Inngangur ritstjóra að Hug 2011

Niður með náttúruna
nördum er því fremur ofaukið.
Hvern skyldi skyrmisferli gruna
er skimar yfir þvílíkt lið.

Niður með náttúruna
náinn hefur hún margfaldað.
Hennar ljóta lasta runa
er lengri en svo að verði tíundað.

Heimspekingar eru stundum spurðir álits á samtímaviðburðum, áhrifum þeirra og þýðingu. Merk­ustu viðburðirnir eiga það gjarnan sammerkt að þeim hafa verið gerð góð skil í sjónvarpi. Áhrif þeirra hafa jafnvel staðið í beinum tengslum við endursýningar þeirra. Sjónvarpið getur einnig sjálft framleitt atvik sem breyta sjónarhorni áhorfenda til frambúðar. Þarf þá ekki merka viðburði til. Dæmi um slíkt atvik eru játningar breska sjónvarpsmannsins Stephens Fry fyrir nokkrum misserum. Við gerð náttúrulífsþáttar sem hann hafði umsjón með varð hann fyrir því óláni að þurfa að sofa í tjaldi úti í guðsgrænni náttúrunni. Upplifun hans af þeirri raun sem hann taldi sig ganga í gegnum vegna þessa var slík að hún hafði varanleg áhrif á alla hugsun mína um mann og náttúru. Lýsing Frys á þeirri þolraun að þurfa að hlusta á brimgný Indlandshafsins á aðra hönd og „háværasta frumskóg heims“ á hina var að sönnu átakanleg. Honum varð svo mikið um að hann taldi upp „wife“ meðal þess sem hann saknaði mest þá stundina, þegar hann meinti augljóslega „Wi-Fi“.
    Sú skoðun að maðurinn standi andspænis náttúrunni og að sá hluti hennar sem búi innra með honum teljist vart til mennsku hans á sér býsna langa sögu innan vestrænnar heimspeki. Stund­um er þessari skoðun lýst sem „tvíhyggju“. Sú lýsing er svo sem ekki alltaf nákvæm. Tvíhyggja getur verið margs konar. Yfirleitt snýst hún þó um að eitthvað sem við kennum frekar við hugar­starfsemi (hugtök, huglægir eiginleikar, sálin) er talið eðlisólíkt því sem við sjáum í kringum (og raunar stundum á og í) okkur og kennum við „náttúruleg“ fyrirbæri. Vinsældir tvíhyggju hafa hins vegar farið þverrandi í heimspeki samtímans. Kenningar sem byggja á fjöleðli veruleikans og stífri flokkunaráráttu eiga í vök að verjast fyrir heildstæðari nálgunum. Heimspekin sjálf er þó verr haldin af tvíeðli en margar aðrar greinar. Innan fræðasamfélagsins reynir hún bæði að vera milda móðirin og ólátabelgurinn sem brýtur allar reglur. Hún reynir að kenna öðrum vísindum hvernig á að hugsa en um leið telur hún sig vera hafna yfir þröngar skorður fræðilegra hefða. Hún heldur utan um rammann og reynir um leið að komast út fyrir hann.
    Sigríður Þorgeirsdóttir hefur á undanförnum árum skapað sér nokkra sérstöðu meðal íslenskra heimspekinga með því að sameina öguð fræðileg vinnubrögð tilraunum til þess að spenna út mörk heimspekilegra rannsókna á nýstárlegan hátt. Í þessu hefti Hugar er birt áhuga­vert viðtal við Sigríði þar sem hún segir meðal annars frá því hversu undarlegt það sé að spyrja einhvern sem leggur stund á heimspeki hvað hann eða hún ætli sér að gera við heimspekina; nær væri að spyrja hvað heimspekin muni gera við viðkomandi. En eins og lesendur viðtalsins munu skjótt gera sér grein fyrir er Sigríður löngu orðin virkur þátttakandi í sambandinu milli hennar sjálfrar og þessarar fræðigreinar sem hún tók svo miklu ástfóstri við. Alþjóðlegi jafnréttis­skólinn GEST og Edda, öndvegissetur í gagnrýnum samtímarannsóknum, eru dæmi um nýjar víddir í rannsóknastarfi og kennslu við Háskóla Íslands og hefur Sigríður unnið mikilvægt og ómælt starf til þess að gera þær að veruleika. Ásamt þessu frumkvöðlastarfi hefur hún einnig birt fjölda greina og bókarkafla um heimspeki sem eftir hefur verið tekið á alþjóðlegum vettvangi. Það var því mikið gleðiefni að hún féllst á viðtalið sem Kristian Guttesen, meistaranemi í heimspeki, tók við hana á sumarmánuðum.
    Forveri minn í stól ritstjóra Hugar, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, segir frá því í inngangi sínum að 21. hefti tímaritsins að hún hafi í grunnnámi sínu við Háskóla Íslands aldrei setið tíma hjá kven­kyns kennara. Ég sat eina málstofu sem Sigríður kenndi undir lok náms míns við Háskóla Ís­lands. Vissulega voru það mikil viðbrigði að sitja tíma hjá kvenmanni, en mér er þó minnistæðast hversu sterk áhrif sérstök sýn Sigríðar á heimspekina hafði á mig. Málstofan nefndist „Heimspeki og/eða frumspeki“ og í henni lásum við Sygdommen til Døden eftir Kierkegaard og „Was ist Metaphysik?“ eftir Heidegger. Í tilefni af viðtalinu við Sigríði vildi ég birta íslenskar þýðingar þessara texta. Verk Kierkegaards er auðvitað töluvert að vöxtum og því læt ég duga að birta íslenska þýðingu á formála, inngangi og upphafi fyrsta kafla verksins, en ritgerð Heideggers er birt í heild sinni. Þýðing Magnúsar D. Baldurssonar á henni hefur lengi gengið manna á milli í handriti og er það sérstakt tilhlökkunarefni að geta loksins komið henni á prent með góðfúslegu leyfi Klostermann-útgáfunnar. Sjálfur er ég ákaflega þakklátur fyrir að hafa kynnst frumspekilegri sýn þessara tveggja heimspekinga áður en ég hélt út í framhaldsnám. Áhrif þeirra eru ekki bein í heimspekirannsóknum mínum, en það er geysilega mikilvægt að hafa tilfinningu fyrir því hvernig frumspekin er samofin grundvallargeðshræringum tilvistar okkar. Frumspekileg hugtök eins og „nauðsyn“ og „möguleiki“ byggja ekki einungis á röklegum grunni.
    Þema heftisins sameinar tvo þætti sem ég tengi hvað skýrast við heimspeki Sigríðar: frumspeki og náttúru. Þemað er sem sagt frumspekileg vídd náttúruhugtaksins. Á undanförnum árum hefur umræða um siðferðilega vídd hugtaksins loksins náð einhverju flugi á Íslandi. Þetta hefti er tilraun til þess að vekja annars konar umræðu þar sem náttúruhugtakið einskorðast ekki við hlutverk sitt sem einhvers konar samheiti við „umhverfi“. Hugtakið er margrætt og viðhorf okkar til náttúrunnar mótast af þessari margræðni ekki síður en þeirri birtingarmynd sem hún getur tekið á sig og er svo vel lýst í texta Megasar sem skreytir þessi inngangsorð. Á Hugvísindaþingi 2011 var haldin málstofa sem helguð var þemanu þar sem „náttúran öll og eðli manns“ voru rædd. Í málstofunni lagði ritstjóri til nokkrar hugmyndir sem hér koma saman sem inngangur að þemagreinunum. Þar koma fram efasemdir um að hægt sé að ræða um náttúru sem fyrirbæri sem standi andspænis manninum. Jafnvel í vísindabyltingu sautjándu aldar virðist sem fáir heimspekingar hafi raunverulega talið að natura eða eðli veruleikans sé eitthvað sem við upp­götvum og skilgreinum sem andstæðu hins mannlega.
    Greinarnar sem tilheyra þemanu spanna eins vítt svið og mögulegt var að vonast eftir. Björn Þorsteinsson ríður á vaðið með grein sem kryfur samband manns og náttúru í félagi við kunna grein Páls Skúlasonar „Hugleiðingar við Öskju“. Björn kallar einnig til liðs við sig ekki ómerkari hugsuði en Hegel, Lacan og Žižek til þess að takast á við spurninguna hvort náttúran þurfi að minna á vél þótt hún fylgi einhverjum reglum. Eyja Margrét Brynjarsdóttir kafar djúpt ofan í eðli verufræðinnar sjálfrar og spyr hvort aðferðir náttúru- eða tilraunavísinda eigi við innan greinar­innar. Styðst hún við tvö áhugaverð dæmi í rannsókn sinni. Margar siðfræðikenningar sem vísa til náttúrunnar byggja lauslega á hinu forna stóulögmáli um að maðurinn eigi að lifa í samræmi við náttúruna. Svavar Hrafn Svavarsson skrifar ítarlega grein um þetta lögmál og þær flóknu myndir sem siðfræði stóumanna tekur á sig. Róbert Jack ræðir í sinni grein aðra vídd náttúruhugtaksins eins og það tengist mannlegu eðli í heimspeki fornaldar þegar hann veltir upp áhugaverðri túlkun á svokölluðum „ástarstiga“ Platons. Róbert bendir á að sú leið sem stiginn táknar til æðstu náttúru mannsins byggi á svipaðri sýn til mannlegs þroska og finna má í sálfræði samtímans. Síðasta þemagreinin er ávöxtur samstarfs Sigríðar Þorgeirsdóttur og Guðbjargar R. Jóhannes­dóttur þar sem þær ræða fegurð náttúrunnar og náttúrulega fegurð á áleitinn hátt. Í grein sinni sýna þær fram á hvernig náttúrufegurð krefur okkur um að láta af þröngri sýn á einstaklingseðlið og opna okkur fyrir stund fegurðarinnar þegar skilin milli mannsins og náttúrunnar mást út.

Niður með náttúruna
Neðar neðst og dýpst
Þar sem öskrin djöfla duna
Og dásemd guðs aldrei þrífst

Niður með náttúruna
Nógu sé dýflyssandi hennar lægð
Fyrir goselda og gaddabruna
Grið fái hún engin né vægð

    Ef eitthvert eitt heimspekilegt hugtak hefur verið áberandi á árinu 2011 þá er það „gagnrýnin hugsun“. Tvær ráðstefnur hafa verið haldnar í Háskóla Íslands um gagnrýna hugsun og kennslu hennar og þrjár stofnanir innan Háskólans hafa nú tekið höndum saman og hrundið af stað verkefni sem snýr að eflingu kennslu í gagnrýninni hugsun og siðfræði á öllum skólastigum. Ein niðurstaða þeirrar vinnu er vefurinn www.gagnryninhugsun.hi.is, sem hefur vakið nokkra athygli undanfarið. Umræða um mikilvægi gagnrýninnar hugsunar hófst þó hvorki í ár né í kjölfar at­burðanna fyrir þremur árum. Í raun má segja að á Íslandi hafi myndast sérstök hefð um gagnrýna hugsun. Sú hefð hefur verið að þróast síðan Páll Skúlason ritaði greinina „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ á seinni hluta níunda áratugs síðustu aldar. Íslenska hefðin er sem sagt nokkuð frábrugðin því sem kennt er við Critical Thinking í enskumælandi löndum svo dæmi sé tekið. Þegar vísað er til „hefðar“ í þessu samhengi er auðvitað ekki verið að vísa til þess að íslenskir heimspekingar séu sammála um allt það sem viðkemur gagnrýninni hugsun. Ólafur Páll Jónsson passar vel inn í þessa íslensku hefð en hefur jafnframt skapað sér ákveðna sérstöðu í umræðunni. Í grein sinni „Hugsandi manneskjur“, sem er eina sjálfstæða heimspeki­ritgerðin sem birtist í þessu hefti sem tengist ekki þemanu, ræðir Ólafur Páll á skemmtilegan hátt hvernig gagnrýnin hugsun og kennsla hennar getur ekki aðeins snúist um óhlutbundnar reglur. Gagnrýnin hugsun, sú hugsun sem beinist að öllum hliðum hvers máls, verður einnig að byggja á þáttum sem felast í skynjun okkar og tilfinningalífi.
    Ólafur Páll hefði þó áreiðanlega haft sitt hvað fram að færa um þemað. Bók hans Náttúra, vald og verðmæti, sem kom út árið 2007, er eitt öflugasta innlegg í umræðuna um málefni náttúrunnar sem gefið hefur verið út á íslensku og er gott dæmi um hvernig umræðan um umhverfismál á Íslandi hefur þroskast á síðustu árum. Guðbjörg R. Jóhannesdóttir skrifar ritdóm um bókina en Guðbjörg hefur sjálf verið í fararbroddi þessarar umræðu. Nokkrir aðrir ritdómar birtast einnig í heftinu. Erla Karlsdóttir skrifar um eitt áhugaverðasta verkefni Sigríðar Þorgeirsdóttur á síðustu árum, verkið Birth, Death and Feminity. Philosophies of Embodiment, sem hún vann ásamt þeim Söru Heinämaa, Robin May Schott og Vigdis Songe-Møller. Egill Arnarson skrifar um greinasafn Jóns Ólafssonar Andóf, ágreiningur og áróður þar sem möguleikar heimspekinnar til þátttöku í umræðu samtímans eru greindir. Einnig eru birtir ritdómar um tvö nýleg verk sem Heimspeki­stofnun hefur gefið út. Róbert Jack fjallar um Tíma heimspekinnar í framhaldsskólum eftir Kristínu Hildi Sætran og Jakob Guðmundur Rúnarsson gagnrýnir Í sátt við óvissuna. Bók um efahyggju og heimspekilega þekkingarfræði eftir Atla Harðarson.
    Að lokum vill ritstjóri nefna nokkur atriði sem sitja í honum í kjölfar vinnunnar við heftið. Í fyrsta lagi má rifja upp þá augljósu staðreynd að Hugur er fræðitímarit. Slík tímarit byggja fyrst og fremst á tvennu: að fá fólk til að ritrýna og að fólk sætti sig við ritrýni. Mér er bæði ljúft og skylt að þakka því fólki sem tók að sér ritrýni fyrir þetta hefti fyrir þá ágætu vinnu sem það innti af hendi. Það er von mín að fræðimenn haldi áfram að taka að sér það vanþakkláta starf á komandi árum. Vönduð ritrýni er ein mikilvægasta forsenda fræðilegrar heimspekilegrar umræðu á Íslandi. Einnig þakka ég þeim höfundum sem eiga greinar í heftinu fyrir samstarfið. Hér var byrjað á að ræða þá þörf heimspekinnar að brjóta af sér hlekki greinarinnar. Ég vona að við getum öll verið sammála um að hvernig svo sem heimspeki mun þróast á næstu árum og áratugum þá muni krafan um að ritrýndar greinar í Hug innihaldi þaulhugsaðar, málefnalegar rökfærslur af heimspekilegum toga vera áfram í heiðri höfð.

Henry Alexander Henrysson