Heimspekinám í Bristol

eftir Hugin Frey Þorsteinsson

Ég stunda eins árs meistaranám við Háskólann í Bristol í sögu og heimspeki vísinda. Bristol er í Avon héraði í Suðvestur Englandi og eru íbúar borgarinnar um fjögurhundruð þúsund. Háskólasvæðið er í hjarta borgarinnar og stunda rúmlega fimmtán þúsund manns nám við skólann.

Ástæður þess að ég valdi að stunda meistaranám í Bristol voru allnokkrar en þær veigamestu voru:
i) Skólinn státar af öflugu námi í sögu og heimspeki vísinda.
ii) Bristol er hæfilega stór borg og þar sem ég fór með fjölskyldu út þótti það aðlaðandi. Hún er einnig stutt frá London (um eina og hálfa klukkustund frá London).

Námið hefur staðið undan væntingum og meira en það. Við deildina starfar mikill fjöldi hæfileikaríkra fræðimanna í sögu og heimspeki vísinda. Nýlega hefur námið verið stokkað upp á nýtt og laðað til sín öflugt fólk, svo sem Alexander Bird, Samir Okasha og James Ladyman. Allir þrír hafa skrifað prýðisgóð inngangsrit í vísindaheimspeki sem óhætt er að mæla með fyrir þá sem vilja kynna sér þetta viðfangsefni.

Við erum sex sem stundum meistaranám í sögu og heimspeki vísinda þar af þrjú í fullu námi. Af þessum sökum fær maður næga athygli og aðstoð í náminu. Yfirferð námskeiða er hröð og markviss sem gerir það ærið verkefni einungis að halda dampi við lestur fyrir hvert námskeið. Þeir sem eru í fullu námi þurfa að taka tvo áfanga er tengjast vísindum en síðan eru tveir áfangar sameiginlegir fyrir alla meistaranema. Á önninni sem nú er að ljúka voru áfangarnir tengdir vísindum; annars vegar forsaga þróunarkenningar Darwins og hins vegar þróun og heimspeki eðlisfræðinnar á tuttugustu öld. Sameiginlegu námskeiðin voru almenn heimspeki, þar sem lögð var áhersla á lestur á völdum heimspekigreinum sem birst hafa síðustu þrjá áratugi, og þjálfunarnámskeið í gerð fyrirlestra og ritgerða.

Allmargir leshringir eru starfræktir en þá bjóða prófessorar nemendum og öðrum starfsmönnum deildarinnar að lesa ritverk sem tengjast rannsóknum þeirra. Á síðustu önn var ég í leshring sem fór í gegnum deilu Jerry Fodors og Paul M. Churchlands um hvort skynjun væri hlutlaus mælikvarði í vísindum eða hvort vísindamenn gætu aldrei losnað undan seiðmagni þeirra hugmyda sem þeir aðhyllast. Á nýrri önn tek ég þátt í leshring þar sem stórvirki Roger Penrose „Leiðin að Raunveruleikanum“ (e. The Road to Reality) er tekin fyrir. Með nýrri önn breytast líka kúrsarnir en þá verð ég í heimspeki líffræðinnar og heimspeki vísinda auk almenns heimspekiáfanga. Þriðja önnin sem verður í sumar fer í að semja meistararitgerð en útskrift verður svo í október.

Uppbygging námskeiða er með þeim hætti að prófessorar stjórna umræðum og ætlast er til þess að nemendur leggi fram sína sýn á viðfangsefnið. Þetta er svipað og málstofufyrirkomulagið við Háskóla Íslands, fyrir þá sem þekkja til þess. Námsmat fellst í framlagi nemenda í kennslustundum og ritgerðarverkefnum. Lögð er áhersla á lestur frumtexta og sjálfstæð vinnubrögð. Kennslustundir eru fáar en mestur tími nemenda fer í lestur utan þeirra.

Samhliða náminu eru vinnufundir þar sem doktorsnemar, prófessorar eða gistikennarar kynna fyrir deildinni tiltekið viðfangsefni. Oft fellst þetta í greinum sem eiga að fá birtingu í heimspekitímaritum og tilgangurinn er að fá uppbyggilega gagnrýni frá samstarfsfólki. Þessir fundir eru á hverjum miðvikudegi í hádeginu og mætir fólk með nesti sem skapar afslappað andrúmsloft. Á föstudögum eru rannsóknarfundir en þá kemur fyrirlesari frá öðrum háskóla og kynnir fyrir deildinni hvað viðkomandi er að vinna að. Á síðustu önn komu meðal annars David Papineau, Timothy Williamsson, John Divers og Peter Lipton. Föstudagsfundirnir eru hafðir síðdegis á föstudögum þannig að fólk hópast saman, fer út að borða og á „pöbbinn“ eftir fundina. Þar skapast oft athyglisverðar umræður en „pöbbamenning“ og óhófleg tedrykkja eru órjúfanlegir hlutir breskrar menningar.

Flokkunarfræðilega telst heimspekinámið við Bristol til „analýtískar“ bresk-bandarískrar heimspeki. Áhersla er lögð á hugtakagreiningu við úrvinnslu heimspekilegra vandamála. Frumspeki er fyrirferðamikil í vísindaheimspekinni en þau vísindi sem tekin eru fyrir eru raunvísindi en í þeim liggja sérsvið flestra prófessoranna. Einnig er gott samstarf við stærðfræði- og eðlisfræðideild háskólans.

Aðstaðan við skólann er prýðileg. Starfsfólk skólans er einkar hjálplegt og vinalegt. Meistaranemar hafa séraðstöðu til lesturs og tölvuvinnslu. Bókasafn skólans er líka ágætt. Félagslíf nemenda er með fjölbreytilegasta móti og er úr miklu að velja. Sökum anna reynist erfitt að taka þátt í öllu því starfi sem áhugavert er. Alls kyns íþróttir eru stundaðar af miklum þrótti en aðstaða til íþróttaiðkunar er mjög góð. Einnig eru bókaklúbbar, heimspekikaffihús, hjálparstarf, gönguklúbbar, félag Norðurlandabúa og hvaðeina. Auk þess eru heimspekinemar að skipuleggja námsferð til London á fund hjá „Aristotelian Society“.

Bristol hefur líka upp á margt að bjóða. Húsakynni stúdenta eru á besta stað í bænum þar sem fjöldi veitingastaða, öldurhúsa, bókabúða og kvikmyndahúsa eru staðsett. Bristol er líka þekkt fyrir góða tónlistarsenu og er heimaborg margra góðra tónlistarmanna og hljómsveita svo sem „Massive Attack“ og „Portishead“. Almenningssamgöngur eru góðar sem og aðstaða fyrir hjólreiðamenn þannig að þægilegt er að ferðast á milli staða.

Barnafólk ætti að hafa það hugfast að dagvistun fyrir börn sem ekki eru komin á skólaaldur er mjög dýr og erfitt er að átta sig á hvernig kerfið virkar. Hins vegar eru gæði dagvistunar síst minni en heima á Íslandi en kröfur miklar af hálfu opinberra aðila. Skólagjöld í Bretlandi eru há og er gott að hefja umsóknarferli snemma til að hafa góðan tíma við að leita uppi styrki til námsins. Til að mynda fékk ég styrk frá British Council sem ég sótti um hjá breska sendiráðinu og dugar hann fyrir skólagjöldum. Upplýsingar um styrki frá British Council má finna á heimasíðu breska sendiráðsins.

Fyrir þá sem vilja enn frekari upplýsingar um háskólann í Bristol er bent á heimasíðu heimspekideildarinnar.

Ef heimasíða deildarinnar svarar ekki öllum spurningum er fólki frjálst að senda mér tölvupóst á netfangið huginn@hi.is

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *