17. ár 2005

Ritstjóri: Björn Þorsteinsson

Inngangur ritstjóra: s. 4

 

Minning

Eyjólfur Kjalar Emilsson: Þorsteinn Gylfason (1942–2005), s. 8

 

Viðtal

Eigingildi í náttúrunni – heimspeki á villigötum? Þorvarður Árnason ræðir við bandaríska náttúrusiðfræðinginn Holmes Rolston III, s. 12

 

Greinar

Walter Benjamin: Um söguhugtakið (Greinar um söguspeki), s. 27

Jóhann Björnsson: Þegar hinir eru helvíti. Um mannleg samskipti í heimspeki Jean-Pauls Sartre, s. 37

Jón Á. Kalmansson: Nytsemi og skilningur, s. 48

Sara Heinämaa: Eining líkama og sálar og kynjamismunur. Frá Descartes til Merleau-Pontys og Beauvoir, s. 65

Vigdis Songe-Møller: Gríski draumurinn um konulausan heim, s. 80

Dan Zahavi: Sjálfið og tíminn, s. 97

 

Þema: Jacques Derrida (1930-2004)

Björn Þorsteinsson: Messías á Íslandi. Inngangur að þema, s. 108

Páll Skúlason: Ritgerðin endalausa – eða vandinn að komast inn í Derrida, s. 118

Maurizio Ferraris: Fyrirbærafræðin og Messías, s. 129

Jacques Derrida: „Tilurð og formgerð“ og fyrirbærafræðin, s. 148

Geir Sigurðsson og Ralph Weber: Að færa út veginn. Um samrýmanleika heimspeki Derrida og kínverskrar heimspekiorðræðu, s. 167

 

Greinar um bækur

Þorsteinn Vilhjálmsson: Snilld einlægninnar. Uppruni tegundanna, s. 184

 

Ritdómar, s. 206

Um höfunda og þýðendur efnis, s. 225

Fréttatilkynning ritstjóra

Út er kominn Hugur – tímarit um heimspeki, 17. árgangur (2005). Ritstjóri er Björn Þorsteinsson.

Hugur hefur vakið mikla athygli á síðustu árum fyrir líflega, gagnrýna og metnaðarfulla umfjöllun um álitamál á sviði heimspeki og tengdra fræða. Þetta nýja hefti Hugar er þar engin undan­tekning. Heftið er 226 blaðsíður og hefur að geyma afar fjölbreytt safn greina um ýmis efni.

Þema heftisins er hinn umdeildi franski hugsuður Jacques Derrida, sem lést í október 2004. Auk greinar eftir Derrida, sem fyrst kom fyrir almenningssjónir árið 1959 og ber heitið „„Tilurð og form­gerð“ og fyrirbærafræðin“, er þar að finna einkar áhugaverða grein eftir ítalska heimspekinginn Maurizio Ferraris þar sem tekist er á við ýmsar grundvallarspurningar heimspeki Derrida, og heimspekinnar almennt, með sérstakri skírskotun til Messíasar og fyrirbærafræði Husserls. Þeir sem hrýs hugur við tilhugsuninni um að feta sig inn í hugarheim Derrida geta sótt styrk til greinar Páls Skúlasonar í heftinu, en hún ber heitið „Ritgerðin endalausa – eða vandinn að komast inn í Derrida“. Í þessari ritsmíð greinir Páll ólíkar ástæður þess að Derrida þykir erfiður aflestrar og varpar fram tilgátum um hvað vaki fyrir honum og hver staður hans sé í heimspekihefðinni. Síðasta greinin í þemahluta heftisins er eftir tvo sérfræðinga í kínverskri hugsun, Geir Sigurðsson og Ralph Weber, og vísar hún veginn fram á við hvað varðar samanburð á hugsun Derrida við ýmis meginstef kínverskrar heimspeki.

Íslenskir heimspekingar hafa löngum verið iðnir við kolann í umræðu um siðfræðileg álitamál og forsendur siðferðisins. Jón Á. Kalmansson leggur lóð á þessar vogarskálar með athyglisverðri grein sem hann nefnir „Nytsemi og skilningur“, og má vænta þess að grein hans veki nokkur viðbrögð meðal íslenskra siðfræðinga. Jóhann Björnsson fer í grein sinni „Þegar hinir eru helvíti“ í saumana á því hvernig hugsun hins fræga franska tilvistarsinna Jean-Pauls Sartre má heita takmörkuð hvað varðar jafn eðlilegan hluta daglegs lífs og samskipti við annað fólk. Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur og vísindasagnfræðingur ritar ítarlega grein um stórvirki Charles Darwin, Uppruna tegundanna, í tilefni af nýlegri íslenskri útgáfu bókarinnar.

Í Hug 2005 er dágott safn þýddra greina af ýmsu tagi. Þar má fyrst nefna þýðingu Guðsteins Bjarnasonar á áhrifamiklum texta þýska hugsuðarins Walters Benjamin, „Um söguhugtakið“, þar sem meðal annars má lesa fræga túlkun Benjamins á engli sögunnar eins og hann birtist í mál­verki Pauls Klee. Áhugafólk um femíníska sýn á heimspekihefðina fær einnig ýmislegt fyrir sinn snúð í þessu tölublaði Hugar. Í grein sinni „Gríski draumurinn um konulausan heim“ fjallar norski fornaldarspekingurinn Vigdis Songe-Møller um þær goðsagnir sem Grikkir studdust við til rétt­lætingar á þjóðskipulagi sínu, og finnski heimspekingurinn Sara Heinämaa beinir sjónum að heimspeki brautryðjandans Simone de Beauvoir. Að lokum má nefna grein danska heim­spekingsins Dans Zahavi, „Sjálfið og tíminn“, þar sem hugmyndir túlkunarfræðinnar og fyrir­bærafræðinnar um sjálfið eru bornar saman.

Þessu til viðbótar má finna í Hug 2005 fimm ritdóma og eina athugasemd við ritdóm. Fyrsta greinin í heftinu er minning Eyjólfs Kjalars Emilssonar um Þorstein Gylfason sem lést í ágúst á síðasta ári.

Hugur er tímarit Félags áhugamanna um heimspeki.

226 bls., kilja

Dreifing: Háskólaútgáfan

ISSN: 1021-7215

Leiðbeinandi útsöluverð: 2.950 kr.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *