Rödd sérviskunnar

Inngangur

„Menn verða að kunna að nýta sér feilnóturnar í þjóðfélagssymfóníunni, koma sér fyrir á réttum stöðum, undirbúa, bjarga sér. Ekkert er eins flatt og alger samhljómur. Eitthvað verður að stinga, kljúfa heildir…“
Frændi Rameaus

„Ofvöxtur persónueinkenna á sér paradís í hálfsiðun þjóða.“
Halldór Laxness

1

Íslendingar hafa löngum skemmt sér við að segja sögur af einkennilegum mönnum. Að lýsa manni af listfengi hefur verið talinn höfuðkostur góðs sagnamanns, og þá þykir ekki verra að söguefnið sé bitastætt: athafnaskáld, sérvitringur, fyllibytta, kvenskörungur, háskakvendi.

Þessi mikli áhugi á litríkum persónum er auðvitað ekkert séríslenskt fyrirbæri þótt hann virðist hafa orðið mun lífseigari hér á landi en t.d. í Frakklandi, ættlandi þeirra kumpána sem hér eru að klæðast íslenskum búningi. Frakkar hafa vitaskuld skemmt sér við að segja sögur af skrítnum mönnum og stórkarlalegum, og nægir þar að minna á persónugallerí Rabelais1 og skáldsöguna Jakob forlagasinni og meistari hans2 eftir Diderot, svo ég nefni tvö dæmi um bækur sem hafa nýverið komið út á íslensku.

Í Frænda Rameaus er þó ekki eingöngu verið að lýsa skringimenni skemmtunarinnar vegna, þótt það saki auðvitað ekki að hann er skrautlegur karakter, heldur notar Diderot hann í aðra röndina sem átyllu til að gagnrýna samtíma sinn, franskt samfélag 18. aldarinnar, sýna fram á það hvernig offágun og ofsiðun eru ekkert annað en lygi og hræsni, oft hættuleg. Sérvitringurinn er ekki einnar stéttar maður, heldur er honum hampað við borð hinna ríku einn daginn en varpað á dyr og verður að betla sér til framfæris næsta dag. Þar af leiðandi hefur hann, svipað og hinn spænski forveri hans „picaro“, sá sem píkörsku bókmenntirnar eru kenndar við, orðið vitni að misheiðarlegu hátterni ólíkra stétta þjóðfélagsins og hefur frá mörgu að segja. Sérvitringurinn hefur meiri fjarlægð á menn, málefni og þjóðfélag en meðaljóninn. Hann lítur allt gestsaugum og getur því lagt margt gott til málanna, þótt einnig geti oltið upp úr honum tóm þvæla. Hér gæti orðtakið góðkunna, „Oft ratast kjöftugum satt á munn“, átt nokkuð vel við. En hvað er satt, hvað er þvæla og hver er þess umkominn að skera úr um það? Þetta eru nokkur þeirra viðfangsefna sem Diderot er að glíma við í þessari bók.

2

Frændi Rameaus kristallar viðhorf sem kemur mjög skýrt fram hjá Diderot og skoðanabræðrum hans í Frakklandi og víðar í Evrópu um miðbik 18. aldarinnar, þróun í átt til einstaklingshyggju í nútímaskilningi þess orðs: að hver maður sé sérstakur og einstakur, og hafi fullan rétt til þess að vera það. Þess vegna eigi menn að hlusta á hann, jafnvel þótt þeir séu ekki sammála honum, jafnvel þótt þeir séu hærra settir í valda- og virðingarstiga þjóðfélagsins og ef til vill einmitt þess vegna. Þessi hugmynd er síðan hluti af þeirri hugmyndadeiglu sem er ættuð frá Forn-Grikkjum en átjándu aldar menn þróuðu síðar áfram og átti eftir að geta af sér þjóðskipulag sem nú telst vera með því merkara sem evrópsk menning hefur lagt til heimsmenningarinnar: lýðræði.

Skoðanaskipti eru ein af meginforsendum lýðræðisins, og segja má að hlutverk Diderots í hópi þeirra menntamanna sem voru í fremstu víglínu á hans tíð hafi verið að leiða menn saman, efna til skoðanaskipta. Sem annar ritstjóraAlfræðibókarinnar þurfti hann að fá menn til liðs við þau miklu áform, hann varheimspekingurinn par excellence í þeim hópi og var því stundum kallaður „bróðir Platón“. Enda var hann ekki bara fjölfróður heldur síforvitinn og leitandi. Hann leitaði upplýsinga um aðskiljanlegustu mál til vina sinna, svo sem um tónlist hjá Rousseau og Rameau, um höggmyndalist hjá Falconet, um málaralist hjá Chardin, um læknisfræði hjá Bordeu eða um efnafræði hjá Rouelle. Og hann stakk oft niður penna til að styðja vini sína Holbach, Raynal og Rousseau, en einkum virðist hann þó hafa verið þeim mikilvægur innblástur því menn voru upphafnir og eldheitir í anda þegar þeir höfðu rætt við hann, enda eru til fjölmargar heimildir um samræðusnilld Diderots. Vissulega kom fyrir að hann væri ekki í skapi til að hitta fólk og langaði til að vera einn með sjálfum sér, en samtalið var honum alla tíð andleg nauðsyn. Hugsun Diderots var díalektísk, hann hafði þörf fyrir viðmælanda til að sjá hlutina frá sem flestum sjónarhornum. Það er því skiljanlegt að hann hafi byggt obbann af verkum sínum á samtölum, ýmist beint3 eða óbeint.4 Að þessu leyti þykir Diderot hafa lyft hinni bókmenntalegu samræðulist á nýtt og æðra þróunarstig.

Margt hefur verið rætt og ritað um þetta efni, en einna merkasta framlagið er ritgerð japanska fræðimannsins Yoichi Sumis sem leiddi meðal annars gild rök að þeirri kenningu sinni að samtali mannanna tveggja í þessari bók mætti líkja við skáktafl. Annar þeirra teflir fram tiltekinni fullyrðingu, hinn kemur með mótrök sem breyta stöðunni í samtalinu (skákinni) eða hreinlega með svo sterk mótrök að hann „drepur“ það sem viðmælandinn sagði.5 Þeir reyna að skáka hvor öðrum. Samtalið er þannig nokkurs konar list, íþrótt eða leikur í sama skilningi og skákin, leikur sem eðli sínu samkvæmt lýtur tilteknum lögmálum og reglum sem þátttakendum ber að virða um leið og þeir beita hugarfluginu til að klekkja á andstæðingnum, leikur sem ýmist er ærslafullur eða háalvarlegur, rétt eins og lífið sjálft.

3

Um miðja átjándu öldina var ritskoðun franska konungsveldisins enn nokkuð ströng þótt menn kæmust upp með ýmislegt ættu þeir vin og verndara á réttum stöðum. Kirkjan gætti þess eins og henni frekast var unnt að menn héldu sig innan þeirra siðferðismarka sem hún setti, þótt þau tök sem hún hafði á þjóðinni hefðu mjög slaknað frá því sem áður var, enda var menntun ekki lengur alfarið í höndum kirkjunnar. Þó voru mönnum sem vildu ræða opinskátt nýjar hugmyndir og þjóðfélagsmál ýmsar leiðir opnar. Einkum reyndu „heimspekingarnir“ nýju að njóta frelsis á fjórum stöðum: í salonum, úti í sveit, í almenningsgörðum Parísar og á kaffihúsunum.

Fyrirbærið „salon“ er einn af lyklunum til að skilja andrúmsloft 18. aldarinnar í Frakklandi. Þetta voru menningarleg einkasamkvæmi fína fólksins þar sem ræddar voru bókmenntir og listir. Þar voru jafnvel haldnar myndlistarsýningar sem Diderot skrifaði um fyrstur manna og lagði þannig grunninn að myndlistarrýni nútímans. Saloninn hafði um miðja átjándu öld verið athvarf frjálslyndra aðalsmanna, menntamanna og betri borgara þar sem fólk kom saman til að borða, drekka, ræða landsins gagn og nauðsynjar. Og daðra, enda ríkti talsvert frelsi í kynferðismálum á þessu tímabili eins og berlega kemur fram í verkum höfunda á borð við Sade, Denon og Laclos. Um miðbik aldarinnar voru salonarnir mestmegnis haldnir heima hjá nýríkum borgurum, gjarnan konum eins og frú Geoffrin, forríkri konu sem var þekkt um alla Evrópu. Ennfremur má nefna merkiskonuna Julie de Lespinasse, fátæka konu sem hafði ung gerst handgengin markgreifaynjunni Deffand en þegar Deffand þessi varð blind á efri árum var hlutverk Lespinasse lengi vel að lesa fyrir hana. En kerlu þótti sem unga konan skyggði um of á sig í samkvæmislífinu og rak hana frá sér, þannig að Lespinasse opnaði sinn eigin salon. Þangað fóru margir ungu heimspekinganna að venja komur sínar, þar á meðal hennar ástkæri d’Alembert, vinur Diderots og samstarfsmaður viðAlfræðibókina.

Það fór mjög í taugarnar á valdamönnum, hirðmönnum og aðli að saloninn skyldi þróast frá því að vera einkasamkoma þeirra og listamanna sem þeir höfðu velþóknun á og verða fremur vettvangur borgaralegrar hugsunar og meiri léttleika en áður tíðkaðist. Rithöfundum var æ sjaldnar boðið til hirðarinnar og samskipti heimspekinganna og aðalsins fóru síversnandi, ef frá eru taldir nokkrir aðalsmenn sem beinlínis tóku þátt í þeirri hugarfarsbreytingu sem var að eiga sér stað, eins og Helvétiushjónin eða Holbach barón.

En mönnum þótti líka ákaflega gott að viðra sjálfa sig og hugmyndirnar í sveitinni: Holbach barón bauð oft vinum sínum, ekki síst Diderot, í höllina sína í Grandval. Frú Epinay bauð Rousseau og Grimm til sín í Chevrette. Voltaire tók á móti fjölmörgum aðdáendum sínum í Ferney, í Ölpunum skammt frá svissnesku landamærunum. Rousseau hélt sig hins vegar nokkuð til hlés, enn lengra frá París, einkum eftir að slitnaði upp úr vinskap hans við alfræðibókarmennina.

Fólk sækir í kyrrðina í sveitinni, en kaffihúsin laða það til sín af öðrum ástæðum. Þar er líf og fjör, menn af ólíkum stéttum og með ólíka menntun skiptast á skoðunum um allt og ekki neitt, grípa í spil eða skák. En þar eru málin líka rædd af innlifaðri alvöru og fréttir sagðar af því sem máli skiptir. Kaffihúsum þessa tíma í París má þannig á vissan hátt líkja við heita pottinn á Íslandi nú á tímum.

Fólk sem allajafna stundar kaffihúsin á vetrum færir sig út í almenningsgarðana á sumrin: í Tuileriesgarðana, Lúxemborgargarðinn, en einkum þó garðinn við Palais Royal þar sem nýjustu fréttir berast milli manna eins og eldur í sinu og ungt fólk stígur í vænginn hvert við annað eins og fram kemur í inngangi Diderots að Frænda Rameaus.

4

Þrjú verk hafa skipt mestu máli við að halda nafni Denis Diderots á lofti í menningar- og bókmenntasögunni: Franska alfræðibókin, sem hann ritstýrði ásamt d’Alembert, skáldsagan Jakob forlagasinni og meistari hans, og svo Frændi Rameaus. Sé flett upp í kennsluskrám háskóla hér og þar um heiminn á Netinu erFrændi Rameaus það verka hans sem langoftast bregður fyrir.6 Undanfarnar tvær aldir hefur þetta verk haldið áfram að koma á óvart, setja menn úr jafnvægi, kveikja síendurnýjaðan rannsóknaráhuga háskólamanna, en ekki nóg með það, heldur einnig áhuga listmálara, rithöfunda, kvikmyndagerðarmanna, tónlistarmanna og leikhúsfólks víða um heim.7

Ritunar- og útgáfusaga þessa verks er með þvílíkum ólíkindum að sú saga ein og sér væri efni í heila bók, en hér verður einungis stiklað á stóru. Diderot skrifaði fyrsta uppkastið að Frænda Rameaus á árunum 1761–62. Þegar hann hófst handa við verkið var hann í djúpri listrænni kreppu. Ástæðan fyrir henni voru vonbrigði hans með viðtökur tveggja leikrita hans sem höfðu verið sett upp í París skömmu áður, auk þess sem hann hafði þá nýlega verið hafður að háði og spotti á leiksviði þegar gamanleikurinn Heimspekingarnir eftir Palissot var frumsýndur, nánar tiltekið 2. maí 1760. Það leikrit olli heiftarlegum deilum og var sú leiksýning mikið persónulegt áfall fyrir Diderot, því að hann reyndi þá í fyrsta sinn á eigin skinni hvað menn geta lagst lágt. Gamanleikurinn var settur upp með fulltingi yfirvalda og var af hópi manna fagnað sem meistarastykki, en þjónaði þeim tilgangi einum að hafa „heimspekingana“ svokölluðu að háði og spotti og lýsti þeim sem siðlausum auðnuleysingjum. Einna hraksmánarlegust var þó lýsingin á manni að nafni Dortidíus, það er að segja Diderot, sem varð nú aðhlátursefni Parísarbúa. Hann tók þessu þó af ótrúlegri stillingu, vinum sínum til nokkurrar undrunar. En þetta var geymt en ekki gleymt og Diderot hugsaði andstæðingum sínum þegjandi þörfina.

Frændi Rameaus er þannig í aðra röndina heiftúðugt uppgjör höfundarins við samtíma sinn og andstæðinga. Hann skemmtir sér við að segja frá því að Palissot yrki vísur um vini sína, stingi undan þeim, hafi sofið eða ætlað að sofa hjá eiginkonu útgefanda síns. Hann ræðst harkalega gegn fjármálastjóranum Bertin, en hugmyndin að Heimspekingunum kviknaði einmitt heima hjá honum, og gegn leikkonunni Hus sem lék aðal kvenhlutverkið í gamanleikritinu. Og margir fleiri verða fyrir barðinu á háðfuglinum Diderot, sem gerir það að verkum að Frændi Rameaus hefur umtalsvert menningarsögulegt gildi.

Frændi Rameaus er fyrst og fremst satíra, eða háðsádeila, eins og fram kemur í titlinum. Ætlun höfundarins var einkum að lýsa þeim mönnum sem lifa sníkjulífi á öðrum, skríða fyrir öðrum, vilja láta skríða fyrir sér og leyfa öðrum að éta úr lófa sér, en einnig að ná sér hressilega niðri á andstæðingum sínum á sviði bókmennta og heimspeki. Og það má sannarlega segja að honum hafi tekist það, því að margt af því ágæta fólki væri sennilega löngu gleymt ef nöfn þess stæðu ekki í þessari bók þótt ekki sé víst að hún sé sá minnisvarði sem það hefði helst kosið sér.

5

Diderot var alla tíð ötull bréfritari og í bréfunum greinir hann gjarna frá minnstu smáatriðum í lífi sínu, en þar minnist hann varla á þetta verk. Hann talar einu sinni um Jean-François Rameau, frændann, sem hann segist hafa hitt sem snöggvast á sjötta áratugnum. Diderot var oft og einatt heldur kærulaus þegar kom að því að fínpússa og fága eigin verk, en þennan texta átti hann eftir að taka upp hvað eftir annað og endurskoða eftir að hann gerði fyrsta uppkastið að því sumarið 1761. Fyrst árið 1762, síðan 1767, 1773–74, árið 1778 og árið 1782 og enn einu sinni þegar hann var sennilega að hreinskrifa það með eigin hendi og fól síðan Grimm vini sínum það til varðveislu. Hann ætlar aldrei að hætta að krukka í það, jafnvel þótt hann kvarti hástöfum yfir „þessari pússningavinnu sem er svo vandasöm, erfið, þreytandi, slítandi, leiðinleg og ætlar aldrei að taka enda“.

Þótt Diderot barmi sér leggur hann þetta á sig vegna þess að hann veit að sjálfs sín vegna verði honum að takast það sem honum mistókst í leikritum sínum: að höndla lífið með öllum sínum andstæðum, veita þeirri fjölbreytni og ólgu sem býr í þessu efni í fagurfræðilegan farveg.

Frændi Rameaus er svo úthugsað verk að fljótt á litið virðist einhver tilfinninga- og hugmyndaríkur höfundur hafa hrist það fram úr erminni. En það er öðru nær eins og hér hefur verið drepið á. Menn hafa leitað söguþráðarins í verkinu og segja það sundurlaust. Það er hins vegar ekki söguþráður sem heldur þessari bók saman, heldur hugmyndaleg framvinda. Goethe kom auga á þetta á sínum tíma og talaði um „stálkeðjuna sem fléttur hylja augum okkar“.8

Öfugt við Voltaire og Rousseau, sem lögðu mikla alúð og vinnu í frágang verka sinna, var Diderot í sérstöku höfundarsambandi við eigin verk. Hann hélt sig alla tíð í vissri fjarlægð frá þeim og skrifaði ekki alltaf undir þau. Hann hafði um tuttugu ára skeið með höndum ritstjórn Alfræðibókarinnar, auk þess sem hann skrifaði fjölmargar greinar í hana, og virðist að því loknu hafa fengið óbeit á hinum efnislega þætti bókmenntanna og virtist ekki hafa neinn sérstakan áhuga á því að verk hans kæmu út á bók. Þegar hann lést árið 1783 voru verk hans mjög dreifð og ýmist hluti af heild, eins og í Alfræðibókinni og Sögu Indlandanna tveggja, eða birtust í handskrifuðum útgáfum eins og tímaritinu Corréspondance littéraire, sem dreift var til á annars tugar frjálslyndra tignarmanna í Evrópu, einkum í Þýskalandi, og það leið á löngu þar til menn gátu nálgast heildarverk hans á bók. Og enn þann dag í dag kemur fyrir að menn þykjast kannast við rödd og handbragð Diderots í ýmsum nafnlausum textum.

Verk Diderots eru í senn fjölbreytt og ólík innbyrðis, og er sagan að baki mörgum þeirra ærið dularfull, en þó er sagan að baki Frænda Rameaus einna dularfyllst og flóknust. Fundist hafa fimm handrit að verkinu, en þar af er aðeins eitt ritað með hendi höfundarins. Sagan af hinum ýmsu útgáfum þeirra spannar hundrað og fimmtíu ár og margt óvænt hefur komið á daginn, líkt og í verkinu búi angi af þeirri sérvisku og ólíkindalátum sem einkenna höfundinn.

6

Fyrsta útgáfan af Frænda Rameaus var þýsk þýðing Goethes á bókinni sem kom út í maí 1805, tuttugu og tveimur árum eftir að Diderot lést. Öllu betra vegarnesti út í heiminn var varla hægt að hugsa sér, enda þótt verkið hafi nokkuð liðið fyrir þetta heimafyrir, því margir Frakkar tóku Diderot með varúð vegna þess að Þjóðverjar voru hrifnir af honum. En eintakið sem Goethe þýddi eftir hafði borist honum frá Pétursborg. Það var uppskrift af handriti sem dóttir Diderots, Angélique Vandeul, hafði sent Katrínu miklu Rússakeisara, verndara Diderots og vinkonu, ásamt fjölda annarra handrita að honum látnum. Þýskur hermaður, Klinger að nafni, hafði komist yfir uppskriftina og ákvað að reyna að koma henni í sem allra best verð. Þannig hlaut þetta „siðleysislega siðlega“ (eins og Goethe orðar það) verk þau örlög að því var komið á framfæri vegna þess að þessi tiltekni ungi maður var blankur. Árið 1798 lét Klinger útgefandann Knoch frá Riga hafa handritið, en honum tókst ekki að selja það og lét bróður Schillers hafa það árið 1801. Schiller fékk handritið í hendur, áttaði sig strax á því að hér var merkilegt efni á ferðinni og taldi Goethe á að þýða það árið 1804 í Leipzig. Goethe fékk brennandi áhuga á þessu verkefni og gaf ritið út árið 1805 undir titlinum: Rameaus Neffe, ein Dialog von Diderot. Það liðu síðan átján ár þar til verkið sá dagsins ljós á frönsku. Fyrsta franska útgáfan kom út árið 1821 og var þar um að ræða þýðingu De Saurs og Saint-Geniès á þýskri þýðingu Goethes. Árið 1823 gaf útgefandinn Brière textann út með leiðréttingum sem voru gerðar með hliðsjón af nokkuð „snurfusuðu“ handriti sem var í eigu Angélique Vandeul, dóttur Diderots. Árið 1875 gefa þeir Assézat og Tourneaux verkið út og byggja á áður óþekktu handriti. Síðan er verkið enn gefið út árið 1883 (Isambert) og 1884 (Tourneaux), en þær útgáfur eru báðar byggðar á handritinu sem Katrínu miklu var afhent árið 1785. Þá gerist það fyrir hreina tilviljun árið 1891 að grúskari nokkur, Georges Monval að nafni, er að gramsa í gömlum bókum og handritum á bökkum Signu, einkum í safni harmleikja sem höfðu verið í eigu La Rocehefoucauld-Liancourt greifa, og finnur þar handrit sem Diderot gekk frá með eigin hendi, það eina sem hann gekk sannanlega frá sjálfur. Monval birti það sama ár, eða 1891. Þar var eflaust á ferðinni handritið sem Diderot hafði falið Grimm vini sínum til varðveislu en Grimm tók það með sér heim til Gotha 1792 og þar var það geymt að honum látnum. Nú á tímum eru til fjölmargar afbragðsgóðar útgáfur með ítarlegum skýringum, bæði fræðilegar útgáfur og það sem stundum eru kallaðar „lesútgáfur“ til almenningsnota.

7

Hér er ekki rúm til að rekja nákvæmlega hið flókna hugmyndalega samhengi þessa verks, enda á það að standa fyrir sínu. Þó verður að telja nauðsynlegt að setja það í samhengi við þann tíma sem það er skrifað á, annars vegar heimspekilegt samhengi og hins vegar bókmenntalegt og listrænt samhengi, einkum með tilliti til þeirrar tónlistarumræðu sem átti sér stað í Frakklandi um og uppúr miðri 18. öld. Í henni kristallast þau menningarlegu og pólitísku tímamót sem voru skammt undan.

Form þessa verks er það sem á frönsku er kallað „un dialogue philosophique“ sem mætti þýða „heimspekileg samræða“. Heimspekileg samræða er vitaskuld eldforn hefð sem má rekja aftur til fornaldarinnar: sá sem veit fræðir þann sem ekki veit. Í þessari bók er það hins vegar ekki svona einfalt. Enda þótt þjóðfélagsleg staða „Mín“ og „Hans“ sé greinilega afmörkuð í upphafi kemur fljótlega í ljós að Frændinn veit sitt af hverju sem heimspekingurinn veit ekki. Frændinn er lífsreyndur og hefur kynnst fleiri hliðum mannlífsins en heimspekingurinn, en hann hefur hins vegar ekki nema takmarkaða hæfileika til að nýta þessa reynslu og þekkingu sér til framdráttar og á þess vegna allt sitt undir góðvild annarra og kenjum. En það kemur líka í ljós að hinn háttvirti heimspekingur hefur ekki alltaf notið jafn mikillar virðingar og veraldargengis og hann gerir þegar samtal þeirra á sér stað, og smám saman fara þeir að samsama sig hvor öðrum, nálgast það jafnvel að hafa hlutverkaskipti. Þannig bregður Diderot á leik með þetta hefðbundna form samræðunnar, til að það þjóni betur ætlunarverki hans, nefnilega því að skekja stoðir ríkjandi gildismats um háa og lága, visku og heimsku, þekkingu og fáfræði.

Diderot er ekki mjög kerfisbundinn hugsuður eins og ýmsir heimspekingar bæði á undan honum og eftir honum hafa verið. Hann er sífellt að leita, spyrja spurninga, stunda heimspeki, fílósófera, en hann hefur engan áhuga á því að búa til lokað og endanlegt heimspekikerfi. Þetta hefur stundum flækst fyrir mönnum og er eflaust ein ástæðan fyrir því að hann hefur ekki eignast eins marga „andlega afkomendur“9 og félagar hans, Voltaire og Rousseau. En þessi frjósama og ókerfisbundna leit hans kann einmitt líka að vera ástæðan fyrir því að hann hefur mjög sótt á í seinni tíð, enda er margt í hugsun hans „póstmódernískt“ eins og heimspekingurinn og leikritaskáldið Eric-Emmanuel Schmitt bendir á í bók sinni um heimspeki Diderots: „Diderot hugsar og hugsar sig um leið og hann hugsar.“10

8

Sígildi Frænda Rameaus felst meðal annars í því að verkið er merkileg heimild um miklar og heitar umræður um tónlist sem áttu sér stað í Frakklandi á þessum tíma, enda frændinn í bókinni frændi hins mikla Rameaus, þáverandi hirðtónskálds og áhrifamanns í tónlistarheiminum. Í stuttu máli snerist deilan um það hvort Frakkar ættu að hlusta á hefðbundna franska og að margra dómi allþunga tónlist eða léttari ítalska tónlist. Sjónarmiðin voru svipuð þeim sem þekkjast á ýmsum sviðum listarinnar enn í dag: annars vegar þjóðleg, gamaldags og dálítið þunglamaleg tónlist, hins vegar útlend, nútímalegri og léttari tónlist. Þessi umræða skiptir máli til skilnings á verkinu, þannig að hér verður stiklað á stóru lesendum til glöggvunar.

Árið 1752 hófust hinar svokölluðu Bouffonsdeilur, en þær spruttu af því að ítalskur leik- og söngvahópur sýndi Servar Padrona eftir Pergolesi11 í París. Sýningin olli því að hirðin skiptist í tvennt í afstöðu sinni, með konungi annars vegar og drottningu hins vegar. Rousseau, sem á þessum tíma hafði unnið mikinn sigur með óperunniLe Devin de village gagnrýndi mjög hina frönsku óperuhefð í Bréfi um tónlistina árið 1753 og eins var hann afar gagnrýninn í þeim greinum sem hann skrifaði um sama efni í Alfræðibókina. Þessi heita umræða risti mjög djúpt, stóð lengi og snerti marga.

Nú á tímum myndu menn kalla þetta þáverandi deilu um módernismann í listum, listræna umbyltingu og endurmat á öllum listgreinum, ekki bara tónlistinni. Á þessum tíma notar ljóðræni harmleikurinn einungis gömul og föst ljóðform og sækir mjög efnivið í fornar goðsögur, en gamanóperan hikar ekki við að fara nýjar leiðir, fást við önnur viðfangsefni og tekst þannig að spinna saman tónlist og söguþráð. Gamanóperan var vettvangur þar sem menn gátu gert tilraunir með sviðsetningar og prófað nýjar leiðir til að láta tónlist og texta hljóma saman, léttar aríur eða „aríettur“ eins og til dæmis í verkum tónskálds á borð við Dauvergne.12Tilfinningaþrungin og háleit atriði taka við af hástemmdum ljóðaflutningi. Í stað íburðarmikilla og flókinna uppsetninga á goðsögnum koma nú látlausari leiksýningar, gjarna nokkuð tilfinningaþrungnar, og gerast úti í sveit. Einkum kemst þessi tegund uppsetninga mjög í tísku uppúr 1760. Frændinn vitnar í tvær aríur af þessu tagi eftir Philidor.13 Gamanóperan notfærir sér það sem er að gerast í leiklist og skáldsagnaskrifum og sækir jafnvel efnivið sinn þangað.14 Þessar tilraunir til að semja tónlist út frá leikritum og skáldsögum voru Diderot mjög að skapi, en í leikritum sínum var hann einmitt að reyna að vinna gegn harmleikjunum og klassísku óperunni, reyna að búa til nýtt og ferskara listform fyrir svið, form sem stundum hefur verið kallað „borgaralegt drama“. Það þykir heldur hallærislegt nú til dags og er nánast aldrei sett á svið, en er engu að síður merkilegur kafli í þróunarsögu leikhússins. Brúðkaup Fígarós eftir Mozart er sennilega besta dæmið um frábært listaverk sem sprottið er upp úr þessari hugmyndadeiglu, þeirri viðleitni manna að flétta betur saman söguþráð og tónlist en áður þótti nauðsynlegt.

Framlag Diderots til rannsókna á sviði tónlistar eins og það endurspeglast íFrænda Rameaus og víðar er stórmerkilegt, vegna þess að þar birtast bæði hans eigin hugmyndir um tónlist og þar er að finna samantekt um þær djúpstæðu breytingar sem eiga sér stað í listum á þessum tíma, ekki síst í tónlist.

9

Í samfélagi sem ekki er eins fullkomið og það heldur sig vera getur rödd sérviskunnar jafnframt verið rödd viskunnar. Með því að gefa Frændanum orðið er Diderot að leyfa þessari rödd að hljóma, jafnvel þótt hann slái ýmsa varnagla og mótmæli orðum hans oft kröftuglega. Þessi aðferð hefur síðan verið notuð víða, t.d. hjá Dostojevskí í verkum eins og Fávitanum. Í þessu sambandi má minna á orð Halldórs Laxness um „ofvaxin persónueinkenni“ í íslenskum og rússneskum bókmenntum, en hann segir á einum stað í Gerska ævintýrinu: „Ofvöxtur persónueinkenna á sér paradís í hálfsiðun þjóða. Hjá okkur íslendíngum, sem stöndum um mart á siðmenníngarstigi rússa, eru ofvaxin persónueinkenni næsta algeing, og eignast ekki síður en með rússum blífanlegan samastað í listum, að minstakosti bókmentum. Í löndum þar sem siðmenníng er mjög almenn og tiltölulega jafn-útbreidd, ósjaldan á kostnað sjálfrar menníngarinnar, verða menn hver öðrum líkir og ofvaxin persónueinkenni sjaldgæf svo almenníngur lítur ósjálfrátt á slíkar manngerðir sem kleppsmat og stendur stuggur af þeim. Siðmenníng hefur ekki rúm fyrir hina ópkendu, ofstækisfullu áherslu sem einstaklíngur frumstæðs þjóðfélags leggur í persónu sína, orð og gerðir.“15

Ég held að Diderot hefði getað tekið undir þessi orð hins íslenska skáldbróður síns, og hann er raunar á svipuðum slóðum í innganginum þegar hann segir um sérvitringana í París:

Þeir stöðva mig einu sinni á ári, þegar ég hitti þá, vegna þess að skaplyndi þeirra er gerólíkt annarra og þeir rjúfa þá niðurdrepandi einhæfni sem er til komin vegna menntunar okkar, siðvenja og almennrar kurteisi. Komi einhver þeirra inn í hóp fólks, þá er hann eins og ögn af geri sem gerjast og hleypir nýju lífi í hluta af því sem honum er eiginlegt. Hann hristir, hann skekur; hann fær menn til að samþykkja eða formæla, leiðir sannleikann í ljós, bendir á góðmennin, afhjúpar afstyrmin og þá fer hinn skynsami maður að hlusta og reyna að skilja heim hans.

Ofvaxnar persónur eins og Frændi Rameaus falla þannig ekki að þeirri siðmenningu sem Diderot gagnrýnir. Slíkt fólk er ekki nógu slægt og grimmt til að spjara sig í þessu umhverfi og verður því undir, lendir utan garðs.

Frænda Rameaus má því skilja sem lofgjörð til þess að vera öðruvísi, vera sérstakur, óvæntur. Margt hugsandi fólk virðist hafa æ meiri áhyggjur af því að hinn vestræni heimur sé að verða sífellt einsleitari, allir séu að verða steyptir í sama mótið, hugsi eins. Ef til vill er ótti fólks við þessa þróun ein skýringin á því hversu sígrænt þetta verk er enn þann dag í dag, enda hljómar rödd sérviskunnar þar í öllu sínu veldi.

Að lokum vil ég þakka þeim sem hafa lagt þessari þýðingu lið á einn eða annan hátt. Fyrst ber að nefna menningardeild franska sendiráðsins í Reykjavík, sem gerði mér kleift að dveljast hluta sumarsins 1998 í C.I.T.L. þýðingamiðstöðinni í Arles í Suður-Frakklandi, en einnig langar mig að þakka þeim Gunnari Ágúst Harðarsyni, Vilhjálmi Árnasyni og Merði Árnasyni fyrir gagnlegar ábendingar.

 

Reykjavík í mars 2000

 

Friðrik Rafnsson

 

Tilvísanir

1. Sjá Gargantúi og Pantagrúll í þýðingu Erlings E. Halldórssonar (Mál og menning, 1993).

2. Sjá Jakob forlagasinni og meistari hans eftir Denis Diderot. Friðrik Rafnsson þýddi (Mál og menning, 1996).

3. Hann samdi a.m.k. fimm önnur verk sem teljast vera heimspekileg samtöl og eru af svipuðum toga og Frændi Rameaus: Mystification, Le rêve d’Alembert, Entretien d’un père avec ses enfants, Supplément au voyage de Bougainville og Entretien d’un philosophe avec la maréchale de ***.

4. Skáldsögur hans, t.d. Jakob forlagasinni og meistari hans, eru að stórum hluta í formi samtala.

5. Sjá: Yoichi Sumi: Le Neveu de Rameau, caprices et logiques du jeu (Éditions France Tosho, Tókíó, 1975).

6. Raunar má geta þess að þegar þetta er skrifað eru þessi verk einu sem undirrituðum hefur tekist að finna í heild á Netinu.

7. Sjá nánar um þetta og fleira á merkum vef um 18. öldina: http://tornade.ere.umontreal.ca/~melancon/csecs.tdm.html

8. Þessi tilvitnun kemur fram í útgáfu Jean Fabre á Frænda Rameaus frá 1963.

9. Sjá: Eric-Emmanuel Schmitt: Diderot ou la philosophie de la séduction (Albin Michel, 1997). Þess má ennfremur geta að á árunum 1998–2000 sýndi Þjóðleikhúsið verk Schmitts Abel Snorko býr einn við miklar vinsældir. Auk þess hefur Schmitt skrifað leikrit um Diderot sem nefnist Le libertin.

10. Eric-Emmanuel Schmitt: Diderot ou la philosophie de la séduction (Albin Michel, 1997). „Diderot pense et se pense en pensant.“ (bls. 14).

11. Giovan Battista Pergolesi (1710–36) var ítalskt tónskáld.

12. Tvær óperur hans vöktu mesta athygli á þessum tíma: Le Devin de village (1752) og La Coquette corrigée (1753).

13. Maréchal-ferrant og Jardinier et son Seigneur.

14. L’École de la jeunesse eftir Duni (1761) er byggð á samnefndri sögu Lillo og Tom Jones (1761) eftir Philidor er byggð á samnefndri sögu Fieldings. Árið 1769 semur Monsigny verk upp úr Le Déserteur, skáldsögu eftir Louis-Sébastien Mercier, og þannig mætti lengi telja.

15. Halldór Laxness: Gerska ævintýrið. Minnisblöð (Önnur útgáfa, Helgafell, Reykjavík, 1983, bls. 162–163).

 

« Til baka