Færslusöfn

Fásinnan að reyna að skilgreina sannleikann

eftir Donald Davidson

Fásinnan að reyna að skilgreina sannleikann1

Í Evþýfróni spyr Sókrates hvað heilagleiki sé, hvað „geri“ heilaga hluti heilaga. Það er ljóst að hann leitar skilgreiningar, skilgreiningar með sérstaka eiginleika. Hann hafnar eintómri gnótt dæma og upptalninga, og spyr í hverju tilfelli hvað geri dæmin að dæmum, eða komi hlut á listann. Hann hafnar hugtökum sem eru einungis jafnyfirgripsmikil („eitthvað er heilagt ef og aðeins ef það er guðunum kært“): það sem veldur því að eitthvað er guðunum kært er að það sé heilagt, en ekki öfugt. Samræðunni lýkur þegar Sókrates biður Evþýfrón um að upplýsa sig með því að reiða fram ásættanlegt svar; Evþýfrón ákveður að hann hafi öðrum hnöppum að hneppa.

Þetta mynstur, tilraun til skilgreiningar, gagndæmi, bætt skilgreining, frekari gagndæmi, og að lokum kjökur vegna vonbrigða, er endurtekið með tilbrigðum út í gegnum sókratísku samræðurnar og mið-samræðurnar. Fegurð, hugrekki, dygð, vinátta, ást og hófsemi eru settar undir smásjána, en engar sannfærandi skilgreiningar koma fram. Einu skilgreiningarnar sem Platon virðist ánægður með eru hlutdrægar lýsingar á einkennum fræðara. Hann tekur einnig nokkur léttvæg dæmi um réttar skilgreiningar: á þríhyrningi; á leðju (mold og vatn).

Í Þeætetosi freistar Platon þess að skilgreina reynsluþekkingu. Líkt og margir heimspekingar hafa gert síðan, telur hann þekkingu vera sanna skoðun auk einhvers – greinargerðar sem réttlætir eða heimilar skoðunina. Það er síðastnefnda atriðið sem slær hann út af laginu (enn og aftur varðar hann veginn fyrir eftirkomandi sögu viðfangsefnisins). Það virðist ekki hvarfla frekar að Platoni en flestum öðrum að samsetning orsakaþátta og röklegra þátta sem verður að tilheyra greiningu á réttlættri skoðun (eins og í greinargerð fyrir minni, skynjun og viljaverkum) leyfi ef til vill ekki, eðli málsins vegna, að hún sé sett fram með skýrari orðum sem liggi öðru orðalagi til grundvallar.

Það sem skiptir máli í þessu samhengi er hins vegar sú staðreynd að þegar Platon reynir að skilgreina þekkingu játar hann einungis ósigur fyrir heimildarhugtakinu. Hann hefur ekki miklar áhyggjur af jafnmikilli aðild sannleika og skoðunar að þekkingu.

En Platon var einfaldlega að troða slóð sem aðrir heimspekingar hafa um alda bil fylgt. Þú fylgir þessari slóð ef þú hefur áhyggjur af sannleikshugtakinu þegar athygli þín beinist að því, en þú lætur sem þú skiljir það þegar þú reynir að eiga við þekkingu (eða skoðun, minni, skynjun og þess háttar). Við rekumst á sömu furðulegu aðferðina hjá Hume og öðrum, sem gleyma efahyggju sinni um hinn ytri heim á meðan þeir setja fram efasemdir sínar um þekkingu á hugum annarra. Þegar heimspekingur á í erfiðleikum með hugmyndina um viljaverk myndi hann vera ánægður ef hann gæti greint hana réttilega í ljósi hugtakanna skoðun, löngun og orsök, og hann hefur ekki eitt andartak of miklar áhyggjur af þessum (í það minnsta jafn erfiðu) hugtökum. Ef greina á minni, eru tengslin við skoðun, sannleika og orsök, og ef til vill skynjun, vandinn, en þessi hugtök eru álitin vera nægilega skýr í bili til að vera notuð til þess að skýra minni, ef aðeins mætti skýra tengslin rétt. Það er í lagi að gera ráð fyrir að maður hafi fullnægjandi tök á ætlun og samkomulagi ef skotmark manns er merking. Ég gæti léttilega haldið áfram.

Það má draga lærdóm af þessum kunnuglegu, en þó undarlegu, áherslu-breytingum í viðureignum við heimspekilegar gátur. Minn lærdómurinn er þessi: Hversu veigalitlar og gallaðar sem tilraunir okkar til að tengja þessi margvíslegu frumhugtök hvert öðru eru núna, takast þær betur, og kenna okkur meira, en tilraunir okkar til að búa til réttar skilgreiningar sem láta eitthvað í ljósi með skýrari hugtökum eða jafnvel meiri grundvallarhugtökum.

Þegar öllu er á botninn hvolft ættum við að búast við þessu. Hugtökin sem heimspekingar velja úr og einblína á, eins og sannleikur, þekking, skoðun, athöfn, orsök, hið góða og hið rétta, eru, að mestu leyti, mestu grundvallarhugtök sem við búum yfir, hugtök án hverra (langar mig að segja) við hefðum alls engin hugtök. Hvers vegna ættum við þá að búast við því að geta smættað þessi hugtök með tilliti til skilgreiningar í önnur hugtök sem eru einfaldari, skýrari og meiri grundvallarhugtök? Við ættum að sætta okkur við þá staðreynd að það sem gerir þessi hugtök svo mikilvæg hlýtur einnig að útiloka möguleikann á því að finna þeim undirstöðu sem teygir sig dýpra niður í berggrunninn.

Þessa augljósu athugasemd ættum við að heimfæra á sannleikshugtakið: Við getum ekki vonast til þess að renna frekari stoðum undir það með einhverju gagnsærra eða auðskiljanlegra. Sannleikur er, eins og G.E. Moore, Bertrand Russell og Gottlob Frege héldu fram og Alfred Tarski sannaði, óskilgreinanlegt hugtak.2 Þetta þýðir ekki að við getum ekki látið neitt í ljósi um það: Við getum það, með því að tengja það öðrum hugtökum eins og skoðun, löngun, orsök og athöfn. Og óskilgreinanleiki sannleikshugtaksins bendir ekki heldur til þess að hugtakið sé dularfullt, margrætt eða óáreiðanlegt.

Jafnvel þótt við séum sannfærð um að sannleikshugtakið verði ekki skilgreint stendur eftir hugboðið eða vonin um að við getum lýst sannleikanum með einhverri fremur einfaldri formúlu. Það sem einkennir mikið af heimspekilegri orðræðu samtímans um sannleikann er að þó svo að margar slíkar formúlur séu á markaðnum, virðist engin þeirra standast nokkuð augljós gagndæmi. Ein afleiðingin hefur verið auknar vinsældir naumhyggjukenninga3 um sannleikann – kenninga sem kveða á um að sannleikur sé tiltölulega léttvægt hugtak með engum „mikilvægum tengslum við önnur hugtök svo sem merkingu og raunveruleika“.4

Ég hef taugar til naumhyggjufólks; tilraunir til þess að þrýsta meira inntaki í sannleikshugtakið eru, að mestu leyti, ekki aðlaðandi. En ég tel að naumhyggjusinnar dragi rangar ályktanir, jafnvel þótt þeir hafi að mestu rétt fyrir sér í því sem þeir hafna. Ég mun ekki staldra hér við til þess að gefa ástæður mínar fyrir því að neita að samþykkja samsvörunarkenningarnar, samkvæmniskenningarnar, gagnhyggju um sannleikann, kenningar sem takmarka sannleikann við það sem hægt væri að fullvissa sig um við kjöraðstæður eða fullyrða með réttlætingu, og þar fram eftir götunum.5 En þar sem ég hallast á sveif með naumhyggjusinnum í því að ég er óánægður með allar slíkar lýsingar á sannleikanum, mun ég segja hvers vegna mér virðist naumhyggjan jafnóásættanleg.

Eins og við vitum hélt Aristóteles því fram að

(1) Að segja um það sem er að það sé ekki, eða um það sem er ekki að það sé, er ósatt, en að segja um það sem er að það sé, eða um það sem er ekki að það sé ekki, er satt.

Þegar Tarski6 minnist á þessa útlistun árið 1944 kvartar hann yfir því að hún sé „ekki nægilega nákvæm og skýr“, þótt hann taki hana fram yfir tvær aðrar:

(2) Sannleikur setningar felst í því að hún samrýmist (eða samsvari) raunveruleikanum.

(3) Setning er sönn ef hún vísar til raunverulegrar stöðu mála.

Árið 1969 vitnar Tarski7 enn í (1) og bætir við,

[Ú]tlistuninni er afar ábótavant hvað nákvæmni og formlegan réttleika varðar. Til að mynda er hún ekki nógu almenn; hún vísar aðeins til setninga sem „segja“ um eitthvað „að það er“ eða „að það er ekki“; í flestum tilfellum væri varla mögulegt að steypa setningu í þetta mót án þess að afbaka merkingu setningarinnar og þvinga anda málsins.

Hann bætir við að þetta kunni að vera ástæðan fyrir slíkum „nútíma staðgenglum“ útlistunar Aristótelesar sem (2) og (3).

Í Wahrheitsbegriff kýs Tarski8 aftur á móti þessa óformlegu framsetningu:

(4) Sönn setning er setning sem segir að staðreyndir séu svona eða hinsegin, og staðreyndirnar eru í raun svona eða hinsegin.

Mér virðist útlistun Aristótelesar augljóslega betri en (2), (3) og (4); hún samrýmist betur skrifum Tarskis sjálfs um sannleikann; og athugasemd Tarskis um að (1) sé „ekki nógu almenn“ er furðanlega úr takti við anda hans eigin skilgreininga á sannleikanum.

(1) er betri en (2)–(4) af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi, (3) og (4) nefna staðreyndir, og gefa þannig til kynna að það gæti reynst gagnleg leið að hlutgera hugtök og láta þau samsvara setningum til að skilgreina sannleikann. („Sönn setning er setning sem samsvarar staðreyndunum“, eða „Ef setning er sönn, er til staða mála sem samsvarar henni“.) En aldrei hefur verið sýnt fram á að staðreyndir eða stöður mála gegni gagnlegu hlutverki í merkingarfræði, og ein sterkustu rökin fyrir skilgreiningu Tarskis eru þau að í henni er ekkert sem fer með hlutverk staðreynda eða staða mála. Þetta kemur ekki á óvart þar sem til er sannfærandi röksemdafærsla, venjulega rakin til Freges (í einu formi) eða Kurts Gödels9 (í öðru formi), sem leiðir af sér að einungis geti verið til ein staðreynd eða staða mála. (Þetta er ástæðan fyrir því að Frege sagði að allar sannar setningar nefndu hið Sanna.) Skilgreining Tarskis á sannleikanum styðst ekki við þá hugmynd að setning „samsvari“ einu eða neinu. Við ættum ekki að taka alvarlega tal Tarskis10 um „stöður mála“ í athugasemdum sem þessum: „[M]erkingarfræðileg hugtök tjá ákveðin tengsl á milli hluta (og stöðu mála) sem vísað er til í málinu sem rætt er um og orðum málsins sem vísa til þessara hluta“.

Önnur ástæða fyrir því að kjósa heldur lýsingu Aristótelesar á sannleikanum er sú að hún forðast vandræðalegar eyður sem ráða má af orðunum „svona eða hinsegin“ í útgáfu Tarskis, (4). Það reynir á mann að sjá hvernig fylla skuli inn í eyðurnar. Útlistun Aristótelesar hljómar, aftur á móti, fremur mikið eins og alhæfing á T-jafngildi Tarskis.

Þriðja ástæðan fyrir því að kjósa heldur lýsingu Aristótelesar er sú að hún gerir ljóst, sem hinar útlistanirnar gera ekki, að sannleikur setningar veltur á innri formgerð setningarinnar, það er að segja á merkingarfræðilegum eiginleikum hluta hennar. Í þessu er hún enn og aftur nær leið Tarskis til þess að nálgast sannleikshugtakið.

T-jafngildi Tarskis, sem hann leggur til af skiljanlegum ástæðum í stað grófu formúlanna sem ég hef verið að ræða, setur sem skilyrði fyrir fullnægjandi skilgreiningu sannleiksumsagnarinnar „er satt“ fyrir mál L verði að skilgreiningin verði að vera slík að af henni leiði allar setningar á forminu

s er satt-í-L ef og aðeins ef p

þar sem „s“ er skipt út fyrir lýsingu setningar, og „p“ er skipt út fyrir þá setningu eða þýðingu setningarinnar yfir á umsagnarmálið. Þar sem gert er ráð fyrir að í L séu óendanlega margar setningar, er augljóst að ef skilgreining sannleiksumsagnarinnar á að vera endanleg (Tarski lagði áherslu á þetta), verður skilgreiningin að nýta sér þá staðreynd að setningar, þó þær séu mögulega óendanlega margar, eru byggðar upp af endanlegum orðaforða. Í öllum málunum sem Tarski hugleiddi, og í þeim sem hann sýndi hvernig ætti að skilgreina sannleikann, er hægt að setja allar setningar á form tilvistarmögnunar, eða neitunar tilvistarmögnunar, eða samsetningar slíkra setninga sem hafa sanngildi. Svo hversu „ófullgerð“ er útlistun (1) Aristótelesar frá sjónarhóli Tarskis? Hún fæst við fjögur tilfelli. Það eru setningar sem „segja um það sem er að það sé ekki“: á nútímamáli er það ósönn setning sem hefst á orðunum „Það er ekki svo að til sé x þannig að …“ Dæmi gæti verið: „Það er ekki svo að til sé x þannig að x = 4“. Síðan eru setningar sem „segja um það sem er ekki að það sé“; til dæmis: „Til er x þannig að x = 4 & x = 5“. Það eru setningar sem „segja um það sem er að það sé“; til dæmis: „Til er x þannig að x = 4“. Og að lokum eru setningar sem „segja um það sem er ekki að það sé ekki“; til dæmis: „Það er ekki svo að til sé x þannig að x ? x“. Samkvæmt hinum sígildu útlistunum eru hinar fyrri tvær tegundir setninga ósannar og síðari tvær tegundirnar sannar. Tarski er að svo stöddu samþykkur. Hverju myndi Tarski bæta við? Einungis sanngildisþáttum (umfram þá er varða neitun) þeirrar tegundar setninga sem þegar hefur verið minnst á; þær eru sannar eða ósannar á grundvelli sanninda eða ósanninda þeirra tegunda setninga sem þegar hefur verið séð fyrir. Tarski sýndi vitaskuld einnig í smáatriðum hvernig sannindi eða ósannindi fyrstu fjögurra setningategundanna velta á byggingu þeirra.

Því má sjá að hin sígilda útlistun sem óformleg lýsing er einungis „ófullgerð“ á smávægilegan hátt miðuð við verk Tarskis sjálfs, og er betri en óformlegar tilraunir Tarskis sjálfs til að setja fram hugmyndina sem byggir á innsæi. Það þarf ekki að taka það fram að einhver kynni að spyrja að hve miklu leyti megi lýsa náttúrulegum tungumálum á fullnægjandi hátt með slíkum takmörkuðum ráðum; en þessi athugasemd á jafnt við um Tarski.

Þrátt fyrir að hann hneigist í átt til samsvörunarkenningarinnar, sem segir setningar samsvara staðreyndum, ber ekki að líta svo á að Tarski veiti alvarlegum áhangendum samsvörunarkenninga hughreystingu, né heldur Aristóteles. Því hvorki formúla Aristótelesar né skilgreining Tarskis á sannleika felur í sér staðreyndir eða stöður mála sem setningar geta samsvarað. Tarski skilgreinir sannleika á grundvelli uppfyllingarhugtaksins, sem tengir fullyrðingar við hluti. En samhengi hlutanna sem uppfyllir setningar á lítið skylt við „staðreyndir“ eða „stöður mála“ hjá þeim sem aðhyllast samsvörunarkenningar um sannleikann, þar eð ef eitthvert samhengi Tarskis uppfyllir lokaða setningu, og gerir hana þar með sanna, þá uppfullir þetta sama samhengi einnig öllar aðrar sannar setningar, og gerir þær þar með einnig sannar. Og ef eitthvert samhengi fullnægir sannri setningu, fullnægir sérhvert samhengi henni.11

Ef Tarski aðhyllist ekki samsvörunarkenningu um sannleikann (og hann aðhyllist svo sannarlega ekki samkvæmniskenningu eða gagnhyggju um sannleikann eða kenningu sem byggir sannleika á leyfi til að staðhæfa), er hann þá naumhyggjumaður? Hér eru mjög skiptar skoðanir: W.V. Quine telur að svo sé, og einnig Scott Soames. John Etchemendy telur að Tarski segi einfaldlega ekkert um sannleikann sem merkingarfræðilegt hugtak, og Hilary Putnam er á sama máli en þó af öðrum ástæðum.12

Ef Tarski er búinn að segja „allt sem segja þarf“ um sannleikann, eins og Stephen Leeds, Paul Horwich og Soames eru allir á einu máli um, og Quine hefur gefið sterklega í skyn, þá er einhvers konar naumhyggjuviðhorf réttlætanlegt; þetta er ekki alveg það sama og ofaukahyggja, en nálægt henni.13 Ofaukahyggjan, tekin bókstaflega, er sama viðhorfið og afvitnunarhyggjan, tekin bókstaflega: Við getum ávallt skipt setningu í tilvitnun sem fylgt er eftir af orðunum „er sönn“ út fyrir sömu setningu án tilvitnanamerkja, án þess að það saki neitt. Það sem Tarski bætti við, eins og Michael Williams og fleiri hafa bent á, er leið til þess að segja um tegundir setninga að þær séu sannar, eða að setningar sem við vitum ekki hvernig við eigum að vísa til séu sannar; það má líta á þetta sem viðauka við ofaukakenninguna þar eð hún leyfir brottnám sannleiksumsagnarinnar þegar henni er beitt á setningar tungumáls sem sú umsögn hefur verið skilgreind fyrir.14

Samtímis því að eigna Tarski heiðurinn á því að hafa sýnt hvernig athugasemdir eins og „Enska setningin sem Joan sagði um Abbot var sönn“ eða „Allt sem Aristóteles sagði (á grísku) var ósatt“ eða „Í hinni hefðbundnu sanntöflu fyrir skilyrðissetningar er sérhver skilyrðissetning sönn, sem hefur ósannan forlið“ geta verið skiljanlegar, verðum við að gangast við því að þessu afreki fylgdi sönnun á því að sannleikann er ekki unnt að skilgreina almennt (að ýmsum trúverðugum forsendum gefnum); það er ekki möguleiki á neinni skilgreiningu á borð við „Fyrir öll tungumál T, og allar setningar s í T gildir að s er sönn í T ef og aðeins ef … s … T …“. Með öðrum orðum gat Tarski ekki réttlætt beitingu sannleiksumsagnar á setningar tiltekins tungumáls nema með því að takmarka beitingu hennar við setningar á því tungumáli. (Það er kaldhæðnislegt að víða í nýlegum skrifum um naumhyggju er litið svo á að Tarski hafi stutt þá hugmynd að til væri eitt, einfalt, jafnvel smávægilegt sannleikshugtak.)

Íhugun á kenningu Tarskis ýtir því ekki undir naumviðhorf til sannleikans. Maður getur tekið sömu afstöðu og Putnam og Etchemendy, að Tarski hafi ekki einu sinni verið að fást við merkingarfræði, þrátt fyrir að hann hafi haldið því fram að hann hafi gert það; en þessi greining á Tarski styður ekki naumhyggju um sannleikann: hún einfaldlega neitar því að niðurstöður Tarskis skipti máli fyrir hefðbundna sannleikshugtakið. Ef maður álítur, á hinn bóginn, að skilgreining Tarskis á sannleikanum hafi eitthvað að segja um tengsl tiltekins tungumáls við heiminn, þá getur maður ekki samtímis haldið því fram að hann hafi sagt okkur allt sem hægt er að vita um sannleikshugtakið, þar sem hann hefur ekki sagt okkur hvað felst í hugtakinu sem er sameiginlegt skilgreiningum hans á sannleika fyrir tiltekin tungumál.

Ég tel að Tarski hafi ekki verið að reyna að skilgreina sannleikshugtakið – svo mikið er ljóst – heldur að hann hafi verið að beita hugtakinu til að lýsa merkingafræðilegri byggingu tiltekinna tungumála. En Tarski gaf ekki til kynna hvernig við eigum almennt að fara að því að smætta sannleikshugtakið í önnur sem eru meiri grundvallarhugtök, né heldur hvernig eigi að fjarlægja íslensku umsögnina „er sönn“ úr hvaða samhengi sem er þar sem henni er beitt á skiljanlegan hátt á setningar. T-jafngildi er ekki grófur staðgengill fyrir almenna skilgreiningu: það er hluti árangursríkrar tilraunar til þess að sannfæra okkur um það að formlegar skilgreiningar hans beiti okkar eina forfræðilega sannleikshugtaki á ákveðin tungumál. Naumhyggjusinnar geta því ekki vísað til Tarskis einfaldlega vegna þess að hann sýndi hvernig ætti að höndla merkingarfræði mögnunar fyrir stök tungumál. Leeds, Horwich, Williams og fleiri, sem hafa fullyrt að það eina sem Tarski hafi gert hafi verið að afhjúpa nytsemi hugtaks sem annars væri hægt að vera án, hafa á röngu að standa. Það er rétt hjá þeim að við þurfum á sannleiksumsögn að halda í þeim tilgangi sem þeir, ásamt Tarski, minnast á; en þeim sést yfir þá augljósu staðreynd að á sama tíma og Tarski leysti einn vanda lagði hann áherslu á annan: að hann hefði ekki, og gæti ekki skilgreint sannleikann eða lýst honum að fullu, að þeim takmörkunum gefnum sem hann kannaðist við.

Quine hefur um árabil sagt margt um sannleikann, en allt frá upphafi hefur gætt að því er virðist staðfastrar trúar á naumhyggju. Quine hefur þannig gert mikið úr afvitnunarþætti sannleiksumsagnarinnar, það er að segja þeirri staðreynd að að við getum losað okkur við umsögnina „er sönn“ á eftir tilvitnun íslenskrar setningar, einfaldlega með því að fjarlægja gæsalappirnar þegar við þurrkum út sannleiksumsögnina. Eins og Quine komst að orði í From a logical Point of View 15, höfum við almenna reglu, nefnilega,

(T) „___“ er satt-í-L ef og aðeins ef –

sem, enda þótt ekki sé hún skilgreining á sannleika, þjónar þeim tilgangi að sjá „satt-í-L“ fyrir

eins miklum skýrleika, í hvaða notkun sem vera skal, eins og einstakar fullyrðingar L, sem við beitum henni á, njóta. Að segja að „Snjór er hvítur“ sé sönn … er okkur alveg jafnskýrt og að eigna snjó hvítleika.

Í Word and Object 16 segir Quine að „það að segja að fullyrðingin „Brútus drap Caesar“ sé sönn, eða að „Atómmassi natríums er 23“ sé sönn, er í raun einfaldlega það að segja að Brútus hafi drepið Caesar, eða að atómmasi natríums sé 23“. Stefið er endurtekið þrjátíu árum síðar í Pursuit of Truth:17

…vissulega verður afvitnunar greinargerðin ekki dregin í efa; því ekki mótmælt að „Snjór er hvítur“ er sönn ef og aðeins ef snjór er hvítur. Ennfremur, þetta er fullbúin greinargerð; hún gerir með skýrum hætti grein fyrir sannindum eða ósannindum sérhverrar skýrrar setningar.

„Sannleikur“ tekur hann saman, „er afvitnun“. Um þetta hefur Quine ekki snúist hugur.

Það er afvitnunarþáttur sannleikans sem gerir sannleikann, að mati Quines, miklu skýrara hugtak en merkingu er. Quine segir, þegar hann ber saman kenningu um merkingu og kenningu um tilvísun, að þær séu „tvö svið sem eru í grundvallaratriðum svo frábrugðin að þau verðskulda alls ekki sameiginlegt nafn“.18 Hið fyrra fáist við gallagripi á borð við samheiti, merkingu og rökhæfingar. Hugtökin sem hið síðara fæst við, þar sem er meðal annars sannleikur, séu á hinn bóginn „mun síður þokukennd og dularfull…“. Því jafnvel þótt „satt-í-L“ fyrir breytuna „L“ sé ekki skilgreinanlegt, er „það sem við höfum nægjanlegt til að gera „satt-í-L“, jafnvel fyrir breytuna „L“, nógu skiljanlegt til þess að við séum ekki líkleg til að vera fráhverf því að nota það orðalag“. „Það sem við höfum“ er að sjálfsögðu reglan (T) og „hin handhæga almenna aðferð“ Tarskis fyrir að skilgreina „satt-í-L“ fyrir tiltekin tungumál.

Afvitnunarþáttur sannleikans, ásamt þeirri hugmynd að hann sé allt og sumt sem varðar sannleikshugtakið, vekur von um að unnt sé að halda sannleika og merkingu algjörlega aðskildum. En er það almennt hægt? Athugasemdir á víð og dreif í verkum Quines benda til annars. Árið 1936 birti Quine hina afburðarsnjöllu og forspáu ritgerð „Truth by Convention“19. Í henni segir hann að „hvað merkingu varðar … má segja að orð sé skilgreint að svo miklu leyti sem sannindi eða ósannindi samhengis þess er skilgreint“. Það er erfitt að sjá hvernig sannleikur gæti haft þennan mátt til þess að ákvarða merkingu ef greinargerðin fyrir afvitnun er allt og sumt sem segja þarf um sannleikann. Aðrir kaflar hjá Quine benda til sömu hugmyndar: „Þegar við lærum tungumál erum við fyrst og fremst að læra hvernig dreifa skal sanngildi. Hér fylgi ég Davidson; við erum að læra sannkjör“.20Eða aftur, „Kenning Tarskis um sannleikann [er] formgerð kenningar um merkingu“.21

Upp að vissu marki gæti virst sem svo að auðvelt sé að halda aðgreindum spurningum um sannleika og spurningum um merkingu. Við getum litið á sannleikann sem afvitnanun (í hinum víðari skilningi Tarskis) og þar af leiðandi lítilsverðan; merking er þá annað mál, sem á að afgreiða með réttmæti í ljósi sagnkjara, hlutverki eða viðmiðunum fyrir þýðingu. Þessari línu fylgja til dæmis Horwich í bók sinni Truth frá 1990, Soames22 og Lewis.23 Þetta gæti, að minnsta kosti einhvern tímann, hafa verið skoðun Quines. Í Word and Object, í kafla sem er næst á undan þeirri athugasemd að það að segja að setningin „Brútus drap Caesar“ sé sönn sé í raun að segja einfaldlega að Brútus hafi drepið Caesar, er Quine vonlaus um innihaldsríkt sannleikshugtak og dregur þá ályktun að við fáum einungis vit í sannleiksumsögn þegar við beitum henni á setningu „með tilliti til gefinnar kenningar, og sem er séð innan kenningarinnar“.24 Þetta er, held ég, það sem Quine á við þegar hann segir að sannleikur sé „sé innan máls“. Hann á ekki einvörðungu við að sannleikur setningar sé afstæður við tungumál; hann er sá að það er ekkert eitt hugtak hafið yfir einstök mál til að vera afstætt.25

Nýverið hefur Quine aftur á móti brotið heilann um að sannleikur „það sé eitthvað háleitt við sannleikann. Leitin að honum er göfug leit, og tekur ekki enda“; hann virðist sammála: „Vísindin eru talin leita og uppgötva sannleika fremur en að úrskurða hann. Þannig er orðfæri hluthyggju, og þetta er ómissandi í merkingarfræði umsagnarinnar „satt“.26

Ég sný mér nú að útgáfu Horwich af naumhyggju, því hann virðist mér hafa tekið áskoruninni sem aðrir naumhyggjusinnar hafa forðast, þeirri að segja eitthvað meira um óafstætt sannleikshugtak en við getum lært af skilgreiningum Tarskis. Djarfur og sláandi leikur Horwich er að gera staðhæfingar að aðalsannberunum – ekki beint ný hugmynd í sjálfu sér, en ný í samhengi alvarlegrar tilraunar til að verja naumhyggju. Hann tekur það skýrt fram að hann geti ekki reitt fram skýra skilgreiningu á sannleiksumsögn sem nær til staðhæfinga, en hann leggur áherslu á að við höfum í raun og veru sagt allt sem sagt verður um slíkar umsagnir (og því um eiginleikann sem þær vísa til) þegar við skiljum þá staðreynd að „óumdeilar“ setningar með gripinu:

Staðhæfingin að p er sönn ef og aðeins ef p

gera efninu fullkomin skil. (Takmörkuninni við „óumdeildar setningar“ er ætlað að útiloka hvaðeina sem leiðir til þversagnar.) Gripið er frumsetningargrip: allar einstöku setningarnar eru frumsetningar í kenningu hans.

Þessi kenning er, auðvitað, ekki fullbúin fyrr en gerð er grein fyrir umdeildum tilvikum með einhverjum þeim hætti sem gefur sér ekki það sem sanna skal; og þar sem frumsetningarnar eru óendanlega margar uppfyllir hún ekki eina af kröfum Tarskis til fullnægjandi kenningar um sannleikann. En ef til vill má vinna bug á fyrri vandanum og það má líta á hinn síðari sem verðið sem við greiðum fyrir óafstætt sannleikshugtak. Ennfremur eru efasemdirnar sem mörg okkar hafa um tilvist staðhæfinga, eða að minnsta kosti um tilvist reglna sem gera okkur kleift að greina eina staðhæfingu frá annarri.

Öll þessi atriði gera mig hikandi, en ég mun líta framhjá þeim hér. Ég vil gefa naumhyggjunni sem allra besta möguleika, þar sem mér virðist hún vera eini kosturinn annar en innihaldsríkari kenning um sannleikann, og flestar hinna innihaldsríkari kenninga eru að mínu mati, líkt og að mati Horwich, augljóslega misheppnaðar. En jafnvel þótt ég taki ákafur undir rök hans gegn samsvörunar- og samkvæmniskenningum, gagnhyggju og þekkingarfræðilegum kenningum, þá get ég ekki fengið mig til að fallast á naumhyggjukenningu Horwich.

Tvö grundvallaratriði í kenningu Horwich valda mér vandræðum. Hvort atriðið um sig er nægjanleg ástæða til að hafna henni ef ekki er unnt að leysa vandann; og ég kem ekki sjálfur auga á hvernig skuli leysa hann.

Fyrra vandamálið er auðvelt að setja fram: Ég skil ekki hina almennu frumsetningareglu né einstök tilfelli hennar. Það hjálpar mér að koma orðum að vanda mínum að bera saman frumsetningareglu Horwich og óformlegu regluna hans Tarskis (sem að lokum var skipt út):

„—“ er satt ef og aðeins ef —

Mótbára Tarskis (meðal annarra) er sú að maður geti ekki gert úr þessu skilgreiningu nema með því að magna27 inn í stöðu innan gæsalappanna. Mótmælin enda uppi með spurningu um skýrleika tilvitnana: Hvernig veltur það sem þær vísa til á merkingarfræðilegum eiginleikum þess sem myndar þær? Stundum hefur verið stungið upp á því að höfða til innsetningarmögnunar og maður getur furðað sig á því hvers vegna Horwich geti ekki alhæft reglu sína:

(p) (staðhæfingin að p er sönn ef og aðeins ef p)

með því að notast við innsetningarmögnun. En Horwich útskýrir hér, sem er alveg rétt, að hann geti ekki höfðað til innsetningarmögnunar til að útskýra sannleikann, þar eð innsetningarmögnun verður að útskýra með því að höfða til sannleikans.

En hvers vegna reynir Horwich ekki að alhæfa reglu sína með því að magnastaðhæfingar? Svarið ætti að vera: því þá yrðum við að líta á venjulegar setningar sem einstök nöfn sem vísa til staðhæfinga, en ekki þannig að þær tjáistaðhæfingar. Þá er ég kominn að höfuðatriðinu: Hvernig ber okkur að skilja orðasambönd eins og „staðhæfingin að Sókrates er vitur“? Þegar við gerum venjulega grein fyrir merkingarfræði setningarinnar „Sókrates er vitur“, nýtum við okkur það sem nafnið „Sókrates“ nefnir, og það sem umsögnin „er vitur“ er sönn um. En hvernig getum við nýtt okkur þessa merkingarfræðilegu eiginleika setningarinnar „Sókrates er vitur“ til þess að gefa til kynna tilvísun orðanna „staðhæfingin að Sókrates er vitur“? Horwich leiðbeinir okkur í engu hér. Gætum við sagt að orðasambönd á borð við „staðhæfingin að Sókrates er vitur“ séu án merkingarfræðilegrar formgerðar, eða í það minnsta að eftir orðunum „staðhæfingin að“ (tekin sem orðasamband sem gegnir ákveðnu hlutverki) verði setning að óformgerðu nafni þeirrar staðhæfingar sem hún tjáir? Ef við tækjum þennan pól í hæðina myndum við enda uppi með óendanlega stóran frumstæðan orðaforða, og það að orðin „Sókrates er vitur“ birtust tvisvar í frumsetningareglunni myndi myndi ekki stoða á nokkurn hátt við að skilja frumsetningaregluna né einstök tilvik hennar. Önnur uppástunga gæti verið á þá leið að við breyttum reglunni þannig að hún segði:

Staðhæfingin sem setningin „Sókrates er vitur“ tjáir er sönn ef og aðeins ef Sókrates er vitur.

En ef við samþykktum þessa hugmynd yrðum við að gera setninguna sem vitnað er í afstæða við tungumál, nokkuð sem Horwich þarf að komast hjá.

Leyfið mér að orða mómæli mín stuttlega með eftirfarandi hætti: Sama setningin kemur fyrir tvisvar í tilfellum af reglu Horwich, einu sinni á eftir orðunum „staðhæfingin að“, í samhengi sem krefst þess að það sem á eftir kemur sé einstakt nafn, frumlag umsagnar, og einu sinni sem venjuleg setning. Við getum ekki losað okkur við þessa endurtekningu sömu setningarinnar án þess að eyðileggja öll einkenni kenningar. En við getum ekki skilið tilgang endurtekningarinnar nema við komum auga á hvernig við getum nýtt okkur sömu merkingarfræðilegu eiginleika hinnar endurteknu setningar í bæði skiptin sem hún kemur fyrir – hvernig við getum nýtt okkur þá þegar við gerum grein fyrir merkingarfræðinni í einstökum tilfellum reglunnar. Ég sé ekki hvernig unnt er að gera þetta.

Seinni vandræði mín með kenningu Horwich velta meira á frekari sannfæringu minni og skuldbindingum. Horwich viðurkennir að til þess að halda því fram að sannleikur hafi, eins og hann orðar það, „ákveðinn hreinleika“, þurfi hann að sýna að við getum skilið hann að fullu í einangrun frá öðrum hugmyndum, og að við getum skilið aðrar hugmyndir einangraðar frá honum. Hann segir ekki að engin tengls séu á milli sannleikshugtaksins og annarra hugtaka; aðeins að við getum hent reiður á þessum hugtökum án tillits til annarra hugtaka. Það eru nokkur mikilvæg tilfelli að mínu mati, þar sem ég tel að við getum ekki hent reiður á merkingu né neinum sálarlífsfyrirbærum eins og skoðun eða löngun án sannleikshugtaksins. Leyfið mér að taka eitt þeirra sem dæmi: merkingu.

Þar sem Horwich telur að sannleika beri fyrst og fremst að eigna staðhæfingum, verður hann að útskýra hvernig við getum einnig eignað hann setningum og mæltu máli, og hann sér að til þess að útskýra þetta án þess að fórna sjálfstæði sannleikans, verðum við að skilja merkingu án þess að höfða beint til sannleikshugtaksins. Um þetta mikilvæga atriði er Horwich stuttorður, jafnvel fáorður. Það að skilja setningu, segir hann, felst ekki í því að þekkja sannkjör hennar, þótt við vitum venjulega hver sannkjör hennar eru þegar við skiljum setningu. Hann segir að það að skilja setningu felist í því að þekkja „sagnkjör hennar“ (eða „rétta notkun“). Hann játar að þessi skilyrði geti falið í sér að setningin (eða hið mælta mál) sé sönn. Ég játa að ég kem ekki auga á hvernig við getum skilið setningu án þess að hafa sannleikshugtakið, ef sannleikur er skilyrði þess að geta fullyrt hana og að þekkja sagnkjör er að skilja.

Ég geri mér hins vegar ljóst að þetta er umdeilt svæði og að miklir hugsuðir á borð við Michael Dummett, Putnam og Soames, fylgjandi ýmsum uppástungum Ludwigs Wittgensteins og H.P. Grice, trúa því að greinargerð fyrir merkingu geti velt á segjanleika eða á notkun sem höfðar ekki til til sannleikshugtaksins.28

Vonir mínar standa í þveröfuga átt: Ég held að fullyrðingar af því tagi sem tengjast skilningi hafi þegar að geyma sannleikshugtakið: við höfum rétt til þess að fullyrða setningu í þessum skilningi aðeins ef við trúum því að setningin sé sönn; og það sem á endanum tengir tungumálið heiminum er það að þau skilyrði sem valda því venjulega að við teljum setningar sannar, mynda sannkjörin, og þar með merkingu, setninga okkar. Þetta er ekki staður til þess að færa rök fyrir þessu. Því nú verð ég að segja einfaldlega að það væri leitt ef við yrðum að þróa kenningu um merkingu fyrir mælanda eða tungumál óháð kenningu um sannleikann fyrir mælandann eða tungumálið, þar eð við höfum í það minnsta einhverja hugmynd um hvernig megi smíða kenningu um sannleikann, en enga raunverulega hugmynd um hvernig eigi að smíða kenningu um merkingu sem byggir á fullyrðingar- eða notkunarhugtaki.

Ég dreg þá ályktun að framtíðarhorfur naumhyggjukenningar séu myrkar. Aðdráttarafl hennar virðist mér algjörlega neikvætt: hún forðast, eða reynir í það minnsta að forðast, vel merktar blindgötur og auðkennanlegar gryfjur.

Leyfið mér að stinga upp á greiningu á ógöngum okkar varðandi sannleikann. Við erum enn undir áhrifum þeirrar sókratísku hugmyndar að við verðum að spyrja áfram um eðli hugmyndar, með öðrum orðum um greiningu sem skiptir máli, svar við spurningunni hvað gerir þessa athöfn guðrækna, hvað gerir þessa setningu, eða hvaða setningu sem er, mælt mál, skoðun eða staðhæfingu sanna. Við föllum enn fyrir nýnemarökvillunni sem krefst þess að við skilgreinum hugtök okkar áður en við segjum nokkuð meira með þeim eða um þau.

Það getur virst meiningarlaust að gera svo mikið úr hvötinni til þess að skilgreina sannleikann þegar óljóst er hver er að reyna það: ekki Tarski, sem sannar að það sé ógerlegt; ekki Horwich, sem hafnar tilrauninni. Hver játar þá að hann vilji skilgreina sannleikshugtakið? Jæja, það er rétt. En. En sama ljóta hvötin til skilgreiningar skýtur upp kollinum í gervi þess að reyna að veita lítinn mælikvarða, reglu, ófullkomna en leiðandi vísbendingu, í stað strangrar skilgreiningar. Síðan Tarski birti greinar sínar erum við tortryggin í garð orðsins „skilgreining“ þegar við hugleiðum sannleikshugtak sem er ekki afstætt við tungumál, en við höfum ekki losað okkur við skilgreiningarhvötina. Þannig álít ég reglu Horwich í þessu tilliti í flokki með hugmynd Dummetts um réttmæti í ljósi sagnkjara, fullkomnu réttmæti í ljósi sagnkjara hjá Putnam, og ýmsum útgáfum samsvörunar- og samkvæmniskenninga um sannleikann. Ég álít þær allar vera, ef ekki tilraunir til skilgreiningar í ströngum skilningi, þá tilraunir til að koma í stað skilgreininga. Í tilfelli sannleikans er enginn lítill staðgengill.

Nú vil ég lýsa því sem ég tel vera nokkuð róttækan kost annan en þær kenningar sem ég hef verið að ræða (í ótilhlýðilegu snatri) og hafnað. Það sem ég legg áherslu á hér er aðferðafræðin sem ég tel að þörf sé á fremur en ítarlegri greinargerð sem ég hef gefið annars staðar. Aðferðafræðinni má lýsa neikvætt með því að segja að hún bjóði ekki fram neina skilgreiningu á sannleikshugtakinu, né neina hálfskilgreiningu í formi orðasambands, frumsetningarreglu eða annars fyrirferðalítils staðgengils fyrir skilgreiningu. uppbyggilega tillagan er að freista þess að rekja tengslin milli sannleikshugtaksins og þeirra mannlegu viðhorfa og athafna sem gefa því mynd.

Aðferðafræðilegur innblástur minn kemur frá kenningum um mælingu, eða ýmis vísindi, með endanlegum fjölda frumsetninga, kenningum sem setja einu eða fleiri óskilgreindum hugtökum skýr takmörk, og sanna síðan að sérhver eftirgerð slíkrar kenningar hafi til að bera eiginleika sem við sjáum í hendi okkar að eru æskilegir – að það sé nægjanlegt þeim tilgangi sem henni er ætlað. Þar sem sértæk fyrirbæri verða í innbyrðis afstöðu af alls kyns tagi á meðal eftirgerðanna, og endalaus og óvelkomin mynstur atburða og fyrirbæra verða fyrir henni í reynslunni, má beita kenningunni á fyrirbæri eins og massa og hitastig, eða prófa hana með tilliti þeirra einungis með því að gefa til kynna hvernig kenningunni skal beitt á hluti og atburði við hæfi. Við getum ekki farið fram á nákvæmar leiðbeiningar um hvernig skal gera þetta; að finna gagnlega aðferð til að beita kenningunni er uppátæki sem fylgir því að fikta í formlegu kenningunni og athuga stenst eins og hún er túlkuð.

Við höfum áhuga á sannleikshugtakinu einungis vegna þess að það eru raunverulegir atburðir, hlutir og aðstæður í heiminum til að beita því á: mælt mál, ritað mál, skoðanir. Ef við skildum ekki hvað það væri fyrir slík fyrirbæri að vera sönn, þá gætum við ekki lýst innihaldi þeirra. Og því verðum við að gefa til kynna, auk hinnar formlegu sannleikskenningar, hvernig eigi að segja um þessi reynslufyrirbæri að þau séu sönn.

Í skilgreiningu Tarskis er hvergi minnst á mál er tengjast reynslu, en okkur er frjálst að spyrja um slíka skilgreiningu, hvort hún komi heim og saman við raunverulegar venjur einhvers mælanda eða hóps mælanda – við getum spyrt hvort þeir tali tungumálið sem kenningin hefur verið skilgreind fyrir. Það er ekkert við skilgreiningar Tarskis sem hindrar okkur í því að fara svona með þær nema þeir hleypidómar að ef eitthvað er nefnt skilgreining sé hæpið að spyrja hvort það sé „rétt“. Til þess að losa okkur við hleypidómana legg ég til að við sleppum síðasta skrefinu í skilgreiningum Tarskis, skrefinu sem breytir frumsetningum hans í skýrar skilgreiningar. Þá getum við með góðri samvisku nefnt hina geldu skilgreiningu kenningu, og fallist á að sannleiksumsögnin er óskilgreind. Þessi óskilgreinda umsögn tjáir hið almenna hugtak, byggt á innsæi, sem beita má á hvaða tungumál sem er, hugtakið sem við höfum ávallt haft til hliðsjónar í laumi þegar við höfum prófað skilgreiningar Tarskis (eins og hann bauð okkur auðvitað að gera).

Við vitum heilmargt um það hvernig þetta hugtak kemur heim og saman við tal og skoðanir og athafnir manna. Við notum það til að túlka mál þeirra og skoðanir með því að ætla þeim sannkjör, og við leggjum mat á þessar athafnir og þessi viðhorf með því að meta hversu líklegt er að þau séu sönn. Reynsluspurningin er sú hvernig eigi að ákvarða, með athugunum og tilleiðslu, hver er sannkjör sannbera sem við höfum reynslu af. Það er þess virði að leggja á það áherslu: án þessa reynsluþáttar hefur sannleikshugtakið ekkert notagildi, og er ekki áhugavert, fyrir hversdagslega umsýslan okkar, né, að því er ég fæ séð, hefur það nokkurt innihald yfirleitt.

Íhugið þessa líkingu: Ég lít á sannleikann eins og Frank Ramsey leit á sennileika. Hann sannfærðist, og ekki óskynsamlega, um að sennileikahugtakið eigi fyrst og fremst við um viðhorf fólks; það mælir stig sannfæringar. Hann spurði sig áfram: Hvernig getum við fengið vit í hugmyndina um stig sannfæringar (huglægan sennileika)? Huglægur sennileiki eru ekki mælanleg, hvorki af gerandanum sem gælir við hugmynd án fullrar sannfæringar en án algers efa, né af öðrum sem sjá hann og spyrja. Ramsey gerði því frumsetningar úr mynstri þeirra óska sem fullkominn gerandi hefði, sem, meira eða minna eins og við hin, lagar óskir sínar um sannleika staðhæfinga (eða stöðu mála eða atburði) að gildismati sínu og skoðunum. Hann setti fram skilyrðin fyrir því að mynstur slíkra óska myndi vera „skynsamlegt“, og sannaði í reyndar að ef þessi skilyrði væru uppfyllt, þá gæti maður leitt af óskum gerandans styrkleika þeirra í samanburði við aðrar óskir hans, og eins styrkleika huglægs sennileika þessa geranda í samanburði við aðrar skoðanir hans. Ramsey taldi ekki að allir væru fullkomlega skynsamir í þessum skilningi sem gengið er út frá, en hann gerði ráð fyrir að fólk sé það nægilega, á endanum, til þess að kenning hans léði hinu huglæga líkindahugtaki innihald – eða líkindahugtakinu eins og hann leit á það.

Snilldarherbragð! (Hvort sem það gefur rétta greiningu á sennileika eða ekki.) Sennileikahugtakið – eða í það minnsta hugmyndin um sannfæringarstig – ómælanlegt af gerandanum sem hefur það og af þeim sem fylgjast með honum, er tengt jafnfræðilegri hugmynd um heildarnotagildi, eða huglægt mat, og hvort tveggja er svo tengt venjulegri ósk með afleiðslukerfinu. Venjuleg ósk gefur svo aftur hinn mikilvæga reynslugrunn þar sem hún birtist í raunverulegu vali.

Við ættum að hugsa um kenningu um sannleikann fyrir mælanda á sama hátt og við hugsum um kenningu um skynsamlega ákvörðun: báðar lýsa byggingum sem við getum, með því að sníða að og afbaka í leyfilegum mæli, fundið í hegðun hjá meira eða minna skynsamlegum verum gæddum máli. Það er með því að sníða til og afbaka sem við ljáum hinum óskilgreindu hugtökum huglægs sennileika og huglægs gildismats – skoðana og langana, eins og við köllum þau í stuttu máli – innihald; og með kenningum á borð við kenningu Tarskis hinu óskilgreinda sannleikshugtaki.

Lokaathugasemd. Ég hef viljandi gert því skóna að vandinn við að ljá sannleikshugtakinu reynsluinntak sé einfaldari en hann er. Það væri tiltölulegaauðvelt ef við gætum fylgst með því beint – tekið sem grundvallarvitnisburð – hvað fólk meinar með því sem það segir. En meining er ekki einungis óljósara hugtak en sannleikshugtakið; það felur það greinilega í sér: ef þú veist hvað setning þýðir, þá þekkirðu sannkjör hennar. Vandinn er að ljá hvaða íbyggna sálarlífsfyrirbæri sem er inntak: skoðunum, löngunum, ætlunum, meiningu.

Ég álít því vandann við að tengja sannleikann sjáanlegri mannlegri hegðun vera óaðskiljanlegan frá vandanum við að ljá öllum afstöðunum innihald, og þetta virðist mér þarfnast við kenningar sem fellir kenningu um sannleikann inn í umfangsmeiri kenningu sem inniheldur ákvörðunarfræðina sjálfa. Niðurstaðan mun innihalda helstu staðla skynseminnar, en raungerving hennar að hluta til í hugsunum og hegðun gerenda, gerir þá gerendur meira eða minna skiljanlega fyrir aðra. Ef þessi gildisvísandi bygging er ægilega flókin, getum við huggað okkur við þá staðreynd að þeim mun flóknari sem hún er, þeim mun meiri möguleika höfum við á að túlka birtingarform hennar sem hugsun og merkingarbært tal og viljandi athöfn, að einungis dreifðum brotum af vægt túlkuðum vitnisburði gefnum.

Geir Þ. Þórarinsson þýddi.

 

Tilvísanir

1. [Greinin birtist fyrst í Journal of Philosophy, 93 (6) (1996) 263–278, en er endurprentuð hjá Simon Blackburn og Keith Simmons (ritstj.), Truth (Oxford: Oxford University Press, 1999) og verður einnig að finna í væntanlegu greinasafni Davidsons, Truth, Language and History. Hún birtist hér með góðfúslegu leyfi höfundar sem er einnig handhafi höfundarréttar. Þorsteinn Gylfason var þýðanda innan handar, las yfir þýðinguna alla og færði margt til betri vegar. Er honum hjartanlega þakkað fyrir það. Eigi að síður ber þýðandi einn ábyrgð á öllum villum sem kunna að leynast í þýðingunni (þýð.)].

2. [George Edward Moore (1873–1958) var breskur heimspekingur. Hann er einn af upphafsmönnum rökgreiningarheimspeki (analýtískri heimspeki) ásamt þeim Bertrand Russell og Gottlob Frege.Bertrand Arthur William Russell (1872–1970) var breskur heimspekingur og rökfræðingur. Hann samdi mikinn fjölda bóka og fékk bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1950 fyrir skrif sín. Til er þýðing á riti hans Þjóðfélaginu og einstaklingnum (Authority and the Individual) sem unnin var af Sveini Ásgeirssyni og gefin út hjá Bókaútgáfunni Degi 1951. Einnig er til þýðing á riti hans Uppeldinu (On Education) sem unnin var af Ármanni Halldórssyni og Ólafur Egilsson gaf út árið 1937. Þá hefur mikilvæg grein eftir Russell, „Um tilvísun“ („On Denoting“) verið þýdd af Ólafi Páli Jónssyni og gefin út í greinarsafninu Heimspeki á tuttugustu öld sem Einar Logi Vignisson og Ólafur Páll Jónsson ritstýrðu og Heimskringla gaf út 1994.Friedrich Ludwig Gottlob Frege (1848–1925) var þýskur stærðfræðingur og rökfræðingur og hefur verið nefndur faðir nútímarökfræði. Bók hans Undirstöður reikningslistarinnar (Grundlagen der Arithmetik) hefur verið þýdd af Kristjáni Kristjánssyni og gefin út af Hinu íslenzka bókmenntafélagi. Einnig hefur grein hans „Skilningur og merking“ verið þýdd af Guðmundi Heiðari Frímannssyni og gefin út hjá Einari Loga og Ólafi Páli í greinarsafninu Heimspeki á tuttugustu öld.Alfred Tarski (1902–1983) var pólskur stærðfræðingur og rökfræðingur. Grein hans „Merkingarfræðilega hugmyndin um sannleikann og undirstöður merkingarfræðinnar“ („The Semantic Conception of Truth and the Foundations of Semantics“) er til í íslenskri þýðingu Ástu Kristjönu Sveinsdóttur og Arnórs Hannibalssonar hjá Einari Loga og Ólafi Páli í greinarsafninu Heimspeki á tuttugustu öld. (þýð.)].

3. [Orðið „naumhyggja“ er hér notað til þýðingar á „minimalism“ og „deflationism“, sem einnig mætti nefna úrdráttarhyggju. (þýð.)].

4. Þessi orð eru höfð eftir ummælum Michaels Dummetts á bókarkápu Truth eftir Paul Horwich (Oxford, 1990). Þetta er auðvitað ekki skoðun Dummetts.

5. Ég útlista ítarlega rök mín fyrir því að hafna slíkum skoðunum í „The Structure and Content of Truth“, Journal of Philosophy, 87/6 (júní 1990), 279–328.

6. „Merkingarfræðilega hugmyndin um sannleikann og undirstöður merkingarfræðinnar“ [í íslenskri þýðingu hjá Einari Loga Vignissyni og Ólafi Páli Jónssyni (ritstj.) Heimspeki á tuttugustu öld (Reykjavík; Heimskringla, 1994) (þýð.)].

7. „Truth and Proof“, Scientific American, 220 (1969) 63–77; tilvitnun frá bls. 63.

8. „The Concept of Truth in a Formalized Languages“, í Logic, Semantics, Mathematics (2. útg.), þýð. J.H. Woodger og ritstj. John Conoran (Indianapolis: Hackett, 1983), 153–278 (1. útg. á þýsku árið 1936); tilvitnun frá bls. 155.

9. [Kurt Gödel (1906–1978) var tékkneskur stærðfræðingur og rökfræðingur sem vann lengst af við Princetonháskóla í Bandaríkjunum. (þýð.)]

10. „The Establishment of Scientific Semantics“, í Logic, Semantics, Mathematics, 401–8; tilvitnun frá bls. 403.

11. Eitt sinn stakk ég upp á því að sannleikshugtak Tarskis yrði kallað samsvörunarkenning um sannleikann vegna mikilvægis hlutverksins sem samhengi fer með við að uppfylla lokaðar setningar, en ég dró síðar tillöguna til baka þar sem hún er villandi. Um tillöguna, sjá „True to the Facts“, í Inquiries into Truth and Interpretation (New York, 1984 (2. útg. 2001)). Um afturköllunina, sjá „Afterthoughts, 1987“ hjá A. Malichowski (ritstj.), Reading Rorty (Cambridge, 1990), 120–138.

12. Tilvísanir og frekari umræða, sjá Davidson, „Structure and Content of Truth“.[W.V.O. Quine (1908–2000) var prófessor á Harvardháskóla, kennari Davidsons og einn áhrifamesti heimspekingur á síðari hluta 20. aldar. Ritgerð hans „Um það sem er“ („On What There Is“) hefur birst í íslenskri þýðingu Árna Finnssonar hjá Einari Loga og Ólafi Páli í Heimspeki á tuttugustu öld. Önnur og jafnvel áhrifameiri ritgerð Quines „Tvær kreddur raunhyggjumanna“ („Two Dogmas of Empiricism“) hefur einnig birst á íslensku í þýðingu Þorsteins Hilmarssonar í Hug, tímariti um heimspeki 3.–4. árg. (1990–1991) 30–55.Scott Soames er prófessor í heimspeki á Princetonháskóla. Hann fæst einkum við málspeki og sögu rökgreiningarheimspekinnar.John Ethcemendy er prófessor í heimspeki á Stanfordháskóla. Hann færst einkum við rökfræði, merkingarfræði og málspeki.Hilary Putnam (1926– ) er prófessor emeritus í heimspeki á Harvardháskóla. Hann varð fyrir miklum áhrifum frá rökfræðilegri raunhyggju einkum frá kennara sínum Rudolfi Carnap en hefur síðar gerts gagnrýnandi þeirrar hefðar. (þýð.)].

13. [Stephen Leeds er prófessor í heimspeki við Coloradoháskóla í Boulder. Hann fæst einkum við þekkingarfræði og frumspeki, vísindaheimspeki og heimspeki eðlisfræðinnar.Paul Horwich (1947– ) er prófessor í heimspeki við University College, London en kenndi áður við Massachusetts Institute of Techology. Hann fæst einkum við vísindaheimspeki og málspeki og þá sérstaklega sannleikshugtakið. (þýð.)].

14. [Michael Williams er prófessor í heimspeki við Johns Hopkins háskóla í Baltimore. Hann fæst einkum við þekkingarfræði og málspeki. (þýð.)].

15. (Cambridge, Mass., 1953); tilvitnun frá bls.138.

16. (Cambridge, Mass., 1960); tilvitnun frá bls.24.

17. (Cambridge, Mass., 1990); tilvitnanir frá bls.93 og 80.

18. From a logical Point of View; tilvitnanir frá bls. 130 og 137–8.

19. Endurpr. Í The Ways of Paradox (Cambridge, Mass., 1976); tilvitnun frá bls. 89.

20. The Roots of Reference (La Salle, Ill., 1974), 65.

21. „On the Very Idea of a Third Dogma“ í Theories and Things (Cambridge, Mass., 1981), 38.

22. „What is a Theory of Truth?“, Journal of Philosophy, 81/8 (ág., 1984), 411–29.

23. „Languages and Language“, Minnesota Studies in the Philosophy of Science, vii (Minneapolis, 1975). [David Kellog Lewis (1941– ) var lengst af prófessor í heimspeki við Princetonháskóla. Hann hefur einkum fengist við frumspeki. málspeki og heimspekilega rökfræði og er e.t.v. frægastur fyrir framlag sitt í háttarökfræði. (þýð.)].

24. Word and Object, 24.

25. Undanfarandi efnisgreinar um Quine eru að hluta til tilvitnanir og að hluta til aðlagaðir kaflar frá lengri og ítarlegri rannsókn á Quine um sannleikann: „Pursuit of the Concept of Truth“, hjá P. Leonardi og M. Santambrogia (ritstj.), Um Quine: Nýjar ritgerðir (New York, 1995). Blaðsíðurnar sem um ræðir eru 7–10.

26. From stimulus to Science (Cambridge, Mass., 1995), 67.

27. [Sögnin „að magna“ er hér notuð til þýðingar á „quantify“ í ensku, „innsetningarmögnun“ er þýðing á „substitutional quantification“, og „tilvistarmögnun“ á „existential quantification“ (þýð.)].

28. [Michael Dummett (1925– ) er á meðal merkari heimspekinga Breta á síðari hluta 20. aldar. Hann hefur fengist mest við málspeki, rökfræði og heimspeki stærðfræðinnar en er einnig þekktur fyrir túlkun sína á heimspeki Gottlobs Frege (um Frege, sjá nmgr. 2 að ofan.).Ludwig Wittgenstein (1889–1951) er líklega áhrifamesti heimspekingur 20. aldar. Hann var nemandi og samstarfsmaður Bertrands Russells (um Russell, sjá nmgr. 2 að ofan). Til er íslensk þýðing eftir Þorberg Þórsson á einu verka hans, Bláu bókinni (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1998). Einnig er „Fyrirlestur um siðfræði“ að finna í íslenskri þýðingu Þorsteins Gylfasonar hjá Einari Loga og Ólafi Páli í Heimspeki á tuttugustu öld.H. Paul Grice (1913–1988) var enskur heimspekingur. Hann prófessor við Oxfordháskóla og síðar við Berkeleyháskóla í Bandaríkjunum. Þekktastur er hann fyrir kenningar sínar um merkingu. (þýð.)].

 

« Til baka