Ég lít á mig sjálfan og ég lít á okkur sjálf sem andlegar, efnislegar, líkamlegar verur í senn, óaðgreinanlegar í þeirri merkingu að ég get ekki skilið hugann, hugmyndirnar eða hugsanirnar frá líkamanum. Ég er minn eigin líkami um leið og ég er þessi hugsandi vera í líkama mínum.[1]
Í þessum orðum Páls Skúlasonar vefjast saman tveir meginþræðir Hugar 2015: hugsun Páls og hugsun um líkamann, og í líkamanum. Á árinu kvöddum við með mikilli eftirsjá líkama Páls Skúlasonar, eins áhrifamesta og eftirminnilegasta heimspekings Íslandssögunnar. En hugsun hans lifir að eilífu. Rétt eins og hugsun hans líkamnaðist í öllum hans athöfnum á meðan hann lifði, heldur hún áfram að líkamnast í öllum þeim orðum sem hann gaf okkur. Þau fjölmörgu verk sem eftir hann liggja munu halda hugsun hans lifandi í gegnum samræður okkar og komandi kynslóða við þessi verk. Páll tók mjög vel í þá ósk mína að fá að birta viðtal við hann í Hug og er það enn eitt dæmið um hversu gjafmildur hann var á hugsun sína, og óþreytandi allt fram á síðasta dag við að deila henni með öðrum. Ég er honum, fjölskyldu hans, og Jóni Ásgeiri Kalmanssyni óendanlega þakklát fyrir að hafa gert viðtalið sem birtist hér að veruleika þrátt fyrir erfiðar kringumstæður. Þakkir fá einnig Vilhjálmur Árnason fyrir að deila með okkur minningarorðum sínum um Pál og þau Ólafur Páll Jónsson, Róbert Jack og Bára Huld Beck fyrir umfjallanir sínar um þrjár af þeim bókum sem Páll gaf út á síðustu árum. Það efni sem hér birtist og er tileinkað Páli, ásamt fyrirhugaðri ráðstefnu um heimspeki hans vorið 2016, er í mínum huga mikilvægt skref í því verkefni komandi kynslóða að halda áfram að vinna úr óþrjótandi brunni frjórrar hugsunar Páls.
Eins og kemur fram í tilvitnuninni hér að ofan, var staða okkar sem líkamlegar verur, ekki síður en andlegar og efnislegar verur, Páli hugleikin, enda var hugsun hans undir sterkum áhrifum fyrirbærafræðinnar, þeirrar greinar heimspekinnar sem hefur beint athygli sinni hvað mest að líkamanum. Fyrirbærafræðin er vaxandi fræðigrein hér á landi eins og annars staðar á Norðurlöndunum og þýðing Steinars Arnar Atlasonar og Egils Arnarsonar á kafla úr Fyrirbærafræði skynjunarinnar eftir Maurice Merleau-Ponty sem hér birtist styður við þann vöxt. Áður hefur þýðing á formála sömu bókar birst í Hug og vonandi verður þýðing á bókinni í heild sinni að veruleika í náinni framtíð.
Þennan þráð fyrirbærafræðilegrar hugsunar um líkamann heldur Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson áfram að rekja í annarri af tveimur þemagreinum heftisins, „Líkamlegar hugverur: Líkaminn og líkamleiki í fyrirbærafræði Edmunds Husserl.“ Í greininni bregst Gústav við þeirri hugmynd að fyrirbærafræði Husserls hafi einkennst af hughyggju þar sem líkaminn átti sér ekki stað, með því að sýna fram á hvernig líkaminn birtist þvert á móti í lykilhlutverki í hugsun Husserls sem grundvöllur hinnar hreinu meðvitundar. Seinni þemagrein heftisins er eftir Sigríði Þorgeirsdóttur, sem er án efa sá íslenski heimspekingur sem mest hefur beint sjónum sínum að líkamleika okkar. Í greininni „Heimspeki líkamans og heimspeki í líkamanum og hvers vegna hugsun er ekki kynlaus“ hugsar hún ekki bara um líkamann og hvernig líkamleiki okkar mótar aðstæður okkar og tengsl við veruleikann, heldur beinir hún einnig athyglinni að því hvernig hugsunin býr í líkamanum og hvaða áhrif viðurkenning þess getur haft á heimspekiiðkun.
Þær þrjár greinar sem birtast hér en falla utan meginþema Hugar tengjast þó allar þemanu „líkaminn“ á óbeinan hátt. Segja má að auk þess myndi þær í sameiningu eins konar ófyrirséð and-þema, sem eru skynsemin, efinn og gagnrýnin; nátengd hugtök sem í heimspekisögunni hefur alltof oft verið stillt upp sem athöfnum hugar sem sé aðskilinn frá líkamanum á sama tíma og þeim hefur verið stillt upp sem kjarna allrar heimspekiiðkunar. Áhugavert verður því að heyra hvernig lesendur túlka efni þessara greina í samhengi við þemagreinarnar tvær á undan.
Greinin „Efi, skynsemi og kartesísk endurhæfing“ eftir Mikael M. Karlsson birtist upphaflega á ensku í ritsafninu Descartes: Critical and Interpretive Essays, en birtist hér í íslenskri þýðingu Gunnars Harðarsonar. Í greininni skýrir Mikael frá túlkun sinni á hinni kartesísku aðferð sem endurhæfingaraðferð til þess að eyða fordómum og bæta skynsemina. Ég læt lesendum Hugar eftir að rýna í hvernig eða hvort slík kartesísk endurhæfing kallast á við hina husserlsku aðferð frestunar og afturfærslu sem er til umfjöllunar í áðurnefndri grein um fyrirbærafræði Husserls.
Atli Harðarson gefur lesendum frekari tækifæri til að hugleiða hlutverk skynseminnar í hugsun okkar og athöfnum með ítarlegri greiningu sinni á því undir hvaða skilyrðum við getum sagst hafa skynsamlega sjálfsstjórn á hugsun okkar og gjörðum, en í greininni bregst hann m.a. við skrifum Richards Holtons um sjálfsstjórn. Þó grein hans „Skynsamleg sjálfsstjórn“ hafi ekki verið skrifuð sérstaklega út frá þemanu „líkami“ má þar þó finna athyglisverðar tengingar við þemað, t.a.m. í vísun Atla í fræðimennina Annemarie Kalis, Andreas Mojzisch, Sophie Schweizer og Stefan Kaiser sem í viðleitni sinni til að skilja hugsun okkar og hegðun beita heimspekilegri greiningu samhliða þekkingu úr líffræði, læknisfræði og sálfræði.
Grein Nönnu Hlínar Halldórsdóttur, „„Gagnrýnin hugsun“ í gæsalöppum: Að gagnrýna, hlusta og rökræða en fastsetja ekki „gagnrýna hugsun“ í flokk“, snertir í raun á báðum þemum Hugar: hugsun um Pál og hugsun um líkamann, þó hvorugt þemað sé meginviðfangsefni greinarinnar. Nanna notar fræga spurningu Páls: „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ sem upphafspunkt spurningar sinnar um hvort og hvernig gagnrýna megi kennda hugsun, sem hún svo rýnir nánar í, m.a. í gegnum hugleiðingar um gagnrýnin fræði Judithar Butler. Skýra tengingu við líkamsþemað má finna í áminningu Nönnu um að veita því athygli í hvaða samhengi sem manneskjur í samfélagi við aðrar manneskjur við beitum gagnrýnni hugsun, m.ö.o. hvetur hún okkur til að taka „líkamleika gagnrýninnar hugsunar“ inn í myndina.
Mikil gróska hefur verið í útgáfu íslenskra heimspekibóka undanfarið, og því er úr miklu efni að moða þegar kemur að því að stuðla að birtingu umfjallana og ritdóma um íslenskar heimspekibækur, en segja má að því verkefni hafi ekki verið sinnt nægilega vel undanfarin ár, miðað við þann fjölda bóka sem hafa komið út. Að þessu sinni birtast í Hug fimm umfjallanir um nýútkomnar bækur. Eins og áður kom fram birtast hér umfjallanir um þrjár af þeim bókum Páls Skúlasonar sem hann sendi frá sér á síðustu árum. Róbert Jack fjallar um Hugsunin stjórnar heiminum, Ólafur Páll Jónsson fjallar um Háskólapælingar, og Bára Huld Beck fjallar um Náttúrupælingar. Auk þess birtast hér umfjöllun Jakobs Guðmundar Rúnarssonar um bókina Inquring into contemporary Icelandic philosophy (ritstjóri Gabriel Malenfant), og umfjöllun Valgerðar Pálmadóttur um Dagbók 2016: Árið með heimspekingum (ritstjórar og höfundar Erla Karlsdóttir, Eyja M. Brynjarsdóttir, Nanna H. Halldórsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir).
Það hefur verið mér ákaflega lærdómsríkt ferli að taka að mér ritstjórn Hugar og vil ég þakka öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg innilega fyrir hjálpina. Sérstakar þakkir fær þó forveri minn, Jóhannes Dagsson, fyrir að vera einstaklega hjálpsamur og gjafmildur á góð ráð. Sérstakar þakkir fær einnig Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson fyrir umsjón með umbroti og lokafrágangi þessarar útgáfu.
Neðanmálsgrein
[1] Viðtal Jóns Á. Kalmanssonar við Pál Skúlason, bls. 17