Inngangur ritstjóra að Hug 2005

eftir Björn Þorsteinsson

Inngangur ritstjóra

„Við höfum sýnt að Derrida er ekki póstmódernisti. Það er ekki erfitt.“ Þannig tekur ítalski heimspekingurinn Maurizio Ferraris til orða undir lok ritgerðar sinnar „Fyrirbærafræðin og Messías“ sem birtist í þessu hefti Hugar. Grein Ferraris er hluti af þema heftisins sem helgað er franska heimspekingnum Jacques Derrida. Eins og kunnugt er lést hann í október 2004 eftir snarpa baráttu við illvígt krabbamein. Það þótti við hæfi að Hugur 2005 beindi sjónum sérstaklega að hugmyndum þessa góðkunna en jafnframt umdeilda hugsuðar. Þegar upp er staðið hefur þemakjarni heftisins að geyma fjórar greinar sem segja má að vísi lesendum veginn inn í hugarheim Derrida, leiði þá um þennan heim og dragi þá að lokum út úr honum aftur á vit ókannaðra rannsóknarefna. Grein Páls Skúlasonar, „Ritgerðin endalausa – eða vandinn að komast inn í Derrida“, tekst á við þá útbreiddu skoðun að verk Derrida séu erfið, eða jafnvel ómöguleg, aflestrar. Páll veltir upp ýmsum flötum á þessu máli – og ef allt fer að óskum situr lesandinn eftir albúinn að takast á hendur að lesa þann franska í senn með opnum huga og á eigin forsendum. Geir Sigurðsson, sérfræðingur í kínverskri heimspeki, og svissneski stjórnmálafræðingurinn Ralph Weber leiða að því líkur í grein sinni hvers vegna hugsun á borð við þá sem Derrida iðkar virðist fremur eiga upp á pallborðið í Kína heldur en á Vesturlöndum. Hin margrómaða afbygging Derrida á vestrænni heimspekihefð, og vestrænni orðræðu almennt, reynist að mörgu leyti svipuð þeirri hugsun sem tíðkast hefur í kínverskum menningarheimi frá aldaöðli.

Fjórða greinin í þemahluta heftisins er eftir Derrida sjálfan og ber heitið „„Tilurð og formgerð“ og fyrirbærafræðin“. Grein þessi er sjálfsagt ekki auðlesin í fyrstu atrennu, en segja má að hún hverfist um sömu meginatriðin og áðurnefnd grein eftir Maurizio Ferraris. Vegna þess hve sérhæfð sú umræða er, sem þessar tvær greinar eru hluti af, þótti tilhlýðilegt að ritstjóri skrifaði sérstakan inngang að þema heftisins, og er hér vísað til þess texta um nánari útlistun á þessum tveimur greinum.

Þýski menningarrýnirinn Walter Benjamin er í hópi þeirra höfunda sem erfitt er að finna fastan stað innan hins hefðbundna flokkunarkerfis akademíu eða bókasafna. Það kemur þó ekki í veg fyrir að verk hans njóti sívaxandi athygli meðal fræðimanna beggja vegna Atlantsála. Nokkrar ritgerðir eftir Benjamin hafa þegar komið út á íslensku og von er á fleirum, en það er undirrituðum sérstakt ánægjuefni að birta í þessu hefti þýðingu Guðsteins Bjarnasonar á sígildum texta Benjamins „Um söguhugtakið“. Ritsmíð þessi varð til undir ævilok Benjamins, í skugga nasisma og heimsstyrjaldar, og í henni kristallast mörg meginatriði hugsunar hans: fullur trúnaður við byltingarhugsjónina, óvægin gagnrýni á jafnaðarstefnu jafnt sem fasisma, djúp virðing fyrir hinum nafnlausu og undirokuðu, ígrundaður varhugur við hvers kyns fylgispekt við hina auðugu og voldugu. Segja má að allir þessir þræðir komi saman í hugmynd Benjamins um þann „veika messíaníska mátt sem fortíðin á kröfu til“. Skilningur á þessari hugmynd útheimtir nákvæman og næman lestur á textanum „Um söguhugtakið“ og samhengi hans. Þessum lestri er ekki lokið – hann er rétt að hefjast, ekki síst á íslensku. Í það minnsta er vert að benda lesandanum á að Messías gerir víðreist í þessu hefti. Franski heimspekingurinn og rithöfundurinn Jean-Paul Sartre hefði orðið hundrað ára á árinu 2005, hefði hann lifað jafn lengi og þýski hugsuðurinn Hans-Georg Gadamer sem dó árið 2002 á 102. aldursári. Rík ástæða þótti til að gefa Sartre gaum í þessum árgangi Hugar, og var því leitað til eins helsta Sartre-sérfræðings á Íslandi, Jóhanns Björnssonar. Úr varð áhugaverð ritgerð sem gerir í senn grein fyrir ýmsum meginatriðum í hugmyndum Sartres um mannleg samskipti og helstu vanköntunum á þessum sömu hugmyndum. Meðal annars sýnir Jóhann fram á hvernig samtímamaður Sartres og góðkunningi, Maurice Merleau-Ponty, gagnrýndi Sartre fyrir að gera helst til einhliða grein fyrir því hvernig ég upplifiaðra. Merleau-Ponty ber einnig á góma í grein finnska heimspekingsins Söru Heinämaa sem hér birtist. Þar sýnir hún hvernig Simone de Beauvoir, lífsförunautur Sartres, greip á lofti ákveðna þætti í fyrirbærafræði Merleau-Pontys og útfærði þá á frumlegan hátt í meginriti sínu Hinu kyninu (Le deuxième sexe, 1949). Nánar tiltekið er hér átt við þau drög að fyrirbærafræðilegri lýsingu á mannlegri veru sem líkamlegri og kynjaðri sem finna má í höfuðriti Merleau-Pontys,Fyrirbærafræði skynjunarinnar (Phénoménologie de la perception, 1945). Eins og Heinämaa sýnir fram á sótti Merleau-Ponty margt í þessari greiningu sinni til René Descartes, sem hingað til hefur átt undir högg að sækja meðal femínískra hugsuða.

Fyrirbærafræði og femínísk hugsun eiga sér fleiri fulltrúa í þessu hefti Hugar. Norski fornaldarheimspekingurinn Vigdis Songe-Møller rekur í grein sinni, sem ber þann beinskeytta titil „Gríski draumurinn um konulausan heim“, hvernig hugarheimur Grikkja til forna markaðist af þeirri viðleitni að útiloka konur frá hinum opinbera vettvangi. Songe-Møller bendir á það sem löngum hefur verið vitað, að hið margfræga lýðræði í Aþenu hafi beinlínis hvílt á útilokun af þessum toga; en undir niðri býr sú hugmynd að þessi vafasami þáttur í arfleifð lýðræðisins standi nútímamönnum nær en jafnan er látið í veðri vaka. Ritgerð Songe-Møller er athyglisvert dæmi um þá nýju og gagnrýnu sýn á viðteknar hugmyndir sem iðkun femínískrar heimspeki hefur fram að færa.

Danski heimspekingurinn Dan Zahavi hefur vakið athygli í fræðaheiminum á síðustu árum fyrir að vinna með skapandi hætti úr arfleifð upphafsmanns fyrirbærafræðinnar, Edmunds Husserl. Zahavi er í hópi helstu framámanna í þeirri endurnýjun lífdaga sem fyrirbærafræðin gengur í um þessar mundir og birtist í senn í auknum áhuga á hinu umfangsmikla höfundarverki forsprakka á borð við Husserl, Heidegger, Sartre, Beauvoir og Merleau-Ponty, og líflegum skoðanaskiptum við fulltrúa hugfræða og taugavísinda í samtímanum. Grein Zahavis sem hér birtist, „Sjálfið og tíminn“, hefur að geyma skipulega rökfærslu sem miðar að því að sýna fram á mikilvægi hugmyndar fyrirbærafræðinnar um sjálfið, einkum í samanburði við hugmynd túlkunarfræðinnar um sjálfið sem afurð frásagnar. Sjálfsagt kann einhverjum að þykja greining Zahavis tæknileg á köflum, og jafnvel torlesin, enda er íslenskur orðaforði um grunnhugtök fyrirbærafræðinnar enn í burðarliðnum. Þess er þó að vænta að greinin nýtist íslenskum lesendum vel, a.m.k. þeim allmörgu sem kunnugir eru hugmyndum túlkunarfræðinnar um sjálfið.

Íslenskir heimspekingar hafa löngum staðið í líflegum deilum um siðferðileg efni. Jón Á. Kalmansson leggur hér lóð á þessar vogarskálar með grein sinni „Nytsemi og skilningur“. Þar andmælir hann dálæti ýmissa siðfræðinga á svokölluðum „klípusögum“, þar sem dregnar eru upp myndir af einstaklingum við ákaflega kröpp kjör – þar sem tveir eru kostir og hvorugur góður, svo skírskotað sé til þeirra bókmennta sem hvað mest hafa (að sumra mati) mótað siðferðisvitund Íslendinga. Jón telur klípusögur ýta undir svonefnda nytjahugsun sem miðast þá við að meta athafnir út frá því sem kalla mætti mælanlegar afleiðingar þeirra. Á móti heldur Jón á lofti mikilvægi siðferðislegs skilnings sem opnað geti nýjar og ófyrirséðar leiðir út úr valþrönginni. Siðfræðin á sér annan góðan fulltrúa í þessu hefti Hugar: einn upphafsmann náttúrusiðfræðinnar, Bandaríkjamanninn Holmes Rolston III. Hann var staddur hér á landi síðastliðið sumar og notaði Þorvarður Árnason náttúrufræðingur tækifærið og tók við hann viðtal sem hér birtist. Rolston fer um víðan völl í samræðu sinni við Þorvarð, fjallar um grundvallaratriði kenninga sinna, veltir vöngum yfir sérstöðu íslenskrar náttúru, ræðir um dýravernd á Íslandi og annars staðar og fer að lokum út í trúarlega sálma. Viðtalið er áhugavert framlag til þeirrar upplýstu umræðu um umhverfismál sem er óðum að taka á sig mynd hér á landi.

Eitt mesta stórvirkið í sögu vísindanna, Uppruni tegundanna eftir Charles Darwin, kom út á íslensku árið 2004. Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur og vísindasagnfræðingur tók að sér það verkefni að skrifa um bókina fyrir Hug. Úr varð ítarleg grein sem birtist hér undir liðnum „Greinar um bækur“. Þorsteinn leiðir í ljós, á greinargóðan hátt, í hverju hinn „fjölþætti galdur“ bókarinnar um Uppruna tegundanna er fólginn. Undir lok greinarinnar beinir Þorsteinn sjónum að bókaflokknum sem umrædd bók er hluti af, Lærdómsritum Hins íslenska bókmenntafélags, og minnist um leið stofnanda bókaflokksins, Þorsteins Gylfasonar heimspekings, sem lést með allsviplegum hætti í ágúst 2005. Íslenskum áhugamönnum um heimspeki varð Þorsteinn Gylfason mikill harmdauði. Fyrsta greinin í þessu hefti Hugar hefur að geyma minningarorð Eyjólfs Kjalars Emilssonar um Þorstein. Eins og Eyjólfur Kjalar bendir á átti Þorsteinn margt óunnið þegar hann féll frá. Víst er að andi hans og arfleifð mun lifa lengi enn meðal hugsandi fólks á útskeri þessu.

Heimspekistofnun Háskóla Íslands studdi útgáfu Hugar með ráðum og dáð eins og undanfarin ár. Félag áhugamanna um heimspeki hlaut einnig höfðinglegan styrk úr Menningarsjóði til útgáfu ritsins. Ég þakka þessum og öðrum velgjörðamönnum útgáfunnar: án þeirra fylgdi enginn Hugur máli.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *