Rannsóknarstofa um Háskóla, Heimspekistofnun, Siðfræðistofnun og Félag heimspekikennara munu standa að ráðstefnu um gagnrýna hugsun og siðfræði laugardaginn 1. október næstkomandi í Háskóla Íslands. Efni ráðstefnunnar er efling kennslu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum. Dagskráin hefst klukkan 10:00 og stendur til 15:00. Fyrir hádegi verða inngangsfyrirlestrar um efni ráðstefnunnar og eftir hádegi taka við málstofur með stuttum erindum og umræðum. Málstofurnar verða fjórar: „Kennsla gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í leikskólum“, „Kennsla gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í grunnskólum“, „Kennsla gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í framhaldsskólum“ og að lokum „Eðli gagnrýninnar hugsunar og hlutverk hennar í fræðastarfi“. Í hverri málstofu verða haldin fjögur stutt erindi sem snúa að efni málstofunnar og í lokin taka við pallborðsumræður.
Aðstandendur ráðstefnunnar auglýsa því eftir stuttum erindum fyrir málstofurnar fjórar. Erindin eru hugsuð sem 15 mín. frásagnir af rannsóknum, reynslu eða hugmyndum um gagnrýna hugsun og siðfræði í skólum og fræðastarfi. Senda þarf stutta samantekt af erindinu til Henrys Alexanders Henryssonar á netfangið hah@hi.is fyrir 1. september 2011. Öllum innsendum hugmyndum verður svarað fyrir 15. september. Í kjölfar ráðstefnunnar stendur til að öll erindi hennar verði gefin út á rafrænu formi.