Fyrsta doktorsvörn í heimspeki á Íslandi – föstudaginn 10. feb.

Doktorsvörn í heimspeki: „Relations to Others, Relations to Nature: Discovering Allocentrism with Emmanuel Levinas.“

Föstudaginn 10. febrúar mun Gabriel Malenfant verja doktorsritgerð sína í heimspeki: „Relations to Others, Relations to Nature: Discovering Allocentrism with Emmanuel Levinas.“ Ritgerðin er á sviði gildakenninga, umhverfissiðfræði og Levinas-fræða.

Andmælendur við vörnina verða þau Søren Overgaard frá Háskólanum í Kaupmannahöfn and Tove Pettersen frá Háskólanum í Osló.

Leiðbeinandi Gabriels er Sigríður Þorgeirsdóttir prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd voru ásamt henni Hans Ruin frá Södertörn háskóla og Olli Loukola frá Helsinki háskóla.

Vilhjálmur Árnason, varadeildarforseti Sagnfræði- og heimspekideildar, mun stýra athöfninni sem fer fram í hátíðasal Aðalbyggingar og hefst kl. 13:00.

Um rannsóknina

Megin spurning doktorsritgerðarinnar snýst um hvernig megi hugsa um siðferðilegt gildi ósnortins náttúrulegs umhverfis (einkum landslags). Í fyrstu köflunum er rakið hvernig umræða í hefðbundinni og samtímaumhverfissiðfræði er mótuð af klofningi milli mannhverfrar og ómannhverfrar umhverfissiðfræði. Því er haldið fram að báðar nálganir séu ófullnægjandi. Vegna þessa klofnings sitjum uppi með að velja á milli þess að líta annað hvort svo á að náttúran hafi gildi í sjálfu sér án tillits til þess hvort maðurinn komi þar nálægt (ómannhverfa viðhorfið) eða að náttúran hafi siðferðilegt gildi upp að því marki sem hún hafi beint notagildi fyrir menn (mannhverfa viðhorfið). Í doktorsritgerðinni er því haldið fram að þetta séu rangir valkostir og þriðji valkostur kynntur sem er ,,hinhverft“ viðhorf (e. allocentrism), en þetta viðhorf er reist á nákvæmri rannsókn á megin stefum í heimspeki Emmanuel Levinas.

Í grófum dráttum kveður hinhverfa viðhorfið (hinir/aðrir sem viðmið) á um að ómanngert/ósnortið umhverfi geti haft siðferðilegt gildi og vægi vegna þeirra tengsla sem aðrir gætu haft við það. Þessi afstaða heldur því sem er gagnlegt við mannhverfa viðhorfið, nefnilega að siðferðileg gildi eigi sér upptök í tengslum milli manna, og hafnar þannig ómannhverfu kröfunni um að náttúran hafi gildi í sjálfri sér. Hinhverfa viðhorfið staðfestir einnig innsæi sem býr hugsanlega að baki ómannhverfu afstöðunni: Hugmyndin um að mannhverfir umhverfissiðfræðingar beini einungis sjónum að tækisgildi ósnortinnar náttúru smættar ómanngerða náttúru í safn auðlinda til að fullnægja þörfum manna. Mannhverfa viðhorfinu yfirsést þannig margs konar önnur gildi sem unnt er að eigna náttúrunni. Tilgáta ritgerðarinnar er sú að hinverfa viðhorfið geti hent reiður á slík gildi vegna þess að siðferðileg gildi eru ekki hugsuð út frá sjálfsveru sem þurfi að fullnægja einstaklingsbundnum þörfum, heldur út frá sjálfsveru sem er snortin af siðferðilegu ákalli sem aðrir gera til hennar.

Um doktorsefnið

Gabriel Malenfant fæddist í Montréal, Québec. Hann lauk M.A.-prófi frá Université de Montréal árið 2007. Gabriel fékk styrk til doktorsnáms úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands.


Hefst: 10/02/2012 – 13:00
Staðsetning: Aðalbygging
Nánari staðsetning: Hátíðasalur Háskóla Íslands

http://www.hi.is/vidburdir/doktorsvorn_i_heimspeki_%E2%80%9Erelations_to_others_relations­_to_nature_discovering_allocentrism_with_emmanuel_levinas%E2%80%9C