Hvar greinir okkur á?

eftir W. V. Quine

Hvar greinir okkur á?1

(Hugur 7. ár. 1994–1995, s. 7–13)

Það hlýtur að vekja eftirtekt þeirra sem þekkja verk mín og Donalds Davidson, hversu mjög við erum á sama máli, en að sama skapi hljóta þeir stöku staðir þar sem við erum bersýnilega ósammála að vekja undrun. Ég ætla að reyna að gera grein fyrir þessum ágreiningi.

Um langt skeið höfum við verið sammála um tilvísunarbrigði, sem virðast óumdeild, og jafnvel um hina umdeildari tilgátu um þýðingarbrigði heilla setninga. Hvað þýðingarbrigðin varðar, hefur Davidson reyndar látið í ljósi efasemdir um orðalag mitt, „verufræðilegt afstæði“. Þegar ég setti kenninguna fyrst fram með þessari yfirskrift árið 1968 virtist ég gera verufræði tiltekins tungumáls afstæða við traustari verufræði einhvers annars máls, sem þar með leiddi til vítarunu. En það sem mér virðist vera tilhlýðilegt afstæði má glögglega sjá í seinni ritum mínum. Tilvísunarbrigði ná aðeins til þýðingar af einu máli á annað og verufræðilegt afstæði er afstæði við þýðingarhandbækur. „Lapin“ vísar til kanínu samkvæmt minni uppáhalds fröns-ensku orðabók, og hér standa öll tungumál jafnfætis, ekkert liggur öðru til grundvallar.

Gera þarf grein fyrir frekari smáatriðum, ekki vegna Davidsons, heldur vegna ýmissa annarra lesenda. Handbók fyrir þýðingu af einu máli á annað, t.d. á ensku, má setja stærðfræðilega fram með því að skilgreina með tilleiðslu fjölþætt tengsl setninga í frummálinu og setninga í ensku. Þessi tengsl varða málið í heild og velta ekki á neinni tiltekinni samsvörun milli orða eða uppbyggingar. Þýðingarhandbók er góð að svo miklu leyti sem hún stuðlar að liprum samræðum og árangursríkum sáttum. Kenning mín eða tilgáta um þýðingarbrigði, í heildarsamhengi, er að liprar samræður og árangursríkar sættir geti tekist eins vel og verða vill með hvorri ósamþýðanlegu handbókinni sem er. Ósamþýðanleikinn gæti komið í ljós ef handbækurnar væru notaðar á víxl, setningu og setningu í senn, en það gæti leitt til ósamkvæmrar þýðingar á texta, sem reyndist aftur á móti samkvæmur ef einungis önnur bókanna væri notuð.

Þannig eru brigðin í þýðingu á samfelldu máli. Á hinn bóginn varða tilvísunarbrigði einungis þýðingu umsagna og einnefna, og eiga einungis við um tungumál þar sem hægt er að afmarka umsagnir og einnefni, sem aftur kann að velta á heildarþýðingu. Af þessu er ljóst að hvaða tilfallandi pörun sem eru, milli tilvísunar og orðs eða umsagnar, samrýmist öllum mögulegum athugunum. Þetta leiðir af vangaveltum um tvíburaföll, eða fjölbreytileika líkana og eðli reynslubundinna prófa. Eins og heildarbrigðin eru þetta þýðingarbrigði.

Annar staður þar sem Davidson sér mun á okkur, er þar sem hann talar um fjærkenningu um merkingu hjá sér en nærkenningu hjá mér. Þetta varðar orsakakeðju frá hlut eða atviki í ytri heimi til athafnar eða orða sem eiga að greina frá því sem um er að ræða. Munurinn liggur í því hvernig við neglum keðjuna niður, hvernig við einkennum hana. Davidson neglir hana niður við fjærendann, við hlutinn eða atvikið sem sagt er frá, en ég við yfirborð þess sem segir frá og auðkenni hana út frá virkum taugaendum.

Vegna þess að við notum athugunarsetningar en ekki athugunarorð er fjærendi keðjunnar ekki alltaf snyrtilega afmarkaður og einkenndur sem hlutur eða atvik, og það er ein ástæðan fyrir vali mínu. Dæmin geta verið „það er kalt“ og „það er tekið að rökkva“, og þar virðist þurfa að einkenna kringumstæður. Davidson hefur réttilega leyft hlutgervingu staðreynda að sigla sinn sjó og ég býst við að um kringumstæður gegni sama máli.

Einföldun er önnur ástæða fyrir því að negla keðjuna niður við nærendann, því keðjur sem eru einungis frábrugðnar utan við skinn manns verða að einni. En jafnvel þannig er óþarfinn enn til staðar því margir taugaendanna, sem verða virkir við tiltekið atvik, hafa engin áhrif á skynjun manns eða hegðun. Við gætum leitað eftir frekari hagkvæmni með því að staðsetja keðjuna út frá einhverjum punkti í heilanum, en taugalífeðlisfræðingar hafa hins vegar komist að því að enginn slíkur allsherjar endapunktur er til.2 Eins og ég skrifaði nýlega:3

Það er einungis við taugaenda í yfirborðinu sem hinn gífurlegi flokkur eða vöndull ævintýralega fjölskrúðugra orsakakeðja frá umhverfi til athafna liggur að allsherjarkrossgötum. Sérhver orsakakeðja sker … yfirborðið við taugaenda, og taugaendar manns hafa ákveðna staðsetningu, fjöldinn er takmarkaður og þeir eru svipaðir að gerð. Og í raun eru einkennin sem máli skipta aðeins já eða nei: kveikt eða slökkt.

Það sem ég afmarka þá sem áreiti, sem leiðir til þess að maður segir athugunarsetningu, er tímabundin skipan virkra taugaenda. En það er ekki það sem setningin greinir frá eða merkir eða er um. Athugunarsetningin er um einhver fjarlæg atvik eða hluti, kannski um veðrið eða birtustigið, eða hvað svo sem verða vill. Ég tek því ekki undir nærkenningu um merkingu.

Þriðji munurinn vekur eftirtekt í orðum Davidsons „róttæk túlkun“ andstætt „róttækri þýðingu“ hjá mér. Munurinn er ekki einungis á orðalagi. Túlkun er víðari en þýðing. Til eru enskar setningar í nútímavísindum sem væri jafnvel ekki hægt að þýða yfir á aldamótaensku, svo ekki sé nú talað um fornarabísku eða swahili. Samt sem áður má vel túlka setningarnar á öllum þessum málum. Sem dæmi mætti nefna orðið „fiseind“ í hvaða flókna samhengi sem er. Ný orð eins og „fiseind“ eru ekki innleidd með skilgreiningu; okkur er ekki sagt hvernig megi þýða setningu með þessu orði yfir á eldra mál, enda er það almennt ekki hægt. Okkur er einungis sagt nóg um fiseindir til að geta notað orðið að gagni þar sem við á. Þannig er túlkun án þýðingar.

Ég sagði að þýðingarhandbók væri tilleiðsluskilgreining, sem lýsti sambandi milli setninga. Ég get hins vegar ekki hugsað mér neina sambærilega skýra lýsingu á túlkunarhandbók, en þó er venjuleg orðabók af einu máli á annað í raun einmitt slík bók; handbók fyrir túlkun. Og vissulega gegnir svipuðu máli um hvaða einsmálsorðabók sem er. Þótt túlkun sé víðari en þýðing eru aðferðirnar svipaðar. Upplýsingarnar sem hvor tveggja veltur á eru sýnileg hegðun í sýnilegum aðstæðum, og í báðum tilvikum er mælikvarðinn á árangur lipurð samræðna og árangur í sáttum.

Það er rétt hjá Davidson að skoða almenna túlkun frekar en einbera þýðingu, þar sem hann er að fást við merkingarfræði eða kenningu um tjáningu í tungumáli. Greining mín á róttækri þýðingu, sem var ímynduð tilraun, hafði þrengri tilgang; ég var að bjóða þeirri hugmynd birginn að merking setningar væri inntak hennar. Þýðingarbrigðin þýddu að þótt setningar hefðu samsvarandi merkingu væru ekki endilega jafngildisvensl milli þeirra, og þar með féll hugmyndin um aðgreinanlegar yrðingar; og enginn hlutur er án aðgreiningar, án samsemdar.

Í aðferðafræði Davidsons er eitt atriði sem ég hef efasemdir um, nefnilega sú meginregla að gera sanngildi þess sem innfæddir segja sem mest. Ég vil gera sem mest úr líkindunum fyrir því að einhver hafi tilteknar hugmyndir frekar en úr sannleika þessara hugmynda. Í ljósi framandi helgisiða og banna meðal innfæddra, geta augljós rangindi þess sem þeir segja stundum verið líklegri túlkun en sannleikurinn. En burtséð frá slíkri hegðun og sviðum þar sem gera má ráð fyrir að innfæddir séu óupplýstir, er vinnureglan sú að þeir hugsi eins og við, og því beri yfirleitt að túlka orð þeirra eins og þau væru sönn í okkar augum.

Sannleikurinn er einnig með öðrum hætti grundvallaratriði í kenningu Davidsons; hjá honum eru T-setningar í anda Tarskis burðarás túlkunar. Ég fagnaði þessum leik hjá Davidson strax í upphafi árið 1966.4 Þetta er snyrtilegt tilbrigði við aðferð Tarskis. Tarski gaf sér túlkun setninga sem grunn undir skilgreiningu á sannleika; Davidson gefur sér sannleikann sem grunn undir túlkun setninga.

Annar aðdáunarverður kostur á kenningu Davidsons um túlkun er samspil trúar og löngunar. Í atferli verður hvorki trú né löngun sýnileg, heldur óskiptur árangur þeirra beggja; það er svo verkefni fyrir kenningar og getgátur að greina þetta að.

Hvorki T-setningarnar né samspilið milli trúar og löngunar hjá Davidson falla að minni umfjöllun um róttæka þýðingu. Í mínu samhengi félli þetta best að því að skýra það sem ég hef einfaldlega sópað undir titilinn rökgreiningartilgátur. Þar liggur allt verk hins róttæka þýðanda eftir að hann hefur einu sinni brotið sér leið inn í athugunarsetningarnar.

Að lokum kem ég aftur að Tarski og sannleiksumsögninni, þar sem skýra þarf nokkur óljós atriði. Vegna þess hvað þau eru myrk ætla ég ekki að reyna að smámunast um muninn á mér og Davidson; við erum augljóslega sammála þar sem kenningar okkar skarast. Ég ætla einungis að útlista mínar eigin hugmyndir.

Lykilatriði um sannleika er afvitnun [disquotation]: „Snjór er hvítur“ ef og aðeins ef snjór er hvítur. Merking eða tilvísun afvitnar á svipaðan hátt: „Kanína“ merkir x ef og aðeins ef x er kanína. Hugmyndin er frá Tarski, en orðalagið „að afvitna“ er mitt, eftir því sem ég best veit, og er ekki hugsað til að gera lítið úr henni. Síðasti hluti Word and Object er helgaður mikilvægi sannleiksumsagnarinnar í framþróun merkingarfræði. Með afvitnun er sannleikurinn, sem vissulega er langt frá því að vera einfaldur, svipaður og eiginleikinn að vera stak í mengi, þegar hann sprengir fjötra barnalegra kenninga; því sannleikurinn leiðir til svipaðra þversagna. Ég hef lengi harmað að Ramsey skyldi ekki hafa borið skyn á hugmyndina um afvitnun og hafnað henni sem „hvarfhyggju um sannleikann“. Hinn forni meinvættur minn – ruglingurinn á því að orð sé nefnt og það sé notað – hefur naumast unnið verra verk. Hér er afstaða mín nær Davidson en hann virðist hafa áttað sig á.5

Nær afvitnun því sem máli skiptir um sannleikann? Ég veit ekki hvernig á að svara þessu. Afvitnun nær umtaki sannleikans innan tungumáls, en svo þarf þýðingu til að færa það yfir á önnur mál.

Eins og við sáum eru sannleikur og tilvísun systkini í afvitnun, og skilgreining Tarskis á sannleikanum er skilgreining á öðru á grundvelli hins. Tilvísun er tengsl einfaldrar umsagnar og sérhvers hlutar sem hún á við. Með almennara orðalagi þá er tilvísun tengsl n-sæta umsagnar og sérhvers skipulegs n-fylkis sem hún á við. Með því að alhæfa enn frekar má hugsa sér setningu með n frjálsum breytum semn-sæta umsögn; og svo má segja að þessi setning vísi til sérhvers n-fylkis sem uppfyllir gildi breytnanna. Greining Tarskis er skilgreining á tilvísun á þennan almenna hátt með rakningu út frá eindartilvísun, þ.e. tilvísun einsorðs umsagnar. Sannleikurinn verður loks eftir við 0-sæta umsagnir, þ.e. lokaðar setningar.

Og hvers vegna skyldi Tarski hafa viljað skilgreina sannleikann á grundvelli eindartilvísunar, frekar en til dæmis þveröfugt? Einfaldlega vegna þess að hvaða tiltekna tungumál sem er hefur endanlegan fjölda einsorðs umsagna, og því má skilgreina eindartilvísun með því að gera tilteknum afvitnunum tæmandi skil.

Afvitnun setur sannleikann augljóslega út fyrir tungumálið, vegna þess að með þversögn lygarans sýnir hún að ekki er hægt að gera fulla grein fyrir sannleiksumsögn tiltekins tungumáls á því máli. Þversögnin verður til þegar fjallað er um sannleika í setningum sem sjálfar innihalda sannleiksumsögnina eða skyldar umsagnir.6 Að vísu mætti skilgreina annars stigs sannleiksumsögn til að ná yfir þessi tilfelli, en hún bregst þegar setningarnar innihalda þá umsögn. Þannig má halda upp stigveldi sífellt betri nálgana að fullkominni sannleiksumsögn, sem aftur gerir stigveldið utanmáls. Róttækur náttúruhyggjumaður gæti eins notað þversögn lygarans máli sínu til stuðnings; hún sýnir að það sem er utanmáls, í þessu tilviki að minnsta kosti, leiðir til mótsagnar.

Önnur álíka kunnugleg hugmynd er að óhrekjanleikinn setji sannleikann utanmáls. Þegar framfarir í vísindum leiða til þess að kenningu er hafnað og ný tekur við, þá segjum við ekki að gamla kenningin hafi verið sönn en síðan orðið ósönn. Við segjum frekar að hún hafi verið talin sönn, en aldrei verið það. Sannleikurinn er ekki afrakstur vísindanna, heldur markmið þeirra. Hann er hugsjón hreinnar skynsemi, eins og Kant orðaði það svo ágætlega.

Sannleikurinn er utanmáls með tvennum hætti, við getum sagt að hann sé það bæði merkingarfræðilega og rökfræðilega. Að sannleikurinn skuli vera merkingarfræðilega utanmáls leiddi óhjákvæmilega af sjálfri afvitnuninni. Að hann skuli vera rökfræðilega utanmáls leiddi af afvitnun en ekki með eins sterkum rökum, en nógu sterkum samt – nefnilega lögmálinu um annað tveggja. Látum pvera setningu sem þýðir að fjöldi stráa í Boston-almenningi í ársbyrjun 1901 hafi verið jöfn tala. Af lögmálinu um annað tveggja leiðir annað hvort p eða ekki p; með afvitnun fáum við svo „p“ er satt eða „ekki p“ er satt. Og samt taka vísindin í víðasta skilningi þess orðs – upplýst skoðun – enga afstöðu til „p“ eða „ekki p“, og munu aldrei gera.

C.S. Peirce gerði tilraun í anda náttúruhyggju til að festa hendur á sannleikshugtakinu, sem er rökfræðilega utanmáls, með því að skilgreina sannleikann sem það mark sem vísindin stefna að. Tilraunin var byggð á bjartsýnisórum, svo vægt sé til orða tekið. Þrátt fyrir stórkostlegustu framfarir í vísindum sem hugsast gætu myndu þau aldrei segja neitt um „p“ eða „ekki p“ úr dæminu að framan. Og eftir því sem ég best veit hafði Peirce engar efasemdir um lögmálið um annað tveggja.

John Dewey lagði til, náttúruhyggjunni til framdráttar, að sannleiksumsögnin yrði einfaldlega sniðgengin og í staðinn hökt á rökstuddum skoðunum. Otto Neurath fór svipaða leið á síðustu árum sínum. En vissulega hefðu hvorki Dewey né Neurath getað neitað því að afvitnun gerir sannleikann aldeilis krystaltæran, og eflaust féllust þeir báðir á „p eða ekki p“. Þeir komu sér því ekki hjá vandanum, þeir skildu hann einfaldlega ekki.

Hvað sem þessu líður er skrýtið að við náttúruhyggjumenn skulum verða snúðugir yfir því að sannleikurinn sé rökfræðilega utanmáls, því það felur einmitt í sér aðnáttúrunni er eignaður sannleikur frekar en fálmkenndum nálgunum mannsins. Ástæðan fyrir þessu er að náttúruhyggjan fellst ekki á neina æðri uppsprettu þekkingar en upplýsta vísindalega aðferð. Gott og vel, en sannleikur er ekki þekking. Sannleikshugtakið á samleið með öðrum gagnlegum hugtökum vísindanna, eins og hugtökunum tilvist, efni, hlut, þyngdarkrafti, tölu, fiseind og jarðíkorna. Eins og Davidson er ég sáttur við sannleikann þar sem hann liggur rökfræðilega utanmáls. Hann er hugsjón hreinnar skynsemi – og helgist hans nafn.7

Ólafur Páll Jónsson þýddi

 

Tilvísanir

1. Í þessari ritgerð fer Quine ákaflega hratt yfir og lætur vera að skýra ýmis atriði sem eru síður en svo sjálfljós. Greinin getur því ekki staðið ein, en svo vel vill til að áður hafa verið þýddar tvær af greinum hans, „Tvær kreddur raunhyggjunnar“ í Hug, 3.–4. ári, 1991 og „Um það sem er“ í Heimspeki á tuttugustu öld (Mál og menning 1994). Auk þessa hefur Árni Finnsson skrifað grein um merkingarfræði Quines, „Kenningar um merkingu“ í Hug, 3.–4. ári, 1991. – Quine skrifaði þessa grein fyrir safnrit um heimspeki Donalds Davidson, sem enn er óútkomið, og því hefur greinin hvergi birst áður. Quine sendi Þorsteini Gylfasyni greinina með leyfi til að birta hana á íslensku. Auk Þorsteins hef ég notið aðstoðar Mikaels M. Karlssonar, Erlends Jónssonar og Arnar Bjarnasonar læknis. Björn Þorsteinsson, Geir Sigurðsson, Róbert Jack, Uggi Jónsson og Ágúst Hjörtur Ingþórsson lásu handritið í heild.

2. Daniel Dennett: Consciousness Explained, Boston 1992.

3. „In Praise of Observation Sentences“, Journal of Philosophy, 90, 1993, bls. 115.

4. Donald Davidson: „Truth and Meaning“ (abstract), Journal of Philosophy, Vol 63, bls. 586–587.

5. Donald Davidson: „The Structure and Content of Truth“, Journal of Philosophy, 1990 Vol. 87, bls. 283.

6. Sjá t.d. bók mína Pursuit of Truth, Harvard 1990, 1992, § 34.

7. Greinin er margfalt ríkulegri vegna athugasemda Burtons Dreben við fyrra handrit.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *