Siðfræði og bylting

eftir Herbert Marcuse

Siðfræði og bylting1

[I.]

Ætlunin er að fjalla hér um sambandið milli siðfræði og byltingar og leita svars við eftirfarandi spurningu: Er hægt að réttlæta byltingu sem æskilega, góða eða jafnvel nauðsynlega, og þá ekki eingöngu í pólitískum skilningi (ákveðnum hagsmunahóp til góða), heldur einnig í siðfræðilegum skilningi, þ. e. a. s. réttlæta hana með tilliti til manneskjunnar sjálfrar í vissum sögulegum kringumstæðum? Siðfræðileg hugtök einsog “réttmætur” eða “góður” eru hér notuð um pólitískar og þjóðfélagslegar hreyfingar, og ber að hafa í huga, að það siðferðilega mat, sem lagt er á slíkar hreyfingar er enganveginn háð neinum huglægum lögmálum, heldur hefur það mun víðtækari merkingu. Þannig eru þeir hlutir nefndir “réttmætir” eða “góðir”, sem stuðla að því að koma á fót, treysta ellegar auka a frelsi og hamingju manna í ákveðnu samfélagi, hvert sem stjórnarfyrirkomulag þess er. Þessi skilgreining felur í sér velferð einstaklingsins og heildarinnar í senn. Með slíkri skilgreiningu er gerð tilraun til að draga á ný framí dagsljósið eina af grundvallarhugmyndum hinnar sígildu pólitísku heimspeki, sem alltof sjaldan hefur verið haldið á loft, nefnilega þeirri, að ríkisstjórn á að hafa að leiðarljósi ekki það eitt að veita þegnum sínum allt það frelsi, sem mögulegt er, heldur og að þeir njóti svo mikillar hamingju sem þeim er frekast unnt, að þeir megi lifa án ótta og eymdar, að þeir megi lifa í friði.

Hér skýtur upp kollinum fyrsta knýjandi spurningin: hver segir til um sameiginlega hagsmuni ákveðins samfélags og þarmeð þau takmörk, sem setja skuli frelsi og hamingju einstaklingsins ásamt því hverju skuli fórnað af frelsi og hamingju einstaklingsins í nafni samfélagsins og því til góða? Hver getur ákvarðað slíkt og með hvaða rétti? Því svo lengi sem velferð einstaklingsins brýtur í bága við velferð heildarinnar, er slíkum aðferðum beitt til að koma á jafnvægi. Og í nánum tengslum við þessa spurningu, rekumst við á annað ekki síður margþætt og þýðingarmikið vandamál: Gerum nú ráð fyrir, að frelsi sé ekki eingöngu einstaklingsbundið fyrirbæri, heldur eitthvað sem fyrst og fremst ákvarðast af þeirri þjóðfélagsskipan, því ríkisvaldi, sem við búum við, hvað þá um hamingjuna? Er hamingja einstaklingsins eitthvað sem eingöngu er undir honum sjálfum komið, eða er þessi hamingja einnig að verulegu leyti háð þeim takmörkunum, þeim ákvörðunum sem samfélagið gerir honum að beygja sig undir? Um leið og við förum að athuga málið, er okkur ljóst, að engum verður stætt á þeirri fullyrðingu, að hamingja mannsins sé og hljóti jafnan að verða algjört einkamál hvers einstaklings fyrir sig. Enginn vafi er á því, að til eru vissar hliðar á hamingju einstaklingsins, sem engin samfélög sjá sér fært að umbera. Það er vel mögulegt – og vitum við það reyndar með nokkurri vissu – að margir þeirra sem stjórnuðu pyntingum í fangabúðum Hitlers, fundu “hamingju” í því að fást við þessa iðju. Þetta er eitt af mörgu tilfellum, sem við getum dregið af þá ályktun að einstaklingurinn einn sér er ekki fær um að dæma um hamingjuna. – Við höfðum til dómstóls, sem hefur heimild til að “skilgreina” hamingju einstaklingsins (raunverulega eða í siðferðilegum skilningi).

Að loknum þessum hugleiðingum vildi ég mega víkja að því, hvern skilning ég legg í orðið bylting. Með byltingu á ég við afsetningu lögmætrar ríkisstjórnar, og valdatöku þjóðfélagshóps eða hreyfingar, sem hefur það takmark að koma fram breytingum á þjóðfélagslegri og stjórnarfarslegri skipan allri. Þessi skilgreining tekur ekki til valdatöku herforingjaklíkna, hallarbyltinga eða gagnbyltinga “í varnarskyni” (svo sem fasismans og nasismans), þareð þær hafa ekki í för með sér grundvallarbreytingar á þjóðfélagsskipaninni. Eftir að hafa skilgreint byltingu á þennan hátt getum við haldið áfram og sagt, að slíkri róttækri umturnun á undirstöðum þjóðfélagsins fylgi valdbeiting. Friðsamlegar byltingar, sé yfir höfuð eitthvað slíkt til eða geti orðið, hafa engin slík vandamál í för með sér. Þarafleiðandi getum við nú orðað spurninguna í upphafi á nýjan leik og spurt svo: Er hægt að réttlæta byltingarsinnaða valdbeitingu sem tæki til að innleiða eða rýmka um mannlegt frelsi og mannlega hamingju? Þessi spurning gerir ráð fyrir einu mjög þýðingarmiklu atriði, eða því, að hægt sé að finna raunhæfan mælikvarða sem nota megi til að ákvarða þá möguleika mannlegs frelsis og mannlegrar hamingju, sem ákveðið þjóðfélag gefur færi á, í vissum sögulegum kringumstæðum. Ef ekki væri kostur á slíkri viðmiðun, væri útilokað með öllu að meta ákveðna pólitíska hreyfingu eftir þeim möguleikum, sem hún hefði til að auka á eða rýmka um frelsi og hamingju í þjóðfélaginu.

Sé hins vegar gert ráð fyrir því, að hægt sé að finna raunhæfa viðmiðun og mælikvarða sem nota megi til að dæma þá möguleika mannlegs frelsis og mannlegrar hamingju sem eru fyrir hendi, þá er gert ráð fyrir því, að hinn siðfræði- og siðferðislegi mælikvarði sé sögulegur mælikvarði. Annarskonar viðmiðun hlyti að verða merkingarlaus. Til að finna svar við fyrrgreindri spurningu getum við út frá þessu sagt, að byltingarsinnuð hreyfing verður að geta leitt haldgóð rök að því, að henni sé unnt að láta raunverulegt mannlegt frelsi og mannlega hamingju af sér leiða, til að hægt sé að réttlæta hana. Eins verður hún að geta sýnt fram á, að þær aðferðir sem hún beitir miðist eingöngu við þetta endanlega takmark.

Einungis með því að setja þetta vandamál í slíkt sögulegt samhengi, er hægt að fjalla um það á raunhæfan hátt. Að öðrum kosti væri aðeins um tvennt að velja, annaðhvort að vísa öllum byltingum og byltingarsinnuðu valdi fyrir fram á bug, ellegar leggja á það blessun sína. Hvor afstaðan, sem tekin er, þá hlýtur hún að stangast á við sögulegar staðreyndir, það er tildæmis fáránlegt að halda því fram, að nútímaþjóðfélag hefði getað orðið til, í þessari mynd, þótt ameríska, enska og franska byltingin hefðu aldrei átt sér stað. Eins er jafn fáránlegt að halda því fram, að allt byltingarsinnað vald hafi haft samskonar áhrif og sömu afleiðingar. Það vald sem beitt var í borgarastyrjöldunum í Englandi á sautjándu öld, það vald sem beitt var í fyrstu frönsku byltingunni, hafði án efa allt önnur áhrif og aðrar afleiðingar, helduren til dæmis það, sem beitt var í byltingu bolsévíka, ellegar það gagnbyltingasinnaða vald, sem beitt var af nasískum og fasískum ríkisstjórnum. Auk þess myndi slík afstaða, sem sú að vísa alveg á bug ellegar leggja blessun sína á hverskyns þjóðfélagslega og stjórnarfarslega valdbeitingu leiða til þess, að sérhver sú umbreyting sem þannig hefði orðið, væri tekin góð og gild, án tillits til þess hvort hún hefði í för með sér framför eða afturför, frelsi eða þrældóm.

[II.]

Til að ná betri tökum á viðfangsefninu mætti sem snöggvast beina sjónum að rás sögunnar. Í hinni fornu pólitísku heimspeki var ekki litið á byltingar sem neitt rof á sögulegri framrás. Platon og Aristóteles litu svo á, að byltingar væru liður í aflfræði stjórnmálanna, að þær tilheyrðu hinni sögulegu og jafnframt náttúrulegu hringrás fæðingar, viðgangs og hnignunar stjórnarforma. Í heimspeki miðalda og byrjun nútíma gerði hugmyndin um, að allt væri undir guðlegri yfirstjórn, það að verkum, að annaðhvort var lagt blátt bann við hverskyns andstöðu við ríkjandi valdhafa, ellegar andstaða gegn harðstjórn ekki einungis talin réttlætanleg, heldur og gerð að siðferðilegri skyldu. Á sextándu og sautjándu öld kröfðust kaþólskir menn óskoraðs réttar til að veita mótstöðu og jafnvel steypa af stóli ríkisstjórnum mótmælenda, og mótmælendur kröfðust þess hins sama gagnvart kaþólikkum. Mjög svo dæmigerða andstöðu við slíkar kenningar er að finna í afstöðu svo ólíkra manna sem Hobbes og Descartes til byltingarinnar. Látið samfélagslegar og stjórnmálalegar valdastofnanir vera einsog þær eru; því hversu slæmar sem þær annars kunna að vera, þá er áhættan sem því fylgir að steypa þeim úr sessi, of mikil. Descartes, þessi mikli byltingarmaður hugsunarinnar, var ákaflega íhaldsamur í því sem laut að hinum “stóru opinberu stofnunum”. Um þær skal ekki efast, við þeim skal ekki hreyft. Á sama tíma gera heimspekingarnir sig bera að því að lýsa velþóknun sinni á byltingu, sem þegar hefur náð fram að ganga. Fulltrúi þessarar afstöðu er Kant, sem hafnaði því, að þegnarnir hefðu rétt til að sýna mótþróa, og fordæmdi uppreisn gegn ríkjandi stjórnvöldum. Hann bætti því hinsvegar við, að færi svo, að bylting yrði sigursæl og ný ríkisstjórn settist að völdum, þá væri þegnunum skylt að sýna nýju byltingarstjórninni jafnafdráttarlausa hlýðni og þeirri sem steypt var af stóli.

Á hinn bóginn er í stjórnmálum, bæði í orði og reynd, gert ráð fyrir ákveðnum sögulegum kringumstæðum, þegar valdbeiting reynist nauðsynleg og afgerandi driffjöður framfaranna. Þetta hugtak skipar sinn sess í stjórnmálalegum kenningum og aðgerðum í þágu skýlauss lýðræðis. Robespierre boðar harðræði frelsisins gegn harðræði kúgunarinnar: þegar barizt er fyrir frelsi, þegar verja þarf hag heildarinnar fyrir sérhagsmunum kúgaranna, þá getur verið nauðsynlegt og skylt að beita harðræði. Ofbeldi, byltingarsinnað ofbeldi, er hér ekki liður í stjórnmálalegri baráttu, heldur siðferðileg skylda. Harðræði er skigreint sem and-ofbeldi: það er aðeins “leyfilegt” í þeim tilgangi einum að verjast kúgurunum og skal ekki beitt lengur en þar til þeir hafa verið sigraðir. Líku máli gegnir um hið marxíska hugtak um alræði öreiganna, sem einungis stendur um stundarsakir og hverfur af sjálfu sér: hverfur sjálft úr sögunni, vegna þess að því er aðeins ætlað að ríkja meðan vald hinna gömlu, ráðandi stétta stendur byggingu jafnréttisþjóðfélagsins enn fyrir þrifum; efir að þessar stéttir hafa verið kveðnar í kútinn, á hverskyns undirokun að hverfa úr sögunni. Hér er byltingarsinnað ofbeldi sömuleiðis skilgreint sem and-ofbeldi. Kenning marxismans gerir ráð fyrir því, að hinar gömlu ríkjandi stéttir muni aldrei afsala sér völdum sjálfsviljugar, þvertámóti muni þær verða fyrstar til að beita ofbeldi gegn byltingunni og að byltingarsinnað ofbeldi sé svar við gagnbyltingarsinnuðu ofbeldi.

Kenningin um tímabundið alræði í einskonar uppeldislegum tilgangi, felur i sér þá þversagnarkenndu hugmynd, að “nauðsynlegt sé að þvinga manninn til að neyta frelsis síns”. Hin stjórnmálalega heimspeki hefur alla tíð viðurkennt siðferðilegt gildi nauðungarinnar (nauðungarvald laganna, sem æðsti valdaaðilinn er annaðhvort undirgefinn ellegar hefur í hendi sér), en Rousseau réttlætir þetta á róttækan og nýstárlegan hátt. Nauðungin er óumflýjanleg vegna siðleysis og kúgunar þeirra aðstæðna sem maðurinn býr við. Meginhugsunin er: Hvernig geta þrælar, sem vita ekki einusinni, að þeir eru þrælar, varpað af sér hlekkjunum af sjálfsdáðum? Það verður að veita þeim leiðsögn og handleiðslu tilað þeir geti orðið frjálsir og þeim mun frekar sem þjóðfélagið, er þeir lifa í, beitir öllum tiltækum ráðum í þá veru að hafa mótandi áhrif á vitund þeirra og gera þá ónæma fyrir hugsanlegum valmöguleikum. Þessi hugmynd um bráðabirgða-alræði í uppeldislegum tilgangi, er nú í dag orðin órjúfanlegur þáttur byltingarinnar og liður í réttlætingu byltingarsinnaðrar valdbeitingar.

[III.]

Meginröksemdin gegn tímabundnu alræði býr venjulega um sig í spurningunni: Hver annast uppeldi uppalendanna sjálfra? Hvernig geta þeir, sem í dag fara með alræðisvald, leyft sér að tala um frelsi og ánægju líkt og einhver fyrirbrigði almenns eðlis? Þessi röksemd er ekki fullnægjandi sem slík, af því hún lætur ennfremur á sér kræla í þjóðfélögum, sem ekki byggjast á valdbeitingu, þar sem ekki er haft stöðugt eftirlit neðanfrá með yfirstéttinni, sem hefur stjórnartaumana í sínum höndum. En jafnvel þótt við játum, að meirihluti fólksins sé enn þann dag í dag ekki frjáls og að frelsun þess leiði ekki af sjálfu sér, þá er þeirri spurningu enn ósvarað, hvort alræðið megni að ná því takmarki, sem að er stefnt, þ. e. a. s. frelsuninni. Með öðrum orðum: vandamál tímabundins alræðis verða ekki skilin frá þeim almenna vanda, hvort hægt sé að réttlæta frá siðferðilegu sjónarmiði valdbeitingu og kúgun í byltingu. Ég mun nú víkja litillega að þessum vanda.

Þær byltingar, sem við þekkjum úr sögunni, voru venjulega gerðar í nafni frelsisins, eða öllu heldur í nafni aukins frelsis til handa stærri hlutum þjóðarinnar. Við verðum, áðuren lengra er haldið, að kanna þessa staðhæfingu útfrá skýrum sjónarmiðum reynslunnar. Mannlegt frelsi er ekki og hefur aldrei verið stöðugt ástand, heldur jafnan undirorpið sögulegum aðstæðum sem fela í sér róttæka umbreytingu, afneitun hefðbundinna lífshátta. Sú mynd sem frelsið tekur á sig sem og inntak þess, hvorttveggja breytist með hverjum nýjum áfanga á braut siðmenningarinnar, sem einkennist af síauknum yfirráðum mannsins yfir sjálfum sér og náttúrunni. Í báðum tilvikum merkir yfirráð drottnun, taumhald; síaukið tangarhald á náttúrunni leiðir af sér aukið tangarhald á manninum, það liggur í augum uppi, að möguleikar mannsins til að lifa frjálsu og ánægjuríku lífi í hinu framsækna iðnaðarþjóðfélagi, eru enganveginn sambærilegir við þá, sem fyrir hendi voru á fyrri söguskeiðum. Þannig er hér með tilliti til forms, magns, stigs og inntaks mannlegs frelsis, um að ræða söguleg og síbreytileg skilyrði. Við getum jafnvel gengið lengra. Miðað við raunverulega möguleika frelsisins, búum við ávallt við þónokkurt ófrelsi. Bilið stóra milli þess, sem er mögulegt, og hins sem er, milli þess, sem er skynsamlegt og raunverulegt, hefur aldrei verið brúað.

Á undan frelsi hlýtur jafnan að koma frelsun, eða færsla frá því stigi frelsis og ófrelsis, sem ríkjandi er, á það stig, sem unnt er að ná. En úr því frelsi táknar jafnan lausn frá ófrelsi og kúgun, þá þýðir það, að þessi lausn hlýtur að vera í andstöðu við ákveðna hagsmuni hinnar ríkjandi skipanar, og grefur á endanum undan ríkjandi skipan. Sagan geymir engin dæmi þess, að hin ríkjandi skipan hafi fórnað hagsmunum sínum sjálfviljug. Ef og að svo miklu leyti sem frelsi táknar frelsun, hvarf frá takmörkuðu til aukins frelsis, þá hlýtur það jafnan að stangast á við hagsmuni löglegrar og ríkjandi skipanar. Og einmitt þessvegna hefur byltingarsinnað ofbeldi verið réttlætt sem gagnofbeldi, þ. .e. a. s. sem nauðsynlegt ofbeldi til að verja frelsisaukninguna fyrir ásókn þeirrar skipanar sem fyrir er.

Siðfræði byltingarinnar felur þannig í sér átök tvennskonar sögulegs réttar. Annarsvegar, réttur þess er er, hins ríkjandi skipulags, en undir því er líf og jafnvel einnig hamingja einstaklinganna komið. Hinsvegar er um að ræða rétt þess semgæti orðið og ætti etv. að verða, þar eð með því væri unnt að draga úr þjáningu, þrældómi og ranglæti. Þá verður jafnan að gera ráð fyrir því að hægt sé að sýna framá þennan valkost sem raunhæfan möguleika. Þar verður að koma til skynsamleg viðmiðun. Í framhaldi af þessu getum við bætt því við, að slík viðmiðun verður að vera mælikvarði sögunnar. Hér er því um að ræða einskonar “sögulegan útreikning”. Möguleikar þjóðfélags framtíðarinnar yrðu reiknaðir út og bornir saman við möguleika núverandi þjóðfélags, þá með tilliti til mannlegra framfara þ. e. a. s. tæknilegra og efnahagslegra framfara sem nýttar eru í þágu aukins frelsis og meiri hamingju einstaklinganna. Ef slíkur sögulegur útreikningur á að hafa einhvern skynsamlegan bakhjarl, þá verður, í einn stað, að taka með í reikninginn þær fórnir sem ríkjandi skipulag, lög þess og reglur, krefjast af kynslóðunum, þann fjölda sem fórnað er vegna öryggis ríkisins í stríði og friði, í baráttunni fyrir tilveru einstaklings og þjóðar. Útreikningurinn verður ennfremur að taka til þeirra andlegu og efnislegu verðmæta sem eru fyrir hendi. Sömuleiðis verður að taka með af því á hvern hátt þessi verðmæti eru nýtt í dag með tilliti til fullnægingar mannlegra þarfa og auðveldunar í lífsbaráttunni. Í annan stað yrði þessi sögulegi útreikningur að ná til þeirra möguleika sem byltingarsinnuð hreyfing hefði til að umskapa til hins betra [við (innskot ritstjóra)] ríkjandi aðstæður. Eða m. ö. o. hvort hinn tæknilegi, efnilegi og andlegi styrkur þess takmarks, sem hin byltingarsinnaða hreyfing setur sér, sé slíkur, að byltingin megni raunverulega að draga úr hinum mikla fjölda fórnarlamba.

Ég álít að vísu, að unnt sé að gera slíkan útreikning en hitt er augljóst hversu lítið fer þar fyrir því mannlega. En þannig er það með söguna sjálfa, þegar horft er til hinnar empírisku undirstöðu hennar, þá vill hlutur hins mannlega verða lítill. Þessi harðneskjulegi útreikningur er ekki innantóm hugarsmíð. Satt að segja varð sagan á úrslitastundu slíkt reikningsdæmi.

[IV.]

Siðfræði byltingarinnar, ef hægt er að tala um slíkt, verður ekki mæld á neinn algildan mælikvarða heldur þann mælikvarða sem sagan setur hverju sinni. Þrátt fyrir þennan breytilega mælikvarða sögunnar halda samt viss almenn siðaboð gildi sínu, þar sem fram kemur krafan um það, að maðurinn haldi áfram sókn í átt til mennskari lífshátta. Það skiptir engu máli, hversu rækilega aðferðir byltingarinnar eru réttlættar og hversu sterk rök eru færð fyrir möguleikum hennar til að færa komandi kynslóðum frelsi og hamingju, sem og rétti hennar til að skerða núverandi réttindi og frelsisform og ganga jafnvel nærri lífinu sjálfu. Til eru tegundir valdbeitingar og kúgunar sem engar byltingaraðstæður geta réttlætt, því þær ganga í berhögg við það takmark, sem byltingunni eru sett. Af þessu tagi er valdbeiting, sem beitt er í stundaræði eða grimmd og vægðarlausar ógnanir. Samt sem áður hefur það gerzt í sögunnar rás að byltingar hafa sett sér sín eigin siðalögmál, sem síðan hafa fætt af sér ný almenn siðaboð og gildi. Í raun og veru hafa flest þau almennu gildi, sem við þekkjum nú, átt uppruna sinn í byltingum, t. d. gildi umburðarlyndisins í ensku borgarastríðunum og hin skilyrðislausu mannréttindi í frönsku og bandarísku byltingunum. Þessar hugmyndir urðu sögulegt afl, í byrjun tengdar ákveðnum flokki, sem tæki byltingarsinnaðrar hreyfingar til að ná pólitískum markmiðum sínum. Upphaflega voru þessar hugmyndir gerðar að veruleika með valdbeitingu; síðar urðu þær sjálfar andsnúnar valdbeitingu og öðluðust almennt siðfræðilegt gildi. Þannig má segja, að byltingin sníði sjálfri sér stakk í siðfræðilegum efnum.

Forvígismenn þeirra byltinga, sem sagan greinir frá, hafa aldrei gert valdbeitingu sem slíka að byltingarsinnuðu gildi. Samtímamenn Georgs Sorels vísuðu með öllu á bug tilraunum hans til að gera valdbeitinguna óháða skynsamlegri yfirvegun og útiloka þarmeð hverskyns siðfræðilegar vangaveltur frá stéttabaráttunni. Hann líkti þeirri valdbeitingu, sem gripið yrði til í stéttabaráttunni, þegar til byltingar kæmi, við þá tegund valdbeitingar, sem tíðkast í hernaði. Mat hans var þannig eingöngu herfræðilegs eðlis: Takmarkið var alger ósigur óvinarins; valdbeitingin ekkert annað en leið til að ná því marki. Sambandið milli þess markmiðs, sem stefnt var að, og þeirra leiða, sem farnar voru, var því eingöngu tæknilegs eðlis. Sú vörn, sem Sorel hélt uppi fyrir valdbeitingu, fékk aldrei neinn hljómgrunn meðal byltingarsinnaðra samtímamanna hans. Ef hægt er að tala um, að þessar hugmyndir samtímamanna hans. Ef hægt er að tala um, að þessar hugmyndir hafi haft einhver áhrif, þá er þau áhrif eingöngu að finna á sviði gagnbyltingar. Á hinn bóginn hafa menn varið valdbeitingu, – ekki sem slíka, heldur sem skynsamlega nauðungarráðstöfun í því skyni að brjóta á bak aftur gagnbyltingarsinnaðar aðgerðir, afnema hefðbundin réttindi og forréttindi. Ennfremur hafa menn fallizt á valdbeitingu sem tæki til að bæla niður ákveðnar efnislegar og andlegar þarfir með því að grípa til sparnaðar- og skömmtunarráðstafana og koma á fót ritskoðun.

Þessar nauðungarráðstafanir, sem fela í sér valdbeitingu, eru gerðar í þágu þess markmiðs, sem byltingin stefnir að. Þetta markmið er ekki eingöngu stjórnmálalegs eðlis, heldur hefur það einnig visst siðfræðilegt gildi. Inntak þess er: aukið frelsi handa fleirum. Þannig fær markmið byltingarinnar almennt gildi sem slíkt og verður þarmeð óháð hverskyns utanaðkomandi siðferðilegu mati.

Hér stöndum við frammi fyrir meginvanda allrar siðfræði, spurningunni um réttmæti siðferðilegra gilda. Eða með öðrum orðum: Hver eða hvað skal ákvarða gildi siðaboða? Þessi spurning verður reyndar ekki ágeng fyrren veraldarhyggjan tekur að færast í aukana á vesturlöndum. Á miðöldum hafði þessi spurning engan vanda í för með sér. Í þann tíð naut siðfræðin óforgengilegs heilagleika guðdómsins sjálfs. Útrýming hinna vantrúuðu var “réttlætanleg”. “Réttlætanlegt” var að brenna trúvillinga á báli. Þannig leit réttlætið út samkvæmt þeim gildum, sem viðurkennd voru, en þau gildi voru afrakstur hinnar trúarlegu siðfræði. En hvað er það, sem segir til um réttmæti siðfræðilegra gilda nú (hér er ekki átt við það, hverjir þvingi fólk til að beygja sig undir slík gildi, heldur hitt, hvernig það gerist, að menn fallast á réttmæti þeirra), hvar er að finna sönnun þess, að slík gildi séu réttmæt? Réttmæti þessara gilda virðast á okkar tímum byggjast að mestu á vafasömu og breytilegu samblandi af venjum, ótta, nytsemi og trú; breytilegu fyrir þá sök, að innan þessarar heildar getur att sér stað margskonar röskun. Ég nefni sem dæmi það frjálsræði, sem gætt hefur í auknum mæli undangengin 30 ár í því, sem varðar siðferðilegar hliðar kynlífsins. Ennfremur mætti nefna það umboð, sem veitt er í svokölluðum neyðartilfellum, til þess að virða að vettugi nær öll siðfræðileg gildi. Þannig eru skilaboðin eingöngu viðurkennd réttmæt og gildandi meðan jafnvægi ríkir í félagslegum og stjórnmálalegum efnum.

[V.]

Ef nú tekið er mið af hinu hversdagslega jafnvægisástandi hlýtur bylting að teljast siðlaust athæfi; hún ógnar þeirri samfélagsskipan, sem fyrir er. Hún gefur færi á og ýtir jafnvel undir fláræði, kænsku, kúgun, eyðileggingu lífs og eigna o. s. frv. En dómur, þar sem þessi skilningur er lagður til grundvallar, er ekki réttur. Þar eð siðfræðileg boð eru í eðli sínu fyrirmæli um breytni, eru þau hafin yfir tímabundnar aðstæður. Þó sveima þau ekki í neinu frumspekilegu tómarúmi; þvertámóti eiga þau sér rætur í þeim jarðvegi sögunnar, sem sérhvert ríkjandi ástand er sprottið úr, þar sem sérhver breyting á ríkjandi ástandi á upptök sín. Og með skírskotun til þessa sögulega jarðvegs, sem afmarkar stöðu og framvindu byltingarinnar, er sýnt, að siðfræði byltingarinnar hlýtur að styðjast við sögulegan útreikning. Gefur sú samfélagsskipan, sem byltingunni er ætlað að koma á fót, betra færi á framförum í frelsisátt en sú, sem fyrir er? Það er ljóst, þegar sjónum er beint að sögunnar rás, að útreikning skuli byggjast á innantómum vangaveltum, heldur skal hann hafinn yfir ríkjandi aðstæður í þeim skilningi, sem völ er á, og bendi á skynsamlegustu leiðirnar tilað nýta þessa möguleika. Reynist slíkur útreikningur mögulegur, þá getur hann orðið til þess, að unnt verður að leggja hlutlægt mat á byltingar og söguleg áhrif þeirra; þ. e. hvort þær muni valda framför eða afturför, hvort þær séu þess umkomnar að leiða mennina fram til mennskari lífshátta.

Með því að virða fyrir sér feril sjálfrar sögunnar er auðvelt að komast að bráðabirgðaniðurstöðu. Í sögulegum skilningi beindust hlutlæg áhrif meiriháttar byltinga nútímans í þá átt að rýmka um frelsi og fullnægingu þarfa. Enda þótt enska og franska byltingin hafi verið túlkaðar á mismunandi vegu, munu þó allir skýrendur á eitt sáttir um það, að ný skipting þjóðfélagslegra auðæfa hafi fylgt í kjölfarið. Þessi nýja skipting hafi orðið til þess að bæta hag hinna vanmáttugu og undirokuðu þjóðfélagshópa í efnahagslegu og/eða stjórnmálalegu tilliti. Þrátt fyrir það, að á eftir fóru tímabil afturhalds og nýrra forréttindahópa, voru þó afleiðingarnar og “hlutlægur árangur” þessara byltinga slík, að til valda komust frjálslyndari ríkisstjórnir, þjóðfélagslegt lýðræði færðist smámsaman í vöxt og framfarir urðu á tæknilegum sviðum. Ég sagði “hlutlægur árangur” vegna þess, að þetta mat á byltingunni er að sjálfsögðu dómur seinni tíma manna. Það má hinsvegar vel vera, að hugmyndir og fyrirætlanir byltingarleiðtoganna og fjöldans hafi verið allt aðrar fyrir tilverknað þessa “hlutlæga árangurs”, leiddur þessar byltingar til framfara í áðurnefndum skilningi; afleiðing þeirra var sýnileg rýmkun mannlegs frelsis. Þrátt fyrir geigvænlegar fórnir, fæddu þær því af sér vissan siðferðilegan rétt, alssendis óháðan hverskyns stjórnmálalegri réttlætingu. En sé því hinsvegar þannig farið, að ekki sé unnt að benda á slíka siðfræðilega réttlætingu og færa að henni rök fyrr en eftir á, þá kemur hún okkur að litlu gagni. Þarmeð yrðum við neydd til að velja á milli tveggja jafnóskynsamlegra valkosta. Annarsvegar að vera fyrirfram meðmælt öllum byltingum og hinsvegar að vera fyrirfram mótfallin þeim öllum. Nú vil ég taka það fram, að þótt ekki sé hægt að sýna frammá sögulegt stefnumið byltingar fyrr en eftirá, er þó unnt að segja fyrir um söguleg skilyrði framfara. Til dæmis var hægt að sýna frammá, og var reyndar gert löngu fyrr, að ríkisstjórnir nazista og fasista myndu óumflýjanlega stuðla að hinu gagnstæða, eða því, að hlutur mannlegs frelsis yrði skertur. Meira að segja, og ég held að þetta sé mjög þýðingarmikið atriði, verður sífellt unnt að reisa slíkar forspár um möguleika sögunnar á skynsamlegri líkum, þareð það verður stöðugt auðveldara verk að henda reiður á vísindalegum, tæknilegum og efnislegum auðlindum okkar, auk þess sem taumhald vísindanna á manninum og náttúrunni styrkist jafnt og þétt. Maðurinn fær sífellt betri aðstöðu til að ákveða sjálfur möguleika og inntak frelsisins: slíkt verður með hverjum deginum auðveldara að reikna út. Og samfara þessari bættu aðstöðu til útreikninga og drottnunar, er sífellt unnt að gera skýrari greinarmun á mismunandi tegundum, bæði valdbeitingar og fórna. Því frá upphafi hefur hamingju og frelsi og jafnvel lífi einstaklinga verið fórnað í sögunni. Ef við lítum svo á, að mannslífið sem slíkt sé undir öllum kringumstæðum heilagt, þá hefur áðurnefndur greinarmunur engan tilgang og við verðum að skilja, að sagan sem slík sé and-siðferðileg og siðlaus, því í henni hefur aldrei verið gengið útfrá því að mannlífið væri heilagt. Reyndin er hinsvegar sú, að við gerum greinamun á fórnum, sem voru réttlætanlegar og öðrum, sem voru það ekki. Þessi greinarmunur er sögulegs eðlis: og þessa sömu viðmiðun má nota til að leggja siðfræðilegt mat á valdbeitingu.

[VI.]

Að svo búnu vil ég draga saman það, sem á undan er komið, og orða á eilítið annan hátt. Í algildri siðfræðilegri merkingu, þ. e. a. s. óháð sögulegri viðmiðun, er ekkert til, sem réttlætir kúgun og fórnir í nafni verðandi hamingju og frelsis, hvort sem þar er um að ræða byltingu eða ekki. En í sögulegri merkingu er hér töluverður munur á og unnt að taka skýra afstöðu. Því kúgunar og fórna er daglega krafizt í öllum þjóðfélögum og slíkt nær engri átt – og á það vil ég leggja sérstaka áherzlu – að byrja þá fyrst að hugsa um siðferði og siðgæði, þegar stund byltingarinnar rennur upp. En hver getur vegið og metið þær fórnir, sem ríkjandi skipan krefst og borið þær saman við þær fórnir, sem færa þarf til að steypa henni? Eru 10 þúsund fórnarlömb réttlætanlegri en 20 þúsund frá siðfræðilegu sjónarmiði? Þannig lítur hin ómennska reikningslist sögunnar út í reynd. Það sem unnt er að reikna út, eru þeir efnislegu og andlegu kraftar, sem eru til staðar, sömuleiðis möguleikar framleiðslu og dreifingar þjóðfélagslegra verðmæta, auk þeirra nauðþurfta, sem ekki er fullnægt og þeirra aukaþarfa, sem fullnægt er. Ennfremur er unnt að mæla og reikna út það vinnuafl, sem völ er á og íbúafjöldann. Þetta er sá empíriski efniviður, sem hinn sögulegi útreikningur hefur við að styðjast. Og á grundvelli þessa mælanlega efnis er unnt að setja fram spurninguna: Eru þeir kraftar og þeir möguleikar, sem völ er á, nýttir eins skynsamlega og hægt er, og þá er átt við nýtingu þeirra til þess að fullnægja mannlegum þörfum, nauðþurftum fyrst og fremst, og halda vinnuþrælkun, eymd og óréttlæti í algeru lágmarki? Ef niðurstaða athugunar, sem gerð er á ákveðnum sögulegum aðstæðum reynist neikvæð og í ljós kemur, að vissir afturhaldssamir, stjórnmálalegir og félagslegir sérhagsmunir, sem hafa afgerandi áhrif á velferð almennings, standa skynsamlegastri nýtingu þessara krafta fyrir þrifum og halda jafnvel aftur af henni, þá myndi algjör umbylting þessara aðstæðna í átt til skynsamlegri og mennskari nýtingar kraftanna jafnframt gefa færi á aukinni framför í frelsisátt. Þarafleiðandi mætti gera ráð fyrir því, að félagsleg og stjórnmálaleg hreyfing, sem stefndi að slíku marki, yrði samkvæmt niðurstöðum útreikningsins réttlætt frá sögulegu sjónarmiði. Þó er ekki hægt að fullyrða slíkt með neinni vissu fyrirfram, slíkt er að sjálfsögðu breytingum undirorpið, og fer allt eftir því, hvernig hreyfingin bregzt við þegar til kastanna kemur, á hvern hátt möguleikar hennar verða að veruleika og hverjar nýjar staðreyndir framvinda hennar leiðir í ljós eða m. ö. o. hversu vel eða illa markmið og aðferðir byltingarinnar haldast í hendur.

Og þá er komið að síðustu spurningunni sem ég vil varpa fram: Réttlætir markmið byltingarinnar allar aðferðir? Getum við gert greinarmun á skynsamlegri og óskynsamlegri, nauðsynlegri og ónauðsynlegri kúgun? Hvenær getum við sagt, að kúgun sé skynsamleg með tilliti til markmiðs þeirrar byltingar, sem um er að ræða? Í framhaldi af þessu vil ég víkja stuttlega að bolsévísku byltingunni. Sósíalisminn var yfirlýst takmark bolsévísku byltingarinnar. Það fól í sér þjóðnýtingu framleiðsluaflanna og alræði öreiga sem áfanga á leið til stéttlauss þjóðfélags. Við þær sérstöku sögulegu aðstæður, sem ríkjandi voru, þegar bolsévíska byltingin var gerð, var iðnvæðingin nauðsyn fyrir sósíalismann til að hann stæðist samkeppni hinna lengra komnu auðvaldsríkja á vesturlöndum, auk þess sem hann varð að koma herliði á fót og reka öflugan áróður um allan heim. Getum við gert hér greinarmun á skynsamlegri og óskynsamlegri kúgun með tilliti til þeirra markmiða, sem að er stefnt? Með tilliti til byltingarinnar, væri skynsamlegt að hraða iðnvæðingunni sem allra mest, útiloka vissar afætur frá efnahagslífinu og taka upp strangari vinnuaga. Einnig að láta fullnægingu ákveðinna einstaklingsþarfa víkja fyrir þörfum þungaiðnaðarins á fyrstu stigum iðnvæðingarinnar og afnema þau borgaralegu réttindi, sem gætu staðið í veginum fyrir því, að þessi markmið næðu fram að ganga. Hins vegar er enganveginn unnt að réttlæta, heldur ekki með tilliti til byltingarinnar, Moskvuréttarhöldin, hina stöðugu ógnarstjórn, fangabúðir og alræði flokksins yfir hinum vinnandi stéttum. Ef við ætluðum okkur að rannsaka þetta nánar, þá yrði nauðsynlegt að fjalla jafnframt um ástandið í alþjóðamálum, en tíminn leyfir ekki slíkt. Við höfum einnig algjörlega sniðgengið hlutu sjálfra leiðtoganna í byltingunni, þ. e. a. s. hina svonefndu sögufrægu einstaklinga.

Og enn vildi ég gera eina athugasemd. Mér virðist það einkennandi, að því auðveldara sem það verður að reikna út og hafa stjórn á tækni nútíma iðnaðarþjóðfélags, þeim mun háðari verða möguleikar mannlegra framfara þeim andlegu og siðferðilegu eiginleikum, sem leiðtogarnir hafa til að bera. Það varðar og miklu hversu reiðubúnir og hæfir þeir eru til að upplýsa fjöldann sem þeir hafa á sínu valdi og opna augu hans fyrir möguleika eða öllu heldur nauðsyn þess að sækja fram til friðsamlegri og mennskari lífshátta. Því tækni þróaðra iðnaðarþjóðfélaga er í dag orðin sjálfstæður valdaaðili, sem krefst hlýðni og undirgefni gagnvart mætti vélabáknsins, þ. e. a. s. undirgefni gagnvart þeim sem ráða notkun tækninnar. Tæknin sjálf er orðin máttugt drottnunartæki og verður sífellt máttugra eftir því sem hún færir rækilegri sönnur fyrir afkastagetu sinni og nær meira valdi yfir verðmætadreifingunni. Þannig þjónar hún hlutverki drottnarans.

Hið siðfræðilega vandamál byltingarinnar er sambandið milli aðferða hennar og takmarks. Tilgangurinn helgar meðalið í vissum skilningi, þ. e. þegar unnt er að sýnt framá, að útkoman leiði til framfara mannsins í frelsisátt. Þetta eina réttlætanlega takmark krefst þess, að fyrir hendi séu aðstæður, sem auðvelda og flýta fyrir því, að það nái fram að ganga. Og þegar um það er að ræða að skapa þessar aðstæður, þá er unnt að réttlæta fórnir á sama hátt og sagan hefur réttlætt fórnir allt frá upphafi. En þetta samband milli markmiðs og leiða er díalektískt. Tilgangurinn verður ætíð að vera leiðarljós, þegar kúgunaraðferðum er beitt. En hversu skynsamleg, nauðsynleg og frelsandi sem byltingin kann að vera – þá krefst hún jafnan valdbeitingar. Saga án valdbeitingar er þjóðfélagslegt takmark, sem enn er eftir að berjast fyrir. Sem stendur virðist þó valdbeitingu beitt í andstæðum tilgangi með sýnilegum árangri.

Arthúr Björgvin Bollason og Friðrik Haukur Hallsson þýddu.

Tilvísanir

1. Fyrirlestur, haldinn við University of Kansas, 1964.

« Til baka