Prinsessan og heimspekingurinn

eftir Godfrey Vesey

Prinsessan og heimspekingurinn1

ER LÍF EFTIR DAUÐANN?

Í ágripi Hugleiðinga um frumspeki (1641) skrifaði René Descartes (1596–1650):

Það sem ég hef sagt hrekkur til að sýna nógu skýrt að tortímingu hugans leiðir ekki af hrörnun líkamans og einnig til að gefa mönnum von um líf eftir dauðann.

Til að „sýna nógu skýrt“ að það geti verið líf eftir dauðann greip Descartes ekki til meintra uppgötvana andatrúarmanna. Hann sótti ekki miðilsfundi eða neitt þess háttar. Það sem hann gerði var að loka sig inni og hugsa. Hann hugsaði um hvað hann gæti, og gæti ekki, mögulega dregið í efa. Hann gat ómögulega efast um að hann væri að hugsa og þess vegna að hann væri til. Jafnvel almáttugur blekkjari hefði ekki getað blekkt hann um hans eigin tilvist. En slíkur blekkjari, taldi hann, kynni vel að hafa blekkt hann um allt líkamlegt. Það var ekkert í hinni óyggjandi staðreynd að hann hugsaði sem tryggði að hann hefði líkama. Hann gat hugsað um sjálfan sig sem andlega veru eingöngu. Og vissulega gat það ekki verið Guði um megn að hafa skapað hann sem andlega veru eingöngu. En þá eru hugur hans og líkami í raun og veru að­greindir jafnvel þótt svo vilji til að þeir eru sameinaðir í þessu jarðneska lífi. En séu þeir í raun og veru aðgreindir þá getur annar þeirra, hugurinn, haldið áfram að vera til þegar hinn, líkaminn, er dáinn og grafinn.

Niðurstaðan var aðlaðandi og ekki auðvelt að sýna fram á að rökfærslan væri ógild. En sú kenning að maðurinn sé tveir aðgreindir hlutir, eingöngu andleg sál annars vegar og eingöngu efnislegur líkami hins vegar, var vandkvæðum bundin. Helstu vandkvæðin voru þau að skilja hvernig hinar tvær ólíku ‘verundir’ geti orkað hvor á aðra. Hvernig getur það sem tekur ekki rúm, sálin sem er eingöngu andleg, hreyftlíkamann eins og hún að áliti Descartes hlýtur að gera þegar fólk hreyfir sig viljandi? Og hvernig getur ‘heilahræring’, eins og Descartes kallar það, fram­kallað skynjun í huganum, eins og hún að hans áliti hlýtur að gera þegar fólk skynjar hluti?

Descartes tók vel gagnrýni á verk sín. Sumt af henni kom frá öðrum heimspekingum, mönnum með traustan orðstír og víðkunnar skoðanir, eins og Thomas Hobbes (1588–1679) og Antoine Arnauld (1612–1694). Andmæli þeirra gegn Hugleiðingum hans og svör Descartes voru gefin út með Hugleiðingunum. En önnur skoðanaskipti voru ekki birt meðan hann lifði. Ein slík voru langvarandi bréfaskipti hans við Elísabeti prinsessu af Bæheimi, dóttur Friðriks kjörfursta sem Descartes hafði einu sinni verið í stríði gegn. Descartes skrifaðist á við hana frá 1643 til dauðadags, og verkið þar sem hann gerði rækilegasta grein fyrir sambandinu milli sálar og líkama, Hræringar sálarinnar (1649) var upphaflega samið handa henni.

Í bréfi til Elísabetar dagsettu 28. júní 1643 gerði Descartes það sem kynni að virðast merkileg tilslökun. Elísabet hafði skrifað að sér fyndist erfitt að skilja hvernig sálin, ef hún er eingöngu and­leg, geti valdið breytingu í líkamanum. Hún ætti miklu auðveldara með að ímynda sér að sálin sé efnisleg og taki rúm – hafi það sem heimspekingar kalla ‘rúmtak’ – heldur en að hún gæti, þar sem hún er óefnisleg, hreyft líkama og orðið fyrir áhrifum frá breytingum í honum. Descartes svaraði:

Yðar hátign gerir þá athugasemd að það sé auðveldra að eigna sálinni efni og rúmtak en að eigna henni afl til að hreyfa líkama og vera hreyfð af honum án þess að hafa neitt efni. Ég vildi nú biðja yðar hátign að telja yður frjálst að eigna sálinni ‘efni og rúmtak’.

Gæti Descartes í raun og veru hafa meint þetta? Gæti hann í raun og veru hafa ætlað að gera til­slökun sem var svona skaðleg yfirlýstri skoðun hans sem er að sálin sé aðgreind frá líkamanum einmitt með því að vera ekki efnislegur hlutur?

Samtalið sem fer hér á eftir svarar þessari spurningu. Ég hef ímyndað mér fund með Descartes, heimspekingnum, og Elísabeti, prinsessunni, og byggt rökræðu þeirra á bréfunum sem þau skrifuðu hvort öðru á fimmta áratug 17. aldar. Ég hef tekið mér dálítið skáldaleyfi. Ekki er öll rökin sem eignuð eru Elísabeti að finna í bréfum hennar til Descartes. Notkun rúmfræðidæmis undir lok samtalsins, sérstaklega, kemur ekki úr bréfaskriftum þeirra Descartes og Elísabetar heldur úr andmælum sem Antoine Arnauld hafði uppi gegn Hugleiðingunum. En leitast hefur verið við að koma ekki með heimspekilegar hugmyndir frá seinni öldum.

PRINSESSAN OG HEIMSPEKINGURINN

[Samtal og tónlist í stórum sal]

DESCARTES . . . Frú, sá heiður sem yðar hátign sýnir mér með því að bjóða mig velkominn er meiri en ég þorði að vona. Það er mjög hughreystandi ekki aðeins að njóta velvildar yðar bréflega heldur að hitta yður.

ELÍSABET Ekkert að þakka, herra. Bréf yðar hafa veitt mér mikla ánægju.

DESCARTES Ég er yðar hátign afar þakklátur fyrir að lesa þau. Jafnvel þegar þér sjáið hve illa ég útskýri mál mitt hafið þér samt þolinmæði til að hlusta á mig.[Stutt þögn] En segið mér, frú, hvernig get ég hjálpað yður og hvaða viðfangsefni valda yðar hátign enn heilabrotum? Þegar ég les merkin um hugsanir yðar á blaði finn ég sannarlega undraverðan skilning á þeim óhlut­bundnu efnum sem ég skrifa um. En núna, þar sem ég sé frammi fyrir mér líkama slíkan sem málarar gefa englum sem þessar guðdómlegu skoðanir streyma frá, er ég gagntekinn líkt og maður nýkominn til himna. Hverju sem þér spyrjið um mun ég svara, ef ég get.

ELÍSABET Við skulum færa okkur í hljóðlátara herbergi.

[Þau færa sig í hljóðlátara herbergi og setjast]

ELÍSABET Ég skrifaði yður, þér munið, um eðli sálarinnar. Ég spurði yður hvernig sálin, ef hún er óefnislegur hlutur, geti hreyft líkamann. Það hlýtur að vera að eigi einn hlutur að hreyfa annan þá verður sá fyrri að vera í efnislegri snertingu við þann síðari. Ég get ekki leikið á sembalinn minn án þess að snerta nóturnar með fingrunum. Hvernig getur sálin, ef hún er eingöngu andleg, snert líkamann til þess að valda breytingum í honum?

DESCARTES Fyrirgefið mér, frú, ég svaraði þessari spurningu, var það ekki?

ELÍSABET Þér svöruðuð bréfi mínu en ég held ekki að þér hafið svarað spurningu minni. Þér skrifuðuð að fólk haldi að þyngd sé eitthvað sem hreyfir hluti og hreyfir þá án þess að þeir séu snertir. Þyngd lætur laufin falla til jarðar og þetta er augljóslega ólíkt því hvernig ein kúla lætur aðra hreyfast þegar hún rekst á hana. Með öðrum orðum – og mér skildist að þetta væri það sem þér ættuð við – við höfum hugmynd um að einn hlutur hreyfi annan án þess að snerta hann.

DESCARTES Aha . . . þér eruð mér þá sammála.

ELÍSABET [Stutt þögn – heldur áfram ráðvillt] En það hvernig þyngd hreyfir laufin er mjög ólíkt því hvernig sálin hreyfir líkamann. Þyngd er ekki óefnisleg á þann hátt sem sálin, samkvæmt yður, er óefnisleg. Hún er ekki – hvernig á ég að orða það? – þyngd er ekki andlegt afl. Það sem ég skil ekki er hvernig hugsun getur valdið líkamlegri hreyfingu. Þér eruð ekki að segja að hún geri það með þyngd, eða hvað? Hvað sem öðru líður veit ég ekki hvað þetta merkir.

DESCARTES Nei, nei, nei, nei, nei. Ég á við að við höfum hugmynd um að hlutir hreyfist án þess að aðrir hlutir séu í efnislegri snertingu við þá. [Stutt þögn] Reyndar er þessari hugmynd misbeitt þegar við notum hana til að skilja hvers vegna hlutir falla til jarðar. Í Eðlisfræði minni sýndi ég fram á að þyngd hluta er ekki í raun eitthvað aðgreint frá þeim. En við höfum þessa hugmynd og ég tel að okkur hafi verið gefin hún til þess að skilja hvernig sálin hreyfir líkamann. Ef við getum, með því að nota þessa hugmynd, skilið hvernig sálin hreyfir líkamann þá getum við líka skilið hvernig sál manns og líkami eru sameinuð.

ELÍSABET [Grípur fram í] Ójá, en nú verðið þér að útskýra. Vegna þess að ef þér bara segið að sál og líkami séu sameinuð, og látið þar við sitja, er ég í raun og veru engu nær. Hvernig getur það sem er andlegt verið sameinað því sem er líkamlegt, efnislegt, ‘hefur rúmtak’? Herra, ég fellst á að sál og líkami séu sameinuð, en eigi ég að skilja hvernig sálin getur orkað á líkamann verð ég að skilja forsendu sameiningar þeirra. Hvernig eru sál og líkami, tvær aðgreindar verundir, sameinuð?

DESCARTES [Hugsandi á svip] Nú, það er ekki með vitinu, en með því skiljum við sálina, sem við getum líka skilið sameiningu sálar og líkama. Það er ekki heldur með vitinu og hjálp ímyndunar­aflsins. Þá eru einungis skilningarvitin eftir. Það er því með atbeina skilningarvitanna sem við skiljum sameiningu sálar og líkama. Þegar við hugsum heimspekilega um þessi efni gerum við okkur grein fyrir því að líkami og sál eru aðgreind, en hvað reynslu okkar snertir er eins og þau væru eitt. Þegar ég lyfti handleggnum, eða er með verk í bakinu, finnst mér ég sjálfur ekki vera aðgreindur frá handleggnum eða bakinu. En ég veit, engu að síður, að sál mín er aðgreind frá líkama mínum.

ELÍSABET Þér eruð að segja að manni finnist eins og sál og líkami séu sameinuð?

DESCARTES Einmitt.

ELÍSABET En það skýrir ekki hvernig þau eru sameinuð, er það? Þér sögðuð að við skiljum sameiningu sálar og líkama með skilningarvitunum. En að vita  sálin orkar á líkamann er ekki að vita hvernig. [Þögn] Sjáið þér, mér virðist að orki sál og líkami hvort á annað þá ættum við að geta skilið hvernig þau gera það. Skilningarvitin virðast ekki láta slíka þekkingu í té. [Descartes svarar ekki enn] Það var vegna þess að ég skildi ekki hvernig óefnisleg sál gæti orkað á efnislegan líkama sem ég stakk upp á að sálin, í verund sinni sem aðgreindri frá starfsemi sinni, hljóti að vera efnisleg. Ef að hugsa, vilja og svo framvegis er eitthvað semlíkaminn gerir, í stað þess að vera eitthvað sem andleg vera aðgreind frá líkamanum gerir, kemur vandamál mitt ekki upp.

DESCARTES En hvað eigið þér við með ‘verund’? Það eru athafnir sálarinnar – að hugsa, vilja o.s.frv. – sem gera hana að þeirri verund sem hún er. Hugsun er eðli sálarinnar, alveg eins og ‘rúmtak’ – að taka rúm – er eðli efnisins. Engin verund getur haft tvenns konar eðli.

ELÍSABET [Hneyksluð] Samt man ég greinilega að þér sögðuð í bréfi að ég gæti „eignað sálinni efni og rúmtak“.

DESCARTES Hvenær var það?

ELÍSABET Fyrir um þremur árum, held ég.

DESCARTES Í hvaða sambandi?

ELÍSABET Ég get fundið bréfið fyrir yður. [Hún gramsar] Já, hérna er það. Ég skal finna staðinn . . . Aha! „Yðar hátign segir að það sé auðveldara að eigna sálinni efni og rúmtak en að eigna óefnislegum hlut getu til að hreyfa efnislegan hlut og vera hreyfður af honum. Ég vildi nú biðja yðar hátign að vera frjáls að því að eigna sálinni efni og rúmtak . . .“

DESCARTES Aha, en hvernig er framhaldið?

ELÍSABET „ . . . sálinni efni og rúmtak, því að það er ekkert annað en að hugsa sér sálina eins og hún sé sameinuð líkamanum. “

DESCARTES [Glaðlegur] Sjáið þér! Ég var enn að tala um að sálin væri sameinuð líkamanum. Sálin hefur í vissum skilningi rúmtak. Til dæmis þegar við finnum til verkja og sársauka í ýmsum hlutum líkamans . . . Setjum svo að maður stingi sig í fingurinn á snælduteini . . .

ELÍSABET Eruð þér ekki að rugla mér saman við aðra prinsessu?

DESCARTES Ég sagði „setjum svo“. Setjum svo að maður stingi sig á snælduteini. Maður finnur til sársauka. Hvar finnur hann til sársaukans? Að vissu leyti er það næstum því eins og sálin væri útþanin um allan líkamann, jafnvel út í fingurna. En að tala þannig er að tala einungis um tilfinningu. Sársaukinn er ekki í raun og veru í fingrinum, hann er í sálinni. Maður veit með vitinu að hann er ekki í fingrinum þar sem maður veit með vitinu að sálin, sem finnur til sársauka, er óefnisleg. Til að vita sannleikann í málinu verðum við að treysta vitinu.

ELÍSABET Vitið, segið þér, segir okkur að sálin sé óefniskennd. En er vitræn skynjun okkar á sálinni nægilega skýr? Kannski ef við hefðum skýrari skynjun á eðli hennar mundi okkur verða ljóst að hún er í rauninni efniskennd. Er ekki að minnsta kosti sá möguleiki?

DESCARTES Ekki ef röksemdafærslan í Hugleiðingum mínum fær staðist. Þér munið, ég ímyndaði mér að ákaflega máttugur, illur andi gerði allt sem hann gæti til að blekkja okkur?

ELÍSABET Já.

DESCARTES Hann kann að blekkja mig um allt sem kemur líkama mínum við, en þegar kemur að hugsun minni – ja, þá getur hann ekki blekkt mig. Um það get ég ekki efast. [Hægt og með áherslu] Þess vegna, að svo miklu leyti sem ekki er hægt að blekkja mig um tilvist mína, er ég ekkert meira en hugsandi hlutur.

ELÍSABET Samþykkt. En þetta er „það sem ekki er hægt að blekkja mann um“. Spurningin sem ég er að bera fram er ólík. Hún er ekki um það sem maður veit eða veit ekki. Hún er um það sem er í raun og veru. Ég er að halda því fram að enda þótt maður geti ímyndað sér að hann sjálfur hafi ekki líkamlega eiginleika kunni það samt sem áður að vera staðreynd að hann hafi þá.

DESCARTES Nei. Þær kunna að virðast gerólíkar spurningar – spurningin um það sem ég veit eða veit ekki og spurningin um það sem er í raun og veru – en svo er ekki. Þær tengjast.

ELÍSABET Hvernig? Hvernig tengjast þær?

DESCARTES Ja, það varðar í raun og veru möguleika. Ef það er mögulegt að hugsun eigi sér stað aðgreind frá líkama þá . . .

ELÍSABET [Grípur fram í] En er það mögulegt? Það er spurningin?

DESCARTES Gott og vel, ég er að koma að því. Ég sagði ‘ef’. Ef það er mögulegt að hugsun og líkaminn séu til hvort í sínu lagi þá . . .

ELÍSABET [Óþolinmóð] Já, já, þá er það-sem-framkvæmir-hugsunina ekki líkaminn. Ég skil það mætavel. En það sem þér verðið að gera er að losna við ‘ef’-ið. Það er að segja, þér verðið að sýna fram á að hugsun geti átt sér stað aðgreind frá líkama.

DESCARTES Einmitt, og það er hér sem það sem ég veit og veit ekki kemur til skjalanna.

ELÍSABET Haldið þér áfram.

DESCARTES Nú, ég veit með vissu að ég er að hugsa og um leið get ég efast um að ég hafi líkamlega eiginleika. Ég get því skynjað annan hlutinn, hugsunina, aðgreindan frá hinum. Og fyrst þessi skynjun er skýr og greinileg hlýtur það að vera mögulegt að annar hluturinn sé til að­greindur frá hinum.

ELÍSABET Andartak. Þér sögðuð „fyrst þessi skynjun er skýr og greinileg“.

DESCARTES Já.

ELÍSABET Og þér munduð segja að ef þér skynjuðuð sjálfan yður skýrt og greinilega sem ekkert meira en hugsandi hlut þá leiddi af því að þér gætuð verið til sem hugsandi hlutur?

DESCARTES Já.

ELÍSABET Og þess vegna að þér séuð í raun og veru ekkert meira en hugsandi hlutur?

DESCARTES Hárrétt.

ELÍSABET Einmitt það. Sjáið til, er ekki mögulegt að skynjun manns sé skýr en einungis svo langt sem hún nær? Og að hún nái ekki nógu langt til að maður viti sannleikann? Með öðrum orðum, er ekki mögulegt að maður hafi í raun og veru líkamlega eiginleika enda þótt þekking manns á sér sjálfum nái ekki út fyrir andlega eiginleika hans?

DESCARTES Nei. Það verður að greina á milli skýrleika og fullkomleika. Vissulega kann að vera eitthvað við mig sem ég hef ekki skynjað skýrt. En það hefur ekki áhrif á það sem ég hef skynjað skýrt. Og með því að ég hef skynjað skýrt að ég er hugsandi hlutur veit ég að ég get verið til sem slíkur. Það er að segja, ég veit að það sem ég er viss um – vitsmunahæfileiki minn – nægir mér til að vera til með. Og nægi hann mér til að vera til með þá er ég í raun og veru aðgreindur frá öllu líkamlegu.

ELÍSABET Sem sagt, frumforsenda röksemdafærslu yðar er: Ef ég get skynjað skýrt að eitthvað er svona-og-svona þó ég geti ekki skynjað skýrt að það sé þetta-og-þetta þá get ég verið til einungis sem svona-og-svona.

DESCARTES Já.

ELÍSABET En hugleiðið nú þetta dæmi. Þríhyrningur er flatarmynd sem afmarkast af þremur beinum línum.

DESCARTES Humm.

ELÍSABET Þetta er eitthvað sem flestir vita. En það vita ekki allir að horn þríhyrnings eru saman­lagt tvö rétt horn. Það er að segja, einhver kynni að vita mætavel að eitthvað væri þríhyrningur en vita þó ekki þessa viðbótarstaðreynd um hornin. Nú, samkvæmt rökfærslu yðar ætti að vera mögulegt að til væri þríhyrningur sem hefði ekki hornasummu tveggja réttra horna. Sjáið þér hvað ég á við?

DESCARTES Já, það er sama atriðið og faðir Arnauld setti fram í fjórðu andmælunum gegn Hugleiðingum mínum. En ég fellst ekki á að þetta séu hliðstæð dæmi. Og ég segi hvers vegna í svari mínu til hans.

ELÍSABET Ég verð að líta á það aftur. [Þögn] Sjáið þér, það er ekki að ég vilji ekki trúa yður. Nema þér hafið á réttu að standa í því að sálin sé aðgreind frá líkamanum sé ég ekki hvernig getur verið nokkur von um líf eftir dauðann. Sé það einhver hluti líkama míns sem hugsar og vill þá eru það endalok mín þegar hann hrörnar í dauðanum. Ennfremur, samkvæmt skoðun yðar hefur Guð skapað manninn í sinni mynd. Aðeins ef við skynjum okkur sjálf sem einungis andlegar verur getum við hugsað um Guð á sama hátt. Þessar hugsanir eru mér dýrmætar, herra Descartes. Ég fellst á þær sem trúaratriði en ég vildi að trú og skynsemi færu saman. [Andvarpar] Sálin verður þreytt á hinum þungbæra líkamshjúpi sínum. Það koma stundir þegar ég þrái að losna úr honum til hamingjusamara lífs í upphæðum.

DESCARTES Frú, ég veit um útlegðina sem vofir yfir yður og ég harma að það er ekkert sem ég get gert til að hjálpa.

ELÍSABET En það er, herra Descartes. Það er. Bréf yðar eru mér mikil huggun og ég vona að þér haldið áfram að skrifa. Þannig munu mánuðirnir virðast vikur og vikurnar dagar.

DESCARTES Ég vildi að ég gæti orðið yður að veigameira liði. Ég vildi . . .

ELÍSABET [Grípur fram í] Farið nú, góði herra. Farið út og gerið yður heimakominn hjá hirðinni sem hefur dæmt mig í útlegð. Snúið hjarta hennar og hug til heimspeki eins og þér hafið snúið hjarta mínu og hug. Það er hennar böl sem ég verð að umbera. Mildið það ef þér getið . . .

AÐ REKA BURT DRAUGINN ÚR VÉLINNI

Tvær spurningar sem Elísabet prinsessa spyr í samtalinu eru: (1) Er hin vitræna skynjun okkar á sálinni nægilega skýr til að við vitum að hún sé óefnisleg? og (2) Ef sálin er óefnisleg hvernig getur hún orkað á líkamann?

Báðum þessum spurningum var töluverður gaumur gefinn af heimspekingum sem skrifuðu eftir daga Descartes. Breski raunhyggju-heimspekingurinn John Locke (1632–1704) gaf neikvætt svar við hinni fyrri. Hugmynd okkar um andlega verund, sagði hann, er hugmynd um ‘eitthvað sem gert er ráð fyrir ég veit ekki hvað’ sem ‘stendur undir’ hugsun og vilja („hæfileikanum til að koma hlut á hreyfingu með hugsun“). Á svipaðan hátt er hugmynd okkar um efnislega verund hugmynd um eitthvað sem við vitum ekkert um nema að hún ‘stendur undir’ þéttleika og „hæfileikanum til að miðla hreyfingu með höggi“. Af því að þessu er svona háttað getum við ekki vitað hvort ‘undirstaða’ hugsunar er ekki sami hluturinn og ‘undirstaða’ þéttleika,

þar eð ógerlegt er fyrir okkur, með því að ígrunda hugmyndir okkar án opinberunar, að uppgötva hvort almættið hefur ekki gefið sumum efniskerfum, sem eru stillt á viðeigandi hátt, hæfileika til að skynja og hugsa, . . . þar eð það er, hvað snertir hugmyndir okkar, ekki miklu fjarri skilningi okkar að hugsa okkur að Guð geti, ef honum þóknast, bætt við efnið hæfileika til að hugsa en að hann bætti við það annarri verund með hæfileika til að hugsa. Fyrst við vitum ekki í hverju hugsun er fólgin né hvers konar verundum almættinu hefur þóknast að gefa þennan hæfileika . . . 2

Descartes taldi sig auðvitað hafa sannað að það sé óefnisleg verund sem hugsar en ekki, eins og við mundum segja, mannvera; enn síður ‘efniskerfið’ sem er heili mannveru. Efasemdir Elísabetar prinsessu um rökleiðslu hans hafa verið settar fram á gagnorðan hátt af A. M. MacIver:

Descartes reyndi að sanna á órækan hátt að það sem hugsar í okkur hljóti að vera rúmtakslaust og byrjaði út frá cogito (= ég hugsa). Ég veit að ég er til af því að ég hugsa og ég veit þetta með vissu; en vitandi að ég er til veit ég ekki hvort ég hef rúmtak, vegna þess að ég get, þótt ég sé viss um eigin tilvist, samt dregið í efa tilvist allra efnishluta. Þess vegna er ályktað að ‘ég’-ið sem er vitað með vissu að er til sé hugsandi hlutur en ekki hlutur sem hefur rúmtak – eða með öðrum orðum óefnislegur hugur. Þessi rökleiðsla, með yfirlýstri niðurstöðu sinni, byggist á þeirri einföldu rökvillu að gera ráð fyrir að ef við vitum ekki með vissu að eitthvað er staðreynd þá vitum við með vissu að það er ekki staðreynd: Ef ég veit að ég er til en veit ekki hvort ég hef rúmtak eða ekki þá veit ég að ég hef ekki rúmtak.3

MacIver bendir á að ályktun Descartes brjóti í bága við hversdagslegan talsmáta okkar :

Ef við föllumst á hina platonsku og cartesísku lýsingu á manneðlinu ættum við strangt tekið að segja „ég hugsa“ en „líkami minn situr“ og „líkami minn gengur“, og væri þessi talsmáti mönnum eðlilegur þá mundi þetta (eða eitthvað sem gerði sama greinarmun) vera eðlileg málnotkun. En í rauninni segir hversdagsmálið jöfnum höndum „ég hugsa“,„ég sit“, „ég geng“ – og gefur í skyn að fljótt á litið sé frumlagið í hverju tilviki hið sama.4

Sú skoðun að það sé eitt frumlag, nefnilega mannvera, þannig að hægt sé að nota um það jöfnum höndum bæði umsagnir eins og ‘hugsa’ og umsagnir eins og ‘ganga’, er skoðun sem P. F. Strawson hefur fært rök fyrir í bók sinni Einstaklingar (Individuals).5 Úrslitaskref í röksemda­færslunni er „að nauðsynlegt skilyrði þess að eigna einhverju vitundarástand yfirleitt sé að það skuli eignað alveg sömu hlutunum og tilteknir líkamlegir eiginleikar, tiltekið líkamlegt ástand o.s.frv.“6

MacIver telur að hin raunverulega ástæða Descartes fyrir að trúa því að frumlagið sem hugsar sé rúmtakslaust hafi ekki verið sú sem hann gaf í cogito–rökleiðslunni. Hann telur að hin raunveru­lega ástæða hans hafi verið skoðun hans að hægt væri að skýra hegðun hluta með rúmtak á vélrænan hátt, og að þar sem hugsun er augljóslega ekki vélrænt ferli gæti það ekki verið hlutur með rúmtak sem hugsar.7

Í bók sinni Hugtakið hugur (The Concept of Mind) styður Gilbert Ryle skýringu MacIvers á því hvernig á því stóð að Descartes trúði á rúmtakslausa verund:

Þegar Galileo sýndi fram á að aðferðir sínar við vísindalegar uppgötvanir gátu látið í té vélræna kenningu sem tæki til allra hluta í rúminu fann Descartes hjá sér tvær hvatir sem stönguðust á. Sem maður með vísindalega snilligáfu gat hann ekki annað en stutt staðhæfingar aflfræðinnar, en sem trúaður og siðaður maður gat hann ekki fallist á hina óþægilegu viðbót við þessar staðhæfingar, eins og Hobbes hafði gert, nefnilega að mannlegt eðli sé einungis ólíkt gangverki í klukku að því leyti að það sé flóknara. Hið andlega gæti ekki bara verið afbrigði hins vélræna.
Descartes og þeir heimspekingar sem á eftir komu notfærðu sér eðlilega en ranglega eftirfarandi undankomuleið. Úr því að orð um andlega hegðun má ekki túlka þannig að þau tákni að vélræn ferli eigi sér stað verður að túlka þau þannig að þau standi fyrir óvélræn ferli; . . . þó að sumar hreyfingar tungu og útlima manna séu afleiðingar vélrænna orsaka hljóta aðrar að vera afleiðingar orsaka sem eru ekki vélrænar, þ.e. sumar stafa af hreyfingu efnisagna, aðrar af starfsemi hugans.8

Einn aðalvandinn við að fallast á þessa skoðun um ‘óvélrænar orsakir’ er sá sem Elísabet lét í ljós, vandinn að skýra hvernig óefnislegir hugir geti valdið breytingum í efnislegum líkömum.

Það eru tvær leiðir til að bregðast við heimspekilegu vandamáli eins og þessu. Önnur er að fallast á hugtökin sem það er sett fram með og reyna að svara því með þeim. Hin leiðin er að hafna hugtökunum, nefnilega að sýna fram á að einhvers konar villa hafi verið gerð við fram­setningu vandamálsins. Ryle fer síðari leiðina. Hann segir að ‘frumhugtakavilla’ hafi átt sér stað með því að lýsa muninum á hinu efnislega og andlega sem „mismuni innan hins sameiginlega ramma hugtakanna ‘hlutur’, ‘efni’, ‘eiginleiki’, ‘ástand’, ‘ferli’, ‘breyting’, ‘orsök’ og ‘afleiðing’“.9

Að fallast á hugtökin sem vandamálið hefur verið sett fram með er að reyna að svara spurning­unni: „Ef sálin er óefnisleg hvernig getur hún orkað á líkamann?“ Einn heimspekingur sem reynir að svara þessari spurningu er Nicolas Malebranche (1638–1715).

Sé hugtökunum sem vandamálið hefur verið sett fram með hafnað stendur samt sem áður eftir einhvers konar spurning sem krefst svars. Í þessu tilviki er það spurningin: „Ef viljaverknað ber ekki að skilja sem líkamshreyfingu, sem orsakast af athöfn ‘vilja’, hvernig ber þá að skilja hann?“

Útdrætti úr ritum Descartes (þar á meðal nokkur bréf hans til Elísabetar prinsessu), Lockes, MacIvers, Strawsons, Ryles og Malebranche varðandi þetta efni er að finna í bókinni Líkami og hugur (Body and Mind), ritstjóri G. N. A. Vesey. Þetta er safn útdrátta úr ritum fjörutíu og eins heimspekings frá Descartes að telja um vandamálið um samband líkama og hugar.

Gunnar Ragnarsson þýddi

Tilvísanir

1. Hið ímyndaða samtal franska 17. aldar heimspekingsins René Descartes og Elísabetar prinsessu af Bæ­heimi er eftir enska heimspekinginn Godfrey Vesey (f. 1923) sem var um langt árabil prófessor við Opna há­skólann í Bretlandi. Samtalið birtist, ásamt inngangi og eftirmála, í bókinni Philosophy in the Open (1978, önnur prentun) sem er hluti af kennsluefni háskólans í heimspeki og var fyrst útvarpað á áttunda áratugnum. Þýð.

2. An Essay concerning Human Understanding, Bók IV, 3. kafli.

3. MacIver (1936) „Is there Mind-Body Interaction?“ Proceedings of the Aristotelian Society, 36. árg., bls. 101.

4. Sama rit, bls. 99.

5. Strawson (1964), 3. kafli.

6. Sama rit, bls. 102.

7. MacIver, sama rit, bls. 102.

8. Ryle (1963), bls. 20

9. Sama rit.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *