Hér er 25. árgangi Hugar fylgt úr hlaði. Það má því segja að Hugur sé kominn vel á manndómsár, hefur lagt Mórðung af öld að baki. Margt hefur borið við á þessum tíma og Hugur tekið á sig margskonar form bæði hvað varðar innihald og útlit.
Yfirskrift þessa árgangs er „Listir, bókmenntir, lýðræði“. Ætlun ritstjóra var sú að umfjöllunarefnið væri opið og byði upp á margskonar nálganir en veitti samt nóg aðhald til að form yrði á innihaldi heftisins. Lesendur fella auðvitað sinn dóm um það en skoðun ritstjóra er sú að þetta markmið hafi náðst nokkuð vel. Efnið í 25. árgangi Hugar kemur víða að, bæði í hugmyndafræðilegum og landfræðilegum skilningi. Það ber nokkuð á þýðingum, efni sumra þeirra fellur beint undir yfirskrift árgangsins en aðrar fjalla um efni sem eru allavega við fyrstu sýn fjarlægari. Fengur er að þýðingum úr erlendum málum á heimspekilegum textum. Íslenska er lítið málsamfélag og á sér stutta sögu sem mál heimspekinga. Það er því lífsnauðsyn fyrir heimspekilega orðræðu á íslensku að flytja inn í formi þýðinga hugmyndir úr öðrum málum. Þetta er einnig nauðsynlegt til að viðhalda getu íslenskunnar sem tungumáls til að takast á við hugmyndir heimspekinnar hverju sinni og eins til að stækka þann hugmyndaheim sem aðgengilegur er á íslensku. Það er mín skoðun að löngu sé tímabært að gera þýðingum og þýðendum sem vinna með heimspekilega texta hærra undir höfði. Þýðingar fræðitexta eiga ekki að vera ólaunuð áhugamennska heldur starfi sem hægt er að hafa lifibrauð sitt af. Eins þarf háskólasamfélagið að hlúa mun betur að þessari grein þýðinga, t.d. með því að auka gildi þess að fá þýðingar birtar, auka rannsóknir á þýðingum og skapa umhverfi þar sem þýðingar eru teknar alvarlega sem framlag til fræðasamfélagsins.
Efnið í þessu tölublaði endurspeglar um margt Mölbreytileika íslenskrar heimspeki. Það er að dómi þess sem þetta ritar einn af megin styrkleikum heimspekinnar á Íslandi að hún hefur ekki fallið í fast form, heldur er hún samsett úr sjónarhornum víða að og við búum að einstaklingum sem hafa sótt sér nám og áhrif víða að úr veröldinni. Þetta er einkenni sem ég tel að þurfi að hlúa að og rækta enn frekar, bæði innan heimspekináms á Íslandi og í áherslum í rannsóknum
og útgáfu.
Listir, bókmenntir og lýðræði eru samofin fyrirbæri. Þau eiga sér t.d. þá sameiginlegu þræði að kreMast þátttöku og afstöðu einstaklinga til þess að hafa raunveruleg áhrif. Listir eru ekkert án þátttöku bæði listnjótenda og listgerenda, eins er það með bókmenntir, og lýðræði er ekkert nema orðið tómt án þátttöku þegnanna í því. Ákveðin afstaða þátttakenda er einnig nauðsynleg eigi þessi fyrirbæri að ná flugi. Það er mín skoðun að leitin að betri skilningi og betri heimspekilegum tökum á því hvað þessi afstaða þarf að fela í sér, og hvað hún þýðir í raun og veru fyrir samfélag og einstaklinga, sé eitt af þeim viðfangsefnum sem eru undirliggjandi í umræðum um lýðræði, listir og bókmenntir og tengsl á milli þessara fyrirbæra.
Sá skyldleiki eða fjölskyldusvipur sem er með listum, bókmenntum og lýðræði veldur því að að ákveðin hugtök verða áberandi og mikilvæg þegar þau eru tekin til athugunar. Í stað þess að bjóða upp á greiningu á þessum hugtökum set ég hér fram einhverskonar tengslakort sem lýsingu á því hvað ég á við:
Einstaklingurinn, sem vera með sjálf, sem vera með vilja, vera sem brosir og sem hluti af samfélagi er til skoðunar í greinum Stefáns Snævarr, Geirs Sigurðssonar, þýðingu Björns Þorsteinssonar á grein Maurizio Lazzarato og í „Brosi“ Hemuths Plessner sem Marteinn Sindri Jónsson hefur snúið á íslensku. Efnistök greinanna eru ólík en kjarninn í þeim er spurningin um það hvernig einstaklingurinn verði best hugtekinn eða útskýrður sem fyrirbæri, og hvernig honum reiði best af í samfélagi við aðra einstaklinga af sömu tegund. Þetta kallar sumstaðar á greiningu á sjálfinu (Stefán Snævarr) en annars staðar á greiningu á því hvernig við forðumst tilvistarlega tómhyggju (Geir Sigurðsson) og á greiningu á stöðu einstaklingsins í samfélagi nýfrjálshyggjunnar (Maurizio Lazzarato). Brosið sem hluti af mannlegri tjáningu og sem fyrirbærafræðilega mikilvægt fyrirbæri gefur umfjölluninni síðan aukna og óvenjulega vídd.
Listaverkið og listin eru tekin til sérstakrar umfjöllunar hjá Giorgio Agamben í þýðingu Steinars Arnar Atlasonar og Jean-Luc Nancy í þýðingu Ólafs Gíslasonar. Þetta er að sjálfsögðu ekki gert í tómarúmi, heldur spila hugmyndir um samfélag og samhengi undirtónana í báðum þessum greinum. Nancy greinir stöðu listarinnar út frá tíu lykilhugtökum og hugmyndum Hegels um hlutverk hennar og þróun og skörp greining Agambens á ljósmyndinni er ekki eingöngu greining á ljósmyndinni sem miðli, heldur einnig á ljósmyndinni sem sögulegu og samfélagslegu fyrirbæri.
Greinar Hlyns Helgasonar, Henrys Alexanders Henryssonar og þríeykisins Ingimars Ólafssonar Waage, Kristjáns Kristjánssonar og Amalíu Björnsdóttur eiga það sammerkt að fást við lýðræðishugmyndir. Hlynur greinir á áhugaverðan hátt lýðræðishugmyndir út frá þremur nýlegum listaverkum sem eiga það sammerkt að fást við listina og lýðræðið á krepputímum. Því er oft haldið fram að á slíkum tímum sé hlutverk listarinnar mikilvægara en annars, hún eigi að gagnrýna og breyta samfélaginu til betri vegar, eða vera spegill sem við getum borið okkur upp að. Eins og Hlynur færir rök fyrir í grein sinni er þetta samspil lista og lýðræðishugmynda allt annað en einfalt, og mikil hætta fyrir bæði lýðræðið og listina fólgin í því að einfalda það um of. Grunnstefið í grein Henrys Alexanders eru sáttmálakenningar um lýðræðið og hvað það felur í sér að vera þátttakandi í lýðræði. Grein Ingimars, Kristjáns og Amalíu er áhugaverð tilraun til þess að tengja saman empírískar athuganir á lýðræði og lýðræðisviðhorfum og heimspekilegar hugmyndir um þessi sömu efni.
Það er sérstaklega ánægjulegt að tvær greinar eftir Pál Skúlason skuli reka smiðshöggið á Hug að þessu sinni. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi Páls fyrir íslenska heimspeki og það er sérstakur fengur að þessum tveimur greinum. Spurningin um það hvert eigi að vera hlutverk heimspekingsins í opinberu lífi er mikilvæg og hefur reyndar með hlutverk heimspekinnar sem slíkrar að gera og er sérstaklega aðkallandi nú á tímum.
Að sumu leyti skylda spurningu má bera fram þegar kemur að því riti sem hér
er komið út. Til hvers er tímaritið Hugur? Heimspekingar spyrja gjarnan um tilgang hlutanna með það að markmiði að skilja betur eðli þeirra og eiginleika. Tilgangsspurningin um Hug er þó í mínum huga ekki heimspekileg nema upp að ákveðnu marki. Hugur er eina tímaritið á íslensku sem er tileinkað heimspekinni sérstaklega. Það er gefið út af Félagi áhugamanna um heimspeki. Lesendur þess eru áhugamenn um heimspeki á Íslandi. Því virðist liggja í augum uppi að tilgangur tímaritsins sé að vera vettvangur fyrir heimspekilega umræðu á íslensku, að vera vettvangur fyrir þær hugmyndir sem ber hæst á hverjum tíma, að veita þeim sem stunda heimspeki á íslensku tækifæri til að ná til lesenda sem eru ekki endilega heimspekingar heldur áhugamenn um heimspeki og heimspekilega hugsun. Hugur hefur einnig það hlutverk að vera eina ritrýnda heimspekitímaritið á íslensku. Hugur hefur því einnig þann tilgang að vera sá miðill heimspekilegrar umræðu þar sem mestar kröfur eru gerðar til formfestu og fræðilegra atriða. Meðan á
vinnslu tölublaðsins stóð leitaði sú hugsun oft á ritstjóra hvort þessar tvær kröfur sem gerðar eru til Hugar, eða þessar tvær hugmyndir um tilgang hans, eigi eða geti farið saman svo vel sé. Er sjálfsagt að það fari saman að vera ritrýnt tímarit með þeim fræðilegu kröfum sem því fylgir og að vera vettvangur fyrir áhugamenn um heimspeki? Það er t.d. áhugvert að í þessu tölublaði birtist engin grein eftir höfund sem ekki er sérmenntaður á sviði heimspekinnar eða skyldrar greinar, enda vandséð hvernig grein rituð af öðrum en fagaðila kæmist í gegnum ritrýni. Nú má ekki skilja þetta svo að ég sé að vega að ritrýni, og því síður að ritrýnum, heldur er ég einfaldlega að velta upp spurningunni um tilgang. Ef Hugur á að vera vettvangur fyrir heimspekilega orðræðu á íslensku virðist mér skjóta skökku við að sú krafa sé gerð til orðræðunnar að hún sé akademísk og standist allar helstu formkröfur akademískrar framsetningar. Heimspekileg hugsun og heimspekileg orðræða hlýtur að þurfa að vera til á öðru formi en nákvæmlega þessu. Er það hlutverk Hugar að sinna fleiri birtingarmyndum heimspekinnar eða á hann að vera akademískt tímarit?
Þessar hugleiðingar tengjast auðvitað beint og óbeint hugmyndum um tilgang
heimspekinnar sem slíkrar: Á heimspekin að vera akademísk grein, eins og hver önnur grein sem kennd er í háskóla, á hún að vera viðhorf til heimsins eða á hún að vera afl til að breyta heiminum? Inngangur ritstjóra er ekki rétti vettvangurinn til að fást við spurningar af þeirri stærðargráðu.
Mér er bæði ljúft og skylt að þakka þeim sem komu að útgáfu þessa árgangs Hugar. Þar ber auðvitað fyrst að nefna höfunda efnis. Þær greinar sem birtast hér bera höfundum sínum gott vitni. Höfundar eiga einnig hrós skilið fyrir þolinmæði og skilning þegar kemur að flumbrugangi ritstjóra. Ég vil einnig þakka þýðendum greina sérstaklega, og svo eigendum höfundarréttar sem veittu leyfi fyrir birtingu efnis. Þeir sem unnu að ritrýni fyrir Hug þetta árið fá sérstakar þakkir. Það er stundum tekið til sem einkenni á okkar tímum að enginn fáist til að gera neitt nema borgað sé fyrir; það á allavega ekki við um ritrýni. Sú vinna og þolinmæði sem lögð var í þann verkþátt hér er mikil þegar launin eru aðeins þakkir og kannski einhver ánægja.
Björn Þorsteinsson fær sérstakar þakkir fyrir umbrot og almenn liðlegheit, Egill Arnarson fær þakkir fyrir að lesa próförk, og sérstakar þakkir ritstjóra fær Henry Alexander Henrysson, forveri minn á ritstjórastóli, fyrir að vera alltaf til í að gefa góð ráð og vera nýgræðingnum innan handar.
Öll mistök og villur skrifast á mig, enda ritstjóri líkur skipstjóra í því að hann á að vera síðastur frá borði.
Jóhannes Dagsson