eftir Davíð Kristinsson
Fyrir rúmum aldarfjórðungi tók franski heimspekingurinn Michel Foucault að móta hugtakið „lífvald“ (bio-pouvoir) sem er skurðpunktur þriggja greina sem mynda þema 15. árgangs Hugar. Mikið hefur borið á hugtakinu í fræðilegri umræðu á undanförnum árum. Meðal þeirra sem þróað hafa kenningu Foucaults um lífvaldið eru ítalski heimspekingurinn Antonio Negri og bandaríski bókmenntafræðingurinn Michael Hardt. Negri var prófessor í heimspeki við háskólann í Padua á Ítalíu þegar hann var handtekinn árið 1979 ásakaður um að vera „heilinn“ á bakvið hryðjuverkasamtökin Rauðu herdeildirnar. Negri öðlaðist þinghelgi þegar hann var kjörinn á þing árið 1983 en flúði til Parísar tveimur mánuðum síðar er þingið ákvað að rjúfa þinghelgi hans. Hann var fjórtán ár í útlegð og kenndi heimspeki við Université Paris VIII. Árið 1997 snéri hann sjálfviljugur til Rómar þar sem hann afplánaði afganginn af dómnum fram til vorsins 2003. Aldamótaárið 2000 sendu Negri og fyrrum nemandi hans, Hardt, frá sér metsölubókina Veldið (Empire). Viðar Þorsteinsson gerði bókinni skil í greininni „Hið nýja Veldi“ í Lesbók Morgunblaðsins (26. júlí 2003) og þýðir hér formála bókarinnar ásamt undirkaflanum „Lífpólitísk framleiðsla“. Í greininni „Af nýju lífvaldi. Líftækni, nýfrjálshyggja og lífsiðfræði“ notast Hjörleifur Finnsson við kenningar Foucaults og Negris/Hardts til að greina þenslu póstmódernískskapítalisma út fyrir hina ytri náttúru og inn í þá nýju auðlind sem líftækniiðnaðurinn og lífvísindin ausa úr. Hjörleifur ræðir um Íslenska erfðagreiningu og ráðgjafaþjónustu íslenskrar lífsiðfræði í því samhengi. Garðar Árnason, sem vinnur að doktorsritgerð um vísindaheimspeki Foucaults, fjallar um lífvald í grein sinni „Vísindi, gagnrýni, sannleikur“ þar sem tengsl valds og þekkingar eru til umfjöllunar.
Garðar bendir á að vísindaheimspeki Foucaults hafi ýmislegt að bjóða rökgreiningarheimspekingum, og erum við þar með komin að öðru óformlegu þema heftisins sem er gjáin á milli meginlandsheimspeki og rökgreiningarheimspeki. Í tilefni þess að breski heimspekingurinn Simon Critchley hélt fyrirlestur við Háskóla Íslands í maílok 2003 ritaði Sigríður Þorgeirsdóttir grein fyrir Heimspekivefinn sem birtist hér í endurskoðaðri útgáfu: „Meginlandsheimspeki og rökgreiningarheimspeki“. Lýsandi fyrir átökin milli þessara ólíku heimspekihefða eru mótmælin sem rökgreiningarheimspekingar, með Willard van Orman Quine í fararbroddi, birtu í Times (9. maí 1992) gegn væntanlegri heiðursdoktorsnafnbót franska hugsuðarins Jacques Derrida frá Cambridge-háskóla á þeirri forsendu að hér væri ekki réttnefndur heimspekingur á ferð.
Einn merkasta heimspekingur Íslendinga, Páll S. Árdal (1924-2003), féll frá á síðastliðnu ári. Jörundur Guðmundsson heimspekingur og forstöðumaður Háskólaútgáfunnar skrifaði minningargrein um hann sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins þann 24. maí 2003. Á sama ári féllu margir merkir erlendir heimspekingar frá. Sumir þeirra hafa fengið töluverða umfjöllun á Íslandi að undanförnu. Þannig gaf Hið íslenska bókmenntafélag nýlega út þýðingu á Framfaragoðsögninni eftir finnska heimspekinginn Georg Henrik von Wright (1916-2003) með ítarlegum inngangi Sigríðar Þorgeirsdóttur. Töluvert var fjallað um Donald Davidson (1917-2003) þegar hann sótti Ísland heim í nóvember 2002, auk þess sem til stendur að gefa út greinasafn með þýðingum ritgerða eftir hann. Í síðasta hefti Hugar leit dagsins ljós fyrsta íslenska þýðingin á texta eftir Gadamer í kjölfar andláts hans, þá 102 ára að aldri. Að þessu sinni minnist tímaritið fráfall eins merkasta heimspekings Breta, Bernards Williams (1929-2003). Ungur að árum þótti Williams standa sig afburða vel, hvort sem var í heimspekináminu við Oxford-háskóla eða þegar hann gegndi herskyldu sem þotuflugmaður hjá Royal Airforce í Kanada.Williams hóf snemma að gagnrýna hefðbundna siðfræði sem honum fannst leiðinleg og innantóm. Áhugi hans beindist að raunverulegu siðferði fremur en sértækum siðfræðilegum greiningum, og hann taldi siðferði og siðferðileg hugtök óaðskiljanleg sögu og menningu.Williams gagnrýndi ekki einungis söguleysi siðfræðinnar heldur heimspekinnar almennt. Eitt af því síðasta sem Williams lét frá sér fara er greinin „Why Philosophy Needs History“ sem birtist í London Review of Books 17. október 2002. Hér birtist í þýðingu Hauks Más Helgasonar fyrirlestur sem Williams flutti í ársbyrjun 2000 og nefnist „Heimspeki sem hugvísindi“. Í greininni gagnrýnir Williams þá skoðun sem er ríkjandi meðal rökgreiningarheimspekinga að heimspeki beri að iðka að náttúruvísindalegri fyrirmynd og ver þess í stað þá hugmynd að heimspekinni farnist betur í slagtogi við aðra stóra hugvísindagrein, sagnfræði.
Björn Þorsteinsson ritar grein um nýlega bók hugsuðar sem er lítt hrifnari en Bernard Williams af hugmyndinni um „hreina“ heimspeki, Jacques Derrida. Björn, sem leggur um þessar mundir lokahönd á doktorsritgerð um réttlætishugtakið í heimspeki Derrida, hefur á undanförnum árum kynnt heimspeki Derrida við ólík tækifæri. Vorið 2002 birti hann grein um bók Derrida Spectres de Marx (1994) í Skírni og hér fjallar hann, undir yfirskriftinni „Villingurinn og lýðræðið“, um nýlega bók hugsuðarins sem nefnist Voyous (2003) og er vísun í hugtak Bandaríkjastjórnar um þau „óþægu“ ríki sem hún skilgreinir sem „öxulveldi hins illa“ og herjar á í nafni lýðræðis. Grein Björns veitir lesandanum innsýn í það hvernig Derrida afbyggir hugmyndina um „villingaríki“ og fleira því tengt.
Eitt af því sem Björn kemur óhjákvæmilega inn á í þessu samhengi er 11. september 2001. Sama dag og þess var minnst að tvö ár voru liðin frá hryðjuverkunum minntust heimspekingar þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu Theodors W. Adorno. Sem þýskur gyðingur missti Adorno kennsluréttindi í heimalandi sínu árið 1933, flúði ári síðar til Oxford og endaði í New York 1938 þar sem Stofnun fyrir samfélagsrannsóknir (Institut für Sozialforschung) var í útlegð. Árið 1942 fluttist hann til Kaliforníu og vann ásamt Max Horkheimer að Dialektik der Aufklärung sem kom út árið 1947 í Bandaríkjunum en ekki fyrr en á dánarári Adornos, 1969, í Þýskalandi. Kafli úr þeirri bók birtist nýlega í íslenskri þýðingu í greinasafninu Áfangar í kvikmyndafræðum (ritstj. Guðni Elísson, Forlagið, 2003) og er það fyrsti texti Adornos sem er þýddur á íslensku. Árið 1949 sneri Adorno aftur til Þýskalands þar sem hann var skipaður prófessor í samfélagsheimspeki (síðar í heimspeki og félagsfræði) við Frankfurtar-háskóla og stjórnaði ásamt Horkheimer IFS-stofnuninni sem sneri með þeim aftur úr útlegð. Hér birtist í þýðingu Stefáns Jónssonar síðasti fyrirlesturinn af 17 sem Adorno flutti nemendum sínum undir yfirskriftinni „Vandkvæði siðfræðinnar“ (Probleme der Moralphilosophie) á sumarönn 1963. Í þessum fyrirlestri er m.a. að finna hið fræga orðalag Adornos að það sé „ekki til nein rétt hegðun í hinu ranga“.
Kunnastur þeirra þýsku hugsuða sem störfuðu sem heimspekingar í Þriðja ríkinu er Martin Heidegger. Tengsl hans við nasismann eru mörgum kunn enda hefur umræðan um heimspeki á tímum þjóðernissósíalismans nánast einskorðast við Heidegger. Það segir sig hins vegar sjálft að þótt Heidegger sé þeirra kunnastur var hann aðeins einn af mörgum heimspekingum sem störfuðu undir Hitler. Á meðan annar af tveimur kunnustu nemendum Heideggers, Karl Löwith, þurfti sem gyðingur að flýja land, starfaði þekktari nemandinn, Hans-Georg Gadamer, áfram sem heimspekingur undir Hitler. Mexíkóski heimspekingurinn Teresa Orozco var á árunum 1987-1995 í rannsóknarhópi við Freie Universität í Berlín sem rannsakaði heimspeki í Þriðja ríkinu. Doktorsritgerð hennar er afsprengi þeirrar vinnu og fjallar um heimspekiiðkun Gadamers á þessu tímabili. Grein hennar „Skírskotunarlistin“, sem Haukur Már Helgason sneri á íslensku, er stutt kynning á rannsókn hennar þar sem athyglin beinist að því hvernig Platon-túlkanir Gadamers á þessu tímabili enduróma í þjóðernissósíalískum samtíma.
Í tilefni af hundrað ára fæðingarafmæli Adornos tók Hugur tali eina íslenska hugsuðinn sem er doktor í heimspeki frá Frankfurtar-háskóla, Jóhann Pál Árnason, prófessor í félagsfræði við La Trobe háskóla í Melbourne. Jóhann hóf doktorsnám við skólann ári áður en Adorno lést og skrifaði doktorsritgerð um Herbert Marcuse hjá nemanda Adornos, Jürgen Habermas. Hugur ræddi við Jóhann um þau verka hans sem komu út í Frankfurt á 8. og 9. áratugnum, um heimspekilega afstöðu Frankfurtarskólans og viðhorf hans til annarrar miðstöðvar meginlandsheimspeki: póststrúktúralisma Parísarheimspekinga.
Ágreiningur um það hvaða heimspeki sé réttnefnd heimspeki takmarkast ekki við meginlandsheimspeki og rökgreiningarheimspeki. Vestrænir heimspekingar hafa verið tregir til að ljá kínverskri „heimsfræði“ titilinn heimspeki. Í greininni „Á meðal hinna tíu þúsund hluta“ veitir Geir Sigurðsson, sem leggur stund á doktorsnám í kínverskri heimspeki, innsýn í tólf grunnforsendur kínverskrar heimspeki og lýkur þannig upp dyrum að heimi sem er vestrænni hugsun svo framandi að við erum knúin til að horfast í augu við þá staðreynd að grundvöllur heimspekilegrar hugsunar okkar stendur á rennandi vatni.
Í greininni „Íslenskur Nietzsche við aldamót“ rekur undirritaður viðtökusögu Friedrichs Nietzsche á íslensku frá lokum 19. aldar fram að dagrenningu Nietzsche-fræða á Íslandi á síðasta áratug 20. aldar. Lokahluti greinarinnar hefur að geyma viðbrögð við andsvari Róberts H. Haraldssonar í Lesbók Morgunblaðsins (26. apríl og 3. maí 2003) við fyrri gagnrýni undirritaðs á Nietzsche-túlkanir íslenskra siðfræðinga.
Í tilefni þess að liðin eru fimmtán ár frá stofnun Hugar var Ragnar Helgi Ólafsson, heimspekingur, listamaður og grafískur hönnuður, fenginn til að hanna nýja kápu á tímaritið. Annar listamaður, Þór Sigþórsson, hannaði nýtt merki Félags áhugamanna um heimspeki upp úr gömlu íslensku handriti sem Gunnar Harðarson kynnti á hádegisfundi Heimspekistofnunar 20. nóvember 2003 í tilefni af Alþjóðlegum UNESCO-degi heimspekinnar. Erindi Gunnars nefndist „Philosophia á Íslandi. Mynd heimspekinnar í handritinu GKS 1812 4to“. Handritið sem er frá 14. öld er varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar og hefur að geyma teikningu sem sýnir skipurit heimspekinnar og undirgreina hennar ásamt skýringum á latínu. Auk þess var sú breyting gerð á Hug að enskri samantekt er skeytt aftan við greinar til að auðvelda heimspekingum að kynna skrif sín alþjóðlega.