1.gr.
Heiti félagsins er Félag áhugamanna um heimspeki. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2.gr.
Markmið félagsins er að efla kynni áhugamanna um heimspeki, og að vera vettvangur umræðna um heimspekileg efni.
Markmiði þessu hyggst félagið ná með því m.a. að:
Beita sér fyrir erindum um efni tengd heimspeki, og umræðum félagsmanna um þau.
Beita sér fyrir því að haldin verði málþing um heimspekileg efni, með þátttöku erlendra gesta.
Gefa út fræðilegt, ritrýnt tímarit og standa að annarri útgáfu og miðlun á efni um heimspekileg málefni.
3.gr.
Félagsmenn geta allir áhugamenn um heimspeki orðið, enda greiði þeir tilskilin félagsgjöld, sem ákveðin eru á aðalfundi félagsins. Aðild að félaginu jafngildir áskrift að tímaritinu.
Heiðursfélaga má kjósa á aðalfundi eftir einróma tillögu stjórnar. Heiðursfélagi skal hafa stuðlað að heimspekilegum málefnum á Íslandi um árabil. Aðeins má kjósa einn heiðursfélaga í senn með þriggja ára millibili. Heiðursfélagar greiða ekki félagsgjöld, en hafa sömu réttindi og aðrir félagsmenn.
4.gr.
Starfsár félagsins er frá 1. júní til 31. maí. Fjárhagsári félagsins lýkur tveimur vikum fyrir lögboðinn aðalfund.
5.gr.
Félagsstjórn skal skipuð fimm félagsmönnum. Formaður stjórnar er kosinn beinni kosningu á aðalfundi félagsins. Aðrir stjórnarmenn eru einnig kosnir beinni kosningu á aðalfundi en stjórn skiptir með sér verkum ritara, gjaldkera, varaformanns og meðstjórnenda á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Allir stjórnarmenn eru kosnir til eins árs í senn.
Stjórnin ræður félagsmálum milli funda og skuldbindur félagið fyrir þess hönd. Hún boðar félagsfundi, aðalfund, heldur félagatal, sér um skipulagningu umræðufunda og hrindir í framkvæmd þeim málefnum, sem félagsfundir ákveða hverju sinni.
Stjórninni er heimilt að skipa í starfshópa til þess að vinna að sérstökum málefnum, þar á meðal ritnefnd tímarits félagsins.
Stjórnin ræður ritstjóra tímarits félagsins til eins árs í senn og semur við hann um ritstjórnarlaun.
6.gr.
Í öllum störfum félagsins, svo sem við stjórnarkjör, skipun í starfshópa og trúnaðarstöður á vegum félagsins (þ.m.t. ráðningu ritstjóra), útgáfu og miðlun, skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum í sem víðustum skilningi.
7.gr.
Stjórnin kveður til félagsfundar til að ræða málefni félagsins, ef nauðsyn ber til, og skulu þeir boðaðir með tveggja vikna fyrirvara. Skal fundarefnis getið í fundarboði.
Þriðjungur félagsmanna getur skriflega krafist þess að slíkur fundur verði haldinn.
Félagsfundur er lögmætur, er löglega er til hans boðað.
8.gr.
Aðalfundur Félags áhugamanna um heimspeki fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda árlega undir lok starfsárs sbr. 4.gr.
Aðalfund skal boða með tveggja vikna fyrirvara. Er hann lögmætur, ef löglega er til hans boðað. Skal dagskrá fundarins vera þessi:
- Skýrsla stjórnar
- Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
- Félagsgjald ákveðið.
- Lagabreytingar.
- Fundarsamþykktir.
- Kosning stjórnarmanna sbr. 5.gr.
- Kosning tveggja endurskoðenda.
- Umræður um næsta starfsár.
- Önnur mál.
Formaður stjórnar fundinum, eða kjörinn fundarstjóri í fjarveru hans. Ritari stjórnar heldur fundargerð eða kjörinn fundarritari í fjarveru hans.
9.gr.
Til lögmætra fundarsamþykkta nægir einfaldur meirihluti atkvæða á lögmætum félagsfundum og aðalfundi.
Fundarsamþykktum og lögum félagsins verður þó aðeins breytt á aðalfundi með atkvæði 2/3 þeirra er hann sækja. Sama gildir um félagsslit.
Samþykkt á stofnfundi félagsins 16. október 1976; með breytingum samþykktum á aðalfundi 8. maí 1977, og á aðalfundi 28. maí 1978; með breytingum staðfestum á aðalfundi 28. maí 1993; með breytingum samþykktum á aðalfundi 16. október 2003, og samþykktum breytingum á aðalfundi 3. nóvember 2012, og á aðalfundi 24. maí 2014.