Heimspekinám í Aberdeen

eftir Óttar Martin Norðfjörð

Þegar Egill Arnarson, ritstjóri Heimspekivefsins, bað mig um að skrifa stuttan pistil um heimspekinámið mitt í Skotlandi, samþykkti ég án þess að hika, enda taldi ég það létt verk. Þegar ég settist svo fyrir framan tölvuna mína og ætlaði mér að byrja, þá rann hins vegar upp fyrir mér að þetta myndi verða ögn erfiðara en ég hafði gert ráð fyrir. Að skrifa um heimspekinám í útlöndum á nógu áhugaverðan máta svo maður drepur ekki alla úr leiðindum, er vandasamt verkefni sem krefst bæði tíma og skipulagningar. Eftir töluverða umhugsun, og tvo kaffibolla, ákvað ég að best væri að byrja á því að rekja ástæðu þess að ég valdi að fara til Skotlands. Það hljómar einhvern veginn eins og viðeigandi byrjun á pistli um nám í útlöndum.

Ég sótti um heimspekinám við University of Aberdeen, því ég hafði aldrei komið til Skotlands. Ég hafði hinsvegar heyrt góða hluti um landið, sem og skosku þjóðina, og vildi því ólmur prófa að dveljast þar í nokkurn tíma. Núna, fjórum mánuðum síðar, get ég tekið undir það sem ég hafði áður heyrt. Skoska landslagið er einstaklega fallegt, með víðfeðmu hálendi, tignarlegum fjöllum og steingrárri strandlengju, og skoska fólkið er jafn indælt og skemmtilegt og af er látið. Eiginlega ótrúlega hresst miðað við hinn sífellda vind og slæmu veðráttu.

Heimspekikennararnir mínir hér í Aberdeen eru, eins og aðrir Skotar, hressir og skemmtilegir. Þeir eru raunar svo fjörlegir að ég gleymi stundum að þetta eru flest allt fullorðnir menn með doktorsgráður og virðulega titla. Kennararnir tilheyra fyrst og fremst hinni analýtísku heimspekihefð, eins og við var að búast. Það er augljóst í nálgun þeirra að heimspekilegum vandamálum, sem og þeim enskumælandi (analýtísku) heimspekingum sem þeir vitna reglulega til. Þannig setur einn kennarinn minn, sem kennir reyndar alla jafna við St. Andrews háskóla, öll heimspekileg vandamál upp í snyrtilega uppsett skemu, og kryfur þau þannig skipulega niður að beini. Og annar kennari notar ótæpilega hið analýtíska orðafar „the condition for a possibility“, þegar hann fæst við siðferðilegar spurningar og svör við þeim. En þótt heimspekin hér sé einkum analýtísk, þá eru að sjálfsögðu einhverjir meginlandshugsuðir lesnir. Þeir eru hinsvegar lesnir með analýtískum formerkjum, að mínum dómi. Með öðrum orðum, heimspekingur í leit að „hreinni“ meginlandsheimspeki yrði vafalaust fyrir miklum vonbrigðum með heimspekinámið hér (og væntanlega annars staðar í Skotlandi).

Að þessu leyti, þá er heimspekinámið nokkuð svipað og heima, leyfi ég mér að fullyrða, þ.e.a.s. megináherslan er analýtísk, þótt það sé við og við meginlandsskotið. En hvað varðar kennsluformið, þá er nokkur munur á heimspekiskorinni við Háskóla Íslands og við University of Aberdeen. Skosku heimspekiáfangarnir (fyrir framhaldsnemendur) eru annað hvort í formi einskonar málstofa, nema að fyrirlestrar nemendanna eru mun lengri; eða kennarafyrirlestra og svokallaðra „tutorial“-tíma, sem eru hugsaðir sem umræðutímar. Í málstofunum er tiltekið efni tekið fyrir, og manni ætlað að lesa fyrir hvern tíma. Nemendur halda svo langa fyrirlestra upp úr efninu, sem er síðan fylgt eftir með umræðum (ef tími gefst). Hvað varðar kennarafyrirlestrana, þá mætir maður ekki undirbúinn og lesinn í þá tíma, heldur eingöngu í „tutorial“-tímana. Kennarafyrirlestrarnir minna því frekar á fyrirlestra eins og Félag áhugamanna um heimspeki skipuleggur, því kennarinn talar samfleytt í 50 mínútur, án þess að bjóða uppá miklar umræður eftir á. Þetta er því gjörólíkt kennarafyrirlestrunum við Háskóla Íslands, enda ekki venjan þar að kennarinn tali samfleytt út tímann. Mér þykir íslenska fyrirkomulagið betra, enda leiðir skoska fyrirkomulagið til minni skilnings að mínu mati.

Annað sem leiðir til minni skilnings (að mínu viti) eru kennsluaðferðir kennaranna. Þeir (þ.e. allir nema sá sem setur allt upp í snyrtileg skemu) eru ekki gjarnir á að nota töflur eða dreifa gögnum. Kennarinn talar fyrst og fremst, les raunar yfirleitt af blaði, án þess að skrifa neitt niður á töfluna eða glærur. Í heimspekitímum við Háskóla Íslands, hvort sem í málstofum eða kennarafyrirlestrum, notar kennarinn töfluna eða myndvarpann til að varpa ljósi á ákveðna punkta sem hann telur mikilvæga. Það er mun þægilegra fyrirkomulag, enda finnst mér umræðurnar heima mun líflegri en þær sem fara fram hér í Aberdeen, og tel ég ástæðuna einfaldlega vera vegna þess að íslensku kennararnir leggja sig frekar fram við að „kenna“ íslensku nemendunum.

Ég verð einnig að hæla íslensku skipulagi hvað varðar kennslugögn. Þjóðarbókhlaðan er til fyrirmyndar þegar kemur að skipulagi og fylgni við Dowey-kerfið, miðað við bókasafnið í Aberdeen, þótt bókakostur hins síðarnefnda er reyndar mun betri. Og sú venja að hafa ákveðnar hillur undir ákveðin námskeið er nokkuð sem Skotarnir mættu taka upp að mínum dómi, enda er aðengi að greinum og bókum alls ekki nógu gott.

En burt séð frá fáeinum „göllum“ í skipulagi og kennsluaðferðum, þegar maður miðar það við íslensku heimspekiskorina, þá eru kennararnir hér augljóslega mjögvel lesnir og áhugasamir um efnið. Þar að auki eru þeir einstaklega hjálpsamir þegar kemur að allskyns spurningum, og hafa lítið á móti því að spjalla við mann um heimspeki, Skotland eða bara um daginn og veginn. Ég gef því kennurunum sjálfum bestu einkunn, þótt kennsluaðferðir þeirra mættu vera ögn skipulagðari. Og ég gef heimspekináminu einnig toppeinkunn, enda veitir það manni einhvern óútskýranlegan innblástur að stunda heimspeki við margra alda gamlan háskóla eins og University of Aberdeen, þar sem sagan hreinlega svífur yfir manni.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *