Björg C. Þorláksson

Björg C. Þorlákson (1874–1934). Málfræðingur, heimspekingur, lífeðlisfræðingur og rithöfundur.

Fædd 30. jan. 1874 að Vesturhópshólum, Húnavatnssýslu, dóttir Þorláks Þorlákssonar og Margrétar Jónsdóttur. Gekk á kvennaskóla á Ytri-Ey á Skagaströnd og kenndi þar 1894, en hélt til frekara náms í Kaupmannahöfn 1897 og lauk stúdentsprófi þar 1901. Árið 1902 lauk hún forpróf í heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla, en 1903 giftist hún Sigfúsi Blöndal, hætti þá námi en átti mikinn þátt í orðabók þeirri sem við hann er kennd. Árið 1920 hlaut hún styrk úr sjóði Hannesar Árnasonar til frekara náms í heimspeki, flutti Hannesar Árnasonar fyrirlestra sína 1923–1924 og urðu þeir uppistaðan í doktorsritgerð hennar en hún lauk doktorsprófi frá Sorbonne-háskóla, fyrst norrænna kvenna, 17. júní 1926 (Le fondement physiologique des instincts, París, 1926). Sinnti einkum ritstörfum, rannsóknum og kennslu, gaf út allmargar greinar og þýðingar, og lét til sín taka í kvenréttindamálum. Lést 25. febrúar 1934.

Rannsóknir hennar þróuðust frá heimspekilegri sálarfræði yfir í lífeðlisfræði, þar sem hún fékkst við spurninguna um líkamlegan grundvöll andlegra eiginleika. Einkum er umfjöllun hennar um samúðarhugtakið frumleg og áhugaverð frá heimspekilegu sjónarmiði.

Nokkur önnur rit: Erindi um mentamál kvenna (1925), Svefn og draumar (1926), „Hvað er dauðinn?“ (Skírnir, 1914), „Samþróun líkama og sálar“ (Skírnir, 1928), „Undirrót og eðli ástarinnar“ (Skírnir, 1933).

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *