Menningarvitinn: Ellefu tilgátur

eftir Richard Rorty

Menningarvitinn: Ellefu tilgátur1

1.

Við ættum ekki að reyna að skilgreina „hugvísindi“ með því að spyrja hvað hugvísindadeildir háskóla eiga sameiginlegt sem greinir þær frá öðrum. Sú skipting er áhugaverðari sem gengur þvert á deildir og aðferðafræði, en greinir milli, annars vegar, þess fólks sem bisar við að afla þekkingar eftir viðurkenndum viðmiðum og, hins vegar, fólks sem leitast við að þenja siðferðilegt hugarflug sitt. Síðarnefnda fólkið les bækur til að efla kennd sína fyrir því hvað er mögulegt og hvað er mikilvægt – ýmist fyrir það sjálft sem einstaklinga eða fyrir samfélag þess. Nefnum þetta fólk „menningarvita“. Oft fer meira fyrir slíku fólki í mannfræðinámi en í fornmenntum, og stundum meira í lagadeild en heimspeki.

2.

Ef maður spyr hvaða gagn þetta fólk gerir, hvert félagslegt hlutverk þess er, virðist ekki viðhlítandi að svara því til að það „kenni“ eða „sinni rannsóknum“. Í huga þess er kennsla – alltént sú kennsla sem það vonast sjálft til að stunda – ekki beinlínis fólgin í miðlun þekkingar. Hún felst fremur í því að hræra upp í krökkunum. Þegar menningarvitarnir sækja um leyfi eða styrk fylla þeir iðulega út eyðublöð um markmið og aðferðir hinna svonefndu rannsóknaverkefna sinna, en í raun vilja þeir bara lesa fleiri bækur, í von um að verða öðruvísi manneskjur.

3.

Samfélagslegt hlutverk menningarvitanna er því í reynd að vekja með nemendum efasemdir um sjálfsmynd þeirra og um samfélagið sem þeir tilheyra. Menningarvitarnir eiga þátt í að tryggja að siðferðisvitund hverrar nýrrar kynslóðar verði eilítið frábrugðin siðferðisvitund þeirrar sem á undan gekk.

4.

Þegar réttlæta þarf opinberan stuðning við æðri menntir, tölum við þó ekki mikið um þetta samfélagshlutverk. Við getum ekki útskýrt fyrir styrktaraðilum og stjórnarnefndum að okkar sé að hræra upp í hlutunum, vekja sektarkennd með samfélaginu og koma því úr jafnvægi. Við getum ekki sagt að skattgreiðendur ráði okkur til að tryggja að börnin þeirra muni hugsa öðruvísi en þeir sjálfir. Einhvers staðar innst inni vita allir – jafnvel almennir skattgreiðendur – að þetta er meðal þess sem háskólum ber að gera. En enginn hefur efni á að ljóstra því upp.

5.

Staða okkar menningarvitanna er sambærileg við stöðu samfélagssinnaðra presta og frelsunarguðfræðinga, sem vilja reisa Guðsríki á jörðu. Andstæðingar þessara presta segja iðju þeirra tilheyra vinstri væng stjórnmála. Þeir segja að prestunum sé borgað fyrir að boða Guðs orð, en þess í stað blandi þeir sér í pólitík. Við erum aftur sökuð um að þiggja laun fyrir að safna og miðla þekkingu, en rugla þess í stað reitum hugvísinda og stjórnmála. Við getum hins vegar ekki tekið mark á hugmyndum um hugvísindi án stjórnmála – ekki frekar en kollegar okkar meðal klerka taka mark á hugmyndum um ópólitíska kirkju.

6.

Enn er til þess ætlast að við fylgjum helgisiðunum sem styrktaraðilar okkar eru vanir – kyrjum söngva um „hlutlægt gæðamat“, „siðferðileg og andleg grundvallargildi“, „spurningarnar sem eilíft vaka fyrir manninum“ og svo framvegis, rétt eins og ætlast er til að frjálslyndu klerkarnir tafsi sig gegnum trúarjátningar fyrri og einfaldari alda. Sumum okkar þykir hins vegar nokkuð til þeirra seinni alda höfunda koma er snúast gegn platónisma og eðlishyggju en hneigjast að náttúrulegum og sögulegum nálgunum (höfunda á við Hegel, Darwin, Freud, Weber, Dewey og Foucault). Okkur stendur það tvennt til boða að gerast hæðin í viðmóti, eða skrumskæla að öðrum kosti alla helgisiðafrasana með okkar eigin túlkunum.

7.

Þessi spenna milli opinbers málflutnings og köllunar gerir háskólasamfélagið í heild, og þó einkum menningarvitana sjálfa, berskjaldað gagnvart villutrúarveiðurum. Metnaðarfullir stjórnmálamenn eins og William Bennett2 – og meinhæðnir blaðamenn á við hinn unga William Buckley (höfund God and Man at Yale3) eða Charles Sykes (höfund Profscam4) – geta alltaf sýnt fram á mun á málflutningi háskólafólksins og raunverulegri iðju þess. Villutrúarveiðarnar renna þó iðulega út í sandinn óðar en samstaða háskólamanna verður ljós. Það má treysta á að eðlisfræðingar og lagaprófessorar – fólk sem enginn vill eiga í erjum við – fylki liði kringum þá félaga sína úr Sambandi bandarískra háskólakennara sem kenna mannfræði eða frönsku, eins þótt þeir hvorki viti hvað hinir síðarnefndu starfa, né hafi áhuga á því.

8.

Í þeim styrr sem nú stendur um hugvísindin, er bráðin þó veikari fyrir en vant er. Skotmarkið er það sem Allan Bloom5 nefnir „hina nítsísku vinstrihreyfingu (the Nietzschean left)“. Í Bandaríkjunum er þessi „vinstrihreyfing“ undarleg nýjung. Áður fyrr hétu vinstri öfl í Bandaríkjunum á landið okkar að fylgja hugsjónum sínum, ganga áfram þann frelsisslóða sem forfeður okkar fetuðu – slóðann sem leiddi okkur frá afnámi þrælahalds, um kjörrétt kvenna, lagavernd verkalýðsfélaga og borgaraleg réttindi svartra, til kvennabaráttu og frelsisbaráttu samkynhneigðra í samtímanum. En hið nítsíska vinstri segir Bandaríkjunum að þau séu rotin inn að beini – þau séu samfélag kynþáttahaturs, kynjamisréttis og heimsvaldastefnu sem sé ekki treystandi fyrir túkalli – samfélag sem þurfi að taka hvert sitt orð til óvæginnar afbyggingar.

9.

Önnur ástæða þess að þessi vinstrihreyfing er auðveld bráð, er hvað hún er ógurlega upptekin af sjálfri sér, innræktuð og tröllriðin heimspeki. Hún tekur hina skrítnu hugmynd Pauls de Man6 alvarlega, að „vandamál hugmyndafræði og þaðan pólitísk vandamál, sé aðeins hægt að nálgast á grundvelli gagnrýninnar greiningar á tungumálinu“. Hún virðist samþykkja hina fjarstæðukenndu staðhæfingu Hillis Millers að „þúsundáraríki [fullkomins friðar og réttlætis meðal manna] rísi ef allir menn og konur verða góðir lesendur í skilningi de Mans“. Ef einhver spyr um draumsýn á framtíð landsins, gefa nýju vinstriliðarnir svar sem minnir á eina grunnhyggnislegustu athugasemd Foucaults. Þegar hann var spurður hvers vegna hann hefði aldrei gert uppdrátt að þjóðfélagsdraumsýn sagði hann: „Ég tel að með því að ímynda okkur nýtt kerfi framlengjum við þátttöku okkar í því kerfi sem er til staðar.“ De Man og Foucault voru miklu skárri en þessar óheppilegu athugasemdir gefa til kynna (og það er Miller líka), en sumir fylgismenn þeirra eru miklu verri. Þessi heimspekiþjakaða og sjálfsupptekna vinstrihreyfing er spegilmynd hinna heimspekiþjökuðu og sjálfsuppteknu Straussista.7 Fyrirlitning beggja hópa á Bandaríkjum samtímans er svo mikil að þeir hafa gert sig getulausa þegar kemur að stjórnmálum, hvort sem um þjóðmál, málefni fylkis eða málefni héraðs er að ræða. Fyrir vikið geta þeir eytt allri orku sinni í háskólapólitík.

10.

Sem stendur [1989] eru hóparnir tveir að sviðsetja átök um hvernig eigi að raða saman leslistum háskóla. Straussistar segja að miða skuli við eigið ágæti bóka þegar þær eru valdar á listana, meðan Nietzschíska vinstrihreyfingin vill miða við sanngirni – það er, sanngirni við konur, svarta og íbúa þriðja heimsins. Báðir hóparnir hafa rangt fyrir sér. Leslista ætti að setja saman með það að augnamiði að varðveita viðkvæmt jafnvægi tvenns konar þarfa. Sú fyrri er þörf nemenda fyrir skírskotun til einhvers sem fyrri kynslóðir og aðrar samfélagsstéttir þekkja – svo að ömmurnar, afarnir og barnabörnin, fólk sem nam við Wisconsinháskóla og fólk sem nam við Stanford, hafi mikið til lesið sömu bækur. Sú síðari er þörf kennaranna fyrir að geta kennt bækur sem hafa hreyft við þeim, örvað þá, breytt lífi þeirra – fremur en þurfa að fylgja námsskrá sem þeim berst frá nefnd.

11.

Menntunarheimspekingar, velviljaðar nefndir og opinberir aðilar hafa gert tilraunir til að skilja hugvísindin, skilgreina þau og stjórna þeim. Keppikeflið er hins vegar að hugvísindin verði áfram of síbreytileg til að þau megi skilgreina eða þeim verði stjórnað. – Allt sem þarf er gamalt og gott akademískt frelsi. Hafi hugvísindin frelsi til að hrista af sér villutrúarveiðara sem hrópa „Pólitík! Pólitík!“ og hafi hver fylking nýrra aðstoðarkennara frelsi til að fyrirlíta og afneita gömlu stofnanahundunum sem þeir eiga störf sín að launa, þá verða hugvísindin í góðu formi enn um sinn. Ef þér hugnast ekki hugmyndafræðilega veðurfarið í bókmenntafræðideildum þessa dagana, dokaðu þá við um eina kynslóð. Sjáðu hvað verður um nítsísku vinstrisinnana þegar þeir reyna að endurnýja sig, kringum 2010. Ég þori að veðja að klárustu nýju doktorarnir í deildinni verður fólk sem vill aldrei aftur heyra minnst á „vestræna tvíhyggju“ eða „orðræðu feðraveldisins“ svo lengi sem það lifir.

Haukur Már Helgason þýddi

 

Tilvísanir

1. Greinin er frá árinu 1989. Hún birtist í safnritinu Philosophy and Social Hope (Penguin 2000). – Allar neðanmálsgreinar eru athugasemdir þýðanda.

2. Bandarískur íhaldsmaður.

3. Alþýðlegt rit um stöðu amerískra háskóla.

4. Umdeild bók sem sakar ameríska háskóla um spillingu og vonda kennslu, skrifuð 1988.

5. (1930–1992) Bandarískur hugvísindamaður sem réðist gegn afstæðishyggju og „pólitískri rétthugsun“ í kennsluháttum bandarískra háskóla, í bókinni The Closing of the American Mind.

6. (1919–1983) Belgískur bókmenntafræðingur og forvígismaður afbyggingar sem hefur haft mikil áhrif í Bandaríkjunum.

7. Fylgismenn Leo Strauss (1899–1973), þýsks stjórnmálaheimspekings og prófessors við Chicago háskóla frá 1949 til 1968. Strauss gagnrýndi sívaxandi meðalmennsku og afstöðuleysi í kenningum innan stjórnmálafræði og barðist fyrir lestri á textum klassískra stjórnspekinga innan háskóla, þegar þeir höfðu að nokkru vikið fyrir nýrri höfundum og atferlisfræðilegum nálgunum.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *