Richard Rorty

Richard Rorty (f. 1930) er án efa sá heimspekingur Bandaríkjanna sem umdeildastur hefur verið á síðustu tveimur áratugum 20. aldar. Með bók sinniPhilosophy and the Mirror of Nature kom hann fram sem róttækur gagnrýnandi rökgreiningarheimspeki eins og hún var stunduð í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar, en í þessari bók heldur Rorty því fram að mörg af helstu viðfangsefnum heimspekinnar séu til komin fyrir misskilning eða þröngsýni. Þannig hefur Rorty lýst yfir „dauða heimspekinnar“ í skilningi fræðigreinar sem varpað geti ljósi á eðli mannlegrar þekkingar. Heimspeki er fyrir Rorty ekki annað en ein tegund þeirrar viðleitni mannsins að glíma við og ná tökum á menningu sinni og umhverfi.

Því fer fjarri að Rorty hafni heimspekinni. Hann telur heimspeki hafa mikilvægt menningarlegt og fræðilegt hlutverk. En hann hafnar sérstöðu hennar og það sama gildir raunar um vísindin. Misskilningurinn er einfaldlega sá að halda að ein grein mannlegrar starfsemi, hvort sem þar er um að ræða vísindi eða heimspeki, standi með einhverjum hætti nær veruleikanum sjálfum en aðrar greinar.

Sú afstaða til heimspekinnar að hún sé ekki fær um að skýra tengsl manns og heims, hugar og efnis, þekkingar og veruleika með einhlítum og kerfisbundnum hætti hefur aflað Rorty óvina meðal kollega sinna atvinnuheimspekinga. Margir fremstu heimspekinga samtímans hafa deilt hart á hann og sumir telja hann falsspámann sem beiti blekkingum og slái ryki í augu fólks.

Í heimspeki sinni sækir Rorty mjög til amerísku pragmatistanna, einkum til Johns Deweys sem Rorty telur einn merkasta heimspeking 20. aldar. Rétt eins og var um pragmatistana hefur meðferð Rortys á sannleikshugtakinu þótt vægast sagt umdeilanleg. Rorty hefur margoft haldið því fram að enginn mikilvægur munur geti verið á sannri skoðun og þeirri skoðun sem rökstudd er og réttlætt þannig að enginn sjái ástæðu til að draga hana í efa. Hann heldur því fram að við eigum að hætta að hugsa um hlutlægan sannleika sem æðsta markmið vísinda. Betra er að hugsa um vísindi og fræðilegt starf yfirleitt sem viðleitni til að bæta og auðga mannlegt líf og samfélag.

Auk Philosophy and the Mirror of Nature hefur Rorty birt fjölda greina og fyrirlestra sem komið hafa út í nokkrum greinasöfnum. Meðal aðgengilegra rita eruContingency, Irony and Solidarity og Philosophy and Social Hope. Rorty hefur einnig skrifað um bandarísk stjórnmál og er ritið Achieving our Country ein hugleiðing hans um það efni.

Í greininni sem hér birtist segir Rorty kost og löst á rökgreiningarheimspeki. Hann heldur því fram að þessi tegund heimspeki sé ekki það öfluga greiningartæki sem margir haldi. Hún sé öllu heldur stíll og aðferð sem hafi marga félagslega kosti en veiti engan séraðgang að þekkingu eða veruleika. Greinin „Heimspeki í Ameríku í dag“ er úttekt á stöðu vestrænnar heimspeki þar sem Rorty lýsir kjarna gagnrýni sinnar á rökgreiningarheimspeki. Hún er um leið yfirlit yfir þróun heimspekinnar undanfarna áratugi. Styrkur Rortys sem heimspekings kemur hér vel fram: Hann gagnrýnir rökgreiningarheimspeki af þekkingu þess sem hefur drukkið hana í sig með móðurmjólkinni en hefur næga sögulega yfirsýn til að sjá takmarkanir hennar.

Jón Ólafsson

 

Richard Rorty:
Menningarvitinn: Ellefu tilgátur
Greinin er frá árinu 1989 og birtist í safnritinu Philosophy and Social Hope (Penguin 2000). Haukur Már Helgason þýddi.

Richard Rorty:
Heimspeki í Ameríku í dag
Greinin heitir á frummálinu „Philosophy in America today“ og birtist fyrst í bókinni Consequences of Pragmatism. Íslensk þýðing Ármanns Halldórssonar sem hér birtist er úr safnritinu Hvað er heimspeki?.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *