Heimspeki í Ameríku í dag

eftir Richard Rorty

Heimspeki í Ameríku í dag1

1. Rökgreiningarheimspeki og hefðin

Bylting innan fræðigreinar krefst endurskoðunar á sögu hennar. Reichenbach tók þetta að sér fyrir rökgreiningarheimspeki í bók sinni Rise of Scientific Philosophy (Uppgangur vísinda­heimspeki). Í þessari bók, sem kom út árið 1951, er sett fram söguskoðun sem skýrir hvernig Quine gat sagt að fólk færi í heimspeki af tveimur ástæðum: sumir hefðu áhuga á heimspeki­sögu, aðrir á heimspeki. Heimspeki sem grein sem fæst við ákveðin afmörkuð vandamál, vanda­mál sprottin af aðferðum og niðurstöðum náttúruvísindanna, er það sem Quine gerir grín að og jafnframt niðurstaða bókar Reichenbachs. Reichenbach lýsir bók sinni svona:

Í henni er því haldið fram að heimspekilegar hugleiðingar nái yfir tímabil sem líður hjá, tímabil þegar heimspekileg vandamál koma upp en menn ráða ekki yfir röklegum aðferðum til að leysa þau. Jafnframt er fullyrt að til sé, og alltaf hafi verið til, vísindaleg leið til að stunda heimspeki. Ætlunin er að sýna fram á að upp úr þessu hafi sprottið vísindaleg heimspeki sem í vísindum okkar tíma hefur fundið verkfæri til að leysa þau vandamál sem fyrr á tímum voru háð ágiskunum. Í stuttu máli: þessi bók er skrifuð í því augnamiði að sýna að heimspeki hafi þróast úr hugleiðingum yfir í vísindi.2

Í dag væri ekki hægt að skrifa sögu eins og Reichenbach gerði, en hann gaf sér að allar helstu kenningar pósítífismans stæðust, kenningar sem Wittgenstein, Quine, Sellars og Kuhn hafa rifið niður á þeim þrjátíu árum sem eru liðin síðan. Flestir póstpósitífískir rökgreiningarheimspekingar myndu samt fallast á að heimspeki hafi „þróast úr hugleiðingum yfir í vísindi“, og það tiltölulega nýlega. Þeir myndu fallast á þá skoðun að unnt sé að skilgreina heimspeki með skírskotun til ákveðinna auðþekktra og viðvarandi vandamála sem fengist var við með vandræðalegum og vanþróuðum hætti fyrr á tímum, en er nú tekist á við af nákvæmni og ögun sem er ný af nálinni. Þeir gætu reynst ósammála um hver vandamálanna eigi að leysa, hver þeirra eigi að rífa niður, eða einfaldlega leggja til hliðar. Þeir gætu líka reynst ósammála um hvort verkfærin sem þeir nota eigi uppruna sinn í raunvísindum (eins og Reichenbach áleit) eða séu ættuð úr smiðju heim­spekinganna sjálfra. Þessi ágreiningsefni eru þó lítilvæg í samanburði við þá breiðu sátt sem ríkir um hvernig skrifa eigi sögu heimspekinnar.

Í uppsetningu sinni á þessu mikla sögulega drama varð Reichenbach að setja saman atburða­rás sína af gaumgæfni. Ef ætlunin er að túlka heimspeki sem tilraun til að skilja eðli náttúru­vísinda, að sýna fram á að hún hafi blómstrað á sama tíma og náttúruvísindin, og að hún geti komist að viðeigandi niðurstöðum þegar náttúruvísindin eru „fullþroska“, verður að líta á „vanda­mál heimspekinnar“ sem þau vandamál sem fyrst voru sett skýrt fram á sautjándu og átjándu öld – á þeim tíma þegar nýju vísindin voru helsta viðfangsefni heimspekinga. Hér var fyrst og fremst um að ræða vandamál varðandi eðli og möguleika vísindalegrar þekkingar, þekkingarfræðileg vandamál. Þegar heimspeki hefur verið samsömuð þessum vandamálum er unnt að skýra það að þau voru hvorki sett skýrt fram í heimspeki Forngrikkja né miðalda með því að vísa til þess hversu frumstæð raunvísindin voru fyrir 1600, og jafnframt er hægt að ýta til hliðar grískum áhuga á bókmenntum og stjórnmálum, og kristnum áhyggjum af guði, sem óheimspekilegum hugarórum. Þannig sjáum við verk Kants sem hápunkt heimspekilegra hugleiðinga og við getum farið á stökki yfir nítjándu öldina og byrjun þeirrar tuttugustu (það gera rökgreiningar­heimspekingar enn í dag, en þeir líta á tímabilið frá útkomu verka Kants til birtingar kenninga Freges sem tímabil óheppilegs ruglings).

Reichenbach leit á það sem alvarlegan misskilning á heimspeki Kants að líta á Hegel sem arftaka hans; þvert á móti segir hann: „Kerfi Hegels er óvönduð smíð ofstækismanns sem sá eina reynslustaðreynd og reynir að gera hana að röklegu lögmáli innan óvísindalegustu rökfræði allra tíma“ (72). Samkvæmt skrifum Reichenbachs gaf Marx pósitífisma upp á bátinn og tók upp hegelisma af óheppilegum „sálfræðilegum ástæðum“ (71). Ekki er litið á nítjándu öldina sem upphaf leitarinnar að merkingu í sögunni, heldur sem tímabil þar sem raunvísindamenn, frekar en heimspekiprófessorar, héldu áfram að fást við spurningarnar sem Descartes, Hume og Kant höfðu sett fram. Reichenbach fordæmir þær bækur um heimspekisögu sem í kaflanum um nítjándu öldina minnast á Fichte, Schelling, Hegel, Schopenhauer, Spencer og Bergson og lýsa kerfum þeirra sem heimspekilegum sköpunarverkum hliðstæðum við kerfi fyrri tíma. Í stað þess, segir Reichenbach, ættum við að skilja að

sögu heimspekikerfanna lýkur með verkum Kants og það er misskilningur á heimspekisögunni að ræða yngri kerfi sem hliðstæð við kerfi Kants eða Platons. Þessi eldri kerfi tjáðu vísindi samtíma síns og gáfu gervisvör þar sem engin önnur var að hafa. Heimspekikerfi nítjándu aldar voru smíðuð á tímabili þegar betri heimspeki var að verða til; þau eru verk manna sem sáu ekki þær heimspekilegu uppgötvanir sem fólust í raunvísindum samtíma þeirra, og sem þróuðu kerfi byggð á einfeldningslegum alhæfingum og samlíkingum undir yfirskini heimspekinnar. … Í ljósi sögunnar er rétt að bera þessi kerfi saman við ósa fljóts sem hefur runnið í gegnum frjósöm héruð, en þornar að lokum upp í eyðimörkinni. (121–122)

Þessi lýsing á sögu heimspekinnar virkar sannfærandi, jafnvel þótt maður fallist á það með Kuhn að raunvísindin séu ekki eins áreiðanleg og við álitum einu sinni og með Quine að stór hluti þeirra „heimspekilegu uppgötvana“ sem Reichenbach dáði hafi verið trúarsetningar. Það er hægt að hafna trúarsetningunum, en halda í sögu Reichenbachs. Enn er unnt að halda sig við þá skoðun að heimspeki sé upprunalega tilraun vísindanna til að gera grein fyrir sjálfum sér og að tilraunir til að öðlast þekkingu utan náttúruvísindanna hljóti að lúta mælikvörðum þeirra og að heimspeki hafi nýlega orðið vísindaleg og nákvæm. Ég tel að þetta sé skoðun mikils meirihluta rökgreiningarheimspekinga og ég hef ekki í hyggju að færa fram rök gegn þessari skilgreiningu á „heimspeki“. Þessi skilgreining er ekki verri en hver önnur, ef við viljum að „heimspeki“ sé nafn á fræðigrein, aðgreindu sviði rannsóknarverkefna, sjálfstæðu sviði innan menningarinnar. Reichenbach hafði rétt fyrir sér í því að segja að ákveðin sautjándu og átjándu aldar vandamál – nokkurn veginn vandamál Kants – sem voru afleiðing tilrauna til að skýra raunvísindin vísindalega hafi oft verið álitin réttnefnd vandamál heimspekinnar. Að mínu mati hafði hann líka rétt fyrir sér í því að hafna mörgum heimspekilegum kerfum sem tilraunum til að vera „raunvísindi“, án þess að virða vinnubrögð eða niðurstöður raunvísindanna.

Ég myndi eins og Reichenbach hafna klassískri fyrirbærafræði Husserls, kenningum Bergsons, Whiteheads, Deweys í Experience and Nature, James í Radical Empiricism, ný-tómískri þekkingarfræði og ýmsum öðrum kerfum frá síðari hluta nítjándu aldar og fyrri hluta tuttugustu aldar. Bergson og Whitehead og slæmir („frumspekilegir“) hlutar kenninga James og Deweys virðast mér vera milduð útgáfa af hughyggju – tilraunir til að svara „óvísindalega“ framsettum þekkingarfræðilegum vandamálum um „tengsl hugveru og hlutveru“ með „einfeldningslegum alhæfingum og samlíkingum“, sem byggjast á „tilfinningum“ frekar en „þekkingu“. Fyrirbærafræði og ný-tómisma getum við greint og hafnað að hætti Reichenbachs. Báðar þessar hreyfingar reyndu án árangurs að einangra fyrir sig ákveðið svæði, aðgreint frá vísindunum og sjálfsskilningi þeirra, með því að reyna að gefa hugmyndinni um sérstaka „heimspekilega“, yfir-vísindalega þekkingu innihald.3

Þannig tel ég að pósitífisminn og sérstaklega verk Reichenbachs hafi þjónað amerískri heimspeki vel með því að gera skýran greinarmun á heimspeki sem skýringu á vísindalegri þekkingu og útvíkkun hennar og heimspeki sem þjónaði öðrum tilgangi. En ég vil bera upp tvær spurningar um tengsl rökgreiningarheimspeki við hefðina:

1) Getur frásögn um fortíðina í anda Reichenbachs gefið okkur sögu um samtíðina og framtíðina sem lýsir mikilvægu menningarlegu hlutverki fyrir heimspeki, áframhaldandi verkefni?

2) Hvað með „heimspeki í öðrum tilgangi“ – til að mynda vinnu heimspekinga sem telja sig ekki vera að fást við neitt í líkingu við „að leysa heimspekileg vandamál“ eða „að öðlast yfir-vísindalega“ þekkingu – „meginlandssamkeppni“ höfunda á borð við Heidegger, Foucault og fyrirrennara þeirra á nítjándu öld? Hverju töpum við á að túlka þá út úr heimspekinni?

Hér á eftir reyni ég að svara báðum þessum spurningum.

2. Rökgreiningarheimspeki kynslóð eftir sigur sinn

Það er um það leyti sem bók Reichenbachs kemur út, um miðjan sjötta áratuginn, að rökgreiningarheimspeki verður ráðandi í amerískum heimspekideildum. Snillingarnir í röðum þeirra fræðimanna sem flúðu hingað í kringum seinni heimsstyrjöld tóku að njóta þeirrar virðingar sem þeir áttu skilið, þ.e. menn á borð við Carnap, Hempel, Feigl, Reichenbach, Bergmann og Tarski. Lærisveinar þeirra fengu stöður og völd innan virtustu heimspekideildanna. Þær deildir sem ekki fylgdu þessari hreyfingu féllu í skuggann. Í kringum 1960 lágu ný viðmið í heimspeki fyrir. Ný tegund framhaldsnáms í heimspeki varð til – Dewey og Whitehead, hetjur kynslóðarinnar á undan, voru ekki lengur lesnir, lítil áhersla var lögð á heimspekisögu, og sú áhersla sem áður hafði verið lögð á tungumálanám var nú flutt yfir á rökfræði. Og sá mikli fjöldi barneigna sem fylgdi í kjölfar stríðsins sá til þess að á sjöunda áratugnum og í upphafi þess áttunda hlutu flestir núverandi amerískir doktorar í heimspeki menntun sína. Af þessu leiðir að meirihluti þeirra sem nú kenna heimspeki í amerískum háskólum tileinkuðu sér söguskoðun Reichenbachs í einni eða annarri mynd. Þeir voru aldir upp í þeirri trú að þeir nytu þeirra fríðinda að standa við upphaf nýrrar heimspekilegrar aldar, öld greiningarinnar, og að nú yrðu hlutirnir loksins gerðir rétt. Þeim var gjarna tamið að fyrirlíta fólk af því tagi sem hefur fremur áhuga á heimspekisögu, eða á sögu hugsunarinnar yfirhöfuð, en því að leysa heimspekileg vandamál. Líkt og Reichenbach álitu þeir að

heimspekingur af gamla skólanum sé yfirleitt lærður í bókmenntum og sögu og hafi aldrei lært nákvæmar aðferðir stærðfræðilegra vísinda og aldrei upplifað gleðina sem fólgin er í því að sýna fram á náttúrulögmál með því að sannreyna allar afleiðingar þess. (308)

Vonir rökgreiningarmanna stóðu til þess að nú hæfist tími samvinnu, hópvinnu, samkomulags um niðurstöður. Traustar einingar myndu bætast í byggingu þekkingarinnar. Sú varð ekki raunin. Núna, árið 1981, virðist þetta mun ósennilegri spá um framtíð heimspekinnar en hún var árið 1951 þegar Reichenbach sendi frá sér bók sína. Árið 1951 gat nemandi í framhaldsnámi (eins og ég sjálfur) sem ýmist var að læra um eða taka trúna á rökgreiningarheimspeki enn trúað að til væri endanlegur fjöldi sértækra, greinanlegra, heimspekilegra vandamála sem krefðust lausnar – vandamál sem hvaða alvöru rökgreiningarheimspekingur sem er myndi samþykkja að væru þau vandamál sem skiptu mestu. Dæmi: vandinn um staðleysuskilyrðingar, spurningin um það hvort hrifhyggja væri fullnægjandi nálgun á siðfræði, vandi Quines um eðli greiningar og nokkur fleiri. Þetta voru vandamál sem féllu vel að orðaforða pósitífista. Það var auðvelt að líta á þau sem endanlega og rétta framsetningu á vandamálum sem Leibniz, Hume og Kant höfðu séð sem í skuggsjá. Ennfremur ríkti samkomulag um útlit lausnar á heimspekilegu vandamáli, t.d. kenningar Russells um ákveðnar lýsingar, Freges um skilning og merkingu, Tarskis um sann­leikann. Í þá daga þegar kynslóð mín var ung voru öll skilyrði til staðar fyrir hversdagslega vísindagrein í anda Kuhns sem fengist við lausn afmarkaðra vandamála.

Þessi listi vandamála og viðmiðunarreglna vekur upp minningar um einfaldan, bjartan, horfinn heim. Í helstu viðfangsefnum rökgreiningarheimspeki – þekkingarfræði, málspeki og frumspeki – eru nú jafn mörg viðmið og virtar heimspekideildir. Það sem doktorsnemi í UCLA álítur vera mikilvægt viðfangsefni vekur kannski varla áhuga samskonar nemanda í Chicago eða Cornell. Viðfangsefni sem vekur áhuga í tíu af þeim u.þ.b. hundrað „rökgreiningarheimspekideildum“ sem er að finna í Ameríku þykir eiga óvenju miklu fylgi að fagna. Upp er sprottinn frumskógur allskyns rannsóknaráætlana sem virðast lifa æ styttri tíma með árunum. „Oxford-heimspeki“ reis og féll á fimmtán árum eftir skrif Reichenbachs. Á þeim fimmtán árum sem liðin eru síðan „vestur­strandarmerkingarfræði“ barst austur og skapaði translatio imperii frá Oxford til UCLA-Princeton-Harvard-möndulsins, hafa komið nokkur augnablik þar sem framtíð heimspekinnar, eða að minnsta kosti málspeki, virtist skýrt afmörkuð. En alltaf hefur þetta brugðist. Það er engu meiri samstaða um viðfangsefni eða aðferðir heimspeki í Ameríku nú á dögum en var í Þýskalandi 1920. Á þeim tíma voru flestir heimspekingar kannski meira eða minna „ný-kantískir“. En sá andi var ríkjandi í hinum akademíska heimi að hver ordinarius hafði sitt eigið kerfi og útskrifaði nemendur sem álitu vandamál innan þess kerfis vera „helstu vandamál heimspekinnar“. Þetta er nokkurn veginn samskonar ástand og við finnum í heimspekideildum í Ameríku samtímans. Flestir heimspekingar eru meira eða minna „rökgreinendur“, en engin „sam-háskólaleg“ sam­staða um grunnreglur heimspekilegrar vinnu, eða listi yfir „helstu vandamál“ sem menn myndu sameinast um liggur fyrir. Helsta von amerískra heimspekinga er loforð Andy Warhols um að við verðum öll súperstjörnur, í u.þ.b. stundarfjórðung hver.

Staðan er að vísu önnur í siðfræði og stjórnmálaheimspeki en á miðlægum sviðum heimspekinnar. Hér hefur verk Rawls A Theory of Justice (Kenning um réttlæti) hlotið stöðu sem undirstöðurit á þessum sviðum í öllum háskólum og hlotið verðskuldaða viðurkenningu hvar­vetna. En þetta breytir engu um leit rökgreiningarheimspeki að sjálfsmynd, ef sú sjálfsmynd á að byggjast á og þróa mynd Reichenbachs. A Theory of Justice leiðir hjá sér þau yfirsiðfræðilegu efni sem Reichenbach áleit að væru eina tengingin milli heimspeki og gildisvísinda (sbr. Reichenbach, k. 17). Þetta er bók sem tengist beint ritum Kants, Mills og Sidgwicks. Sömu bók hefði verið unnt að skrifa þó að rökgreiningarheimspeki hefði aldrei verið til. Þetta er ekki sigur fyrir „rökgreinandi“ heimspekiástundun. Hún er einfaldlega besta framsetning frjálslyndrar hugsunar um samfélagið sem samtíminn hefur eignast. Það vill svo til að hún var skrifuð af heimspekiprófessor, en hefði Rawls stundað lögfræði eða stjórnmálafræði fremur en heimspeki er ekki víst að hann hefði skrifað öðruvísi en hann gerði, né beitt annarskonar röksemdafærslum.

Með sama hætti og erfitt væri að segja hvert sé það eðli „heimspeki“ sem geri Marx, Kierkegaard og Frege að miklum nítjándualdar heimspekingum, er erfitt að skilgreina „heimspeki“ þannig að ljóst verði af hverju t.d. Kuhn, Kripke og Rawls eru þrír mikilvægir samtímaheimspekingar (til aðgreiningar frá óljósum almennum hugtökum eins og t.d. „hugsuðir“), hvað þá af hverju þeir séu allir rökgreiningarheimspekingar. Þetta er vissulega ekki alvarlegt vandamál. Að mínu mati er engin ástæða til að reyna að búa til skilgreiningar á „heimspeki“ sem aðgreina hana yfir-sögulega frá öðrum háskólagreinum. Mikilvægt er þó að sjá að Reichenbach vildi gera þetta og að rökgreiningarheimspeki mótaði sjálfsmynd sem var háð því að þetta væri mögulegt. Reichenbach sagði okkur að það sem gerði heimspeki að heimspeki væri listi vandamála sem nú væri hægt að sjá skýrt fyrir sér – vandamál um eðli og möguleika vísindalegrar þekkingar og tengsl hennar við aðra hluta menningarinnar. Rökgreiningarheimspekingar álíta enn að sum vandamál séu sérstök „heimspekileg“ vandamál. En þeir geta ekki lengur viðurkennt lista Reichenbachs eða mótað reglur til að búa til nýjan. Þess í stað verður til nýr listi með nokkurra ára millibili. Ein af ástæðunum fyrir því að fólk kemur á fundi hjá APA4 er að það vill komast að því hvaða efni eru í tísku – hvað eru „framverðir greinarinnar“ að tala um í dag. Núna telst málefni „heimspekilegt“ ef þekktur heimspekiprófessor hefur skrifað grein um það. Stofnunin skilgreinir fræðin. Við eigum enga sögu sem tengir okkur við vandamál fortíðarinnar, enga sögu sem sýnir hvernig við sjáum þau skýrar en til að mynda Leibniz eða Hume. Þess í stað eigum við grósku­mikla starfsemi sem lítur einungis örfáa áratugi aftur í tímann og á sér helst réttlætingu í greind þeirra sem eiga þátt í henni.

Þegar ég segi að „rökgreiningarheimspeki“ eigi sér einungis stíllega og félagslega einingu, er ég ekki að segja að rökgreiningarheimspeki sé slæm eða í slæmu formi. „Rökgreiningarstíllinn“ er, að mínu mati, góður stíll. Liðsandinn meðal rökgreiningarheimspekinga er heilbrigður og gagn­legur. Ég segi hins vegar að rökgreiningarheimspeki sé orðin að samskonar grein og við finnum í deildum þar sem fengist er við „mannvísindi“, deildum þar sem lögð er minni áhersla á „aga“ og „vísindalega“ stöðu, hvort sem henni líkar það betur eða verr. Veruhætti mannvísinda svipar til lista og bókmennta: snillingur gerir eitthvað nýtt og áhugavert og aðdáendur hans eða hennar mynda skóla eða hreyfingu. Þannig er t.d. annálahreyfingin áberandi í sagnfræðideildum í Ameríku í dag, afbygging í bókmenntafræðideildum og merkingarfræði mögulegra heima í heim­spekideildum. Að segja að þessar hreyfingar séu í tísku er eins og að segja að verk Fernands Braudel eða Jacques Derrida eða Richards Montague hafi haft mikil áhrif og að margir lesi þau og líki eftir þeim. Það væru mistök að reyna að ganga lengra, – að reyna að skýra, að hætti Reichenbachs, að Montague hafi loks tekist að setja skýrt fram eða leysa eitthvert stórt „vandamál vísindalegrar heimspeki“. Hver sú ættfræði sem við sköpum til að styðja þess háttar yfirlýsingar hlýtur að vera afar ósennileg og langsótt, eins og ef við reyndum að sýna fram á að sannur arftaki Dr. Johnsons hljóti að vera Derrida eða kenningar Braudel komi í náttúrulegu framhaldi af verkum Rankes.

Við ættum fremur að slaka á og fallast á það með starfsbræðrum okkar í sögu og bókmennta­fræðum að við sem stundum mannleg fræði erum ólík þeim sem stunda náttúruvísindi, nákvæmlega vegna þess að við vitum ekki fyrirfram hver viðfangsefni okkar eru, og að við þurfum ekki neinn mælikvarða til að sanna að það sem við fáumst við sé það sama og fyrirrennarar okkar fengust við. Með þessari afslöppuðu afstöðu leyfum við stofnuninni að skilgreina gervi­vísindin. Við viðurkennum að það eru þeir snjöllustu okkar sem finna vandamálin og rannsóknar­áætlanirnar upp de novo, fremur en að þau liggi í viðfangsefninu sjálfu eða í „núverandi stöðu rannsókna“. Þetta má líka segja með því að benda á að það er ekki einkenni mannlegra fræða að gera gamalt úr nýju eða að hengja sig í kanónískan lista aðferða og viðfangsefna eða kanón­ískan orðaforða sem menn eigi að setja efni sitt fram með. Slíkt gadamerískt sjónarmið má setja fram með orðalagi í anda Kuhns með því að segja að aðalatriðið sé ekki að vera „vísindalegur“ heldur að halda úti virku „faglegu neti“ fyrir áframhaldandi vinnu sem heldur eðlilegu jafnvægi milli staðla og frelsis, eða að segja með Habermas að það sem skipti máli sé að samræðan haldi áfram ótrufluð.

3. Rökgreiningarheimspeki, „heimspekileg hæfni“ og hugtakaskýringar

Af þeirri afslöppuðu afstöðu sem ég mæli með leiðir að við ættum ekki að hafa áhyggjur af því hvort rökgreiningarheimspeki hefur haldið þeirri stöðu innan vísindanna sem Reichenbach ætlaði henni og við ættum ekki að hafa áhyggjur af því hvort það sem við eða einhverjir aðrir eru að fást við sé „raunveruleg heimspeki“. Við ættum þess í stað að leyfa hundrað blómum að blómstra, dást að þeim meðan þau endast og láta hugmyndasögu næstu aldar um grasafræði þeirra. En þessi afstaða á sér ekki hljómgrunn meðal flestra rökgreiningarheimspekinga. Þeir eru ekki reiðubúnir til að gefa tilraun Reichenbachs til að koma heimspeki út úr heimi „mann­vísinda“ og yfir í heim „raunvísinda“ upp á bátinn. Þeir álíta ennþá að við rökgreiningarheim­spekingar höfum sérstök einkenni sem greini okkur frá „mannlegum“ fræðimönnum. Þessi ein­kenni ákvarðast ekki af því að við fáumst við ákveðinn lista vandamála, eins og Reichenbach áleit, heldur því að við búum yfir ákveðinni menntunarlegri dygð, dygð sem við eigum sameiginlega með stærðfræðingum og eðlisfræðingum, en ekki með prófessorum í sögu eða bókmennta­fræði. Samkvæmt þessari skoðun er það ekki kosturinn við heimspeki að hún hafi leyst einhver af „vandamálum heimspekinnar“ (þar sem viðurkennt er undir rós að það sé í lausu lofti hver þessi vandamál séu), heldur einfaldlega hrein greind, hæfileiki til að leysa vandamál. Samkvæmt þessu er til ákveðin tegund hæfileika eða hugarleikni sem heimspekingar búa yfir í ríkum mæli.

Ef leitað væri eftir nákvæmari skilgreiningu á þessari menntunarlegu dygð sem nefna má „heimspekilega hæfni“, væri svarið væntanlega eitthvað á þessa leið: hæfur heimspekingur ætti að geta uppgötvað galla á hvaða röksemdafærslu sem hann heyrir. Ennfremur ætti hann að geta tekið eins vel á málefnum sem ekki eru venjulega rædd á heimspekinámskeiðum og á „sérheim­spekilegum“ efnum. Og jafnframt þessu ætti hann að geta hannað eins góða röksemdafærslu og unnt er til stuðnings hvaða skoðun sem er, sama hversu röng hún kann að vera. Ímynd heim­spekilegrar hæfni er að sjá allar mögulegar staðhæfingar og öll rökleg tengsl á milli þeirra og geta þannig sett fram eða gagnrýnt hvaða röksemdafærslu sem er.

Ég held að það sé rétt að rökgreiningarheimspekingar búi yfir þessum hæfileika í ríkum mæli. En þetta er líka sjálfsstyrkjandi sjálfsmynd. Engum væri ráðlagt að fara í framhaldsnám við virta heimspekideild í Ameríku ef hann byggi ekki yfir þessum hæfileika. Þeim sem hefði unun af að garfa í Platoni, Ágústínusi, Kant, Hegel o.s.frv., en byggi ekki yfir þessum hæfileika, væri ekki ráðlagt að leggja heimspeki fyrir sig, heldur myndi enda í bókmenntafræði, stjórnmálafræði eða sagnfræði. Þannig styrkja rökgreiningarheimspekingar smám saman mynd sína af sjálfum sér, ekki sem sérfræðingum á ákveðnu sviði vísinda heldur sem víkingasveit, sameinaðri vegna hæfileika fremur en vegna sameiginlegra viðfangsefna og niðurstaðna – endurskoðendum akademíunnar, ef svo má að orði komast. Þannig dregur úr mikilvægi þess fyrir rökgreiningar­heimspekinga að eiga samstæða yfirheimspekilega skýringu á eigin fræðigrein og mikilvægi þess að eiga svar við spurningunni: „Hvað er ‘sér-heimspekilegt’ vandamál?“. Mikilvægi þess að finna tengsl milli þeirra málefna sem Kuhn, Kripke og Rawls fást við verður minni. Rökgreiningar­heimspeki hefur ekki lengur þörf fyrir það sem Reichenbach gaf pósitífismanum, þ.e.a.s. frásögn um tengslin við fortíðina. Sameiginlegir hæfileikar fremur en sameiginleg vandamál eða uppruni skipta máli.

Því merkir yrðingin: „heimspeki er nú orðin vísindi fremur en hugleiðingar“, eitthvað allt annað fyrir rökgreiningarheimspekinga samtímans en það merkti fyrir Reichenbach. Nú merkir „vísindaleg“ eitthvað á borð við „rökleg“. Munurinn á gömlu og nýju er ekki lengur munur á vanþroskaðri, forvísindalegri og þroskaðri, vísindalegri stöðu umræðu um ákveðin vandamál, heldur munur á stíltegundum – „vísindalegum“ stíl og „bókmenntalegum“ stíl. Sá fyrri krefst þess að forsendur séu settar skýrt fram, en ekki háðar getgátum, og að orð séu sett fram með skilgreiningum, að hlutir séu skilgreindir en ekki gefnir í skyn. Sá síðari getur falið í sér röksemdafærslur, en það er ekki aðalatriðið; aðalatriðið er að segja nýja sögu, kynna nýjan málaleik, í von um nýja tegund hugsunar.

Sé það sem ég hef sagt hér að framan rétt, er þessi breyting á viðmiðun frá viðfangsefni til stíls náttúruleg og fyrirsjáanleg. Ef fræðigrein á sér ekkert skýrt viðfangsefni og engar samháskóla­legar grunnreglur um árangur, verður hún að eiga sér stíllegar grunnreglur. Þetta er, að mínu mati, það sem hefur komið fyrir rökgreiningarheimspeki á leið hennar frá pósitífisma yfir í póst­pósitífisma á undanförnum þrjátíu árum. En enn á ný lít ég ekki á þetta sem niðrandi niðurstöðu. Ég álít ekki að heimspekingar séu að fást við eitthvað sem þeir ættu ekki að fást við. Ég trúi því að heimspeki eigi sér hvorki sögulegt eðli né markmið, og ég er því ekki að segja að rökgreiningar­hreyfingin hafi villst af réttri leið. „Heimspeki“ er, í þröngum sérfræðilegum skilningi, í raun ekkert annað en vinna okkar heimspekiprófessora. Að eiga sameiginlegan stíl og stað í venjulegri töflu yfir skipulagningu akademískra stofnana er nóg til að gera okkar fræðigrein eins auðþekkta og virðingarverða og hverja aðra. Að auki er sá röklegi hæfileiki sem ég hef lýst nóg til að gera hana félagslega verðmæta. Þjóð getur talist tiltölulega heppin ef hún á nokkur þúsund tiltölulega lausbundna og ósérhæfða menntamenn sem skara fram úr við það að setja saman röksemda­færslur og brjóta þær niður. Slíkur hópur er verðmætur menningarlegur brunnur. Eins og við hömrum á í umsóknum okkar um styrki, væri gott fyrir þjóðina að nota rökgreiningar­heimspekinga sem ráðgjafa þegar teknar eru opinberar ákvarðanir. Framlag okkar yrði að minnsta kosti jafn verðmætt og framlag annarskonar sérfræðinga og kannski heldur meira virði en framlag margra.

Engu að síður er eitthvað vafasamt við sjálfsmynd rökgreiningarheimspekinga samtímans. Ég gæti kannski lýst þessu með því að benda á að við erum á villigötum þegar við viljum láta álíta okkur vitra jafnt sem greinda. Slík tvöföld sjálfsánægja er ekki réttlætanleg. Samkvæmt hefðinni voru heimspekiprófessorar álitnir vitrir því þeir voru taldir hafa lesið og reynt margt, ferðast vítt um lendur hugans, sökkt sér í þær ráðgátur sem ávallt hafa leitað á mannkynið. Þessi ímynd var nokkurn veginn sennileg meðan heimspekinám snérist um heimspekisögu (eins og fyrir 1950 í Ameríku og enn í dag í Þýskalandi og Frakklandi). Pósitífíska byltingin breytti ímynd heim­spekingsins; frá fræðimanni til vísindamanns. Þetta leiddi til þess að litið var á þá nemendur sem líklegir hefðu verið til að fara í eðlisfræði eða stærðfræði sem bestu heimspekinemana, en ekki þá sem hefðu verið líklegir til að fara í hugmyndasögu. Við þróun rökgreiningarheimspeki yfir í póstpósitífisma hefur ímynd vísindamannsins vikið fyrir nýrri ímynd, þó ekki sé fullljóst hver hún er. Kannski er ímynd lögfræðingsins frekar en fræðimannsins eða vísindamannsins sú sem er best við hæfi. Hæfileikinn til að semja gott ákæruskjal, stýra afgerandi yfirheyrslu, finna viðeigandi fordæmi er að miklu leyti sá hæfileiki sem rökgreiningarheimspekingar álíta „sérheimspeki­legan“. Góður lögfræðingur eða góður rökgreiningarheimspekingur sér í sjónhendingu röktengsl ótrúlegs fjölda yrðinga.5

Heimspekingar vilja eigna sér visku vegna þess að rökgreiningarheimspeki samtímans tekur í arf frá þeim pósitífisma sem ríkti fyrir þrjátíu árum þá hugmynd að hún ráði yfir öruggu kerfi hugtaka sem geri henni kleift að flokka, skilja og gagnrýna allt annað sem tilheyrir menningunni. En sú er ekki raunin. Ekki hefur komið fram neinn arftaki fyrir heimsmynd pósítífistanna sem gerir tilraun til að vera jafn yfirgripsmikil og enn síður nokkur samstaða um slíka mynd meðal póstpósitífískra rökgreiningarheimspekinga. En sá áróður sem við beitum í umsóknum um styrki og sá hroki sem við sýnum prófessorum í öðrum fræðigreinum byggir á því að við höfum yfirhöndina varðandi „hugtakaskilning“. Þetta felur í sér að auk vel þekktrar rökhæfni okkar ráðum við yfir sérstakri, æðri þekkingu á hugtökum sem veiti okkur sérstöðu. En við búum ekki yfir neinni slíkri þekkingu, stöndum ekki á neinum slíkum stalli. Við höfum rifið túlkunarkerfi Reichenbachs niður og þar með glatað stöðu okkar innan þess og um leið hafa „vandamál vísindalegrar heimspeki“ orðið að víkja. Við höfum ekki fengið neitt í staðinn og við ættum ekki að reyna að fá það. Ef við höfum lært eitthvað um hugtök á undanförnum áratugum, er það að yfirráð yfir hugtaki gerir kleift að nota orð, að vald yfir hugtökum er að geta notað tungumál og að tungumál eru sköpuð en ekki uppgötvuð. Við ættum að hafna þeirri hugmynd að við höfum aðgang að einhverjum yfirhugtökum sem eru ekki hugtök ákveðins tíma, ákveðinnar stéttar eða ákveðins menningargeira, en fela einhvern veginn í sér öll önnur hugtök og sé unnt að nota til að „greina“ önnur hugtök. Við myndum þannig gefa upp á bátinn gamla drauminn, draum sem Platon og Reichenbach áttu sameiginlegan og Wittgenstein vakti okkur upp af – drauminn um heimspeki sem scienta scientiarum, sem þekkingu á eðli vísindalegrar þekkingar, sem niðurstöðu rannsóknar á öllum mögulegum rannsóknum.

Ég get skýrt þetta síðasta atriði nánar með því að fara í stutta ferð um lendur hagnýttrar heim­speki, en á þessu sviði er tal um „hugtakamálefni“ óheppilega algengt. Ef við losuðum okkur við hlutverk hins vísa öldungs myndum við ekki lengur segja að læknir sem stendur andspænis siðferðilegu vandamáli í starfi „noti“ hugtök eins og „persóna“ eða „raunverulegir hagsmunir“, meðan við heimspekingarnir getum „greint“ það fyrir hann, „skýrt“ það. Við getum í mesta lagi útskýrt hvernig fólk sem við höfum lesið (Mill, Hume, Spinoza, Kant, Hegel) hefði notað hugtökin og hvað það hefur sagt í því samhengi. Þetta getur breytt einhverju um það hvernig læknirinn notar hugtakið framvegis, kannski til hins betra. En það segir honum ekki hvað hann átti í rauninni við, hvaða forsendur hann gaf sér, hvað var raunverulega á ferðinni. Þetta hefur sömu áhrif og öll útvíkkun menningarinnar – gefur okkur tilfinningu fyrir nýjum möguleikum, nýju samhengi, nýjum tungumálum. Við gerum ekki neitt sem er annars eðlis en það sem prófessor í bókmenntafræði eða sögu hefði gert eða gæti gert í sömu stöðu. Við eflum orðaforða og röklega vídd og þar með ímyndunaraflið. Utan þessa hefðbundna sviðs mannvísinda getum við einungis gert það sem lögfræðingar gera – komið með rök fyrir því sem viðskiptavinur okkar hefur ákveðið að gera og látið þann málstað sem valinn hefur verið líta betur út.

Mér virðist að við blekkjum okkur sjálf á þennan hátt, vegna þess að við rekumst oft á lækna, sál­fræðinga, sagnfræðinga, bókmenntafræðinga eða venjulega borgara sem hafa eftir orð eða slagorð sem upprunalega koma frá einhverjum miklum, látnum heimspekingi. Við höfum til­hneigingu til að álíta að við heimspekingar vitum hvað er hér á ferðinni, öfugt við þetta fólk, sem ekki þekkir uppruna hugtakanna eða setninganna. En þetta er non sequitur. Læknir, sem lendir í þeim vanda að þurfa að gera upp á milli sjálfsvirðingar sjúklings og þarfarinnar til að draga úr sársauka hans, er ekki á villigötum sem heimspekingurinn, sem getur greint frá kostum og göllum nytjahyggju og markhyggju, getur leitt hann af. Það er dygð að vera nákvæmur, en það er ekki það sama og að leysa vandann, að öðlast skýra sýn á hvað er á ferðinni. Það er eins hægt að notast við orðavefi sem eru ofnir af skáldsagnahöfundi, sérfræðingi í bókmenntasögu, félagssagnfræðingi eða guðfræðingi. En í engum þessara dæma er gert ráð fyrir að hæfileikinn til að geta sagt meira þýði að maður geti uppgötvað hvað var í rauninni átt við, frekar en í orðavef siðfræðingsins. Eitt af því sem Wittgenstein kenndi okkur og hjálpar okkur að fjarlægjast Reichenbach, er það að við getum ekki ályktað að við vitum hvað fullyrðandinn „hafði raun­verulega í huga“, þó við finnum sennilegar forsendur fyrir fullyrðingu. Annað sem hann kenndi okkur var að það að læra að segja sögu um það sem við fáumst við er ekki endilega, eða jafnvel yfirleitt, það sama og að uppgötva hvert vandamál eða takmark okkar er. Að búa til röksemda­færslu í vísindastíl eða sögu í bókmenntastíl er hvort tveggja gott. En þetta eru ekki leiðir til að uppgötva upprunalegan sannleika sem hefur beðið þess að verða afhjúpaður með „greiningu“ eða „íhugun“. Allt það sem komið hefur fram í heimspeki á undanförnum þrjátíu árum hefur hjálpað okkur að sjá muninn á slíkum sköpunarverkum og þeirri tegund vísindalegra uppgötvana sem Reichenbach vildi að heimspeki gæti af sér.

Ármann Halldórsson þýddi

 

Tilvísanir

1. [Greinina sem heitir á frummálinu „Philosophy in America today“ er að finna í bókinni Consequences of Pragmatism, University of Minnesota Press, 1982. Þýð.]

2. Hans Reichenbach, The Rise of Scientific Philosophy (Berkeley: University of California Press, 1951). Allar frekari tilvísanir í verk Reichenbachs eru til blaðsíðna eða kafla úr þessari bók og koma fram í textanum.

3. Sjá k. 18 um þá skoðun Reichenbachs að aðalsmerki vísindalegrar heimspeki sé að hafna fyrirframsannindum og greiningu hans á „heimspekingum sem vilja innlima niðurstöður vísindalegrar heimspeki í inngang að vísindum og segja að til sé sjálfstæð heimspeki sem tengist alls ekki vísindalegum rannsóknum“ (305).

4. [APA er skammstöfun á American Philosophical Association, Ameríska heimspekifélagið. Þýð.]

5. Sjá Janice Moulton, „A Paradigm of Philosophy: The Adversary Method“ í Discovering Reality, ritstjórar S. Harding og M. Hintikka, 1983. Þetta er mjög góð lýsing á því hvernig rökgreiningarheimspeki hefur þróað lögfræðilega sjálfsmynd. Moulton segir réttilega: „Með viðmiðunarreglu andmælendanna lítum við á fyrirrennara okkar í heimspeki sem andmælendur í stað þess að reyna að leggja grunn að vísindalegum rökfærslum og skýringum á eðli mannsins. Heimspekingar sem ekki er unnt að koma í hlutverk andmælenda eru líklegir til að verða hunsaðir. En endurtúlkanir okkar geta verið rangtúlkanir og val okkar á miklum heimspekingum getur verið grundvallað á því hvernig við höldum að þeir hafi sagt hlutina, fremur en því hvernig þeir sögðu þá í raun.“ Með því að segja: „Almennt séð þýðir það að maður geti ekki haft betur á málfundi í tilteknu máli ekki að maður hafi haft rangt fyrir sér“, tekur Moulton afstöðu sem er sambærileg við afstöðu Roberts Nozick. (Sjá inngang Nozicks að Philosophical Explanations [Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1981].) Moulton og Nozick bera vitni um ákveðna óánægju með lífshætti rökgreiningarheimspekinga og e.t.v. upphaf einhvers annars.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *