Færslusöfn

Samfélagssáttmálinn

eftir Jean-Jacques Rousseau

Samfélagssáttmálinn

3. bók, 15. kafli: Um þingmenn eða fulltrúa

Um leið og málefni ríkisins hætta að vera helsta hugðarefni borgaranna, og þeir taka upp þann sið að sinna þessum málefnum með pyngjunni frekar en með persónu sinni, þá er ríkið að hruni komið. Á að ganga til orrustu? Þeir borga hermönnunum og bíða heima. Á að koma saman til fundar? Þeir skipa sér fulltrúa og sitja heima. Þannig koma þeir sér upp, fyrir leti og fjármuna sakir, hermönnum til að undiroka föðurlandið og fulltrúum til að selja það.

Hamagangur í viðskiptum og listum, sjúkleg gróðafíkn, linkind og ást á munaðarvöru valda því að þjónustan við málefni ríkisins lætur í minni pokann fyrir peningum. Menn gefa eftir hluta af hagnaði sínum í því skyni að geta aukið hann eftir hentugleikum. Gefið peninga og bráðlega verðið þið lögð í járn. Orðið viðskiptitilheyrir þrælum; það er óþekkt í borgríkinu. Í ríki sem er frjálst í raun nota borgararnir hendurnar til allra verka, en peninga til engra. Þeim dettur ekki í hug að reiða fé af höndum til þess að losna undan skyldum sínum, heldur borga þeir fyrir að fá að gegna þeim. Hér er ég ekki að halda fram viðteknum skoðunum; ég tel þegnskylduvinnu leggja minni kvaðir á frelsið en skattar.

Eftir því sem málum í ríkinu er betur fyrir komið standa opinber málefni betur í baráttunni við einkahagsmuni í hugum borgaranna. Umsvif einstaklinga verða líka miklu minni, því þegar heildarmagn sameiginlegrar farsældar leggur meira af mörkum til farsældar hvers og eins, þá þarf síður að leita hennar í hugðarefnum einstaklinga. Í vel stjórnuðu borgríki koma allir á harðahlaupum til þings, en þar sem léleg stjórnskipun er við lýði hreyfir enginn legg eða lið til að koma sér þangað. Enginn hefur áhuga á því sem þar fer fram og menn fullyrða að almannaviljinn fái engu ráðið og að allt sé lagt undir hugðarefni einstaklinga. Góð lög leiða til þess að enn betri lög eru sett, en vond lög kalla á önnur ennþá verri. Um leið og einhver segir um málefni ríkisins: Hvað koma þau mér við? – þá má reikna með því að ríkið sé glatað.

Hálfvelgja föðurlandsástar, athafnir sem stjórnast af einkahagsmunum, óhófleg stærð ríkja, landvinningar og misnotkun stjórnvalds gátu af sér þá hugmynd að fela þingmönnum eða fulltrúum þjóðarinnar að sitja á þjóðþingum. Í sumum löndum dirfast menn að nefna þessa fulltrúa þriðju stéttina. Þannig atvikast það að upp eru komnir tveir hópar sem sitja með einkahagsmuni sína í fyrsta og öðru sæti, en opinberir hagsmunir mega dúsa í þriðja sæti.

Fullveldi getur ekki átt sér fulltrúa af sömu ástæðu og það verður ekki gefið eftir. Það býr fyrst og fremst í almannaviljanum og enginn getur verið fulltrúi hans. Hann er sá sem hann er eða eitthvað allt annað; ekkert er þar á milli. Þingmenn þjóðarinnar eru því ekki fulltrúar hans, né heldur geta þeir verið það; þeir eru ekki annað en sendiboðar og mega ekki ganga endanlega frá neinu. Lög sem þjóðin hefur ekki staðfest í eigin persónu hafa ekkert gildi; þau eru hreinlega ekki lög. Enska þjóðin telur sig vera frjálsa, en henni skjátlast hrapallega. Hún er aðeins frjáls á meðan hún er að kjósa sér þingmenn, því um leið og kjöri þeirra er lokið er hún þræll; hún er alls ekki neitt. Þau fáu andartök sem hún er frjáls beitir hún frelsinu á þann hátt að hún á fyllilega skilið að glata því.

Sú hugmynd að skipa fulltrúa er ný af nálinni. Hún á rætur í lénskerfinu, þeirri voðalegu og fáránlegu stjórnskipun sem lítillækkar mannskepnuna og er sjálfu heitinu „maður“ til minnkunar. Í lýðveldum fornaldar og jafnvel einveldisríkjum notaðist þjóðin aldrei við fulltrúa. Orðið sjálft var óþekkt. Það sætir furðu að í Róm, þar sem svo mikill helgiblær hvíldi yfir alþýðustjórunum, hvarflaði ekki að nokkrum manni að þeir gætu hrifsað til sín þau hlutverk sem þjóðin hafði með höndum, eða að þeir gætu átt það til að sleppa svo sem einni þjóðaratkvæðagreiðslu í krafti valds síns og í skjóli hins gríðarlega mannfjölda. Til mótvægis má leiða hugann að þeim neyðarlegu aðstæðum sem sköpuðust stundum af athöfnum múgsins, til dæmis að því sem átti sér stað á tímum Grakkusar þegar hluti borgaranna greiddi atkvæði sitt af húsþökum.

Þar sem réttur og frelsi eru í fyrirrúmi eru óþægilegar aðstæður ekki fyrir hendi. Hjá þessari vísu þjóð var öllu vel fyrir komið. Hún leyfði vandsveinum sínum að gera það sem alþýðustjórar hefðu ekki þorað að gera, og óttaðist ekki að vandsveinarnir myndu freista þess að gerast fulltrúar hennar.

Til að útskýra hvernig alþýðustjórar voru stundum fulltrúar þjóðarinnar nægir að gefa því gaum hvernig stjórnvaldið er fulltrúi fullveldisins. Lögin eru aldrei annað en yfirlýsing almannaviljans og fyrir vikið má ljóst vera að þjóðin getur ekki átt sér fulltrúa hvað löggjafarvaldið áhrærir, en hins vegar geta fulltrúar komið við sögu, og verða raunar að koma við sögu, hvað framkvæmdavaldið snertir, sem er ekki annað en máttur sem bætt er við lögin. Þetta leiðir í ljós að þegar grannt er skoðað eiga ákaflega fáar þjóðir sér lög. Hvað sem því líður er hafið yfir vafa að úr því að alþýðustjórarnir áttu enga hlutdeild í framkvæmdavaldinu gátu þeir aldrei leikið hlutverk fulltrúa rómverskrar alþýðu í krafti þeirra réttinda sem fylgdu embættum þeirra, heldur aðeins með því að slá eign sinni á réttindi öldungaráðsins.

Meðal Grikkja sá alþýðan sjálf um að gera allt sem hún þurfti að gera. Hún var öllum stundum samankomin á torginu. Hún bjó við milt loftslag og var alveg laus við græðgi; þrælar unnu erfiðisverkin og helsta hugðarefni hennar var frelsið. Þegar sömu forréttindi eru ekki lengur til staðar, hvernig á þá að varðveita sömu réttindi? Loftslagið sem þið búið við er óblíðara og þar af leiðir að þarfirnar eru meiri.1 Ekki er hægt að standa úti á torgum nema hálft árið, þunglamalegt tungumál ykkar er ekki skiljanlegt undir berum himni, þið leggið meiri áherslu á eigin gróða en frelsi ykkar og þið óttist örbirgð miklu meira en þrældóm.

Hvað er að heyra þetta? Er ekki hægt að varðveita frelsið nema styðjast við þrælahald? Ef til vill. Öfgarnar mætast. Allt sem ekki er að finna í náttúrunni hefur einhver óþægindi í för með sér, og þetta á öðru fremur við um ríki siðmenningarinnar. Menn geta lent í þeirri hryggilegu aðstöðu að frelsi þeirra verði aðeins tryggt með því að ganga á frelsi annarra, þannig að borgarinn geti ekki verið fullkomlega frjáls nema þrællinn sé í algjörri ánauð. Þannig var málum háttað í Spörtu. Hvað ykkur snertir, nútímafólk, þá haldið þið ekki þræla, heldur eruð þið það sjálf. Þið greiðið fyrir frelsi þeirra með frelsi ykkar. Hversu mjög sem þið reynið að fegra þessa afstöðu ykkar tel ég að hún beri fremur vott um hugleysi en mannúð.

Með þessu á ég ekki við að halda eigi þræla eða að réttur til þrælahalds sé lögmætur, enda hef ég þegar sannað hið gagnstæða. Ég er eingöngu að skýra ástæður þess að nútímafólk, sem telur sig frjálst, eigi sér fulltrúa og hvers vegna þjóðir til forna höfðu enga slíka. Hvernig sem allt veltist, þá er það svo að um leið og þjóðin skipar sér fulltrúa er hún ekki lengur frjáls; hún er ekki lengur til.

Að vandlega athuguðu máli sé ég ekki að héðan í frá geti fullveldið viðhaldið á meðal okkar eðlilegri framkvæmd réttinda sinna nema borgríkið sé afar smátt að vöxtum. En ef það er afar lítið hlýtur einhver að leggja það undir sig! Nei, alls ekki. Ég mun sýna hér á eftir2 hvernig hægt er að sameina ytri styrk mikillar þjóðar við fyrirhafnarlitla stjórnun og góða reglu í litlu ríki.

Már Jónsson og Björn Þorsteinsson þýddu

 

Tilvísanir

1. Að tileinka sér íburð og leti Austurlandabúa í köldum löndum jafngildir því að vilja leggja sig í hlekki þeirra og láta kúga sig enn frekar en þeir gera.

2. Þetta er það sem ég ætlaði mér að gera í framhaldinu af þessu riti, þar sem ég hugðist fjalla um utanríkistengsl og þar á meðal sambandsríki. Það er algjörlega nýtt viðfangsefni sem eftir er að leggja grundvöll að.

 

« Til baka

Samhengið í hugsun Jacques Derrida

Björn Þorsteinsson:

Samhengið í hugsun Jacques Derrida

 

Höfundarverkið sem Jacques Derrida lætur eftir sig er mikið að vöxtum og margslungið. Fræðilegir erfingjar hans eiga að sama skapi mikið verk fyrir höndum við túlkun og aflestur þeirra rituðu og töluðu tákna sem hann náði að koma frá sér áður en yfir lauk. „Arfleifð er aldrei gefin, hún er alltaf verkefni“ skrifar hann í bók sinni Vofur Marx. „Arfleifðin safnast aldrei saman, myndar aldrei samstæða heild. […] Það sem maður erfir er ætíð leyndarmál – sem segir „lestu mig – en verðurðu nokkurn tíma fær um það?““ Sá sem gerir ekki annað en endurtaka arfinn, orð fyrir orð, staf fyrir staf – hann er ekki erfingi í raun. Að erfa krefst umritunar, úrvinnslu sem felur í sér í senn að hin eftirlátnu skrif ganga aftur og að þau víkja fyrir nýbreytninni. Slíkra erfingja óskaði hann sér sjálfur: erfingja sem sýna arfleifðinni „trúnaðarlausan trúnað“.

Möguleikarnir mega heita ótæmandi. Textinn situr þarna og bíður, allir hillumetrarnir sem bera höfundarnafn hans, að ógleymdum öllum skjölunum sem komið hefur verið fyrir í skjalasafni Kaliforníuháskóla í Irvine og eflaust einhverjum textabrotum og ófrágengnum ritsmíðum sem enn liggja á víð og dreif á heimili hans í Ris-Orangis sunnan Parísar. Monsieur Texte: það var nafnbótin sem bandaríski bókmenntafræðingurinn Geoffrey Hartman, einn helsti forkólfur „afbyggingarhyggjunnar“ í Bandaríkjunum, gaf honum. Derrida var maður sem skrifaði, hann var maður skriftarinnar, en hann var einnig, og ekki síður, lesandi í sérflokki. Einstakur í sinni röð: yfirborðsmerking nægði honum sjaldnast, hann varð að kafa í textann og takast á við hinstu rök hans; að hætti franskra menntamanna trúði hann ekki á skýran og afdráttarlausan greinarmun hins meðvitaða og hins ómeðvitaða og skirrtist því ekki við að ganga lengra, og kafa dýpra, en höfundurinn sjálfur gerði (að því er best verður séð). Við slíkan lestur vex textinn en hjaðnar ekki – og hin svokallaða „afbygging“ sem Derrida telst hafa stundað felst aldrei í öðru en því að opna textann sem til athugunar er, setja hina einstöku þætti hans í nýtt samhengi og bjóða þannig hinu óvænta, atburðinum – sannleikanum – heim.

Dauðinn lætur víða á sér kræla í skrifum Derrida. Í kynngimögnuðum „bókmenntatextum“ Maurice Blanchot fann hann efnivið í lýsingu á hlutskipti okkar, okkar sem eftir lifum: dauðinn er að verki í okkur, við syrgjum hvert annað frá því að fundum okkar ber saman. Og við rætur hinnar kerfisbundnu og (of) metnaðarfullu fyrirbærafræði Husserls fann hann lögmálið um skilafrest (différance) sem liggur tilveru okkar, og alls sem er, til grundvallar: að vera, það er að vera ólíkt og að slá sér á frest, það er að vera ekki í sama skilningi og eilífðin eða Guð. Að vera er að vera endanlegur. Takmarkaður. Dauðinn er hinsta takmarkið, hinsti ómögulegi möguleikinn eins og Heidegger orðaði það.

Er heimspeki Derrida þá af tagi handanhyggjunnar eins og sú kristni sem Nietzsche og Spinoza gagnrýndu af svo miklum þrótti? Er hún ekkert annað en afturgenginn Platonismi? Er sannleikurinn ekki á okkar færi og veröldin tómur skuggaleikur hins sanna heims sem bíður fyrir handan? Ekkert gæti verið fjær sanni. Heimspeki Derrida er hvorki handanhyggja af þessum toga né kreddufesta sem telur sig geta fært sannleikann í spennitreyju mannlegs máls og stillt honum upp á leiksviði eins og trúði í sirkus. Með öðrum orðum er heimspeki Derrida ekki frumspeki í hefðbundnum skilningi heldur er hún tilraun til að móta hugsun um raunveruleikann, hvorki meira né minna, sem þó væri alltaf eitthvað annað og meira (eða minna) en einföld hluthyggja (realismi) sem gerir ekki annað en að endurtaka það sem allir sjá, og stærir sig af því. Það sem Derrida sóttist eftir varhýper-realismi. Það erfiðasta við hugsun Derrida er ef til vill þetta: að hann er stöðugt á mörkunum, að hann hafnar einfeldningslegum forsendum tvenndahugsunarinnar (með eða á móti, satt eða ekki satt) og leitast við að finna sér stað utan rökfræði andstæðnanna. Hin algjöra andstæða er einfaldasta bragð hefðbundinnar frumspeki. The oldest trick in the book. Málið snýst um að skapa nýja hugsun sem streitist í sífellu gegn freistingum tvenndaspekinnar – gegn falsinu, gegn yfirbreiðslunni, gegn lyginni, gegn „pakkalausninni“ – og heldur í staðinn á lofti ósmættanlegri helgi hins einstaka í endalausri leit að nýjum leiðum: nýjum flóttaleiðum, svo notað sé hugtak sem Deleuze mótaði en hefði allt eins getað átt rætur hjá fyrrverandi aðstoðarmanni hans Derrida.

Helgi hins einstaka: það er að segja, með öðrum orðum, mikilvægi samhengisins sem er í stöðugri verðandi en jafnframt samt við sig. Hugmynd Hegels um samsemd samsemdarinnar og mismunarins á sér beina samsvörun í hugsun Derrida. Hver er munurinn á mér sem er í dag, og mér sem var fyrir tíu árum? Ég er í senn sá sami og ég var þá og annar en ég var þá. Flóknari er þessi hugsun ekki: í senn sá sami og ólíkur, samsemd hins sama og hins ólíka, samsemdarins og mismunarins. Þannig vinnur tíminn – á okkur og á öllu öðru sem er. Laufblað fellur af hlyninum utan við gluggann minn. Það hefur gerst áður, þetta er ekkert nýtt, en samt hefur það aldrei gerst áður. Fyrsta skiptið er líka það síðasta. Þannig er því líka farið með orðin: hvert orð fyrir sig hefur aldrei áður komið fyrir í nákvæmlega þessu samhengi – en þó er ekkert nýtt við þessi orð. Annars gætum við ekki lesið þau. Samhengið er gamalt og nýtt; við erum í senn gömul og ný.

Hvers er sú hugsun megnug sem velur sér þessar leiðir í Svartaskógi og/eða aldingarði hugsunarinnar? Hún getur til dæmis mótað réttlætishugtak sem beitir sér án afláts gegn því að ríkjandi ástand, hér og nú, slái eign sinni á hið ókomna. Postular sáttarinnar og framfarahyggjunnar sem þreytast ekki á að fylla eyru okkar með yfirlýsingum um að allt sé á besta veg, að allt sé eins og best verði á kosið – og bæta síðan við: og fyrir alla muni, ekki rugga bátnum, ekki raska stöðugleikanum, ekki bjóða hættunni heim – þessir postular finna sér ekki jábræður í hugsun Jacques Derrida. Réttlætið er ekki hér og nú – en það er heldur ekki fyrirfram dæmt til að dveljast handan við sjóndeildarhringinn. Hver gæti svo sem verið þess umkominn að vísa því yfir í handanheima? Slík athöfn væri, þegar öllu er á botninn hvolft, sú sama og sú yfirlýsing að réttlætið sé hér og nú, sögunni sé lokið, ekkert sé eftir annað en að njóta sjónvarpsdagskrárinnar og fylgjast með HM í knattspyrnu á fjögurra ára fresti þangað til maður hrekkur uppaf. Er öllu fórnandi fyrir sáttina? Auðvitað ekki! Eigum við að forðast að bjóða hættunni heim? Engan veginn. Opnum gáttina, tökum á móti hinu ókomna. Skilyrðislaus gestrisni sem segir „komdu“ við aðkomumanninn og ætlast til einskis af honum. Skilyrðislaus: ómöguleg, ef til vill, hið ómögulega sjálft: en annars bíður okkar ekkert. Annað en óréttlætið.

« Til baka