Færslusöfn

Benedikt Gröndal

Benedikt Gröndal (1826–1907), skáld, bókmenntafræðingur og náttúrufræðingur.

Fæddur á Eyvindarstöðum, Álftanesi, 6. okt. 1826, sonur Sveinbjarnar Egilssonar, síðar rektors, og Helgu Benediktsdóttur Gröndal. Stúdent úr Bessastaskóla 1846 og stundaði nám í náttúrufræðum og bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla, lauk meistaraprófi í norrænum fornbókmenntum 1863. Kenndi við Reykjavíkurskóla 1852-1854 en fór til Louvain í Belgíu 1857 í slagtogi við Etienne Djunkovsky, kaþólskan trúboða. Sinnti ýmsum rit- og kennslustörfum, síðast við Lærða skólann 1874–1883. Lést í Reykjavík 2. ágúst 1907.

Benedikt gaf út fjölda ritverka, greina, þýðinga og skáldverka. Hann ritaði nokkuð um skáldskapar- og fagurfræði, og samdi langt, heimspekilegt kvæði, Hugfró. Í Louvain skrifaði hann ritgerð um heimspekisögu, „Um það að vita“, og gaf hana út í málgagni sínu, Gefn, 1870. Þar rekur hann sögu heimspekinnar frá öndverðu til 13. aldar, ræðir forngríska heimspeki, Platon, Aristóteles, nýplatonisma og gnosticisma og lýkur umfjöllun sinni á skólaspeki miðalda. Þegar á ritið líður verður heimspekisagan raunar að heimspekingasögu. Ritgerðin er einkum markverð fyrir þá sök að hún er fyrsta tilraun til heimspekisögu sem vitað er til að Íslendingur hafi skrifað.

Nokkur önnur rit: DægradvölHeljarslóðarorrustaRitsafn.

« Til baka