Inngangur ritstjóra að Hug 2014

Sú mynd er gjarnan dregin upp af heimspekingnum að hann sé utan við sig og utan við raunveruleikann að mestu leyti, en fáist í staðinn við ójarðtengda hluti sem svífa einhvernveginn ofan og utan alls sem skiptir máli. Þessi utan við sig og auðnulausi einstaklingur segir svo eitthvað gáfulegt öðru hvoru, sem jafnvel er hægt að hafa eftir á tyllidögum, en hefur ekki raunveruleg áhrif á eitt né neitt, enda er það ekki hans hlutverk. Fag hans er lítt skiljanlegar hugleiðingar um enn torskildari efni, og engan kraft og ekkert afl til að breyta einu né neinu að finna þar. Þetta er vissulega skrumskæld mynd úr suðupotti menningarinnar og samsvarandi ýkjur til um hvaða stétt sem er, en ég dreg hana hér upp af því að mér þykir merkileg sú mynd sem hér er gefin af tengslum heimspeki og veruleika.
     Þema Hugar að þessu sinni, beinir sjónum að heimspeki sem vill taka beinan þátt í raunveruleikanum, hafa bein áhrif á gjörðir fólks og er óhrædd við að greina vandamál dagsins í dag með aðferðum heimspekinnar. Hagnýtt siðfræði er tilraun heimspekinnar til að beita aðferðum, kenningum og hugtökum siðfræðinnar á raunveruleg vandamál með það að markmiði að leysa þau, eða hjálpa til við að leysa þau.
     Mjög einfaldað dæmi um það hvernig þetta ætti að fara fram væri af einstaklingi sem stendur frammi fyrir því að þurfa að velja milli tveggja kosta sem hafa hvor um sig ákveðnar siðferðilegar afleiðingar. Einstaklingurinn leitar á náðir ákveðinnar kenningar innan siðfræðinnar til að átta sig betur á því hvaða siðferðilega gildi breytni hans myndi myndi raunverulega hafa, og jafnframt til að glöggva sig á því hvað væri réttara að gera. Eftir að hafa komist að niðurstöðu breytir einstaklingurinn eins og kenningin segir til um, og það tryggir, eða gerir í það minnsta mjög líklegt, að breytnin sé siðferðilega rétt. Því miður gengur þetta sjaldan eða aldrei svona einfaldlega fyrir sig í raun og veru. Eins og Vilhjálmur Árnason og Henry Alexander Henrysson fjalla báðir um í greinum sínum, eru ákveðin vandkvæði á því að beita siðferðilegum kenningum þegar kemur að siðferðilegri breytni, eða því að leysa tiltekin vandamál.
     Vilhjálmur greinir milli þriggja aðferða við greiningu siðfræðilegra viðfangsefna: beitingar kennisetninga (dæmið hér að ofan félli undir þessa nálgun), aðstæðugreiningar og ígrundaðra siðadóma. VIlhjálmur bendir á að það sé sama hvaða aðferð verði fyrir valinu, alltaf mæta okkur mjög alvarlegir annmarkar á aðferðinni. Þessi greining Vilhjálms verður honum ástæða til þess að beina sjónum að lífsiðfræði sem slíkri, það er, fræðilegu og praktísku samhengi greinarinnar í heild sinni. Vilhjámur telur að annmarkar sem aðferðirnar eiga sameiginlega bendi til þess að lífsiðfræðin þurfi að víkka sjónarhorn sitt, og fræðimenn á sviðinu hafi orðið of nærsýnir ef svo má að orði komast.
     Henry Alexander kemst að svipaðri niðurstöðu, þó að leið hans þangað liggi um svolítið aðrar veiðilendur. Grein hans er tilraun til að beita ákveðinni nálgun við siðferðilega greiningu. Viðfangsefnið er skotveiðar á spendýrum. Nálgun Henrys einkennist af greiningu á rökum og röksemdafærslum sem finna má í orðræðu og viðhorfum ólíkra aðila til viðfangsefnisins. Líkt og Vilhjálmur kemst Henry að þeirri niðurstöðu að samband hagnýttrar siðfræði og siðfræðikenninga geti verið vandkvæðum bundið, og að hagnýtt siðfræði verði að hafa vítt sjónarhorn, og megi ekki festast í eigin orðaforða eða eigin hugtakanotkun.
     Svavar Hrafn Svavarsson nálgast þetta sama efni frá öðru sjónarhorni. Grein hans um hagnýtta siðfræði og fornöldina hverfist um gjána á milli ástundunar heimspeki annarsvegar og lífsins eða heimsins hinsvegar. Í fornöld var ekki um neina slíka gjá að ræða, þar sem það var náttúrulegur hluti þess að aðhyllast (eða stunda) ákveðna heimspekistefnu að lifa hana, og siðfræði var því í raun öll hagnýtt siðfræði. Þessu er ekki svona farið í dag. Í dag er ákveðin gjá milli siðfræðikenninga og þess lífs sem þær hafa að viðfangsefni, og hagnýtt siðfræði er einmitt tilraun til að brúa þessa gjá. Það er ekki þannig að við getum horfið aftur til sama ástands og var í Grikklandi til forna, til þess er raunveruleiki samtímans of frábrugðinn raunveruleika þess tíma. Umfjöllun Svavars um gjána á milli siðfræði eða heimspeki annarsvegar og lífsins hinsvegar rímar mjög vel við niðurstöður þeirra Vilhjálms og Henrys er lúta að hnökrum á tengslum kenningar og veruleika, og að nærsýni heimspekinnar.
     Eitt af því sem grein Svavars vekur mann til umhugsunar um, er það hverslags einstaklinga siðfræðikenningar eiga að ná til? Hver er mannskilningur siðfræðikenninga? Eða hver eru tengsl kennisetningar og lífs (sem virðist um margt vera sama spurningin)? Þó að umfjöllunarefnið sé í raun annað, ganga spurningar um það hvernig hugmyndir um einstaklinginn samrímist ákveðnum siðfræðikenningum eins og rauður þráður í gegnum grein Gústavs Adolfs Bergmanns Sigurbjörnssonar. Því hefur oft verði haldið fram um ólíkar kenningar innan siðfræðinnar að þær séu ágætar sem slíkar en eigi einfaldlega ekki við einstaklinga af holdi og blóði. Umhyggjusiðfræðin er í ákveðnum skilningi tilraun til að búa til siðfræði þar sem einstaklingurinn sem tengslavera, og sem þátttakandi í tilfinningalegum samböndum, er í forgrunni. Hvaða skilning eigi að leggja í umhyggjuhugtakið, og hvar eigi að staðsetja það gagnvart öðrum hugtökum í siðfræðilegum kenningum, er hinsvegar ekki einfalt mál.
     Ein forsenda þess að geta fjallað um siðferðileg álitamál, og kosti eða galla ákveðinna kenninga innan siðfræðinnar, er að hafa mynd af því landslagi sem kenningar og hugtök spretta uppúr og eiga rætur í. Grein Sigurjóns Árna gefur greinargóða mynd af ákveðnum hluta landslagsins, það er, þeim hluta sem inniheldur femínískar kenningar. Það er þó aðeins nokkurskonar aukaafurð; greinin er tilraun til þess að skýra og varpa ljósi á tengsl milli þessara kenninga og kenninga innan guðfræði samtímans.
     Hagnýting siðfræði hefur alltaf verið tengd heilbrigðisvísindum sterkum böndum. Heilbrigðisvísindi samtímans kalla á úrlausnir á siðferðilegum álitamálum og þær úrlausnir koma oftar en ekki úr ranni hagnýttrar siðfræði. Í grein sinni „„Nýmenni“ eða mörk mennskunnar“ fjallar Salvör Nordal um siðferðilegar spurningar sem vakna í tengslum við taugaeflingu. Þær leiðir sem við höfum til að hafa áhrif á starfsemi heila og miðtaugakerfis eru sífellt að verða fleiri og áhrifameiri. Sá möguleiki að heilbrigðir einstaklingar noti þessi úrræði til að öðlast betri getu eða einhverskonar forskot á aðra í samfélaginu vekur upp nýjar og um margt óvenjulegar siðferðilegar spurningar. Hér er að koma fram ný tækni sem kallar á nýjar úrlausnir á siðferilegum álitamálum og er mjög áhugavert að sjá hagnýtta siðfræði fást við þær.
     Eitt af lykilhugtökum siðfræðinnar er „réttlæti“. Grein Ólafs Páls Jónssonar hefur að viðfangsefni að útskýra hvernig þetta hugtak, í þeirri merkingu sem það fær á sig innan siðfræðinnar, á við um börn. Eitt af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í siðferðilegri umræðu er að siðferðilegir dómar eiga ekki eingöngu við um sjálfráða einstaklinga, heldur einnig einstaklinga sem eru ósjálfráða og við viljum geta gert grein fyrir stöðu þessara einstaklinga innan siðferðlegrar umræðu. Ólafur Páll fæst hér við að útfæra hugtakið um réttlæti þannig að skynsamlegt og skiljanlegt sé hvernig það á við um siðferðilegan rétt barna.
     Eins og sjá má af þessari stuttu umfjöllun er mikið og fjölbreytt líf í kringum hagnýtta siðfræði á Íslandi. Það er vel. Það er nauðsynlegt að umræða sem þessi haldi áfram, haldi áfram á íslensku, og haldi áfram í nánu samtali milli ólíkra greina. Það er ekki einkamál siðfræðinga að greina eða fást við siðferðileg álitamál, en einhverskonar samtal milli þeirra og fulltrúa annarra greina er trúlega besta aðferðin til að halda við heilbrigðri orðræðu innan hagnýttrar siðfræði.
     Eins og fram kemur í pistli frá stjórn Félags áhugamanna um heimspeki aftast í heftinu var Gunnar Ragnarsson gerður að heiðursfélaga á aðalfundi félagsins í maí 2014. Af því tilefni er Gunnari og hugðarefnum hans gerð nokkur skil í þessum árgangi Hugar. Þar ber fyrst að nefna að í viðtalinu sem prýðir þennan árgang spjallar Ólafur Páll Jónsson við Gunnar og ber margt á góma, allt frá sjóróðrum til Johns Dewey. Viðtalið skýrir sig sjálft og ég hef ekki miklu þar við að bæta, nema að benda á að á eftir viðtalinu er birt grein um einn af helstu áhrifavöldum Gunnars, breska heimspekinginn John Macmurray. Macmurray er ekki vel þekktur á Íslandi en er áhugaverður hugsuður og því fengur að umjöllun um hann á íslensku.
     Gunnar Ragnarsson hefur lagt heimspeki á íslensku ómetanlegt lið með þýðingum sínum. Það er því við hæfi að hér birtist ein til; þýðing hans á viðureign Stephens Law við siðfræði Immanuel Kants. Þýðingin er skýr, einföld og laus við allt prjál, helstu kostir sem heimspekilegur texti getur haft til að bera.
     Aðrar þýðingar í Hug þetta árið eru ekki af verri endanum. Þýðingar á tveimur textum Heideggers hljóta að teljast til tíðinda og ekki síður þýðing á viðtali við einn af áhrifameiri heimspekingum samtímans, Luce Irigaray. Þýðing á hluta af verki Berardi, The Uprising, undir titlinum „Sjálfvæðing tungumálsins“ veitir kærkominn aðgang að róttækri hugsun sem er ennþá ný og fersk og ávarpar mörg af helstu úrlausnarefnum samtímans algerlega milliliðalaust.
     Marteinn Sindri Jónsson fæst við sjálfan tímann og hugmyndir okkar um hann í síðkapitalískum samfélögum, og sér til fulltingis, hefur hann Walter Benjamin, Henri Bergson, Constantin Constantinus og fleiri góða menn og konur. Greining á hugmyndum ólíkra hugsuða um trúarbrögð, gerð þeirra og uppruna, verður hráefni í hugmyndir um tímann, endurtekninguna og kraftbirtingu pepsídósarinnar.
     Það er sérstök ánægja að í Hug sé að finna grein eftir Pál Skúlason. „Náttúran í andlegum skilningi“ er góð viðbót við og áhugaverð framþróun á hugmyndum sem Páll setti fram í Hugleiðingum við Öskju. Samband okkar við jörðina sem við búum á hefur alltaf verið mikilvægt viðfangsefni, kannski ekki alltaf heimspekinga, heldur trúarbragða og bókmennta. Það má hinsvegar færa fyrir því góð rök að þetta samband hafi öðlast enn meira mikilvægi í ljósi þeirrar náttúruvár sem blasir við mannkyni ef ekkert verður að gert. Frekari skilningur á því hvað felst í því að hugtaka náttúruna er úrlausnarefni sem heimspekin verður að taka að sér að leysa. Grein Páls er þarft innlegg í umræðu sem á að eiga sér stað innan greinarinnar.
     Það hefur verið mjög lærdómsríkt að vera ritstjóri Hugar. Það er allt annað en einfalt að halda úti jafn metnaðarfullu tímariti og Hugur er. Ég vona að mér hafi tekist að halda uppi merkjum þessi tvö ár sem mér var falið þetta trúnaðarstarf. Hugur verður ekki að veruleika á hverju ári nema vegna þess að hópur fólks gefur vinnu sína og er tilbúið að hjálpa til. Án þessara einstaklinga væri ekki hægt gefa út Hug í því formi sem hann er í. Höfundar efnis, þýðendur, ritrýnar, stjórn félags áhugamanna um heimspeki og ritnefnd Hugar, þetta eru þeir sem í raun og veru gera þetta mögulegt. Þessu fólki eru því hér með færðar sérstakar þakkir.
     Ef ég ætti að velja eitt hugtak til að lýsa efni þessara tveggja árganga sem ég hef haft umsjón með, þá væri það „margradda“. Í þessum tveimur tölublöðum hafa komið fram ótrúlega fjölbreyttar raddir úr nánast öllum kimum heimspekinnar. Þessi fjölröddun er einkenni á heimspeki á Íslandi, einkenni sem er mjög mikilvægt að halda í og hlúa að. Því miður er ein rödd sem hefði mátt heyrast skýrar í báðum tölublöðum, en það er rödd kvenkyns heimspekinga. Ég hef enga einfalda lausn á því hvernig best sé að bæta úr þessari vöntun, en það er mikilvægt að leita lausna. Það er nauðsynlegt fyrir viðgang heimspekinnar að það sé tryggt eins framarlega og unnt er að ekki sé kynjahalli innan hennar, á neinu sviði. Sem betur fer þarf ekki að örvænta, við eigum á að skipa frábærum kvenkyns heimspekingum, þeir eru bara því miður að miklu leyti fjarverandi hér. Ég vona að þessi orð mín orki sem brýning. Ég held að viðleitni félags áhugamanna um heimspeki sem felst í breytingum á lögum félagsins og er kinnt í pisli stjórnar, sé skref í átt til lausnar á þessu viðfangsefni.
     Ég vil nota þetta tækifæri og þakka stjórn félags áhugamanna um heimspeki það traust sem mér var sýnt með því að gera mig að ritstjóra, einnig vil ég þakka öllu því frábæra fólki sem lagði hönd á plóginn. Ég óska verðandi ritstjóra velfarnaðar í starfi, og vona að Hugur eigi eftir að halda áfram að vera það sem hann er í dag, metnaðarfull og áhugaverð útgáfa.

Jóhannes Dagsson