Hannes Árnason

Hannes Árnason (1812–1879), prestur og heimspekingur, kennari við Prestaskólann í Reykjavík.

Fæddur 11. október 1812 að Belgsholti í Melasveit, Borgarfjarðarsýslu. Stúdent frá Bessastaðaskóla 1837 og lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1847. Settur kennari í heimspekilegum forspjallsvísindum við Prestaskólann í Reykjavík 27. september 1848 og kenndi þar uns hann fékk lausn frá starfi, 26. september 1876. Lést þremur árum síðar, 1. desember 1879.

Hannes var fyrsti kennari í heimspekilegum forspjallsvísindum á Íslandi. Fyrirlestra sína byggði hann að nokkru leyti á ritum kennara síns, F. C. Sibbern, prófessors í heimspeki við háskólann í Kaupmannahöfn.

Auk þess er hans minnst fyrir hinn rausnarlega styrktarsjóð sinn sem hann stofnaði 15. ágúst 1878. Sjóðurinn var veittur sjötta hvert ár og stóð undir framfærslu styrkþegans í fjóra vetur, þrjá vetur við nám erlendis en fjórða árið átti styrkþegi að flytja fyrirlestra um efni sitt í Reykjavík. Mörg merkustu heimspekirit íslensk á fyrri hluta 20. aldar voru upphaflega til komin sem Hannesar Árnasonar fyrirlestrar (t.d. Saga mannsandans eftir Ágúst H. Bjarnason, Hugur og heimur eftur Guðmund Finnbogason og Einlyndi og marglyndi eftir Sigurð Nordal). Sjóðurinn brann upp á tímum óðaverðbólgu.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *