Wittgenstein og vandamálið um meðvitundina

eftir Oswald Hanfling

Wittgenstein og vandamálið um meðvitundina1

Meðvituð reynsla mannsins einkennist af auðugu innra lífi. Sem dæmi má nefna verki og aðrar skynjanir manna. Og maður hefur skynreynslu eins og þá sem hlýst af því að tyggja eitthvað beiskt. Um þessar mundir brjóta vísindamenn heilann um hvernig skuli útskýra þetta innra líf með vísindalegum hætti. Getum við til að mynda ‘útskýrt’ meðvitundina með því að skírskota til staðreynda um heilann í okkur?

Hér útskýrir Oswald Hanfling hversvegna hann telur að hið vísindalega ‘vandamál’ að ‘útskýra’ meðvitundina sé á endanum gervivandamál. Það er ekkert vandamál!

Vandi vandamálsins

‘Vandamálið um meðvitundina’ hefur fangað athygli almennings sem aldrei fyrr. Næstum því daglega heyrum við eða lesum umræður um vandamálið, og verið er að birta nýjar bækur og greinar um það um leið og ég skrifa þessar línur. Frægt fólk úr heimi heimspeki, sálarfræði, heilavísinda og tölvuvísinda tekur þátt í umræðunni. Sumir halda að vandamálið, enda þótt það sé einstaklega erfitt, muni að lokum verða leyst vísindalega, en aðrir telja að mönnum muni aldrei takast að komast til botns í því.

En hvert er vandamálið nákvæmlega? Hvað er sérstakt við meðvitundina? Meðvitundin, hefur verið sagt, er „síðasti leyndardómurinn sem eftir er“ (Dennett, s. 25). Setjum svo að okkur væri sagt að allt hefði verið útskýrt, að einu undanskildu: meðvitundinni. Þá kynnum við að undrast hversvegna þetta skyldi vera þannig: það væri leyndardómur. En sú hugmynd að allt hafi verið útskýrt er samt augljóslega fráleit. Við skulum prófa þá hugmynd að hægt sé að útskýra allt nema meðvitundina. Þá kynnum við að undrast hversvegna, eins og sagt hefur verið, „meðvitundin skyldi vera eina fyrirbærið sem ekki er hægt að útskýra. Föst efni, vökva og lofttegundir er hægt að útskýra og svo framvegis“ (Dennett, s. 455). Sú hugmynd að allt (annað en meðvitundina) sé hægt að útskýra virðist ekki mjög trúleg heldur. En ef við föllumst á þessa hugmynd hversvegna skyldi meðvitundin vera undanskilin? Hversvegna ekki einfaldlega að gera ráð fyrir að meðvitundina, eins og allt annað, sé hægt að útskýra? Við erum þegar öllu er á botninn hvolft bara að velta hlutunum fyrir okkur. Enginn er að halda því fram – enda væri slíkt fáránlegt – að allt (nema meðvitundin) hafi í raun og veru verið útskýrt.

Við skulum prófa þá hugmynd að þar sem hlutir eru útskýranlegir séu þeir ætíð (nema, aftur, þar sem meðvitundin á í hlut) útskýranlegir á sérstakan hátt – þann hátt sem við útskýrum hegðun efnislegra hluta á (þar með talin ‘föst efni, vökvar og lofttegundir’ o.s.frv.). Meðvitundin kynni þá að birtast sem ‘eitthvað sem verður útundan’: kannski yrði aldrei hægt að útskýra hana á þennan hátt. En er það trúverðugt að telja að allt (annað en meðvitundin) skuli útskýrt á einn ákveðinn hátt? Hugleiðið hina mismunandi vegu sem hlutir eru útskýrðir á. Við höfum greinar á borð við líffræði, atferlisfræði, mannfræði, hagfræði, sagnfræði, listgagnrýni, sálarfræði o.s.frv. Hver þessara vísindagreina hefur sinn eigin íðorðaforða, rannsóknaraðferðir og skýringarmarkmið.

Hugleiðið einnig hvernig við útskýrum mannlega hegðun í daglegu lífi. Hversvegna er Jóhanna að hlæja? Af því að hún heyrði þennan brandara um . . . Þetta er fullkomin skýring: Nú skiljum við hversvegna hún var að hlæja. Um daginn las ég að „vísindamenn hafa uppgötvað hvað kemur fólki til að hlæja“. En vissum við ekki hvað kemur fólki til að hlæja? Stundum getum við að vísu ekki skilið hversvegna einhver er að hlæja. En það sem við þurfum í því tilfelli er ekki vísindaleg skýring.

Við skulum sjá hvort þetta kemur ykkur til að hlæja. Maður ryðst inn í banka, æðir upp að afgreiðsluborðinu og hrópar „Þetta er klúður!“ – „Afsakið,“ segir gjaldkerinn, „meinarðu ekki rán?“ – „Nei,“ hrópar maðurinn, „ég meina klúður. Ég gleymdi að koma með byssuna mína!“ Ég vona að þessi brandari hafi ekki þarfnast skýringar. En hafi svo verið þá var það sem þið þurftuð að fá að vita púðrið í brandaranum en ekki að fá vísindalega skýringu á því sem gerist í heilanum eða líkamanum þegar þið hlæið.

Hérna er önnur tilraun til að kynna vandamálið um meðvitundina. Spyrja má: Hvernig þróaðist meðvitundin? Hvernig þróaðist líf án hennar upp í líf með hana? Hugleiðið muninn á dýri með augu og eyru o.s.frv. og fjarlægum, frumstæðum forfeðrum þess sem höfðu engin slík líffæri eða hæfileika. Hið fyrrnefnda getur, þegar það er vakandi, verið meðvitað um umhverfi sitt – fæðu, rándýr o.s.frv., en hinir frumstæðu forfeður gátu það hinsvegar ekki. Það sem við höfum hér er þróun skynjunar. Satt er það að þessi þróun – einstök atriði þessarar sögu – getur verið vandamál fyrir líffræðinga, eins og önnur þróun í lífríkinu getur verið. En þau eru ekki ‘djúpstæð’ vandamál, sem á að stilla upp sem andstæðum við önnur vandamál sem þróunarlíffræðin fæst við. Það er ekkert sérstakt við meðvitundina hvað þetta varðar.

Er einhver önnur leið til að auðkenna ‘vandamálið um meðvitundina’? Ég efast um það, en í staðinn fyrir að halda tilrauninni áfram ætla ég að koma með tvær tillögur til skýringar á þeirri tilfinningu að meðvitundin sé eitthvað leyndardómsfullt.

Hafa heilar meðvitund?

Fyrri tillagan er um þá skoðun, sem er algeng nú á dögum, að meðvitundin sé eiginleiki heilans. Það hefur lengi verið vitað að heilinn er í nánari tengslum við hugræn ferli en aðrir hlutar líkamans, en upp á síðkastið hefur verið mikill vísindalegur áhugi á þessum tengslum og á þeim ferlum og innviðum heilans sem máli skipta. Um leið er sú skoðun orðin útbreidd að hugræn ferli séu ekkert annaðen heilaferli og að hugsun, tilfinning, rökleiðsla og meðvitundin sjálf séu í raun og veru eiginleikar heilans. ‘Vandamálið um meðvitundina’ er oft sett fram með spurningum á borð við ‘Hvað gerir heila meðvitaða’?, og þetta er vissulega furðuleg spurning. En er vit í spurningunni?

Ég býst við að þið munuð fallast á að það sé af og frá að eigna hverju sem er meðvitund. Við getum ekki sagt um stól, hjólbörur eða fingurnögl að þau hafi eða kynnu að hafa meðvitund. Það væri þvættingur. En við getum sagt um manneskju eða svartþröst að þau viti af sér eða séu meðvituð um eitt eða annað. Reyndarþurfum við, þegar svo ber undir, að segja slíka hluti. En hvað um heila? Margir höfundar nú á dögum eigna heilanum meðvitund. Heilar, samkvæmt þeim, hafa hugsanir og tilfinningar, taka á móti upplýsingum, komast að niðurstöðum og þar fram eftir götunum. En hvernig eigum við að skilja þetta? Hugleiðið athugasemd íRannsóknum Wittgensteins:

Aðeins um lifandi mannveru og það sem líkist lifandi mannveru (hegðar sér líkt og lifandi mannvera) getur maður sagt: hún hefur skynjanir, er blind, heyrir, hefur meðvitund eða er meðvitundarlaus. (Heimspekilegar rannsóknir, 1. hluti, grein 281)

Sé þetta nú rétt þá fela spurningar eins og ‘Hvað gerir heila meðvitaða?’ í sér vitlausa forsendu fyrst heilinn líkist ekki eða hegðar sér líkt og lifandi mannvera. Að þessu leyti er hann ekkert betri en hvert annað líkamlegt líffæri sem er. En séu slíkar spurningar í raun og veru vitleysa þá ættum við ekki að vera hissa þótt þær virðist erfiðar viðureignar og jafnvel leyndardómsfullar.

En eru þær í raun og veru vitleysa? Hversvegna ættum við að fallast á staðhæfingu Wittgensteins frekar en staðhæfingar hinna höfundanna? Ja, eitt sem ekki verður dregið í efa er að við eignum fólki meðvitund – hugsanir og tilfinningar o.s.frv. Við segjum að Bill sé með tannpínu, Belinda sjái svartþröst, Beryl sé meðvitundarlaus (sofandi, kannski), o.s.frv. En gætum við ekki líka eignað þær heilum? Hversvegna skyldi ég ekki segja að heilinn í mér hugsi og finni til, hugleiði upplýsingar, komist að niðurstöðum o.s.frv.? Hér eru tvö vandamál fyrir þessa skoðun:

1 Setjum svo að þú, ‘lifandi mannvera’, komist að þeirri niðurstöðu að það sé kominn tími til að fara heim. Ættum við að segja að heilinn í þér hafi einnig komist að þessari niðurstöðu? En kynni heilinn ekki á hinn bóginn að komast að annarri niðurstöðu? Hvernig mundirðu vita það?

2 Setjum svo að þú sért með verk í fætinum. Samkvæmt ofangreindri skoðun mundi þessi tilfinning einnig vera í heilanum. Þar af leiðandi værirðu með tvo verki: annan, í fætinum, sem þú fyndir fyrir; hinn, í heilanum, sem þú fyndir ekki fyrir. En er vit í að tala um verk (segjum sáran verk) sem maður finnur ekki fyrir?

Samkvæmt sumum höfundum eru sársauki og aðrar tilfinningar raunverulega staðsett í heilanum. En væri þessu þannig háttað gæti manni þá ekki skjátlast um að finna til sársauka? („Góðar fréttir! Ég hélt ég fyndi til sársauka en heilasérfræðingurinn sagði að mér skjátlaðist.“ Væri vit í þessu?)

Ég tók dæmið um verk í fætinum úr frægum kafla í Sjöttu hugleiðingu Descartes. Descartes eignaði huganum en ekki heilanum meðvitund (þar með taldar tilfinningar o.s.frv.), en vandamálið sem hann stóð frammi fyrir var áþekkt. Í þessum kafla hugsaði hann sér að hann væri með verk í fætinum. En hvernig gat það verið ef tilfinningar tilheyra í raun og veru huganum? Einhvern veginn, hélt hann fram, hlýtur hugurinn að vera ‘samslunginn’ öllum líkamanum, þar með talinn fóturinn, svo að verkurinn mundi vera (eins og hann orðaði það) „í huganum eins og hann væri í fætinum“. En hvernig eigum við að skilja þetta orð ‘samslunginn’? Hugurinn er, samkvæmt Descartes, ekki-efnislegur, ekki-rúmlegur veruleiki. Hvernig getur slíkur hlutur verið samslunginn líkamanum sem (eins og Descartes lagði líka áherslu á) er í eðli sínu hlutur sem hefur rúmtak?

Hvað er meðvitund? Descartes um svampa og ostrur

Ég sný mér nú að seinni skýringu minni á dularblænum sem gjarnan umlykur meðvitundarhugtakið. Við viljum kannski spyrja: Hvað er meðvitund? Það hlýtur að vera eitthvað – einhver hlutur, einhver veruleiki – sem við getum bent á sem svar. Meðvitundin hefur verið talin vera einskonar ‘innri’ veruleiki sem er hulinn sjónum okkar, og að hafa hana til að bera skiptir sköpum um muninn á mannveru og ‘uppvakningi’ (zombie). Leiðandi þátttakandi í umræðunni um meðvitundina biður okkur að ímynda okkur að „það gætu verið til ‘uppvakningar’ sem væru alveg eins úr garði gerðir og við og hefðu nákvæmlega sömu hegðunarmynstrin en væru gersneyddir meðvitund“. (John Searle, ‘Ritdómur um Hinn meðvitaða hug eftir David Chalmers’, í New York Review of Books, 6.3.97, s. 44).

En hvernig eigum við að skilja þetta? Setjum svo að við spyrjum slíka veru: „Hefurðu í raun og veru meðvitund?“ Sennilega mundi hún, þar sem hún „hefur sömu hegðunarmynstrin“ og við, láta í ljós sömu undrunina og við mundum láta í ljós þegar við værum spurð þessarar spurningar. Eða segjum að hún leysti frá skjóðunni: „Þið hafið flett ofan af mér; ég hef í raun og veru enga meðvitund“. Væri vit í þessu? Hér er önnur athugasemd frá Wittgenstein við hæfi: „Maður getur þóst vera meðvitundarlaus, en verið með meðvitund“? (Seðill, grein 394).

Sú hugmynd að meðvitundin sé hlutur sem kunni að vera til staðar í einum einstaklingi en vanti í annan, jafnvel þótt þeir séu á sama hátt „úr garði gerðir“ og „hafi nákvæmlega sömu hegðunarmynstrin“, mun sennilega kalla fram leyndardómsfulla tilfinningu. Sama á við um þá skoðun Descartes að hugurinn eða sálin (hann lagði þau að jöfnu) sé einhvers konar óefnislegur hlutur sem sé staðsettur, einhvern veginn, í líkama okkar. Hvernig, mætti spyrja samkvæmt þessari skoðun, getum við verið viss um að slíkur hlutur búi ekki í borðum og stólum, stokkum og steinum? Þess háttar spurningar ollu Descartes heilabrotum. Hvernig, velti hann fyrir sér, getum við vitað hvort dýr hafi sál? Í bréfi til markgreifans af Newcastle, frá árinu 1646, skrifaði hann:

Það mesta sem maður getur sagt er að enda þótt dýrin aðhafist ekkert sem sýni að þau hugsi má samt geta sér þess til, fyrst líffæri þeirra eru ekki mjög ólík líffærum okkar, að einhverjar hugsanir tengist þessum líffærum [. . . ]. (Heimspekileg bréf, s. 208).

Samkvæmt Descartes er hugsun, sem hann lagði að jöfnu við meðvitund, í eðli sínu eiginleiki hugans, en þar sem hugurinn var aðgreindur frá líkamanum gat hann verið til aðskilinn frá líkamanum og verið ódauðlegur. (Með frekari rökum reyndi hann að sanna að hugurinn sé í raun og veru ódauðlegur.) En væri þetta einnig satt um dýr? Og ef það væri satt um sum hversvegna ekki um önnur? Eftir að hafa velt því fyrir sér (eins og við höfum séð) að „einhverjar hugsanir tengist þessum líffærum [dýra]“, hélt hann áfram: „Við því hef ég ekkert svar nema það að ef þau hugsuðu eins og við þá hefðu þau ódauðlega sál eins og við“. En þetta er, taldi hann „ólíklegt vegna þess að engin ástæða er til að trúa því um sum dýr án þess að trúa því um öll, og mörg þeirra eins og til dæmis ostrur og svampar eru of ófullkomin til að þetta sé trúlegt“.

Hér erum við aftur á vettvangi spurninga sem ekki verða metnar nákvæmlega og vel getur verið að leyndardómsfull tilfinning hellist yfir okkur. En sé athugasemd Wittgensteins um „lifandi mannveru og það sem líkist (hegðar sér líkt og) lifandi mannveru“ rétt þá er leyndardómurinn óekta. Slíkum verum getum við eignað hugsanir og tilfinningar og gerum það – við getum vissulega ekki komist hjá að gera það þegar svo ber undir. En þetta byggist ekki á vangaveltum um einhvern ‘innri’, óskynjanlegan veruleika. (Takið eftir að orð Wittgensteins „það sem líkist lifandi mannveru“ tekur einnig til spurningarinnar um dýr. Að hvaða marki við getum eignað – og þurfum að eigna – dýrum hugsanir og tilfinningar ræðst af því að hvaða marki, og með hvaða hætti, hegðun þeirra líkist hegðun okkar.)

Spilaborgir?

Grein þessi kann að hafa brugðist væntingum ykkar. Þið hafið kannski vænst þess að ég gerði nákvæma grein fyrir vandamálinu og gerði jafnvel eitthvað til að leysa það; en ég hef ekki einusinni getað gert hið fyrrnefnda hvað þá hið síðarnefnda. Það besta sem ég gat gert var að reyna að útskýra hversvegna menn álíta að um vandamál sé að ræða. Þessi meðferð málsins mun ekki falla öllum vel í geð en hún kann að vera rétta leiðin til að fjalla um málið þrátt fyrir það. Hugsanir mínar um þetta efni, eins og um mörg önnur, hafa orðið fyrir áhrifum frá Wittgenstein, og ég ætla að enda með annarri tilvitnun úr bók hans Rannsóknir í heimspeki:

Hvaðan fær rannsókn mín mikilvægi sitt þar sem hún virðist aðeins eyðileggja allt sem er áhugavert, það er að segja allt sem er mikið og mikilvægt? (Ef svo má segja allar byggingarnar og skilur eftir rústir einar.) En það sem ég er að eyðileggja er ekkert nema spilaborgir og ég er að hreinsa til í málgrunninum sem þær stóðu á. (Rannsóknir í heimspeki, 1. hluti, grein 118).

Gunnar Ragnarsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Grein þessi birtist í heimspekitímaritinu Think (3. tölubl., vorhefti 2003) sem The Royal Institute of Philosophy gefur út. Höfundurinn, Oswald Hanfling (f. 1927, d. 2005), var prófessor í heimspeki við Opna háskólann í Bretlandi og einn af stofnendum heimspekideildar skólans. Bækur eftir hann eru m. a. Wittgenstein’s Later Philosophy (1989), The Quest for Meaning (1987) og Logical Positivism (1981).

 

Heimildir

John Searle, The Rediscovery of the Mind (Cambridge, Mass.: MIT, 1992)

D. J. Chalmers, The Conscious Mind (Oxford: OUP, 1996)

D.C. Dennett, Consciousness Explained (London: Penguin, 1991)

Descartes, Hugleiðingar (Meditations)

Descartes, Heimspekileg bréf (Philosophical Letters), útg. A. Kenny (Oxford: Blackwell, 1981)

O. Hanfling, ‘Consciousness: The Last Mystery’, í S. Schroeder, Wittgenstein and Contemporary Philosophy of Mind (London: Palgrave, 2001)

L. Wittgenstein, Rannsóknir í heimspeki og Seðill (Philosophical Investigations and Zettel).

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *