Tveir viðburðir

GAGNRÝNIN HUGSUN Í SKÓLASTARFI

Gamall arfur, nýjar áherslur, brýnt viðfangsefni

Föstudaginn 6. maí efna Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri og Menntavísindasvið Háskóla Íslands til ráðstefnu um gagnrýna hugsun í skólastarfi. Markmið ráðstefnunnar er að efla skilning á eðli gagnrýninnar hugsunar og ræða möguleika á að iðka hana og efla í skólastarfi á öllum skólastigum. Ráðstefnan verður haldin í Skriðu, húsi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Háteigsveg, föstudaginn 6. maí kl. 12–17.

Ráðstefnan er svar við kalli tímans um aukna áherslu á gagnrýna hugsun, siðfræði og lýðræði í öllu skólastarfi. Eftir hrunið haustið 2008 hefur mörgum orðið tíðrætt um mikilvægi þess að unnið sé markvisst og skipulega með gagnrýna hugsun í skólum landsins. Heimspekingar hafa lengi lagt áherslu á gagnrýna hugsun og búa að ríkulegri hefð sem rekja má til Sókratesar sem uppi var fyrir um 2500 árum. Þessi hefð hefur verið í sífelldri endurnýjun, nýlega hefur Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, fjallað um gagnrýna hugsun í aðal­námskrám grunn- og framhaldsskóla og segir þar m.a. að „gagnrýnin hugsun[sé] mikilvægasti lykillinn að þeirri bóklegu skynsemishefð sem skólar eru sprottnir úr. En gagnrýnin hugsun er líka einn af verðmætustu hæfileikum sem menn geta tileinkað sér í samfélagi nútímans, hún er hæfi­leiki sem nýtist á ólíkustu sviðum þjóðlífsins og sömuleiðis í umhugsun og ákvörðunum um eigið líf.“ (Hugur, 22. ár, 2010)

Á ráðstefnunni verður fjallað um eðli gagnrýninnar hugsunar, bæði þá færni og þekkingu sem hún byggir á og það hugarfar sem hún krefst, en einnig um ólíkar aðferðir og möguleika á að vinna með gagnrýna hugsun á vettvangi menntunar og tengsl gagnrýninnar hugsunar við siðferði og lýðræði.

D a g s k r á

12:10 – 12:30 Katrín Jakobsdóttir, Menntamálaráðherra, setur ráðstefnuna
12:30 – 13:00 Guðmundur Heiðar Frímannsson, Ríki gagnrýninnar hugsunar og skólar
13:00 – 13:30 Brynhildur Sigurðardóttir, Kennarar gagnrýna og heimspekingar kenna – eða var það öfugt?
13:30 – 14:00 Umræður um erindi Guðmundar Heiðars og Brynhildar
14:00 – 14:30 K a f f i h l é
14:30 – 15:00 Jón Ólafsson, Gagnrýnin hugsun og félagsleg vandamál
15:00 – 15:30 Elsa Haraldsdóttir, Þurfum við heimspeki við kennslu í gagnrýninni hugsun?
15:30 – 16:00 Ólafur Páll Jónsson, Hugsandi manneskjur
16:00 – 16:30 Umræður um erindi Jóns, Elsu og Ólafs Páls

300 ÁRA AFMÆLI DAVID HUME

Laugardaginn 7. maí verða 300 ár liðin frá fæðingu skoska heimspekingsins David Hume. Af því tilefni efnir Félag áhugamanna um heimspeki til sérstaks kaffisamsætis með heimspekilegu ívafi.

Gunnar Harðarson, Henry Alexander Henrysson og Njáll Björgvinsson munu þar reifa ólíka þætti í verkum Hume, s.s. þekkingarfræði, fagurfræði og stjórnspeki hans en hinni síðastnefndu hefur e.t.v. verið lítt sinnt í seinni tíð. Njáll mun aukinheldur greina þá
athöfn að drekka kaffi í ljósi kenningar Humes um smekkshugtakið.

Afmælið verður haldið þann 7. maí, sem fyrr segir, á Kaffi Haítí, Geirsgötu 7b. Það hefst kl. 10 og stendur væntanlega í eina og hálfa klukkustund.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.