Greinasafn fyrir merki: börn

Heimspeki í barnaskóla

Markmið, inntak og aðferðir

eftir Björn Egilsson

Í grunnskólanum sem ég starfa í, Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík, er ekki unnið eftir hefðbundinni stundatöflu. Fyrir hádegi er hópatími þar sem börnin eru með sínum hópstjóra (umsjónarkennara) þar sem verkefni tengd íslensku og stærðfræði auk lotna í ensku eru í fyrirrúmi en eftir valtíma og hádegismat taka við smiðjur af ýmsu tagi. Skólinn býður nemendum sínum upp á tónlistarsmiðju, leiklistarsmiðju, þróttsmiðju, smíðasmiðju, náttúrusmiðju, yoga­smiðju, myndlistarsmiðju, textílsmiðju, heimssmiðju (þar sem börnin fræðast um landafræði og menningu annarra landa) og síðan hugsmiðju sem undirritaður hefur veg og vanda að. Í náms­áætlun skólans hefur orðinu heimspeki verið bætt aftan við orðið hugsmiðja í sviga og hefur það leitt til skemmtilegs ruglings. Í margra hugum er það óljóst fyrir hvað heimspeki stendur og sumir jafnvel getið sér til um að ég fræði nemendur mína um landa- og menningarfræði eða jafnvel einhvers konar jarðvísindi. Ónefndur góðborgari hafði meira að segja orð á því að orðið heim­speki bæri með sér hroka og yfirlæti vegna þess að það slægi eign sinn á alla þekkingu heimsins og að enginn heilvita maður gæti viljað láta titla sig á svo hlægilegan hátt – ástmögur viskunnar væri meira við hæfi.

Á kennarafundi lýsti skólastjóri skólans þeirri skoðun sinni að vel heppnað smiðjustarf ein­kenndist af metnaðarfullum undirbúningi sem leiddi til sterkrar upplifunar fyrir barnið sem það gæti tengt við veruleika sinn. Máli sínu til stuðnings vísaði hún í starf textílsmiðjukennarans sem hafði kynnt fimm ára börn fyrir grunnlitunum og unnið litahring út frá því með textílbútum. Þá hafi þau farið í strætó og heimsótt vinnustofu þar sem þau völdu sér efni, teiknuðu mynstur og prjónuðu húfu í prjónavél sem þau síðan straujuðu og þæfðu. Helsta hvatning vinnunnar hafi verið að börnin fengu tækifæri til þess að hanna og framleiða eitthvað nothæft á sig sjálf. Þessa sömu viku hafði ég sex ára stúlkur í hugsmiðju og velti því fyrir mér hvort starf mitt fylgdi ofan­greindum viðmiðum og kröfum um þýðingarmikla upplifun og raunveruleikatengda útkomu. Var ég að fylla þau af „heimsþekkingu“ eða hafði smiðjustarfið einhverja þýðingu fyrir börnin? Í hug­smiðjutímunum könnuðum við hugtakið vilja, út frá nokkrum grunnspurningum: Hvað það sé að vilja eitthvað, hvort hver og einn viti hvað hann eða hún vilji og hvort viðfangsefni viljans sé gott eða slæmt. Spurningarnar afhjúpuðu fyrirframgefnar hugmyndir sem voru þó enn að mótast; maður réði sjálfur hvort maður vildi eitthvað eða ekki, en stundum réði þó heilinn för. Ef að maður sjálfur (sem ein þeirra kallaði „manneskjan“), vildi ekki eitthvað sem að hugurinn vildi væri minnsta mál að slökkva á huganum með því að fara að sofa. Auðvitað mátti einnig spyrja hvort og hvernig hugurinn eða heilinn væri eitthvað annað en maður sjálfur og hvað sjálfið væri þá eiginlega, en þann þráð ætla ég ekki að rekja hér.

Stúlkunum fannst líklegast að þeir sem væru góðir vildu eitthvað sem væri gott á meðan þeir sem væru illir sæktust eftir hinu gagnstæða. Eftir að hafa rætt þær hugmyndir sem við höfðum um viljann las ég fyrir þær barnabækur af ýmsum toga með það fyrir sjónum að kanna hvort og hvernig vilji birtist í þeim. Ein bókanna var Emma fær mislinga eftir Gunillu Wolde. Í bókinni þráir söguhetjan að fá mislinga þegar litli bróðir hennar steypist út í rauðum dílum. Ég spurði hvað það væri sem Emma vildi í bókinni og fyrsta svarið virtist augljóst: hún vildi fá mislinga eins og bróðir sinn. Ég spurði þá hvort þær teldu Emmu góða eða illa og hvort það væri gott eða slæmt að veikjast. Emmu töldu þær góða stúlku en hikuðu þegar þær áttuðu sig á því að það væri ekki gott að veikjast – hvernig gæti gott barn viljað eitthvað slæmt? Þá benti ein þeirra á að Emma hefði í raun verið öfundsjúk út í litla bróður sinn vegna þess að mamma og pabbi hefðu hugsað svo vel um hann á meðan hann var veikur, ekki vegna þess að það væri gott að vera veikur. Á þessum tímapunkti var samræðan komin með bitastæða ráðgátu í hendurnar um sjálfstæð og ósjálfstæð markmið: Er hægt að óska sér einhvers ills í von um að það leiði eitthvað gott af sér?

Í hópi fimm ára drengja las ég söguna um Láka jarðálf og bað þá að lestri loknum að flokka sögupersónurnar í mengi eftir því hvort þær teldust góðar, illar eða þá í annað mengi sem var fyrir þær sem við vissum ekki hvort væru góðar eða illar. Hver og einn þurfti að rökstyðja val sitt á mengi með því að vísa til gjörða viðkomandi persónu. Í þessum æfingum studdist ég við ramma sem börnin þekkja; hinn afgerandi, fyrirframgefna og svarthvíta mun góðs og ills. Auk þess dýpkaði ég samræðuna með gömlum sögum og ævintýrum sem nú voru lesin í nýju ljósi. Markmið æfinganna er að víkka hugsunina og kveikja neista hins rannsakandi huga. Neistinn sést best á bliki undrunar í augum barnanna þegar sam­ræðan hefur dregið fram þverstæðu sem ögrar hafðbundinni hugsun. „Kannski þýðir gott bara vont“ sagði einn drengur að lokum þegar samræðan hafði leitt í ljós að Láki jarðálfur hafði gert fleiri góðverk en drengurinn sem Láki breyttist í við lok sögunnar; Láki jarðálfur var sem sagt betri í siðferðislegum skilningi en Láki drengur þó að Láki jarðálfur hefði framið yfir sjöhundruð illvirki. Þó svo að hinn hefðbundni skilningur á sögupersónum gæfi sér það að Láki drengur væri góður (enda hafði jarðálfurinn breyst í dreng eftir að hafa gert góðverk) lenti hann í mengi óvissunnar rétt eins og bangsinn, dúkkan Soffía og kisa sem létu hvorki gott né illt af sér leiða innan sögunnar.

Markmið smiðjunnar er ekki fræðsla um staðreyndir; smiðjan á ekki nesta börnin með vitneskju um höfuðborgir Norðurlandanna og ólík tungumál íbúa þeirra eða að kenna þeim muninn á ösp og reynivið. Smiðjan er ólík hannyrðasmiðjunum þar sem nemendur geta farið stoltir með hand­verksmuni heim til fjölskyldunnar, og þau öðlast ekki sömu færni og þau gera í tónlistar­smiðjunni. Samanburði á starfi hugsmiðjunnar við leiklistarsmiðjuna hef ég enn ekki lokið. Helst finnst mér hún líkjast yogasmiðjunni. Kennari hennar lýsti markmiðum starfsins svo að börnin ættu að öðlast sterkari vitund um líkama sinn og þá möguleika sem í honum búa. Það sagði hann endurspeglast bæði í áhuga þeirra og því hve auðvelt þeim reyndist að skapa nýjar æfingar, t.d. að finna upp á nýjum dýrum til að herma eftir. Heimspekiiðkun hugsmiðjunnar, eins og ég sé hana fyrir mér, er einmitt ætlað að börnin fái tilfinningu fyrir raunveruleika eigin hugsunar (þ.e.a.s. að afhjúpa hugsunina, ljá henni orð og reyna á hana á ýmsan máta) og ómældri getu eigin huga til þess að vaxa og dýpka. Af þeim sökum held ég að útkoma vel heppnaðs hugsmiðjustarfs verði vart raunveruleikatengdari, þó svo að hún sé oftar en ekki óræðari og torskildari út frá kunnum við­miðum um fræðslu og færni.