John Rawls (1921–2002)

eftir Þorstein Gylfason

John Rawls
– 21sta febrúar 1921–24ða nóvember 2002

Fyrir Fréttaspegil Ríkisútvarpsins föstudagskvöldið 28da nóvember 2002

John Rawls varði starfsævi sinni til að hugsa og skrifa um þjóðfélagslegt réttlæti. Hann varð frægasti stjórnspekingur tuttugustu aldar, einkum fyrir bók sínaKenningu um réttlæti sem kom út 1971. Jafnframt kenndi hann í Harvardháskóla, og hætti því 74 ára 1995 er heilsa hans brast. Eftir það gaf hann út tvær bækur. Hann var hógvær og hlédrægur maður. Hann veitti fjölmiðlum ekki viðtöl. Hann þáði helzt aldrei neinn sóma sem kallaði á sviðsljós.

Kenning um réttlæti var skrifuð á árunum 1960–1970. Þá var háð römm barátta fyrir þegnréttindum blökkumanna vestan hafs, og önnur rammari gegn styrjöldinni í Víetnam. En Rawls blandaði sér ekki í eiginleg stjórnmál. Réttlætiskenning hans átti að höfða til allra manna, hvernig sem þá greindi á, og hún átti að henta margvíslegu þjóðskipulagi. Rawls vildi rekja frumskilyrði þess að hvaða mannlegt samfélag sem er geti heitið réttlátt samfélag.

Í Kenningu um réttlæti segir Rawls:

Réttlæti er höfuðkostur á stofnunum samfélags, eins og sannleikurinn er á kenningum. Það er sama hversu fögur og nýtileg kenning er: ef hún er ósönn verður að breyta henni eða hafna. Eins er um stjórnarskrár og stofnanir. Það er sama hversu haganlega þeim er fyrir komið, og hversu gagnlegar þær eru: ef þær eru ranglátar verður að breyta þeim eða bylta.1

En þá spyrjum við hvað réttlæti sé. Rawls telur það fólgið annars vegar í ýtrustu mannrétttindum, sem hann skýrði og varði með máttugri rökum en áður höfðu sézt, og hins vegar í jöfnuði.

Rawls orðar jafnaðarlögmál sitt á þessa leið:

Öll frumgæði mannlegs samfélags – frelsi og tækifæri, tekjur og auður og forsendur sjálfsvirðingar – eiga að skiptast jafnt á fólk nema því aðeins að ójöfn skipting einhverra eða allra þessara gæða sé þeim til hagsbóta sem verst eru settir.2

Galdurinn í bók Rawls er sá að þar reynir hann að sanna þetta jafnaðarlögmál með ströngum rökum. Sum af þessum rökum eru háfræðileg, og fræðimenn þreytast ekki á að fara í saumana á þeim. En önnur eru reist á heilbrigðri skynsemi einni saman. Ég get reynt að vekja hugboð um þau.

Lögmálið þýðir meðal annars, segir Rawls, að í menntamálum stefni réttlátt samfélag að því að bæta horfur slakasta námsfólksins sem mest.3 Við eigum aðeins að verja meira fé og fyrirhöfn í menntun bezta námsfólksins en í menntun hinna ef það er leið að þessu marki. Þetta kemur heim við þá heilbrigðu skynsemi að munur á náttúrlegum hæfileikum, eða forréttindi sem fólk er fætt til, er óverðskuldaður mannamunur. Því sé sanngjarnt að bæta þeim það upp sem fara illa út úr því happdrætti.

Eftir jafnaðarlögmálinu skipta hagsmunir hinna verst stöddu einir máli fyrir réttlætið. Segjum að hóparnir séu bara tveir, hæfileikafólk og hæfileikalaust. Kjör þeirra verða óhjákvæmilega ójöfn. Þá segir Rawls: Skipuleg samvinna hópanna er bersýnilega skilyrði þess að hvor þeirra um sig lifi bærilegu lífi í einu samfélagi. Báðir þurfa á hinum að halda. En við getum ekki ætlast til að allir taki þátt í þessari samvinnu nema skilmálarnir séu sanngjarnir. Af þessum ástæðum ætti hæfileikafólkið, ef það er skynsamt, að sætta sig við að allt sem það ber úr býtum umfram hina afskiptu ráðist af einum saman hag hinna afskiptu af þeim ójöfnuði.

Það eru engin þjóðfélög réttlát á byggðu bóli. Þess vegna verður að breyta þeim eða bylta.

 

Tilvísanir

1. A Theory of Justice, endurskoðuð útgáfa, Harvard University Press, Cambridge, Massachusetts 1999, §1, 3.

2. A Theory of Justice, fyrsta útgáfa, Clarendon Press, Oxford 1971, §46, 303.

3. A Theory of Justice, endurskoðuð útgáfa, §17, 86–89.

 

« Til baka

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *