Ágískanir og afsannanir

eftir Karl R. Popper

Ágiskanir og afsannanir

 

Herra Turnbull hafði spáð fyrir um slæmar afleiðingar … og nú reyndi hann eftir megni að koma þeim í kring.

Anthony Trollope

I

 

Þegar mér barst í hendur listi yfir þátttakendur á þessu námskeiði, og ég áttaði mig á að mér væri ætlað að tala til félaga minna innan heimspekinnar, þótti mér, eftir augnabliks umhugsun og hik, líklegast að ykkur væri efst í huga að heyra mig fjalla um þau viðfangsefni sem ég hef sjálfur mestan áhuga á og um þær nýjungar sem ég þekki hvað best. Ég ákvað því að gera nokkuð sem ég hef aldrei gert áður: að gefa ykkur skýrslu um starf mitt í vísindaheimspeki allt frá árinu 1919 þegar ég hóf fyrst að kljást við spurninguna „Hvenær skyldi kenning teljast vísindaleg?“ eða „Er kostur á einhverju viðmiði sem ákvarðar gildi eða stöðu kenningar?

Spurningin sem ég glímdi við á þessum tíma var hvorki, „Hvenær er kenning sönn?“ né „Hvenær er kenning ásættanleg?“. Viðfangsefni mitt var af öðrum toga. Ég vildi greina vísindi frá gervivísindum; enda þótt ég gerði mér ljóst að vísindin væru oft á villigötum og að gervivísindi gætu rambað á sannleikann.

Vitanlega var mér kunnug vinsælasta lausnin á þessu viðfangsefni mínu: að hin empíríska aðferð skilji vísindi frá gervivísindum – eða „frumspeki“ –, sem er í eðli sínu aðleiðsla, þegar byggt er á athugun eða tilraun. En þetta þótti mér alls ekki fullnægjandi. Ég lagði viðfangsefni mitt gjarnan þannig fyrir að ég gerði greinarmun á réttnefndri empírískri aðferð og ó-empírískri aðferð eða gervi-empírískri aðferð – það er að segja, aðferð sem ekki stenst vísindaleg viðmið þótt hún styðjist við athuganir og tilraunir. Stjörnuspeki gæti verið dæmi um hið síðarnefnda. Hún býr yfir gríðarmiklu magni empírískra sannana sem byggja á athugunum – á stjörnuspákortum og ævisögum.

En úr því að það var ekki stjörnuspekin sem kveikti áhuga minn á viðfangsefninu, er kannski rétt að ég lýsi stuttlega andrúmsloftinu sem viðfangsefni mitt myndaðist í og þeim fordæmum sem hvöttu mig til að fást við það. Eftir hrun austuríska keisaradæmisins hafði átt sér stað bylting í Austurríki: byltingarkenndar hugmyndir og slagorð lágu í loftinu auk nýrra og oft á tíðum órakenndra kenninga. Afstæðiskenning Einsteins var líklega mikilvægust þeirra kenninga sem ég hafði mestan áhuga á. Auk hennar voru þrjár aðrar, sögukenning Marx, sálgreining Freuds og hin svokallaða „einstaklingssálarfræði“ Alfreds Adler.

Mikið var þvaðrað um þessar kenningar á meðal almennings, sérstaklega um afstæðishugtakið (eins og reyndar enn í dag), en ég var lánsamur í því hverjir kynntu þessar hugmyndir fyrir mér. Við vorum allir – þessi fámenni hópur stúdenta sem ég tilheyrði – uppveðraðir yfir niðurstöðum athugana Eddingtons á sólmyrkva, sem árið 1919 var fyrsta mikilvæga staðfestingin á sannleiksgildi afstæðiskenningar Einsteins. Þetta var stórkostleg reynsla fyrir okkur og hafði varanleg áhrif á þróun minnar eigin hugsunar.

Hinar þrjár kenningarnar sem ég nefndi voru einnig mikið ræddar á meðal stúdenta á þessum tíma. Ég komst raunar sjálfur í persónuleg kynni við Alfred Adler, og var honum raunar innan handar í þeim félagsstörfum sem hann ynnti af hendi á meðal barna og ungmenna í verkamannahverfum Vínar þar sem hann hafði komið á fót félagsráðgjafamiðstöðvum.

Það var að sumarlagi árið 1919 sem ég tók fyrst að finna til síaukinnar óánægju hjá sjálfum mér með þessar þrjár kenningar – sögukenningar Marx, sálgreininguna og einstaklingssálarfræðina, og ég fór að efast sífellt meir um réttmæti þess að flokka þær með vísindum. Í fyrstu var spurning mín einfaldlega á þessa leið, „hvað er athugavert við Marxisma, sálgreiningu og einstaklingssálarfræði? Í hverju eru þær svo frábrugðnar eðlisfræðikenningum, kenningum Newtons og einkum afstæðiskenningunni?“

Til að skerpa eilítið á þessum mun er rétt að ég nefni þá staðreynd að fáir okkar hefðu á þeim tíma sagst trúa því að afstæðiskenning Einsteins væri sönn. Þetta sýnir að það voru ekki efasemdir um hvort þessar þrjár kenningar væru sannarsem voru að angra mig, heldur eitthvað allt annað. Það var heldur ekki svo að ég teldi stærðfræðilega eðlisfræði nákvæmari en kenningar af félagsfræðilegum eða sálfræðilegum toga. Það voru því hvorki spurningar um sannleika né nákvæmni eða mælanleika sem leituðu á mig. Altént ekki þegar hér var komið sögu. Það var fremur að mér þóttu þessar þrjár kenningar eiga meira sammerkt með frumstæðum goðsögnum en vísindum þótt þær gæfu sig út fyrir að vera vísindalegar; að þær væru skyldari stjörnuspeki en stjörnufræði.

Ég komst að því að þeir vina minna sem dáðu Marx, Freud og Adler létu heillast af ákveðnum atriðum sem voru þessum þremur kenningum sameiginleg, einkum þeimútskýringarmætti sem þær virtust búa yfir. Þessar kenningar virtust geta skýrt nánast hvaðeina sem átti sér stað innan þess sviðs sem þær fengust við. Að fást við einhverja þessara kenninga virtist geta leitt til vitsmunalegra sinnaskipta eða opinberunar og opnað augu manns fyrir nýjum sannleika sem var hulinn þeim sem enn höfðu ekki verið innvígðir. En um leið og augu manns höfðu þannig verið opnuð blöstu hvarvetna við tilfelli sem staðfestu kenninguna: veröldin var full afstaðfestingum á kenningunni. Hvaðeina sem átti sér stað staðfesti hana. Sannleiksgildi hennar virtist því liggja í augum uppi, og þeir sem héldu á lofti efasemdum neituðu bersýnilega að sjá sannleikann sem hvarvetna blasti við þeim; þeir vildu ekki horfast í augu við hann vegna þess að það gekk gegn stéttarhagsmunum þeirra, eða vegna bælingar þeirra sjálfra sem hafði ekki verið „greind“ ennþá og kallaði á meðferð.

Sá þáttur sem mér sýndist einkenna þessa stöðu mála hvað mest var sá látlausi flaumur staðhæfinga og athugana sem áttu að „staðfesta“ viðkomandi kenningar, og lögðu talsmenn þeirra mikið upp úr þessu atriði. Marxistar opnuðu vart svo dagblað að ekki kæmu þeir á hverri síðu auga á sannanir fyrir mannkynssögutúlkunum sínum; ekki aðeins í fréttunum sjálfum, heldur einnig í framsetningu þeirra – sem gaf til kynna hvaða stétt blaðið var hliðhollt – og vitanlega fyrst og fremst í því sem það lét ósagt. Freudísku sálgreinendurnir lögðu ríka áherslu á að þeirra kenningar væru að jafnaði staðfestar í þeim „klínísku athugunum“ sem þeir stunduðu. Og það sem reið baggamuninn í tengslum við Adler var atvik sem ég varð sjálfur fyrir. Það var einhverju sinni árið 1919 að ég rakti fyrir honum tilfelli sem mér virtist ekki falla sérlega vel að hugmyndum hans. Það vafðist hins vegar ekki fyrir honum að greina það með hliðsjón af kenningu sinni um vanmetakenndina. Þetta gerði hann án þess að hafa svo mikið sem hitt barnið sem átti í hlut. Það kom nokkuð á mig og ég spurði hvernig hann gæti verið svona viss í sinni sök. „Þúsundföld reynsla mín segir mér það“, svaraði hann; og ég gat ekki annað en svarað á móti: „Sem að þessu nýja tilfelli meðtöldu er væntanlega þúsund-og-einföld.“

Það sem hvarflaði að mér var að fyrri uppgötvanir hans væru hugsanlega ekki betur ígrundaðar en þessi nýja; að hver og ein þeirra hefði verið túlkuð í ljósi „fyrri reynslu“, um leið og að vera álitin ný staðfesting. En á hverju er hún í raun staðfesting? spurði ég mig. Svar mitt var á þá lund að hún staðfesti eingöngu að sérhvert tilfelli mætti túlka í ljósi kenningarinnar. En þetta var lítils virði, þótti mér, þar eð öll hugsanleg tilvik mátti skýra með kenningum Adlers, ekki síður en með kenningum Freuds. Þetta má útskýra með tveimur ólíkum dæmum af mannlegri hegðan: annars vegar er dæmi um mann sem hrindir barni í sjóinn með það í huga að drekkja því; og hins vegar dæmi af manni sem fórnar lífi sínu til að bjarga því. Bæði dæmin verða jafn auðveldlega skýrð með hliðsjón af hugmyndum Freuds og Adlers. Samkvæmt Freud þjáðist maðurinn í fyrra dæminu af bælingu (á einhverjum þætti Ödípúsarkomplex síns, skulum við segja), en hinn síðari hafði öðlast göfgun. Samkvæmt Adler þjáðist fyrri maðurinn af vanmetakennd (sem kannski vakti hjá honum þörfina á að sanna með sjálfum sér að hann þyrði að drýgja glæp) og hið sama mætti segja um þann síðari (sem hafði þörf fyrir að sanna fyrir sjálfum sér að hann þyrði að bjarga barninu). Ég gat ekki ímyndað mér neitt dæmi um mannlega hegðun sem útilokað væri að túlka með hliðsjón af báðum þessum kenningum. Það var einmitt þessi staðreynd – að þær áttu ævinlega við, að þær voru alltaf staðfestar – sem í augum fylgjenda þessara kenninga myndaði helstu rökin fyrir þeim. Það hóf að renna upp fyrir mér að þessi meinti styrkleiki þeirra var í raun þeirra helsti veikleiki.

Allt öðru máli gegndi um kenningu Einsteins. Skoðum eitt dæmigert tilvik: forspá Einsteins, sem þá hafði nýlega verið staðfest með uppgötvunum úr leiðangri Eddingtons. Þyngdaraflskenning Einsteins hafði leitt til þeirrar niðurstöðu að ljós hlyti að dragast í átt að þungum efnismössum (eins og t.d. sólinni) á sama hátt og efnislegir hlutir. Af þessu mátti draga þá ályktun að ljós frá fjarlægri fastastjörnu sem sýndist staðsett nærri sólu myndi ná til jarðar úr átt sem gæfi til kynna að hún hefði fjarlægst sólina lítillega; eða, með öðrum orðum, að stjörnur sem staðsettar væru nærri sólinni myndu bæði sýnast hafa fjarlægst hana örlítið og hver aðra. Undir venjulegum kringumstæðum er ekki hægt að sjá þetta með berum augum því sterk birtan frá sólinni veldur því að við sjáum ekki þessar stjörnur að degi til; en það má ljósmynda þær í sólmyrkva. Ef síðan er tekin ljósmynd af sömu stjörnusamstæðu að nóttu til má bera saman fjarlægðarmælingar á báðum myndunum og sannreyna þannig kenninguna.

Þetta dæmi er glæsilegt vegna áhættunnar sem er fólgin í forspá af þessu tagi. Ef athugun leiðir í ljós að afleiðingin sem spáð hafði verið fyrir um lætur á sér standa hefur kenningin einfaldlega verið hrakin. Kenningin er þá ósamrýmanleg vissum mögulegum niðurstöðum athugana – niðurstöðum sem allir hefðu gengið að sem gefnum fyrir tíma Einsteins. Hér er um allt annars konar tilfelli að ræða en það sem ég lýsti áðan þegar viðkomandi kenningar reyndust samrýmanlegar allri hugsanlegri mannlegri breytni og því útilokað að ímynda sér nokkra mannlega athöfn sem ekki gæti talist staðfesting þeirra.

Þessar hugleiðingar leiddu til þess að veturinn 1919–20 komst ég að þeim niðurstöðum sem setja má fram með eftirfarandi hætti.

(1) Það er leikur einn að finna staðfestingar, eða sannanir, á hvaða kenningu sem vera skal – ef við leitum staðfestinga.

(2) Staðfestingar ber þá einungis að taka gildar að þær séu niðustöðuráhættusamrar forspár; það er að segja, að áður en við kynnumst kenningunni eigum við von á atburði sem er henni ósamrýmanlegur – atburði sem myndi hrekja kenninguna.

(3) Sérhver „góð“ vísindakenning felur í sér útilokun; hún leyfir ekki að ákveðnir hlutir gerist. Því meira sem kenning útilokar, þeim mun betri er hún.

(4) Kenning sem ekki er hægt að hrekja með neinum atburði er óvísindaleg. Óhrekjanleiki er ekki kostur á kenningu (eins og fólk heldur gjarnan) heldur löstur.

(5) Í hvert sinn sem kenning er prófuð er reynt að ógilda hana, eða hrekja hana. Að hægt sé að prófa kenningu þýðir að hægt sé að hrekja hana; sumar kenningar eru prófanlegri en aðrar, þær eru berskjaldaðri fyrir mótbárum; þær taka, svo að segja, meiri áhættu.

(6) Sannanir ber ekki að taka gildar nema þær séu niðurstöður ósvikinnar prófunar á kennnigunni; hér er átt við að um ákveðna en misheppnaða tilraun til að ógilda kenninguna sé að ræða. (Hér á ég við þau tilfelli þegar „sönnun er staðfesting“.)

(7) Sumum þeirra kenninga sem með réttu geta talist prófanlegar er haldið á lofti af aðdáendum þeirra þótt þær hafi verið afsannaðar –, til dæmis með því að draga inn einhverjar hjálparforsendur eftir á, eða með því að túlka kenninguna upp á nýtt þannig að afsönnunin bítur ekki á hana. Slíkt er ætíð mögulegt, en það bjargar kenningunni frá ógildingu einungis með því að eyðileggja eða draga úr vísindalegu gildi hennar. (Síðar nefndi ég slíkar björgunaraðgerðir vildarhyggju-viðsnúning eða vildarhyggjuherkænsku.)

Þetta má draga saman með því að segja að það sem ákvarði vísindalegt gildi kenningar sé hversu opin hún er fyrir ógildingu, það er að segja, hrekjanleiki hennar eða prófanleiki.

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *