Nú er Heimspekivefurinn kominn aftur á netið í umbúðum sem eru vonandi bæði aðgengilegar og smekklegar hvað varðar framsetningu og útlit, en yfirumsjón með uppsetningu hafði Sigurjón Ólafsson, vefstjóri Hugvísindasviðs. Ætlunin er að fara rólega af stað enda ótal atriði sem þarf að lagfæra og fínstilla og hefur Kristian Guttesen, vefstjóri Heimspekivefjarins, þegar unnið mikið starf. Kann ég honum bestu þakkir fyrir. Á næstu mánuðum er ætlunin að vefurinn verði kominn í sitt besta form þannig að hann verði reglulegur viðkomustaður á „netrúnti“ áhugamanna og atvinnufólks í heimspeki.
Víst er þó að Heimspekivefurinn hefur ekki verið og verður vart lesinn af mörgum. Hann þarf þó ekki að vera „fáséður“ eins og einhver lýsti honum. Það gildir væntanlega það sama um hann og aðra vefmiðla að birtingartíðni mun skipta miklu ef fólk á að hafa hann í huga þegar íslensk heimspeki er til umræðu. Efnið sem birtist hlýtur þó að skipta meiru máli en hversu oft nýtt efni ratar inn. Íslenskir heimspekingar eiga hér kost á umræðuvettvangi sem væri annars ekki til staðar. Vefsíða er ekki tímarit og því ekki náttúrulegt heimasvæði djúprar og efnismikillar umræðu. Heimspekilegar ritsmíðar eiga sér hins vegar margs konar birtingarform sem sum hver kalla hvorki á nákvæma ritrýni né langar rökfærslur og hafa þann helsta kost að eiga erindi við sem flesta. Heimspekivefurinn stendur þeim opinn.
Íslenskir heimspekingar eru því beðnir um að hjálpa til við að halda vefnum eins ferskum og áhugaverðum og mögulegt er með því að leggja til pistla, ritdóma, athugasemdir, ábendingar (ritfregnir og fréttir af málþingum) og stuttar ádrepur. Einnig er hugur í ritstjórn að birta sem flestar heimspekilegar greinar sem skrifaðar hafa verið fyrir almenna lesendur í margvísleg tímarit og blöð ef leyfi fæst fyrir endurbirtingu þeirra. Þannig hafa tvær nýlegar greinar úr Stúdentablaðinu nú verið birtar á Heimspekivefnum sem annars hefðu að öllum líkindum farið framhjá mörgu áhugafólki um heimspeki. Eru allar ábendingar um slíkar greinar vel þegnar.
Að lokum vil ég nefna að þegar eru margar góðar greinar komnar inn á vefinn. Ekki þarf alltaf að bíða eftir nýju efni til þess að heimsækja Heimspekivefinn!
Með von um ánægjulegt samstarf,
Henry Alexander Henrysson