Guðmundur Finnbogason

Guðmundur Finnbogason (1873–1944) heimspekingur og prófessor við H.Í.

Fæddur 6. júní 1873 að Arnarstapa í Ljósavatnsskarði, Þingeyjarsýslu, sonur Finnboga Finnbogasonar og Guðrúnar Jónsdóttur. Stúdent 1896, lauk forprófi í heimspeki í Kh. 1897 og meistaraprófi í heimspeki (mag. art.) 1901. Undirbjó fræðslulöggjöf á Íslandi 1901–1905. Hlaut styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar 1908 og dvaldist aðallega í París. Doktorspróf í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla 1911 með ritgerð um samúðarskilning. Prófessor í hagnýtri sálarfræði við H.Í. 1918–1924, Landsbókavörður 1924–1943. Lést 1944.

Samkvæmt Guðmundi á heimspekin að veita útsýn yfir tilveruna og getur fjallað um hvað sem er út frá því sjónarhorni. Persónuleg tök og greining heimspekingingsins á viðfangsefninu er þá það sem mestu skiptir. Guðmundur ritaði ókjör af greinum og bókum. Í meginriti sínu, Hugur og heimur, fjallar hann um samúðarskilning milli manna út frá andstæðu umheims og hugarheims, vísinda og vitundar og leitast við að sýna hvernig sálarlíf manna birtist í látæði þeirra. Guðmundur þýddi fjölmargar greinar um heimspeki, m.a. eftir Henri Bergson og William James.

Helstu rit: Lýðmenntun (1903), Den sympatiske forstaaelse (1911), L’intelligence sympatique (1913), Hugur og heimur (1912), Frá sjónarheimi (1918), Huganir(1943).

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *