Tjáningarfrelsið: forsendur og rökstuðningur

eftir Guðmund Heiðar Frímannsson

Tjáningarfrelsið: forsendur og rökstuðningur1

I

Tjáningarfrelsið er grundvallaratriði í nútímalegri og upplýstri samfélagsskipan. Það hefur verið bundið í stjórnarskrá á Íslandi frá því að við fyrst fengum slíkt plagg frá Kristjáni konungi níunda árið 1874. Þá var ákvæðið um tjáningarfrelsið að vísu orðað svo að í landinu ríkti prentfrelsi og lá kannski ekki ljóst fyrir hvort þessi frelsisregla gilti um aðra tjáningu en á prenti. Ekkert mál kom til kasta Hæstaréttar Íslands fyrr en árið 1994 þar sem reyndi á skilning á hugtakinu prentfrelsi.2 Þá var það niðurstaða réttarins að skilja bæri prentfrelsisregluna almennum skilningi og hún ætti við um málfrelsi en ekki einvörðungu prent. Ári síðar var síðan samþykkt breytt stjórnarskrá þar sem tjáningarfrelsið var orðað svona í 73. grein:

„Allir menn eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samræmist lýðræðishefðum.“

Það er ástæða til að taka eftir nokkrum atriðum í þessari grein stjórnarskrárinnar. Það fyrsta er að hún festir þá grunnreglu fyrir íslenskt samfélag að öllum er frjálst að hafa skoðanir. Í öðru lagi þá segir að láti menn skoðanir sínar í ljós þá verði þeir að ábyrgjast þær fyrir dómi. Í þriðja lagi þá er kveðið á um að ritskoðun sé ekki heimilt að leiða í lög. Í fjórða lagi þá er kveðið á um að einungis sé heimilt að reisa tjáningarfrelsinu skorður með lögum og þau lög verði að setja í tilteknu markmiði sem tilgreind eru: þau verði að byggjast á allsherjarreglu, öryggi ríkisins, heilsuvernd, almennu siðgæði og vernda réttindi og mannorð annarra. Þau verði einnig að uppfylla tvö viðbótarskilyrði: lögin verði að vera nauðsynleg og samræmast lýðræðishefðum.

Það má greina á milli þess að hafa skoðun, láta hana í ljósi og að meðtaka hana frá einhverjum öðrum. Í íslensku stjórnarskránni er einungis rætt um tvo fyrstu möguleikana en það verður samt að líta svo á að hún nái til þriðja möguleikans í ljósi þess að Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur verið lögtekinn á Íslandi og í honum er alveg skýrt að tjáningarfrelsið nær til þess að taka við upplýsingum og sjónarmiðum frá öðrum rétt eins og að hafa tilteknar skoðanir og að láta þær í ljósi. 10. gr. 1. mgr. sáttmálans hljóðar svo:

„Sérhver maður á rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda: Ákvæði þessarar greinar skulu eigi hindra ríki í að gera útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndafyrirtækjum að starfa aðeins samkvæmt sérstöku leyfi.“3

Almennt má orða það svo að tjáningarfrelsi er talið fela í sér þrenns konar frelsi nú á tímum: málfrelsi, skoðanafrelsi sem skiptist í sannfæringarfrelsi og birtingarfrelsi og að síðustu upplýsingafrelsi sem er rétturinn til að afla sér upplýsinga og dreifa þeim.4 Þetta er umfang tjáningarfrelsisins í nútímanum.

Í okkar samfélagi ríkir ekki ágreiningur um að tjáningarfrelsi sé grunnregla, þ.e. regla sem ekki er vikið frá nema þungvægar ástæður séu fyrir hendi og þær ástæður eru undantekningar. Tjáningarfrelsi er hið eðlilega ástand sem við kjósum að búa við. Það hefur ekki alltaf verið svo. Það var baráttumál í frægustu byltingum átjándu aldarinnar, þeirri frönsku og þeirri bandarísku. Þessi regla var lögtekin á nítjándu öldinni á Íslandi en verður ekki ríkjandi grunnregla fyrr en á þeirri tuttugustu. Ágreiningurinn á tuttugustu öldinni og nú stendur fyrst og fremst um undantekningar frá þessari reglu. Hvenær er heimilt að víkja frá því að menn njóti tjáningarfrelsis? Í stjórnarskránni er mælt fyrir um þær tegundir tilvika sem heimila frávik frá reglunni eins og ég nefndi áðan: allsherjarregla, öryggi ríkisins, heilsuvernd, siðgæðisvernd og réttindi annarra og mannorð. Þegar þessi atriði voru sett inn í stjórnarskrána þá var það umdeilt. Gagnrýnendur töldu að þessi listi væri of víður og gæfi ríkinu of rúmar heimildir til að takmarka tjáningarfrelsið. Nokkur mál hafa komið til kasta Hæstaréttar þar sem reyndi á skilning á þessu ákvæði stjórnarskrárinnar. Björg Thorarensen prófessor nefnir þrjú atriði sem einkenna túlkun réttarins á tjáningarfrelsisreglunni. Í fyrsta lagi þá séu íslenskir dómstólar reiðubúnari en áður að reisa dóma sína á alþjóðlegum sáttmálum. Í öðru lagi þá njóti tjáningarfrelsið aukinnar verndar eftir samþykkt íslensku stjórnarskrárinnar 1995 en áður. Í þriðja lagi þá hafi meðalhófsreglan hlotið aukið vægi.5 Ótti gagnrýnenda tjáningarfrelsisákvæðisins hefur því ekki reynst eiga við rök að styðjast heldur hefur vernd tjáningarfrelsisins aukist eins og málsvarar breytts ákvæðis héldu fram.

II

Með fullri virðingu fyrir lögum og lögfræði þá hljóta grunnrökin fyrir tjáningarfrelsinu að vera heimspekileg, siðferðileg en ekki lögfræðileg. Ástæðan fyrir þessu er einföld. Lögfræði fæst við að skýra og greina lög, sáttmála og stjórnaskrár og aðrar þær réttarheimildir sem við eiga. Þegar lögspekingar deila um ólíkan skilning á lögum eða stjórnarskrá þá hljóta endanleg rök í málinu að vera kennivaldsrök eða afbrigði af þeim: Annað hvort er vísað til annarra laga, stjórnarskrár eða æðri sáttmála til að skera úr um lagaskýringu eða túlkun. Lagatúlkunin má ekki beinlínis ganga gegn lagatextanum sem hún á að skýra. Þótt lög séu sjálfstæður veruleiki þá eru þau ekki óháð öðrum hlutum mannlegs veruleika. Við virðum ekki tjáningarfrelsisreglu vegna þess eins að hún er tjáningarfrelsisregla heldur vegna þess að hún stuðlar að því að móta manneskjulegt, lífvænlegt og gott samfélag. Hún styðst því á endanum við siðferðileg rök. Það veikir siðferðileg rök vísi þau til kennivalds: Þau geta ekki höfðað til þess sem ekki viðurkennir kennivaldið. Þau verða að vera almenn, helst þannig að allir geti fallist á forsendur þeirra. Ég einbeiti mér að siðferðilegum rökum fyrir tjáningarfrelsi.

Tjáningarfrelsið er iðulega rökstutt með því að það stuðli að því að sannleikurinn komi í ljós í hverju máli, það eyði ranghugmyndum, sé nauðsynlegur þáttur lýðræðis og ekki alltaf haft fyrir því að útskýra hvað í þessum atriðum felst. Allt eru þetta prýðilegar ástæður en þær eru þess eðlis að fjalla þarf nokkuð um þær og skýra til að maður átti sig fyllilega á hvað þær þýða nákvæmlega. Ég hyggst skoða tvær klassískar málsvarnir tjáningarfrelsisins. Önnur er eftir þýska heimspekinginn Immanuel Kant (1724-1804) í ritgerð hans „Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?“6 Hin er í ritinu Frelsið eftir enska heimspekinginn John Stuart Mill (1806-1873).7 Í báðum þessum ritum eru borin fram rök fyrir hugsunarfrelsi og málfrelsi eða með öðrum orðum fyrir tjáningarfrelsi.

Immanuel Kant

Kant leitast við í ritgerð sinni að gera grein fyrir forsendum upplýsingarinnar, þeirrar miklu hreyfingar í andlegu lífi átjándu aldarinnar. Upplýsing í hans skilningi felst í því að losna úr viðjum ósjálfræðis sem er vanhæfni til að nota eigin hyggjuvit án leiðsagnar annarra. Eina skilyrðið til að mennirnir losni úr ánauð ósjálfræðisins er frelsið. Kant skýrir frelsið sem gerir þetta mögulegt þannig að það sé frelsi til að nota skynsemina óheft á opinberum vettvangi. Hann telur hins vegar að ekkert sé athugavert við að takmarka notkun skynseminnar á einkavettvangi eins og hann nefnir það. Það eru því tvenns konar sjónarmið til frelsisins sem skoða verður á þessum tvenns konar vettvangi. En hver er þessi tvenns konar vettvangur? Það er rétt að benda lesendum á að Kant leggur ekki hefðbundinn skilning í hugtökin einka- og opinber vettvangur. Hann skýrir það sjálfur þannig í ritgerðinni að opinber vettvangur sé sá vettvangur þar sem skynseminni er beitt af sérfróðum manni frammi fyrir almenningi eða lesendahópi sínum. Einkavettvangur í skilningi Kants er sá vettvangur sem markast af borgaralegri stöðu hvers og eins eða því starfi eða embætti sem hann gegnir. Það eru augljós sannindi að í stofnunum og fyrirtækjum verða starfsmenn að vera reiðubúnir að framkvæma fyrirmæli yfirmanna sinna án þess að andmæla eða rökræða um það í hvert sinn hvort þeir eigi að framfylgja því sem fyrir þá er lagt. Í stofnunum á borð við her eða lögreglu er þetta alveg augljóst en í öðrum stofnunum og fyrirtækjum eiga svipuð sjónarmið við.

Það er mikilvægt að hafa í huga að Kant heldur því fram að sömu einstaklingar geti bæði gegnt tilteknum stöðum og sætt ýmis konar takmörkunum á málfrelsi sínu þegar þeir gegna stöðum sínum. En þessir sömu einstaklingar eiga að hans áliti að vera undanþegnir þessum takmörkunum þegar þeir eru að tala til almennings. Þannig gæti liðþjálfi sem hlýddi yfirmönnum sínum í hvívetna verið óbundinn af skyldum sínum við þá ef hann skrifaði grein eða bók um kosti og lesti herja og herþjónustu. Þá væri óviðunandi að honum væru sett skilyrði því að frjáls rökræða er eina örugga leiðin til að venja menn við að skilja og meta ólík sjónarmið í því skyni að þeir nái tökum á sjálfræðinu.

En er Kant þá að halda því fram að hin opinbera beiting skynseminnar sem hann kallar svo sé engum takmörkunum háð? Það er ljóst af því sem hann segir í þessari ritgerð að hann er ekki að neita því að lög geti takmarkað opinbera beitingu skynseminnar. Ef athugasemdir um skattlagningu væru það óskammfeilnar að þær væru líklegar til að valda almennri óhlýðni gæti borgarinn sem setti þær fram sætt refsingu. En það þýðir ekki að yfirvöld hafi almenna heimild til að móta skoðanir, takmarka upplýsingar eða binda eitthvert fyrirkomulag samfélagsins fast í lög um aldur og ævi. Það hafa engin yfirvöld heimild til þess. Endanlegur mælikvarði á hvað yfirvöldum er heimilt er hvort þjóðin myndi sjálf setja sér þau lög sem fyrirhuguð eru. Ritskoðun styðst ekki við nein skynsamleg rök því hún er annað hvort harðstjórn eða brýtur regluna um aðCaeser non est supra grammaticos, keisarinn er ekki hafinn yfir málfræðingana. Í þessum orðum Kants felst sú skoðun að það er ekki mögulegt að lögbjóða sannindi í neinu máli, keisarinn er því eins og allir aðrir í nákvæmlega sömu aðstöðu og málfræðingarnir, tilgátur hans og þeirra verða að sæta rannsókn og rökræðum áður en komist er að niðurstöðu sem ræðst af efni máls en ekki ólíkri borgarlegri stöðu. Það hníga því engin rök að ritskoðun og ekki er mögulegt að halda því fram að þjóðin myndi sjálf leiða ritskoðun í lög. Slík lög eru í beinni andstöðu við sjálfræði þegnanna.

Það má orða það svo að Kant glími við þá spurningu í þessari ritgerð hvernig það geti farið saman að þegnar séu sjálfráðir og um leið sé hægt að ætlast til að þeir hlýði lögunum. Svar hans er að gera megi kröfu um hlýðni á einkavettvangi en á opinberum vettvangi hljóti frelsisreglan að gilda með sem minnstum takmörkunum og engum örðum en þeim sem þjóðin væri líkleg til að setja sér sjálf.

John Stuart Mill

Mill er í bók sinni að leiða almenn rök að því að virða frelsisregluna í samfélagi manna. Tjáningarfrelsið er sérstakt dæmi fyrir honum um frelsisregluna. Almennt gildir um frelsisregluna, og tjáningarfrelsið þar með, að hún stuðlar að auknum þroska almennings. Frelsið hefur því góðar afleiðingar fyrir þá sem njóta þess, það er nytsamlegt. Mill taldi það æðsta mælikvarða á réttmæti reglna og athafna hvort þær væru gagnlegar, stuðluðu að heill og hamingju sem flestra. Þessi mælikvarði er mjög sveigjanlegur og virðist eiga erfitt með að styðja lítt frávíkjanlega grunnreglu á borð við frelsisregluna og tjáningarfrelsið en til þess að tjáningarfrelsi sé raunverulegt frelsi verður það að gilda með fáum og skýrum undantekningum. Mill rökstyður í bók sinni hvernig þetta getur farið saman.

Skilningur Mills er sá að frelsisreglan gildi óskoruð um allar athafnir sem varða mann sjálfan fyrst og fremst en um athafnir sem varða aðra hafi samfélagið fulla heimild til að vernda hagsmuni annarra. Þessi greinarmunur á athöfnum sem varða aðra og varða mann sjálfan er grundvallaratriði í kenningu Mills. Til að skýra hann frekar þá er rétt að nefna dæmi: dæmigerð athöfn sem varðar aðra fyrst og fremst er kaup og sala, dæmigerð athöfn sem varðar mann sjálfan fyrst og fremst er að ég fæ mér vínglas. Ef tjáning fellur í flokk athafna sem varða aðra og hagsmuni þeirra þá er eðlilegt að sá sem lætur í ljós skoðun sína beri ábyrgð á orðum sínum. En nú er tjáning sérstaks eðlis, skoðun manns er ekki sams konar hlutur og eign og tjáning hennar er athöfn sem hefur nokkra sérstöðu. Skoðanir hvers og eins á hverju sem er eru mikilvægur hluti persónunnar. Við höfum skoðanir á öllu milli himins og jarðar og okkur er heimilt bæði að hafa þær, tjá þær og taka við þeim þegar við búum við tjáningarfrelsi. Ef skoðanirnar eru á persónunni sjálfri og hennar eigin lífi varðar tjáning þeirra fyrst og fremst hana sjálfa en séu þær skoðanir á öðrum persónum eða athöfnum þeirra þá varða þær aðra. Tjáning þeirra skoðana er ekki einkamál heldur varðar aðra fyrst og fremst. En ef svo er hafa yfirvöld þá eða ættu þau að hafa rýmri rétt til að takmarka tjáningarfrelsið en við eigum nú að venjast? Það er ein spurning sem vaknar í ljósi þeirra sjónarmiða sem Mill heldur fram. En hvað segir hann sjálfur? Á einum stað í bókinni segir hann:

„Þótt gervallt mannkyn, að einum frátöldum, væri sömu skoðunar og aðeins þessi eini á öndverðum meiði, þá hefði mannkynið engu meiri rétt til að þagga niður í honum en hann til að þagga niður í því, væri það í hans valdi. Ef skoðun manns væri einkaeign og öðrum mönnum einskis virði og eigandanum einum til meins að vera varnað skoðunar sinnar, þá skipti máli, hvort einungis fáir væru beittir slíkum órétti eða fjöldi manna. En skoðanir eru ekki einkaeign. Ef skoðun er meinað að njóta sín, þá er gervallt mannkynið rænt eign sinni.“8

Það er ýmislegt eftirtektarvert í þessum orðum Mills. Það mikilvægasta er að hann lítur svo á að skoðanir séu ekki einkaeign og mannkyn eigi mikið undir því að skoðanir fái óhindrað að koma fram. Hann virðist líta svo á að skoðanir séu eign almennings og það séu hagsmunir almennings að skoðanir komi fram óhindrað og skoðanaskipti eigi sér stað án þess að menn þurfi að óttast það að þeim verði refsað fyrir skoðanir sínar nema að svo miklu leyti sem þær skaða aðra.

Skv. kenningu Mills og í huga flestra frjálslyndra stjórnspekinga er skaði eða tjón annars gild ástæða fyrir því að takmarka tjáningarfrelsið rétt eins og annað frelsi. Skaði í þessu samhengi getur verið af ýmsu tagi. Hann gæti verið líkamlegt tjón, eignatjón og mannorðsmissir. Önnur gild ástæða til að takmarka frelsi og tjáningarfrelsi getur verið hneykslun eða móðgun sem verknaður eða athöfn kann að valda. Hér er ekki um að ræða líklegt tjón, eignatjón eða eitthvað af því tagi heldur hafa orð eða athafnir eins þau áhrif á annan að honum mislíkar, honum líður illa eða að honum og því sem honum er heilagt er sýnd vanvirðing. Við skulum nefna ástæðu af þessu tagi meingerð sem getur verið ólögmæt að vissum skilyrðum uppfylltum. Sumir frjálslyndir stjórnspekingar líta svo á að skaði eða tjón sé eina gilda ástæða til að takmarka frelsi fólks. Aðrir telja að bæði tjón og meingerð séu mögulegar ástæður sem hægt er að nota til að rökstyðja takmarkanir á tjáningarfrelsi og öðru frelsi.9Mill virðist sjálfur þeirrar skoðunar að valdsvið samfélagsins yfir einstaklingnum sé bundið við það þegar aðrir eru skaðaðir eða þeim er hætta á skaða eða tjóni. Hann segir: „Í sem fæstum orðum: hvenær sem öðrum einstaklingi eða almenningi er bakað tjón eða búin hætta á tjóni, ber að beita reglum siðferðis og laga. Að öðru leyti er hver einstaklingur frjáls.“10

Um skoðanir gildir að þær geta verið sannar, ósannar eða sambland af þessu tvennu. Mill skoðar hvert tilvik fyrir sig og veltir fyrir sér hvort ekki kunni að vera réttlætanlegt að banna skoðanir í þessum flokkum. 1. Ef banna á skoðun sem er rétt virðist nokkuð ljóst að sá hópur sem stendur fyrir því glatar aðgangi að sannindum sem geta skipt miklu máli. Ef yfirvöld taka sér það vald að banna tiltekna skoðun og hún er rétt þá byggist bannið á því að menn telja sig vita betur. Raunar tekur Mill heldur dýpra í árinni og segir að slíkt bann byggi á að við teljum okkur óskeikul. Hann telur að þegar einn tekur ákvörðun fyrir annan um hvaða skoðun er leyfileg eða hvaða skoðun er bönnuð og skoðunin sem bönnuð er er sönn þá hljóti slíkt bann að byggja á óskeikulleika. En það liggur í lýsingu á dæminu að slíkur óskeikulleiki getur ekki verið fyrir hendi. Það er gefið að skoðunin er sönn og þess vegna skjátlast þeim sem setur bannið. En þessu kann líka að vera öðruvísi farið. Það kann að vera að skoðunin sé sönn og allir geri sér grein fyrir því en hún sé svo hættuleg að það verði að banna hana. 2. Ef skoðunin sem banna á er ósönn virðist litlu fórnað. En Mill bendir á að þá glötum við tækifæri til þess að ljósta saman sönnum skoðunum og ósönnum, réttum og röngum, og getum því ekki vitað með jafn áreiðanlegum hætti og ella hvort sú skoðun sem við teljum rétta sé það í raun. Átök á milli ólíkra skoðana virðast vera forsenda þess að við fáum ástæðu til að trúa því að ein skoðun sé réttari en önnur ef við erum á annað borð að reyna sjálf að komast að raun um sannindi tiltekinna skoðana. 3. Síðasti möguleikinn er sá sem líklegastur er á hverjum tíma, að viðtekin skoðun sé sambland af því sem satt er og ósatt og engin tök séu á því að leiðrétta skoðanir nema ólík sjónarmið fái að koma óhindrað fram. Allar þessar röksemdir Mills virðast mér byggjast á þeirri forsendu að skoðanir séu ekki einkaeign heldur almenningseign og því hljóti að gilda um þær almennar reglur rétt eins og um þær athafnir sem varða fyrst og fremst aðra. Það eru því ekki hagsmunir eða réttindi hvers og eins sem ráða því að skynsamlegt er að styðjast við grunnregluna um tjáningarfrelsið heldur almannaheill í kenningu Mills.

Þessi kenning Mills er ekki óumdeild. Þegar bókin kom út um miðja nítjándu öld þá voru tjáningarfrelsisrökin gagnrýnd á þeirri forsendu að ekki væri hægt að leiða niðurstöðu um athafnir sem varða aðra fyrst og fremst af athöfnum sem varða mann sjálfan, það er að segja ekki væri hægt að leiða málfrelsið af hugsunarfrelsinu. Ef ég nota orðalag sem ég setti fram að ofan þá væri ekki hægt að fara frá rökum fyrir því að hafa skoðun til raka fyrir því að láta skoðun í ljósi. Mér virðist þetta ekki sannfærandi gagnrýni á Mill einmitt vegna þess að hann lítur beinlínis svo á að skoðanir séu ekki einkaeign og varði þess vegna ekki fyrst og fremst þá sem hafa þær heldur séu þær almenningseign. Ef skoðun er almenningseign þá þurrkast út munurinn á því að hafa skoðun sem athöfn sem varðar mann sjálfan og að láta skoðun í ljósi sem athöfn sem varðar aðra fyrst og fremst. Andmælendurnir virðast ekki hafa lesið verk Mills gaumgæfilega.

Önnur athugasemd við rök Mills er sú að hann rökstyðji ekki af hverju hann telji að tjáningarfrelsi leiði til þess að sannleikurinn komi í ljós, hann virðist einungis ganga að þessu vísu.11 Af hverju ætli hann geri það? Ástæðan virðist fyrst og fremst sú að hann gengur að því vísu að skoðanir sem settar eru fram séu ræddar í þaula, á þær sé hlustað og þær gagnrýndar. En tjáningarfrelsið eitt og sér tryggir í sjálfu sér ekkert um það að menn skiptist á skoðunum, takist á um ólík viðhorf. Reglan heimilar einungis að allir láti í ljósi skoðanir sínar, reglan sem slík gerir enga kröfu um að aðrir taki mark á því sem maður segir, hlusti og rökræði. Mér virðist þetta vera skynsamleg athugasemd við röksemdir Mills en hann kann enn að eiga sér nokkurt hald í því að skoðanir séu ekki einkaeign heldur almenningseign og þess vegna sé líklegt að aðrir nálgist þær á þeim forsendum að þær séu settar fram af einlægni og í þeim ásetningi að segja eitthvað sem er líklegt til að vera satt. En það getur alltaf hent að það sem maður lætur frá sér fara sé ekki skýrt orðað, of flókið og óskiljanlegt og nær því ekki til lesanda eða áheyranda. Meðal annars þess vegna getur stundum farið svo að framsetning skoðana kalli ekki fram nein viðbrögð, fari fyrir ofan garð og neðan hjá öllum þorra viðtakenda og stuðli þess vegna ekki að því að sannleikurinn komi fram í því máli sem um er fjallað. En Mill á sér það til afbötunar að hann gæti sagt að auðvitað kynni þetta að gerast en að öðru jöfnu, sé hugsun sett fram, ætti hún að kalla fram viðbrögð. Hið eðlilega samhengi þess að hugsanir eru látnar í ljósi er í samskiptum tveggja eða fleiri manneskja.

 

Tilvísanir

1. Þessi grein var lesin hugvísindaþingi við Háskóla Íslands. Hún er hluti af lengra verki sem mun birtast í Ritinu.

2. Páll Sigurðsson. 1997. Fjölmiðlaréttur. Meginþættir réttarumhverfis fjölmiðlanna. Háskólaútgáfan, Reykjavík. Bls. 57. Jón Steinar Gunnlaugsson er þó annarrar skoðunar. Sjá Jón Steinar Gunnlaugsson. 1987. Deilt á dómarana. Um túlkun Hæstaréttar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Almenna bókafélagið, Reykjavík. Bls. 23-56, sérstaklega 43-45. Hann telur að reynt hafi á skilning (eða skilningsleysi) réttarins á þessu ákvæði í máli saksóknara gegn Frjálsri fjölmiðlun. Ég tek ekki afstöðu til þessa atriðis hér.

3. Sjá t.d. http://www.althingi.is/altext/117/s/0105.html. Sótt 12.10. 2004. Sjá einnig Hörður Einarsson. 1997. Tjáningarfrelsi og fjölmiðlar. Reykjaprent, Reykjavík. Í bókinni fjallar Hörður um hvernig íslenskir dómstólar hafa lagað sig að Mannréttindasáttmála Evrópu, sérstaklega eftir lögfestingu hans árið 1994. Sjá sérstaklega fjórða og fimmta kafla, bls. 25-57.

4. Páll Sigurðsson. Sama rit. Bls. 52.

5. Björg Thorarensen. 2004. „Reform af grundlovbestemmelsen om ytringsfrihed i Island – Erfaring og perspektiver.“ Í Ytringsfrihed og konstitusjonelt vern – rapport fra et nordisk seminar i Oslo 2003. TemaNord 2004:509. Bls. 27-36.

6. Immanuel Kant. 1784/1993. „Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?“, Skírnir, 167 haust. (Elna Katrín Jónsdóttir og Anna Þorsteinsdóttir þýddu). Bls. 379-387.

7. John Stuart Mill. 1859/1970. Frelsið. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík

8. John Stuart Mill. 1859/1970. Sama rit, bls. 54

9. Sjá Joel Feinberg. 1984. The Moral Limits of the Criminal Law. Vol. 1 Harm to Others. New York, Oxford University Press, og Joel Feinberg. 1985. The Moral Limits of the Criminal Law. Vol. 2 Offense to Others. New York, Oxford University Press. Þessar tvær bækur eru fyrstu tvö bindi í fjögurra binda verki um mörk laga í frjálslyndri samfélagsskipan. Eins og nöfnin gefa til kynna fjallar fyrsta bindið um skaða og annað bindið um móðgun eða hneykslun sem ég legg til að nefnd verði meingerð. Feinberg er þeirrar skoðunar að meingerð geti verið gild ástæða þess að takmarka frelsi. En það er ekki sama hvers eðlis meingerðin er. Hugtakið ólögmæt meingerð kemur fyrir í 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þar sem kveðið er á um að heimilt sé að dæma mann til að greiða miskabætur sem ber ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns. Ingibjörg Elíasdóttir lögfræðingur og aðjúnkt við Háskólann á Akureyri benti mér á þetta atriði í skaðabótalögum.

10. Sjá John Stuart Mill. 1859/1970. Sama rit, bls. 150.

11. Báðar þessar athugasemdir eru raktar í grein Onora O´Neill „Rethinking Freedom of the Press“ (í handriti), 2. hluti greinarinnar. O´Neill veltir ekki fyrir sér hugsanlegri málsvörn Mills.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *