Færslusöfn

Heimspeki úr glatkistunni: „Um það að vita“ eftir Benedikt Gröndal, seinni hluti

Seinni heimsspeki. Platon og Aristoteles eru hinir mestu vitríngar sem uppi hafa verið: á þeim var ekki einúngis bygð öll skoðandi rannsókn guðlegra hluta á miðöldunum, heldur er og öll heims­speki ýngstu tíma á þeim bygð. Þó að Sophistíkin í rauninni væri rannsókn heimseðlisins, þá var hún loksins orðin svo afmynduð og misbrúkuð til orðaleiks og rángra ályktana, að Platon og Aristoteles kölluðu hana þá list, að rugla menn; og menn kalla enn Sophista þá menn, sem hártoga alla hluti. Lærisveinar Platons og Aristoteles dreifðu kenníngum þeirra sjálfsagt út, en eru þó ekki neitt í samanburði við þá; vér þekkjum varla Arkesilaus frá Pitana (í Eolíu), Karneades frá Kyrene, Theophrastus, Straton frá Lampsakus, Díkearkus frá Messína, Aristoxenus eða Aristion. En þar sem Platon hafði sagt, að heimsspekin væri undirbúníngur undir dauðann, þá sannaðist það síðar meir, þegar Kristur kom og lífgaði og stofnaði trúna. Þá tóku margir trú, og þá varð trúin heimsspeki, og heimsspekin trú.

Nýplatónsku heimsspekíngarnir, sem kallaðir eru, eru tvenns konar. Fyrri flokkurinn var uppi á 1. og 2. öld eptir Krist, og ruglaði saman kenníngum Platons, Aristoteles og Pythagoras; merki­legastir þeirra eru Theon frá Smyrna og Plútarkus frá Keronea. Síðari flokkurinn var uppi á 3. öld e. Kr., og sameinaði gríska heimsspeki við austurlandafræði, svo sem kenníngu Zoroasters o.fl. Stofnandi hans var Ammonius Sakkas, en ritaði ekki. Lærisveinar hans voru Plotinus, Origenes, Longinus, Herenníus. Ammonius Sakkas féll frá kristni til heiðindóms. Lærisveinn Plotinus var Porfyríus, hans lærisveinn Jamblichus, sem hefir ritað merkilega bók um leyndardóma Egiptatrúar. Lærisveinar Jamblichus voru Eustathius, Aedesius og Julianus Apostata Rómakeisari. Þessi heimspeki leiðir til Mysticismus, sem er sú stefna andans, að menn skoða hið yfirnáttúrlega sem orsök heimsins, og megi það sjást með innri sjón andans, með andlegri sjón sem er á undan allri hugsun, og er hér gert ráð fyrir andaheimi, sem menn geti staðið í sambandi við. Þessir nýplatónsku heimsspekíngar trúðu á eina æðstu veru og að öll heiðin trúarbrögð væru opin­beranir hennar á ýmsan hátt; þeir tignuðu Krist sem mikinn mann, er væri misskilinn. Hinir veru­legu hlutir (objecta) koma fram af hugsuninni (eins og Hegel kennir), með því að hið guðlega skilníngsveldi upplýsir sálina, svo hún snýr til sjálfrar sín og verður æðri og einfaldari, gengur þá aptur út frá sjálfri sér og rennur saman við það sem hún sér. Þessi óskiljanlega sálarsjón verður ekki lærð né öðrum gefin; með henni kemst skynsemin að takmarki sínu, hinu andlega og guðlega. Hin lægri, skynjandi skoðun felur engan sannleika í sér; en einúngis það er sannleikur, sem skynsemin skilur sem andlegt. Andi mannsins er forgengilegur, og er hniginn í eðli líkamans af eigin synd; hann fer eptir dauðann í dýr eða menn, eða í stjörnurnar.12 Þessa samanblöndun ýmissa kennínga sjá menn hæglega að vera örstutt frá Gnosticismus og þeim heimsspekínga­flokkum, sem honum eru skyldir, sem vér nú skulum hugleiða.

Gnosticismus. Þetta nafn kemur af γνωσις, þekkíng, og lítur til þess, að þeir flokkar, sem bera það nafn, þóttust hafa þekkíngu — annað merkir það ekki. En aðaleðli þessara flokka er það, að þeir létust sjá inn í einhvern andaheim, með sálarsjóninni, og það var þessi þekkíng þeirra. Kenníngar þeirra aðgreinast frá hinum nýplatónsku á því, að Gnostíkarnir framsettu Krist í þeim á ýmsan hátt, og upphugsuðu ýmsar skiptíngar og ýms hlutföll andaheimsins, sem minna á austurlanda trú. — Ýmsir trúarflokkar komu upp eptir Krist, sem eru ekki eiginlegir Gnostikar, en þetta er allt í rauninni svo skylt, að vér höfum það saman. Þannig voru til að mynda Ebionitarnir, sem Tertúllíanus segir að dragi nafn af Ebion, stofnanda sínum, en Origenes af svipuðu orði ebresku, sem þýðir »fátækur«; þeir áttu heima í Nabathea og víðar í landinu helga, og á Cyprus. Þeir viðurkendu Krist einúngis sem spámann, og fylgdu lögum Móses; Pál postula kölluðu þeir trúarníðíng (apostata) og vonuðu eptir jarðnesku ríki Messíasar.— Nazarearnir trúðu yfirnáttúrlegri fæðíngu Krists og guðdómlegu eðli hans; þeir áttu heima í Beroea og fylgdu lögum Móses. — Þá var og sá flokkur, er kallaðist Elkesaitar, en seinna Sampsear, og var uppi eptir daga Traianus keisara; þeir menn trúðu að andi guðs hefði farið í suma menn, svo sem Adam, Enoch, Abraham, Isak, Móses og Krist. Þeir höfðu ceremoníur gyðínga, köstuðu samt á burtu öllum offurgerðum, máttu giptast og afneita Kristi munnlega, ef þeir játuðu hann í hjartanu. Líkir þessum flokki voru Essear og Cerinthusmenn. Margir trúðu og, að Kristur mundi koma aptur eptir þúsund ár, eptir að Antikristur væri kominn áður, sú trú kallaðist Kilíasmus, og höfðu hana sumir merkir menn, svo sem Justinus Martyr og Ireneus.

Nú er hinn eiginlegi Gnosticismus, sem Tertúllíanus reit á móti þá bók, er heitir »Scorpiacum contra Gnosticos«; aðalkenníngar þeirra eru þannig: það eru tvö frumeðli eða frumguðir, annar illur en annar góður. Hið góða býr í óaðgengilegu ljósi, ljósfyllíngu (πληρωμα), og stendur ekki í beinlínis sambandi við heiminn. Þetta er hinn órjúfandi eða eilífi guð (ϑεος αῤῥηϰτος), hinn ónefnandi (αϰατονομαστος), botnlausi (βυϑος); hið illa, hinn vondi guð er sama sem Ahriman hjá Persum, eptir syriskri og austurlenzkri skoðun, en eptir platónskri og alexandrínskri skoðun sama sem hið eilífa dauða efni (ὔλη), sem lífgast af óreglu í ljóssríkinu. Hið góða frumeðli streymir út sem kraptar (δυναμεις), sem mynda aeones og svo framvegis niðureptir. Hinn líkamlegi heimur er ekki skapaður af hinu góða frumeðli (frumguði), heldur af hinu illa, og hann er díblissa þeirra lífskrapta, sem komnir eru úr ljóssríki. Kristur er æðri vera, hann er endurlausnari, en varð aldrei maður, heldur andlegur líkami (σῶμα πνευματαστις). Sálirnar streyma aptur til ljóssins og sam­einast því (αποϰαταστασις).

Gnostíkunum ber eigi öllum saman.

Satúrnínus, sem lifði í Antiochía á 2. öld, kendi um hinn óþekkta föður, πατερα αγνωστον, og um anda, sem hinir neðstu eru sjö plánetuandar (αγγελοι ϰοσμοϰρατορες, heimsstýrendur; talan 7 er heilög tala). Á móti föðurnum er djöfullinn (σατανας), en hvort hann sé fallinn, eða hann sé illur frá eilífð, er ekki kennt svo menn viti. Hinir sjö plánetu-andar sköpuðu manninn, en sú sköpun skreið; þá kendi faðirinn í brjósti um hann og sendi honum lífsgneista (πνευμα, anda): einúngis sá gneisti kemur aptur til ljóssríkisins (πληρωμα). Einn af hinum 7 öndum er skapari heimsins og guð gyðínga; hann er útstreymdur af Aeónaheiminum, og er því ekki illur andi, af því αιωνες eru frá hinu góða frumeðli; en þó er hann of máttlítill til þess að verja mennina á móti djöflinum. Hinn óþekkti faðir sendir því Krist, hugann (νοῠν), mönnunum til hjálpar. — Áhángendur Satúrnínus lifðu mjög stránglega, máttu aldrei giptast og aldrei eta kjöt.

Basilídes hét annar gnostiskur kennari, og lifði um sama leyti og Satúrnínus. Hann kendi um að­streymíngu andanna að frumguðinum, og eptir hans kenníngu er ættartalan þannig:

θεὸς ἀϰατονόμαστος (hinn ónefnanlegi)
|
νοῦς (hugur)
|
λόγος (orð)
|
φρόνησις (hyggindi)
|
σοφία (vizka)

δύναμις (vald). διϰαιοσύνη (réttvísi). εἰρήνη (friður).

Þessir 7 andar (ↄ: að fráreiknuðum frumguðinum) skapa heiminn og mynda hina fyrstu áttúng (ογδοάς) í sameiníngu með frumverunni. Þessir sjö geta af sér aptur sjö og svo framvegis í sífellu, eptir tölu himnanna (7), eða eptir því sem aðrir segja, eptir tölu andanna (365 ↄ: tala ársdaganna). Þessi andaheimur heitir Abraxas (Αβραξας eða αβρασαξ, sem merkir eptir bókstöfunum 365). Allir andar eru ímynd hins ónefnanlega, en því daufari, sem þeir eru honum fjær. Hinir sjö seinustu (ↄ: fjærstu guði og þess vegna daufustu) andar skapa heiminn og stjórna honum; hinn mesti (αρχων) er fyrir þeim, og er sama sem guð gyðínga; hann er enginn sjálfráður guð, heldur er hann undir æðri stjórn. Basilides kendi ekki upprunalega illsku (malum absolutum), heldur eilíft efni (ὑλην, eins og Platon). Gneisti guðdómsins er ekki einúngis í manninum, heldur og í öllu aleðlinu. Maðurinn á að erfiða sig upp eptir, hann gengur frá einum líkama í annan og verður loksins æðri en höfuðandinn αρχων, því hann er æðra eðlis. En höfuðandinn og hinir 7 skildu ekki veraldar­áformið, þess vegna sendi guð hugann (νοῠν), sem sameinast í skírninni við Jesús, en skilur sig frá honum við dauða hans og sameinast þá ljóssríkinu (πληρωμα). Þessi hugur (νους) kendi mönnum að þekkja hinn æðsta guð; tilgángur endurlausnarinnar var sá, að láta menn þekkja ætt mannanna frá andaheiminum og að menn geti komist þángað aptur með trúnni.

Enn var sá kennari gnostiskur, er Valentinus hét; hann var frá Egiptalandi og lifði í Rómi á annari öld; hann var þrisvar sinnum rekinn úr kirkjunni. Kenníng hans var þannig, að til væri frumvera, frumguð, hinn órannsakanlegi (βυϑός, προπάτωρ, προαρχή); af honum koma (fæðast, getast) þrjár tegundir anda: Ráð (διαϑεσις), Völd (δυναμεις) og Aldir (αιωνες). Gæzkan (ευνοια χαρις, náð) er frá eilífð sameinuð hinum órannsakanlega og framleiðir hugann eður hinn eingetna (νουν, μονογεητον), sem er hinn fyrsti aldarandi (αιων), upphaf alls og sá sem opinberar eða leiðir í ljós hinn órannsakanlega (βυϑος), en samhliða hinum eingetna gengur sannleiksandinn (αληϑεια) fram, honum til uppfyllíngar; af þeim báðum framgánga orðið (λογος) og lífið (ζωη), og þar af aptur maðurinn (ἄνϑρωπος) og kirkjan (έϰϰλησία). Þessir átta andar (ↄ: líf, orð, sannleikur, hugur, aldir, völd, ráð og hinn órannsakanlegi) mynda hina fyrstu áttúng (ογδοας). Orðið og lífið geta aptur af sér tíu aðra aldaranda (αιωνες), fimm karlkyns og fimm kvennkyns; maðurinn og kirkjan geta af sér tólf anda, sex karlkyns og sex kvennkyns, og sú röð endar á viljanum (ϑελετος) og vizkunni (σοφια). — Einúngis hugurinn, hinn eingetni (μονογεης) getur séð frumveruna, en hinir ekki, en þó lángar þá alla til þess. Þessi laungun varð hjá vizkunni (σοφια) að ástríðu; hún vildi ekki samlagast viljanum (ϑελετος), en vildi brjótast fram. Þá sendi guð anda takmörkunarinnar (ὡρος). En nú var friðurinn einu sinni truflaður, og hann þurfti að komast aptur á; þá gat hugurinn Jesús við kenníngarandanum (πνεμα). Jesús átti að vera hið sama fyrir hinn lægra heim, sem hinn eingetni var fyrir hinn æðra. Af þeirri styrjöld, sem vizkan (σοφια) gjörði með því hún vildi brjótast fram, var sköpunarverkið orðið útvíkkað fyrir utan ljóssríkið. Vizkan gat af sér hina lægri vizku (ή ϰατω σοφια, επιϑυμησις, αχαμωϑ) einúngis við laungun sinni eptir hinum órannsakanlega (βυϑος), en ekki við viljanum (ϑελετος); þetta afkvæmi heitir einnig Prunicos, og er óhreint og fullt af ástríðum. Þegar andi takmörkunarinnar (ὡρος) ekki flutti hina lægri vizku og móður hennar til ljóssríkisins, þá steypti hún sér í óskepið (Chaos) og meingaðist því. Loksins beiddi hún Krists; þá frelsaði andi takmörkunarinnar hana úr óskepinu og andinn (αιων) Jesús friðaði hana við hinn órannsakanlega, en þó kemst hún ekki í ljóssríkið, heldur í lægra heim; þar skapar hún ásamt með heimshöfðíngjanum (δημιουργος) hinn óæðra heim, sem er líkamlegur (φυσιϰος) og sálarlegur (ψυχιϰος). Þá koma fram sex heimar með sex öndum; það er hin önnur áttúng (ογδσας;ↄ:6 + δημωυργος og σοφια), sem er ímynd hinnar fyrri áttúngar. Demiurgus (»þessa heims höfðíngi«) skapar hinn þriðja heim úr efninu (ύλη, materia), og veitir honum sál frá sér (ψυχη) og anda (πνευμα) frá vizkunni, sá heimur er mannheimur. Fyrir krapt andans (πνεματος) hefir maðurinn sig upp yfir Demiurgum, sem verður hræddur og englar hans; og til þess að halda mönnunum í hlýðni, bannar hann þeim að eta af tré skilníngsins. En maðurinn óhlýðnaðist því, og fyrir það steypti Demiurgus honum úr sælustaðnum (Paradís) og niður á jörðina eður í hinn lægra líkamsheim og gefur manninum holdlegan líkama; það er hinni lægri vizku að þakka, að maðurinn verður ekki undir líkamanum. Af þessu er hið andlega (τύ πνευματιϰόν) komið um allan heiminn. Þá varð Jesús frelsari (σωτήρ) að koma, til þess að frelsa manninn frá glötun og sameina hann ljóssríkinu (πληρωμα). Demiurgus hafði heitið gyðíngum einúngis sálarlegum (ψυχιϰῳ) Messíasi, og sem svo kemur Jesús í andlegum líkama (σωματι αιϑηριϰῳ), og í skírninni sameinast hann Jesúsi frelsara. Endurlausnin er sameiníng við Krist og sigur yfir líkamanum. Allt er fullkomnað, þegar hinar andlegu (puevmatisku) náttúrur eru orðnar hæfar til að komast í ljóssríkið; hinar sálarlegu (psychisku) koma í ríki Demiurgus, því þær eru þaðan runnar; en hið líkamlega verður að engu.

Ofitar kallaðist einn flokkur, er trúði Gnosticismus: þeir draga nafn af höggorminum (οφις), því hans gætir mjög hjá þeim (höggormsmenn). Þeir trúðu þannig, að einn er frumguð, frumljós, frummaður, upphaf alls (βυϑος); frá því útstreymir þagnarhyggjan (εννοια, σιγη), sem er hinn annar maður; af henni streymir fram andinn eða hin æðri vizka (πνευμα, ή ανω συφία); hún er svo fögur, að bæði frumljósið og þagnarhyggjan verða ástfángnar í henni, og eiga við henni hið algjörða mannlega ljósseðli, sem er hinn himneski Kristur, og hina kvennlegu vizku, eða hina lægri vizku (αχαμωϑ, προυνειϰος). Kristur sameinast ljóssríkinu (πληρωμα), en hin lægri vizka steypir sér niður í óskepið og lífgar það; hún getur af sér heimshöfðíngjann (Demiurgum), sem einnig heitir ίαλδαβαωδ. Demiurgus getur af sér engil, og svo koll af kolli; þá kemur fram hin heilaga sjöund (έβδομας), en hún skapar manninn, en hann er sálarlaus líkami. Demiurgus, sem ætlaði að sameinast frumljósinu, en lenti í miðríkinu (τοπῳ μεσοτητος), gefur manninum líf, en við það rennur allt guðlegt ljós frá Demiurgus til mannanna. Þá speiglar Demiurgus sig í dýpsta óskepi (Chaos), og getur af sér öfundsjúkan og hatursfullan djöful (οφιομορφον). —- Líka trú höfðu fleiri flokkar, svo sem Sethianar, Kainitar o.fl.

Karpokrates frá Alexandríu var samtíða Basilides, og kendi, að alfaðirinn (μονας) væri upphaf margra anda, sem gjörðu upphlaup á móti honum og sköpuðu heiminn. Hin sanna þekkíng (γνωσις) er það, að hefja sig upp yfir heiminn og til alföðursins; þá fær maður ráð yfir heiminum og öndunum; það gjörðu Pythagoras, Platon, og einkum Jesús »sonur Jóseps og Maríu« (ɔ: Karp. kendi að hann væri maður); einúngis fyrir samhand sitt við alföðurinn gjörði Kristur kraptaverk. Karpokrates kendi og, að sálin væri til áður en maðurinn; hann kendi fyrirlitníngu á öllum siðferðislögum og bænum, og að allir ættu allt jafnt. — Bardesanes frá Edessa, á annari öld, kendi svo, að hinn órannsakanlegi (πατηρ αγνωστος) og efnið (ύλη) hefði framleitt djöfulinn (σατανα).

Gnostiskar skoðanir komu upp einnig af sorg skynsamra manna yfir illsku heimsins, svo að þeir gátu ekki trúað því að algóður guð hefði skapað svo illan heim; þessi skoðan kemur fram hjá Hermogenes, en einkum hjá Marcion, sem báðir lifðu á 2. öld. Marcion var biskupssonur, og átti barn við stúlku, en fyrir það setti faðir hans hann út af heilagri kirkju, og þótt Marcion leitaðist hvað eptir annað við að fá aptur inngaungu í kirkjuna með iðran og yfirbót, þá fékk hann það ekki. Hann fékk því melankólska skoðun á heiminum, og guði, og mundi varla hafa stofnað kenníngarflokk sinn, ef kirkjan hefði ekki gefið sjálf tilefni til þess með hörku sinni. Marcion gat ekki ímyndað sér, að sá guð væri góður, sem hefði skapað svo illan heim. Hann hélt því, að til væri æðri guð en skapari heimsins (Demiurgus). Þetta eru aðalatriði Marcions: Skapari hins illa og góða er guð gamla sáttmálans (δημιουργος ϰοσμοϰρατωρ), og hefir aldrei opinberað sig, hvorki í líkama né skynsemi, fyrr en Kristur kom. Guð gamla sáttmálans (testam.) er ófullkominn, takmarkaður og fávís, óstöðug vera og í mótsögn við sjálfan sig. Sé hann almáttugur, hví leyfir hann þá syndina? Sé hann alvitur, hví sér hann þá ei syndina fyrir? Ef hann sér syndina fyrirfram og tálmar henni ekki, þá er hann vondur. — Þessi vera spurði: Adam, hvar ertu? Þess vegna er hann ekki alvitur. Hann lét Ísraels lýð fara á burtu með gull og silfur úr Egiptalandi; þess vegna er hann ránglátur. Hann lét villudýr rífa í sundur börnin, sem smánuðu Elíseus; hann getur því ekki verið góður. Hann iðraðist eptir að hann smurði Saúl; hann veit því ekki hvað hann gjörir. — Marcion reit bók, sem heitir Antitheses, og aðgreindi þar guð gamla sáttmálans og guð nýja sáttmálans; hinn góði og ókunni guð opinberast í Kristi; og eins og guð gamla sáttmálans er harður, eins er guð nýja sáttmálans mildur. Marcion trúði því ekki, að Kristur hefði íklæðzt líkamlegu holdi, af því hið líkamlega er illt og skapað af guði gamla sáttmálans; þess vegna trúði hann heldur ekki upprisunni. Í flokki Marcions voru furðulega strángir siðir; þar mátti engi giptast, af því holdið var sköpun hins illa guðs; enginn giptur maður mátti skírast; enginn mátti nokkurn tíma bragða kjöt, og margar og strángar föstur voru haldnar; þrisvar sinnum varð sérhverr að skírast, og máttu kvennmenn skíra, ef á lá; í kvöldmáltíðinni var haft vatn fyrir vín.

Þrjú eilif frumeðli eru ránglega eignuð kenníngu Marcious (ϑεος αγαϑος, ϑεος πονηροςύληδιαβυλος og δημιουργος διϰαιος), en Tertúllíanus getur þeirra eigi í þeirri bók, sem hann reit á móti Marcion (adv. Marcionem Libb. V og de carne Christi.)

Náskyldir hinum gnostisku flokkum voru Manichæarnir, á miðri 3. öld; þeir tóku lærdóma sína úr Zendavesta, Búddhismus og Gnosticismus, og rugluðu þar Evangelio saman við. Þeir trúðu að tvö ríki væri, ljóssríki og myrkurríki, og ætti í sífeldu stríði. Guðdómurinn setti alheimssálina (ψυχη απαντων) á móti áhlaupum hinna illu anda, sem liggja bæði í stríði hvorr við annan og sameiginlega við hið góða. Heimssálin hefir 5 eiginlegleika: vind, ljós, vatn, eld og líkama. Hinn sýnilegi heimur kemur fram af baráttunni á milli ljóssríkisins og myrkurríkisins.

Ályktan. Þessar skoðanir lýsa erfiðri eptirleit eptir sannleikanum, og það er svo lángt frá því, að menn hafi nokkurn rétt til að skoða þær sem vitleysur, að þær einmitt tela í sér djúpan sannleika. Þær eru heldur ekki draumórar, því flest í þeim má heimfæra uppá trúna og náttúruhlutföllin; þegar menn skoða búníng þeirra sem líkíngarfullan búníng (Allegoria), þá hverfur af þeim þetta ríngl, sem mönnum finnst liggja í þeim. En hitt er og satt, að mennirnir rugluðust og aðgreindu ekki hið trúarlega og hið veraldlega með nógu ákvörðuðum takmörkum; en hvað á að segja, þegar »hugurinn reikar víða«? Sá sem lítið hugsar, hann truflast síður en sá sem mikið hugsar (confunditur animus multa cogitans segir Augustinus). En því ruglaðist þá ekki Platon eða Aristo­teles? Þartil liggja tvö svör: 1. Þeir voru gáfaðri en þessir menn og höfðu betur vit á að greina hugmyndirnar í sundur; 2. Þeir þektu ekki ritnínguna eða Krist. Því eins og hið illa bægir mönnum frá hinu góða, ef menn ekki yfirstíga það, eins verður hið góða sjálft manni til falls, ef menn neyta þess ekki réttilega; þetta á jafn vel við um ritnínguna og sanna trú sem við allt annað í heiminum; það er ekkert orð ritað, og Kristur hefir ekkert orð talað, sem eigi má hártoga, rángskilja eða misskilja, og tveir menn, sem skilja eitthvað sinn á hvorn veg, geta báðir haft rángt fyrir sér. Þetta sést á mörgum ágreiníngi katólskra og prótestanta, og ekki síst á meiníngunum um erfðasyndina.

Eg nenni nú ekki að hleypa mér út í nákvæmar útlistanir á gnostisku kenníngunum; þær eru eins og allt annað, að það má skoða þær á fleiri en einn veg. Eg skal þess vegna benda á fáein atriði, sem mér nú detta í hug. Gnosticismus er samsettur af þrem greinum, 1. Sálarfræði (Psychologia), 2. Guðfræði (Theosophia)13 og 3. Náttúrufræði (Physica, Astrologia og Astronomia). En Evan­gelíið hefir einmitt orðið til þess að rugla allt fyrir þessum mönnum, og kenníng Pythagoras, sem ber með sér sumstaðar gnostiskan keim, hefir á sér hreinni blæ, einmitt af því Pythagoras hafði ekki kenníngu Krists, og gat því ekki misskilið hana né truflast af henni. Það eru fleiri en Gnostikarnir, sem truflast hafa af orðum Krists; eg skal hér einúngis minna menn á Ochin, sem var kallaður lærðari en öll Ítalía, hann kastaði loksins kristinni trú og gjörðist gyðíngur, ekki af neinni léttúð né mannvonzku, heldur af því hann sagðist ekki geta skilið neitt í þeim; þau mótsegðu sjálfum sér og því gæti Kristur ekki verið guðs sonur. Þýðíngar ritníngarinnar af »guðfræðíng­unum«, sem kallast svo, marka eg ekkert betur en hverra annara manna; og þarsem þeir þykjast skilja »rétt«, og geta eytt mótsögnum biblíunnar, er það opt ekkert annað en hártogaðir útúrsnúníngar.

Til sálarfræðinnar (sem svo er kölluð) heyrir til að mynda hin niðurstígandi ættartala hins þríeina veldis jarðarlífsins: valdsins, réttvísinnar og friðarins, sem á sér rót í guði (hinum ónefnanlega), eins og eg hef ritað þegar eg nefndi Basilides; þetta er rétt hugsunarröð: hugur, orð, hyggindi og vizka. Hér til heyrir og kenníng Valentinus um viljann og vizkuna, sem er ekkert annað en sama niðurstaðan sem Aristoteles komst að, og sem seinna á miðöldunum kom fram í allri trúarheims­spekinni (philosophia scholastica) sem intellectus og voluntas; á þessu tvennu er öll Summa theologiae Tómasar frá Aquino bygð. Ætterni vizkunnar er og rétt rakið af Valentínus; ef að vizka og vilji eru alveg samhljóða, þá er andinn á tindi fullkomlegleika síns, en það er nú aldrei, því »viljinn er reiðubúinn, en holdið er veikt«, og vitið getur verið mikið, en viljinn lítill. Vizkan, sem ekki vill þýðast viljann, sem er stýrið, hún vill alltaf leita hærra og hærra (NB. það er ekki guðs vizka, sem hér ræðir um), og hún hefir laungun eptir að komast eptir uppruna alls, sem er guð, en af því hún er ekki einhlít, en vill vera einhlít, þá lendir hún í böndum ófullkomlegleikans og af­kvæmi hennar hlýtur að bera keim af því (προνειϰος).

Það má nærri geta, að þegar menn hugsa um guð sem skapara heimsins, þá er ekki hægt að hugsa sér hann lausan við heiminn; en í kenníngum Gnostikanna kemur guð alltaf fram sem skapari, af því Gnosticismus er ekkert annað en leitan eptir uppruna hlutanna. Hér sveiflast menn þá óumflýjanlega inn í náttúrufræðina, sem hefir orðið mörgum guðfræðíngi til falls, af því þeir þekkja sjaldan mikið til hennar. En á tímum Gnostikanna var náttúrufræðin mestmegnis sama sem trúin, ↄ: sköpunarfræði, eins og á tímum elztu heimsspekíngaskóla Grikkja: þeir fóru einmitt þángað sem engum er ætlað, en hlupu yfir allt sem er á milli uppruna heimsins og mannsins, og það er mikið, því það er ekki hálftæmt enn í dag; Aristoteles lá í dái þángað til seint á 12. öld, þegar trúarheimsspekin tók að magnast; og Galenusi lækni (á 2. öld e. Kr.) var enginn gaumur gefinn. Þess ber og að geta, að þetta voru heiðnir rithöfundar, en allir vita, hversu þverhnýpt trúin tók fyrst fyrir allar kenníngar og rit heiðinna manna.

Aðalatriðið í skoðunum Gnostikanna er það, að þeir gátu ekki ímyndað sér, að algóður guð hefði skapað svo tvískipta tilveru, eins og heimurinn er, og þetta kemur glöggast fram hjá Marcion. En það er einnig hjá öllum hinum, því með því að kenna »frumljós«, »hinn ónefnanlega« o.s.fr., þá vildu þeir ekkert annað en það, að koma guði sem lengst frá heiminum, svo að hann mætti vera öldúngis hreinn af synd og illsku heimsins. Þeir gleymdu gjörsamlega frelsi mannsins eða sáu ekki, að hið illa leiðir greinilega þar af, en ekki af guði (peccatum est aversio a Deo segir Augustinus). En engu að síður gátu þeir ekki komizt hjá þessu, því þó þeir léti guð (»hinn ónefnanlega«) ekki vera skapara heimsins, þá var hann það óbeinlínis, með því allt var af honum runnið. Að hneykslast á því, að Gnosticismus kennir »útrennsli« andanna frá guði (Emanation), það virðist vera óþarfi, því það er ósannað hvernig þeir hafi hugsað sér þessa emanationem; það má allt eins skilja hana fígúrulega eins og bókstaflega; eins og gnostiskir lærdómar eru ekki fyrirdæmanlegir í sjálfum sér, þegar menn skilja þá sem líkíngar í myrkum búníngi, en að skilja þá bókstaflega og gjöra þá að trú, það er fyrirdæmanlegt.

Frá Gnosticismus er skammt til Mysticismus, og Montanistarnir, sem voru uppi í Phrygíu á 2. öld, og kallast einnig Kataphrygii og Pepuziani, eru milliliðurinn á milli Gnosticismus og Mysticismus. Þeir voru mótsettir Gnostíkunum að því leyti, að þeir héldu fast við ritnínguna og viku ekki frá bókstaf hennar, en þeir trúðu helgum innblæstri (inspiratio); þeir lifðu straungu líferni, giptust aldrei og sóktust eptir píslardauða fyrir trúna.

Trúarheimsspekin (Philosophia scholastica). Eg kalla trúarheimsspeki það sama sem Sigurður Melsteð kallar »skólaguðfræði«, og hún er »heimfærsla heimsspekinnar uppá rannsókn um setníngar trúarinnar«. Bonaventura segir, að heimsspekin sé það meðal, sem guðfræðíngurinn gjöri sér speigil með úr hinu skapaða, og stigi á því eins og á stiga upp í himininn. En þó að trúarheimsspekin þannig væri guðfræði; þá var hún meira um leið; hún innifól alla rannsókn allra hluta, en af því guð er æðstur, þá var líka »guðfræðin« æðst, og því hét heimsspekin »ambátt guðfræðinnar« (philosophia theologiae ancilla). Bonaventura hefir ritað annað rit, er kallast »heimfærsla kunnáttanna (ɔ: vísindanna) til guðfræðinnar« (Reductio artium ad theologiam), og þar lýsir hann berlega, að heimsspekin sé rannsókn alls heimsins: »heimsspekin er rannsókn hinna skiljanlegu sannleika, og af því þessir sannleikar eru bundnir við orð, hluti eða siði, þá er hún skynsemisleg, náttúruleg eða siðferðisleg. Sem skynsemisleg rannsókn felur hún í sér málfræði, sem býr hugmyndirnar orðum (Grammatík); hugsunarfræði, sem lýsir gángi þeirra og setníngum (Logík); mælskufræði, sem á við hreifíngu líkamans, framburð og orðaval (Rhetorík). Sem náttúruleg hlýtur heimsspekin að innibinda náttúrufræði (Physík), sem rannsakar uppruna og hvarf hlutanna; mælíngarfræði (Mathematík), er skoðar einstaka sannleika í reikníngshlutföllum og hin almennu lög; Metaphysík, sem leiðir lögin að uppruna sínum, til frumeðlis þeirra og tilgángs. Sem siðferðisleg (moralis) er heimsspekin Monastík, Oeconomía og Politík, eptir því sem hún á við einstaklínginn, félagslíf eða ríkisveldi«. Vér höfum ekki betri skiptíngu á vísindunum, en þessi er, þótt gömul sé, og sannast þar enn hið fornkveðna, að »opt er gott það sem gamlir kveða (Bonaventura dó 1274, sama ár og Tómas frá Aquino).

Öll trúarheimsspeki miðaldanna er bygð á Platon, Aristoteles og ritníngunni; hún tók tvær aðalstefnur eptir þessu, því sumir fylgdu Platon, en sumir Aristoteles. Hin platónska heimsspeki komst helzt inn í trúna frá Augustinus (Quidquid a Platone dicitur, vivit in Augustino, sögðu menn); en Aristoteles frá máriskum lærdómsmönnum (samt hafði Boëthius († 524) snúið mörgu eptir hann á latínu), á 11 — 13 öld, og náði hæstum blóma hjá Thomasi af Aquino, sem hefur hann fyrir aðra máttarsúlu alls skilníngs í Summa totius theologiae, og kallar hann nærri því aldrei með nafni, heldur einúngis »heimsspekínginn« (ut ait philosophus). Trúarheimsspekin hefir enn aðrar tvær aðalstefnur, sem eg heldur vil taka fram.

1. Hina fyrri stefnuna halda hinir eiginlegu guðfræðíngar, sem voru ofaná, samkvæmt anda tímans, og héldu sér við guðfræðina stránglega. 2. Hina síðari stefnu halda fróðir menn (Poly­histori), sem stunduðu öll vísindi og eptir miklu stærri mælikvarða en flestir menn nú. Þar að auki eru enn tveir flokkar, sem tóku alveg heimsspekilega stefnu í rannsókninni um frumeðli hlutanna, en það eru Nominalistarnir og Realistarnir.

»Allt sem vér gjörum, er saga«, segir Lamartine (24. Febr. 1848), og það má líka með sanni segja um kirkjusögu miðaldanna. Saga trúarheimsspekinnar er saga kirkjunnar, og saga kirkjunnar er saga mannlegs anda. En trúarheimsspekin stóð ekki lengur en hér um bil þrjár aldir (10—13 öld), svo hún er ekki saga kirkjunnar lengi. Mennirnir sjálfir komu byggíngu kirkjunnar til þess að riða og haggast, með því þeir timbruðu hana of hátt: Bonifacius VIII. bætti annari krúnu ofan á páfa­krúnuna, til þess að tákna verzlega valdið líka, og Úrbanus V. bætti þriðju krúnunni þar ofan á, þegar hann flutti frá Avignon 1367, til þess að tákna að hann væri jarl Krists á jarðríki; en bæði var það, að hann var fluttur þángað aptur fám árum síðar (1370), enda stóð páfakrúnan ekki lengi þreföld eptir það nema að nafninu til.

Tímabil trúarheimsspekinnar er eitthvert hið merkilegasta atriði í allri sögunni, því þá byrjuðu vísindin að lifa nýju lífi, vermdu og ljómuðu í geislum guðs sólar. Aldrei hefir »atorka andans og athöfn þörf« skinið í fegri ljóma. Þá voru engin stríð, engir herkonúngar á suðurlöndum — því hersögurnar urðu þá norður í heimi, í Svíþjóð, í Norvegi og á Íslandi, og í krossferðunum — en lærdómsmennirnir voru andlegir herkonúngar og háðu andleg stríð. Tími trúarheimsspekinnar er sama sem tími riddaranna var þá og seinna; en annar var með orðum, en hinn með vopnum. Um lok elleftu aldar komu háskólarnir upp, og menn geta ekki líkt því vísindalífi, sem þá hófst, við annað í sögunni en heimsspekíngaskóla Grikkja og Alexandríu, þegar bezt lét, nema hvað þetta var því efldara, sem það gilti um eilífa sælu eða eilífa fyrirdæmíngu. Háskólarnir voru fyrst eins og nokkurs konar þjóðstjórnarríki, og voru ekkert riðnir við ríkisvald eða kirkjustjórn, þángað til 1231, þegar Gregor IX. komst í það þjark, sem kom upp um það, hvort leyfilegt væri að byggja skoðanir á Aristoteles í skólunum, en »philosophus« hafði það og komst inn. Í fyrstunni var einúngis ein aðalvísindagrein stunduð við sér hvern háskóla, til að mynda guðfræði við háskólana í París, Öxnafurðu og Kolni; lög í Bologna og læknisfræði í Salerno. Háskólinn í Neapel var hinn fyrsti háskóli, sem stofnaður var fyrir öll vísindi. Þessir háskólar voru svo stórkostlegir, að á þá gengu margar þúsundir stúdenta; fjörutigi þúsundir gátu setið á bekkjunum í Parísarháskólanum, og hann var styrktur og stoðaður af kóngum og keisurum, leikmönnum, páfum og klerus, og kallaður sól vísindanna, sem andann ala. Páfadómurinn var á þessum öldum í hinum mesta blóma, og Gregoríus VII. og Innocentíus III. tindruðu á söguhimninum með voðalegum og fögrum ljóma, sem aldrei mun blikna.

Ógurlegar styrjaldir voru á þessum tímum út af kenníngum Berengaríus frá Tours († 1088), sem sagði að Kristur væri ekki verulega sjálfur nærverandi í brauðinu og víninu, heldur væri helgunin ónóg nema menn neyttu líkama og blóðs frelsarans með sannri trú, eins og Kalvín kendi síðar; Berengaríus hafði komið sér vel við Gregor VII. og komst við það undan illu, en apturkallaði allt. Anselmus af Kantaraborg barðist við Roscelin út af þrenníngar lærdóminum og því lauk svo, að Roscelin var fyrirdæmdur á fundinum í Soissons 1092 og kallað að hann kendi þrjá guði. En harðasta styrjöldina vakti Abailarð. Petrus Abailarð var hinn gáfaðasti, djarfasti og lærðasti, skarpasti, mælskasti og liprasti allra þeirra, sem nokkrar sögur eru af á 11. og 12. öld, og hinn heilagi Bernardus, sem var sá eini sem á honum vann, gjörði það hvorki með lærdómi né lipurleik, og ekki með slægð eður ofríki, heldur einúngis með trúnni, því hann var sannheilagur maður. Þessir tveir, Abailarð og Bernardus, voru hinar mestu hetjur á sínum tíma. Abailarð stofnaði skóla hjá París, og þángað flyktust menn að honum hvaðanæfa; hann götvaði upp hverja mótsögnina af annari í bókum kirkjunnar og þrumaði hlífðarlaust á móti kirkjufeðrunum. Hann var fyrst lærisveinn Vilhjálms af Champeaux, sem stofnaði háskólann í París, en óx bráðum svo yfir höfuð Vilhjálmi, að hann þrumaði hann niður með mælsku, lærdómi og dirfsku; hann lagði hann svo í einelti með »dispútazíum«, og beitti öllum vopnum, skarpleika, hártogunum og drambi, að Vilhjálmur, sem var haldinn hinn mesti »dialecticus« allra manna, lagði niður kennsluna. Þetta var orsökin til yfirgángs Abailarðs, er hann hlóð slíkum dreka, og þótti sér nú ekkert ófært. Fúlbertus kanúki fékk Abailarð til að kenna frændkonu sinni Helóisu, og af þessari kennslu er Abailarð orðinn alkunnur og hafa margar skáldsögur verið ortar um þau. Hann var manna fríðastur sýnum og útbúinn öllu því sem mann mátti prýða; Helóisa var fögur og gáfuð, og nú feldu þau ástarhug hvort til annars, Abailarð og Helóisa. Þau létu gefa sig saman á laun, og nú fór svo, að Helóisa varð ólétt af völdum Abailarðs, en neitaði fastlega að hún væri hans kona; átti hún þúngum álögum að sæta af öllum ættíngjum sínum. Af þessum orsökum flúði Abailarð á burt með Helóisu og kom henni í nunnusetur; en Fúlbertus varð fokvondur, lét taka Abailarð og gelda. Abailarð gjörðist þá múnkur og ætlaði að hætta allri kennslu, fyrir sakir harms og reiði, en hafði engan frið fyrir hinum fyrri lærisveinum sínum og varð að taka til kennslunnar að nýju. En hann gjörði háð að ýmsu í kirkjulærdómunum og var nokkuð keskinn í orði, og nú var hann dæmdur til að brenna kennslubók sína á báli og að setjast í klausturvarðhald. Aptur komst hann samt þaðan og götvaði upp nýja villu; þá gerðu múnkar aðsúg að honum, og hlaut hann að flýja í skóg nokkurn og ætlaði að verða þar einsetumaður; en múgur og margmenni streymdi til hans aptur og neyddi hann til að halda fyrirlestra, og leið ekki á laungu, áður þar komst upp mikið ábótasetur. Þar eirði hann ekki, og fékk Helóisu ábótasetrið til umráða; en hún var abbadís í öðru klaustri og réði ekkert við nunnurnar vegna lostasemi þeirra og óreglu. Abailarð var síðan í átta ár ábóti í klaustri einu í Bretagne og fékk ekkert ráðið við múnkana þar; síðan tók hann aptur til að kenna og sóktu hann eins margir og fyrr, eða jafn vel fleiri. Sýndi hann enn ýmsa hluti, er ekki samrýmdust kirkjunni (í bókunum: Scito te ipsum, Theologia christiana og Sic et nou), og mótsagnir kirkjulæraranna. Þá fór Bernardus á móti honum, og var hann dæmdur villumaður og í klausturvarðhald að nýju, og bækur hans allar skyldi á bál bera (1140). Eptir það var Abailarð kyrr og bjó hjá ágætum ábóta, Petrus venerabilis, til dauðadags (1142), en sættist við Bernardus áður. Þannig er æfisaga þessa merkilega manns, sem vér ekki þekkjum hans líka með tilliti til ákefðar, heiptar og ástar. Bernardus af Claravalle (Clairvaux) var sannheilagur maður og innblásinn af heilögum anda svo mikið sem maður má vera; hann hneigist til Mysticismus og lýsa því öll hans rit. Merkir og vitrir lúterskir guðfræðíngar kannast við að öll æfi hans sé sveipuð kraptaverkanna geislandi dýrð. Frá fyrstu barnæsku stóð hann á móti freistíngum holdsins, og menn vita ekki um hann hinn minnsta skugga nokkurrar syndar. Hann var jafnt riðinn við ríkisvöld sem kirkjumálefni, og sóktur frá einu landi til annars til þess að dæma milli þengla og þjóða. Engin hræsni var hjá honum fundin, hann var blíður og góður, en refsaði harðlega misbrúkun klerkavaldsins: honum stóð páfatignin til boða fremur en öllum öðrum, en hann neitti því. Bæn og hugsun um guð var öll guðfræði hans (Orando facilius quam disputando et dignius Deus quaeritur et invenitur, segir Bernardus, og benda þessi orð á anda tímans). Af engum manni eru sögð jafn mörg og mikil kraptaverk og Bernardus, það er engu líkara en Jesú Kristi sjálfum, sem af honum er sagt, og miklu fremur en Þorláki helga, sem honum er þó líkastur þeirra er eg man eptir; þó er Franz af Sales líkur honum einnig, en um hann eru engin kraptaverk sögð, og þó er hann heilagur maður. Það þarf mikla bíræfni og dirfsku til að neita slíkum hlutum, en menn geta neitað öllu, og sumir neita öllu þótt þeir sjái það. Bernardus andaðist 1153.

Eptir þessa styrjöld komst friður á um hríð í kirkjunni. Á þessari öld voru uppi þeir Húgó af sancte Victore, vinur Bernardus og áþekkur Augustinusi, djúpsæjasti og lærðasti maður, og reit um sakramentin. Petrus Lombardus reit um trúarsetníngar kirkjunnar (sententias), og var það rit haft í öllum skólum og staðfest af kirkjunni sjálfri 1215. Fleiri merkilegir menn voru og uppi.

Öll lærdómsstríð þessarar aldar áttu sér rót í rannsóknunum um frumeðli hlutanna, og er harla torvelt að lýsa þessu, en þó er það nauðsynlegt, til þess að sjá anda tímans.

Heimsspekin var í fyrstunni kend á háskólunum sem formleg (Dialectica), og fékkst ekki við guð­fræði. Guðfræðin var fyrst sama sem skoðun hins ósýnilega (Metaphysica); en af sameiníngu Metaphysices og Logices (eða –orum) kom fram trúarsetníngafræðin (Theol. Dogmatica). Úr ritum Porphyrius, nýplatonisks heimsspekíngs († 304) náðu menn þeirri spurníngu, hvort lifandi hlutfall mundi vera á milli hins ósýnilega, sem Metaphysica kennir, og hugmyndanna (Begriffe), sem Logica gjörir ráð fyrir, ↄ: á milli realitatis og ideae. Þessu svaraði Anselmus af Kantaraborg († 1109) með því að leiða tilveru guðs út af hugmyndinni um guð (eins og Cartesíus gjörði síðar); tilvera eða verulegleiki hugmyndanna var þannig ályktaður sem gildur, og svo varð Anselmus foríngi þessa flokks, er því trúði. Þeir kölluðust Realistar, af því þeir vörðu verulegleika hugmynd­anna (Realitas idearum), og álitu, að hugmyndirnar hlytu að vera til áður en maður gæti hugsað um þær, og hvort sem menn hugsuðu um þær eður ekki. Á móti Anselmusi reis upp Roscelin kanúki, og neitaði að hugmyndirnar væru til þannig, en sagði að þær væru einúngis tilbúníngur málsins (flatus vocis) og ekki nema nöfnin tóm; hans menn kölluðust Nominalistar. Þessi ágrein­íngur réði öllum styrjöldum í trúarheimsspekinni með ýmsum háttum, sumir hneigðust til Platons og þar með til innri sjónar andans (Mysticismus); sumir til Aristoteles, eða sameinuðu þá.

Þrettánda öld. Þessi öld er einhver hin merkilegasta í sögunni, og á henni var trúarheimsspekin í mestum blóma. Þá voru og fagrar menntir í ekki minni dýrð, því að þá var Dante uppi og þá var farið að byggja dómkirkjuna í Kolni, sem er hin mesta meistarasmíð allra byggínga, og ekki búin enn. Þetta, og hinir fjórir menn, sem eg nú mun nefna, lýsir afli aldarinnar; hinir fjórir fólu í sér allan lærdóm, sem menn voru þá búnir að ná.

1. Tómas frá Aquino, 1227—1274, var greifi, frændi Hinriks keisara VIta og Friðreks konúngs annars, náskyldur Friðreki Barbarossa og kominn af Norðmönnum í móðurætt. Hann yfirgaf alla dýrð þessa heims og gjörðist múnkur af Dominikus reglu, á móti vilja allra ættíngja sinna. Hann var lærisveinn Albertus mikla, og var þar kallaður »nautið þegjandi«, því hann var mikill vexti og mjög fátalaður. En Albertus mikli sagði einhverju sinni, þegar verið var að gjöra gys að Tómasi í heyrnarsalnum: »það skuluð þér vita, að þetta naut mun einhvern tíma öskra svo hátt, að það heyrist um allan heim«. Hann kendi síðan bæði í Kolni, París og Rómi, hann sat að veizlum með Frakkakonúngi (Loðvíki helga) og var þá opt eins og utan við sig, því hann var sí og æ svo á sig kominn, að hann »hátt og djúpt huga sendi.« Síðan hafðist hann við í Dominikussetri í Neapel og dó á ferð til kirkjufundarins í Lyon, og halda sumir af eitri. Tómas af Aquino var »hinn voldugasti omnium scholasticorum«, hinn djúpsæjasti og skarpasti spekíngur þessarar aldar; jafn mikill heimsspekíngur og Augustinus, en ekki eins lærður. Í trúarlegu tilliti fylgdi hann Augustinus, en í öllu hinu formlega lagði hann Aristoteles til grundvallar. Aðalverk hans er Summa totius theol­ogiae, sem er eitthvert hið mesta verk sem nokkur einn maður hefir gjört, því að þar er ekki einúngis innifalin í öll guðfræði og heimsspeki kirkjunnar, heldur er það samanhángandi byggíng, sem mænir upp yfir öll önnur manna verk í þeirri stefnu.

2. Bonaventura (1211 — 1274) var annar mestur guðfræðíngur þessarar aldar. Hann var af Fransiskus reglu, og svo siðgóður, að menn sögðu um hann þegar á únga aldri, að það sýndist sem Adam hefði eigi í honum syndgazt. Hann hneigðist að hinnri innri sjón andans (Mystik), og ræður það í ritum hans. Bæði Tómas og Bonaventura voru skáld, því trúin og listirnar eru óaðgreinanlegar í eðli sínu; Tómas hefir ort svo fagra sálma á latínu, að aldrei hefir fegra verið kveðið í þá stefnu; þeir reyndu sig, Tómas og Bonaventura, og fór svo að Tómas vann sigur (það kvæði byrjar svo: Lauda Zion). Bonaventura orti mart og reit mart; hann var svo engilhreinn, að hann var kallaður »doctor seraphicus«,14 og var það sann-nefni. Tómas hafði lesið ýms rit og kvæði eptir hann, og með því hann var hinn hneigðasti fyrir alla bókvísi, þá gjörði hann sér ferð til Bonaventura til þess að sjá bókasafn hans, því hann hélt það væri mikið, en Bonaventura sýndi honum ímynd frelsarans, og sagði það væri bókasafnið sitt. Hann hafði nefnilega alla sína vizku af trúnni á Krist.

Hinir aðrir tveir hrókar alls náms á þessari öld voru fróðir menn, sem stunduðu öll veraldleg vísindi ásamt guðfræðinni.

3. Albertus mikli (1195—1280), greifi af Bollstädt, kennari í París og Kolni, af reglu Dominikus. Hann kunni jafn vel austurlanda mál sem grísku og latínu og ritaði í öllum vísindagreinum, en hann hugsaði ekki mikið upp sjálfur; að fjölhæfni var hann mestur allra trúarheimsspekínga, en hvergi nærri eins djúpsær og hinir þrír. Það liggur við að mönnum megi ægja hversu mikið sá maður hefir komizt yfir að rita; verk hans eru 21 bindi in folio, alls konar efnis. Hann lagði mjög stund á náttúruvísindi, og þekti marga hluti er ókunnir voru almenníngi; því lék það orð á honum, að hann væri fjölkunnugur, en aldrei komst hann í stríð við kirkjuna.

4. Roger Baco (1214—1294) álíta sumir fjölhæfastan mann allrar miðaldarinnar, og hann var lángt á undan sínum tíma í mörgum greinum. Hann nam fræði í París og Öxnafurðu. Hann kunni latínu, grísku, hebresku og arabísku eins vel og ensku og frakknesku; hann rýndi lángt fram fyrir sína öld inn í reikníngslist, stjörnufræði, læknisfræði og öll náttúruvísindi, og lét ekki lenda við eintóma skoðun, eins og annars var siður, en reyndi og prófaði sjálfur alla hluti, og réði alltaf til þess að gánga þann veg. Tilraunir hans í efnafræðínni leiddu hann svo lángt, að hann sá fyrir þá hluti, sem menn nýlega hafa upp götvað; hvað sem menn segja um Salomon de Caus eða þá sem menn rekja til uppáfinníngar gufuvélanna, þá er auðséð, að Baco hefir séð það miklu fyrr. Hann segir í þeirri bók, sem er ritin um leyndardóma listanna og náttúrunnar (de secretis artis et naturae), að menn geti búið til slík verkfæri fyrir skip, að þau geti farið yfir fljót og höf miklu harðar en með árum, og menn geti búið til vagna, sem geti runnið hart áfram án nokkurra eykja. Þótt menn eigi reikni uppgötvan púðurs og skotfæra eldri en til 15. Aldar,15 þá hefir Baco samt sagt í sama riti, að ef menn láti sérlegt efni í koparpípu, þá geti menn gjört óttalegan hvell, og með því efni geti menn eyðilagt staði og herlið. (Í fornum sögum vorum er talað um »herbrest«, sem gerður hefir verið með einhverju þess konar efni, t. d. í Biskupasögunum, um Þórð fiseler ↄ: fusilier). Samt ber þess að geta, að Arabar og Márar þektu púðrið miklu fyrr en norðurálfubúar. En andi tímans var ekki fyrir þessa stefnu Bacós; hann var ákærður fyrir fjölkynngi og galdra, og hlaut að sitja í díblissu í mörg ár, þángað til Clemens páfi hinn IV. leysti hann þaðan; segja menn að hann einn hafi skilið Baco, og á hann þakkir skilið fyrir það.

Aftanmálsgreinar

12. Sálarflakks-kenníng Pythagoras, sem hann án efa hefir numið á Egiptalandi.

13. Það sem menn kalla guðfræði (Theologia) almennt, er allt þetta til samans, en engin ein vísindagrein.

14. Hann er alls eigi kallaður þannig vegna stíls síns, eins og segir í „Nordisk Conversationslexicon.“

15. Þannig segja menn almennt í fræðibókum skólanna; en menn vita með vissu að púðrið, ↄ: efni sem haft var til að spreingja grjót með, er miklu eldra (frá 12. öld) – en til skotfæra hefir það ekki verið notað fyrr en seinna.