Hver er þá hræddur við Christian Wolff?

Um frumspeki þýska heimspekingsins Christian Wolffs (1679-1754)

eftir Henry Alexander Henrysson

Þegar nemar í heimspeki eða hugmyndasögu heyra nafn Wolffs fyrst nefnt (ef það gerist þá yfirhöfuð) er það yfirleitt í samhengi við risana tvo í þýskri heimspekisögu fyrir 19. öld, þ.e.a.s. Leibniz og Kant. Fáir athuga síðar hvort það sé ástæða til að leggja sig eftir því að kynnast heimspeki hans sérstaklega. Líklega er orsök þess fremur ljós. Sú viðkynning sem menn hljóta í almennum uppflettiritum um heimspeki og heimspekisögu vekur sjaldnast mikið hungur til þess að kynnast verkum hans frekar, hvað þá flóknari atriðum þeirra.

Christian Wolff fæddist 24. janúar árið 1679 í bænum Breslau sem nú tilheyrir Póllandi og heitir þar Wroclaw. Hann var alinn upp og menntaður í ströngum lútherskum anda og gerðu menn fremur ráð fyrir því að hann myndi læra til prests. Breslau var hins vegar að mestu kaþólskur bær og flestir vinir Wolffs voru aldir upp við kaþólskar trúarsetningar og því fór svo að sem ungur maður þá dvaldi hann löngum stundum með félögum sínum og rökræddi trúmál. Eins og svo margir mótmælendur á þessum tíma fann hann fljótt fyrir því að hann hafði ekki stuðning af eins öflugum verkum um heimspeki og trú og kaþólikkar höfðu. Því lagðist hann yfir verk skólaspekinga eins og heilags Tómasar og Suárez til þess að búa sig betur undir rökræðurnar. Einnig leitaði hann í verk örfárra höfunda sem höfðu reynt um miðja 17. öldina að laga verk Suárez að lútherskunni. Fór svo að Wolff náði nokkrum frama innan hins smáa menntasamfélags Breslau sem sérlega ákveðinn dispútant. Wolff segir sjálfur seinna að þessar rökræður hafi hins vegar haft þau áhrif að hann varð afhuga þess konar rökræðum um trúmál og allri þeirri sérvisku sem fylgir þannig flokkadráttum og því hafi hann í æ meira mæli farið að halla sér að stærðfræðinni og þess öryggis og vissu sem hún bjóði upp á.

Tvítugur að aldri innritaðist Wolff í háskólann í Jena, þar sem Erhard Weigel hafði gert garðinn frægan með ritum sínum um stærðfræði, þekkingarfræði og aðferðafræði vísinda. Þar vakti hann fljótt athygli fyrir skrif sín um hvernig mætti nota aðferðir stærðfræðinnar í siðfræði og varð hann kennari í stærðfræði við skólann þrátt fyrir að hann væri enn ungur að árum. Það var á þessum fyrstu árum hans í hinu akademíska umhverfi sem hann vakti athygli Leibniz, sem hafði töluvert álit á þessum unga manni sem stærðfræðingi, en réð honum frá því að fást við þá heimspeki sem Wolff var í auknum mæli farinn að fást við. Árið 1706 fór svo að Leibniz og fleiri áhrifamiklir menn studdu Wolff í stöðu stærðfræðiprófessors í hinum ört vaxandi háskóla í Halle sem er skammt frá Leipzig. Þar var píetísk heimspeki ríkjandi og var hún honum lítt að skapi, enda uppfull af efasemdum um möguleika mannsins til að öðlast skýra og sanna þekkingu á heiminum. Tók hann þegar að halda fyrirlestra um heimspeki. Fyrirlestrarnir höfðu fremur skólaspekilegan stíl, en þar sem hann notaðist einnig við margar af frumforsendum Leibniz og var þar að auki fyrsti kennarinn í þýskum háskóla til þess að kenna örsmæðareikninginn í þeirri mynd sem Leibniz notaði, þá voru margir þeirrar skoðunar að Wolff væri ekkert annað en lærisveinn hirðmannsins frá Hannover. Hvaðan áhrifin komu varð þó fljótt að aukaatriði þar sem nafn Wolffs sem heimspekings öðlaðist fljótt meiri frægð en nafn Leibniz. Það kom fyrst og fremst til af því að Wolff varð gríðarlega afkastamikill höfundur heimspekiverka á þýsku og má í raun segja að hann hafi skapað hinn þýska heimspekilega orðaforða í þessum verkum. Verkin lofuðu öryggri þekkingu til handa þeim sem kynnu að beita stærðfræðilegri hugsun á allt milli himins og jarðar. Þau voru hvorki sérstaklega aðgengileg, fyrir utan að vera skrifuð á móðurmálinu, né skemmtileg en náðu þó gríðarlegri útbreiðslu og frægðarsól Wolffs tók að rísa hærra og hærra um alla Evrópu. Vísindaakademíunum í öllum helstu borgum Evrópu fannst ekki annað hægt en að bjóða þessum lærða prófessor að gerast félagi og bækur hans voru kenndar í öðrum þýskum háskólum. Hinn þýskumælandi heimur hafði eignast sinn eigin heimspeking.

Í Halle var hins vegar ekki allt með felldu. Heimildum ber engan veginn saman um hverjar voru hinar raunverulegu ástæður fyrir öldurótinu í þessum annars friðsæla prússneska háskóla, en það er ljóst að eftir því sem frægð Wolffs jókst þá unnu fleiri og fleiri markvisst gegn honum. Líklega var öfund helsta rót þessarar ókyrrðar, en innan veggja skólans voru menn sem höfðu náin tengsl við Friðrik Vilhjálm I. konung og áttu þeir auðvelt með að finna klöguefni á hinn sífellt sjálfsöruggari stærðfræðiprófessor. Fyrsta stóru klögumálið var að Wolff ynni gegn hinum píetíska anda ríkisins í þeim verkum sínum sem lofuðu austurlenska heimspeki þar sem hún sýndi fram á einhvers konar náttúrulegt siðferði sem þyrfti ekki á opinberuninni að halda. Einnig litu yfirvöld hornauga hina almennu rökhyggju sem kom fram í heimspeki Wolffs og sem margir honum andsnúnir túlkuðu sem hreina löghyggju. Fór svo á endanum að árið 1723 var Wolff gert að yfirgefa Prússland innan sólarhrings og fáum árum seinna voru öll verk hans bönnuð.

Þessi gjörningur, sem var ætlað að þagga niður í Wolff, snérist fljótt upp í andhverfu sína. Hann fékk stöðu í Marburg og hófst þegar handa við að endurskrifa (og endurbæta) verk sín á þýsku yfir á latínu til þess að ná til víðari lesendahóps. Þessi nýju verk ásamt þeirri frétt að hann væri heimspekingur sem hafði orðið að flýja dauðadóm vegna skoðana sinna varð til þess að frægðarsól hans reis upp fyrir sjóndeildarhring alls hins lærða heims. Jafnvel lærdómsheimur píetista tók hann upp á sína arma, þar sem hann þótti skömminni skárri en allur sá deismi sem þá var að spretta upp. Á um tuttugu ára tímabili frá 1730 til 1750 var hann án nokkurs vafa frægasti hugsuður Evrópu. Friðrik mikli tók við krúnunni árið 1740 og kallaði Wolff þegar til baka til Halle þar sem hann tók við aðalstign og lauk ferli sínum. Fyrirlestrar hans þóttu ekki merkilegir undir lokin, en hann var þeim mun afkastmeiri í ritstörfum sínum. Yngri menn sáu líka um að breiða út heimspeki hans sem var ráðandi við flesta háskóla og aðrar æðri menntastofnanir í Norðurevrópu.

Þrátt fyrir að wolffískar kennslubækur hafi verið kenndar allt fram á 19. öld í mörgum þessara skóla er einkennilegt hvernig varla er minnst á heimspeki hans í verkum sem fjalla um hápunkt upplýsingarinnar. Hvernig má það vera að stærsta nafn í heimspeki þeirrar aldar sem kennd er við upplýsingu svo til gufar upp? Ástæður þessa eru að sjálfsögðu of flóknar til þess að það sé hægt að fara í þær hér. Eftir miðja öldina verða flókin pólitísk straumhvörf sem við erum ennþá að vinna úr. Margt af því sem við kennum við upplýsinguna á sér kannski litla rót í raunveruleikanum. Sérstaklega er okkur hætt við að fegra um of menn og málefni sem voru ofarlega á baugi á þessum tíma og láta eins og það sem fellur ekki að þeirri mynd hafi verið fremur tilfallandi og ekki raunverulegur hluti anda upplýsingarinnar. Í raun og veru má segja að það hversu erfitt er að henda reiður á upplýsingunni sé um leið eðli hennar. En það er ekki þar með sagt að maður geti þar af leiðandi dregið þá ályktun að upplýsingin hafi verið byggð á röngum forsendum og að grundvöllur hennar sé meingallaður. Það sem snýr að fræðimönnum samtímans er að greiða úr þeim flókna vef sem þræðir hugmyndasögu 18. aldar flæktust í eftir því hvernig pólitískir vindar blésu.

Ef við horfum framhjá þessum flækjum mætti einnig nefna hvernig persónuleiki Wolffs og framsetning hans á eigin heimspeki hafa ekki hjálpað honum að haldast á þeim stalli í heimspekisögunni sem honum ber. Wolff var aldrei lítillátur maður og fáir heimspekingar hafa gefið sig jafn mikið út fyrir, á yfirborðinu að minnsta kosti, að hafa fram að færa hinn eina sanna veg til þekkingar á heiminum. Eftir að brottreksturinn frá Halle hafði gert hann að stjörnu upplýsingarinnar um alla Evrópu jókst sjálfsálit hans upp úr öllu valdi. Samskipti hans við aðra heimspekinga urðu öll á einn veg: hann hafði rétt fyrir sér, og það skipti hann litlu máli á hversu margar tær hann steig innan veggja þeirra stofnana sem hann starfaði. Jafnvel í Marburg, þar sem hann mátti teljast heppinn að hafa fengið inni, sýndi hann litla diplómatíska tilburði. Margir mikilsverðir menn höfðu því litlar persónulegar ástæður til þess að lofa nafn Wolffs eftir að hann féll frá. En þetta eru þó einnig einungis vangaveltur. Hér gefst ekkert rúm til þess að kafa ofan í þessa sögu. Það sem er kannski eðlilegast að skoða nánar eru þau viðhorf til heimspeki Wolffs sem standa okkur nær í tíma og krefjast minni sagnfræðilegs skotgrafahernaðar.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *