þarf að halda því til haga að þetta módel er alls ekki bundið við stjórnmálabaráttu, heldur á það að gilda á öðrum sviðum mannlegrar tilveru. Það þarf vissulega hugrekki í stjórnmálum en einnig þekkjum við aga- eða ógnarstjórnartíma innan listastefna, angistartímabil í t.d. sögu stærðfræðilegrar mengjafræði og tilraunir til réttsýni í ástamálum. Það sem í þessu felst er að við getum upplifað ýmiss konar kúvendingar og jafnvel byltingar í lífi okkar, enda þótt t.d. samfélagið komi okkur kannski fyrir sjónir sem óbreytanlegur veruleiki.

Það sem ég vildi hins vegar skoða betur er andstaðan sem myndast við hina trúu sjálfsveru. Hún er ekki einhlít. Sannindin sem sjálfsveran uppgötvar og heldur tryggð við eru eitthvað nýtt sem stangast á við hinn gamla skilning sem þarf að breyta. En fyrirstaða hins gamla er ekki endilega óvirk heldur lýsir hún sér í viðbrögðum annarra sjálfsvera sem hafna þeim skilaboðum sem hin trúa sjálfsvera les úr viðburðinum.

Badiou tekur dæmi af þrælauppreisn Spartakusar á tímum rómverska lýðveldisins. Sannindi hans voru einföld: „Við getum snúið heim til okkar sem frjálsir menn.“ Síðan þurftu þrælarnir að mynda hreyfingu – trúa sjálfsveru – um þennan málstað og hún að sammælast um hvernig hún vildi brjóta sér leið til heimkynnanna. Þeir þrælar sem neituðu að taka þátt í þessu ævintýri vegna þess að þeir töldu að það gæti aðeins endað með ósköpum, sem töldu að þrælalíf þeirra væri illskásta hlutskiptið sem stæði þeim til boða og reyndu því að telja félögum Spartakusar hughvarf – þeir eru líka virk en „reaksjóner“ eða afturhaldsöm sjálfsvera. Þeir sem hins vegar hafna lögmæti þrælauppreisnarinnar – rómverska valda- og auðmannastéttin og embættismenn þeirra – og reyna að kæfa hana í fæðingu kallast hins vegar „obskúr“ eða myrk sjálfsvera því að vinna þeirra er í nafni æðri veru, á borð við rómverska ríkið, sem er tákn um óbreytta stöðu og réttlæting fyrir henni.

Frá sjónarhóli búsáhaldabyltingarinnar væru þeir sem gjalda varhug við hugmyndinni um Nýtt Ísland dæmi um afturhaldssama sjálfsveru. Þeir viðurkenna flestir að hér hafi orðið víðtækt Hrun en draga einfaldlega aðra ályktun af því en hin trúa sjálfsvera. Boðskapur þeirra er sá að í besta falli eigum við að hverfa aftur til Íslands eins og við þekktum það t.d. fyrir árið 1991; allt annað séu hættulegar þjóðfélagstilraunir. Það er hins vegar líka hægt að gera minna úr Hruninu, t.d. með því að segja ástæðulaust að gjörbreyta skoðunum sínum og hugsunarhætti vegna þess eins að „gert hafi gjörningaveður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum“. Nú eigi allir að leggja skoðana­ágreining til hliðar, standa saman sem einn maður og vinna að endurreisn Íslands; væntanlega eins og það var fyrir Hrun. Þetta væri þá afstaða hinnar myrku sjálfsveru.

Nú má finna fólk bæði til hægri og vinstri sem þykir allt tal um Nýtt Ísland illþolanleg klisja. Eins er hin myrka sjálfsvera varla bundin við íhaldsstefnu, því hún birtist m.a. í þeim marxistum sem benda á að kreppan sem hófst árið 2007 sé nú ekki sú versta sem heimskapítalisminn hafi séð á sinni löngu ævi; það þurfi nú miklu meira til þess að velta honum úr sessi og því ekki von á almennilegri byltingu fyrr en kannski í fyrsta lagi eftir 400-600 ár. Menn eigi nú bara að hafa sig hæga og halda áfram baráttunni eins og þeir hafi stundað hana til þessa o.s.frv.

Það er raunar ekkert sem sannar fyrir víst að myrkar eða afturhaldssamar sjálfsverur hljóti að hafa rangt fyrir sér í þessum efnum. Og hafi einhver lesið úr Hruninu að endurhanna þyrfti fjármálakerfi landsins eða heimsins alls, er honum í raun um megn að færa endanlegar sönnur á að Hrunið hafi verið sá tímamótaviðburður sem hann vill meina. (Tímamótaviðburðir eins og þeir sem þessi heimspeki byggir á eru raunar býsna sjaldgæfir. Farið bara á ljóðahátíð og þið munuð örvænta um stöðu viðburðarins.)

Hér er því að einhverju leyti um trúaratriði að ræða. Það eina sem trú sjálfsvera getur gert er að postúlera skilning sinn á Hruninu og láta á það reyna hvort breytingarnar sem hún boði í kjölfarið muni ekki reynast jákvæðar. Það er hið tragíska og hetjukennda við hlutskipti hennar. En kannski er það hlutskipti ekki svo bágt. Því það að ætla í staðinn að alhæfa um að „leiðin til vítis sé vörðuð fögrum fyrirheitum“ og að þess vegna hafi öll barátta af þeim toga einungis hörmungar í för með sér er varla vitsmunaleg afstaða, enda stenst hún ekki sögulega skoðun. Og það að gerast sá vitringur sem hefur einungis slíkan svartsýnisboðskap fram að færa er svo sem ekki síður harmrænt en hins vegar laust við alla hetjudáð.

En af hverju að kalla dirfsku og jafnvel fífldirfsku í stjórnmálum „sannindi“? Við vitum svo sem hvernig fór fyrir þrælauppreisn Spartakusar. Tæpum 1900 árum síðar sigraði hins vegar Toussaint L‘Ouverture, foringi haítískra þræla, her frönsku nýlendukúgaranna og hlaut fyrir vikið viðurnefnið „Hinn svarti Spartakus“. Að nafn Spartakusar skuli lifa áfram í þrælauppreisnum sem ná að verða að þjóðfélagshreyfingum er til marks um að það sem hann stendur fyrir sé svo víðtækt að það hafi öðlast hlutdeild í eilífðinni; að þrátt fyrir ofsóknir og kerfisbundna gleymsku geti hugsjónir sem varða alla – eins og afnám þrælahalds – verið á vissan hátt eilífar; þannig að eftir að hafa legið lengi í dvala geti þær risið aftur upp í formi nýrrar trúrrar sjálfsveru; þetta eru því hugsjónir sem eru ekki aðeins birtingarmyndir hagsmunabaráttu heldur hafa þær eiginlega náð stöðu platonskra frummynda og geti því kallast „sannindi“.

Án þess að gerast svo hástemmd getum við þó væntanlega sagt að fyrst í búsáhaldabyltingunni hafi Íslendingar lært að velta sitjandi stjórnvöldum úr sessi með fjöldahreyfingu – og það án teljandi blóðsúthellinga. Minningin um þann möguleika getur bæði orðið stjórnvöldum visst memento mori auk þess sem það sem blundar sem möguleiki sem getur orðið aftur að veru­leika þegar og ef þess gerist þörf.

En allt er þetta bara formleg lýsing á afstöðu sjálfsvera til sjálfra sín og annarra, án þess að við höfum almennilega lýst því hvað eigi að felast í boðinu um Nýtt Ísland. En hver er þá „hin trúa sjálfsvera“ sem sprettur úr Hruninu? M.ö.o. hvað þýðir það að berjast fyrir Nýju Íslandi? Það er kannski heldur ekki svo einhlítt. Við höfum hér á landi býsna ólík „sannindi“, þ.e.a.s. sýn á hvernig beri að umskapa samfélagið í ljósi þeirrar kreppu sem það lenti í og er jafnan kölluð „Hrunið“. Hér vil ég annars vegar gera tilraun til þess að greina þessi viðbrögð í nokkra meginflokka sem ég skilgreini út frá því hver meginástæða Hrunsins er talin vera. (Ekki svo að skilja að þau hafi öll sést á mótmælaspjöldum veturinn 2008-9, heldur þau sem komu fram í þjóðfélagsumræðunni; sjálfsagt gleymi ég hér ýmsum hugmyndum). Hins vegar vildi ég leiða líkum að því hvaða afstöðu Badiou hefur til þessara lausna en það er ég að miklu leyti að álykta út frá því sem ég hef lesið eftir hann; þessu ber því að taka með góðum fyrirvara.

And-pólitísk nálgun: stjórnmálaflokkar eru vandamálið

Lausnir Afstaða Badiou
Embættismenn vinni í þágu almanna­heilla5 Embættismenn eru ekki hlutlausir. Það eru þeir sem hafa það hlutverk að viðhalda óbreyttu þjóðfélagskerfi og það eru þeir sem hafa hag af því. Pólitík snýst ekki umfram allt um tæknileg úrlausnarefni, semsé „að hætta að rífast og fara bara að vinna“ – en það er einmitt það sem þessi lausn gengur út á. Embættismenn leysa ekki grundvallar ágreining um skipan þjóðfélagsins heldur láta þeir eins og sá ágreiningur sé ekki til staðar.
Skipa þarf sérfræðinga í æðstu stjórn ríkisins og helst sem víðast í stjórnkerfinu Í stéttaþjóðfélagi eru menntamenn heldur ekki hlutlausir – og almennt óáreiðanlegir í pólitískri baráttu.6
Þjóðstjórn þarf (eða utan­þingsstjórn) til þess að sam­eina þjóðina um nauðsynlegar stjórnvalds­ákvarðanir „Þjóðin“ er ekki til sem heildarmengi um sjálfa sig; þýðir í raun ráðandi öfl innan ríkisins. Sú væri einmitt útkoman úr stjórn allra flokka er sammæltust um lægsta samnefnarann milli þeirra.
Markaðurinn sér um sig sjálfan. Ríkisafskipti eru orsök kreppunnar.7 Kapítalisminn orsakar eigin kreppur. Þær eru óhjákvæmilegur hluti af honum sem efnahagskerfi og mun því ekki fækka við það að fækka reglugerðum.

Siðbótarnálgun: vandamálið felst í hugarfari þeirra sem ráða

Lausnir Afstaða Badiou
Græðgi forstjóra og fjárfesta tók út fyrir allan þjófa­bálk. (Hana þarf að hemja með því að temja sér nýtt hugarfar, svo sem um einhvers konar sjálf­bæran kapítalisma, eins og í fjölskyldu­fyrirtækjum.) Kapítalisminn lýtur eigin rökvísi og lög­málum, ekki góðum vilja. Það þýðir ekkert að ætla að siðvæða hann með því að eyða einmitt hugsunarhættinum sem heldur honum gangandi.
Skipta út gömlu liði og setja t.d. ungt fólk í staðinn sem er laust við ósiði hins gamla Íslands. (Hug­myndin um að fjölga þurfi konum í stjórnunar­stöðum er af þessum meiði. Kannski ekki þannig að allt breytist við að skipa einstaka konur í bankastjórastöður, heldur að sérstök kvenleg gildi geri gæfumuninn við rekstur fyrirtækja, fjár­festingarsjóða, sem og ríkisins.) Horfið bara á útsendingar frá þingfundum: skotgrafirnar eru áfram til þótt skipt sé um hermenn í þeim. (Hvað svokallaða minni­hlutahópa varðar, þá eru sannindi algild í eðli sínu, þ.e. ekki lokuð neinum. Stjórnmál sem byggja á sérstökum lokuðum reynslu­heimum geta því á endanum ekki verið frelsandi.8)

Kerfisnálgun: það þarf að endurnýja grunnstoðir samfélagsins

Lausnir
Lagabreytingar
Nýja stjórnarskrá
Aðild að ESB (gæti eiginlega líka flokkast undir and-pólitíska og siðbótarlausn)
Nýtt og gjörbreytt fjármálakerfi

Afstaða Badiou: Þetta er eiginlega eina nálgunin sem stendur okkur þá til boða. Badiou hefur hins vegar afar takmarkaða trú á að ríkisvaldið eða stjórnmálaflokkar sem keppa um þingsæti geti valdið einhverjum straumhvörfum í stjórnmálum. Meira sé að vænta af frjálsum aðgerða­hópum sem vinni á þeim vettvangi þar sem helst er að vænta viðburðarins hverju sinni (þótt það sé í raun í mótsögn við hugmyndina um að viðburðurinn, sem stangast á við kerfið, sé í eðli sínu óvæntur).

Þessi fjöldi ólíkra og að talsverðu leyti ósættanlegra lausna hefur þann vanda í för með sér að erfitt reynist að greina hvaða sjálfsvera teljist vera trú sannleiks-viðburði Hrunsins. Því má spyrja: Fer það kannski bara eftir þeim sjónarhóli sem valinn er hvort sjálfsvera teljist trú, afturhaldssöm eða myrk? Og er þessi heimspeki þá svona afstæð? Þið vitið að hin sígilda ásökun sem hugsuðir, sem virðast opna fyrir einhvers konar afstæðishyggju, þurfa að verjast er: „Hvað þá með nasismann? Er hann jafngildur og aðrar stefnur?“ Svar Badiou við þeirri spurningu er sú að „Þjóðarbyltingin“ sem Hitler og síðar Pétain marskálkur boðuðu hafi ekki verið raunverulegur viðburður heldur gerviviðburður. Það sé dæmigert fyrir myrka sjálfsveru að þjóna einhverri æðri „veru“ til þess að reyna að skýla veruleikanum fyrir því sem gæti í raun breytt honum. Sú æðri vera geti t.d. birst í guðsmynd svokallaðs „íslamó-fasisma“ en einnig í formi vestrænna gilda þegar eru notuð sem réttlæting fyrir ofbeldi til þess að tryggja áframhaldandi yfirráð Vesturlanda. Í þessari heimspeki býr því visst gildismat, eins og við munum betur sjá hér rétt á eftir.

Stjórnmálahugsun Badious hefur einkum verið gagnrýnd fyrir að byggja á einhvers konar krafta­verki: Fyrst þurfi að bíða eftir að skammhlaup verði í veruleikanum, vera þá í þeirri stöðu að taka eftir mótsögninni milli orðræðunnar og Raunarinnar sem birtist um stund og draga af henni ályktanir sem geta kallast framsæknar eða byltingarkenndar; annað sé eiginlega röng pólitík.

  1. Slavoj Žižek spyr þannig hvort það sé ekki of mikil einföldun að lýsa öllu því sem ekki telst til raunverulegs viðburðar og baráttu sem honum er helguð sem „óbreyttri stöðu“ (og þar með stöðnun), þ.e.a.s. hvort ekki þurfi að sjá fleiri tilbrigði í veruleikanum en þessi sýn gefur til kynna.
  2. Hardt og Negri, sem við munum fjalla um á eftir, hafna því að sjálfsveran þurfi að vera svo óvirk að bíða eftir viðburði sem hún muni fyrst síðan í kjölfarið ljá ákveðna merkingu. „Af hverju ekki miklu frekar vinna að því að framkalla slíkan viðburð?“, spyrja þeir.
  3. Ásamt franska heimspekingurinn Daniel Bensaïd benda þeir á að einmitt þau dæmi um raunverulega stjórnmálaviðburði sem Badiou nefnir – Frönsku stjórnbyltinguna, Parísarkommúnuna, Rússnesku stjórnbyltinguna, Kínversku menningarbyltinguna – séu vel skýranleg út frá einhverri samfellu í þróun efnahagslífs, þjóðfélagshátta eða hugmyndastrauma en ekki bara út frá rofum í henni. Það má alveg lýsa kúvendingu hugarfarsins sem varð hér 2008 sem slíkum rofum. En hefur það jafn mikið skýringargildi og þróun efnahagslífs og bankageirans? Líklega ekki.
  4. Enn fremur hefur Bensaïd gagnrýnt Badiou fyrir að gera ekki ráð fyrir lýðræðislegum vettvangi fyrir þær ólíku sjálfsverur sem takast á. Viðbrögð Badious við þeirri gagnrýni eru þau að spyrja: hvaða lýðræði?

    [Trú sjálfsvera] birtist í t.d. í þeirri sannfæringu að fundur sem tekst að halda með fjórum afrískum verkamönnum úr verbúðum, einum náms­manni, kínverskum starfsmanni í textílverksmiðju, póstmanni, tveimur fjölskyldumæðrum úr úthverfi og fáeinum silakeppum úr bænum, og sem kemst að ákveðinni niðurstöðu og markar ákveðið tímaskeið óháð tímaskiptingu ríkisins, er óendanlega og ósammælanlega mikil­vægari en það að stinga nafni litlauss stjórnmálamanns í talningavél ríkisins.9

    Það sé m.ö.o. mun meira lýðræði fólgið í því að taka þátt í að framleiða og raungera ný sannindi en að hegða sér sem nytsamur sakleysingi í því „þingbundna auðræði“ sem Vesturlandabúar kalli lýðræði. Af þessu leiðir að þegar raunverulegt lýðræði eigi sér þannig stað birtist það með ólíkum hætti í sögunni; það sé ekki þegar fullskapað. Þetta kann að þó þykja nokkuð ódýr lausn enda svarar hún ekki beinlínis gagnrýni Bensaïd um skort á lýðræðislegum vettvangi. Ég þekki ekki til þess að Badiou hafi brugðist við hinum gagnrýnisatriðunum.

Stundum virðist þessi heimspeki ætlast til þess að hver og einn „leiti síns sannleika“, sem verður að teljast býsna óraunsæ krafa í pólitík. Það er þó sennilega ekki hugmyndin. Sjálfur hefur Badiou sett fram ýmsar pólitískar kröfur sem aðgerðasinni og virðist því ekkert eiga að vera óheiðarlegt við það að fallast á þær án undangenginnar persónulegrar endurskírnar. Það sem hann lítur á sem tímamótaviðburðinn í sínu lífi er maí 68 og það eru „sannindi“ þess viðburðar sem væntanlega móta innihald þeirra átta „punkta“ sem hann kynnti í nýlegum ritlingi, Fyrir hvað stendur Sarkozy?

Punktar Útlegging
1. Ganga skal út frá því að allir verkamenn sem vinni hér séu líka héðan, við þá skuli koma eins fram og aðra, en þeir heiðraðir sem slíkir, einkum og sér í lagi útlendir verkamenn. Koma skal eins fram við erlent (og ólöglegt) vinnufólk og við heimamenn nema að því leyti að heiðra ber það fyrrnefnda sérstaklega fyrir erfiðið sem það hefur lagt á sig.
2. Listsköpun, sem er óháð stað og tíma, er æðri menningarneyslu, hversu nátengd samtímanum sem hún kann að vera. Hjálpa ber fólki að læra að meta æðri listir.
3. Vísindin, sem eru í eðli sínu endurgjaldslaus, eru algjörlega hafin yfir tæknina, jafnvel þótt og einkum ef hún er arðvænleg. Frelsa ber iðkun vísinda undan markaðshyggjunni.
4. Ástina þarf að finna upp á nýtt (sbr. Rimbaud) en einnig einfaldlega að verja. Frelsa ber ástina undan þeirri neyslu­hugsun sem fólgin er vitaskuld í klámi en einnig stefnumótavefjum þegar þeir lofa að finna réttu vöruna handa manni og gera þannig út af við ástar-ævintýrið.
5. Sérhvern sjúkling, sem leitar meðhöndlunar hjá lækni, skal hinn síðarnefndi skoða og lækna eins vel og hægt er og í samræmi við þá læknisfræðilegu þekkingu sem hann býr yfir algjörlega óháð aldri sjúklingsins, þjóðerni, „menningu“, réttarstöðu og fjárhagsstöðu (sbr. Hippókrates). Sami boðskapur og í 1. punkti en bundinn við heilbrigðisþjónustu.
6. Sérhvert ferli, sem hefur tilefni til þess að stíga fram sem hluti af frelsandi stjórnmálum, skal álitið æðra öllum rekstrarsjónarmiðum. Viðburðir af stjórnmálalegum toga eru æðri ríkisbúskap, rétt eins og ástin er æðri hjónabandinu, þrjóska æðri pópú­lisma í vísindum og framúrstefnulist æðri nytjalist.
7. Dagblað sem er í eigu ríkra forstjóra skyldi enginn lesa sem hvorki er forstjóri né ríkur. Þarfnast ekki skýringa.
8. Það er aðeins einn heimur til.10 Eða þannig ætti það að vera – eitt að gilda fyrir alla.

Það sem er sláandi hvað hugmyndaheimurinn sem sprettur af þessum „elíter“ vinstri-róttæku stjórnmálahugmyndum Badiou af er ólíkur því sem brann á fólki í búsáhaldabyltingunni. Sjöundi punkturinn er eiginlega sá eini hér sem virðist skarast við yfirlýsingar fólks í tengslum við hana um það ætlaði ekki lengur að lesa fjölmiðla sem hrunkvöðlar í viðskiptalífinu eða stjórnmálum stýra, hverjar sem efndirnar á því hafa orðið. Sjötti punkturinn sveif að vísu einnig yfir vötnum, a.m.k. sú hugmynd að í góðærinu hafi ýmsum prinsippum réttláts samfélags verið fórnað á altari hagvaxtarkröfunnar. En að öðru leyti skarast stefnumið sem Badiou boðar lítt við það sem hér gerðist. Enn fremur virðist sjálfsveruhugtak hans ná illa að tjá þann meginstraum ólíkra viðhorfa sem mætti á Austurvöll, þ.e. hið anarkíska eðli búsáhaldabyltingarinnar. Hér verð ég að vísa í heimildir og bendi á niðurstöðu Guðna Th. Jóhannessonar um að byltingin hafi þrátt fyrir vel­gengni sína verið „óskipulögð og leiðtogalaus“.11 (Mér skilst raunar að Hörður Torfason sé ósammála þeirri túlkun, hann hafi verið leikstjórinn fyrir framan og á bak við tjöldin. Hafi sú verið raunin skýrir það þá ekki hvernig svo ólíkir hópar gátu þyrpst um einn byltingarleiðtoga.)

Mergðin í heimspeki Hardt/Negri

Þar sem ég hef lítinn tíma eftir ætla ég að vera gagnorður í umfjöllun minni um Hardt og Negri. Rannsóknarspurningin sem þeir leitast við að svara í þremur ritum þeirra sl. áratug er sú, hvers konar afl sé í dag fært um að veita kapítalismanum viðnám. Ég segi „kapítalismi“ til þess að vísa á kunnuglegt hugtak en greining þeirra á vandamálinu er víðtækari: Hvaða afl getur í dag boðið upp á valkost við þá alþjóðlegu heild lagakerfa, efnahagslegra hagsmuna og stjórnmálastofnana sem gegnsýrir daglegt líf okkar allra, starf okkar og frítíma, sem og viðhorf okkar og væntingar? Þessi heild, sem þeir félagar nefna „Veldið“, á sér enga eina miðstöð í heiminum heldur er alltumlykjandi á öllum sviðum; hún hefur að vísu ekki leyst þjóðríkin af hólmi heldur lúta þau sömu rökvísi.12

Hvernig á þá að kljást við Veldið? Lausn þeirra er í gömlum marxískum anda því þeir telja að með yfirráðum sínum grafi Veldið sér sína eigin gröf.13 Skýrt dæmi um það megi finna í viðleitni þess til að vernda eignarrétt yfir hugverkum þegar ljóst er að sú barátta stríðir beinlínis gegn vaxtarmöguleikum alþjóðahagkerfisins, hinum vaxandi þekkingariðnaði sem þurfi einmitt á frjálsu flæði hugmynda og hugverka að halda til þess að dafna. Kapítalisminn sé þannig lentur í mótsögn við sjálfan sig. Þessi sjóður hugmynda og hugverka er einn anginn af þeim sameiginlegu gæðum sem nýfrjálshyggjan reynir að færa í hendur einkaaðila. Þessi gæði birtast annars vegar í sameiginlegum náttúruauðlindum mannkyns: vatni, lofti, ávöxtum jarðar o.s.frv.; hins vegar í „afurðum samfélagslegrar framleiðslu sem eru nauðsynlegar fyrir félagsleg sam­skipti og frekari framleiðslu, s.s. þekking, tungumál, kóðar, upplýsingar, hrif o.s.frv. […] Á öld hnattvæðingar verður viðhald, framleiðsla og dreifing hins sameiginlega í bæði vistfræðilegum og félagshagfræðilegum skilningi æ mikilvægara.“14

Þessi gæði þarf að viðurkenna sem slík og standa gegn eignarnámi einkaaðila á þeim. Ekki með því að leggja sameign og opinberan rekstur að jöfnu, heldur á hið sameiginlega að vera á einhvern hátt að vera handan einkarekstrar og opinbers rekstrar. Þessa hugmynd þekkjum við því hér hefur aldrei verið breið sátt um kvótakerfið sem nýtingaraðferð á „sameign íslensku þjóðar­innar“ einkum vegna þess hversu mikið eignarframsal það hefur þótt vera á þeirri sameign. En í þeirri óánægju felst þó ekki krafa um sjávarútvegur verði í höndum hins opinbera.

Spurningunni er þó enn ekki svarað hvert aflið sé sem muni jarðsyngja Veldið. „Mergðina“ nefna þeir það en hún er fjöld eða net ólíkra, frjálsra og jafnra aðila („singúlarítet“). Mergðarhugtakið þarf þó að greina frá öðrum. Mergðin er t.d. eitthvað annað en „fólkið“ eða „þjóðin“ vegna þess að í þeim hugtökum felst viss eining viljans; hún er ekki fjöldinn eða múgurinn vegna þess að hann einkennist af einsleitni og ekki heldur verkalýðurinn.

Ekki af því að… heldur…
fólkið/þjóðin mergðin er ekki með einn vilja ólík stök innan hennar
fjöldinn/múgurinn mergðin er ekki einsleit „alskonar“
Verkalýðurinn hann útilokar aðra hópa vinnu­fólks allir framleiða, líka fátæklingar og farand­verkamenn

Vandinn er hins vegar sá að setja fram jákvætt orðaða skilgreiningu á mergðinni er tekur tillit þessarar neikvætt orðuðu afmörkunar.

  1. Í stað þess að hafa einn vilja eru markmið mergðarinnar margs konar, enda er mis­munurinn innan hennar svo margháttaður að hún verður aldrei smættuð í eina einingu, slík eining myndi hamla sköpunargleði margbreytileikans. Hér er eiginlega á ferð draumur póstmódernismans um jafngildi ólíkra aðila þrátt fyrir „mismunandi menningu, kynþætti, þjóðerni, kyngervi, kynhneigðir, vinnuhætti, lífsmáta, sýn á heiminn og þrár“15. Hugmyndin er ekki að þessir hópar fái samfélagslega viðurkenningu á því hvernig þeir teljist afbrigðilegir við „normið“ heldur myndi þeir annars vegar pólitíska hreyfingu sem er sterk vegna fjölbreytileikans og hins vegar nýjan heim þar sem meintur afbrigðileiki þeirra skiptir ekki lengur neinu máli.
  2. Þrátt fyrir að vera ekki einsleit eins og grár múgurinn þarf mergðin þó að takast á við það verkefni að tryggja samskipti og samvinnu milli þessara „alskonar“ aðila sem hana mynda.
  3. Þessir aðilar eru ekki aðeins verkalýðurinn, jafnvel þótt við skildum hann með víðum hætti – sem verkafólk í iðngreinum, landbúnaðarstörfum og þjónustugreinum – heldur er „rumpulýðurinn“, fátæklingarnir og farandverkafólkið sem stéttarfélögin telja ekki til sinna félagsmanna og fá jafnvel engin laun greidd, einnig hluti af mergðinni. Sem er líka eðlilegt því að hlutskipti fólks er smám saman að verða líkara eftir því sem þeim svæðum fer fækkandi í veröldinni þar sem hægt er að næla sér í örugga vinnu út starfsferilinn. Auk þess eru það í dag ekki aðeins þeir sem framleiða vörur sem eru „pródúktívir“, heldur framleiða allir það sem mestu máli skiptir, hið sameiginlega (í félagshagfræðilegum skilningi). Það er því þessi sameiginlegi auður sem gæti veitt „lykilinn að því hvernig mergðin getur tekið á sig fastmótaða mynd um leið og hún er í stöðugri hreyfingu“, þ.e. að hún sem „margháttuð eining geti verið fær um að ákvarða sjálfa sig.“16

Annað höfuðeinkenni mergðarinnar segja þeir Hardt og Negri vera lýðræðisþrána; lýðræðiskrafan sé nokkuð sem sameini ólíka mótmælahópa í samtímanum. Takist mergðinni að skipuleggja sig sem alþjóðlegt viðnám við Veldinu sé hún raunar eini vettvangurinn fyrir lýðræðislega stjórn, að mati höfunda. Hér erum við kannski komin út í klisjur sem einkenna stíl þessara bóka full mikið, en í þessu felst þó að það er t.d. ekki með upprisu þjóðríkisins sem hægt sé að kljást við Veldið. Kröfur mergðarinnar eigi þannig að vera alþjóðlegar:

  1. alþjóðlegur ríkisborgararéttur
  2. lágmarksframfærsla handa öllum jarðarbúum (enda allir framleiðandi)
  3. endurheimt hins sameiginlega17 – (í stað opinbers rekstrar á sameigninni felst hún í „lýðræðislegri stjórn mergðarinnar á henni“)

En af þessum þremur meginkröfum er það þó aðeins sú síðasta sem á eitthvað skylt við búsáhaldabyltinguna. Vissulega varð vart ákveðinnar gagnrýni á kapítalismann í tengslum við bankahrunið og aðkomu AGS á Íslandi en þrátt fyrir einstaka rauða fána á Austurvelli var sú gagnrýni ekki svo miðlæg í laugardagsmótmælunum eða búsáhaldabyltingunni. Nema kannski í vitundarvakningunni sem varð um hvað bankarnir og hagsmunabarátta þeirra var farin að síast inn á mörg svið þjóðfélagsins.

Það eru því fremur formlegir eiginleikar mergðarinnar sem mér virðast henta til þess að lýsa búsáhaldabyltingunni sem fyrirbæri, þ.e.a.s. það að taka (a) fjölbreytileika hennar alvarlega sem og (b) kröfu hennar um aukið lýðræði. Einn þessara formlegu eiginleika er einnig sá hvernig mergðin lærir smám saman að berjast fyrir markmiðum sínum. Þannig vill til að Íslendingar fundu ekki upp búsáhaldabyltinguna. Ég veit ekki hvenær þessi byltingaraðferð var fundin upp en með henni tókst að bola gagnslausri stjórn frá völdum í Argentínu fyrir tæpum áratug. Í dag eru það Grikkir sem prófa sig áfram með þessu þótt það hafi ekki skilað miklu til þessa.

Niðurlag

Niðurstaða mín er því sú að það megi styðjast við ýmsa formlega hluta þessara kenninga Badiou annars vegar og Hardt og Negri hins vegar til þess að skýra hvað búsáhaldabyltingin hafi verið. Ég vil semsagt prófa að slá því fram að búsáhaldabyltingin hafi verið mergð ólíkra sjálfsvera. Að vísu hef ég hér ekki fjallað um neinar aðrar kenningar um félagshreyfingar til þess að bera þessa tilgátu saman við þær. En ætlunin var heldur ekki að eiga síðasta orðið um þetta efni.

Það er síðan önnur spurning hvað hafi orðið um búsáhaldabyltinguna. Í raun náði hún aldrei að verða að stofnun utan um sjálfa sig: Ýmsir hlutar hennar buðu sig fram til þings undir merkjum Borgarahreyfingarinnar, VG og Frjálslynda flokksins, en sem grasrótarhreyfingu í kjölfar hennar má t.d. finna „Alþingi götunnar“ á Höfðatúni sem var stofnað sl. vor. Einhver skörun var milli þátttakenda í búsáhaldabyltingunni og í mótmælunum gegn Icesave, þótt erfitt sé að meta hversu mikil, eða þá við Besta flokkinn og sambærileg framboð í sveitarstjórnarkosningum. Kannski að þar sé fremur hægt að líta á búsáhaldabyltinguna sem viðburð er leysi ólíkar sjálfsverur úr læðingi, þótt erfitt sé að færa einhverjar endanlegar sönnur á slíkt. Mér skilst að Austurvöllur sé nú orðið furðu eyðilegur að sjá vegna þess hversu margir mótmælendur þar séu komnir á fullt í framboð til stjórnlagaþings. Og er það ekki bara ágætt? Alla vega er það til marks um að hinar ólíku sjálfsverur, sem urðu til upp úr Hruninu, þokist á hraða mergðarinnar til aukins og fjölbreyttara lýðræðis.

Aftanmálsgreinar

1. Erindi flutt í ReykjavíkurAkademíunni 30. okt. 2010 á málþinginu Réttlætiskennd og samfélagssýn sem haldið var á vegum Glímunnar, ReykjavíkurAkademíunnar og Skálholtsskóla.

2. Tímans vegna gafst ekki kostur á að velta fyrir sér hvernig skilgreina mætti róttækni í þessu samhengi eða almennt. Ætlunin er að bæta úr því í ítarlegri grein um sama efni sem mun birtast á næsta ári í 8. árg. Glímunnar, óháðs tímarits um guðfræði og samfélag.

3. Vilhjálmur Egilsson: „Þriðja hrunið?“, Fréttabréf SA, 9.9.2010. Sótt 18. október 2010 af: http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/4931/ Þar rökstyður höfundur áhyggjur sínar.

4. Alain Badiou: Logique des mondes. L’être et l’événement 2, Seuil: París 2006. Tvær greinar hafa verið birst eftir Alain Badiou á íslensku: „Löngun heimspekinnar“ (Viðar Þorsteinsson þýddi), Af marxisma, Nýhil: Reykjavik 2009, s. 325-340; „Tilgátan um kommúnisma“ (Haukur Már Helgason þýddi), Kistan. Veftímarit um fræði og menningu, 30. maí 2008:
http://kistan.is/default.asp?sid_id=25401&fre_Id=72926&tid=2&meira=1&Tre_Rod=005|&qsr. Um heimspeki Badiou, sjá: Egill Arnarson: „Um Alain Badiou“, Af marxisma, s. 320-324. Sami: „Sannindahugtakið í heimspeki Alain Badiou“, Kistan. Veftímarit um fræði og menningu, 9. nóvember 2006:
http://www.kistan.is/default.asp?sid_id=28001&tre_rod=004%7C&tId=2&fre_id=54988&meira=1

5. Dæmi um embættismannamiðaða (eða hegelíska, ef út í það er farið) lausn er að finna hjá Páli Skúlasyni: Íslenska ríkið „brást hlutverki sínu að gæta öryggis þegna sinna – Trúnaðarbrestur milli ríkis og þjóðar – Verkefnið: Uppbygging ríkisins […] Tilgáta: Frá 1944 höfum við – vanrækt ríkið sem skipan sameiginlegra mála – eflt ríkið um of sem stjórnvald – treyst á atvinnustjórnmálamenn – ekki menntað embættismennina sem skyldi – Skortur á sjálfstæðri embættismannastétt“. (Sjá: Páll Skúlason: Af hverju brást ríkið? Hvernig byggjum við það aftur upp? Erindi frá 16. október 2009, www.vefir.hi.is/pall/)

6. Ef þið efist um að hægt sé að tala um menntamannastétt á Íslandi, reynið bara að ávarpa fólk með því að byrja á orðunum „Við menntamenn …“ og kannið viðbrögðin.

7. Talsmenn þessarar stefnu fjölmenntu sennilega ekki á Austurvöll en tóku þó þátt í þjóðfélagsumræðunni; þess vegna held ég þeim til haga.

8. Eins og þið sjáið, gildir hér að mestu eftirfarandi jafna: Badiou = Marx, þótt hann hafi að vísu verið gagnrýndur fyrir að gera ekki almennilega grein fyrir því hverju hann er sammála í Marx og hverju hann er ósammála. Helsti munurinn er þó sá að Badiou hafnar sögulegri efnishyggju Marx, þ.e. því að efnahagsþróunin skýri hvar mestar líkur séu á þjóðfélagshræringum – enda viðburðurinn jú óvæntur í eðli sínu.

9. Alain Badiou: De quoi Sarkozy est-il le nom? Nouvelles Éditions Lignes: París 2007, s. 24-25.

10. Alain Badiou: De quoi Sarkozy est-il le nom?, s. 57-69.

11. Guðni Th. Jóhannesson: Hrunið, s. 324.

12. Sjá meira um Veldishugtakið í: Michael Hardt og Antonio Negri: „Lífpólitísk framleiðsla – ásamt formála að Veldinu“ (Viðar Þorsteinsson þýddi), Hugur, tímarit um heimspeki 15, 2003, s. 150-173.

13. Viðar Þorsteinsson: „Speglasalur vinnunnar. Af Deleuze og ítölskum marxisma“, Af marxisma, ritstj. Magnús Þór Snæbjörnsson og Viðar Þorsteinsson, Nýhil: Reykjavík 2009, s. 133-167, hér s. 153-158. Sami: „Um Antonio Negri“, Af marxisma, s. 302-306. Antonio Negri: „Kommúnismi: fáeinar hugleiðingar um hugtakið og notkun þess“ (Hjalti Snær Ægisson þýddi), Af marxisma, s. 307-319, hér s. 311-317.

14. Michael Hardt og Antonio Negri: Commonwealth, The Belknap Press of Harvard University Press: Cambridge, Massachusetts 2009, s. viii.

15. Michael Hardt og Antonio Negri: Multitude. War and Democracy in the Age of Empire, Penguin Books: New York o.fl. 2004, s. xiv.

16. „Að endurheimta hið sameiginlega“, Dagblaðið Nei., 2. júní 2009. Sótt 26. október 2010 af: http://this.is/nei/?p=5754.

17. Michael Hardt og Antonio Negri: Empire, Harvard University Press: Cambridge, Massachusetts, London, England 2000, s. 396-407.