Er trúin þverstæða?

eftir Jóhönnu Þráinsdóttur

Er trúin þverstæða?

Gagnrýni Magnúsar Eiríkssonar á trúarskoðunum Kierkegaards í Ugg og ótta

Inngangur

Á fimmta og sjötta tug nítjándu aldar urðu í Danmörku harðar deilur um tengsl trúar, og þá einkum kristindóms, við heimspeki og raunvísindi. Tildrögin má rekja til þeirra rita Sørens Kierkegaard, sem hann skrifaði undir dulnefni, en þar hafnar hann öllum slíkum mægðum. Að hans dómi var trúin allri hugsun og öllum vísindum æðri.1 Íslenski guðfræðingurinn Magnús Eiríksson (1806–1881) gerðist fljótt atkvæðamikill á ritvellinum í deilum þessum. Hann kom þar fram sem fulltrúi skynsemishyggju sem var þó, vegna innilegrar trúarsannfæringar hans, að ýmsu leyti frábrugðin almennri skynsemishyggju þessa tíma. Í ritum sínum deildi Magnús ekki aðeins á helstu framámenn dönsku kirkjunnar, svo sem Mynster Sjálandsbiskup, Martensen, prófessor við Hafnarháskóla og Grundtvig, heldur einnig Søren Kierkegaard, sem guðfræðingar töldu þó yfirleitt ekki svara verðan.

Hér verður aðeins drepið á helstu ágreiningsefni Magnúsar við Kierkegaard, eins og þau koma fram í riti sem kom út í Kaupmannahöfn 1850 undir heitinu: „Er Troen et Paradox og „i Kraft af det Absurde“? et Spørgsmaal foranlediget ved „Frygt og Bæven, af Johannes de silentio“, besvaret ved hjelp af en Troes-Ridders fortrolige Meddelelser, til fælles Opbyggelse for Jøder, Christne og Muhamedanere, af bemeldte Troes-Ridders Broder Theophilus Nicolaus.“

Eins og heitið ber með sér er kveikjan að riti Magnúsar rit Kierkegaards Uggur og ótti (Frygt og Bæven), sem hann gaf út undir dulnefninu Johannes de silentio.

Rit Magnúsar er alls 215 síður og skiptist það í þrjá meginkafla: I. Troen, betragtet fra Abrahams Standpunkt, som í Kraft af det Absurde, II. Det af Johannes de silentio anvendte Exempel: Troens Ridder og hans forhold til Prinsessen, oplyses og prøves, III. Troes-Paradoxet, saaledes som det fremtræder í „Afsluttende uvidenskabelig Efterskrift“ af Johannes Climacus. Ritið hefst á formála þar sem Magnús ávarpar lesandann og gerir grein fyrir tilgangi sínum með skrifunum, en hann er tvíþættur: Annars vegar að hrekja kenningar Kierkegaards um það að trúin sé þverstæða og að menn trúi í krafti fjarstæðu, hins vegar að sýna fram á að Kierkegaard gefi ranga mynd af riddara trúarinnar í Ugg og ótta. Hann lýsir jafnframt yfir furðu sinni á því að enginn guðfræðingur skyldi verða fyrri til að mótmæla slíkum skoðunum á þeim sjö árum sem liðin eru frá því að Uggur og ótti kom út (1843). Riti Magnúsar lýkur á viðbót eða eftirmála. Þar fjallar hann um skoðanir eðlisfræðingsins H.C. Örsteds á trúmálum eins og þær koma fram í riti hans Aanden i Naturen. Örsted var, eins og Magnús sjálfur, fulltrúi skynsemishyggju (rationalisma) og telur Magnús að Örsted sameini á óyggjandi hátt trú og vísindi í ofangreindu riti sínu.

Fjarstæðan

Magnús telur Kierkegaard til tekna að hafa með riti sínu, Ugg og ótta, hrist svo um munar upp í andlegum doða dönsku kirkjunnar. Hann telur, líkt og Kierkegaard, að trú Abrahams og fornar trúarhefðir geymi rétta afstöðu til trúar. Þess vegna stílar hann rit sitt ekki eingöngu á kristna, heldur líka gyðinga og múhameðstrúarmenn, eða alla þá sem trúa á einn Guð og þekkja eitthvað til föður Abrahams. Hann kveðst treysta því að enn séu þó einhverjir á meðal kristinna manna sem trúi upp á gamla móðinn og séu ekki svo þrælbundnir af tíðarandanum að þeir liggi óhagganlegir við lífsakkeri nýtísku trúar. Þar á Magnús við hugspekilega trúfræði í anda Hegels. Hann telur að þar setji guðfræðingar smáatriði á oddinn í stað þess sem mestu skiptir: Trúna á Guð, almætti hans, speki og náð, traust á honum og hollustu við vilja hans, ásamt kærleikanum til náungans.

Þótt Magnús telji að Kierkegaard leggi með Ugg og ótta fram drjúgan skerf til að upphefja og róma trúna, þá skjátlist honum þó hrapallega þegar hann heldur því fram að hreyfiafl trúarinnar sé fjarstæða, enginn sanntrúaður maður geti samþykkt fjarstæðu sem trúarlegan grundvöll.

Magnús bendir á að einn af kirkjufeðrunum hafi þegar í frumkristni gerst talsmaður þeirrar frum­reglu að trúin byggist á fjarstæðu með því að segja: Credo quia absurdum (ég trúi af því að það er fjarstæða). Setning þessi er eignuð Tertullianusi kirkjuföður (u.þ.b. 160– 220). Magnús telur að þar hafi Tertullianus átt við að trú sé það sem ekki verður skýrt eftir leiðum skilningsins, það sem verði sannað eftir leiðum hans sé í raun þekking en ekki trú. Hann getur þess að þótt fleiri kirkju­feður hafi orðið til að aðhyllast þessa reglu hafi hún þó aldrei birst í jafnskarpri mynd hjá þeim og hún gerir hjá Kierkegaard í Ugg og ótta. Muninn skilgreinir Magnús á eftirfarandi hátt: „Kirkjufeðurnir eiga við að fjarstæðan sem slík sé af þeirri gerð, að taki menn hana á annað borð gilda, hljóti það að vera í trú, viðfangsefni sem ekki á samleið með skilningnum gefur einmitt rými fyrir trúna“2 Í Ugg og ótta segir Kierkegaard aftur á móti, að dómi Magnúsar, að ef hann á annað borð trúi, þá trúi hann í krafti fjarstæðu. Til áréttingar vitnar Magnús í eftirfarandi ummæli í Ugg og ótta: „Hann (Abraham) trúði í krafti fjarstæðunnar, því að þar komu mannlegir útreikningar ekki til greina“3 Með þessu telur Magnús að Kierkegaard gangi lengra en kirkjufeðurnir og fullyrði að fjarstæðan hafi þann kraft í sér sem fær menn til að trúa.

Magnús segir að þótt hann gæti jafnvel fallist á frumregluna um trúna sem fjarstæðu í sinni fornu mynd, geti hann alls ekki fallist á hana í þeirri beinskeyttu þrætubókarmynd sem hún á sér í Ugg og ótta og Afsluttende uvidenskabelig Efterskrift (Johannes Climacus). Hann heldur því fram að sönn og sterk trú eigi sér fastan grunn og djúpar rætur í hinum hreina, andlega hæfileika mannsins sem kallast skynsemi ásamt tengslum sínum við hið óendanlega og eilífa, við æðstu veruna eða Guð. Skynsemina skilgreinir hann nánar sem æðri, andlega skynjun mannsins. Magnús gerir, eins og reyndar Kierkegaard sjálfur, greinarmun á almennri trú og æðri trú. Frum­skilyrði beggja er innri sannfæring um æðstu veru, sem býr yfir almætti, speki og gæsku. Það er þó aðeins fyrsta skrefið til æðri trúar, þeirrar sönnu trúar sem gegnsýrir lífsskoðun hins trúaða þannig að hún verður merking lífs hans. Flestir láta þó staðar numið við sértækari trú, þar sem trúin er ekki annað en hugsun eða hugmynd. Þótt slík trú sé tekin góð og gild verður hún þó aldrei að lifandi guðssambandi. Það sem þar á skortir er hlýðnin við Guð, traustið á honum og kærleikurinn til hans. Slík trú verður því aldrei virk í lífi og lífsháttum hins trúaða, eða í tengslum hans við náungann. Grundvallarafl og eðli æðri trúar er að mati Magnúsar ótakmörkuð hlýðni, traust, hollusta og kærleikur. Hann telur slíkar hugarhræringar sýna að trúnni verði ekki líkt við þverstæðu, jafnvel ekki hinni upphöfnustu trú, sem ætti einmitt sem slík að vera fyrir hendi í kristindóminum. Að hans mati er heldur ekki hægt að líta svo á að menn trúi í krafti fjarstæðu. Trúin er þvert á móti hið allraskynsamlegasta og þar sem hún grundvallast á æðri, andlegum lögmálum getur hún hvorki verið þverstæða né fjarstæða. Slík trú byggist á eftirfarandi kjarna­setningum: Það sem manninum er um megn er Guði gerlegt og Guði er ekkert um megn; allt er gerlegt þeim sem trúir og allt verður þeim til góðs sem elskar Guð. Það sem maðurinn trúir að sé er, jafnvel þótt hann geti ekki leitt að því þekkingarleg rök, en þeim er trúin óháð. Hið ótrúleg­asta getur gerst, jafnvel þótt það virðist óhugsandi frá sjónarhóli hins almenna og takmarkaða mannsanda.

Magnús viðurkennir að það sé að vísu sannleikskorn til í því þegar því er haldið fram að trúin sé þverstæða og hinn trúaði trúi í krafti fjarstæðu. En þá er aðeins litið á trúna frá lægri og tak­markaðri sjónarhóli takmarkaðrar skynsemi. Frá æðri, andlegum sjónarhóli hins trúaða er ekki hægt að samþykkja slíkt. Abraham trúði í krafti fjarstæðu að því leyti að þar gat ekki verið um neina mannlega útreikninga að ræða. En sé tillit tekið til æðri, andlegra lögmála, til órannsakan­legs vísdóms Guðs, sem er skilningnum enn að ýmsu leyti ofvaxinn, verður slíkt þó ekki sagt. Í skynsemi mannsins býr eilíf hugmynd um slík lögmál og hvíli trúin örugg í trausti til hinnar æðstu veru er óhugsandi að í henni birtist þverstæða eða fjarstæða. Og engin trú er sönn nema hún byggist á Guði, almætti hans, vísdómi og kærleika ásamt stjórn hans á heiminum og örlögum einstaklinga. Magnús telur því ljóst að trúin geti ekki verið það sem hún er í krafti fjarstæðu, heldur sé hún það þvert á móti í krafti þeirrar æðri eða æðstu skynsemi og vísdóms sem maðurinn getur yfirleitt meðtekið, jafnvel þótt hann standi næsta skilningsvana frammi fyrir henni.

Riddari trúarinnar

Magnús telur dæmi Kierkegaards um riddara trúarinnar og prinsessuna í Ugg og ótta einmitt varpa ljósi á það að menn trúa ekki einungis í krafti fjarstæðu. Kierkegaard heldur því fram að ástin til prinsessunnar sé lífsmerking riddara trúarinnar og jafnframt skilyrðið fyrir hinni óendan­legu auðsveipni, sem hann ætlar honum, allt þar til „undrið“ gerist. Magnús telur að þar sameini höfundur hugarhræringar sem ekki verði sameinaðar. Lífsmerking hins sanntrúaða getur bara verið ástin til Guðs, ekki jarðnesk ást. Einkenni trúarinnar eru m.a. þau, að hinn trúaði lætur ekkert af því sem jarðneskt er skipta sköpum fyrir líf sitt eða hamingju.

Hann telur Kierkegaard hafa rétt fyrir sér í því að trúin geti ekki verið til án auðsveipni. En auð­sveipnin í guðssambandinu er ekki bara undir vilja hins trúaða komin, heldur líka lífssýn hans og vitund. Sé auðsveipninni þannig farið að hann lætur aðeins af því að óska sér einhvers, sem hann hefur þó áður talið merkingu lífs síns, er það mótsögn við sanna trú. Hinn sanntrúaði lætur fyrst af öllu af því að óska sér einhvers sérstaks til að byggja líf sitt á. Hann afsalar sér því að mynda sér nokkrar skoðanir á jarðneskri stöðu sinni, hamingju eða sælu. Vitund hans hvílir aðeins í æðri vitund og vilji hans þess vegna í æðri vilja.

Kierkegaard hefur líka rangt fyrir sér þegar hann lætur hugarhræringar auðsveipninnar ná hápunkti áður en að trúnni kemur. Í veruleikanum kemur trúin ekki í einu vetfangi, hvað þá heldur í sömu andrá og andstæðri hugarhræringu er teflt fram á ystu þröm. Slíkt gefur aðeins skrípamynd af trú. Það þarf hvorki að tefla auðsveipninni fram á ystu þröm áður en trúin kemur, né heldur víkja frá henni við komu trúarinnar. Trúin þróast í hugarhræringum, og það þýðir að auðsveipnin getur ekki þróast á jafneinhliða hátt og Kierkegaard telur. Auðsveipni getur verið til í vissan tíma án trúar, en frá því að hugarhræringar trúarinnar byrja í manninum þróast þær samhliða og styrkja hver aðra. Umskiptin verða aldrei jafnbrött og Kierkegaard ætlar og auðsveipnin er aldrei gefin alveg upp á bátinn. Viss tegund auðsveipni tilheyrir trúnni, en hjá hinum trúaða er hún trúnni undirgefin, sé trúin sönn og sterk. Auðsveipnin er að vísu alltaf til staðar og þess vegna má kalla hana óendanlega. En því sterkari sem trúin er, því minna lætur hún á sér bera. Trú Abrahams var sönn og sterk fyrir. Þess vegna er útilokað að hann þurfi að ganga í gegnum jafnöfgafullt ferli frá auðsveipni til trúar og Kierkegaard gerir ráð fyrir. Slíkt mætti heimfæra upp á riddara auðsveipn­innar, en ekki riddara trúarinnar.

Samband riddara trúarinnar og prinsessunnar

Magnús ásakar Kierkegaard fyrir að gera ekki grein fyrir því hvort riddari trúarinnar, sem heldur að hann elski prinsessuna í krafti fjarstæðunnar, heldur líka að hann höndli hana þótt hún elski hann ekki, né heldur því hvort ástin á prinsessunni sé lífsmerking riddara trúarinnar á sama hátt og riddara auðsveipninnar. Riddara trúarinnar dytti aldrei í hug að hann höndlaði prinsessuna nema ástin væri gagnkvæm. Slíkt væri kjánaskapur sem aðeins er unnt að trúa í krafti fjarstæðu. Riddari trúarinnar trúir hins vegar í krafti æðri skynsemi.

Ást á konu getur aldrei orðið lífsmerking riddara trúarinnar, ekki einu sinni þótt konan sé prins­essa. Léti hann jarðneska sælu verða háða slíku, hefði hann jafnvel líka látið af auðsveipninni, og stæði þar með þrepi lægra en riddari hinnar óendanlegu auðsveipni. Þá er trúin orðin að einhliða kröfu og slíkt á ekki skilið að kallast trú. Þótt riddara trúarinnar fýsti að höndla prinsessuna trúir hann því ekki skilyrðislaust að hann höndli hana. Haldi Kierkegaard slíku fram er það rangt og þar dugar heldur ekki dæmi Abrahams til. Abraham trúði að vísu skilyrðislaust, en trú hans grund­vallaðist á fyrirheiti því sem Guð gaf honum. Þar lætur hann enga óskhyggju ráða ferð, heldur beygir sig auðsveipur undir hinn alvísa herra veraldar.

Riddara trúarinnar er þó óhætt að líta á sambandið við prinsessuna sem möguleika í ljósi þess að vegna innri verðleika sinna er hann hennar fullkomlega verðugur. Mannlegt gildi skal metið í hinni djúpu og lifandi tilfinningu fyrir öllu sem er gott, réttlátt og göfugt ásamt viljanum til að fram­kvæma það. Og þar stendur riddari trúarinnar öllum furstum framar. Hann sameinar í sjálfum sér ekki einungis bestu og sönnustu hugarhræringar sem hægt er að eigna nokkrum manni, heldur líka þær mildu og blíðu hugarhræringar sem hingað til hafa verið taldar séreinkenni kvenna. Riddara trúarinnar er jafneðlilegt að elska og trúa og vona. Flesta skortir það sálarlega þanþol sem riddari trúarinnar býr yfir. Þess vegna skilja þeir ekki að hann skuli geta sameinað svo ólíkar hugarhræringar og telja slíkt mótsögn.

Þetta sjónarmið öðlast hann aðeins með því að þroska með sér sitt upprunalega og betra eðli. Og í því er einmitt grunneðli trúarinnar fólgið. Því miður miðast samfélagslegt uppeldi fremur við að tortíma hinu góða og sanna í mannseðlinu en göfga það. Heppnist einhverjum að þroskast í samræmi við eðli sitt er það fremur með æðri hjálp og náð ásamt eigin vilja og starfi, en aðstoð kennara og leiðbeinenda. Þar eru kirkjunnar menn sýnu verstir, sem kenna að eðli mannsins sé allt frá upphafi spillt og vont.

Fyrsti áfanginn í tengslum riddara trúarinnar við prinsessuna, sem hann elskar og telur sig geta höndlað, eru almenn tengsl. Þau geta þó þróast í sértækara samband þar sem riddarinn trúir því ekki bara að hann geti höndlað hana, heldur er hann viss um að svo verði. En því trúir hann ekki í krafti fjarstæðu, heldur í krafti æðri vísbendingar, sem hann hefur fengið þar um. Henni má líkja við fyrirheitin til forna, líkt og fyrirheitið sem Abraham fékk frá Guði. Og þá fá engir örðugleikar haggað trú hans. Hann treystir því að hvernig sem allt fer, sé það samkvæmt vilja og forsjón Guðs.

Þverstæðan

Magnús heldur því fram að í raun hafi Kierkegaard aldrei skilgreint þverstæðuna sem slíka varðandi hina einföldu trú Abrahams í Ugg og ótta. Þar renni hún eiginlega saman við fjarstæðuna. Aftur á móti skilgreini Kierkegaard þverstæðuna rækilega í ritinu Afsluttende uviden­skabelig Efterskrift til de philosophiske Smuler(Johannes Climacus). Þar kemur þverstæðan fram sem sögulegur atburður, þ.e. holdtekjan. Hún felst þá í því að Guð varð á ákveðnum tíma og ákveðnum stað hold, fæddur af konu og að því leyti maður. Þannig varð hið eilífa sjálft til í hinu stundlega og þannig kemst einstaklingurinn í tilvistarsamband við eilífa sælu sína í stundleg­leikanum. Slíkt samband stríðir gegn allri hugsun. Fjarstæðan er þá að eilíf sæla verður til innan vébanda tímans. Guð varð til, fæddist og átti sína tilveru, rétt eins og hver annar maður. Hann gaf manninum kost á að sameinast sér hér og nú.

Þannig má ætla, að dómi Magnúsar, að trúin hafi ekki orðið þverstæða fyrr en með þessum atburði og hafi því ekki verið til sem slík á tímum Abrahams. Og þá verður ekki sagt að Abraham hafi trúað í krafti fjarstæðu eða þverstæðu. Kierkegaard tiltekur ekki fleiri þverstæður og gefur heldur ekki kost á forkristilegri þverstæðu. Með því að skilgreina trú sem fjarstæðu og þverstæðu, sem verður fyrst til við holdtekjuna verður ekki einu sinni sagt að Abraham hafi verið sannur trúmaður. Þverstæðan, eða fjarstæðan sem slík, er þá eingöngu bundin við kristindóminn. Sú trú sem áður var til hefur þá aldrei verið til í eiginlegri merkingu.

Magnús viðurkennir að gangi menn út frá kenningum kirkjunnar megi raunar flokka trú undir fjarstæðu og þverstæðu. Hver hugsandi og trúaður maður sér ljóslega að þær eru fullar af fjar­stæðu og þverstæðum sem stríða bæði gegn skilningi og skynsemi. Í framhaldi af því hlyti þrautalendingin að vera sú að gera fjarstæðuna að frumreglu trúarinnar. En kenningarnar eru jafnframt sannri trú óviðkomandi, þar sem sannur trúmaður trúir ekki samkvæmt valdboði. Maður getur verið sanntrúaður þótt hann hafni einni eða fleirum af þeim kennisetningum sem einkenna kristindóminn, það væri jafnvel mögulegt að hafna þeim öllum af einskærri trúrækni. Því einfaldari og innilegri sem trúin er, því hreinni og sannari er hún. Slík var trú Abrahams og sem slík er hún lofuð í Nýja testamentinu og kristindómurinn rakinn til hennar. Að mati Magnúsar er greining Kierkegaards á trúnni sem þverstæðu og fjarstæðu á fölskum forsendum reist. Öll hans rök miðast við það sem hann hefur fyrirfram ætlað sér að sanna og þar kemst hann meira að segja líka í mótsögn við sjálfan sig.

Viðbrögð Kierkegaards

Kierkegaard minnist fyrst á ofangreint rit Magnúsar (Theophilusar Nicolausar) í Papirer (dag­bækur) X2 A 601 1850. Þar kvartar hann undan því að þurfa að verja listilega ofin verk sín fyrir bögubósum og sakar Magnús um að hafa ekki tekið tillit til þess að þau séu skrifuð undir dul­nefni, af höfundi sem tekur það fram að hann eigi sjálfur ekki trúna.

Í Papirer X6 B 68–82 1850 er að finna nánari svör, sem Kierkegaard hefur hripað hjá sér varðandi ritið. Hann vísar til þeirra orða Magnúsar að vilji menn endilega ganga út frá kenningum kirkjunnar hljóti þrautalendingin að verða sú að gera fjarstæðuna að frumreglu trúarinnar. Kierkegaard segir að þar hafi Magnús í raun tekið að sér að verja þverstæðu hans. En í leiðinni hafi honum tekist að varpa frá sér öllu sem heitir kristindómur. Í báðum þeim ritum sem Magnús minnist á taki höfundar það fram að þeir séu ekki kristnir, en þeir halda samt fast við kristin­dóminn. Magnús hafnar hins vegar kristindóminum, en heldur samt áfram að telja sig kristinn. Og það jafnvel án þess að gera nokkurn greinarmun á Gyðingum, kristnum og múhameðs­trúarmönnum.

Hvað trú Abrahams varðar, sem Magnús virðist taka fram yfir kristindóminn, kemst hann þar heldur ekki hjá fjarstæðunni. Með því að tengja í einni andrá fyrirheitið við líf Ísaks, en krefjast þess í næstu andrá að Abraham fórni honum, virðist Guð samkvæmt allri skynsemi lenda í mótsögn við sjálfan sig. En Abraham kallast faðir trúarinnar einmitt af því að trú hans bar þau formlegu einkenni trúarinnar að trúa þvert á allan skilning. Hins vegar hafi hinni kristnu kirkju aldrei dottið í hug að trú Abrahams innihéldi kristna trú, sem kemur sögulega séð ekki til fyrr en síðar.

Magnús vill afnema allt sem heitir fjarstæða og þverstæða eða hið yfirskilvitlega. En með því að gera það með málsvörn eins og bein boð frá Guðiæðri vísbending,sýniropinberanir og öðru þess háttar, sem á að vera hinum trúaða hin sjálfsagðasta og hversdagslegasta reynsla, er Magnús sjálfur mun fremur innan marka hins yfirskilvitlega en þeirrar skynsemishyggju sem hann annars kennir sig við. Og auk þess gagnast slík skýring Abraham ekki neitt, því að hann á einmitt í togstreitu vegna tveggja æðri vísbendinga, þ.e. fyrirheits Guðs varðandi Ísak og kröfunnar um að fórna honum. Hvergi er minnst á neina þriðju „æðri vísbendingu“.

Æðri skynsemi

Eins og áður er sagt teflir Magnús fram hugtakinu æðri skynsemi gegn fjarstæðu Kierkegaards. Kierkegaard telur að sé fjarstæðan ekki skilin sem hið neikvæða auðkenni og umsögn sem tryggir með vopnaburði röksemdanna að hugtakið trú sé afmarkað frá sviði hins mannlega, sé Magnús líka kominn í þrot með hugtakið æðri skynsemi. Hún hafni þar með utan við svið opin­berunar og hins guðdómlega og dagi ekki aðeins uppi á sviði hins mannlega, heldur öllu fremur í undirheimum misskilningsins. Fjarstæðan er neikvæða auðkennið sem fær hinn trúaða til að láta sér ekki nægja rökfræðilega umsögn til að ákveða hvernig lífi hans er varið og hvar hann standi í andlegum skilningi. Í augum þess sem nær að trúa er hvorki trúin né innihald hennar fjarstæða. En í augum þess sem ekki trúir er hvort tveggja fjarstæða. Og fyrir þann sem er óstyrkur í trúnni eða efast, tekur trúin líka smám saman á sig mynd fjarstæðu. Það hefur raunar verið vilji guðdómsins að hafa þetta þannig til að reyna trú mannsins. Með því að tengja hana hinu fjarstæða reynir á hið eina afl sem megnar að axla hana, ástríðu og auðmýkt trúarinnar, sem hert eru í kvalafullri syndavitund.

Misskilningur Magnúsar

Kierkegaard segir að svo gjörsamlega hafi Magnús misskilið Ugg og ótta að bókin verði í meðförum hans óþekkjanleg. Honum virðist hafa sést yfir þann vanda sem höfundur leitast við að leysa í bókinni, þ.e. hvort víkja megi frá siðferðilegum markmiðum í æðra skyni og hvort kostur sé á æðri skyldu við Guð. Og þar með sjáist honum líka yfir Abraham og Ísak. Hins vegar leggi Magnús í bók sinni aðaláhersluna á söguna um prinsessuna, sem höfundur Uggs og ótta hafi notað sem dæmi eða líkingu, en verði í meðförum Magnúsar algjört afskræmi. Höfundur Uggs og ótta gengur út frá því að mannnlega séð sé elskhuganum ókleift að höndla prinsessuna. Og sé ekki gengið út frá slíkri ályktun, er jafnframt ókleift að gefa minnstu upplýsingar um muninn á auðsveipni og trú. Hjá Magnúsi fæst riddari trúarinnar aftur á móti við að skilja að það sé ekki ókleift að höndla prinsessuna. Mannlega séð á það í raun að vera kleift, þar sem riddari trúar­innar er hennar fullkomlega verður sakir andlegs atgervis síns. Auk þess sem höfundur Uggs og ótta ætlaði að það væri mannlega séð ókleift að höndla prinsessuna, gerði hann síst af öllu ráð fyrir að það væri skilið bókstaflega að þar ætti prinsessa í hlut. Þar hefði hann allt eins getað notast við borgaralega stúlku, jafnvel vinnukonu. Það eina sem skipti hann máli var að elsk­huginn elskar viðkomandi af allri sálu sinni og að mannlega séð er honum ógerlegt að höndla hana. Þannig er munurinn á auðsveipni og trú skýrður í Ugg og ótta og með því að leggja bókstaf­lega merkingu í prinsessuna er sú skýring að engu gerð.

Kierkegaard viðurkennir mun á fjarstæðunni, eins og hún kemur fram í Ugg og ótta, og þver­stæðunni í Afsluttende Efterskrift. Hin fyrrnefnda er persónuleg afmörkun lifandi trúar (tilvistar­trúar), hin síðarnefnda trú í sambandi við kenningu (holdtekjuna). Fjarstæðan er neikvætt auð­kenni þess, sem er mannlegum skilningi og mannlegri þekkingu æðra. Út frá því hlýtur skilning­urinn að vinna úr trú og svo er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann vill trúa.

Niðurlag

Þótt ýmis guðfræðileg atriði skildu þá Magnús og Kierkegaard að, áttu þeir þó eitt sameiginlegt. Báðir börðust alla ævi hatramlega gegn svonefndri ígrundunartrúfræði (spekulativ dogmatik) H. L. Martensens (1808–1816), guðfræðiprófessors við Hafnarháskóla og síðar Sjálandsbiskups, en við mótun hennar studdist Martensen við þrætubókaraðferð Hegels. Báðir urðu að láta sér lynda að uppskera þögnina eina úr þeirri átt. Kierkegaard minnist á þau viðbrögð Martensens að svara honum hvergi í Papirer X 1 A 155 1849. Þar telur hann að Martensen hafi skort allar forsendur til að svara sér. Það sama hafi Magnús Eiríksson mátt þola, eftir að hann kom til sögunnar, og þar sé Magnúsi í raun greiði gerður, því að það skipi honum a.m.k. á þann hátt í flokk með Kierkegaard sjálfum.

Helsta ágreiningsefni þeirra Magnúsar og Kierkegaards var í raun holdtekjan. Magnús reisti guðfræði sína á sögulegri gagnrýni og skynsemishyggju og hafnaði samkvæmt þeirri stefnu kenningunni um holdtekju Krists.4 Að mati Kierkegaards var hún sjálfur kristindómurinn, með því að hafna henni, var kristindóminum tortímt. Að öðru leyti var hann sammála Magnúsi um að trúarkenningar kirkjunnar væru af hinu illa.5 Allt frá því að kenningasmíðar hófust hafði kristin­dómurinn, að mati Kierkegaards, verið í stöðugri afturför,6 en það er einmitt meginstefið í Ugg og ótta. Með heimspekilegri þekkingu er trúnni tortímt, því að trú án ástríðu er engin trú. Sá sem trúir ekki eða efast hlýtur að líta á sanna trú sem fjarstæðu,7 og í augum slíks manns er holdtekja, friðþæging og endurlausn þá ekki annað en þverstæða.

Með þessari skýringu sýnir Kierkegaard að hann leggur nákvæmlega sömu merkingu í hugtakið fjarstæðu og Tertullianus, merkingu sem Magnús hefði getað sætt sig við. Magnúsi verður á að telja að þar gangi Kierkegaard lengra og geri fjarstæðuna að grundvelli trúarinnar, rétt eins og honum verður á að taka líkingasöguna um prinsessuna, sem hið heittþráða viðfang, bókstaflega.

Með því að trúa fleirum fyrir þessari skýringu en dagbók sinni, hefði Kierkegaard getað sparað Magnúsi það ómak að eyða drjúgum hluta ævi sinnar í að deila á hugtakið fjarstæða. Það gerði Kierkegaard hins vegar ekki og dagbók hans frá 1850 kom ekki út fyrr en tæpu ári fyrir dauða Magnúsar.8 Þar virðist óneitanlega á ferðinni næsta sókratísk aðferð, en Sókrates var heim­spekingur sem Kierkegaard tók sér gjarna til fyrirmyndar í ritum sínum. Að mati Kierkegaards var Sókrates síðasti heiðarlegi heimspekingurinn; allt frá dögum hans hafði heimspekin verið í stöðugri afturför,9 rétt eins og kristindómurinn hafði verið í stöðugri afturför allt frá dögum frum­kirkju og píslarvotta.

 

Tilvísanir

1. Pap. X6 B 114 1849–50.

2. Er Troen et Paradox . . . , s. 15–16.

3. Er Troen et Paradox . . . , s. 16.

4. E. Albertsson 1938:40.

5. Pap. X1 A 383 1849.

6. Pap. X1 A 396 1849.

7. Pap. X6 B 79 1850.

8. Cappelørn, Garff og Kondrup 1996:70.

9. Thulstrup 1967:344.

 

Heimildir

Cappelørn, N.J., Garff, J. og Kondrup, J., 1996. Skriftbilleder. G.E.C. Gad, Kbh.

Eiríkur Albertsson, 1938. Magnús Eiríksson. Rvk.

Magnús Eiríksson, 1850. Er Troen et Paradox og i „Kraft af det Absurde“? et Spørgsmaal foranlediget ved „Frygt og Bæven, af Johannes de silentio“, besvaret ved hjelp af en Troes-Ridders fortrolige Meddelelser, til fælles Opbyggelse for Jøder, Christne og Muhamedanere, af bemeldte Troes-Ridders Broder Theophilus Nicolaus. Kbh.

Kierkegaard, S. Papirer X1 1849. Gyldendal, Kbh. MDCCCCXXIV.

Kierkegaard, S. Papirer X2 1849–1850. Gyldendal, Kbh. MDCCCCXXVI.

Kierkegaard, S. Papirer X6 1849–1853. Gyldendal, Kbh. MDCCCCXXXVI.

 

« Til baka