Raunverulegt frelsi

Raunverulegt frelsi1

Frelsi: jákvætt eða neikvætt?

eftir Maurice Cranston

 

Í fyrirlestri sínum ‘Tvö hugtök um frelsi’ ber Sir Isaiah Berlin það sem hann kallar „hugmyndina um neikvætt frelsi“ saman við „hugmyndina um jákvætt frelsi“.2 Neikvætt frelsi er frelsið sem Leibniz er reiðubúinn að veita Adam: „Hugleiðið Adam rétt áður en hann syndgaði. Honum er frjálst að gera það sem hann vill. Hvers meira getur hann beðið?“

Um jákvætt frelsi, eða frjálsræði, skrifar Berlin:

Hin ‘jákvæða’ merking orðsins ‘frelsi’ á rætur að rekja til þeirrar óskar einstaklings að vera sinn eigin herra. Ég vil að líf mitt og ákvarðanir séu undir mér sjálfum komnar, en ekki ytri öflum af neinu tæi. Ég vil vera verkfæri míns eigin vilja, ekki vilja annarra manna. Ég vil vera sjálf en ekki hlutur, vil hrærast af ástæðum, af meðvituðum ætlunum sem eru mínar eigin, en ekki af ytri orsökum, ef svo má að orði kveða. Ég vil vera einhver en ekki enginn. Ég vil vera gerandi sem tekur sjálfur ákvarðanir og stjórnar sér sjálfur en lætur ekki stjórnast af ytri náttúru eða öðrum mönnum eins og hann væri hlutur, dýr eða þræll sem er ófær um að gegna mannlegu hlutverki og setja sér sín eigin markmið og lífsreglur og framfylgja þeim. Þetta er alltént hluti þess sem ég á við þegar ég segi að ég sé vitiborinn og að vit mitt greini mig sem mannveru frá öllu öðru í heiminum.

Það er áherslan á vitið sem gerir þetta að meira en aðeins jákvæðri framsetningu á sömu óskinni um frelsi og lýst er á neikvæðan hátt með því að segja að ekki sé um að ræða þvingun eða nauðung. Sé litið á vitið, ekki eins og David Hume (1711–1776) hugsaði sér það, sem „ambátt ástríðnanna“, heldur sem hæfileiki sem getur ákveðið sín eigin markmið þá er möguleiki á togstreitu milli málsvara neikvæðs frelsis (óhindraðrar fullnægingar náttúrlegra hneigða) og jákvæðs frelsis (til dæmis að raungera hið ‘sanna’ eðli mannsins). Enda má líta svo á að hið sanna eðli mannsins sé ekki eðli einstaklings heldur eðli samfélagsmeðlims. Þá kann það sem eru hagsmunir hans sem einstaklings að vera víðs fjarri því sem eru sannir hagsmunir hans sem samfélagsmeðlims. Ennfremur getur verið að vitsmunahæfileiki hans sé ekki nægilega þroskaður til að hann beri kennsl á hina sönnu hagsmuni sína. Honum kann að virðast að verið sé að ganga á frelsi sitt í þágu einhverrar hugsjónar sem hann kannast ekki við.

Með tilliti til greinarmunar Isaiahs Berlins er Voltaire (1694–1778), í eftirfarandi samræðu, talsmaður neikvæðs frelsis; Rousseau (1712–1778) er jákvæðs frelsis.

Samræðan er eftir Maurice Cranston, prófessor3 í stjórnmálafræði við London School of Economics, Lundúnaháskóla.

FRELSI

 

VOLTAIRE Jæja, minn kæri Rousseau, þeir eru þá að reka þig frá Frakklandi. Trúðu mér, þú átt samúð mína. Mér þótti ákaflega leitt að heyra að Samfélagssáttmáliþinn hefði verið bannaður.4

ROUSSEAU Ég hefði átt von á að þú gleddist, Voltaire. Ég veit að þú ert ósammála öllu sem ég skrifa.

VOLTAIRE Vitaskuld, ég tel það hafa verið rangt af þér að skrifa þessa bók. En þeir gerðu meira rangt með að banna hana en þú gerðir með því að skrifa hana.

ROUSSEAU Ef þú telur að rök mín séu staðlausir stafir þá sé ég ekki hversvegna þú ættir að vilja að nokkur læsi hana.

VOLTAIRE Vegna þess að ég trúi á frelsi.

ROUSSEAU Æ! frelsi. Þetta er eitt sem þú og ég kynnum að vera sammála um, Voltaire, eitt atriði af hundrað.

VOLTAIRE Við kynnum að vera það, ef þú bara vissir hvað frelsi merkir, en því miður, það er bara of augljóst að þú veist það ekki.

ROUSSEAU Með frelsi á ég ekki við taumleysi, eins og mig grunar stundum að þú gerir.

VOLTAIRE Hvað er taumleysi annað en það hvernig fólk notar frelsi sitt? Eini munurinn á frelsi og taumleysi býr í huga áhorfandans. Bæði orðin nefna sama fyrirbærið en ‘frelsi’ er notað af manni sem líkar það sem hann sér og ‘taumleysi’ er notað af manni sem mislíkar. Ég er ekki mikið gefinn fyrir að mislíka svo að ég nota ekki oft orðið ‘taumleysi’. Ég læt það orð eftir prestum eða hreintrúarmönnum, eins og þér, minn kæri Rousseau.

ROUSSEAU Ég er ekki púritani nema í þeim skilningi að ég var borinn og barnfæddur í Siðbótarkirkju Genfar, sem ég hef hvað eftir annað gert uppreisn gegn.

VOLTAIRE Engu að síður ert þú ósvikið barn Kalvíns. Síðast þegar við hittumst þráttuðum við, manstu ekki, af því að þú vildir láta koma í veg fyrir að leikhús yrði opnað í Genfarborg en ég vildi að það yrði leyft. Ég var hlynntur frelsi en þú varst á móti því. Okkar venjulegu viðhorf, Rousseau.

ROUSSEAU Þú segir að ég sé á móti frelsi, Voltaire, vegna þess að þú veist ekki hvað frelsi merkir.

VOLTAIRE Þú getur varla haldið því fram að þú hafir verið málsvari frelsis þegar þú krafðist þess að ríkið bannaði menningarstofnun.

ROUSSEAU Leikhús eru ekki menningarstofnanir. Þau eru afþreying og skemmtun sem grafa undan hinni sönnu menningu fólks. Þau frelsa ekki; þau spilla. Þau eru ekki mjög frábrugðin vændishúsum. Borg án leikhúsa og vændishúsa er frjálsari en borg sem hefur þau. Genf hefur, þrátt fyrir alla galla sína, meira frelsi en París.

VOLTAIRE Sem eitt leikritaskáld við annað verð ég að viðurkenna að það vekur furðu hjá mér að þú skulir líta á leikhúsið sem spillingarstofnun. En þú hefur samt alltaf vakið furðu hjá mér, Rousseau. Það er neðanmálsgrein í Samfélagssáttmálaþínum sem mér virðist vera fullkomið dæmi um furðulega hugmynd þína – eða ranghugmynd – um frelsi. „Í lýðveldinu Genúa,“ skrifar þú, „er orðið ‘frelsi’ letrað á hlekki refsifanganna. Og þetta,“ bætirðu við, „er mjög viðeigandi áletrun.“ Þarna höfum við í stuttu máli alla frelsisheimspeki Rousseaus: hinn frjálsi maður er maður í hlekkjum.

ROUSSEAU Þvættingur, Voltaire. Ég legg til að orðið ‘frelsi’ sé viðeigandi í fangelsi af því að frelsi samfélagsins í heild þarfnast þess að allir glæpamenn séu einangraðir. Glæpir gera út af við frelsið, alveg eins og lestir. Aðeins gott samfélag getur verið raunverulega frjálst.

VOLTAIRE Þetta hefur auðvitað verið sagt áður, einkum af Rannsóknarréttinum kaþólska. Þegar þeir pynta mann telja þeir sig vera að koma honum aftur til sannleikans og Guðs, og þeir telja sér þess vegna trú um að það sem þeir gera sé að gefa honum frelsi.

ROUSSEAU Það sem Rannsóknarrétturinn gerir er illt, en rökfærslan er nokkuð skynsamleg. Það er hægt að neyða mann til að vera frjáls.

VOLTAIRE Já, þennan frasa hef ég líka lesið í Samfélagssáttmála þínum: þversögn, ef ég má orða það þannig, sem engin fyndni er í.

ROUSSEAU Henni er ekki ætlað að vera fyndin. Ég læt þann stíl eftir rithöfundum sem þurfa að krydda hversdagslega lágkúru sína til að gera hana boðlega.

VOLTAIRE Sannleikurinn er oft hversdagslegur, jafnvel sannleikurinn um frelsið. Að vera frjáls er að vera óþvingaður. Þetta er það sem orðið ‘frelsi’ merkir. Það er allt mjög einfalt og hversdagslegt. Sé maður neyddur er hann þvingaður. Og þar sem hann getur ekki rökfræðilega séð verið þvingaður og óþvingaður í senn er ekki hægt að neyða hann til að vera frjáls.

ROUSSEAU Maður er frjáls ef hann velur í fyllsta skilningi þess orðs. Sé hann knúinn af einhverri lítilmótlegri ástríðu eða blindaður af fávisku velur hann ekki í raun og veru. Hægt er að beita valdi til að láta mann íhuga val sitt og velja þannig rökvíslega. Það er ástæðan fyrir því að það er fullkomlega rökrétt að tala um að neyða mann til að vera frjáls.

VOLTAIRE Svo það er þetta sem veitir þér rétt til að segja að fangarnir í Genúa séu frjálsir menn.

ROUSSEAU Ég sagði ekki að þeir væru það. Ég segi aðeins að ef refsing gerir mann betri þá hjálpar hún til að gera hann frjálsan. Líf glæpamanns er meiri ánauð en fangelsi og fjötrar því glæpir hneppa sálina í ánauð en sýnilegir fjötrar hindra aðeins hreyfingu líkamans.

VOLTAIRE Oft er sagt að dálítil heimspeki sé hættuleg5: og það er hún ef hún gerir rithöfundum af þínu sauðahúsi kleift að telja fólki trú um að frelsi sé ánauð og ánauð frelsi.

ROUSSEAU Þetta er ekki það sem ég sagði. Þú varst ekki að hlusta á mig.

VOLTAIRE Rousseau, ég hef hugsað um frelsi í langtum fleiri ár en þú. Ég er sextíu og sjö ára en þú getur ekki enn verið orðinn fimmtugur …

ROUSSEAU Ég verð fimmtugur í sumar, fái ég að lifa svo lengi.

VOLTAIRE Ég held ég hafi byrjað að skilja hvað frelsi merkir í raun og veru fyrir þrjátíu árum þegar ég var útlagi í Englandi. Englendingar vita betur en nokkur önnur þjóð í Evrópu hvað frelsi merkir, og til eru ummæli eftir enskan heimspeking, Thomas Hobbes, sem hafa alltaf setið í mér: „Frelsi þegnanna er þögn laganna.“

ROUSSEAU En Thomas Hobbes var enginn málsvari hinnar ensku frelsishugmyndar. Reyndar vildi hann snúa fólki gegn henni og til fylgis við fagnaðarerindi sitt um ótakmarkað einveldi.

VOLTAIRE Kannski það. En það er annað mál. Ég vitnaði í þessi orð vegna þess að þau lýsa svo vel hvað frelsi er. Því meira sem lögin banna því minna frelsi höfum við, og því minna sem lögin banna því meira frelsi höfum við. Englendingar eru frjálsari en Frakkar vegna þess að ensk lög leyfa þeim að trúa og tilbiðja eins og þeim þóknast og gefa út það sem þeim þóknast og svo framvegis. Frakkar eru ófrjálsari en Englendingar sökum þess að frönsku lögin þröngva kaþólsku trúnni upp á þjóðina og leyfa ritskoðun og þar fram eftir götunum. Hobbes dregur þetta mjög vel saman þegar hann segir að frelsi þegnanna sé þögn laganna.

ROUSSEAU Þú segist hafa fræðst um frelsi í Englandi, Voltaire. Væri þá ekki betra að vitna í Locke í staðinn fyrir Hobbes? Því er það ekki Locke sem er talinn vera málsvari hins enska viðhorfs til frelsis? Hafirðu lesið Locke manstu líklega að hann neitar sérstaklega því sem Hobbes heldur fram. Locke segir að lögin skerði ekki frelsi. Hann segir: „Lögin auka frelsi.“

VOLTAIRE Ef þú lest Locke vandlega, Rousseau, muntu sjá að hann notaði orðið ‘lög’ í frekar sérstakri og takmarkaðri merkingu. Með ‘lögum’ á hann ekki við kerfi settra laga sem er haldið uppi í þessu eða hinu konungsríki eða lýðveldi. Með ‘lögum’ á Locke einungis við þær reglur sem vitibornir menn koma sér saman um að lifa samkvæmt. Hann neitar að kalla tilskipanir ranglátra valdhafa virðingarheitinu lög. En Hobbes notar orðið ‘lög’ á langtum kunnuglegri hátt, eins og hann útskýrir sjálfur, og á við fyrirskipanir einvaldsins. Með ‘einvaldi’ á hann auðvitað við þjóðhöfðingjann og allar stjórnarstofnanirnar. Öll sett lög eru lög í skilningi Hobbes. Þannig að ef við erum sátt við að nota orð Hobbes eins og hann notar þau hljótum við að vera honum sammála um að því meira sem lögin fyrirskipa eða banna því minna er frelsi fólksins.

ROUSSEAU Ég er þér ekki sammála, Voltaire, ekkert frekar en ég er sammála Hobbes. En mér líkar mjög vel að heyra þig vitna í kennivald hans vegna þess að ég hef oft talið þig vera fremur líkan honum í brennandi áhuga þínum á upplýstu einveldi.

VOLTAIRE Ég hef engan brennandi áhuga á upplýstu einveldi. Ég fellst á það sem pólitíska nauðsyn fyrir Frakkland vegna hins sérstaka sögulega ástands þar í landi sem þú sem Svisslendingur skilur ekki. Fullveldi í Frakklandi er ekki eitt og óskipt eins og í sumum löndum sem búa við aðra stjórnskipan. Konungurinn er ekki eina valdamiðjan hér, alls ekki. Það eru aðrar uppsprettur ófrelsis, eins og til dæmis kirkjan og lénsaðallinn sem íþyngja þjóðinni langtum meira en nokkur konungur Frakklands hefur nokkurn tíma gert. Ljóst er því að eigi frelsisréttindi manna í Frakklandi að aukast þarf að afnema kúgun annarra en konungsvaldsins. Og einungis konungur gæti tekist það verk á hendur.

ROUSSEAU Ég skil ekki hversvegna þú andmælir orðum mínum um að þvinga menn til að vera frjálsir þegar þú heldur því fram að þetta sé einmitt það sem hinu upplýsta einveldi þínu er ætlað að gera: að beita valdi til að skapa aðstæður þar sem menn eru frjálsir.

VOLTAIRE En það er ekki að þvinga neinn til að vera frjáls. Það er spurning um að beita valdi til að gera út af við óvini frelsisins sem er mjög ólíkt og gagnlegra fyrirtæki. Eins og Locke er mér ljóst að frelsi í þessum heimi getur aldrei verið algert. Við getum ekki beðið um algert frelsi en aðeins um eins mikið frelsi og mögulegt er.

ROUSSEAU Ég neita því ekki að lögin eru ekki eins þjakandi í Englandi og að Englendingar telja sig vera frjálsa. Og kannski eru þeir frjálsir á kosningatímum þegar þeir kjósa sér valdhafa, en lengst af eru þeir ekki frjálsir sökum þess að þeir búa við lög sem konungur þeirra og þing búa til. Frjálsir menn eru menn sem búa til sín eigin lög.

VOLTAIRE Þingið er fulltrúi þjóðarinnar.

ROUSSEAU Það gerir kröfu til að vera það en er það ekki, því að strax og þingmennirnir hafa verið kjörnir breytast þeir úr þjónum í húsbændur. Enginn maður getur verið fulltrúi annars í því að setja lög. Eigi menn að vera frjálsir verða þeir að setja lög milliliðalaust og í eigin persónu.

VOLTAIRE En hvernig er það hægt nema í einhverju forngrísku lýðræðisríki?

ROUSSEAU Það er enn gert í sumum svissneskum kantónum; og það væri hægt að gera það á öðrum stöðum ef fólk vissi hvað frelsi merkir. Og það merkir ekki að lögin láti mann í friði: það merkir að taka virkan þátt í löggjafarstarfinu.

VOLTAIRE En, minn kæri Rousseau, jafnvel í skrítnu sögunni sem þú segir íSamfélagssáttmála þínum er fólkið fullvalda aðeins að nafninu til. Þú lætur fólkið samþykkja lögin, að vísu, en það eru lög sem hafa verið sett saman fyrir það af utanaðkomandi aðila sem er kallaður löggjafinn og auk þess er lögunum framfylgt af embættismönnum.

ROUSSEAU Í upphafi bókarinnar útskýri ég það sem ég er að reyna að gera: að lýsa í stórum dráttum þeim stofnunum sem mundu gera mönnum eins og þeir eru kleift að vera bæði frjálsir og undir stjórn. Og venjulegir menn eins og þeir eru núna eru of fávísir til að setja saman lagabálka.

VOLTAIRE Auðvitað eru þeir það: og er ekki löggjafi þinn jafn mikið upplýstur einvaldur og hvaða konungur sem ég kynni að styðja?

ROUSSEAU Ég hugsa mér að löggjafinn sannfæri fólk en skipi því ekki fyrir.

VOLTAIRE Í stuttu máli sagt verður hann að hafa samþykki fólksins: sem er einmitt það sem þingbundinn konungur hefur. Þú segir mér að ég mæli með, án þess að vita það, að þvinga menn til að vera frjálsir. Ég segi þér að þú mælir með, án þess að viðurkenna það, upplýstu einveldi sem felur í sér meiri harðstjórn en nokkuð sem ég mundi umbera.

ROUSSEAU Það er gífurlegur skoðanamunur milli okkar. Þú vilt láta fólkið fela fullveldi í hendur konungi; ég held því fast fram að það verði sjálft að hafa það.

VOLTAIRE Mér er ljóst, Rousseau, að líkt og allir Genfarbúar leggurðu mikið upp úr orðum eins og ‘lýðveldi’ og ‘fullveldi fólksins’. En það sem allt þetta glæsilega mál þýðir er að í Genf er engin ein konungsætt heldur ráð auðugra borgaralegra fjölskyldna við stjórnvölinn í ríkinu. Í staðinn fyrir konungsríki hafið þið fámennisstjórn, og því miður er hún ekki sérlega upplýst.

ROUSSEAU Þú getur talað með eins mikilli fyrirlitningu og þér þóknast um Genf, en ég sé að þú hefur búið þér heimili alveg við borgarmörkin svo þú getur komist undan inn í þessa borg ef frönsku yfirvöldin snúast gegn þér.

VOLTAIRE Og til baka yfir borgarmörkin aftur ef þess skyldi gerast þörf. En þér ferst varla að áfellast mig fyrir þetta, minn kæri Rousseau, þar sem mér er vel kunnugt um að þú ert á leiðinni til Neuchâtel til að leita verndar hjá fyrrverandi vini mínum, Friðriki Prússakonungi, upplýstum einvaldi í eigin augum, þó ekki lengur svo upplýstum í mínum augum.

ROUSSEAU Ég er eltur, Voltaire, eins og dádýr. Mér gefst ekki alltaf tóm til að spyrja hver eigi landið þar sem ég leita hælis.

VOLTAIRE Þú ættir að láta elta þig eins og ref, eins og ég hef verið eltur, og þá mundirðu kannski læra eitthvað af slægð hans.

ROUSSEAU Ég hef enga löngun til að vera slægur. Ég hef andstyggð á lygum, uppgerð og falsi af hvaða tæi sem er. Raunar held ég að menn sem ekki unna góðmennsku geti ekki skilið hvað frelsi merkir. Til að vera sannarlega frjáls þarf að vera góður maður.

VOLTAIRE Það er nóg að vera frjáls; það er engin þörf á að vera ’sannarlega’ frjáls. Góður maður er sá sem notar betur frelsi sitt, en vondur maður hefur alveg eins mikið frelsi séu ytri kringumstæður hans hinar sömu. Frelsi er ekki forréttindi hinna dygðugu einna; og við skulum vona að svo verði aldrei því annars mundu vera afar fáir frjálsir menn í heiminum.

ROUSSEAU En hvernig geturðu í alvöru vísað á bug tengslunum milli frelsis og góðmennsku?

VOLTAIRE Ég vísa þeim ekki á bug en þau verða fljótlega frumspekilegt úrlausnarefni sem við gætum rökrætt til eilífðarnóns og aldrei útkljáð. Spurningin „Er Englendingur frjálsari en Frakki“ er pólitísk spurning og spurning sem ég tel að hægt sé að gefa mjög ákveðið svar við. Jafnvel þú sem telur ekki að Englendingar séu frjálsir að því marki sem þeir gætu verið það, jafnvel þú, Rousseau, mundir vera mér sammála um að þeir séu að minnsta kosti frjálsari en Frakkar.

ROUSSEAU Valdhafarnir hjá þeim eru vafalaust umburðarlyndari.

VOLTAIRE Og þú mundir fallast á að það sé mikils virði?

ROUSSEAU Já, í vissum skilningi er það mikils virði. Ég kann jafnvel sjálfur að verða nauðbeygður til að treysta á umburðarlyndi þeirra og leita hælis í Englandi, eins og þú gerðir einu sinni.

VOLTAIRE Og ef þú gerir það vona ég að þú fræðist eins mikið og ég fræddist í Englandi um frelsi sem meginreglu raunhæfra stjórnmála. Þegar þú segir, minn kæri Rousseau, að frelsi sé aðeins mögulegt í samfélagi góðra manna sem stjórna sér sjálfir þá ertu að tala eins og heimspekingur um hluti sem eru til í huganum. Þegar ég segi að við verðum að hafa frelsi í Frakklandi á ég í raun og veru aðeins við að við ættum að hafa í Frakklandi það sem Englendingar hafa í Englandi, eða eitthvað svipað því.

ROUSSEAU En hversvegna að biðja um svo fátæklega eftirlíkingu frelsis? Hversvegna ekki að biðja um frelsið sjálft?

VOLTAIRE Þú mátt kalla það fátæklega eftirlíkingu frelsis en ég lít ekki þannig á það. Ekki þegar ég sé bækur mínar bannaðar hér í Frakklandi en seldar hindrunarlaust í Englandi; ekki þegar ég sé að vinir mínir sem aðhyllast mótmælendatrú eru látnir sæta dómsmorði, eru pyntaðir eða settir í fangelsi – eins og ég hef séð í allt of mörgum tilvikum; og lít síðan á England og sé að alls konar önnur trúarbrögð blómstra óáreitt. Nei, minn kæri Rousseau, frelsið missir ekkert af töfrum sínum fyrir mig þótt það sé, eins og það hlýtur óhjákvæmilega að vera, ófullkomið.

ROUSSEAU Ófullkomið frelsi er ekki fullgilt frelsi. Menn eru annaðhvort frjálsir eða þeir eru ekki frjálsir. Ef þeir sætta sig við það sem þú kallar ófullkomið frelsi munu þeir aldrei vita hvað raunverulegt frelsi er.

VOLTAIRE En þarna held ég að þér skjátlist hrapallega. Í stjórnmálum er alls ekki um það að ræða að menn séu frjálsir eða ekki frjálsir: þeir geta annaðhvort verið ófrjálsari eða frjálsari; þeir verða aldrei algerlega frjálsir. Það sem er skynsamlegt að stefna að er að fá eins mikið frelsi og unnt er að fá. Að hverfa frá hinu ómögulega og fá eins mikið og unnt er af hinu mögulega.

ROUSSEAU Þú talar af mælsku fyrir málamiðlun, Voltaire. Eins og þú hefur alltaf gert. Stássstofu-uppreisnarmaður. En einhvern veginn held ég ekki að Frakkland sætti sig lengi við það sem þú býður upp á. Ég held að þegar frelsisþráin grípur Frakka muni þeir vilja frelsið allt: lýðveldi líkt og í Róm til forna þar sem hver maður er borgari og borgarinn er löggjafi.

VOLTAIRE Og ef þeir vilja það munu þeir öðlast það?

ROUSSEAU Það er auðvelt að innleiða frelsi: vandinn er að halda því.

VOLTAIRE Heldurðu að erfiðleikarnir verði yfirstignir?

ROUSSEAU Nei, Voltaire, ég er ekki bjartsýnismaður.

VOLTAIRE Ó, en það er ég. Ég bið um minna en þú. En ég vona ekki bara, ég vænti þess að sjá það verða að veruleika.

ROUSSEAU Sextíu og sjö ára gamall?

VOLTAIRE Ég ætla að verða ódauðlegur.

ROUSSEAU Þá hefurðu einhverja trú, þrátt fyrir allt, á líf eftir dauðann?

VOLTAIRE Ögn af trú.

ROUSSEAU Bara ögn af trú og gnótt af von. Voltaire, það er engin furða að þú ert kallaður rödd þessarar aldar. Ég er öðruvísi en þið hinir. Ég hef óendanlega mikla trú en varla nokkra von.

VOLTAIRE Jæja, ég er hræddur um að það sé þín ógæfa. Þú ættir að biðja þess, eins og ég geri, að trú þín verði tekin frá þér og þú fáir vonina aftur.

Leiðsögn um frekari lestur

Hentug útgáfa af Samfélagssáttmálanum er þýðing Maurice Cranstons. Nokkrar af hugmyndum Cranstons sjálfs um frelsi eru útfærðar í bók hans Frelsi.

Bókin Fjórar ritgerðir um frelsi (Four Essays on Liberty) eftir Sir Isaiah Berlin hefur þegar verið nefnd.6 Tvær aðrar bækur sem verðskulda að vera lesnar í tengslum við samræðuna eru Stjórnmál Voltaires (Voltaire’s Politics) eftir Peter Gay og Menn og borgarar: rannsókn á samfélagskenningu Rousseaus (Men and Citizens: a Study of Rousseau’s Social Theory).

Í samræðunni segir Rousseau: „Maður er frjáls ef hann velur í fyllsta skilningi þess orðs.“ Að velja „í fyllsta skilningi“ merkir að valið sé skynsamlegt. Sá sem er „knúinn af einhverri lítilmótlegri ástríðu“ velur ekki í raun og veru.

Sá heimspekingur sem hefur þróað þennan greinarmun – á rökviti eða rökhugsun annars vegar og ástríðu eða tilhneigingu hins vegar – á kerfisbundnastan hátt er Immanúel Kant (1724–1804). Kant varð fyrir miklum áhrifum frá Rousseau. Reyndar má lesa Fyrstu bók, 8. kafla í Samfélagssáttmálanum sem inngang að siðfræði Kants. Með Kant er maður kominn út í alldjúp heimspekileg vötn.

 

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Enska heitið er ‘True Liberty’. Textann er að finna í bókinni Philosophy in the Open (1. útg. 1974, önnur prentun 1978). Hluti af námsefni í heimspeki hjá Opna háskólanum í Bretlandi. – Höfundur formála og eftirmála samræðunnar er ritstjóri bókarinnar, Godfrey Vesey. – Síðustu málsgrein eftirmálans er sleppt.

2. Íslenska þýðingu á þessum fyrirletri (í styttri útgáfu) er að finna í bókinni Heimspeki á tuttugustu öld sem kom út hjá Heimskringlu 1994. Þýðandi: Róbert Víðir Gunnarsson.

3. Upplýsingar frá 1978. – Maurice Cranston (f. 1920) hefur skrifað ævisögu Rousseaus og þýtt Samfélagssáttmálann á ensku.

4. Samfélagssáttmálinn kom út í lærdómsritaflokki Hins íslenska bókmenntafélags árið 2004. Þýðendur: Björn Þorsteinsson og Már Jónsson.

5. Þessi furðulega setning er kannski skiljanleg í sögulegu ljósi. Höfundur samræðunnar mun hér hafa í huga ‘spakmæli’ sem rekja má til enska vísindaheimspekingsins Francis Bacons (1561–1626) og er á þá leið að ‘dálítil heimspeki geri mann að guðleysingja en heilmikil heimspeki snúi honum til guðstrúar.’ (Er að finna í ritgerð eftir Bacon sem ber heitið Of Atheism).

6. Í upphafi formálans nefnir höfundur fyrirlestur Berlins ‘Tvö hugtök um frelsi’ sem er ein ritgerðin í þessari bók. Hann nefnir ekki bókina.

 

« Til baka

Related Entries