eftir Björn Þorsteinsson
Inngangur ritstjóra
Eitt af því sem markað hefur það litla sem af er 21. öldinni er skerðing á borgaralegum réttindum um veröld víða, ekki síst í hinum velmegandi hluta heimsins. Eftir árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 fór af stað umfangsmikið ferli sem engan veginn sér fyrir endann á og einkennist af magnþrungnu samspili nokkurra þátta. Í fyrsta lagi er alið á hugmyndinni um að „þarna úti“ sé að finna menn sem vilja okkur illt – að okkur steðji ógn sem er í eðli sínu ófyrirsjáanleg og vofir stöðugt yfir. Dulúðin sem þessi ógn er sveipuð dregur ekki úr áhrifamætti hennar. Í öðru lagi er brugðist við ógninni með máttugum gagnaðgerðum af hálfu handhafa ríkisvaldsins: aukið eftirlit með samskiptum fólks og ferðum milli staða, aukin harka í viðskiptum við hvers kyns öfl sem telja má ala á ógninni, auknar grunsemdir í garð einstaklinga af tilteknum uppruna eða trúarbrögðum. Þriðji þátturinn, sem minnst fer fyrir í umræðunni en ef til vill mest í veruleikanum, felst svo í áframhaldandi útþenslu fjármagns og markaðshyggju sem staðið hefur óslitið, en að vísu ekki áfallalaust, um nokkurra alda skeið.
Í anda frægra orða Hegels á þá leið að verkefni heimspekinnar sé að „færa samtímann í hugtök“ hafa ýmsir fræðilegir hugsuðir þegar hafist handa við að kortleggja og greina þessa þróun, og leita þá gjarnan fanga hjá þýska höfundinum Walter Benjamin (1892–1940). Í greinum sínum „Um söguhugtakið“, sem komu út á íslensku í síðasta hefti Hugar, notast Benjamin við hugtakið um undantekningarástand sem þekkt var úr þýskri lögspeki, einkum úr verkum Carls Schmitt (1888–1985). Meðal fremstu arftaka Benjamins (og Schmitts) á þessu sviði er ítalski heimspekingurinn Giorgio Agamben, sem hefur í mörgum rita sinna tekist á við hugmyndina um undantekningarástand, ekki hvað síst á síðustu árum – enda vísar umrætt hugtak til þess þegar ríki eða ríkisvald afnemur réttarkerfið, eða sjálfar leikreglur lýðræðisins, í því skyni að verjast tiltekinni ógn sem talin er steðja að ríkinu og/eða lýðræðinu. Til vitnis um slíkt ástand í samtíma okkar nægir ef til vill að nefna, án frekari skýringa, tvö sérnöfn: Guantánamo og Abu Ghraib.
Þema þessa heftis Hugar er einmitt ótti og undantekningarástand. Birt er stutt grein Agambens þar sem hann greinir hugtakið um undantekningarástand á sögulegan og röklegan hátt og tengir það við nýlegar hugmyndir um lífvald og atburði í samtímanum. Sænski heimspekingurinn Christian Nilsson hefur ritað töluvert um tengslin milli Agambens og Benjamins og gerir grein fyrir þeim í ritgerð sinni „Verkefni hugsunarinnar í undantekningarástandinu“. Þar heldur hann því meðal annars fram að hugmynd Agambens sé engan veginn sú að hægt sé að aflétta undantekningarástandinu; hinni sögulegu þróun verði ekki snúið við, eða eins og Benjamin orðar það í áðurnefndum texta um söguhugtakið: „Saga hinna kúguðu kennir okkur að „undantekningarástandið“ sem við búum við er reglan. Við verðum að finna söguhugtak sem samrýmist því. Þá sjáum við að verkefni okkar er að koma hinu raunverulega undantekningarástandi á; og þar með batnar staða okkar í baráttunni gegn fasismanum.“ Þriðja greinin í þemahluta heftisins er eftir íslenska heimspekinginn Hjörleif Finnsson, en hann tekur á samspili ótta og undantekningarástands á annan hátt en Agamben og Nilsson og beinir sjónum að því hvernig öryggisiðnaður kallast á við það hvernig alið er á ótta í velmegunarríkjum Vesturlanda. Greiningu sína tengir Hjörleifur meðal annars við vel þekktar kenningar þýska félagsfræðingsins Ulrichs Beck um áhættuþjóðfélagið, svo og kunnuglegar hugmyndir um áhættustjórnun sem nú seilast æ lengra inn í líf einstaklinganna.
Róbert Haraldsson heimspekingur hefur látið mikið að sér kveða í íslenskum fræðaheimi á síðustu árum, og er skemmst að minnast þess að á árinu 2004 sendi hann frá sér tvær bækur: greinasafn á íslensku (Frjálsir andar) og langa ritgerð eða esseyju á ensku (Plotting against a lie). Hugmyndum Róberts eru gerð allnokkur skil í heftinu; annars vegar birtist ítarlegt viðtal sem Róbert Jack átti við nafna sinn á síðasta ári og hins vegar efnismikil og djúptæk úttekt á fyrrnefndu greinasafni Róberts, Frjálsum öndum, eftir Davíð Kristinsson. Þar er ekki látið við það sitja að ræða kenningar Róberts sjálfs, heldur eru þræðir raktir til ýmissa höfunda sem hann á í samræðu við, einkum Thoreaus, Emersons og Nietzsches. Jafnframt er grafist fyrir um rætur hugsunar tveggja þeirra fyrrnefndu og meðal annars athugað hvernig þær teygðu anga sína til Íslands á 19. öld og við upphaf 20. aldar.
Róbert Haraldsson ber víðar á góma í heftinu. Í grein sinni „Málsvörn“ bregst Kristján Kristjánsson við gagnrýni þriggja annarra heimspekinga, Róberts, Jóns Á. Kalmanssonar og Jóns Ólafssonar, á siðfræðikenningar sínar. Kristján beinir meðal annars sjónum að klípusögum og öðrum atriðum er varða útfærslu á nytjastefnunni. Ætla má að grein hans verði öðrum tilefni til að taka upp þráðinn.
Ekkert lát er á þeirri stefnu Hugar að birta metnaðarfullar þýðingar á merkum heimspekitextum. Þannig má finna hér í heftinu margrómaða grein bandaríska heimspekingsins Edmunds L. Gettier sem ber í þýðingu Geirs Þ. Þórarinssonar heitið „Er sönn rökstudd skoðun þekking?“. Jafnframt hefur heftið að geyma þýðingu eins reyndasta þýðanda Íslendinga á sviði heimspeki, Gunnars Ragnarssonar, á sígildum texta Davids Hume „Um mælikvarðann á smekk“. Óþarfi er að hafa mörg orð um hversu mikill fengur þessir tveir textar eru íslensku áhugafólki um rökgreiningarheimspeki og listheimspeki – og heimspeki almennt.
Listheimspeki á sér fleiri fulltrúa í heftinu. Í grein sinni „Listin á tímum tækninnar“ tekur Gunnar Harðarson til athugunar umfjöllun Halldórs Laxness um sjónrænar listir í Alþýðubókinni og ber hana saman við margfræga ritgerð áðurnefnds Walters Benjamin, „Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar“. Samanburðurinn varpar áhugaverðu ljósi á nóbelsskáldið og afstöðu hans til gamalla og nýrra listgreina, og vekur upp áleitnar spurningar um útmörk lista í tæknivæddum og stafrænum heimi.
Stefán Snævarr hefur vakið athygli á síðustu árum fyrir líflega umfjöllun um markalínur heimspeki og bókmennta, myndhverfingar og menningarpólitík, meðal annars í bók sinni Ástarspekt (2004). Hér í heftinu birtist eftir hann grein sem ber heitið „Tilraun um tilfinningar“. Þar tekst Stefán á við það torsótta verkefni að gera skynsamlega grein fyrir tilfinningum og leitar í smiðju ýmissa sérfræðinga á því sviði – en setur jafnframt fram eigin kenningu um eðli tilfinninga.
Logi Gunnarsson er meðal þeirra heimspekinga íslenskra sem best hefur gengið að hasla sér völl erlendis. Í tilefni af útkomu bókar hans Stiga Wittgensteins í íslenskri þýðingu leitaði ritstjóri Hugar til þýska heimspekingsins Jörgs Volbers, sem hefur sérhæft sig í verkum Wittgensteins, um að skrifa grein um téða bók. Útkoman birtist hér í heftinu og ber nafnið „Heimspeki sem fræðikenning eða iðja?“. Volbers setur þar hugmyndir Loga í samhengi við aðra kunna Wittgenstein-sérfræðinga í samtímanum, einkum bandarísku heimspekingana James Conant og Coru Diamond, og veltir fyrir sér meðferðargildi hugtakagreiningar sem miðast við að skilja á milli merkingar og merkingarleysu. Ein niðurstaða greinarinnar er sú að ekki sé ýkja mikill munur á meginlandsheimspeki og engilsaxneskri heimspeki hvað þetta snertir.
* * *
Eins og fram kemur í pistli frá stjórn Félags áhugamanna um heimspeki aftast í heftinu hafa síðustu ár verið félaginu fjárhagslega erfið og á köflum hefur verið tvísýnt um að Hugur héldi velli. Nú lítur út fyrir að flestum ef ekki öllum ljónum hafi verið rutt af veginum og er mér það í senn ljúft og skylt að þakka þeim sem setið hafa í stjórn félagsins í ritstjórnartíð minni gríðarlega gott og óeigingjarnt starf í þessum þrengingum. Heimspekinni á Íslandi er borgið meðan hún á sér jafn öfluga og ötula fylgismenn og þau eru.
Eins og ráða má af framansögðu hefur verið leitað til ýmissa einkaaðila um stuðning til að tryggja tilvist Hugar enn um sinn. Leitin hefur þegar borið ágætan árangur, enda er raunin sú að heimspekin á sér hauka í horni víðar en margan grunar. Sérstakar og ómældar þakkir fyrir höfðingsskap og stórhug í þágu heimspekiiðkunar á Íslandi fá Kaupþing banki, Glitnir og H.F. verðbréf. Jafnframt er Heimspekistofnun Háskóla Íslands þakkaður góður stuðningur. Víst er að án þessara velunnara Hugar væri þetta hefti ekki í þínum höndum.
Vakin er athygli á vefsíðu Hugar og Félags áhugamanna um heimspeki. Þar er meðal annars að finna upplýsingar um hvernig gerast megi áskrifandi að ritinu. Jafnframt má benda á að áskrifendum, nýjum og gömlum, stendur til boða að kaupa eldri tölublöð Hugar á sérstökum kostakjörum.
Að síðustu ber að geta þess að Geir Sigurðsson hefur fallist á að taka að sér ritstjórn Hugar frá og með næsta hefti. Ætlun hans er að gera betur en fráfarandi ritstjóri og koma ritinu út á réttum tíma.