Íslensk heimspeki – nokkur ártöl

1588 Þýðir Magnús Jónsson (1525–1591) nefndur hinn prúði, sýslumaður að Bæ á Rauða­sandi, Dílektík Fuchsbergers úr þýsku á íslensku.

1640 skrifar Brynjólfur Sveinsson (1605–1675) biskup í Skálholti, Skýringar við Rökræðulist Ramusar í Skálholtsskóla.

1687 lýkur Páll Björnsson (1621–1706), prestur í Selárdal, við uppbyggilegt siðfræðirit á íslensku sem hann nefnir Spegil þolinmæðinnar.

Nokkru seinna yrkir Guðmundur Bergþórsson (1657–1705) kvæðið Heimspekingaskóla eftir íslenskri þýðingu á danska ritinu Collegium Philosophorum sem gefið var út í Árósum árið 1636.

1747 og 1748 dispúterar Páll Bjarnason Vídalín (1728–1759) í heimspeki við Kaupmanna­hafnarháskóla og eru ritgerðir hans prentaðar.

1760 (?) eða þar um bil kennir Hálfdan Einarsson (1732–1785), skólameistari, frumspeki og siðfræði í Hólaskóla og styðst við kennslubækur byggðar á kerfi C. Wolffs.

1762 og 1766 dispúterar Skúli Þórðarson Thorlacius (1741–1815) í heimspeki við Kaupmanna­hafnarháskóla og eru ritgerðir hans prentaðar.

1780 (?) eða þar um bil kennir Hannes Finnsson (1739–1796), biskup, rökfræði, frumspeki og siðfræði í Skálholtsskóla og styðst einnig við kennslubækur byggðar á kerfi C. Wolffs.

1798 kemur út þýðing Jóns Þorlákssonar (1744–1819) á Bægisá á Tilraun um manninn, heim­spekilegu kvæði eftir Alexander Pope.

1842 sendir Björn Gunnlaugsson (1788–1876), stæðfræðikennari við Bessastaðaskóla, frá sér langt heimspekilegt kvæði er nefnist Njóla.

1848 hefur Hannes Árnason (1809–1879) að kenna heimspekileg forspjallsvísindivið Presta­skólann í Reykjavík.

1873 birtir Benedikt Gröndal (1826–1907) langa ritgerð um sögu heimspekinnar, Um það að vita, í tímariti sínu, Gefn.

1875 sendir Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi (1838–1914) frá sér langt heimspekilegt kvæði er nefnist Skuggsjá og ráðgáta.

1880 tekur Eiríkur Briem (1846–1929) við kennslu í heimspekilegum forspjallsvísindum við Prestaskólann.

1885 birtir Grímur Thomsen (1820–1896) fyrstu ritgerð sína um heimspeki í Tímariti hins ís­lenska bókmenntafélags.

1891 skrifar Arnljótur Ólafsson (1823–1904) ritgerð um rökfræði í Tímarit hins íslenska bók­menntafélags.

1897 gefur Eiríkur Briem út Hugsunarfræði (þ.e. rökfræði) til að nota við kennslu á Presta­skólanum.

1901 ljúka Ágúst H. Bjarnason (1875–1952) og Guðmundur Finnbogason (1873–1944) meistaraprófi í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla. Sama ár verður Ágúst fyrsti styrkþegi sjóðs Hannesar Árnasonar til eflingar heimspekilegum vísindum á Íslandi.

1904–1905 flytur Ágúst H. Bjarnason Hannesar Árnasonar fyrirlestra sína í Reykjavík. þeir eru gefnir út á bók á árunum 1905–1915 og nefnast Yfirlit yfir sögu mannsandans.

1907 hlýtur Guðmundur Finnbogason styrk Hannesar Árnasonar. Hann flytur Hannesar Árna­sonar fyrirlestra sína í Reykjavík veturinn 1910–1911.

1911 ljúka þeir Ágúst H. Bjarnason og Guðmundur Finnbogason doktorsprófi í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla. Sama ár tekur Ágúst við embætti prófessors í heimspekilegum forspjallsvísindum við hinn nýstofnaða Háskóla Íslands.

1912 gefur Guðmundur Finnbogason út Hannesar Árnasonar fyrirlestra sína undir heitinu Hugur og heimur. Sama ár kemur út Saga hugsunar minnar um sjálfan mig og tilveruna eftir Brynjúlf frá Minna-Núpi.

1915 hlýtur Sigurður Nordal (1886–1974) styrk Hannesar Árnasonar og flytur Hannesar Árnasonar fyrirlestra sína um Einlyndi og marglyndi við húsfylli í Bárubúð í Reykjavík veturinn 1918–1919.

1919 gefur Helgi Pjeturss (1872–1949) út rit sitt Nýal.

1920 hlýtur Björg C. Þorlákson (1874–1934) styrk Hannesar Árnasonar. Hún ver doktorsritgerð við Sorbonne-háskóla árið 1926 fyrst norrænna kvenna.

1940 flytur Sigurður Nordal útvarpserindi er nefnast Líf og dauði. Erindin vekja mikla athygli, verða tilefni ritdeilna og eru gefin út á prenti.

1948 tekur Símon Jóhannes Ágústsson (1904–1976) við embætti prófessors í heimspekilegum forspjallsvísindum við Háskóla Íslands.

1954 gefur Brynjólfur Bjarnason (1898–1989) út fyrsta rit sitt um heimspeki, Forn og ný vanda­mál.

1970 heldur Þorsteinn Gylfason (1942) Hannesar Árnasonar fyrirlestra sína í Reykjavík. Þeir koma út á bók undir heitinu Tilraun um manninn.

1970 byrja Lærdómsrit Bókmenntafélagsins að koma út og verða helsti farvegur þýðinga á sígildum heimspekiritum. Ritstjóri þeirra er Þorsteinn Gylfason.

1972 hefst nám í heimspeki sem sjálfstæðri grein til B.A.-prófs við Háskóla Íslands. Fyrstu kennarar eru Páll Skúlason og Þorsteinn Gylfason. Nokkru síðar bætast Arnór Hannibalsson og Mikael Karlsson í hópinn.

1975 tekur Páll Skúlason (1945) við embætti prófessors í heimspekilegum forspjallsvísindum við Háskóla Íslands.

1977 er Félag áhugamanna um heimspeki stofnað af nokkrum nemendum við Háskóla Íslands. Fyrsti formaður þess er Ingimar Ingimarsson.

1988 kemur fyrsta hefti af heimspekitímaritinu Hugur út á vegum Félags áhugamanna um heim­speki. Fyrsti ritstjóri þess er Jörundur Guðmundsson.

1997 verður Sigríður Þorgeirsdóttir fyrsta konan sem gegnir starfi háskólakennara í heimspeki

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *