Að hengja nytjastefnu fyrir smið

eftir Kristján Kristjánsson

Að hengja nytjastefnu fyrir smið1

1. Inngangsorð

Nokkuð hefur borið á því upp á síðkastið í umræðum um virkjanaáform á miðhálendinu að andstæðingar slíkra virkjana hafi bölsótast út í þá „nytjastefnu“ sem virkjanasinnar fylgi. Þeir sem einhverja þekkingu hafa á hugmyndasögu og vita, eða ættu að vita, að hér er hallað réttu máli hafa hingað til ekki blandað sér í umræðuna. Það hef ég einnig stillt mig um þar til nú er ég sé sömu villu bergmála hjá hinum ágæta blaðamanni Kristjáni G. Arngrímssyni í hugvekju hans í Morgunblaðinu. Kristján segist að vísu ekki vilja veitast að nytjastefnu (eða „nytjahyggju“ eins og hann kallar hana) sem siðfræðikenningu. En mér vitandi er ekki til nema ein nytjastefna í hugmyndasögunni; stefna sem ljær okkur almennt leiðarhnoða við mannlegar ákvarðanir, jafnt á Alþingi sem við eldhúsborð, í stjórnmálum sem siðferði. Þar sem Kristján G. vitnar orðrétt í lýsingu mína á hróðri hennar í upphafi hugvekju sinnar2 hlýt ég að álykta að það sé hin eina og sanna nytjastefna sem talin er brjóstvörn virkjunarsinna. Og það skil ég ekki.

2. Hvað er nytjastefna?

Nytjastefnan („utilitarianism“) er venjulega rakin til tveggja breskra heimspekinga á síðustu öld, þeirra Jeremys Bentham og Johns Stuarts Mill, þó að hún sé sumpart af eldra bergi brotin. Kjarni hennar er sá að við allar ákvarðanir hugum við að því hvað auki – eða öllu heldur hvað telja má að auki – sem mest heildarhamingju heimsins þegar til lengri tíma er litið. Hamingjuna skilgreindi Mill sem ánægju og gerði um leið greinarmun á æðri og lægri stigum ánægjunnar: æðri væri sú djúpa og varanlega ánægja er reyndir og dómbærir menn þekktu, það er þeir menn sem prófað hefðu ýmsa lífskosti, og sprytti einkum af því að fullgera þroskakosti sína. Heimspekingur, þótt hryggur væri, kynni til dæmis að njóta meiri ánægju en sælt svín. „Nytjastefna“ er því í raun fremur óheppilegt orð um kenninguna: „farsældarhyggja“ eða einfaldlega „sældarhyggja“ væri betra.

Nytjastefna hefur orðið geysivinsæl meðal lærðra sem leikra en jafnframt fjarskalega umdeild, einkum á síðari árum. Nytjastefnumönnum er brugðið um að eyða of miklum tíma í útreikninga á kostum og göllum og koma aldrei neinu í verk, um að verða reiðubúnir að fórna hagsmunum saklausra einstaklinga til að þjóna heildinni og um að granda eigin heilindum með því að meta allar hugsjónir og einstaklinga á sama kvarða og geta til að mynda ekki hyglað ástvinum sínum á neinn hátt. Ég hygg að svör séu til við öllum þessum ágöllum innan vébanda nytjastefnunnar sjálfrar og hef haldið uppi vörnum fyrir hana á öðrum vettvangi.3En það eru ekki þessi vandamál sem borið hefur á góma í umræðunni um virkjanamálin heldur furðuleg mistúlkun á inntaki nytjastefnunnar sjálfrar. Er grátlegt að það skuli gerast á sömu vikum og sjálft höfuðrit stefnunnar,Nytjastefnan eftir Mill, er loks að koma út í íslenskri þýðingu.4

3. Nytjastefna og virkjanir

Huga nytjastefnumenn einungis að því sem hefur efnahagslegt notagildi, eins og skilja má á grein Kristjáns G. Arngrímssonar? Að sjálfsögðu ekki. Sjálfur kjarni kenningarinnar er einmitt sá að það sem á endanum skipti máli í mannlífinu sé djúp og varanleg ánægja og gildir þá fræðilega séð einu máli hvort ánægjan sprettur af því að fá vaxtavexti á höfuðstól, borða hangikjöt á jólum eða njóta hrjósturvíddar og feigðarfegurðar öræfanna. Í umræðum erlendis um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu hefur nytjastefnunni einmitt helst verið fundið til foráttu að vilja taka aðra þætti með í reikninginn en þá sem mæla má á kalda talnakvarða; því hafa menn hyllst til að taka fremur upp „meðfærilegri“ kvarða svo sem gæðaárakvarðann margumrædda í Oregon í Bandaríkjunum sem nytjastefnumenn kenna við „dólganytjastefnu“.5

Munu virkjanir á miðhálendi Íslands leiða til dýpri og varanlegri ánægju hjá landsmönnum (og ef til vill jarðarbúum öllum) en ákvörðun um að virkja ekki? Þetta er sú spurning sem nytjastefnan krefur okkur svars við, eftir því sem okkur er framast unnt. Nytjastefnumenn hlytu að vara náttúruverndarsinna við því að þrengja sjónarhorn sitt með því að einblína á efnahagsleg rök, eins og þau hvort virkjanir fældu ferðamenn frá hálendinu; þvert á móti ættu þeir og aðrir deiluaðilar að huga að öllum þeim afleiðingum virkjanaframkvæmdanna sem orðið gætu til ánægjuskerðingar eða -auka. Það merkilega er að hér hygg ég að við nafnarnir séum öldungis sammála, því það sem Kristján G. Arngrímsson virðist vilja segja er einmitt að við eigum ekki að einskorða okkur við efnahagsleg rök heldur huga að nytjarökum í víðustu merkingu. Við þurfum á meiri nytjastefnu að halda í umræðunni, ekki minni! En þetta sjónarmið hefur snúist á einhvern hugmyndasögulegan haus í skrifum nafna míns eins og fleiri góðra manna.

Enn undarlegra er þegar hinn gamli og úrelti greinarmunur á rökum og tilfinningum blandast inn í virkjanaþvargið, eins og raun hefur borið vitni um og Kristján G. víkur að í framhjáhlaupi. Flestir sálfræðingar og heimspekingar sem ritað hafa um mannlegar tilfinningar síðasta aldarfjórðunginn hafa verið sammála um að geðsmunirnir séu þrungnir af vitsmunum og tilfinningarök séu rök alveg í sama skilningi og önnur.6 Það kæmi að minnsta kosti úr hörðustu átt ef nytjastefnumenn, sem viðurkenna ekki aðrar haldbærar ástæður fyrir breytni en tilfinningaástæður, gerðu þennan greinarmun að einhverju lykilatriði í máli sínu.

Ekki má skilja mál mitt svo að ég sé að lýsa yfirvegaðri andstöðu við virkjanir á miðhálendi Íslands. Ef til vill er svo mikill hamingjuauki í því fólginn að tryggja byggð í landinu að hann vegi þyngra en það að nokkrum meintum náttúruperlum sé sökkt í vatn, og byggðin verði ekki tryggð nema með þessum virkjunum. Ég hef einfaldlega ekki haft tóm til að kynna mér rök og gagnrök þessa tiltekna máls nógu ítarlega til að geta fellt nokkurn dóm um það á þessu stigi. En eitt er víst: Það er alls ekki í anda nytjastefnunnar að dæma sum ánægjuefni fyrirfram úr leik vegna þess eins að þau gleðji augað meir en þau þyngja pyngjuna.

 

Tilvísanir

1. Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 8. janúar 1999 sem svar við hugvekju eftir Kristján G. Arngrímsson, heimspeking og blaðamann, úr sama blaði frá 19. desember árið áður.

2. Sjá ritgerð mína, „Nytjastefnan“ í ÞK.

3. Sjá sama rit, sem og „Af tvennu illu“ í ATI og kafla 2 í Justifying Emotions: Pride and Jealousy (London: Routledge, 2001).

4. J. S. Mill, Nytjastefnan, þýð. Gunnar Ragnarsson (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1998).

5. Sjá „Hverjir eiga að bíta við útgarðana?“ í ATI.

6. Sjá „Um geðshræringar“ í ATI og kafla 1 í Justifying Emotions.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *